Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 474  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum hennar og meiri hluta fjárlaganefndar kemur skýrt fram stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Fram kemur hvernig ríkisstjórnin ætlar að afla tekna og tillögur hennar um það hvernig þeim skuli ráðstafað á einstaka málaflokka og verkefni. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað í heild má greina þann mun sem er á áherslum núverandi meiri hluta annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattakerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti. Til að ná slíku fram hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt áherslu á fjögur eftirfarandi atriði:
     1.      Að skattleysismörk fylgi launaþróun þannig að lágtekjufólki og lífeyrisþegum verði hlíft við óhóflegri skattheimtu.
     2.      Teknir verði upp stighækkandi skattar af launatekjum án þess að það feli í sér að heildarskattbyrði launafólks aukist.
     3.      Að fjármagnstekjur, þ.m.t. arðgreiðslur og söluhagnaður af hlutabréfum, umfram vexti af hóflegu sparifé verði skattlagðar til jafns við aðrar tekjur.
     4.      Að skattlagning á hreinan hagnað fyrirtækja taki mið af skattlagningu launatekna.
    Í skattastefnu ríkisstjórnarinnar er allt aðrar áherslur að finna. Þær birtast á skýran hátt í skattabreytingum síðasta árs þar sem skattar á fyrirtæki og hátekjufólk voru lækkaðir en tekjuskattur á almenna launþega ekki. Í þessu sambandi má enn fremur nefna að í tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2002 var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs yrðu 257,9 milljarðar kr. en nú er talið að heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2002 verði 263,6 milljarðar kr. eða 5,7 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hlutur einstaklinga í þessari tekjuaukningu ríkisins eru 4 milljarðar kr. eða rúm 70% af heildarhækkun tekna.
    Skattabreytingar ríkisstjórnarinnar síðasta vetur höfðu það sérstaklega að markmiði að ívilna fjármagnseigendum, hátekjufólki og stórfyrirtækjum. Tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 30% í 18%. Árið 2000 var tekjuskattur á hagnað fyrirtækja 9.679 millj. kr. eða 4,8% af heildarskatttekjum ríkissjóðs, en árið 2003 er hann áætlaður 5.250 millj. kr. eða um 2% af heildarskatttekjum. Skattur á arðgreiðslur og fjármagnstekjur er einungis 10% og nema tekjur ríkissjóðs af honum um 5 milljörðum kr. en hann hefur staðið tölulega í stað sl. þrjú ár. Enn fremur var sérstakur hátekjuskattur einstaklinga lækkaður úr 7% í 5%.
    Hér þarf að snúa algjörlega við blaði og koma á gerbreyttri skattastefnu sem hafi það að markmiði að jafna aðstæður og lífskjör í landinu. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldna eru fastar í fátæktargildru sem aðallega orsakast af lágum dagvinnulaunum, veikleikum og götum í velferðarkerfinu og ranglátri skattastefnu. Slíkt á ekki að líðast í þjóðfélagi sem kennir sig við velferð. Ljóst er að til þess að koma á umbótum í þessu efni þarf nýja ríkisstjórn með aðrar áherslur en sú sem nú situr.

Heilbrigðismál.
    Fjárhagsvandi heilbrigðiskerfisins er mikill og vaxandi þrátt fyrir þá staðreynd að reynt hafi verið að koma jafnvægi á rekstur heilbrigðisstofnana fyrir nokkrum árum. Í lok ársins 2001 var rekstur 22 heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir og var samanlagður vandi þeirra um 1,6 milljarðar kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreikningsins kemur enn fremur fram að rekstrarhalli Landspítala – háskólasjúkrahúss hafi verið 858 millj. kr. en samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2002 nemur fjárhagsvandi hans um 1,2 milljörðum kr. Ekkert hefur komið fram hjá ríkisstjórninni um hvers vegna fjárhagsvandi spítalans eykst sífellt. Ljóst má vera að heilbrigðiskerfið allt er í uppnámi og taka þarf heildstætt á málum þar sem öll stig heilbrigðisþjónustunnar verða endurskoðuð. Einnig hefur komum til sérfræðilækna sem fá greitt í gegnum Tryggingastofnun ríkisins fjölgað mikið, t.d. komu 291 þúsund sjúklingar til 342 sérfræðilækna í tæplega 460 þúsund skipti. Lög um heilbrigðisþjónustu endurspegla ekki þessa miklu starfsemi sjálfsætt starfandi sérfræðilækna.
    Þannig er ljóst að verulega sér á íslenska velferðarkerfinu eftir nær 12 ára ríkisstjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og síðan með Framsóknarflokknum. Brýnt er að hverfa af braut sífelldra kostnaðarhækkana sem bitna á almenningi og felast í komugjöldum, háu lyfjaverði og sjúklingasköttum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð varar enn fremur við allri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og telur að leggja beri höfuðáherslu á öfluga undirstöðuþjónustu, þ.e. heilsugæslu og forvarnir, og betri aðbúnað langveikra og aldraðra. Forðast ber að heilbrigðisþjónustan þróist í átt að tvöföldu kerfi með tilheyrandi mismunun og óheyrilegum kostnaði fyrir einstaklinga og þjóðarbúið í heild.

Menntamál.
    Í fjárlagafrumvarpinu er ekki tekið á vanda framhaldsskólanna sem var þegar í árslok 2001 orðinn mikill eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2001. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að fjárhagsendurskoðun hafi farið fram í öllum framhaldsskólum vegna ársins 2001 fyrir utan hússtjórnarskóla og þá skóla sem reknir eru sem sjálfeignarstofnanir. Í skýrslunni er enn fremur greint frá því að fjárheimildir framhaldsskólanna samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2001 hafi numið rúmum 5,5 milljörðum kr. en við þá upphæð bættist samtals liðlega 1,7 milljarðar kr. Strax í upphafi ársins 2001 höfðu framhaldsskólarnir ráðstafað 286,9 millj. kr. til útgjalda umfram heimildir. Þegar tekið hafði verið tillit til afkomu ársins höfðu framhaldsskólarnir ráðstafað liðlega 334,9 millj. kr. umfram heimildir. Menntaskólinn í Kópavogi sker sig nokkuð úr en hann hafði ráðstafað 162,7 millj. kr. umfram heimildir. Ef einungis fjárheimild ársins og útkoma ársins eru bornar saman kemur í ljós að halli varð á rekstri 14 framhaldsskóla á árinu 2001 og nam hann samtals 229,1 millj. kr. Af framangreindu má ljóst vera að grípa þarf til róttækra aðgerða enda er ekki hægt að halda áfram að reka framhaldsskóla með halla ár eftir ár. Ríkisstjórnin hefur horft fram hjá þessum vanda og ekki tekið mark á athugasemdum skólastjórnenda og kennara.
    Skólastjórnendur hafa gagnrýnt það reiknilíkan sem notað er til að ákvarða fjárveitingar til skólanna. Gagnrýnin hefur beinst að því að reiknilíkanið sé ekki nógu vel aðlagað mismunandi starfsemi þeirra. Framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa kvartað undan því að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til aukins kostnaðar vegna fjarlægðar skólanna frá höfuðborginni, þaðan sem vörur og þjónusta er keypt og fundir haldnir. Þá hafa verkmenntaskólar gagnrýnt að búnaður verknámsdeilda og tölvumála sé stórlega vanmetinn.
    Félag framhaldsskólakennara hefur einnig í ályktun gagnrýnt fjárlagafrumvarpið og fjárveitingar til framhaldsskólans. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram: „Fjárveitingum til framhaldsskólanna samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 er dreift eftir nýju reiknilíkani þannig að til þess að bæta fjárveitingar til einstakra framhaldsskóla þar sem þess er talin þörf er skorið fé af fjárveitingum til annarra framhaldsskóla sem þó eru alls ekki aflögufærir. Meginvandinn er því sá að ekki er aukið við heildarfjárveitingu til framhaldsskólastigsins sem nemur kostnaði af breyttu reiknilíkani né heldur er aukið við fé til að styrkja starfsemi framhaldsskólanna almennt og til að auka þjónustu þeirra við nemendur.“ Ljóst má vera að það leysir ekki málið að færa vanda einstakra skóla yfir á hina.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á að auknum fjármunum verði varið til menntamála. Með því að fjárfesta í menntun erum við að fjárfesta í framtíðinni. Sá sofandaháttur sem ríkisstjórnin hefur viðhaft í málefnum framhaldsskólanna er ekki til eftirbreytni. Ekki er tekið nógu mikið tillit til framhaldsskóla á landsbyggðinni né heldur skóla sem sinna verknámi en það nám hefur í för með sér meiri kostnað en venjulegt bóknám. Þróun menntamála undanfarin ár hefur orðið til þess að stefna æ fleiri nemendum til bóknáms þegar komið er á framhaldsskólastig og jafnvel svo að ástæða er til að óttast um framtíð verkmenntunar í landinu. Sem dæmi má nefna að í Iðnskólanum í Reykjavík, stærsta iðnmenntaskóla landsins, hefur fjölgun nemenda í skólanum í heild fyrst og fremst orðið á bóknámsbrautum, svo sem í almennu námi, fornámi og á tölvufræðibraut, en á þeirri braut eru nemendur þrisvar sinnum fleiri nú en þeir voru í upphafi tíunda áratugarins. Nemendum hefur hins vegar fækkað mjög á nær öllum iðnnámsbrautum. Þetta eru alvarleg tíðindi þegar hugsað er til iðn- og verkmenntunar í landinu og mikilvægt að grípa í taumana og styrkja sérstaklega verknáms- og iðnnámsbrautir og gera slíkar námsbrautir fýsilegar fyrir góða námsmenn.

