Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 415. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 524  —  415. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Með tjöru er í lögum þessum átt við hráa þéttingu tóbaksreyks, vatnsfirrta og nikótínlausa.
    Með nikótíni er í lögum þessum átt við nikótínbeiskjuefni.
    Með kolsýringi er í lögum þessum átt við kolmónoxíð (CO).
    Með innihaldsefnum er í lögum þessum átt við öll efni eða efnisþætti, nema tóbakslauf og aðra náttúrulega eða óunna hluta tóbaksplöntunnar, sem eru notaðir við framleiðslu eða tilreiðslu á tóbaki og er enn að finna í fullunnu vörunni, jafnvel þótt í breyttu formi sé, þ.m.t. pappír, síur, blek og lím.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tjöru- og nikótíninnihald“ í 2. mgr. koma orðin: tjöru-, nikótín- og kolsýringsinnihald.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal viðvörunartexta, stærð þeirra, letur, og annað sem máli kann að skipta, í samræmi við gildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Óheimilt er með öllu að hafa á umbúðum tóbaks texta, heiti, vörumerki, myndir og myndræn eða annars konar tákn sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak.

3. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir 7. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 8. og 9. mgr., og orðast svo:
                  Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks gefi upplýsingar um innihald vörunnar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.
                  Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks leggi fram sýnishorn af vörunni eða geri rannsóknir sem eru nauðsynlegar til þess að meta eiginleika og áhrif hennar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.
     b.      Við 8. mgr. sem verður 10. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Tóbaksframleiðendur standa straum af kostnaði við mælingar og prófanir samkvæmt þessari málsgrein, svo og við upplýsingar og rannsóknir skv. 8. og 9. mgr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði c-liðar 2. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 30. september 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fól tóbaksvarnanefnd að semja drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir í kjölfar gildistöku tilskipunar Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaksvörum, 2001/37/EB, sem verður hluti af EES-samningnum. Tóbaksvarnanefnd skilaði ráðuneytinu drögum að frumvarpi í október 2001 en starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið að endanlegri gerð í samráði við nefndina.
    Frumvarpið á að samræma íslensk lög og stjórnsýslufyrirmæli þessari tilskipun en ákvæði hennar verða útfærð nánar í reglugerðum. Sett hefur verið reglugerð um þau ákvæði sem þegar hafa lagastoð en fyrirhugað er að setja nýja reglugerð eftir gildistöku laga þessara.
    Í forsendum tilskipunarinnar er bent á nauðsyn þess að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum á innra markaði sambandsins vegna mismunandi ákvæða í aðildarríkjunum um framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki. Þar er sagt að setja þurfi um þessi mál sameiginlegar reglur þar sem aðildarríkin geti við sérstakar aðstæður gert þær kröfur sem þau telja nauðsynlegar til að tryggja heilsuvernd. Orðrétt segir: „Gera skal kröfu um vernd á háu stigi að því er varðar heilbrigði, öryggi, umhverfisvernd og neytendavernd, í samræmi við 3. mgr. 95. gr. sáttmálans þar sem sérstaklega er tekið tillit til nýrra framfara sem byggjast á vísindalegum staðreyndum. Þar sem áhrif tóbaks eru sérstaklega skaðleg skal heilsuvernd hafa forgang í þessu samhengi.“
    Með tilskipun 2001/37/EB voru felldar úr gildi tilskipanir 89/622/EBE og 90/239/EBE sem einnig stefndu að samræmingu. Hin fyrri fjallaði um merkingu tóbaks, hin síðari um leyfilegt hámark tjöru sem sígarettur mega gefa frá sér. Nýja tilskipunin fjallar um hvort tveggja en tekur til mun víðara sviðs. Felur hún í sér í senn verulegar breytingar og veigamikil nýmæli. Ákvæði hennar lúta einkum að þrennu:
    Í fyrsta lagi eru í tilskipuninni ný ákvæði um viðvaranir um skaðsemi tóbaks og aðrar upplýsingar á tóbakspökkum. Fela þau m.a. í sér að reitir fyrir viðvaranir stækka mikið frá því sem nú er krafist og fyrirmæli um hönnun og útlit þessara merkinga eru skýr. Krafa um slíkar merkingar er nú í 6. gr. laga nr. 6/2002 og ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um þær í reglugerð. Greininni er lítillega breytt í frumvarpinu til samræmingar. Ákvæði tilskipunarinnar um bann við tilteknum heitum og táknum á umbúðum tóbaks sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak kallar á lagabreytingu hér á landi.
    Í öðru lagi eru nú gerðar veigamiklar kröfur til framleiðenda varðandi upplýsingar um efni í tóbaki (innihaldsefni) og lýsingar á vörunni. Krefja má þá eða innflytjendur um að gera ýmsar prófanir sem lögbær innlend yfirvöld kveða á um til þess að meta magn efna sem tóbak gefur frá sér og til að meta áhrif þeirra á heilsuna. Gert er skylt að krefja þessa aðila um skrá yfir öll innihaldsefni sem þeir nota við framleiðslu tóbaksvöru og því ítarlega lýst hvernig sú skrá skuli úr garði gerð. Í frumvarpinu er heilbrigðisyfirvöldum heimilað að krefjast upplýsinga og rannsókna samkvæmt framansögðu.
    Í þriðja lagi er sett hámark, ekki aðeins á þá tjöru (10 mg) heldur einnig það nikótín (1 mg) og kolsýring (10 mg), sem sígarettur mega gefa frá sér. Þetta kallar ekki á lagabreytingu hér, sbr. 8. mgr. 8. gr. laga nr. 6/2002, sem gefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra almenna heimild til að ákveða með reglugerð hæstu leyfileg mörk skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk í samræmi við gildandi tilskipanir Evrópusambandsins.
    Tilskipuninni í heild og lögleiðingu hennar hér á landi er ætlað að efla tóbaksvarnir.
    Helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru:
          Merkja skal sígarettupakka með upplýsingum um hve mikinn kolsýring hver sígaretta gefur frá sér, til viðbótar við slíkar upplýsingar um tjöru og nikótín.
          Bannað er frá og með 30. september 2003 að hafa á umbúðum tóbaks heiti, vörumerki og annars konar texta eða tákn sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak.
          Tóbaksframleiðendum og -innflytjendum er gert skylt að veita heilbrigðisyfirvöldum upplýsingar um efnainnihald tóbaks svo sem þau mæla fyrir um.
          Tóbaksframleiðendum og -innflytjendum er gert skylt að leggja fram sýnishorn af vörunni eða gera rannsóknir sem heilbrigðisyfirvöld krefja þau um og eru nauðsynlegar til að meta eiginleika og áhrif hennar.
          Tóbaksframleiðendum er gert skylt að standa straum af kostnaði við upplýsingar um efnainnihald tóbaks og rannsóknir á því.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni eru tjara, nikótín og innihaldsefni skilgreind í samræmi við skilgreiningar í tilskipun 2001/37/EB. Auk þess er kolsýringur skilgreindur. Skilgreiningar á þessum efnum eru ekki í núgildandi lögum um tóbaksvarnir.

