Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 574  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Frumvarpið sem hér er til umræðu ber með sér að ríkisstjórnin er orðin þreytt. Hún hefur enga stefnu, engin markmið og engan metnað. Henni hefur ekki tekist að greiða niður skuldir í samræmi við þann tekjuauka sem ríkissjóður hefur fengið á undanförnum árum heldur hefur stór hluti hans verið notaður til að standa undir útgjöldum umfram forsendur fjárlaga sem er afleiðing lélegrar fjármálastjórnar undanfarin ár. Það er dapurlegt til þess að vita að þrátt fyrir allt góðærið undanfarin ár er ekki hægt að bæta kjör aldraðra og öryrkja án þess að hækka skatta og valda þar með hækkun á neysluvísitölu sem aftur hækkar skuldir heimilanna. Þetta er ekki stórmannlegt.
    Í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2003 kom fram að víða væri rekstrargrundvöllur stofnana og embætta brostinn. Nú við 3. umræðu verður ekki séð að tekið hafi verið á þessum málum eins og nánar verður vikið að síðar.

Efnahagsforsendur.
    Fjármálaráðuneytið hefur nú endurskoðað þjóðhagsspána sem birt var í október. Ljóst er að efnahagsforsendur ráðuneytisins hafa breyst í veigamiklum atriðum frá því að frumarpið var lagt fram. Nú er talið að samneyslan aukist um 2,25% en í frumvarpi var reiknað með 1% aukningu. Þá er reiknað með að atvinnuleysi muni heldur aukast á næsta ári og verða 2,75% í stað 2,5%
    Nýverið birti Seðlabankinn sína fyrstu þjóðhagsspá sem byggðist í meginatriðum á sömu forsendum og spá fjármálaráðuneytisins. Seðlabankinn hefur ekki birt endurskoðaða spá þannig að ekki liggur fyrir álit annarra hlutlausra aðila á breyttri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Það er mjög alvarlegt mál, að mati 1. minni hluta, að Alþingi hafi ekki aðgang að óháðum aðilum til að meta efnahagsforsendur frumvarpsins.
    Í meðfylgjandi áliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við verðlagsforsendur frumvarpsins og bent á að ekki er tekið tillit til upplýsinga um hækkanir sem nú þegar liggja fyrir. Er þar m.a. bent á áform tryggingafélaga um hækkun iðgjalda og áhrif boðaðra hækkana sveitarfélaga, t.d. á leikskólagjöldum.





Prentað upp.

Breytingar á gjöldum við 3. umræðu.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2003 gerði ráð fyrir að útgjöld ríkisins næmu 253,3 milljörðum kr. Við 2. umræðu voru útgjöldin hækkuð um 4,3 milljarða kr. og nú við 3. umræðu eru útgjöldin enn aukin um 2,5 milljarða kr. Lögð er til hækkun lífeyrisútgjalda og framlaga til hjúkrunarheimila um tæplega 1,7 milljarða kr. samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnar og eldri borgara. Loks hefur ríkisstjórnin séð sóma sinn í að bæta kjör þessa þjóðfélagshóps en líta verður á þessar úrbætur eingöngu sem fyrstu skref í þá átt að bæta skerðinguna sem þessi hópur hefur mátt þola á undanförnum árum.
    Hins vegar bendir 1. minni hluti á að nú við lokaafgreiðslu þessa frumvarps er ljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka á vandamálum í menntakerfinu. Áður hefur verið bent á þann mikla vanda sem framhaldsskólar eiga við að etja og nú bætast við skólar á háskólastigi. Sérstaklega má benda á vanda sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir. Í minnisblaði sem háskólarektor sendi fjárlaganefnd bendir hann á að menntamálaráðherra hafi verið gerð ítarleg grein fyrir alvarlegri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands án þess að viðunandi lausn hafi fengist á henni. Þessa fjárhagsstöðu má m.a. rekja til þess að nemendum hefur fjölgað meira á undanförnum árum en gert var ráð fyrir og að sú launastika sem menntamálaráðuneytið notar til þess að ákveða nemendaframlög hafa ekki hækkað til samræmis við launahækkanir sem kjaranefnd hefur úrskurðað prófessorum og kjarasamninga sem fjármálaráðuneytið hefur gert við félög háskólastarfsmanna. Þetta gerist þrátt fyrir skýlaust ákvæði í samningum við menntamálaráðuneytið um að bæta skuli slíkar hækkanir. Alls er talið að fjárskortur Háskólans nemi um 900 millj. kr.