Rekstrarvandi Ríkisútvarpsins.
    Ríkisútvarpið hefur átt við mikinn rekstrarvanda að etja á undanförnum árum og hefur verið rekið með tapi allan síðasta áratug að undanskildu einu ári. Það hefur því gengið verulega á eigið fé stofnunarinnar, sem var 2.705 milljarðar kr. í lok árs 1994, en var komið í aðeins 584 millj. kr. í lok síðasta árs. Verði ekki myndarlega við brugðist er því skammt til þess að Ríkisútvarpið verði orðið eignalaust með öllu.
    Meginástæður fyrir taprekstrinum komu fram í skýrslu starfshóps á vegum menntamálaráðherra sem skilaði af sér í nóvember 2001. Samkvæmt henni má að stærstum hluta rekja vandann til þriggja þátta sem stofnunin hefur ekki sjálf vald á. Í fyrsta lagi er um að ræða kostnað við lífeyrisskuldbindingar sem stofnuninni var gert að axla og nemur sá kostnaður hátt í 300 millj. kr. árlega síðustu ár. Í öðru lagi ber Ríkisútvarpinu lögum samkvæmt að standa undir fjórðungi kostnaðar við rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur framlag Ríkisútvarpsins ríflega tvöfaldast á síðari árum. Það nemur nú rúmlega 100 millj. kr. á ári. Loks hefur Ríkisútvarpið ekki fengið heimild ríkisstjórnar til hækkunar afnotagjalda í takt við þróun verðlags og launa á undanförnum árum þrátt fyrir rækilega rökstuddar óskir. Í upphafi þessa árs fékkst heimild fyrir 7% hækkun afnotagjalda, en hún var afnumin mánuði síðar gegn loforði um að stofnuninni yrði bætt tapið og er það gert með 140 millj. kr. framlagi í fjáraukalögum.
    Ríkisútvarpið hefur orðið að bregðast við fjárhagsvandanum með samdrætti og sparnaði á flestum sviðum og afleiðingarnar eru óhjákvæmilega minni þjónusta. Í greinargerð stofnunarinnar með fjárlagatillögum hennar fyrir árið 2003 segir m.a: „Að undanförnu hefur verið dregið úr rekstrarkostnaði og þjónustu Ríkisútvarpsins. Dagskrárgerð og fréttaþjónusta hefur minnkað. Á safnadeild hefur skráning uppsafnaðs dagskrárefnis frá fyrri tíð vart undan. Endurvinnslu á efni sem liggur undir skemmdum, svo sem af eldri hljómplötum, hljóðböndum og kvikmyndum, hefur að mestu verið hætt. Viðhald á húsnæði er í lágmarki, áætlun um endurnýjun á sendum í dreifikerfi hefur nú verið frestað um tvö ár. Forgangsverkefni í fjárfestingum er endurnýjun á stjórn- og tæknibúnaði útvarpsins og er sú vinna hafin en áfangar augljóslega ekki nógu stórir.“
    Þannig er ástandið á einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar og ósæmandi annað en að bæta úr því með markvissum hætti á næstu árum. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telur óhjákvæmilegt að hækka afnotagjöldin til samræmis við þróun launa og verðlags, auk þess sem taka verður á vandanum vegna lífeyrisskuldbindinga stofnunarinnar og koma samskiptum hennar við Sinfóníuhljómsveitina á viðunandi grunn. Þingflokkurinn leggur fram tvær breytingartillögur nú við 2. umræðu fjárlaga með það að markmiði að auðvelda Ríkisútvarpinu að gegna hlutverki sínu sem menningarstofnun allra landsmanna. Þær lúta að eflingu innlendrar dagskrárgerðar og umbótum á dreifikerfi.

Byggðamál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í stefnu sinni lagt áherslu á að styrkja stöðu landsbyggðarinnar með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði. Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum eru undirstaða lífvænlegrar byggðar. Slíku verður ekki náð fram með einkavæðingu og einkarekstri í undirstöðuþáttum velferðarkerfisins þar sem afleiðingarnar bitna harðast á dreifðum byggðum.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð gagnrýnir harðlega að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gert ráð fyrir stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi. Menntamálaráðherra sagði í fyrirspurnatíma á Alþingi að í vor hefðu legið fyrir allar upplýsingar og tillögur um stofnun framhaldsskóla Snæfellinga. Fram kom í máli ráðherrans að heimamenn hefðu undirbúið málið vel og það væri komið á ákvörðunarstig. Ef viðhalda á byggð í landinu þarf grunnþjónusta að vera til staðar í byggðarlögum. Þar er framhaldsskóli mikilvægur þáttur þar sem án hans er hætt við að unga fólkið fari burt til að mennta sig og snúi oft ekki aftur til baka.
    Fólksflótti af landsbyggðinni hefur á margan hátt neikvæð félagsleg og menningarleg áhrif á allt þjóðfélagið. Talið er að það kosti sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. 3–5 millj. kr. á hvern íbúa sem þangað flyst að byggja upp nauðsynlega aðstöðu og þjónustu, og er þá rekstrarkostnaður ekki meðtalinn. Á móti verður fjárfesting og uppbygging á landsbyggðinni vannýtt. Vinstri hreyfingin – grænt framboð bendir á þessa óheillaþróun og gagnrýnir harðlega stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur leitt til þess að grunnþjónustu hefur hrakað á landsbyggðinni.

Atvinnu- og umhverfismál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ávallt lagt mikla áherslu á ferðaþjónustu og umhverfismál. Ferðaþjónusta og náttúruvernd geta farið vel saman, enda er náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist fyrst og fremst á. Mikilvægt er að efla þessa ungu atvinnugrein. Það verður m.a. gert með því að efla náttúruvernd og tryggja sem besta umgengni um þessa dýrmætu auðlind sem er ein af undirstöðum blómlegrar ferðaþjónustu. Gera þarf sérstakt átak í atvinnuuppbyggingu í tengslum við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði. Landvörðum og leiðsögumönnum þarf að fjölga og styrkja þarf stöðu þeirra. Nauðsynlegt er að efla menntun í ferðaþjónustu og auka fjölbreytni hennar. Koma þarf á fót tilraunaverkefnum um sjálfbær samfélög undir merkjum vistmenningar og styrkja slík samfélög sem þegar eru til. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gagnrýnir það metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu og telur að leggja ætti meiri fjármuni til slíkra verkefna.
    Ferðaþjónustan er ung atvinnugrein með afar lítið eigið fé, sérstaklega á landsbyggðinni, og markaðstarf er á frumstigi. Atvinnugreinina sárvantar „þolinmótt“ áhættufé til langs tíma með lágum vöxtum. Það eru fyrst og fremst kappsfullir og hugmyndaríkir einstaklingar sem bera uppi þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu, sérstaklega í fjölbreyttum afþreyingariðnaði. Lánveitendur krefjast veðs í fasteignum, en höfuðstóll ferðaþjónustunnar er fyrst og fremst fólginn í viðskiptavild, ímynd og krafti einstaklinganna og er þess vegna ekki veðhæfur. Þarna getur ríkisvaldið komið á móti með öfluga stoðþjónustu, svo sem aukinn stuðning við rannsóknir og markaðsstarf og rekstur öflugra upplýsingamiðstöðva um allt land.
    Fjöldi ferðamanna sem kemur hingað til lands hefur rúmlega sexfaldast á síðustu tíu árum. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum námu 30 milljörðum kr. árið 2000. Samkvæmt opinberum tölum má gera ráð fyrir að ferðaþjónustan skapi u.þ.b. 13% gjaldeyristekna okkar og hefur það hlutfall hækkað um meira en 30% frá árinu 1995 og eru þá tekjur af innlendum ferðamönnum ótaldar. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vex hraðast á Íslandi og samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar voru 2.848 starfsmenn í flugrekstri, hótelrekstri og hjá ferðaskrifstofum 1998.
    Ljóst er að í ferðaþjónustu eru fjölmörg vannýtt sóknarfæri sem skilað gætu verulegum arði í þjóðarbúið. Slík sóknarfæri er víða að finna, bæði í nýsköpun í atvinnurekstri og innan hefðbundinna atvinnugreina. Alþjóðlegar kannanir og reynsla nágrannaþjóða sýna að í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sé að finna mikilvæga vaxtarsprota og þar verði hlutfallslega til mun fleiri störf en vænta megi í stóriðju og öðrum stórum fyrirtækjum. Skapa þarf hagstæð skilyrði til nýsköpunar í atvinnumálum til að koma á fót og starfrækja ný fyrirtæki og tryggja þeim greiðan aðgang að fjármagni. Ekki síst er mikilvægt að huga að starfsskilyrðum atvinnulífs og nýsköpun í atvinnumálum á landsbyggðinni.
    Mikilvægt er að öll slík nýsköpun í atvinnumálum taki mið af markmiðum sjálfbærrar þróunar atvinnulífsins og samfélagsins alls. Brýnt er að tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í atvinnurekstri og við ákvörðun framkvæmda. Sérstaka áherslu ber að leggja á að virkja frumkvæði kvenna, skapa verðmæti úr hugviti og þekkingu og virkja mannauðinn og þau hráefni íslenskrar náttúru og umhverfis sem til staðar eru og mögulegt er að nýta á sjálfbæran hátt.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að meira fé verði varið til menntunar og rannsókna, jafnframt því að stefna í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Sementsverksmiðjan hf. á Akranesi.
    Sementsverksmiðjan á nú í miklum rekstrarvanda svo að tvísýnt er um framtíðarrekstur hennar. Ástæða þess er m.a. að hafinn er innflutningur frá Danmörku á sementi sem selt er hér á mun lægra verði en Sementsverksmiðjan getur keppt um. Því hefur verið haldið fram að hér sé um undirboð að ræða frá hinum erlenda innflytjanda og markmiðið sé að knésetja Sementsverksmiðjuna og ná undir sig markaðinum og geta síðan ráðið sementsverðinu. Sementsverksmiðjan er í eigu ríkisins. Mikilvægt er að staðið sé á bak við verksmiðjuna meðan þetta stríð stendur yfir og samkeppnismál skýrast. Því er flutt tillaga um heimild til handa ríkissjóði að auka hlutafé Sementsverksmiðjunnar hf.

