Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 533  —  422. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: nema annað rekstrarform hafi sérstaklega verið ákveðið.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Með orðunum stjórn vatnsveitu er í lögum þessum átt við þann aðila sem ber ábyrgð á daglegri stjórn vatnsveitunnar hvort sem um er að ræða sveitarstjórn eða sérstaka stjórn vatnsveitu sem skipuð er skv. 2. mgr. þessarar greinar eða 3. gr.

2. gr.

    4. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Sveitarfélag, sem lagt hefur vatnsveitu, hefur einkarétt á rekstri hennar og sölu vatns á því svæði sem vatnsveitan nær yfir og hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins. Einkaréttinn getur sveitarstjórn framselt stofnun eða fyrirtæki sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til.
    Eigandi vatnsveitu sér um lagningu og viðhald allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, dreifiæða og heimæða. Heimæðar í einkaeigu sem lagðar hafa verið fyrir 1. janúar 1992 verða eign vatnsveitu í framhaldi af endurnýjun á þeim. Eignarhald og viðhaldsskylda á heimæðum skal að öðru leyti haldast óbreytt nema um annað náist samkomulag milli vatnsveitu og eiganda heimæðar.

3. gr.

    5. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Eiganda vatnsveitu er ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé vatnsveitunnar. Ákvæði þetta gildir eingöngu um vatnsveitu sem er ekki sjálfstæður skattaðili og er að öllu leyti í eigu eins eða fleiri sveitarfélaga.

4. gr.

    6. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Eigandi eða rétthafi lóðar við veg eða opið svæði, þar sem dreifiæð liggur, á rétt á að fá eina heimæð lagða frá vatnsveitulögn. Óski hann þess að fá fleiri en eina heimæð inn á lóðina af hagkvæmnisástæðum skal hann hlíta þeim reglum um tæknileg atriði sem stjórn vatnsveitu setur og skal sú heimæð teljast einkaeign hans nema sérstakt samkomulag hafi verið gert um annað. Beiðni um lagningu heimæðar skal send til stjórnar vatnsveitu. Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum eiganda sjálfs skal hann sækja um leyfi til stjórnar vatnsveitu. Eigandi ber sjálfur kostnað af breytingum sem þessum.
    Vatn, sem tekið er úr stofnkrana innan húss, er eingöngu heimilt að nota til venjulegra heimilisþarfa. Að öðrum kosti þarf leyfi stjórnar vatnsveitu. Vatnsinntak skal að jafnaði vera á þeirri hlið húss sem snýr að vatnslögn þeirri sem leggja á heimæð frá nema stjórn vatnsveitu samþykki annars konar fyrirkomulag. Stjórn vatnsveitu er heimilt að gera kröfu um gerð, staðsetningu og frágang inntaksrýmis. Hvers konar tenging dælubúnaðar við heimæð af hálfu eiganda, m.a. til að auka þrýsting vatns, er óheimil nema með sérstöku leyfi.
    Vatnsveitu er skylt að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, enda verði því við komið.
    Réttur til að tengjast vatnsveitu skuldbindur ekki vatnsveitu til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæðum sé ávallt nægilegur. Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar þar sem eigandi óskar eftir vatnsnotkun getur stjórn vatnsveitu sett það skilyrði fyrir lagningu vatnsæða að fyrir fram ákveðinn hluti kostnaðar við lagningu þeirra skuli endurgreiddur af eiganda fasteignarinnar. Sama gildir ef nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsþrýsting til hennar.
    Eiganda ber að greiða gjald fyrir lagningu heimæðar og skal gjaldið og gjalddagi þess ákveðið í gjaldskrá, sbr. 11. gr. Gjaldið skal miðað við gerð, stærð og lengd heimæða og má það nema allt að meðalkostnaði við lagningu heimæða í sveitarfélaginu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heimæðargjald getur fyrst fallið í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis eða úthlutun lóðar sem er í eigu sveitarfélags.

5. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið. Stofn til álagningar vatnsgjalds á allar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
     b.      Orðið „sveitarstjórn“ í 2. mgr. fellur brott.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Vatnsgjald má nema allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Í gjaldskrá er heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur er heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. 1. og 2. málsl. verði þó aldrei hærri en segir í 1. málsl. þessarar málsgreinar. Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

6. gr.