Tekjuhlið frumvarpsins.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2003 gerði ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs næmu 264 milljörðum kr. Nú við 3. umræðu eru þær hækkaðar um 7,6 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila skili um 3 milljörðum kr. hærri tekjum vegna endurmats ársins 2002 í kjölfar álagningar sem birt var í október. Má í þessu sambandi vekja athygli á að þessi skattur var einnig hækkaður um 4 milljarða kr. í fjáraukalögum fyrir árið 2002. Þetta þýðir að tekjuskattur lögaðila á árinu 2002 var vanáætlaður um 67% í fjárlögum þess árs.
    Þá er gert ráð fyrir að auknir skattar á áfengi og tóbak skili um 1,1 milljarði kr., en þessi hækkun hefur bein áhrif á neysluvísitölu og ein afleiðing þess er að skuldir heimilanna hækka um 2 milljarða kr. Þetta sýnir enn betur nauðsyn þess að endurskoða fyrirkomulag á verðtryggingu lána.
    Á undanförnum árum hafa breytingar á tekjuhlið frumvarpsins verið gagnrýndar af 1. minni hluta fjárlaganefndar. Oftar en ekki hefur tekjuhliðin verið notuð til að ná fram æskilegum afgangi og þar af leiðandi ekki verið trúverðug. Ákvörðun um tekjur ríkissjóðs byggist á ýmsum forsendum fyrir þróun efnahagslífs á næsta ári. Eins og fram kemur í meðfylgjandi áliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptnefndar eru þær forsendur sem tekjuhliðin byggist á afar hæpnar, svo ekki sé meira sagt.

Tillögur Samfylkingarinnar.
    Nú við 3. umræðu leggur Samfylkingin fram breytingartillögur sem miða m.a. að því að bæta stöðu stofnana í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þá eru lagðar til ýmsar breytingar sem miða að því að bæta stöðu þeirra sem minna mega sín í þessu velferðarþjóðfélagi. Þá er einnig gerð krafa um hagræðingu hjá ráðuneytum og lækkun kostnaðar. Alls hækka tillögurnar útgjöld um 2,7 milljarða kr. en á móti koma tillögur um hækkun tekna um 800 millj. kr. og hagræðingar- og sparnaðarkröfur upp á 2,4 milljarða kr., eða samtals 3,2 milljarða kr. Með þessum tillögum er reynt að bæta það sem brýnast er í þessu frumvarpi en það er langt frá því að með samþykkt þeirra væru öll vandamál úr sögunni. Ljóst er að fastatök á ríkisfjármálunum bíða nýrrar ríkisstjórnar.