Lokaorð.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu við þessa umræðu flytja nokkrar breytingartillögur sem undirstrika áherslur flokksins og þar sem sérstakra leiðréttinga er þörf. Þær eru einkum á sviði byggðamála og velferðar-, heilbrigðis-, mennta-, menningar- og umhverfismála. Þeir munu gera grein fyrir tillögunum í umræðunni.
    Annar minni hluti vekur athygli á að fjölmörgum verkefnum er enn ólokið í vinnu fjárlaganefndar, svo sem varðandi framlög vegna nýgerðs samnings ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara og umfjöllun um ýmsar heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús, sérstaklega á landsbyggðinni, sem skortir tilfinnanlega rekstrarfé. Framlög til byggðaaðgerða eru mun rýrari en nýsamþykkt byggðaáætlun gerir ráð fyrir. Hvorki er í gildi sundurliðuð vegáætlun né flugmálaáætlun. Sú sundurliðun á einstök viðfangsefni vegáætlunar sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu er marklítil enda er boðað að hún muni breytast í allmörgum liðum. Beðið er samræmdrar samgönguáætlunar sem átti að liggja fyrir á haustdögum en hefur enn ekki verið lögð fram. Ekki er hægt að afgreiða fjárlagafrumvarpið endanlega fyrr en samgönguáætlun liggur fyrir og hefur verið samþykkt og þar með einnig skipting fjár til samgöngumála.
    Það er því ljóst að ekki er hægt að fjalla hér á tæmandi hátt um gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. Bíður það 3. umræðu, svo og tekjuhlið frumvarpsins. Einstakar breytingartillögur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við tekjuhliðina munu því einnig bíða 3. umræðu.

Alþingi, 26. nóv. 2002.



Jón Bjarnason.


Fylgiskjal I.


Jón Bjarnason:

Pólitíkin í fjárlagafrumvarpinu.


(Morgunblaðið, 15. október 2002.)



    Nú hefur nýtt fjárlagafrumvarp litið dagsins ljós og skapar það efni í umræður í fjölmiðlum og manna á meðal víðs vegar um landið. Umræðunni hættir þó til þess að festast við einstaka útgjaldaliði og nokkrar milljónir til eða frá. Það er að vísu góðra gjalda vert, en býður þeirri hættu heim að pólitíkin gleymist, þ.e. sú heildarstefnumörkun sem fjárlagafrumvarpið felur í sér. Sannleikurinn er sá að fjárlagafrumvarpið er pólitískt plagg. Þar birtist með skýrum hætti stefna stjórnarflokkanna sem tekur til þess hvernig tekna er aflað og hvernig þeim er varið. Um marga liði frumvarpsins eru þingmenn sammála, en um aðra ríkir ágreiningur. Og þar birtist hinn raunverulegi munur á milli stjórnmálaflokka sem kjósendur verða að glöggva sig á.

Velferðarstefna vinstri grænna.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti. Í því sambandi er lögð áhersla á fjögur eftirfarandi atriði:
     1.      Að skattleysismörk fylgi launaþróun og lágtekjufólki og lífeyrisþegum verði hlíft við óhóflegri skattheimtu. Teknir verði upp stighækkandi skattar af launatekjum án þess að það feli í sér að heildarskattbyrði launafólks sé aukin.
     2.      Að fjármagnstekjur, þ.m.t. arðgreiðslur og söluhagnaður af hlutabréfum, umfram vexti af hóflegu sparifé verði skattlagðar til jafns við aðrar tekjur.
     3.      Að skattlagning á hreinum hagnaði fyrirtækja taki mið af skattlagningu launatekna.

Ríkisstjórn „burðarásanna“!
    Þegar litið er til skattastefnu þessarar ríkisstjórnar blasa allt aðrar áherslur við. Fjármagnseigendum, hátekjufólki og stórfyrirtækjum er ívilnað sérstaklega í skattheimtunni. Með skattbreytingunum á sl. vetri var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%. Árið 2000 var tekjuskattur á hagnað fyrirtækja 9.679 millj. kr. eða 4,8% af heildarskatttekjum ríkissjóðs en árið 2003 er hann áætlaður 5.250 millj. kr. eða um 2% af heildarskatttekjum. Skattar á arðgreiðslur og fjármagnstekjur eru einungis 10% og nema tekjur ríkissjóðs af honum um 5 milljörðum króna. Hefur sá skattur staðið tölulega í stað sl. 3 ár. Sérstakur hátekjuskattur einstaklinga var lækkaður úr 7% í 5% auk þess sem grunntölur hans voru hækkaðar og er áætlaður 1,5 milljarðar á næsta ári og lækkar um 300 milljónir króna milli áranna.
    Ríkisstjórnarflokkarnir virðast trúa því að með því að veita völdum hópum einstaklinga og fyrirtækja sérstakt forskot muni verða hægt að byggja upp svokallaða „burðarása“ þjóðfélagsins, sem munu í krafti forréttinda sinna bera uppi atvinnulífið og þjónustuna og veiti þannig hluta þjóðarinnar ákveðna möguleika í skjóli sínu.

Skattbyrðin þyngd á ferðaþjónustu, frumvinnslu og nýsköpun.
    Skattheimta á atvinnulífinu felur líka í sér misskiptingu. Tryggingagjald sem er launatengdur skattur var hækkaður úr 4,34% í 4,84% og heimild er til að hækka hann enn meira eða í 5,11%. Nemur hækkun á milli ára 4 milljörðum króna eða nærri 17% hækkun. Þessi skattur leggst þyngst á þau fyrirtæki þar sem laun eru tiltölulega hátt hlutfall rekstrarkostnaðar. Þetta á við alla þjónustustarfsemi svo sem starfsemi sveitarfélaga, fyrirtæki í ferðaþjónustu og frumvinnslu, svo sem í fiskiðnaði og landbúnaði, og bitnar hart á litlum iðnfyrirtækjum. Þessi skattur bitnar harðast á sprotafyrirtækjum, einstaklings- og fjölskyldufyrirtækjum sem mörg hver berjast í bökkum og njóta því ekki skattalækkana á hagnað. Þessi skattur er óháður tekjum eða afkomu.