    8. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Þar sem vatn frá vatnsveitu er notað vegna atvinnustarfsemi eða til annars en venjulegra heimilisþarfa er vatnsveitu heimilt að innheimta sérstakt notkunargjald er miðast við notkun mælda í rúmmetrum. Notkunargjald skal að jafnaði innheimta eftir á samkvæmt mældri notkun, en verði því eigi við komið ákveður stjórn vatnsveitu gjaldið samkvæmt áætlaðri notkun.
    Vatnsveita lætur þeim er greiða skulu notkunargjald í té löggilta vatnsmæla þar sem þeim verður við komið en notandi skal sjá fyrir aðstöðu fyrir mæli. Vatnsveita er eigandi vatnsmælanna og skal greitt gjald fyrir leigu mælis samkvæmt gjaldskrá. Óheimilt er að rjúfa innsigli mælis nema með leyfi vatnsveitu.
    Endurgjald hafnarsjóðs til vatnsveitu vegna vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun í rúmmetrum samkvæmt gjaldskrá. Hafnarstjórn ákveður verð fyrir hvern rúmmetra vatns sem seldur er til skipa og báta. Heimilt er að áætla vatnsnotkun ef ekki er unnt að mæla hana.
    Heimilt er í gjaldskrá að skipta greiðendum notkunargjalds í mismunandi gjaldflokka skv. 1. mgr. eftir magni og/eða notkun. Í þeim tilvikum þegar um óvenjumikil kaup á vatni er að ræða eða vatn er keypt til sérstakrar framleiðslu er stjórn vatnsveitu heimilt að gera sérstakt samkomulag við kaupanda um endurgjald fyrir vatnið.

7. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sveitarstjórn annarri sveitarstjórn“ í 1. málsl. kemur: vatnsveita annarri vatnsveitu.
     b.      Í stað „5%“ í 2. málsl. kemur: 7%.

8. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „aukavatnsgjalds“ í 1. mgr. kemur: notkunargjalds.
     b.      Í stað orðsins „aukavatnsgjald“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: notkunargjald.

9. gr.

