Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 592  —  359. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sigmar Ármannsson frá Samtökum íslenskra tryggingafélaga, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda og Pál Gunnar Pálsson og Þorstein Marinósson frá Fjármálaeftirlitinu.
    Umsagnir um málið bárust frá Nýsköpunarsjóði, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Seðlabanka Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Fjármálaeftirlitinu og Landssambandi lífeyrissjóða.
    Með frumvarpinu eru álagningarhlutföll eftirlitsskyldra aðila hækkuð samkvæmt niðurstöðu skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins næsta ár.
    Við umfjöllun nefndarinnar var sérstaklega rætt um aukin verkefni Fjármálaeftirlitsins, m.a. vinnu fyrir opinbera aðila og þátttöku í samstarfi fjármálaeftirlita í Evrópu vegna undirbúnings að setningu nýrra laga og reglna. Telur nefndin rétt að viðskiptaráðuneytið fari yfir hver kostnaður eftirlitsins sé við þessi auknu verkefni og hver hann muni verða þegar viðskiptaráðherra leggur næst fram frumvarp til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjaldsins skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þá er ástæða til að ráðuneytið skoði um leið hvernig greitt er fyrir fjármálaeftirlit í nágrannalöndunum.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr. Í stað orðanna „greiða 2/ 3hluta“ í 3. efnismgr. komi: greiða 1 / 5hluta.

    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Árni R. Árnason.



Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.



Guðmundur Árni Stefánsson.


Jónas Hallgrímsson.