Lækkum skattbyrði lágtekjufólks og lífeyrisþega.
    Almennir tekjuskattar á einstaklinga voru liðlega 43 milljarðar árið 2000 en eru áætlaðir á næsta ári liðlega 63,5 milljarðar eða 20,5 milljarða króna hækkun. Miðað við nánast óbreyttar rauntölur á tekjutengdum sköttum einstaklinga milli áranna 2002 og 2003 hækkar hlutfallsleg skattbyrði á almennar launatekjur milli áranna um 10%. Skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróuninni. Þetta þýðir að skattbyrði almenns launafólks eykst. Elli- og örorkulífeyrisþegar hafa rækilega fundið fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar er þeir verða að greiða sem nemur mánaðargreiðslum í skatta af árslífeyri sem hefur þó ekki haldið hlutfallslegu verðgildi á við almenna launaþróun í landinu.
    Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks velur þetta fólk til að bera aukinn hlut í skatttekjum ríkisins.

Velferðarstjórn.
    Hér verður að breyta um stefnu og setja velferð þjóðarinnar allrar í forgang. Fjárlögum ríkisins á að beita til að auka jöfnuð í samfélaginu. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar. Beina þarf athyglinni til lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem hugvit og framtak einstaklingsins fær notið sín, atvinnureksturs sem er í takt við íslenskar aðstæður og íslenskan veruleika og byggist á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna. Takist þetta mun eflast blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni um allt land með velferð þegnanna allra að leiðarljósi.



Fylgiskjal II.


Jón Bjarnason:

Framhaldsmenntun á Snæfellsnesi.


Öflugt menntakerfi er forsenda velferðar og hagvaxtar.

(Skessuhorn, 45. tbl., 13. nóvember 2002.)



    Það er mikil blóðtaka fyrir hvert byggðarlag að senda allt ungt fólk burt til menntunar frá 16 ára aldri og verður æ erfiðara eftir því sem skólaárið lengist. Fjarveran eykst og fjölskyldubönd og rætur í heimahögum slitna. Það reynir mjög á ungt fólk á þessum árum en það er stór þáttur í lífskjörum að fjölskyldan geti verið sem lengst saman og veitt æskufólki sínu hvatningu og stuðning í námi. Það er frumkrafa að ungt fólk geti stundað reglubundið nám heiman frá sér til 18 ára aldurs. Annað ætti að vera undantekning.

Menntun er byggðamál.
    Aukið námsframboð í heimabyggð styrkir sjálfsímyndina og hefur feikileg margfeldisáhrif.
    Hvert samfélag, hver byggð, þarf stöðugt að sækja fram hvað menntun varðar. Hér styður hvert menntunarstig annað. Því öflugri grunnmenntun sem er í byggðarlaginu þeim mun meiri möguleikar eru á framboði í símenntun, endurmenntun og háskólamenntun fyrir aðra íbúa. Það er því fullkomlega eðlilegt að þau sveitarfélög sem ekki hafa framhaldsskóla leiti eftir og kanni möguleika á slíku námi í heimabyggð.
    Framfarir í fjarskiptatækni bjóða upp á fjölbreytta möguleika og stuðning í öllu menntunarstarfi og er gjörbylting frá því sem áður var.

Virkjum krafta í heimabyggð.
    Það er staðreynd að mun meiri sveigjanleika vantar í menntakerfi landsins bæði hvað varðar lengd náms og námsframboð. Núverandi skipan í menntamálum hentar sumum þeim sem hyggja á langskólanám en býður fáa og þrönga kosti fyrir þá sem hafa önnur markmið.
Sú staðreynd að einungis um helmingur nemenda sem byrjar í framhaldsskóla lýkur námi segir okkur að eitthvað verulegt er að. Þessu kerfi verður að breyta. Verktækni og starfsnám hefur verið vanrækt, en það þarf að stórefla.
    Menntunin þarf að vera mun betur tengd atvinnulífi, menningu, sögu og náttúruauðlindum viðkomandi byggðarlags en nú er.
    Ofdýrkun á gildi stórra stofnana þar sem steypa á alla í sama mót heftir nú alla framþróun í menntamálum. Þjóðinni er nauðsyn nú sem aldrei fyrr að virkja þá krafta og þekkingu sem býr í verkkunnáttu og menningu á hverjum stað vítt og breitt um landið í menntun næstu kynslóða.

Snæfellingar sækja fram.
    Í Snæfellsbæ, Grundarfirði, Helgafellssveit og Stykkishólmi búa um 350 unglingar á aldrinum 16 ára til tvítugs. Að frátaldri fyrsta árs framhaldsdeild í Stykkishólmi verða allir þessir unglingar að fara burt til náms. Þessu vilja Snæfellingar ekki una og hafa sótt um að stofna framhaldsskóla á svæðinu. Ríkir um það mikill einhugur í byggðarlaginu. Undirtektir stjórnvalda hafa verið jákvæðar en þegar á herðir og taka þarf ákvörðun heykjast þau á málinu. Á Alþingi nýverið lagði ég til að í haust yrði tekin stefnumarkandi ákvörðun um stofnun skólans og til þess veitt byrjunarfjárveiting á fjárlögum næsta árs.
    Án fjárveitingar eru öll vilyrði orðin tóm. Stofnun framhaldsskóla er lífsspursmál við eflingu byggðar á Snæfellsnesi.
    Mikilvægt er að Sæfellingar fylgi þessu máli eftir af fullri einurð, ákvörðun um skólann verði staðfest og hann komist á formlegan rekspöl nú í haust.



Fylgiskjal III.


Ályktun stjórnar Félags framhaldsskólakennara.


(11. nóvember 2002.)



    Stjórn Félags framhaldsskólakennara fjallaði á fundi sínum 11. nóvember 2002 um fyrirhugaðar fjárveitingar til framhaldsskóla samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 sem nú liggur fyrir Alþingi.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003 er nær óbreyttri fjárhæð skipt milli framhaldsskólanna eftir reglum endurskoðaðs reiknilíkans. Hækkun milli ára er rúmlega 3% en hafa ber í huga að 3% almenn launahækkun verður 1. janúar 2003.
    Reiknilíkan fyrir kennslukostnað og rekstur framhaldsskóla hefur verið til endurskoðunar undanfarin tvö ár og var markmið endurskoðunar að lagfæra ákveðna þætti sem hafa valdið því m.a. að stórir nýir verknámsskólar og meðalstórir og litlir skólar á landsbyggðinni sem reyna að halda uppi fullnægjandi námsframboði en búa við fækkun nemenda vegna fólksflutninga hafa komið illa út úr því. Skólar er þjóna öllum nemendahópnum á tilteknu svæði glíma við meira brottfall en aðrir skólar og á því þarf að taka.
    Fjárveitingum til framhaldsskólanna samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 er dreift eftir nýju reiknilíkani þannig að til þess að bæta fjárveitingar til einstakra framhaldsskóla þar sem þess er talin þörf er skorið fé af fjárveitingum til annarra framhaldsskóla sem þó eru alls ekki aflögufærir. Meginvandinn er því sá að ekki er aukið við heildarfjárveitingu til framhaldsskólastigsins sem nemur kostnaði af breyttu reiknilíkani né heldur er aukið við fé til að styrkja starfsemi framhaldsskólanna almennt og til að auka þjónustu þeirra við nemendur.
    Samkvæmt yfirliti sem menntamálaráðuneytið hefur kynnt vantaði á árunum 1992–2001 alltaf nokkur hundruð milljónir króna upp á að fjárveitingar á fjárlögum dugi fyrir rekstrarkostnaði framhaldsskóla þrátt fyrir mikið aðhald í rekstri þeirra. Þessi halli fer vaxandi og benda má á að menntamálaráðuneytið telur sjálft í mati sínu á útgjaldahorfum framhaldsskólastigsins fyrir árið 2003 að framlög til skólanna þurfi að aukast um 400–600 milljónir.
    Meðal meginmarkmiða gildandi kjarasamninga framhaldsskólans er samkomulag um að endurskoða skipan starfa og stjórnkerfi framhaldsskóla, að einfalda kjarasamning og að endurskipuleggja störf kennara og stjórnenda. Tekið var upp nýtt launakerfi og fyrstu skref tekin inn í dreifstýrt kjaraumhverfi.
    Með kjarasamningunum bötnuðu launakjör í framhaldsskólum og ákveðin bjartsýni ríkti um að yfirlýsing fjármálaráðherra og þáverandi menntamálaráðherra um að styrkja stöðu framhaldsskóla sýndi vilja til að taka af alvöru á langtímarekstrarvanda skólanna og skapa þeim viðunandi starfsgrundvöll og stöðu til að mæta breyttum kröfum og nýjum tímum.Allt of þröngur stakkur fjárveitinga til framhaldsskólans stefnir árangri kjarasamninga í hættu.
    Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er áfall fyrir starfsemi framhaldsskólanna og ávísun á kreppu og stöðnun í skólastarfinu. Félag framhaldsskólakennara heitir á ráðherra í ríksstjórn, fjárlaganefnd og alla þingmenn að snúast sameiginlega til varnar framhaldsskólanum og viðurkenna með því að hann skuli ekki vera hornreka í ríkisrekstrinum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal IV.


