Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 582  —  355. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Árna Guðmundsson frá Lífeyrissjóði sjómanna.
    Umsagnir um málið bárust frá Lífeyrissjóði sjómanna, Sjómannasambandi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, sem fjalla um makalífeyri og rétt til töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur. Réttur til óskerts ævilangs makalífeyris er afnuminn en þeir sem fæddir eru fyrir árið 1945 njóta þó óskerts makalífeyris og ávallt er greiddur óskertur makalífeyrir þegar yngsta barn á framfæri makans er yngra en 19 ára og ef eftirlifandi maki er a.m.k. 50% öryrki. Þeir sem eru fæddir fyrir árið 1965 eiga rétt á ævilöngum makalífeyri en rétturinn fer minnkandi eftir því sem eftirlifandi maki er yngri. Þá er lagt til að öllum sjóðsfélögum verði gefinn kostur á að hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri eða fresta töku hans til 70 ára aldurs með tilheyrandi hlutfallslegri lækkun eða hækkun á lífeyrinum.
    Frumvarpinu er ætlað að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins sem hefur farið versnandi síðustu ár en breytingarnar munu þó ekki leiða til skerðingar á rétti þeirra sem hafa hafið töku lífeyris.
    Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2002.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Árni R. Árnason.Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Guðmundur Árni Stefánsson,


með fyrirvara.Jónas Hallgrímsson.