Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 471  —  398. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Gunnar Birgisson, Hjálmar Árnason, Vilhjálmur Egilsson,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ásta Möller, Drífa Hjartardóttir,
Einar Oddur Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Sigríður A. Þórðardóttir.


1. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Aðrir erfingjar en að framan greinir skulu greiða erfðafjárskatt sem nemur 5 af hundraði af arfi sem fellur til þeirra, svo og af arfshluta sem ráðstafað hefur verið til þeirra með erfðaskrá samkvæmt ákvæðum erfðalaga, nr. 8/1962.

3. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Af þeim réttindum sem lög þessi taka til skv. 1. gr. og afhent eru sem greiðsla til erfingja fyrir fram upp í arf skal greiða erfðafjárskatt sem nemur 5 af hundraði.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Er það nú flutt á ný óbreytt.
    Í frumvarpinu er lagt til að hætt verði að miða fjárhæð erfðafjárskatts við sifjatengsl erfingja og arfleiðanda og þess í stað lagður flatur 5% erfðafjárskattur á alla erfingja, hver sem sifjatengslin eru. Áfram er þó gert ráð fyrir að af arfi sem fellur til þess hjóna sem lifir hitt verði enginn erfðafjárskattur greiddur, svo og arfi sem fellur til kirkna, opinberra sjóða, líknar- og menningarstofnana eða félaga. Sama gildir um arf sem fellur til sambýlismaka samkvæmt arfleiðsluskrá, sbr. A-lið 2. gr. laga um erfðafjárskatt. Jafnframt er gert ráð fyrir að greiddur verði 5% erfðafjárskattur af fyrirframgreiddum arfi. Gert er ráð fyrir að með 5% erfðafjárskatti fáist nægjanlegt fé til að standa undir kostnaði af skiptum hvers dánarbús fyrir sig.


Prentað upp.


    Samkvæmt lögum um erfðafjárskatt greiða niðjar hins látna, kjörbörn, stjúpbörn eða fósturbörn eða niðjar þeirra erfðafjárskatt þannig að af fyrstu 140.000 kr. eru greiddir 5 af hundraði, af næstu 140.000 kr. 6 af hundraði og svo áfram þannig að skatturinn eykst um 1 af hundraði af hverjum 140.000 kr. sem arfur hækkar um, allt til þess að hann nær því að verða 10 af hundraði.
    Foreldrar hins látna eða niðjar þeirra greiða 15 af hundraði af fyrstu 140.000 kr., 17 af hundraði af næstu 140.000 kr. og svo áfram þannig að skatturinn eykst um 2 af hundraði af hverjum 140.000 kr. sem arfur hækkar um, allt til þess að hann nær því að verða 25 af hundraði.
    Afi eða amma hins látna eða börn þeirra eða fjarskyldari eða óskyldir aðilar skulu greiða 30 af hundraði af fyrstu 140.000 kr., 33 af hundraði af næstu 140.000 kr. og svo áfram þannig að skatturinn eykst um 3 af hundraði við hverjar 140.000 kr. sem arfur hækkar um, allt til þess að hann nær því að verða 45 af hundraði.
    Þær hámarkstölur sem nefndar eru hér að framan eiga einnig við um greiðslu fyrirframgreidds arfs eftir sifjatengslum.
    Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns um erfðafjárskatt á 125. löggjafarþingi (609. mál, þskj. 1171) kom fram að ríkissjóður hefði innheimt eftirfarandi upphæðir sem erfðafjárskatt á árunum 1990 1999:

Ár Kr.
1999 598.635.700
1998 523.077.489
1997 478.681.813
1996 460.064.441
1995 389.087.128
1994 407.543.848
1993 291.291.068
1992 272.093.675
1991 325.018.453
1990 234.226.392

    Með innheimtu erfðafjárskatts er skattlagning í raun tvöföld þar sem búið er að greiða skatt af þeim fjármunum og verðmætum sem erfast. Samkvæmt núgildandi lögum eru erfingjar látnir greiða mismikla skatta af arfinum.
    Mörgum dánarbúum er skipt á þann hátt að engir skattar eru greiddir. Með þessu frumvarpi mundi draga úr slíku og fólk greiddi þess í stað 5% skiptakostnað. Með frumvarpinu er jafnframt komið í veg fyrir að greiddur verði hár erfðafjárskattur af eign sem í raun er lítils virði, eins og gerst hefur í þeim tilvikum þar sem illseljanlegar eignir hafa fallið erfingjum í skaut.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að fjárhæð erfðafjárskatts ráðist af sifjatengslum erfingja við arfleiðanda.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lagður verði 5% erfðafjárskattur á alla þá sem taka arf eftir arfleiðanda, aðra en maka eða sambýlismaka og kirkjur, opinbera sjóði, líknar- og menningarstofnanir eða félög.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að erfðafjárskattur af fyrirframgreiddum arfi nemi 5%.