Ályktun stjórnar Kennarasambands Íslands um fjárveitingar


til framhaldsskólans samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003.


(15. nóvember 2002.)



    Stjórn Kennarasambands Íslands lýsir yfir áhyggjum af þróun fjárveitinga til framhaldsskóla í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og telur fyrirhuguð framlög til kennslu- og rekstrarkostnaðar framhaldsskólanna í landinu ávísun á verri þjónustu við nemendur og vaxandi rekstrarhalla.
    Stjórnin bendir á að árum saman hefur verið mörg hundruð milljóna króna mismunur á fjárveitingum og raunverulegum rekstrarkostnaði skólanna og hefur menntamálaráðuneytið m.a. sjálft dregið upp yfirlit yfir þessa stöðu fyrir árin 1992–2001. Ráðuneytið telur enn fremur í mati á útgjaldahorfum framhaldsskólastigsins fyrir árið 2003 að framlög til framhaldsskólanna þurfi að aukast um 400–600 milljónir.
    Fjárveitingum til framhaldsskólanna samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 er dreift eftir nýju reiknilíkani en sá galli er á gjöf Njarðar að þegar fjárveitingar eru auknar til einstakra framhaldsskóla þar sem þess er talin þörf eru þær skornar niður til annarra framhaldsskóla sem þó eru alls ekki aflögufærir. Meginvandinn er því sá að hvorki er aukið við heildarfjárveitingu til framhaldsskólastigsins sem nemur kostnaði af breyttu reiknilíkani né aukið við fé til að styrkja starfsemi framhaldsskólanna almennt og til að auka þjónustu þeirra við nemendur.
    Með kjarasamningunum bötnuðu launakjör í framhaldsskólum og ákveðin bjartsýni ríkti um að yfirlýsing fjármálaráðherra og þáverandi menntamálaráðherra um að styrkja stöðu framhaldsskóla sýndi vilja til að taka af alvöru á langtímarekstrarvanda skólanna og skapa þeim viðunandi starfsgrundvöll til að mæta breyttum kröfum.
    Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er áfall fyrir starfsemi framhaldsskólanna og ávísun á stöðnun auk þess sem ónógar fjárveitingar stefna árangri kjarasamninga framhaldsskólans í hættu og draga úr samkeppnishæfni skólanna um vel menntaða starfsmenn.
    Stjórn Kennarasambands Íslands hvetur ráðherra í ríkisstjórn, fjárlaganefnd og alla þingmenn til að beita sér fyrir endurskoðun fjárveitinga til framhaldsskóla við afgreiðslu fjárlaga á næstunni.


Samþykkt á fundi stjórnar Kennarasambands Íslands 15. nóvember 2002.


Fylgiskjal V.


Björg Ágústsdóttir,
bæjarstjóri í Grundarfirði,
formaður undirbúningsnefndar
um Framhaldsskóla Snæfellinga:


Staða framhaldsmenntunar á Vesturlandi.
(Erindi flutt á aðalfundi SSV í Borgarnesi, 23. ágúst 2002.)


Inngangur.
    Yfirskrift þessa dagskrárliðar er „Staða framhaldsmenntunar á Vesturlandi“.
    Allir vita um tilvist FVA, sem er í dag eini almenni framhaldsskólinn á Vesturlandi. Í erindi mínu ætla ég hins vegar að lyfta vængjunum aðeins hærra og reyna að gera grein fyrir framtíðarsýn í framhaldsmenntun á Vesturlandi.
    Ég er hér að tala um framtíðarsýn okkar Snæfellinga, en í rúm tvö ár hafa verið uppi mjög ákveðnar óskir um nýjan skóla á Vesturlandi, framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Sveitarstjórnirnar í Snæfellsbæ, Grundarfirði, Helgafellssveit og Stykkishólmi gerðu milli sín samkomulag um að vinna að því marki og skipuðu undirbúningsnefnd í málið. Hreppsnefndir Eyja- og Miklaholtshrepps og Kolbeinsstaðahrepps ákváðu í upphafi að fylgjast með framvindu mála, án þess að taka beinan þátt í undirbúningi.
    Fyrsta greinargerð var lögð fyrir menntamálaráðherra Björn Bjarnason í apríl 2000 en margvíslega hefur verið unnið að málinu síðan, hugmyndir þróaðar og frekari upplýsinga aflað í samráði við starfsfólk ráðuneytisins. Nýr ráðherra, Tómas Ingi Olrich, kom svo að málinu í febrúar/mars á þessu ári.
    Málið hefur ekki náð á framkvæmdastig (ekki enn) og eru Snæfellingar heldur farnir að ókyrrast enda mikið hagsmunamál á ferðinni.
    Ég ætla hér að gera grein fyrir óskum Snæfellinga og helstu ástæðum og röksemdum fyrir framhaldsskóla á Snæfellsnesi.

Hvers vegna vilja Snæfellingar framhaldsskóla?
    Í yfirskrift fyrstu greinargerðar undirbúningsnefndarinnar segir eitthvað á þessa leið;

Framhaldsskóli Snæfellinga
– menntun í heimabyggð
– leið til eflingar samfélags


    Ástæðan fyrir óskum Snæfellinga um framhaldsskóla er því fyrst og fremst vilji til eflingar samfélags.
    Snæfellingar telja að með því að leggja áherslu á góða menntun í heimabyggð sé verið að stíga eitt veigamesta skrefið til eflingar byggðar á Snæfellsnesi.
    Framhaldsskóli Snæfellinga er ósk íbúanna um að njóta þeirra gæða sem samfélag 21. aldarinnar gerir kröfur til.

Þjónustan sem næst notandanum; betra samfélag.
    Við Snæfellingar höfum áralanga reynslu af því að horfa á bak unglingunum okkar þegar þeir fara til náms fjarri heimilum og heimabyggð. Við þekkjum margvíslegar afleiðingar þess. Það er kostnaðarsamt og ekki er óalgengt að nemendur flosni upp úr námi, eða að fjölskyldur flytji bara með. Það er því bæði félagslegur og fjárhagslegur ávinningur af því að halda fjölskyldum saman.
    Framhaldsskóli á svæðinu er einn sá besti kostur sem hugsast getur til að bæta samfélagið og efla byggð á svæðinu – hann þýðir að þjónustan er aukin, hún er færð nær notandanum.
    Þess ber að geta að í Stykkishólmi og Ólafsvík hafa reyndar um nokkurn tíma verið starfræktar framhaldsdeildir. Þær spanna hins vegar einunigs fyrsta árið í framhaldsnámi (2. árið stundum í Stykkishólmi) og rekstur þeirra og starfsemi hefur átt í vök að verjast að mörgu leyti. Aðsókn að deildunum hefur hins vegar undantekningarlítið verið mjög góð.
    Í Grundarfirði hefur einnig verið starfrækt fjarnám með sérstöku tilraunasniði og er fjórða skólaárið að hefjast nú í haust.

Hækkaður lögræðisaldur; er í lagi að senda unglingana út af heimilunum?
    Fyrir fáum árum hækkaði sjálfræðisaldur úr 16 í 18 ár. Sú spurning verður þá áleitnari hvort gerlegt eða forsvaranlegt sé að senda ungmenni burtu af heimilunum til framhaldsnáms. Ungmenni eru á ábyrgð foreldra sinna upp að 18 ára aldri og það getur verið erfitt að færa foreldraábyrgðina yfir á aðra.
    Við finnum það líka glögglega, Snæfellingar, að foreldrar eru mun síður tilbúnir til þess í dag að senda börnin sín í burtu en var t.d. fyrir rúmum 20 árum, á þeim tíma þegar FVA var stofnaður. Þá eygðu menn heldur ekki sömu möguleika og nú til að stunda nám í heimabyggð.

Fleiri en ella færu í framhaldsnám.
    Reynsla undangenginna ára segir okkur að fleiri fara í framhaldsskóla í heimabyggð en fara í burtu til framhaldsnáms. Framhaldsdeildirnar í Stykkishólmi og Ólafsvík – þ.e. möguleikinn til náms í heimabyggð – leiddu til þess að þeir sem ekki hefðu farið í burtu til náms, af einhverjum ástæðum, stunduðu nám í heimabyggð. Oftar en ekki fóru þeir hinir sömu í burtu til frekara framhaldsnáms eftir að náminu heima fyrir lauk. Óhætt er að fullyrða að margir þessara nemenda hefðu ekki farið í nám ef þessa möguleika hefði ekki notið við í heimabyggð.
    Fjarnám á framhaldsskólastigi í Grundarfirði gefur vísbendingar um það sama.
    Öflugur framhaldsskóli fyrir allt Snæfellsnes mundi án vafa fjölga framhaldsskólanemendum af svæðinu frá því sem er í dag.

