Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 487  —  1. mál.




Breytingartillaga



við frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Frá Jóni Bjarnasyni, Árna Steinari Jóhannssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni.




Skv. frv.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

Breytingar á sundurliðun 2:
    Við bætist nýr fjárlagaliður:
     02-364 Framhaldsskóli Snæfellinga
    1.90 Undirbúningur          0,0     80,0     80,0
     Greitt úr ríkissjóði          0,0     80,0     80,0

Greinargerð.


    Framboð menntunar leggur grunn að samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu á hverjum stað. Það er bæði félagslegur og fjárhagslegur ávinningur að halda fjölskyldum sem lengst saman. Sjálfræðisaldur hefur verið hækkaður í 18 ár og foreldrar eru mun síður reiðubúnir en áður að senda börn burt frá sér um 16 ára aldur. Mjög reynir á ungt fólk á þessum árum en það er stór þáttur í lífskjörum að fjölskyldan geti verið sem lengst saman og æskufólkið fái þannig hvatningu og stuðning í námi. Aukið námsframboð í heimabyggð styrkir sjálfsímyndina og hefur feikileg margfeldisáhrif. Því öflugri grunnmenntun sem er í byggðarlaginu þeim mun meiri möguleikar eru á framboði af símenntun, endurmenntun og háskólamenntun fyrir aðra íbúa. Framfarir í fjarskiptatækni gefa fjölbreytta möguleika og aukinn stuðning í öllu menntunarstarfi. Því er fullkomlega eðlilegt að þau sveitarfélög sem eiga þess kost reyni að koma upp framhaldsskóla.
    Sveitarstjórnir Snæfellsbæjar, Grundarfjarðar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar hafa á undanförnum árum í samvinnu við menntamálaráðuneytið unnið að hugmyndum um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Einhugur er meðal sveitarfélaganna um málið.
    Nú eru um 350 unglingar í þessum sveitarfélögum á aldrinum sextán ára til tvítugs, sem allir verða að fara burt til framhaldsnáms. Fyrir liggja útfærðar hugmyndir og kostnaðaráætlun til að stofna skólann og hefja undirbúningsstarf miðað við að skólinn taki inn fyrstu nemendurna haustið 2003. Lagt er til að stofnun skólans verði formlega ákveðin og framlag veitt til undirbúnings sem taki mið af því að hann geti tekið til starfa haustið 2003.