    11. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Stjórn vatnsveitu skal semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 6.–8. gr. Miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir stofnkostnaði og rekstri hennar, að teknu tilliti til arðgreiðslna skv. 5. gr. Að fenginni staðfestingu eigenda vatnsveitu skal stjórn vatnsveitu auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið er samið í félagsmálaráðuneytinu og byggist það að hluta til á frumvarpi sem félagsmálaráðherra flutti á 127. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Við gerð þess frumvarps sem nú er lagt fram hefur verið tekið tillit til umsagna sem bárust félagsmálanefnd Alþingis um málið og hefur ráðuneytið haft samráð við fulltrúa Samorku, samtök rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna, við frumvarpsgerðina. Varð niðurstaðan af því samráði að leggja til verulega umfangsmeiri breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum, en upphaflega var fyrirhugað. Einnig hefur ráðuneytið átt óformlegt samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um efni frumvarpsins.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða einkum að því að auka sveigjanleika í stjórn og rekstri vatnsveitna. Jafnframt er stefnt að því að einfalda gjaldtökuheimildir vatnsveitna. Loks miða breytingarnar að því að hindra eftir megni sóun neysluvatns. Helstu nýmæli í frumvarpinu eru eftirfarandi:
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða rekstrarform vatnsveitu í eigu sveitarfélagsins. Breytingunni er meðal annars ætlað að tryggja samræmi við ákvæði 3. gr. laganna sem varðar vatnsveitur í eigu tveggja eða fleiri sveitarfélaga.
    Í 2. gr. er mælt fyrir um heimild sveitarstjórnar til að framselja einkarétt sveitarfélags á rekstri vatnsveitu og sölu vatns innan marka sveitarfélagsins til stofnunar eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Framsalið gildir einungis til ákveðins tíma og heimilt er að binda það þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til.
    Í 3. gr. er kveðið á um heimild eiganda vatnsveitu til að áskilja sér árlega allt að 7% arð af eigin fé veitunnar. Samsvarandi heimild er þegar að finna í orkulögum, nr. 58/1967, að því er varðar hitaveitur og rafveitur.
    Í 4. gr. er mælt fyrir um skyldu vatnsveitu til að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, enda verði því við komið. Jafnframt er lagt til að vatnsveita geti krafið einstaka notendur um hluta kostnaðar í þeim tilvikum þegar nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsþrýsting til hennar. Meðal annars getur reynt á ákvæðið vegna krafna um brunavarnir en samkvæmt gildandi lögum ber sveitarstjórn allan kostnað af vatnsöflun vegna brunavarna.
    Í 6. gr. er lagt til að orðið „notkunargjald“ komi í stað „aukavatnsgjalds“ í gildandi lögum og að innheimta megi notkunargjald óháð því hvort notandi greiðir jafnframt vatnsgjald skv. 7. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að notkunargjald sé greitt af allri atvinnustarfsemi sem vatns getur notið og öll notkun vatns til annars en venjulegra heimilisþarfa skuli jafnframt háð notkunargjaldi. Jafnframt er lögð til sú breyting að kveðið verði á um heimild til að skipta greiðendum notkunargjalds í mismunandi gjaldflokka en afnumið er ákvæði um að hámark aukavatnsgjalds skuli miðast við ákvæði í reglugerð sem ráðherra setur. Miðast hámarkið þess í stað við almenn sjónarmið um innheimtu þjónustugjalda.
    Í 9. gr. er lagt til að regla sem nú er í 1. mgr. 7. gr. verði 2. málsl. 11. gr. og byggist ákvæðið á almennum sjónarmiðum um álagningu þjónustugjalda, þ.e. að ekki skuli ákveða í gjaldskrá hærra gjald en sem meðalkostnaði af að veita þjónustuna.
    Í frumvarpinu er miðað við að daglegur rekstur vatnsveitu sé á ábyrgð stjórnar vatnsveitu í umboði sveitarstjórnar og er það í samræmi við ákvæði reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 421/1992, með síðari breytingum. Þar sem svo háttar til að ekki hefur verið kosin sérstök stjórn vatnsveitu fer sveitarstjórn með ákvörðunarvald um málefni vatnsveitu. Sveitarstjórn er heimilt að setja samþykkt um stjórn vatnsveitu þar sem kveðið er á nánar á um heimildir stjórnar vatnsveitunnar.
    Að öðru leyti er vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin er samin með hliðsjón af frumvarpi til raforkulaga sem iðnaðarráðherra lagði fram á 127. löggjafarþingi, þar sem mælt var fyrir um að öll raforkufyrirtæki skyldu vera sjálfstæðir lög- og skattaðilar. Þess eru nokkur dæmi að sveitarfélög reki í einu fyrirtæki eða stofnun rafveitu, hitaveitu og vatnsveitu. Ætla má að á næstu árum muni þessi fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaga taka þátt í samkeppnisrekstri á sviði raforkuframleiðslu og verður þeim þá skylt að halda þeim hluta starfsemi sinnar aðskildum frá þeim rekstri sem þau eiga einkarétt á, þar á meðal rekstri hitaveitu og vatnsveitu. Engu að síður kann að vera hagkvæmt að reka allar þessar veitur í einu fyrirtæki eða stofnun.
    Í 1. mgr. 2. gr. gildandi laga er mælt fyrir um að sveitarstjórn skuli fara með stjórn vatnsveitu í sveitarfélagi. Hefur ákvæðið verið túlkað svo að vatnsveita skuli annaðhvort vera hluti af sveitarsjóði eða rekin sem B-hluta stofnun í eigu sveitarfélags, sbr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Er sveitarfélagi því ekki heimilt að reka vatnsveitu í formi sameignarfélags eða hlutafélags. Í 3. gr. laganna er hins vegar ákvæði sem heimilar sveitarstjórnum að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu og er sveitarstjórnum þá jafnframt heimilt að gera með sér samkomulag um með hvaða hætti veitan skuli lögð og rekin. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalag 2. gr. laganna verði fært til samræmis við orðalag 3. gr. og þar með verði sveitarfélagi í sjálfsvald sett að ákveða rekstrarform vatnsveitu. Með því að gefa rekstrarform vatnsveitna í eigu sveitarfélaga frjálst er verið að koma í veg fyrir að skipta verði veitufyrirtækjum stofnana upp í fleiri en eitt fyrirtæki eða stofnanir verði fyrirhugaðar breytingar á raforkumarkaði lögfestar.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. er efnislega samhljóða 5. gr. gildandi laga en kveðið er á um það nýmæli í 2. málsl. 1. mgr. að sveitarstjórn sem lagt hefur vatnsveitu er heimilt að framselja einkarétt sinn á rekstri vatnsveitu og sölu vatns til stofnunar eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Framsalið gildir einungis til ákveðins tíma og heimilt er að binda það þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í 31. gr. orkulaga er varðar hitaveitur, en ástæða þótti til að takmarka framsalsheimild umfram það sem gert er í orkulögum og er því ekki heimilt að framselja einkaréttinn til einkaaðila eða lögaðila sem ekki eru að meiri hluta í opinberri eigu.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 4. gr. gildandi laga en orðalagi hefur verið breytt með það að markmiði að gera ákvæðið skýrara.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði inn í lögin heimild fyrir eiganda vatnsveitu að áskilja sér ár hvert allt að 7% arð af eigin fé vatnsveitu. Greinin er efnislega samhljóða 1. og 2. gr. laga nr. 78/2001, um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á 126. löggjafarþingi. Greinin er einnig í samræmi við 4. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem segir að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og þeim sé heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið sé í rekstri þeirra. Var því ákvæði ætlað að skjóta stoðum undir framkvæmd sem tíðkast hafði í árabil í rekstri sveitarfélaga þótt ótvíræða lagaheimild til þess hefði vantað í löggjöf. Í áliti meiri hluta félagsmálanefndar með frumvarpi sem varð að lögum nr. 45/1998 segir enn fremur að einnig þurfi að gera breytingar á ákvæðum ýmissa sérlaga til að tryggja enn frekar heimildir sveitarfélaga til að ákveða arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaganna og rekin eru á þeirra ábyrgð. Í samræmi við þessi sjónarmið er lagt til að sett verði skýr almenn heimild um arðgreiðslur vatnsveitna, líkt og þegar hefur verið gert í orkulögum varðandi rafveitur og hitaveitur.

