Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 449  —  66. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir 47 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 3.269 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 38,2 m.kr.
101    Embætti forseta Íslands.
         1.01 Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 5,2 m.kr. hækkun á fjárveitingu til embættisins til að mæta kostnaði við óhjákvæmilega endurskipulagningu starfsmannamála á Bessastöðum og starfslokasamninga sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins.
201    Alþingi.
        6.21 Fasteignir. Lagt er til að veitt verði 13 m.kr. framlag vegna kostnaðar við að ljúka breytingum á vesturhluta 1. hæðar Alþingishússins sem tengjast opnun þjónustuskála Alþingis.
205    Framkvæmdir á Alþingisreit.
        6.50 Nýbygging. Lögð er til 20 m.kr. fjárveiting vegna kostnaðar við lokaáfanga framkvæmdar við byggingu þjónustuskála Alþingis.

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 21,4 m.kr.
101    Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn. Lögð er til 11,4 m.kr. hækkun á fjárheimildum skrifstofunnar og er hún tvíþætt. Gerð er tillaga um 8,8 m.kr. fjárveitingu vegna kostnaðar við opinbera heimsókn forsætisráðherra Víetnams til landsins í haust. Kostnaðurinn er nokkuð hærri en í hefðbundinni heimsókn vegna fjölmenns fylgdarliðs og þar sem gistikostnaður fylgdarliðs er greiddur í þessu sérstaka tilfelli. Aðrir kostnaðarliðir eru akstur, risna og móttaka, leiga á þyrlu auk annars rekstrarkostnaðar. Við fjárlagagerð fyrir árið 2002 lá ekki fyrir að forsætisráðherra Víetnams kæmi í heimsókn á árinu og því var ekki sérstaklega gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárlögum ársins.
             Þá er lögð til 2,6 m.kr. fjárveiting vegna kostnaðar Flugleiða hf. af endurgreiðslu flugfargjalda til félagsmanna Falun Gong og lögfræðikostnaðar sem tengist opinberri heimsókn forseta Kína til landsins í sumar.
190    Ýmis verkefni.
        1.91 Til stjórnmálaflokka með hliðsjón af nýrri kjördæmaskipan og breyttum aðstæðum þingmanna af þeim sökum. Lögð er til 10 m.kr. hækkun á framlagi til stjórnmálaflokka í ljósi breyttra aðstæðna eftir stækkun kjördæma.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 203,8 m.kr.
205    Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.
        1.01 Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 er lagt til að veittar verði 15 m.kr. til stofnunarinnar vegna undirbúnings á sýningu á handritum Árna Magnússonar í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni af 30 ára afmæli stofnunarinnar. Sýningin hefur þegar verið opnuð og er því óskað eftir að umrædd fjárveiting verði veitt í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár fremur en í fjárlögum fyrir árið 2003.
299    Háskóla- og rannsóknastarfsemi.
        1.91 Háskólar, óskipt. Gerð er tillaga um 80 m.kr. aukafjárveitingu vegna nemendafjölgunar. Á grundvelli upplýsinga frá háskólum má ætla að fjöldi nemenda verði meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 2002. Mest er fjölgunin í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík. Um er að ræða nemendafjölgun umfram hámarksákvæði í samningum við skólana.
319    Framhaldsskólar, almennt.
        1.34 Myndlistarskólinn í Reykjavík. Lagt er til að skólinn fái 4,8 m.kr. fjárveitingu vegna kostnaðar við rekstur fornámsdeildar og til framkvæmda sem tengjast öryggi í skólahúsnæðinu.
        1.90 Framhaldsskólar, óskipt. Gerð er tillaga um 40 m.kr. aukafjárveitingu vegna óvissu um fjölda nemenda í framhaldsskólum. Það samsvarar framlagi fyrir um það bil 80 ársnemendur og yrði þá áætlað fyrir framlagi vegna alls 15.304 ársnemenda á árinu 2002. Forsendur fjárlaga fyrir árið 2002 gera ráð fyrir 15.224 ársnemendum í framhaldsskólum, auk nemenda í hússtjórnarskólum. Úrvinnsla úr nemendaskrám skólanna bendir til þess að á vorönn 2002 hafi þar verið 7.507 ársnemendur. Bráðabirgðatölur benda til þess að nemendur í dagskóla sömu skóla verði 17.700 á haustönn 2002 samanborið við liðlega 16.700 nemendur haustið 2001 samkvæmt endanlegum tölum nemendaskrár Hagstofu Íslands. Óvíst er um endanlegan fjölda og virkni nemenda í náminu, en bráðabirgðatölurnar benda til þess að ársnemendur gætu orðið heldur fleiri en miðað er við í fjárlögum.