Aðhald og eftirlit.
    Með þessu frumvarpi er ekki leystur vandi margra ríkisstofnana sem standa höllum fæti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2001 kemur fram að 101 fjárlagaliður af 511 fór fram úr þeim 4% mörkum sem ákveðin voru í reglugerð um framkvæmd fjárlaga og í sumum tilfellum var stofnað til útgjalda langt umfram þau mörk. Það er óraunhæft að flytja svo mikinn halla á milli ára nema ljóst sé að stofnanir getir hagrætt svo í rekstri að þær ráði við slíka skerðingu. Að sama skapi þarf þá að endurskoða rekstrargrunn þeirra stofnana sem safnað hafa upp fjárheimildum. Því er ljóst að endurskoða þarf reglur sem settar hafa verið um flutning fjárheimilda milli ára þannig að takmörk verði sett á heimilaðan flutning.
    Alþingi samþykkir ár hvert fjölda lagabreytinga er varða stofnanir ríkisins. Eftirlitið með framkvæmd laganna er mikilvægur þáttur í allri stjórn á útgjöldum ríkisins til einstakra stofnana og verkefna. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga urðu harðar deilur á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins um upplýsingaskyldu hins síðarnefnda. Var kveikjan að þessum deilum beiðni um 300 millj. kr. aukafjárveitingu til einkavæðingarnefndar ríkisins. Í vinnu fjárlaganefndar nú í haust hefur 1. minni hluti lagt fram fjölmargar beiðnir um upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu sem ekki hafa borist. Dæmi um þetta er m.a. beiðni um upplýsingar varðandi reiknilíkan framhaldsskóla og beiðni um frekari skýringu á tillögu um 220 millj. kr. aukafjárveitingu til einkavæðingarnefndar. Hvorugri beiðninni hefur verið svarað. Þetta er að mati 1. minni hluta mjög alvarlegt mál.
    Fyrsti minni hluti ítrekar það álit sitt sem fram kom við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002 að það sé hlutverk framkvæmdarvaldsins að sjá til þess að vilji Alþingis nái fram að ganga. Nauðsynlegt er að Alþingi sé á hverjum tíma vel upplýst um framkvæmd laga. Það verður síst gert með því að torvelda alþingismönnum aðgang að upplýsingum og jafnvel koma algjörlega í veg fyrir að umbeðnar upplýsingar berist. Slík vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í lýðræðisþjóðfélagi.

Alþingi, 4. des. 2002.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Gísli S. Einarsson.


Margrét Frímannsdóttir.




Fylgiskjal.


Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Mikla veikleika er að finna í tekjuhlið fjárlaga. Afar ótraustar stoðir eru undir þeim tekjuauka sem fjármálaráðherra byggir breytingar á tekjuáætlun á nú við 3. umræðu fjárlaga. Tölurnar virðast tíndar upp úr hatti með það að markmiði að láta þær ganga upp í aukin útgjöld sem stofnað hefur verið til við meðferð fjárlagafrumvarpsins á Alþingi. Tekjuafgangur fjárlaga fyrir næsta ár er því afar ótraustur og ekki til þess fallinn að veita öflugt viðnám við verðbólgu eða efla stöðugleika efnahagslífsins. Fjárlögin í heild, bæði tekju- og gjaldahlið, endurspegla því veika hagstjórn og lausatök á efnahagsmálunum þar sem reynt er að sníða tekjur að útgjöldum.

Mismunandi forsendur Seðlabanka og fjármálaráðuneytis.
    Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka ber ekki saman um veigamiklar stærðir í þjóðhagspám fyrir næsta ár. Þannig gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir 1,75% hagvexti en Seðlabankinn 1,5%. Launabreytingar sem fjármálaráðuneyti áætlar eru 4,25% en Seðlabankinn áætlar 4% og ráðuneytið gerir ráð fyrir 2% breytingu á raunlaunum en Seðlabanki Íslands 1,5%. Seðlabankinn spáir svo 0,25% hærri verðbólgu en fjármálaráðuneytið. Veigamestur munur er þó á atvinnuleysisspá Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 3,25% atvinnuleysi en ráðuneytið 2,75%. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja um atvinnuástandið og að gefnum öðrum stærðum í þjóðhagsspám er nokkuð víst að atvinnuleysið verður mun meira en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir og gæti þar munað um 500 millj. kr. sem vanáætlaðar eru í útgjöldum ráðuneytisins.