Um 4. gr.

    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 6. gr. gildandi laga en það ákvæði þykir að sumu leyti torskilið og þótti ástæða til að orða það með skýrari hætti, m.a. varðandi gjaldtökuheimildir. Helsta breyting frá gildandi ákvæði felst í því að í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um skyldu vatnsveitu til að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, enda verði því við komið. Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 11. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000. Jafnframt er lagt til að í 4. mgr. komi heimild til að krefja notendur um hluta kostnaðar í þeim tilvikum þegar nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsþrýsting til hennar. Meðal annars getur reynt á ákvæðið vegna krafna um brunavarnir en samkvæmt gildandi lögum ber sveitarstjórn allan kostnað af vatnsöflun vegna brunavarna. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Í a-lið frumvarpsgreinarinnar er lagt til að orðin „og skal við það miðað að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu“ í 1. mgr. falli brott. Hér er þó ekki um efnisbreytingu að ræða þar sem gert er ráð fyrir því í 9. gr. frumvarpsins að regla þessi flytjist í 11. gr. laganna. Að öðru leyti felur greinin eingöngu í sér orðalagsbreytingar til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Að stofni til byggist greinin á 8. gr. gildandi laga en lagðar eru til allnokkrar efnislegar breytingar. Fyrst ber að nefna að í 1. mgr. er lagt til að orðið „notkunargjald“ komi í stað „aukavatnsgjalds“ í gildandi lögum og að innheimta megi notkunargjald óháð því hvort notandi greiðir jafnframt vatnsgjald skv. 7. gr. laganna. Þá er miðað við að notkunargjald skuli greiða af allri atvinnustarfsemi og allri vatnsnotkun til annars en venjulegra heimilisþarfa en vafi hefur leikið á hvort túlka beri 1. mgr. 8. gr. gildandi laga á þann veg að atvinnustarfsemi þar sem vatnsnotkun er lítil skuli undanþegin aukavatnsgjaldi.
    Í 3. málsl. 2. mgr. er kveðið á um að óheimilt sé að rjúfa innsigli vatnsmælis nema með leyfi vatnsveitu. Er hér um að ræða refsivert brot sem varðar sektum skv. 12. gr. laganna nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum.
    Í 4. mgr. er lögð til sú breyting að kveðið verði á um heimild til að skipta greiðendum notkunargjalds í mismunandi gjaldflokka. Jafnframt er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í gildandi lögum að hámark aukavatnsgjalds miðist við ákvæði í reglugerð sem ráðherra setur. Þess í stað er miðað við að ákvörðun notkunargjalds miðist við almenn sjónarmið um álagningu þjónustugjalda, sbr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Greinin felur í sér tvær breytingar. Er annars vegar lagt til að orðalagi verði breytt til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins en hins vegar er lagt til að hámarksarðsemiskrafa við sölu á vatni frá einni vatnsveitu til annarrar hækki úr 5% í 7% til samræmis við 3. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Greinin felur í sér orðalagsbreytingar til samræmis við 6. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Í greininni er lögð til sú breyting frá 11. gr. gildandi laga að í stað þess að sveitarstjórn setji gjaldskrá vatnsveitu skal gjaldskrá samin af stjórn vatnsveitu sem sendir eigendum hennar gjaldskrána til staðfestingar. Jafnframt er lagt til að regla sem nú er í 1. mgr. 7. gr. verði 2. málsl. 11. gr. og byggist ákvæðið á almennum sjónarmiðum um álagningu þjónustugjalda, þ.e. að ekki skuli ákveða í gjaldskrá hærra gjald en nemur meðalkostnaði af að veita þjónustuna.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélagi verði frjálst að ákveða rekstrarform vatnsveitu sem það rekur. Enn fremur er lagt til að eiganda vatnsveitu verði heimilað að áskilja sér arðgreiðslur sem numið geti allt að 7% af eigin fé vatnsveitunnar. Samsvarandi heimild er að finna í orkulögum, nr. 58/1967, að því er varðar hitaveitur og rafveitur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það ekki bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Komi til hækkunar vatnsgjalds af þessum sökum leggst það á allar fasteignir tengdar viðkomandi vatnsveitu.