919    Söfn, ýmis framlög.
        1.11 Nýlistasafn. Gerð er tillaga um að veita Nýlistasafninu sérstaka 10 m.kr. aukafjárveitingu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu safnsins.
        1.90 Söfn, ýmis framlög. Lagt er til að liðurinn hækki um 14,1 m.kr. en sundurliðun er sýnd í breytingartillögu meiri hlutans.
969    Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        6.21 Endurbótasjóður menningarstofnana. Í lokafjárlögum fyrir árið 1998 var felld niður 30,9 m.kr. ónotuð fjárheimild Endurbótasjóðs í árslok 1998. Við nánari skoðun á málinu hefur komið í ljós að heimildin átti að flytjast á milli ára og er því farið fram á viðbótarfjárheimild sem því nemur.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands.
        1.01 Sinfóníuhljómsveit Íslands. Gerð er tillaga um 4 m.kr. aukafjárveitingu til þess að koma til móts við útgjöld sem leiða af dómi Félagsdóms frá 26. júní sl. í máli Félags íslenskra hljóðfæraleikara gegn Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitin áætlar að dómurinn leiði til 8,4 m.kr. aukinna útgjalda og er miðað við að aðrir rekstraraðilar og hljómsveitin sjálf leggi til það sem á vantar.
983    Ýmis fræðistörf.
        1.10 Fræðistörf. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 5 m.kr. fjárveitingu á lið 02-999-1.90 Ýmis framlög vegna halla fyrri ára á útgáfu Fransk-íslenskrar orðabókar. Lagt er til að framlagið verði fært yfir á fjárlagalið 02-983-1.10 Ýmis fræðistörf þar sem útgjöldin eru bókfærð.
989    Ýmis íþróttamál.
        1.24 Frjálsíþróttavöllur á Ísafirði, landsmót ungmennafélaga 2004. Lagt er til að heiti liðarins breytist og verði Frjálsíþróttavöllur á Sauðárkróki, landsmót ungmennafélaga 2004. Hætt var við að halda landsmót á Ísafirði og ákveðið að halda það í Skagafirði.
999    Ýmislegt.
        1.90 Ýmis framlög. Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. aukafjárveiting vegna ýmissa styrkja sem ráðuneytið úthlutar. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir 5 m.kr. fjárveitingu á liðnum vegna halla fyrri ára á útgáfu Fransk-íslenskrar orðabókar. Lagt er til að framlagið verði fært yfir á fjárlagalið 02-983-1.10 Ýmis fræðistörf þar sem útgjöldin eru bókfærð. Heildarfjárveiting á liðnum breytist því ekki.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 66 m.kr.
801    Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu.
        1.01 Beinar greiðslur til bænda. Lagt er til að beinar greiðslur vegna mjólkurframleiðslu hækki um 63,6 m.kr. Þar er í fyrsta lagi um að ræða uppgjör á árinu 2001. Í öðru lagi aukast framleiðsluheimildir í ár um tvær milljónir lítra frá 1. september. Í þriðja lagi hækka beingreiðslur í kjölfarið á 3,69% hækkun á verði til framleiðenda frá og með 1. nóvember 2002 samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar landbúnaðarvara.
        1.02 Lífeyrissjóður bænda. Lögð er til 2,4 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna lífeyrisiðgjalda af beinum greiðslum til kúabænda. Tillagan tekur mið af hækkun beingreiðslna vegna uppgjörs á árinu 2001 og aukinna framleiðsluheimilda og hækkunar á grundvallarverði mjólkur í haust.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 72,8 m.kr.
190    Ýmis verkefni.
        1.52 Alþjóðahafrannsóknir (ICES, NAFO, NEAFC, ICCAT). Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. framlag vegna þátttöku Íslendinga í Alþjóðatúnfiskráðinu, ICCAT, sem Ísland gerðist aðili að í október 2002 í samræmi við þingsályktun um aðild að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi sem samþykkt var á Alþingi 29. október sl. Þar af eru 2 m.kr. árlegt aðildargjald og 0,5 m.kr. vegna kostnaðar við fundarsetu.