Aukin eftirspurn eftir öðru námi.
    Um leið og framhaldsnám stendur til boða á svæði sem ekki hefur notið þess á sama hátt áður, er líklegt að eftirspurn eftir öðru námi aukist, t.d. margs konar námskeiðum og léttari áföngum.
    Þegar fjarnám unglinga á framhaldsskólastigi fór af stað í Grundarfirði haustið 1999 vaknaði mikill áhugi meðal fullorðinna og þátttaka í námi á framhaldsskólastigi.

Fjárfest í unga fólkinu – hærra menntunarstig.
    Vinnuaflsnotkun í landinu hefur lítið aukist á síðustu árum, þrátt fyrir aukinn hagvöxt. Hagræðing í frumframleiðslugreinum hefur leitt til fækkunar starfa. Störf hafa færst til, frá frumvinnslu yfir í afleidd störf. Frumvinnslan á sér stað á landsbyggðinni að langmestu leyti og afleiddu störfin, þekkingariðnaðurinn, hafa að langmestu leyti vaxið upp á höfuðborgarsvæðinu.
    Rannsóknir sýna að í sveitarfélögum eins og á Snæfellsnesi, sem byggja afkomu sína að langmestu leyti á veiðum og vinnslu sjávarafurða, er menntunarstig almennt lægra en gerist t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Betra aðgengi að menntun mun án efa stuðla að hærra menntunarstigi og skapa enn jákvæðara viðhorf til menntunar.
    Fjárfesting felst einnig í því ef unga fólkið fær að eyða uppvaxtar- og mótunarárum í heimabyggð, þá eru ræturnar styrktar og meiri líkur á að það vilji búa á svæðinu á fullorðinsárum.

Áhrif á viðhorf til samfélagsins.
    Framhaldsskóli í heimabyggð og möguleikinn til náms eru atriði sem eru fallin til að skapa jákvæðara viðhorf til byggðanna. Góður framhaldsskóli er gæðastimpill. Svæðið verður eftirsóknarverðara í augum utanaðkomandi. Rannsóknir sýna að þetta atriði skiptir verulegu máli þegar fólk velur sér búsetu. Auk þess verða íbúarnir sjálfir ánægðari með sveitarfélagið sitt, framhaldsskóli og möguleikinn til náms stuðlar að jákvæðara viðhorfi í augum íbúanna sjálfra.

Aukin fjölbreytni starfa og fleiri krónur í kassann.
    Starfsemi framhaldsskóla er atvinnuskapandi og býður upp á störf fyrir háskólamenntað fólk, en of lítið er af slíkum störfum á svæðinu. Með tilkomu framhaldsskóla yrðu til störf við kennslu og stjórnun, skrifstofustörf og fleira, auk afleiddra starfa, enda þarf slík stofnun töluverða þjónustu.
    Framhaldsskóli á svæðinu mundi ekki einungis færa störf og aukið fjármagn inn á svæðið, heldur einnig stuðla að því að fjármagn héldist í byggðunum og ylti áfram til uppbyggingar á svæðinu. Það segir sig til dæmis sjálft að verulegt fjármagn fylgir hverjum nemanda og leggst út þar sem nemandinn dvelur.

Aðildin að FVA.
    En hvers vegna þetta brölt? Sveitarfélögin eru aðilar að Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Fjölbrautaskólinn starfrækir framhaldsdeildir fyrir eitt (stundum tvö) ár í Stykkishólmi og eitt ár í Snæfellsbæ (þó ekki í vetur vegna lítillar aðsóknar). Í Grundarfirði hefur verið starfrækt fjarnám á framhaldsskólastigi.
    Niðurstaða undirbúningsnefndar var sú að Snæfellingar stæðu frammi fyrir tveimur valkostum um framhaldsskólamálið.
    Annar var sá að setja fram hugmynd um framhaldsskóla innan vettvangs FVA. Í því tilviki yrði e.t.v. ekki mikil breyting frá því fyrirkomulagi sem nú er, nema ef lagt yrði til að deildirnar í Ólafsvík og Stykkishólmi sameinuðust og hugsanlega yrðu tryggð tvö námsár á Nesinu. Vandséð er að möguleikar yrðu þannig fyrir hendi til að lengja eða auka námsframboð deildanna, t.d. til stúdentsprófs.
    Hinn valkosturinn var sá að framhaldsskóli á Snæfellsnesi væri sjálfstæð stofnun en ekki deild innan FVA, enda þótt gengið yrði út frá góðu samstarfi skólanna. Samstarfið á liðnum árum, sem alið hefur af sér gagnkvæma þekkingu og reynslu, ætti að geta orðið fyrirmynd að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi á nýrri öld, í kjölfar batnandi samgangna, nýrra viðhorfa og sjónarmiða um lífsgæði.
    Það hefur jafnframt vakið athygli hve fáir nemendur af þéttbýlisstöðunum á Snæfellsnesi eru í Fjölbrautaskólanum á Akranesi, þrátt fyrir að FVA sé okkar skóli. Á vorönn 2000 voru 567 nemendur við dagskóla á Akranesi, 21 í framhaldsdeild í Snæfellsbæ og 23 í Stykkishólmi. Af nemendum í dagskóla á Akranesi voru 40 frá þéttbýlisstöðum á Snæfellsnesi eða 7% af öllum dagskólanemendum á Akranesi, en þess má geta að Snæfellingar eru um þriðjungur íbúa Vesturlands. Af þessu má sjá tvennt. Í fyrsta lagi virðast nemendur sækja framhaldsnám í miklum mæli til annarra skóla. Í öðru lagi er áberandi hve stórt hlutfall árgangs stundar nám í framhaldsdeildunum þar sem þær eru starfræktar. Í Stykkishólmi hefur þetta hlutfall verið 70–80% mörg undanfarin ár. Þetta sýnist nefndinni styðja það sem oft hefur verið haldið fram, að framhaldsskóli í heimabyggð auki líkur á að nemendur sæki í framhaldsnám eftir grunnskólapróf.

Hvernig framhaldsskóla vilja Snæfellingar?
    Út á hvað ganga þessar óskir um framhaldsskóla? Hvers konar skóla vilja Snæfellingar?

Staðsetning.
    Sveitarfélögin fjögur gerðu í upphafi með sér samkomulag um að skólinn skyldi staðsettur miðsvæðis, í Grundarfirði, til að jafna sem mest fjarlægðir milli staða. Ljóst er að þverun Kolgrafarfjarðar er lykilatriði í þessu sambandi. Og reyndar eru bættar samgöngur sl. ára afar mikilvæg forsenda þess að þetta er hægt og er að gerast.

Skólaakstur.
    
Gert er ráð fyrir heimanakstri nemenda, þ.e. að nemendur eigi kost á að fara að heiman að morgni og heim að loknum skóladegi. Akstur yrði innan hæfilegra fjarlægðarmarka í sveitarfélögunum fjórum; úr Stykkishólmi í Grundarfjörð eru 46 km (verða um 39 km eftir þverun Kolgrafarfjarðar). Frá Hellissandi í Grundarfjörð eru 35 km og 26 úr Ólafsvík og inn í Grundarfjörð.

Fjölbrautaskóli.
    Nefndin leggur til að skólinn verði fjölbrautaskóli, full fjögur námsár, og að miðað sé við að námsframboð henti sem flestum nemendum af svæðinu. Þetta er brýnt í ljósi íbúafjölda og nemendafjölda á starfssvæði skólans þannig að flestir sem útskrifast úr grunnskólum á Snæfellsnesi finni námsbrautir við hæfi.
    Námsbrautir yrðu annars vegar almenn námsbraut og hins vegar stúdentsprófsbrautir eða almennt bóknám til undirbúnings starfsnámi, en megingreinar á námsbrautum til stúdentsprófs eru einnig meðal almennra greina í starfsnámi. Annars er ekki beinlínis gert ráð fyrir brautaskiptingu, heldur að nemendur velji sér áfanga úr safni skólans sem falla að markmiðum þeirra. Ljóst er að skólayfirvöld verða að stýra áfangaframboði hverju sinni mjög markvisst þannig að viðunandi nýting náist.
    Ekki er gert ráð fyrir umfangsmiklu verknámi við skólann til að byrja með, en þeim möguleika hefur verið velt upp að leita eftir samstarfi við FVA um aðgengi nemenda á Snæfellsnesi að verknámsdeildum FVA.

Fjöldi nemenda.
    Nemendur á grunnskólaaldri á svæðinu eru að meðaltali 75 í árgangi. Reiknað er með um 170–200 nemendum í skólanum á fjórum námsárum þegar fullskipað verður.