Óvissa í verðlagsforsendum frumvarpsins.
    Að mati 1. minni hluta ríkir nokkur óvissa um verðlagsforsendur frumvarpsins, m.a. vegna áforma tryggingafélaga um hækkun iðgjalda og áhrifa boðaðra hækkana sveitarfélaga, t.d. á leikskólagjöldum. ASÍ hefur líka lýst áhyggjum af því að verðhækkanaskriða geti verið fram undan. M.a. hefur komið fram að ýmsir óttast skriðu verðhækkana í kjölfar hækkana á mjólkurvörum um 3% frá og með áramótum. Jafnframt er ekki enn komin fram 12% meðaltalshækkun á húsaleigu í leiguíbúðum sem gæta mun strax í næstu vísitölumælingu. Allt þetta stefnir í hættu verðbólguforsendum fyrir næsta ár og verðlagsmarkmiðum fjárlagafrumvarpsins.
    Benda má einnig á að í forsendum fjárlaga eða öðrum þjóðhagsstærðum er ekki gert ráð fyrir áhrifum af áformum um stóriðjuframkvæmdir sem þó er viðurkennt af fulltrúum fjármálaráðuneytisins að gæti farið að gæta þegar á haustmánuðum á næsta ári. Áhrifin af stóriðjuframkvæmdunum gætu því raskað nokkuð þeim þjóðhagsstærðum sem nú er byggt á.
    Gert er ráð fyrir aukningu í samneyslu, að hún verði 2,25% en upphaflega var gert ráð fyrir 1% aukningu, en að einkaneysla dragist saman um 1,25% í stað 1% árið 2002. Athyglisvert er að í hagspá Búnaðarbankans er gert ráð fyrir 15 milljarða kr. viðskiptahalla á næsta ári, en í forsendum fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 4 milljarða kr. viðskiptahalla árið 2003.

63% vanáætlun á tekjuskatti lögaðila.
    Tekjuafgangur fjárlaga fyrir næsta ár er nú áætlaður 11,5 milljarðar kr., en útgjaldaaukning frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram er 6,8 milljarðar kr. Tekjuauki við 3. umræðu fjárlaga er áætlaður 7,6 milljarðar kr. Furðulegt er að allt í einu hoppi upp úr hatti fjármálaráðuneytisins 3 milljarðar kr. með endurmati á tekjuskatti lögaðila upp á 3 milljarða kr., þannig að tekjuskattur lögaðila hækkar frá fjárlagafrumvarpi úr 5.250 millj. kr. í 8.250 millj. kr. eða um 63%.
    Ástæður þessarar hækkunar er sögð vera endurmat ársins 2002 í kjölfar álagningar sem birt var í október. Þetta vanmat í fjárlagafrumvarpinu er með ólíkindum og ekki til þess fallið að vekja traust á forsendum frumvarpsins þegar áætlanir vegna tekjuskatts lögaðila sveiflast til um 63% á þremur mánuðum.
    Á undanförnum fjórum árum hefur álagning á lögaðila verið um 9–10 milljarðar kr. á ári. Með 30% skatthlutfalli svarar það til þess að skattskyldur rekstrarhagnaður að frádregnu yfirfæranlegu tapi hafi verið um 30–33 milljarðar kr. á ári. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila yrði 5.250 millj. kr. sem með 18% skatthlutfalli á lögaðila svarar til um 29 milljarða kr. skattstofns. Hækkun skatttekna um 3 milljarða kr. svarar til um 16,7 milljarða kr. hækkunar á stofni sem yrði þá alls um 45 milljarðar kr. Athyglisvert er að vegna lækkunar á skatthlutfalli úr 30% í 18% verða tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila miðað við breyttar forsendur nú við 3. umræðu fjárlaga um 8.250 millj. kr. Miðað við 30% skatthlutfall hefðu tekjurnar orðið 13.800 millj. kr. og miðað við 25% skatthlutfall, sem var tillaga Samfylkingarinnar við skattalagabreytinguna á síðasta ári, hefðu tekjur af tekjuskatti lögaðila orðið á næsta ári 11.500 milljarðar kr. Þetta staðfestir enn einu sinni ranga skattastefnu ríkisstjórnarinnar því að lækkun skatthlutfalls á fyrirtæki úr 30% í 18% gagnast fyrst og fremst stórfyrirtækjum, ekki síst tryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum. Svigrúm til þessarar miklu lækkunar á skatthlutfallinu var m.a. fengið með hækkun á tryggingagjaldi sem kemur sér afar illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, en hækkun tryggingagjalds milli áranna 2002 og 2003 er áætluð tæpir 3,8 milljarðar kr. Ástæða er til að ítreka að 25% skatthlutfall í tekjuskatti hefði dugað til að Ísland héldi skattalegu forskoti sínu á aðrar þjóðir. Það hefði þýtt 3,8 milljörðum kr. meiri tekjur í ríkissjóð á næsta ári sem gefið hefði svigrúm til verulegrar lækkunar á tryggingagjaldi sem gagnast vel litlum og meðalstórum fyrirtækjum og lækkana tekjuskatts á einstaklinga og lífeyrisþega.