        1.54 Alþjóðahvalveiðiráðið, IWC. Lagt er til að veitt verði 5,3 m.kr. framlag vegna þátttöku Íslendinga í Alþjóðahvalveiðiráðinu, IWC. Þar af er 4,8 m.kr. árlegt aðildargjald og 0,5 m.kr. vegna kostnaðar við fundarsetu.
202    Hafrannsóknastofnunin.
        5.31 Viðhald rannsóknaskipa. Gerð er tillaga um 65 m.kr. framlag til að ljúka viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Samtals er þá gert ráð fyrir 118 m.kr. fjárheimild á árinu til viðhalds á skipinu.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 216 m.kr.
210    Héraðsdómstólar.
        1.01 Héraðsdómstólar. Lagt er til að veitt verði 48,4 m.kr. framlag til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla héraðsdómstóla. Með sparnaðaraðgerðum og aðhaldi hefur tekist að aðlaga rekstur héraðsdómstóla núverandi fjárheimildum. Eftir stendur vandi fyrri ára en til að taka á honum þyrfti að koma til samdráttar í starfsmannahaldi. Er hér gerð tillaga um framlag til að mæta uppsafnaða hallanum svo að til þess þurfi ekki að koma.
232    Opinber réttaraðstoð.
        1.10 Opinber réttaraðstoð. Lögð er til 15 m.kr. hækkun á fjárveitingu vegna umframútgjalda við gjafsóknir. Málum hefur fjölgað verulega á síðustu árum og auk þess hefur meðaltalskostnaður hvers mál hækkað. Ekki er unnt að lækka útgjöldin nema með breyttum lögum sem takmarki rétt einstaklinga til gjafsókna. Útgjöld á síðasta ári reyndust vera um 75 m.kr. og ekki er ástæða til að ætla að útgjöldin verði lægri í ár. Fjárheimild þessa árs er 62,2 m.kr. og er áætlað að í árslok geti vantað um 15 m.kr. Staða á þessum lið er ávallt felld niður um áramót.
303    Ríkislögreglustjóri.
        1.01 Ríkislögreglustjóri. Gerð er tillaga um 23,6 m.kr. viðbótarframlag til að standa undir kostnaði við flutning fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar í Skógarhlíð. Heildarkostnaður við flutning fjarskiptamiðstöðvarinnar og Almannavarna verður 92,2 m.kr. samkvæmt mati Framkvæmdasýslu ríksins. Neyðarlínan hf., sem jafnframt flytur í nýja stjórnstöð í Skógarhlíð, ber 26,4 m.kr. af þessum kostnaði samkvæmt mati á kostnaðarskiptingu þessara aðila. Kostnaður við flutning á skrifstofu Almannavarna frá Seljavegi og stjórnstöðvar Almannavarna frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu og uppsetning skrifstofu og stjórnstöðvar í Skógarhlíðinni nemur 42,2 m.kr. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna flutningsins og uppsetningar á sameiginlegri stjórnstöð Almannavarna og stjórnstöðvar leitar og björgunar nemur því 65,8 m.kr.
321    Almannavarnir ríkisins.
         1.01 Almannavarnir ríkisins. Gerð er tillaga um 42,2 m.kr. viðbótarframlag til að standa undir kostnaði við flutning skrifstofu Almannavarna frá Seljavegi og stjórnstöðvar Almannavarna frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu og uppsetningu skrifstofu og stjórnstöðvar í Skógarhlíð. Heildarkostnaður við flutning Almannavarna og fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar í sama húsnæði verður 92,2 m.kr. samkvæmt mati Framkvæmdasýslu ríksins. Kostnaðurinn liggur m.a. í því að verið er að flytja til afar sérhæfða öryggisstarfsemi og umfangsmikið tölvukerfi og fjarskiptabúnað, auk þess sem fluttir eru saman á einn stað aðilar sem nú eru á þremur stöðum í Reykjavík. Reynt er til hins ýtrasta að nýta áfram búnað sem til staðar er í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og stjórnstöð Neyðarlínunnar en óhjákvæmilegt er að kaupa nýjan búnað að miklu leyti í ljósi þess að núverandi stjórnstöð Almannavarna í lögreglustöðinni við Hverfisgötu stenst á engan hátt nútímakröfur. Kostnaðurinn liggur meðal annars í neyðarsímsvörunarborðum, skjám, tölvum og símsvörunarborðum, uppfærslu á símstöð og aðlögun símkerfis, varaaflgjafa, upptökukerfi og fleiru, auk hefðbundins kostnaðar við flutning skrifstofustarfsemi. Í nýju stjórnstöðinni er fyrirhugað að reka, auk stjórnstöðvar Almannavarna, sameiginlega stjórnstöð fyrir alla aðila sem koma að leit og björgun í landinu.
