Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 454  —  393. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á safnalögum, nr. 106/2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Orðin „söfnum í eigu ríkisins og“ í 2. málsl. 3. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir orðinu „annast“ í 2. málsl. 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: söfnun, skrásetningu, varðveislu.

3. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Útgjöld vegna starfsemi safnaráðs greiðast úr safnasjóði.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til smávægilegar breytingar á safnalögum, nr. 106/2001.
    Í upphaflegu frumvarpi menntamálaráðherra til safnalaga, sem varð að lögum nr. 106/ 2001, var gert ráð fyrir því í 2. mgr. 2. gr. að í safnaráði sætu fulltrúar sem ekki hefðu nein tengsl við höfuðsöfn eða söfn í eigu ríkisins. Því safnaráði var m.a. ætlað að hafa eftirlit með söfnum í eigu ríkisins. Áður en frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi var gerð sú breyting að forstöðumenn höfuðsafna fengu sæti í safnaráði. Eftirlitshlutverki safnaráðs var ekki breytt til samræmis við það, en skv. 3. gr. safnalaga hefur ráðið m.a. eftirlit með söfnum í eigu ríkisins. Hér er lögð til sú breyting á 2. málsl. 3. gr. laganna að tilvísun til safna „í eigu ríkisins“ falli brott. Ástæðan er sú að forstöðumenn höfuðsafna, sem öll eru í eigu ríkisins, bera ábyrgð á starfsemi safna sinna gagnvart ráðherra í samræmi við lög sem um söfnin gilda og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Því er það í andstöðu við þá skipan að fela safnaráði sérstakt eftirlitshlutverk gagnvart höfuðsöfnunum.
    Í núgildandi lögum er ekki samræmi milli höfuðsafna hvað verkefni og verksvið snertir og er með 2. gr. frumvarpsins stuðlað að slíku samræmi. Einnig er hér tekið mið af skilgreiningu á söfnum skv. 4. gr. safnalaga og er nauðsynlegt að hún endurspeglist einnig í upptalningu á verkefnum höfuðsafnanna. Um hlutverk Listasafns Íslands er kveðið á í lögum nr. 58/1988 og miðast breytingartillagan einnig við þau. Rannsóknarþátturinn skv. 4. gr. safnalaga er þó ekki í upptalningu á hlutverki Náttúruminjasafns Íslands, til að hlutverk þess rekist ekki á við hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá nær breytingin einungis til gripa sem eru í eigu Náttúruminjasafns Íslands, en ekki til vísindasafna Náttúrufræðistofnunar Íslands eða starfsemi sem tengist þeim.
    Heimild vantar í núgildandi lög til að greiða útgjöld vegna starfsemi safnaráðs úr safnasjóði og því er lagt til í 3. gr. frumvarpsins að hún verði sett í lögin. Greiða þarf nefndarlaun, fargjöld fyrir ráðsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðis, þóknun vegna umsýslu og fleira.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á safnalögum, nr. 106/2001.

    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að safnaráð hafi ekki eftirlit með söfnum í eigu ríkisins heldur einungis ríkisstyrktum söfnum sem aðrir reka. Eftirlit með söfnum sem rekin eru af ríkinu og falla undir menntamálaráðuneytið færist við þetta að öllu leyti til ráðuneytisins og hefur breytingin því ekki áhrif á útgjöld ríkisins. Í öðru lagi er lagt til að upptalning á verkefnum höfuðsafna verði samræmd og gerð ítarlegri. Að mati fjármálaráðuneytisins er ekki um að ræða ný verkefni heldur nákvæmari upptalningu og þess vegna er talið að breytingin hafi ekki áhrif á útgjöld ríkisins. Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að tekið verði fram í lögum að kostnaður við starf safnaráðs greiðist úr safnasjóði. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjöld ríkisins, en gefur tilefni til að ákveða í fjárlögum hvernig útgjöld sjóðsins skiptist milli rekstrar og styrkja.
    Niðurstaða þessa kostnaðarmats er því sú að frumvarpið hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.