Upplýsingatækni og fjarnám.
    Upplýsingatæknin er einn höfuðlykillinn að þekkingarsamfélagi nútímans – og framtíðarinnar. Og lykilatriðið í hugmyndum Snæfellinga um framhaldsskólann felst í hagnýtingu og þróun tölvu- og upplýsingatækni við nám og kennslu, ekki síst fjarnámi, sem réttara þykir nú orðið að fella undir hugtakið dreifnám, sbr. stefnumörkun menntamálaráðuneytisins. Lykill að hagstæðum rekstri og í raun forsenda skólahalds er blanda af staðbundinni kennslu og fjarnámi. Með því að gera ráð fyrir að fjarnám verði eðlilegur hluti skólastarfsins, telja Snæfellingar sig geta sigrast á helstu vandamálum minni framhaldsskóla, svo sem að halda úti nægilegu námsframboði sem aftur hefur áhrif á aðsókn nemenda að skólanum.
    Með fjarnámi væri hægt að auka breiddina í námsframboði og bjóða nemendum upp á sérhæfðari námsáfanga sem kenndir eru í öðrum skólum eða af öðrum kennurum.
    Vel má hugsa sér að bjóða upp á blandaða kennslu, staðbundna og dreifða, eftir því sem kennslukraftar leyfa hverju sinni og námsframboð leyfir.

Fartölva á hvern nemanda.
    Ég vil nefna hér eitt atriði að gamni.
    Við höfum öll heyrt af hugmyndum og áformum um að fartölvuvæða nemendur í framhaldsskólum. Í þessum skóla gefst einstakt tækifæri til að tölvuvæða alla nemendur. Það væri í samræmi við eðli og markmið um skólastarfið þar sem sérstök áhersla er lögð á að hagnýta upplýsingatækni, auk þess sem skólinn er af þeirri stærðargráðu að það er vel viðráðanlegt.
    Við sjáum fyrir okkur að komið yrði upp þráðlausu neti í skólanum, þannig að nemendur/kennarar geta unnið á tölvur sínar og farið á netið hvar sem er í skólabyggingunni. Skólinn sleppur á móti við að kaupa tölvur og halda úti tölvuveri fyrir nemendur. Og hvað er fengið með þessu, kunna sumir að spyrja? Jú, nemendur og kennarar mundu vinna mestalla vinnu sína á tölvuna, nemandinn sækir verkefni og fyrirmæli sem kennararnir eru búnir að vinna á sínar tölvur og setja á netið, hann vinnur þau beint í tölvuna sína og sendir síðan kennaranum. Kennarinn fer yfir og sendir nemanda verkefnið til baka (á netinu), yfirfarið og með athugasemdum. Enginn tvíverknaður, ekki verið að ljósrita og dreifa og vélrita svo jafnvel upp aftur, sem sagt, markvissari vinnubrögð, auk þess sem nemandinn öðlast meiri færni í ritvinnslu, tölvutækni og sjálfstæðum vinnubrögðum.

Tekið verði mið af sérstöðu svæðisins.
    Skólinn á kost á að móta sérstöðu sína og bjóða upp á staðbundnar valgreinar sem taka mið af samfélagi, náttúru og umhverfi Snæfellsness og Breiðafjarðar. Má hugsa sér að þetta geti verið í tengslum við þjóðgarðinn á Snæfellsnesi (vistfræði), jarðfræði svæðisins og sögu, útgerðarhætti að fornu og nýju, sérstaka fornsagnaáfanga (Eyrbyggja, Bárðar saga, Laxdæla) og svo mætti áfram telja.
    Hugmyndir hafa einnig vaknað um sveigjanlegt skólastarf og starfstíma. Þarf t.d. að keyra og kenna nemendum alla virka daga frá því á slaginu átta að morgni? Hægt er að hugsa sér að nemendur geti stundað námið í Ólafsvík og Stykkishólmi t.d. einn dag í viku. Umrætt fyrirkomulag getur veitt svigrúm hvað þetta varðar, þó innan marka þeirra laga og reglna sem um starfsemi framhaldsskóla gilda.

Að lokum.
    Snæfellingar eiga þann draum að unga fólkið geti dvalist heima og notið góðrar menntunar, að samfélagið njóti þessa aldurshóps sem virkra þátttakenda, að fjölskyldur og þar með samfélagið allt þurfi ekki að reiða af hendi umtalsverða fjármuni til að kosta unga fólkið til náms og að ungt fólk þurfi ekki að verða af námi sökum fjárskorts.
    Í rannsókn sem Gylfi Arnbjörnsson gerði á svæðisbundinni þróun iðnaðar og búsetu, einkum á tímabilinu 1972–1986, kom m.a. fram að nýsköpun í atvinnulífi virðist hafa verið minnst í sjávarútvegsbæjum, þar sem langstærstur hluti starfa er fyrir ófaglærða launþega. Jarðvegur fyrir frumkvæði og nýsköpun verður því ófullnægjandi á viðkomandi stöðum. Þannig verður mikil hætta á því að slík bæjarfélög festist í einhæfu atvinnulífi og stöðnun sem gerir þau lítt hæf til að halda í ungt fólk eða draga að nýja íbúa. Í síðari rannsóknum hafa niðurstöður verið á svipaðan veg; einhæfir sjávarútvegsstaðir standa almennt höllum fæti í samkeppninni um fólk.
    Frá því að sveitarstjórnirnar á norðanverðu Snæfellsnesi settu sameiginlega fram ósk um framhaldsskóla í heimabyggð hefur mikil umræða átt sér stað um málið. Sú umræða hefur sýnt glögglega mikinn áhuga Snæfellinga á að málið nái fram að ganga, enda er um að ræða brýnt hagsmunamál fjölskyldna á svæðinu – og samfélagsins alls.
    Um er að ræða stórtækar hugmyndir sem settar eru fram af kjarki, bjartsýni og óbilandi trú á Snæfellingum.
    Við Snæfellingar stólum á að jafnbrýnt hagsmunamál og hér um ræðir nái fram að ganga. Við teljum að öll bið á því þýði einungis missi tækifæra.
    Við stólum á stuðning Vestlendinga í þessum efnum.
    Í þeim anda ætla ég að ljúka þessu og vitna í Nóbelsskáldið og, að sjálfsögðu, Kristnihald undir Jökli þar sem segir; „Fyrst er að vilja, afgángurinn er tækni.“



Fylgiskjal VI.


Jón Bjarnason:


Lítil saga af sementi.


(Morgunblaðið, 13. nóvember 2002.)



    Nú eru rúmir fjórir áratugir síðan Sementsverksmiðjan tók til starfa á Akranesi. Verksmiðjan ber aldurinn vel, enda hafa stjórnendur hennar og starfsmenn lagt áherslu á vörugæði, mengunarvarnir og umhverfisvöktun. Hefur hún hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á þeim sviðum. Við verksmiðjuna starfa 90 manns og eru þá ótalin ýmis iðnaðar- og þjónustustörf sem tengjast starfseminni og skipta tugum.
    Nú hefur danskur sementsrisi hafið innflutning á sementi. Í sjálfu sér ætti það ekki að vera í frásögur færandi því Sementsverksmiðjan hefur í 40 ár verið samkeppnishæf við erlent sement þegar tekið hefur verið tillit til flutningskostnaðar. Nú bregður þó öðruvísi við því grunur leikur á að um undirboð sé að ræða. Ef satt er þýðir það að sementsrisinn hefur ákveðið að bjóða sement með miklum afslætti, jafnvel undir kostnaðarverði, til þess að koma Sementverksmiðjunni á knén. Eftir það liggur íslenski sementsmarkaðurinn fanginn og risinn hefur komist í einokunaraðstöðu. Slík mál sem tengjast undirboðum (dumping) eru velþekkt í alþjóðaviðskiptum og eru refsiverð. Sementsverksmiðjan hefur kært þetta meinta undirboð til samkeppnisyfirvalda. Er það mál enn óútkljáð, en á meðan blæðir verksmiðjunni út.
    Sementverksmiðjan er í eigu ríkisins en margt bendir til þess að þeir sem fara með forræðið yfir henni fyrir hönd þjóðarinnar hafi misst áhugann á henni. Er það nokkur þversögn í ljósi þess hve fjálglega hefur verið talað um uppbyggingu iðnaðar hérlendis á síðustu missirum. Hér er nauðsyn að staldra við og rasa ekki um ráð fram. Íslenska þjóðin á heimtingu á því að fá að vita hvað er hér raunverulega á seyði áður en Sementverksmiðjan verður látin fjúka.