398    Útlendingaeftirlitið.
        1.01 Útlendingaeftirlitið. Lagt er til að veitt verði 15,8 m.kr. fjárheimild til að flytja Útlendingastofnun í nýtt húsnæði í Skógarhlíð 6. Með breyttum lögum um stofnunina fjölgaði starfsmönnum og reyndist þá nauðsynlegt að huga að nýju húsnæði. Kostnaður sem til fellur er vegna endurbóta á nýja húsnæðinu, búnaðar o.fl.
501    Fangelsismálastofnun ríkisins.
        1.01 Fangelsismálastofnun ríkisins. Gerð er tillaga um 46 m.kr. framlag til að mæta uppsöfnuðum fjárhagshalla stofnunarinnar. Með 30,6 m.kr. framlagi sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu og aðgerðum innan ársins er talið að stofnuninni takist að halda sig innan heimilda þessa árs en ekki hefur verið unnt að vinna á fyrri halla. Ef stofnunin þyrfti að vinna upp hallann yrði nauðsynlegt að draga úr nýtingu á fangarými sem er til ráðstöfunar.
705    Kirkjumálasjóður.
        1.10 Kirkjumálasjóður. Gerð er tillaga um að veittur verði 25 m.kr. styrkur til Kirkjumálasjóðs til kaupa á húsnæði undir starfsemi Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Flutningur skólans í varanlegt húsnæði er mikilvægur fyrir allt starf hans en skólinn nýtist menningar- og kirkjustarfi um land allt.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 694,9 m.kr.
701    Málefni fatlaðra, Reykjavík.
        1.01 Almennur rekstur. Lögð er til 140 m.kr. hækkun á fjárveitingu vegna uppsafnaðs halla Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík. Ljóst er að þessi halli er svo mikill að ekki verður unnið á honum nema með umtalsverðum niðurskurði á þjónustu stofnunarinnar. Það er mat félagsmálaráðuneytisins að komist hafi verið fyrir viðvarandi halla á rekstri stofnunarinnar og að hún verði eftirleiðis innan ramma fjárlaga.
705    Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra.
        1.86 Samningur við Byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra. Lögð er til 13,1 m.kr. hækkun á fjárveitingu vegna samnings félagsmálaráðuneytisins og Byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlaða. Samningur þessi gildir frá 1. janúar 2002 til ársloka 2006.
706    Málefni fatlaðra, Norðurlandi eystra.
        1.86 Samningur við Akureyrarbæ um þjónustu við fatlaða. Lögð er til 49,8 m.kr. hækkun á fjárveitingu vegna samnings félagsmálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar um þjónustu við fatlaða. Samningur þessi gildir frá 1. janúar 2002 til ársloka 2006.
720    Skálatúnsheimilið, Mosfellsbæ.
        1.70 Vistheimilið Skálatúni. Lögð er til 15 m.kr. hækkun á framlagi til Skáltúns vegna rekstrarvanda heimilisins. Ástæða hans er einkum sú að þörf íbúa heimilisins fyrir þjónustu hefur aukist sem hefur haft í för með sér fjölgun starfsmanna og aukinn launakostnað. Farið er fram á samsvarandi hækkun í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003.
982    Ábyrgðasjóður launa.
        1.01 Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota. Gerð er tillaga um 75 m.kr. fjárveitingu til viðbótar við þær 300 m.kr. sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Endurskoðuð áætlun um greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa á árinu gerir ráð fyrir að þær nemi um 700 m.kr.
984    Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11 Atvinnuleysisbætur. Gerð er tillaga um 300 m.kr. fjárveitingu til viðbótar við þær 495 m.kr. sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Atvinnuleysi hefur aukist nokkuð síðastliðna mánuði og eru horfur á að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta verði meiri en fjárlög ársins gera ráð fyrir.