Verulegar skattahækkanir á einstaklinga og minni fyrirtæki.
    Af 3,8 milljarða kr. hækkun á tryggingagjaldi á næsta ári má rekja 1,8 milljarða kr. hækkun beint til lagabreytinga sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir. Tekjuauki til að mæta auknum útgjöldum sem meiri hluti fjárlaganefndar stendur fyrir er einnig fenginn með því að hætta við þriðjungslækkun stimpilgjalds sem áformað var að tæki gildi á næsta ári. Þessi skattalækkun sem nú er tekin til baka hækkar stimpilgjöld frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir um 900 millj. kr. Samfylkingin er þeirrar skoðunar að stimpilgjöld séu ranglátur skattur og leggist þyngra á fólk í fjárhagsþröng en aðra í samfélaginu og þyngra á lítil fyrirtæki en stór. Samfylkingin lagði til að þegar á þessu ári yrði stigið skref í að afnema stimpilgjöld þannig að þau yrðu lækkuð um þriðjung 1. janúar 2003. Skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjunum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Stimpilgjöld eru líka mjög ósanngjarn skattur á einstaklinga, einkum þá sem eru að koma sér upp húsnæði. Fyrsti áfangi í afnámi stimpilgjalda, sem taka hefði átt gildi nú um áramót en ríkisstjórnin hefur nú fallið frá, hefði því komið sér sérlega vel fyrir fyrirtæki og heimili. Ljóst er að afnám stimpilgjalda mundi sérstaklega gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem geta síður en stærri fyrirtæki leitað eftir lánsfé erlendis. Tekjur af stimpilgjaldi eru áætlaðar 3,3 milljarðar kr. á næsta ári. Samkvæmt lauslega áætluðu mati greiða einstaklingar 35–40% af stimpilgjaldinu eða 1,2–1,3 milljarða kr. en fyrirtæki 60–65% eða um 2–2,1 milljarð kr.
    Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar nú við lokaafgreiðslu fjárlaga upp á 2 milljarða kr. birtast því einkum í 900 millj. kr. hækkun á stimpilgjaldi sem áður var áformað að lækka og í 1.100 millj. kr. hækkun á áfengi og tóbaki sem hefur veruleg verðlagsáhrif og eykur skuldir heimilanna. Auk þess hækkar tryggingagjald milli ára um 3,7 milljarða kr. sem kemur sér afar illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
    Í breyttri tekjuáætlun er einnig gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1 milljarð kr. Sú skýring sem gefin er á þeirri lækkun er aukið atvinnuleysi og minna launaskrið, jafnframt því sem persónuafsláttur er hækkaður um 0,4% (230 millj. kr.) til samræmis við samkomulag við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga. Það vekur líka athygli að gert er ráð fyrir auknum tekjum vegna dráttarvaxta af sköttum á tekjur og hagnað sem færa á ríkissjóði um 1 milljarð kr. til viðbótar 6 milljörðum kr. sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu. Tekjur af dráttarvöxtum milli áranna 2001 og 2002 eru því áætlaðar 7 milljarðar kr. Reikna má með að þessa aukningu á dráttarvöxtum megi rekja til aukinna vanskila fyrirtækja og einstaklinga við ríkissjóð, en ekki fengust á því fullnægjandi skýringar ráðuneytisins í efnahags- og viðskiptanefnd. Vera má líka að þetta sé ein af þeim reikningskúnstum sem nú er beitt til að mæta nærri 7 milljarða kr. auknum útgjaldaáformum stjórnarflokkanna frá því sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.

