Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 499  —  404. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Á eftir orðunum „Vélknúin farartæki á landi“ í 2. málsl. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: önnur en vélsleða og fjórhjól.

2. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu rjúpna og rjúpnaafurða gegn endurgjaldi. Gera má upptækar til ríkissjóðs rjúpur og rjúpnaafurðir sem boðnar eru til sölu eða eru seldar í bága við ákvæði þetta, svo og andvirði þeirrar sölu.
    Bann skv. 1. mgr. nær ekki til innfluttra rjúpna og rjúpnaafurða. Ber innflytjanda og seljanda að tryggja að innfluttar rjúpur og rjúpnaafurðir séu þannig merktar við innflutning og sölu að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 15. október 2008.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 15. október 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um ástand rjúpnastofnsins frá 21. ágúst 2002. Að mati stofnunarinnar hefur rjúpum fækkað verulega á liðnum áratugum, stofnsveiflur eru að sléttast út og rjúpnastofninn virðist vera í sögulegu lágmarki. Það er mat Náttúrufræðistofnunar Íslands að nauðsynlegt sé að grípa til verndaraðgerða og hyggst stofnunin setja rjúpu á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Lagði stofnunin annars vegar til að sala á rjúpu á almennum markaði yrði bönnuð og hins vegar að veiðitími rjúpu yrði styttur. Meiri hluti ráðgjafarnefndar um villt dýr, sem starfar samkvæmt lögum nr. 64/1994, tók í áliti sínu frá 13. september 2002 undir tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skiptar skoðanir voru þó í nefndinni um nánari útfærslu verndaraðgerða.
    Rjúpan er þýðingarmikill fugl í íslensku vistkerfi. Hún er ríkjandi grasbítur meðal hryggdýra á þurrlendi og skipar mikilvægan sess í fæðuvefnum og er m.a. forsenda fyrir tilvist fálka á Íslandi. Breytingar hafa orðið síðustu ár í stofnsveiflum rjúpnastofnsins og eru sveiflurnar að jafnast út, þ.e. dregið hefur úr fjölda rjúpna í hámarksárum en lægðirnar virðast svipaðar og áður. Ekki er vitað hvaða ástæður eru fyrir fækkun rjúpunnar og eru skiptar skoðanir meðal manna um líklegar skýringar. Helstar hafa verið nefndar ofveiði, atburðir í fæðuvefnum eða aukin afföll vegna slysa, svo sem vegna þess að fuglinn flýgur á raflínur og girðingar.
    Samkvæmt núgildandi lögum er rjúpan friðuð en umhverfisráðherra er heimilt að aflétta friðun á tímabilinu frá 15. október til 22. desember ár hvert. Ákvörðun um að aflétta friðun skal m.a. byggjast á því að viðkoma stofns sé nægileg til þess að vega upp á móti afföllum vegna veiða, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Rjúpan er vinsælasta bráð íslenskra skotveiðimanna og síðan 1995 hefur árleg meðalveiði verið um 148.000 rjúpur á ári. Ekki er talið nauðsynlegt að banna rjúpnaveiðar alveg en með hliðsjón af mati Náttúrufræðistofnunar Íslands og ráðgjafarnefndar um villt dýr virðist óhjákvæmilegt að draga úr veiðiálaginu á meðan rjúpnastofninn er í lágmarki. Nú þegar hefur umhverfisráðherra með breytingu á reglugerð nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, bannað rjúpnaveiðar á svæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sem afmarkast í megindráttum af Esjubrúnum og syðri hluta Þingvallavatns í norðri og Sogi og Ölfusá að austan en ljóst er að þar hefur veiðiálag verið mikið. Einnig hefur verið ákveðið að frá og með árinu 2003 og næstu fjögur árin þar á eftir verði einungis heimilt að veiða rjúpur frá 25. október til 12. desember og er veiðitíminn þannig styttur um þrjár vikur. Umhverfisráðuneytið hyggst enn fremur beita sér fyrir því að rannsóknum á rjúpu og vöktun rjúpnastofnsins verði haldið áfram þannig að unnt verði að leggja mat á niðurstöður frá ári til árs og fylgst verði með áhrifum þeirra verndaraðgerða sem gripið verður til.