989    Fæðingarorlof.
        1.11 Fæðingarorlofssjóður. Lagt er til að veitt verði 200 m.kr. framlag til sjóðsins. Endurskoðuð áætlun hefur leitt í ljós að meðaltalsgreiðslur og fjöldi þeirra sem fá greitt úr sjóðnum er meiri en áætlað var. Á móti lækka framlög til foreldra utan vinnumarkaðar um 100 m.kr. vegna ofmats á þeim greiðslum.
        1.13 Foreldrar utan vinnumarkaðar. Lagt er til að fjárheimild vegna fæðingarorlofsgreiðslna til foreldra utan vinnumarkaðar lækki um 100 m.kr. Endurskoðuð áætlun um þróun útgjalda ársins 2002 hefur leitt í ljós að útgjöld vegna foreldra utan vinnumarkaðar eru ofmetin en útgjöld vegna Fæðingarorlofssjóðs eru vanmetin.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.31 Félagasamtök, styrkir. Gert er tillaga um 2 m.kr. framlag til Vímulausrar æsku til reksturs Foreldrahúss.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 1.907,9 m.kr.
204    Lífeyristryggingar.
        1.21 Tekjutrygging ellilífeyrisþega. Lögð er til 170 m.kr. lækkun á framlagi vegna tekjutryggingar ellilífeyrisþega í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld þessa árs.
206    Sjúkratryggingar.
        1.11 Lækniskostnaður. Lögð er til 60 m.kr. hækkun á framlagi til að mæta kostnaði við ambúlantrannsóknir sem sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar ávísa á og Tryggingastofnun greiðir fyrir.
        1.21 Hjálpartæki. Lögð er til 153 m.kr. aukafjárveiting til að mæta auknum útgjöldum vegna hjálpartækja. Auk þess er þegar gert ráð fyrir 47 m.kr. viðbótarfjárveitingu í frumvarpinu. Framlag í fjárlögum er 998 m.kr. en nú er talið að útgjöldin á árinu muni nema 1.198 m.kr. Útgjöld til þessa málaflokks hafa aukist mikið síðustu árin og virðist ekkert lát vera á því.
        1.45 Brýn meðferð erlendis. Lögð er til 100 m.kr. lækkun á framlagi vegna brýnnar meðferðar erlendis í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld ársins.
        1.51 Sjúkrakostnaður vegna veikinda og slysa erlendis. Lögð er til 20 m.kr. lækkun á framlagi til að mæta sjúkrakostnaði við veikindi og slys erlendis í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld ársins.
209    Sjúklingatryggingar.
        1.11 Sjúklingatryggingar. Lögð er til 60 m.kr. lækkun á framlagi til sjúklingatrygginga í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld á árinu. Þessi nýi bótaflokkur, sjúklingatryggingar, varð til með nýjum lögum sem tóku gildi 1. janúar 2001. Lögin kveða á um rétt sjúklinga sem orðið hafa fyrir slysi frá og með 1. janúar 2001. Lítið hefur reynt á þennan flokk enn þá þar sem oftast tekur langan tíma að fá niðurstöðu í slíkum málum. Útgjöld vegna slíkra mála birtast því enn sem útgjöld framfærslubóta slysatrygginga.
301    Landlæknir.
        1.01 Yfirstjórn. Lögð er til 23,6 m.kr. fjárveiting vegna flutnings embættisins í nýtt húsnæði sem fyrirhugaður er í desember á þessu ári. Þar af eru 3,6 m.kr. til að mæta kostnaði embættisins við leigu á hinu nýja húsnæði. Til að tryggja húsnæðið er það tekið á leigu frá september og vinnst þá tími til að gera nauðsynlegar breytingar. Gert er ráð fyrir 20 m.kr. til að mæta auknum útgjöldum embættisins við flutninginn, m.a. viðbótarinnréttingar á húsnæðinu sem eru utan leigusamnings, samtals að fjárhæð 7,5 m.kr., og kaup á skrifstofuhúsbúnaði, svo sem hillum, skápum, skrifborðum, innbrotaviðvörunarkerfi, viðverukerfi o.fl.