Um 2. gr.

     Um a-lið: Breytingin á 2 mgr. 6. gr. er í samræmi við það ákvæði tilskipunar 2001/37/EB að merkja skuli sígarettupakka með upplýsingum um hve mikla tjöru, nikótín og kolsýring hver sígaretta gefur frá sér, mælt samkvæmt tilgreindum ISO-stöðlum. Samkvæmt tilskipun 89/622/EBE takmarkaðist þessi skylda við tjöru og nikótín. Breytingin sem hér er lögð til er til skýringar og lagasamræmis.
     Um b-lið: Breytingarnar á 3. mgr. 6. gr. eru annars vegar til þess að ekki fari milli mála að í reglugerð skuli bæði setja ákvæði um viðvaranir skv. 1. mgr. og upplýsingar skv. 2. mgr, en þannig hefur 3. mgr. réttilega verið skilin. Hins vegar þykir rétt að taka fram að reglugerðin eigi að vera í samræmi við gildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, þar sem m.a. eru fyrirmæli um viðvörunartexta, stærð merkinga, letur o.fl., og um mælingar þeirra efna sem 2. mgr. tekur til.
     Um c-lið: Með viðbótinni við 4. mgr. 6. gr. er heimild ráðherra til að fallast á eigin upplýsingar framleiðanda, innflytjanda eða seljanda tóbaks á umbúðum takmörkuð með því að óheimilt verður með öllu að gefa þar í skyn að tiltekin vara sé ekki eins skaðleg og annað tóbak. Á það m.a. við orð eins og „léttur“ (e. „light“, sbr. einnig „ultra-light“), „mildur“ (e. „mild“), „lítil tjara“ (e. „low-tar“) og önnur slík. Þetta er í samræmi við fyrirmæli 7. gr. tilskipunar 2001/37/EB. Bannið er rökstutt með því að orð, nöfn, myndir og tákn á tóbakspökkum, sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak, kunni að villa um fyrir neytandanum og leiða til (óæskilegra) neyslubreytinga. Það hve mikið sé af tilteknu efni í varningnum fyrir notkun ráði ekki eitt úrslitum um hve miklu menn andi að sér af efninu, heldur einnig hitt, hvernig menn reyki og hve háðir þeir séu tóbaki. Sú staðreynd endurspeglist ekki í notkun slíkra orða og tákna og geti það dregið úr áhrifum þeirra merkinga sem krafist er í tilskipuninni. Ákvæðið sem hér um ræðir á að taka gildi 30. september 2003.

Um 3. gr.

     Um a-lið: Breytingin felur í sér að bætt er við 8. gr. laganna tveimur nýjum málsgreinum sem heimila heilbrigðisyfirvöldum að krefja framleiðendur eða innflytjendur tóbaks um upplýsingar um efni í tóbaki og rannsóknir sem eru nauðsynlegar til að meta eiginleika vörunnar og áhrif á heilsuna. Ákvæðin eru í samræmi við 4. og 6. gr. tilskipunar 2001/37/EB en þar er nánar kveðið á um þetta. M.a. á að krefja framleiðendur eða innflytjendur um árlega skrá yfir öll innihaldsefni sem notuð eru við framleiðslu á tóbaki þeirra. Aðildarríkin eiga að tryggja dreifingu þessara upplýsinga með það fyrir augum að fræða neytendur og á grundvelli upplýsinganna á að vinna að sameiginlegri skrá yfir þau innihaldsefni sem heimilt er að nota í tóbak.
     Um b-lið: Breytingin felur í sér að tóbaksframleiðendur skuli greiða kostnað af upplýsingum skv. 8., rannsóknum skv. 9. og mælingum og prófunum skv. 10. mgr. 7. gr.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

    Frumvarp þetta miðar að því að breyta lögum um tóbaksvarnir til samræmis við tilskipun 2001/37/EB frá Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins um framleiðslu, kynningu og sölu tóbaksvarnings. Samkvæmt frumvarpinu geta heilbrigðisyfirvöld krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks gefi upplýsingar um innihald vörunnar og leggi fram sýnishorn af framleiðslunni eða geri rannsóknir sem nauðsynlegar eru til þess að meta áhrif vörunnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tóbaksframleiðendur standi straum af kostnaði við mælingar og prófanir á innihaldi skaðlegra efna í tóbaki, svo og kostnaði við upplýsingagjöf.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs.