Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 422  —  281. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Örlygs Hnefils Jónssonar um fjölgun, vistun og flutning opinberra starfa og stofnana.

    Iðnaðarráðuneytið leitaði svara við fyrirspurn þessari hjá stofnunum sínum, sem eru Byggðastofnun, Einkaleyfastofa, Iðntæknistofnun Íslands, Orkustofnun, Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og Rafmagnsveitur ríkisins. Rafmagnseftirlit ríkisins var í árslok 1996 sameinað Löggildingarstofunni, sbr. lög um Löggildingarstofu, nr. 155/1996, og Byggðastofnun var í ársbyrjun 2000 flutt frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Upplýsingar um Byggðastofnun fyrir öll árin tíu eru teknar með í þessu svari.

     1.      Hver var fjölgun starfa á vegum ráðuneytisins árin 1991–2000 og hvernig skiptust störfin milli höfuðborgar og landsbyggðar?

Störf á vegum ráðuneytisins 1991–2000.



Heiti

Ársverk 1991

Ársverk 2000
Fjölgun eða fækkun
Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa, Reykjavík *
15,7 15,6 /
Byggðastofnun, aðalskrifstofa, Reykjavík
23,5 14 -9,5
Byggðastofnun, Akureyri
4 0 -4
Byggðastofnun, Ísafirði
1,5 0 - 1,5
Byggðastofnun, Egilsstöðum
1 0 -1
Byggðastofnun, Sauðárkróki
0 7,5 +7,5
Einkaleyfastofa, aðalskrifstofa, Reykjavík
7 19 +12
Iðntæknistofnun, Reykjavík
68,4 63,5 -4,9
Orkustofnun, Reykjavík **
89 96,5 +7,5
Orkustofnun, Akureyri
0 2 +2
Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Reykjavík
46,4 42,8 -3,6
Rarik, Reykjavík ***
87 starfsmenn 55 starfsmenn -32
82 stöðugildi 54 stöðugildi -28
Rarik, Vesturlandi
34 starfsmenn 32 starfsmenn - 2
31,5 stöðugildi 30,5 stöðugildi -1
Rarik, Norðurlandi vestra
27 starfsmenn 27 starfsmenn
25,5 stöðugildi 26,5 stöðugildi +1
Rarik, Norðurlandi eystra ****
33 starfsmenn 28 starfsmenn -5
33 stöðugildi 28 stöðugildi -5
Rarik, Austurlandi ****
60 starfsmenn 50 starfsmenn -10
58,5 stöðugildi 48 stöðugildi -10,5
Rarik, Suðurlandi ****
30 starfsmenn 25 starfsmenn - 10
27,5 stöðugildi 25 stöðugildi -2,5
* Samkvæmt heimildum frá Ríkisbókhaldi. Hafa þarf í huga að iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti hafa verið rekin sem ein rekstrareining þennan tíma. Í viðskiptaráðuneytinu voru um 12 ársverk árin 1999 og 2000 en þau eru ekki innifalin í uppgefinni tölu enda ekki spurt um það.
** Hjá Orkustofnun eru ekki talin fram ársverk sem tengjast nefndarstörfum vegna Jarðhitaleitarátaksins og rammaáætlunarinnar og ekki eru heldur talin fram ársverk ræstingafólks og gæslumanna Vatnamælinga víðs vegar um land. Orkustofnun telur að ársverk við ræstingar séu um þrjú, störf gæslumanna jafngildi um einu ársverki og nefndarlaun Jarðhitaleitarátaksins tæplega einu.
*** Hjá Rafmagnsveitum ríkisins (Rarik) liggur ekki fyrir fjöldi ársverka, þess vegna er hér gefinn upp fjöldi starfsmanna og stöðugilda.
**** Í Grímsey, Borgarfirði eystra og Vík í Mýrdal hefur fækkun í störfum hjá Rarik að hluta til verið mætt með samningum við verktaka. Starfshlutfall þessara samninga nemur u.þ.b. 1,5 stöðugildum alls.

    Eins og að framan greinir var Rafmagnseftirlit ríkisins lagt niður í árslok 1996 og tóku faggiltar skoðunarstofur við hluta af starfsemi þess en meginhluti starfseminnar var felldur undir Löggildingarstofu. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisbókhaldi voru unnin 27,5 ársverk hjá Rafmagnseftirlitinu árið 1991 en 11,4 seinasta starfsárið, 1996. Á Akureyri og á Austurlandi var einn starfsmaður á hvorum stað, a.m.k. hluta tímabilsins.

     2.      Hvaða nýju stofnanir voru vistaðar á vegum ráðuneytisins á landsbyggðinni árin 1991– 2000 og hvar?

    Engar nýjar stofnanir voru vistaðar á landsbyggðinni á tímabilinu. Byggðastofnun tók til starfa á Sauðárkróki um mitt ár 2001, sem er utan þessa tímabils. Ýmsar tilfærslur í mannahaldi stofnana milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar urðu engu að síður á tímabilinu, m.a. vegna þess að þær vildu kanna rekstrargrundvöll fyrir starfsemi á landsbyggðinni. Eftirfarandi eru meginatriði breytinga á mannahaldi af þessum orsökum frá 1991:
     Byggðastofnun opnaði árið 1993 skrifstofu á Sauðárkróki. Henni var lokað árið 1998 ásamt skrifstofunum á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum. Hjá þessum skrifstofum voru 8–9 stöðugildi. Árið 1998 var þróunarsvið Byggðastofnunar lagt niður í Reykjavík og starfsemi þess flutt til Sauðárkróks. Árið 2000 voru sjö og hálft stöðugildi á þróunarsviðinu á Sauðárkróki og átta ársverk unnin þar.
     Iðntæknistofnun hafði starfsmann á Akureyri í rúmlega þrjú ár, frá 1. ágúst 1993 til 1. september 1996 og síðar um eins og hálfs árs skeið, frá 1. maí 2001 til 1. nóvember 2002. Á Ísafirði var starfsmaður á vegum Iðntæknistofnunar frá 1. september 2000 til 1. febrúar 2002.
     Útibú Rannsóknasviðs Orkustofnunar var stofnað á Akureyri árið 1999 og hafa tveir menn starfað þar síðan.

     3.      Hvað hafa fylgt þessum stofnunum mörg ný störf, hvar eru þau vistuð og hvernig skiptast þau milli einstakra kaupstaða og sýslna?

    Sjá svar við 2. tölulið fyrirspurnarinnar, en til viðbótar er þess að geta varðandi Byggðastofnun að þegar mest umsvif voru á tímabilinu 1993–1998 voru fjögur stöðugildi á Akureyri, tvö og hálft stöðugildi á Ísafirði, tvö stöðugildi á Egilsstöðum og eitt á Sauðárkróki.

     4.      Hvaða stofnanir voru fluttar á vegum ráðuneytisins frá höfuðborginni til landsbyggðar árin 1991–2000 og hvert?
     5.      Hvað hafa fylgt þessum stofnunum mörg störf, hvar eru þau vistuð og hvernig skiptast þau milli einstakra kaupstaða og sýslna?

    Engar stofnanir voru fluttar frá höfuðborginni til landsbyggðarinnar á umræddu tímabili.