326    Sjónstöð Íslands.
        1.01 Sjónstöð Íslands. Lögð er til 3 m.kr. fjárveiting til að mæta sérstökum kostnaði við tölvuhjálpartæki fyrir blinda nemendur í framhaldsskólum.
373    Landspítali – háskólasjúkrahús.
        1.01 Landspítali – háskólasjúkrahús. Gerð er tillaga um 1.060 m.kr. aukafjárveitingu til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla Landspítala – háskólasjúkrahúss. Áætlað er að hallinn verði 2.660 m.kr. í árslok 2002. Í frumvarpinu er þegar gert ráð fyrir 1.200 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta hallanum. Þar af eru 90 m.kr. vegna greiðslna á uppsöfnuðum frítökurétti lækna í samræmi við ákvæði EES-samningsins um lágmarkshvíld. Að teknu tilliti til þeirrar aukafjárveitingar er áætlað að uppsafnaður rekstrarhalli spítalans verði 1.460 m.kr. Jafnan er við það miðað að heilbrigðisstofnanir geti borið með sér reikninga sem nema um tveimur til fjórum vikum í öðrum rekstrargjöldum en launum. Í tilviki stofnunarinnar er umfang slíkra reikninga að hámarki um 400 m.kr. Greiðsluhalli spítalans stefnir því að óbreyttu í um 1.060 m.kr. í árslok 2002.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.42 Kostnaður samkvæmt lögum um farsóttir, sóttvarnir og ónæmi. Farið er fram á 18 m.kr. hækkun á framlagi til að mæta útgjöldum við bólusetningu gegn meningókokkasjúkdómi. Í frumvarpinu hefur þegar verið lagt til 90 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við bólusetningarátakið. Embætti landlæknis hefur nú þegar lagt út 14 m.kr. vegna þess. Gert er ráð fyrir að notaðir verði 70 þúsund skammtar af bóluefni í ár. Skammturinn kostar 1.490 kr. og nemur því kostnaður við bóluefnið samtals 104,3 m.kr. Þá er beinn útlagður kostnaður landlæknisembættisins 3,7 m.kr. vegna útgáfu og útsendingar á upplýsingabæklingi sem gerður var til kynningar á málinu. Samtals vantar því 18 m.kr. til að mæta kostnaði við átakið í ár.
         1.55 Niðurgreiðsla hjálpartækja vegna heyrnar- og talmeina. Farið er fram á 20 m.kr. aukafjárveitingu til að greiða upp skuld Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands við Ríkiskaup. Kemur sú fjárheimild til viðbótar 20 m.kr. framlagi sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu og verður heimildin því samtals 40 m.kr.
         1.58 Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili. Gerð er tillaga um 7,5 m.kr. framlag til að styrkja rekstur Krýsuvíkurskóla.
         1.90 Ýmis framlög. Lögð er til 9,5 m.kr. hækkun á safnliðnum til að leysa brýn verkefni hjá ýmsum félagasamtökum á sviði heilbrigðismála.
495    Daggjaldastofnanir.
        1.53 Reykjalundur, Mosfellsbæ. Gerð er tillaga um 73,3 m.kr. fjárheimild til að bæta uppsafnaðan halla fyrri ára. Í gildi hefur verið þjónustusamningur við Reykjalund í tæp tvö ár. Reynslan af samningnum er talin góð, aukin áhersla hefur verið lögð á dag- og göngudeildarþjónustu. Á fyrsta ári samningsins fjölgaði inniliggjandi sjúklingum um 2% og 1.235 komur voru á þverfaglega göngudeild sem var hrein viðbót við fyrri afköst. Með hliðsjón af reynslu af þjónustusamningnum er lagt til að stofnuninni verði bættur uppsafnaður halli fyrri ára.
499    Hjúkrunarheimili.
        1.01 Almennur rekstur. Gerð er tillaga um 670 m.kr. fjárveitingu til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla öldrunarstofnana á árunum 2000–2002. Áætlað er að hann verði allt að 1.340 m.kr. í árslok 2002. Þar af er rekstrarhalli dagvistar- og hjúkrunarrýma um 550 m.kr. og rekstrarhalli dvalarrýma um 790 m.kr. Samkvæmt lögum greiðir ríkissjóður kostnað við rekstur hjúkrunarheimila og hluta af rekstri dvalarheimila með svonefndri dvalarheimilisuppbót sem er greidd af Tryggingastofnun ríkisins. Fyrirhugað er að koma til móts við uppsafnaðan halla þessara stofnana samkvæmt nánara samkomulagi og í samræmi við verkaskipti ríkis og sveitarfélaga. Í því sambandi þarf að skoða nánar hver ber ábyrgð á þeim hallarekstri sem myndast hefur. Í frumvarpinu er þegar gert ráð fyrir 460 m.kr. framlagi til greiðslu á rekstrarhalla dagvistar- og hjúkrunarheimila.
