Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 539  —  66. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögu við sundurliðun 1, tekjur A-hluta. Þá er lagðar til sjö breytingartillögur við sundurliðun 2 sem samtals nema 1.375 m.kr. til hækkunar. Jafnframt eru gerðar breytingar á 3. gr. frumvarpsins, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 220 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.15
Útboðs- og einkavæðingarverkefni. Lagt er til að veitt verði 220 m.kr. fjárheimild vegna kostnaðar við sölu á hlutabréfum ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Um er að ræða kostnað við ráðgjöf, umsjón með sölu og frágang skjala í tengslum við söluna. Áætlaðar sölutekjur ríkisins vegna þessara verkefna eru rúmlega 28 milljarðar kr.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 220 m.kr.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Lagt er til að framlag til framhaldsskóla hækki um 220 m.kr. vegna ófyrirséðrar nemendafjölgunar í haust. Að mati menntamálaráðuneytisins verða 15.768 ársnemendur í skólunum í ár en fjöldi þeirra er áætlaður 15.224 í fjárlögum. Stefnt er að því að auka sveigjanleika í starfsemi skólanna svo að þeir geti brugðist fyrr við frávikum og tryggja með því að útgjöld fari ekki umfram heimild í fjárlögum. Einnig er stefnt að því að yfirfara reiknilíkan framhaldsskóla til að samræma betur framlag fyrir ársnemanda og kostnað við viðbótarnemanda umfram áætlun.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 50 m.kr.
204     Fiskistofa.
        1.01
Fiskistofa. Gerð er tillaga um 50 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar vegna endurmats á ríkistekjum af veiðieftirlitsgjaldi sem renna til fjármögnunar á útgjöldum stofnunarinnar. Um er að ræða leiðréttingu á útgjöldum og tekjum sem láðist að gera ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002 í kjölfar lagasetningar um aukna þátttöku útgerðarinnar í kostnaði við eftirlitsstarfsemi Fiskistofu. Sams konar tillaga er gerð um breytingu á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 455 m.kr.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Lagt er til að veitt verði 410 m.kr. viðbótarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í samræmi við samkomulag milli ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar af eru 260 m.kr. sérstakt framlag í kjölfar endurmats á reiknuðu framlagi vegna breytinga á álagningarstofni fasteignagjalda á landsbyggðinni. Í annan stað er 150 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við húsaleigubótakerfið sem er verkefni sveitarfélaga. Fram til þessa hefur ríkissjóður fjármagnað hluta húsaleigubóta með föstu framlagi. Með samkomulagi því sem gert hefur verið verður húsaleigubótakerfið áfram verkefni sveitarfélaga og fjármagnað af þeim og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en fjárveitingar til þess færast inn í almennt lögbundið framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðsins.
             Í ljósi endurskoðunar á áætluðum skatttekjum ríkissjóðs árið 2002 er lagt til að lögbundið framlag til sjóðsins verði hækkað um 45 m.kr. Framlagið tekur mið af innheimtum skatttekjum ríkisins innan ársins og útsvarsstofni næstliðins árs.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 50 m.kr.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        1.01
Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Gerð er tillaga um að veita Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 50 m.kr. framlag vegna erfiðrar rekstrarstöðu á árinu.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 380 m.kr.
721     Fjármagnstekjuskattur.
        1.11
Fjármagnstekjuskattur. Gerð er tillaga um 80 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir af vaxtatekjum og söluhagnaði. Hækkunin skýrist af meiri eignasölu á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum vegna sölu á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum. Útgjöldin hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem sama fjárhæð færist á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Gerð er tillaga um 300 m.kr. fjárheimild til að mæta kostnaði við úrskurð kjaranefndar um laun heilsugæslulækna. Samkvæmt úrskurðinum gildir hækkun á grunnlaunum frá 1. apríl á þessu ári en aðrar breytingar á kjörum heilsugæslulækna gilda frá 1. nóvember. Töluverð óvissa er um kostnaðaráhrif úrskurðarins þar sem útreikningar eru enn þá í vinnslu.

SKÝRINGAR VIÐ 3. GR.

    Þrjár breytingar eru lagðar til á 3. gr. frumvarpsins sem breytir 5. gr. fjárlaga. Áætlað er að tekjuafgangur á ríkissjóði verði 16,9 milljarðar kr. árið 2002, eða 1,7 milljarðar kr. án hagnaðar af sölu á eignarhlutum í fyrirtækjum. Fjármunarhreyfingar eru áætlaðar samtals 10,6 milljarðar kr., þar af er sala á hlutabréfum og eignarhlutum áætluð 20,9 milljarðar kr. og innheimtar afborganir veittra lána 15,2 milljarðar kr. Á móti kemur að veitt stutt lán verða 16 milljarðar kr. einkum vegna þess að söluandvirði eignarhluta í fyrirtækjum kemur að stórum hluta til greiðslu á árinu 2003, eða 15,6 milljarðar kr. Veitt löng lán eru áætluð tæplega 4,8 milljarðar kr. og kaup hlutabréfa og stofnfjárhluta 4,8 milljarðar kr., þar af er stofnframlag til Seðlabanka Íslands 4,5 milljarðar kr. Þar sem greiðslur tekna af sölu eigna falla til á næsta ári er lagt til að lántökur A-hluta ríkissjóðs verði auknar um 6 milljarða kr. frá því sem áætlað var í frumvarpinu og verði samtals 41,2 milljarðar kr. Afborganir tekinna lána eru áætlaðar 33,6 milljarðar kr. og nettólántökur því 7,6 milljarðar kr. Áformað er að greiða 9 milljarða kr. til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og að staðan við Seðlabanka Íslands batni um 1,8 milljarða kr.
    Þá er lagt til að heimild til að endurlána Háskóla Íslands allt að 650 m.kr. falli niður en í staðinn gerð tillaga um 700 m.kr. lánsfjárheimild í fjárlögum fyrir árið 2003 til að ljúka við Náttúrufræðihús í Vatnsmýrinni. Þar sem lánsfjárheimildin fellur niður breytist samtala í 2. tölul. 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2002 yfir endurlán úr 4.630 m.kr. í 3.980 m.kr.
    Loks er lagt til að heimild til húsbréfaútgáfu verði aukin um 6.020 m.kr. frá því sem áætlað er í fjárlögum sem er 4.000 m.kr. hækkun frá því sem áætlað var í frumvarpinu. Endurskoðaðar áætlanir Íbúðalánasjóðs sýna að útgáfa húsbréfa verður talsvert meiri en gert var ráð fyrir. Skýringanna er helst að leita í því að hámarksfjárhæðir voru hækkaðar í maí 2001 og að fallið hefur verið frá kaupskyldu á félagslegu íbúðarhúsnæði sem hefur komið hreyfingu á markaðinn.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum. Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. des. 2002.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.


Ásta Möller.