Ámælisverð vinnubrögð.
    Af hálfu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar eru viðhöfð mjög sérkennileg og ámælisverð vinnubrögð við afgreiðslu á tekjuskattsfrumvarpi sem nú er til meðferðar og getur haft veruleg áhrif á tekjuhlið fjárlaga. Eftir að efnahags- og viðskiptanefnd hafði lokið umfjöllun sinni um tekjuhlið fjárlaga boðaði fjármálaráðuneytið gjörbreytingu á veigamiklu ákvæði í tekjuskattsfrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem nú er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd. Lagðar eru til veigamiklar breytingar á meðferð ónýtts yfirfæranlegs rekstrartaps fyrirtækja sem ekki var gert ráð fyrir í upphafilegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir að teknar verði upp stiglækkandi fyrningar, en með þeirri aðferð eru eignir fyrndar af eftirstöðvum bókfærðs verðs í stað stofnverðs hverju sinni þannig að fjárhæð fyrninga er hæst fyrstu árin og fer síðan lækkandi. Einnig er lögð til veruleg hækkun á fyrningarhlutföllum. Ekkert kostnaðarmat fylgdi þessari breytingu sem getur falið í sér verulega aukið tekjutap fyrir ríkissjóð á næstu árum. Þessi breyting kemur til viðbótar þeirri rýmkun sem felst í frumvarpinu, að fjölga árum sem heimilt er að nýta yfirfæranleg rekstrartöp úr átta í tíu ár. Vegna þeirrar breytingar einnar áætlar fjármálaráðuneytið að hægt sé að reikna með að niðurfellt tap eftir átta ár sé að jafnaði um 1–3 milljarðar kr. Nýting þess á móti hagnaði á níunda og tíunda ári er allt að 1 milljarður kr. sem ætla má að þýði um 200 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs á næsta ári sem ekki er hægt að sjá að gert sé ráð fyrir á tekjuhlið fjárlaga fyrir næsta ár. Heimild til að nýta yfirfæranleg rekstrartöp hefur rýrt skatttekjur ríkissjóðs um hátt í 7 milljarða kr. á ári á undanförnum árum.

Niðurstaða.
    Fyrsti minni hluti telur að endurmeta þurfi málsmeðferð og alla vinnu efnahags- og viðskiptanefndar við umfjöllun á tekjuhlið fjárlaga. Lítill tími gefst til að fjalla um málið eða leita nauðsynlegra gagna og umsagna um einstaka þætti í endurskoðaðri þjóðhagsspá sem áhrif hafa á tekjuhlið fjárlaga. Vinnubrögðin eru því til vansa þar sem stutt og yfirborðsleg umfjöllun nefndarinnar um málið gefur ekki færi á að fjalla um einstaka þætti efnahagsmála eða þjóðhagsstærða eins og nauðsynlegt væri. Á þeim stutta tíma sem nefndin hafði til að fjalla um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins kom í ljós að hún er öll í skötulíki, tekjuaukinn byggður á veikum grunni og ýmsar forsendur þjóðhagsstærða hæpnar.
    Í hnotskurn endurspeglar tekjuhliðin veikleika við hagstjórnina.

Alþingi 4. des. 2002.

Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson.


Fskj. 1.

Fjármálaráðuneyti,
efnahagsskrifstofa:



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fskj. 2.

Fjármálaráðuneyti,
efnahagsskrifstofa:


Skipting tekna ríkissjóðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.