         6.21 Hjúkrunarheimili á Vífilsstöðum, Garðabæ. Lagt er til að ráðstafað verði 130 m.kr. til að gera nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Vífilsstaða og til kaupa á tækjum og búnaði. Fyrirhugað er að opna allt að 70 hjúkrunarrými á Vífilsstöðum á næsta ári og er það talin ein fljótvirkasta aðgerðin til að fjölga hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu.
500    Heilsugæslustöðvar, almennt.
        1.10 Heilsugæslustöðvar, almennt. Lagt er til að veitt verði 30 m.kr. óskipt framlag til að leysa ófyrirséð rekstrarútgjöld minni heilsugæslustöðva.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 39,5 m.kr.
981    Ýmsar fasteignir ríkissjóðs.
        6.25 Húsnæði ríkisskattstjóra, Laugavegi 166. Gerð er tillaga um 16,5 m.kr. fjárveitingu til þess að ljúka við bílastæði við húsnæði embættis ríkisskattstjóra á Laugavegi 166. Í frumvarpinu er þegar gert ráð fyrir að heimilað verði að ráðstafa til þessa verkefnis 26,5 m.kr. fjárveitingu sem veitt var til endurbóta á aðstöðu embættisins í fjárlögum ársins 2001. Áætlaður heildarkostnaður við gerð bílastæðanna er 43 m.kr.
999    Ýmislegt.
        1.14 Tryggingabætur samkvæmt kjarasamningum. Lögð er til 23 m.kr. hækkun á fjárheimild til að greiða tryggingabætur vegna flugstjóra hjá Landhelgisgæslunni í samræmi við kjarasamning flugmanna. Samkvæmt kjarasamningi ber að greiða flugstjórum um 25 m.kr. ef þeir missa flugstjórnarskírteini sitt í kjölfar veikinda og að undangengnu mati sérstakrar nefndar. Fjárhæðin í þessu máli nemur um 29 m.kr. að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Bótafjárhæðin hækkaði verulega í síðasta kjarasamningi og skýrir það og tilteknir skilmálar í tryggingum fyrir þessa starfsmenn Landhelgisgæslunnar að bætur frá tryggingafélagi stofnunarinnar munu ekki duga fyrir þessum útgjöldum nema að litlu leyti. Þessar tryggingar stofnunarinnar hafa nú verið endurnýjaðar þannig að þær ættu að bæta slík mál að fullu framvegis. Hér er um að ræða ófyrirséða eigin áhættu ríkissjóðs sem ekki er svigrúm til að mæta af árlegri fjárheimild þessa viðfangsefnis.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði óbreytt.
101    Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 4 m.kr. millifærslu af liðnum Íslenska upplýsingasamfélagið vegna mótframlags til verkefnis sem láðist að færa til baka í fjárlögum fyrir árið 2002 eftir að því var lokið.
996    Íslenska upplýsingasamfélagið.
        6.51 Íslenska upplýsingasamfélagið. Framangreind millifærsla á lið aðalskrifstofu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins lækkar þennan lið um 4 m.kr.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 8,5 m.kr.
205    Náttúruvernd ríkisins.
        1.10 Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. fjárveitingu vegna hækkunar á launum landvarða í samræmi við ákvæði EES-samningsins um lágmarkshvíld.
410    Veðurstofa Íslands.
        1.01 Almenn starfsemi. Lögð er til 7 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Veðurstofunnar. Þar af eru 5 m.kr. til að bæta Veðurstofunni upp tekjumissi af veðurþjónustu við innanlandsflug en tekjurnar urðu aðeins helmingur af því sem áætlað var í fjárlögum ársins 2000 og 2 m.kr. vegna kostnaðar við gerð deiliskipulags fyrir lóð Veðurstofunnar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 22. nóv. 2002.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kristján Pálsson.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Ásta Möller.