Margþætt hlutverk.
    Hráefni Sementsverksmiðjunnar er alíslenskt, skeljasandur, líparít og basaltsandur. Aðalorkugjafinn er innflutt kol, en framleiðsla sementsins fer fram við gríðarlega hátt hitastig, 1.450 gráður á Celsíus. Sá mikli brennsluhiti gefur möguleika á að nýta önnur orkurík úrgangsefni eins og olíu, hjólbarða, plast og annan orkuríkan iðnaðarúrgang án þess að skaðleg efni berist út í andrúmsloftið. Sementsverksmiðjan hefur lagt mikla áherslu á umhverfisstjórnun á framleiðslunni og hreinsun útstreymisins. Brennsla einstakra tiltekinna efna er háð starfsleyfum. Sérfræðingar hollustuverndar hafa náið eftirlit með starfsemi verksmiðjunnar.
Betri nýting orkunnar, aukin fjölbreytni í orkugjöfum og fullkomnari hreinsun útblásturs ásamt meiri rekstrarhagkvæmni verksmiðjunnar hlýtur að vera markmið allra. Þess vegna hlýtur að verða að kanna framtíðarmöguleika Sementsverksmiðjunnar, m.a. hvað varðar brennslu á orkuríkum úrgangsefnum sem annars þarf að flytja úr landi og greiða með háar fjárhæðir í förgunarkostnað.

Alvarlegt tómlæti iðnaðarráðherra.
    
Sementsverksmiðjan heyrir beint undir iðnaðarráðherra sem virðist afar fáskiptinn um hagsmuni hennar. Þetta skýtur skökku við stefnu ráðuneytisins í öðrum málum þar sem erlendri stóriðju er boðin niðurgreidd orka, opinbert fjármagn, ríkisábyrgðir og ókeypis aðgangur að náttúrauðlindum landsins. Það má ekki vera svo að tískusmekkur ráðherra ráði hvaða iðngreinar fá að sjá til sólar og hverjar ekki.
    Ekkert bendir til þess að sementsverð á Íslandi verði lægra eftir að Sementverksmiðjan er öll. Þvert á móti bendir allt til þess að verðið muni hækka verulega um leið og erlenda sementsrisanum hefur heppnast að ná einokunarstöðu hérlendis. Því er haldið fram að verð innflutta sementsins sé mun lægra en í útflutningslandinu og jafnframt lægra en sementsverð í öðrum löndum sem viðkomandi aðilar flytja út til.

Verjum og eflum Sementsverksmiðjuna.
    
Margt bendir til þess að danski sementsrisinn sé að beita herbragði til að halda niðursettu sementi að Íslendingum og ganga þar með á milli bols og höfuðs á Sementverksmiðjunni. Þá mun lága verðið aðeins endast svo lengi sem Sementverksmiðjunni endist aldur, en eftir það gæti gefist tækifæri til þess að innheimta einokunargróða. Af þessum sökum er nauðsyn að taka þessi mál upp á Alþingi og kanna hvað er raunverulega á seyði. Hér þarf skjót handtök og ekkert fum því verði ekkert að gert er næsta augljóst að framleiðsla sements á Íslandi leggst af. Yrði þá skarð fyrir skildi í íslensku atvinnulífi. Þetta er ekki einkamál Akurnesinga því jafnvel þótt litið sé fram hjá störfunum 90 sem hverfa og versnandi umhverfismálum er sagan ekki öll. Fall Sementverksmiðjunar gæti einnig boðað slæm tíðindi fyrir íslenska húsbyggjendur því svo lengi sem verksmiðjunnar nýtur við ríkir samkeppni í sementssölu hérlendis.
    Til þess að ræða þessi mál efnir Vinstri hreyfingin – grænt framboð til almenns fundar á Akranesi nk. miðvikudagskvöld um málefni Sementsverksmiðjunnar.



Fylgiskjal VII.


Ályktun bæjarráðs Akraness.


(21. nóvember 2002.)



    Bæjarráð Akraness lýsir yfir verulegum áhyggjum af rekstrarvanda Sementsverksmiðjunnar. Auk þess að vera mjög mikilvægur vinnustaður íbúa á Akranesi er enginn vafi á að starfsemi verksmiðjunnar er þjóðhagslega hagkvæm og hlutverk hennar sem iðnfyrirtækis mikið. Það er skoðun bæjarráðs að Sementsverksmiðjan sé ekki í samkeppni á jafnréttisgrundvelli þar sem stórfyrirtæki í Danmörku selur til landsins sement á verði sem er langt undir kostnaðarverði. Má í því sambandi nefna að sement sem flutt er inn til Færeyja er mun dýrara en sement sem sami aðili flytur til Íslands með sama skipi. Tilgangur þessa danska sementsframleiðanda er augljóslega að leggja Sementsverksmiðjuna að velli í þeim tilgangi að komast í markaðsráðandi stöðu. Afleiðingar þess verða tvímælalaust að sementsverð mun hækka verulega. Íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi mega ekki undir neinum kringumstæðum hika við að verja rekstur Sementsverksmiðjunnar og beita til þess nauðsynlegum aðgerðum. Skorar bæjarráð á þessa aðila að grípa nú þegar til nauðsynlegra aðgerða og gera hinum danska sementsframleiðanda ljóst að tilraunum hans til yfirtöku á sementsmarkaðnum á Íslandi verði mætt af fullri hörku á meðan hann stundar óeðlilegt undirboð.



Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hlutinn telur fráleitt að ætla samgöngunefnd að fjalla um frumvarp til fjárlaga við þær kringumstæður sem nú eru varðandi stefnumótun í samgöngumálum í landinu. Sú einkennilega staða er nú uppi að engin gild vegáætlun fyrir árið 2003 liggur fyrir né flugmálaáætlun. Samgönguráðherra hefur boðað að tillaga til þingsályktunar um samræmda samgönguáætlun verði lögð fyrir Alþingi nú á þessu haustþingi og jafnframt að ætlunin sé að afgreiða hana fyrir áramót. Í samræmdri samgönguáætlun verða lögð drög að fjárveitingum til vegamála, flugmála sem og hafna- og siglingamála á næstu árum, þar á meðal því næsta. Það er því ljóst að þrátt fyrir að í gildi séu áætlanir í siglingamálum fyrir næsta ár kunna þær jafnframt að breytast með tilkomu samgönguáætlunar. Af þessu má ljóst vera að meginhluti frumvarpsins er varðar samgönguráðuneytið er í uppnámi og viðbúið að flestir liðir muni breytast.
    Samgönguáætlun er ætlað að vera sá grunnur sem fjárframlög til samgöngumála byggjast á með sama hætti og vegáætlun, hafnaáætlun og flugmálaáætlun áður. Efni hinnar samræmdu samgönguáætlunar er hins vegar enn sem komið er leyndarmál ríkisstjórnarinnar. Það eru því fráleit vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar að ætla samgöngunefnd og þingmönnum almennt að fjalla um og taka afstöðu til fjárlagatillagna sem í raun eru marklitlar þar sem gera má ráð fyrir að þær taki breytingum í samræmi við samgönguáætlun.
    Það er álit minni hlutans að samgöngunefnd sé með öllu ófært að fjalla um eða taka afstöðu til þeirra fjárlagatillagna sem í frumvarpinu birtast og varða vega-, siglinga- og flugmál. Að áliti minni hlutans bar samgöngunefnd að fresta álitsgjöf til fjárlaganefndar þar til samgönguáætlun hefði verið lögð fram og samþykkt af þinginu. Minni hlutinn kynnti þessa afstöðu sína fyrir meiri hluta nefndarinnar sem reyndist annarrar skoðunar. Minni hlutinn skorar því á fjárlaganefnd að fresta afgreiðslu mála sem lúta að samgönguáætlun þar til tillaga til þingsályktunar um samræmda samgönguáætlun hefur verið lögð fram og samþykkt af þinginu. Í framhaldi af því væri síðan nauðsynlegt að afla álits samgöngunefndar að nýju.
    Minni hlutinn vekur athygli á að fjárveitingar til ferðamála eru í engu samræmi við þær gífurlegu tekjur sem atvinnugreinin færir þjóðarbúinu. Þrátt fyrir að menn séu sammála um að enn sé unnt að auka þessar tekjur verulega er ríkisstjórnin ekki tilbúin til að leggja til þá fjármuni sem nauðsynlegir eru til landkynningar og markaðsmála. Samgöngunefnd fjallaði nánast ekkert um fjárþörf og skiptingu fjár til ferðamála, sem er í fullkomnu ósamræmi við mikilvægi málaflokksins. Framlög skortir til þróunar- og frumkvöðlastarfs og ekki hvað síst til eflingar og reksturs upplýsingamiðstöðva ferðamála víðs vegar um landið. Minni hlutinn bendir sérstaklega á nauðsyn þess að gera myndarlegt átak til auka fjölda ferðamanna yfir vetrarmánuðina.

19. nóv. 2002.

Jón Bjarnason.