Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 440. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 601  —  440. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
    Heimilt er sveitarfélagi að greiða húsaleigubætur til leigjanda sem búa þarf tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem umsækjandi á lögheimili.

3. gr.

    Í stað orðanna „Húsnæðisstofnunar ríkisins“ í 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: Íbúðalánasjóðs.

4. gr.

    3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Umsókn um húsaleigubætur skal hafa borist eigi síðar en 16. hvers greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verða húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Framkvæmd húsaleigubóta hefur verið verkefni sveitarfélaga og fjármagnað af þeim og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Byggist þetta á lagabreytingum sem tóku gildi 1. janúar 1998, en þeim til grundvallar lá samkomulag milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 7. desember 1997. Var samið um og lögfest að ríkissjóður skyldi árlega greiða 280 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna skyldu til greiðslu húsaleigubóta. Fjárhæð þessi breytist árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.
    Að undanförnu hafa fulltrúar ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga átt í viðræðum um breytingar á fjárhagslegum samskiptum aðilanna. Þar hafa verið til umfjöllunar málefni sem tiltekin voru í yfirlýsingu félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. desember 2001. Í 2. lið yfirlýsingarinnar voru aðilar sammála um að hefja athugun á fjármögnun húsaleigubótakerfisins með hliðsjón af umsaminni kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga við greiðslu bótanna og upplýsinga um raunkostnað, m.a. í ljósi reynslunnar af rýmri rétti leigjenda til húsaleigubóta, sbr. lög nr. 52/2001.
    Meginbreytingin sem felst í frumvarpinu er í samræmi við efni viðræðna ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum þessara aðila. Í 1. gr. frumvarps þessa er lagt til að núverandi ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í greiðslu húsaleigubóta verði felld niður. Samhliða verði lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, þar sem lögð verði til hækkun framlags úr ríkissjóði skv. a-lið 8. gr. þeirra laga. Einnig verði lögð til sú breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, að hluta af framlagi ríkissjóðs skv. a-lið 8. gr. laganna verði ráðstafað til úthlutunar framlaga til sveitarfélaga vegna greiðslu húsaleigubóta samkvæmt nánari reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Stefnt er að því að þessar lagabreytingar taki gildi 1. janúar 2003. Enn fremur er áréttað að allar breytingar á lögum eða reglugerðum um húsaleigubætur verði gerðar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Til viðbótar breytingu á 3. gr. laga um húsaleigubætur eru í frumvarpi þessu einnig lagðar til nokkrar aðrar breytingar á lögunum sem skýrðar verða nánar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Á grundvelli viðræðna ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga greiðir ríkið áfram framlag vegna húsaleigubótaverkefnis til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Lagt er til að efni 3. gr. laganna verði fellt brott. Í staðinn verði gerð sú breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, að framlag úr ríkissjóði samkvæmt a-lið 8. gr. þeirra laga hækki og að hluta af heildarframlagi ríkissjóðs verði ráðstafað til úthlutunar framlaga til sveitarfélaga vegna greiðslu húsaleigubóta samkvæmt nánari reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Um 2. gr.

    Lagt er til að lögfest verði heimildarákvæði vegna veikinda umsækjanda eða fjölskyldu hans. Þannig meti sveitarfélögin sjálf í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæða sé til að verða við slíkri beiðni umsækjanda. Ástæða þess að heimild þessi er gefin eru mörg tilvik þar sem annað hjóna eða sambýlisfólks hefur þurft að flytja til höfuðborgarsvæðisins til að fá læknisþjónustu sem það hefur sjálft þurft á að halda eða börn þeirra. Mikill kostnaður er við að reka tvö heimili. Skv. 1. mgr. 4. gr. laganna skulu þeir leigjendur, sem eiga rétt á húsaleigubótum, eiga lögheimili í hinu leigða húsnæði en skv. 7. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, skulu hjón og sambýlisfólk eiga sama lögheimilið. Öðru hjóna er því ókleift að færa lögheimili sitt til að öðlast rétt til húsaleigubóta. Heimildarákvæði þetta getur ekki átt við í þeim tilvikum þar sem umsækjandi á rétt á vaxtabótum og lágmarksleigutími er hér einnig sex mánuðir, sbr. 2. og 3. tölul. 6. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Breyting þessi er í samræmi við breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Um 4. gr.

    Lögð er til breyting á 3. mgr. 10. gr. laganna. Vegna tölvukerfis sveitarfélaga er betra að hafa ákveðinn dag sem síðasta skiladag umsóknar í hverjum mánuði, fremur en að miða við 15 daga fyrir hver mánaðamót. Samkvæmt núgildandi kerfi er þessi síðasti skiladagur ýmist 15. eða 16. hvers mánaðar auk frávika vegna febrúarmánaðar. Húsaleigubætur eru greiddar eftir á og því eðlilegt að gera kröfu um að umsókn berist a.m.k. fyrri hluta þess mánaðar sem sótt er um að greitt verði fyrir. Einnig eru skýrð áhrif þess komi umsókn of seint.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsaleigubætur,
nr. 138/1997, með síðari breytingum.

    Frumvarpið gerir m.a. ráð fyrir að ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í greiðslu húsaleigubóta verði felld brott í samræmi við samkomulag um breytingu á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Frumvarpið sem slíkt hefur því ekki í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð.
    Í fyrrnefndu samkomulagi er hins vegar gert ráð fyrir að framlag ríkisins til húsaleigubóta hækki frá ársbyrjun 2003 um 220 m.kr. og verði samtals 550 m.kr. auk sérstaks 150 m.kr. framlags á árinu 2002. Í samræmi við samkomulagið er lagt til að fjárhæðin verði umreiknuð sem hlutfall af skatttekjum innheimtum í ríkissjóð og bætist við þau framlög ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem reiknuð eru af þeim tekjustofni. Gerð er nánari grein fyrir þeim breytingum í kostnaðarumsögn um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga sem flutt er samhliða þessu frumvarpi.