    Samkvæmt veiðiskýrslum veiða um 10% veiðimanna um helming allra veiddra rjúpna. Bann við sölu á rjúpu mundi draga úr þessum veiðum sem stundaðar eru í atvinnuskyni og þar með úr heildarfjölda veiddra rjúpna. Heimild fyrir slíku sölubanni er ekki í núgildandi lögum. Því er í þessu frumvarpi lagt til að banna sölu á rjúpum og er það liður í aðgerðum til verndar rjúpunni. Lagt er til að bannið verði tímabundið til fimm ára til samræmis við aðrar verndaraðgerðir sem þegar hefur verið gripið til. Að loknu því tímabili ætti að liggja fyrir hvort aðgerðirnar bera árangur og hvort ástæða sé til að halda þeim áfram.
    Að auki er í frumvarpi þessu lagt til að óheimilt verði að stunda veiðar á fjórhjólum eða vélsleðum. Skv. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. gildandi laga er heimilt að nota vélknúin ökutæki og þar á meðal vélsleða og fjórhjól til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Nokkuð hefur borið á því að veiðimenn á slíkum torfærutækjum hafi ekki farið eftir framangreindum reglum, enda er akstur utan vega almennt heimill samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, þegar jörð er snævi þakin og frosin, sbr. 17. gr. laganna. Þó að ljóst sé að ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum gangi framar náttúruverndarlögum að þessu leyti þykir nauðsynlegt í ljósi reynslunnar að herða á þessum takmörkunum og banna þessi farartæki alfarið við veiðar. Með því er leitast við að torvelda för veiðimanns um veiðislóð og minnka það svæði sem hann kemst yfir í einni veiðiferð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að óheimilt verði að stunda veiðar á fjórhjólum og vélsleðum. Er lagt til að þetta gildi almennt um veiðar á landi. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 2. gr.

    Lagt er til að óheimilt verði að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Samkvæmt þessu verður veiðimönnum og öðrum óheimilt að bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir, hvort sem er til einstaklinga, verslana, veitingahúsa, til útflutnings eða á annan hátt. Af þessu leiðir að óheimilt er að hafa rjúpur og rjúpnaafurðir til sölu í verslunum og á matseðli veitingahúsa. Bann þetta nær til allra veiðimanna, hvort sem þeir stunda rjúpnaveiðar aðallega sem tómstundagaman eða í atvinnuskyni, og einnig til þeirra sem selja bráð sem aðrir hafa veitt. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi, hvort sem um er að ræða hefðbundna sölu gegn staðgreiðslu, reikningsviðskipti, skipti eða annað sambærilegt. Með orðalaginu rjúpur og rjúpnaafurðir er vísað til þess að bannið á við hvort sem bráðin er seld heil eða hún hefur verið verkuð, unnin eða matreidd, svo að eitthvað sé nefnt. Í 3. málsl. 1. mgr. er síðan veitt heimild til upptöku rjúpna og rjúpnaafurða sem seldar eru í bága við ákvæði málsgreinarinnar, svo og andvirði þeirrar sölu.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið er með banninu verið að leitast við að draga úr veiðiálagi á meðan rjúpnastofninn er í lágmarki og um leið að auka þekkingu manna á áhrifum veiða á rjúpnastofninn.
    Þar sem markmið frumvarpsins er að vernda íslenska rjúpnastofninn eru ekki rök til þess að láta sölubann ná einnig til innfluttra rjúpna og rjúpnaafurða. Til að koma í veg fyrir að íslenskar rjúpur séu seldar sem innfluttar er í 2. mgr. gerð krafa um að varan sé þannig merkt við innflutning og sölu að fram komi frá hvaða landi hún er. Bera bæði innflytjandi og seljandi ábyrgð á að þetta sé gert. Að auki gilda um sölu matvæla ákvæði laga um matvæli, nr. 93/1995, og reglugerðar um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, nr. 588/1993, með síðari breytingum, og er ákvæðinu ekki ætlað að hafa áhrif á þær reglur.
    Verndaraðgerðir þær sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum við frumvarpið munu standa yfir í fimm ár og því til samræmis er lagt til að ákvæði þetta falli úr gildi áður en veiðitímabil ársins 2008 getur hafist samkvæmt heimild í 5. tölul. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 15. október 2003. Hafa þau því ekki áhrif á veiðitímabil núlíðandi árs og gefst veiðimönnum því tími til að aðlagast breyttum aðstæðum.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp tímabundið bann við sölu á rjúpum og rjúpnaafurðum. Einnig er lagt til að notkun vélsleða og fjórhjóla við veiðar verði óheimil.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.