Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 573  —  66. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlög yfirstandandi árs gerðu ráð fyrir að útgjöld næmu 239,4 milljörðum kr. og tekjur 257,9 milljörðum kr. Tekjujöfnuður var því áætlaður 18,5 milljarðar kr. Nú liggur fyrir að útgjöld aukast um 11,9 milljarða kr. umfram fjárlög og að áætlað er að tekjurnar nemi 268,2 milljörðum kr. sem er 10,3 milljörðum kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir. Tekjujöfnuður er því áætlaður um 16,9 milljarðar kr. Af þessum tekjuafgangi er gert ráð fyrir að sala eigna skili um 15,2 milljörðum kr. Þó búið sé að „selja“ báða ríkisbankana hefur enn ekki verið gengið frá þeim málum með formlegum hætti og því ríkir enn nokkur óvissa um niðurstöðu ársins.
    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2002 var áætlað að ríkissjóður tæki á árinu löng lán sem næmu 15 milljörðum kr. Nú er ljóst að lántökur verða mun meiri eða sem nemur 41,2 milljörðum kr. Þessu til viðbótar er nú gert ráð fyrir að afborganir lána verði 6,6 milljörðum kr. lægri en áætlað var. Samkvæmt fjárlögum var gert ráð fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður yrði hagstæður um 38,3 milljarða kr. en nú er áætlað að hann verði einungis 3,2 milljarðar kr. Þá er gert ráð fyrir sölu hlutabréfa og eignarhluta fyrir 20,9 milljarða kr. en eins og áður segir ríkir nokkur óvissa um hvenær þeir peningar koma í ríkissjóð.
    Enn einu sinni er ástæða til að ræða tilgang fjáraukalaga og fjármálastjórn þessarar ríkisstjórnar en samt skal á það minnt að í byrjun árs 2001 gaf fjármálaráðuneytið út reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að skilvirkum rekstri ráðuneyta og stofnana þannig að hann verði innan fjárheimilda. Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um ófyrirséða greiðsluskyldu ráðuneyta og stofnana. Þar segir m.a. að „falli greiðsluskylda á ríkissjóð samkvæmt þessari grein [leiti] fjármálaráðherra heimildar Alþingis til greiðslu útgjaldanna í samræmi við nánari fyrirmæli 33. gr., 34. gr. og 44. gr. laga nr. 88/1997“. Í 33. gr. fjárreiðulaganna er kveðið á um að fjármálaráðherra sé skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra í frumvarpi til fjáraukalaga. Það er ljóst að góður ásetningur stjórnvalda um vandaða og skilvirka fjármálastjórn er meira í orði en á borði.
    Við 3. umræðu um frumvarpið leggur meiri hlutinn til útgjaldahækkanir að upphæð 1,3 milljarðar kr. Enn á ný skýtur upp kollinum einkavæðingarnefnd ríkisins sem nú vill fá 220 millj. kr. fyrir kostnað við sölu á hlutabréfum ríkisins. Mönnum er það sjálfsagt í fersku minni þegar óskað var eftir 300 millj. kr. aukafjárveitingu í fjáraukalögum fyrir árið 2001 fyrir svipaðan kostnað. Þá fengust engar skýringar á væntanlegum útgjöldum, ekki frekar en nú. Það er sérkennilegt að við gerð fjárlaga undanfarin ár hefur aldrei verið gert ráð fyrir neinum umtalsverðum kostnaði við sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins þó svo að tekjur af sölunni hafi verið tíundaðar skilmerkilega á gjaldahlið. Þetta er eitt dæmið um sérkennileg vinnubrögð við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Þetta eru ekki ófyrirséð útgjöld og eiga því ekki heima í fjáraukalögum.
    Nú er einnig lagt til að liðurinn „Framhaldsskólar, óskipt“ fái 220 millj. kr. vegna „ófyrirséðrar nemendafjölgunar í haust“ eins og segir í skýringum með tillögunni. Kemur fram að gert er ráð fyrir að nemendur verði 15.768 í ár en áætlað var að þeir yrðu 15.224. Við 2. umræðu um fjáraukalög fyrir hálfum mánuði síðan var óskað eftir 40 millj. kr. aukafjárveitingu „vegna óvissu um fjölda nemenda í framhaldsskólum“ eins og segir í skýringum. Var það talið samsvara 80 heilsársnemendum. Eftir endurtalningu eru þeir hins vegar 464 fleiri. Er þetta trúverðugt? 1. minni hluti gerir ekki athugasemdir við að aukið fé skuli veitt til menntamála en ástæða er til að gera athugasemdir við stjórn menntamálaráðuneytisins á fjármálum skólanna. Ljóst er að rekstrarforsendur margra skóla eru brostnar og skiptir þá engu hverjum er um að kenna. Á sama tíma eru umtalsverðar fjárhæðir ónotaðar á safnliðum menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið getur ekki endalaust skýlt sér á bak við eitthvað reiknilíkan sem augljóslega hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Það er óþolandi að nemendum og starfsfólki einstakra skóla sé haldið í gíslingu vegna þessa. Má benda á að áðurnefnd reglugerð um framkvæmd fjárlaga var sett til að takast á við slík vandamál en augljóslega er ekki vilji til að beita henni í þessu sambandi.
    Loks er lagt til 300 millj. kr. framlag vegna launa- og verðlagsmála til að mæta kostnaði við úrskurð kjaranefndar um laun heilsugæslulækna sem kveðinn var upp 15. október sl. Fram kemur í skýringum að enn er töluverð óvissa um kostnaðaráhrif úrskurðarins þar sem útreikningar eru enn þá í vinnslu. Sérkennilegt er að ekki skuli enn vera búið að reikna út heildaráhrif þessa úrskurðar, m.a. vegna þess að hann hefur einnig veruleg áhrif á fjárlög næsta árs. Eðlilegt er að spyrja hvort ráðuneytið sé ekki í stakk búið til að reikna út slíka samninga, eða er samningurinn of flókinn? Hvort sem svarið er þá er ljóst að þetta er óviðunandi ástand þegar kemur að afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga.
    Á tekjuhlið fjárlaga er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 4,6 milljarða kr. Þar vegur þyngst hækkun á tekjuskatti lögaðila vegna endurmats í kjölfar álagningar í október. Aðrar veigamikla breytingar eru hækkun vaxtatekna af skatttekjum um 1 milljarð kr. og 800 millj. kr. aukinn hagnaður vegna sölu eigna.
    Fyrsti minni hluti ítrekar þá skoðun sína, sem birst hefur í fyrri nefndarálitum um frumvarp til fjáraukalaga, að óþolandi sé að stjórnvöld fari ekki eftir þeim lögum sem Alþingi hefur sett um fjárreiður ríkisins og að þau skuli ekki heldur sjá sóma sinn í að fara eftir reglum sem þau hafa sjálf sett um framkvæmd fjárlaga.

Alþingi, 4. des. 2002.



Gísli S. Einarsson,


frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Margrét Frímannsdóttir.