Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 442. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 603  —  442. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um búnaðargjald, nr. 84 frá 26. maí 1997, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.1. gr.

    Á eftir 4. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Að lokinni álagningu ár hvert skal ríkisskattstjóri láta Bændasamtökum Íslands í té skrá um greiðendur búnaðargjalds eftir sveitarfélögum þar sem fram komi af hvaða búgreinum hver og einn hefur greitt. Skrána er samtökunum aðeins heimilt að nota til að sinna lögbundnum verkefnum sínum og þjónustu við bændur. Óheimilt er að veita öðrum aðgang að skránni. Einstakir greiðendur gjaldsins geta andmælt því við ríkisskattstjóra að nöfn þeirra verði birt í skránni, enda liggi til þess lögmætar ástæður eða sérstakar aðstæður að mati ríkisskattstjóra.

2. gr.

    Viðauki orðast svo:

Hlutfallsleg skipting tekna af búnaðargjaldi.Afurðir

Bændasamtök
Íslands

Búnaðarsambönd

Búgreinasamtök

Bjargráðasjóður
Lánasjóður landbúnaðarins

Alls
Nautgripaafurðir 0,40 0,50 0,10 0,15 0,85 2,00
Sauðfjárafurðir 0,40 0,50 0,15 0,15 0,80 2,00
Hrossaafurðir 0,40 0,50 0,55 0,05 0,50 2,00
Svínaafurðir 0,20 0,15 0,85 0,30 0,50 2,00
Alifuglakjöt 0,20 0,15 0,20 0,95 0,50 2,00
Egg 0,25 0,15 0,90 0,20 0,50 2,00
Kartöflur, rófur 0,45 0,45 0,45 0,15 0,50 2,00
Grænmeti, blóm 0,45 0,45 0,75 - 0,35 2,00
Grávara 0,75 0,15 0,60 - 0,50 2,00
Æðardúnn 0,55 0,35 0,45 0,15 0,50 2,00
Skógarafurðir 0,50 0,15 0,80 0,05 0,50 2,00

3. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. gr. kemur til framkvæmda við ákvörðun fyrirframgreiðslu á árinu 2003 og við álagningu búvörugjalds á árinu 2004 vegna búvöruframleiðslu á árinu 2003.

Greinargerð.


    Á 127. löggjafarþingi var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, með síðari breytingum. Frumvarpið var lagt fram í þeim tilgangi að tryggja að búnaðargjald greiddist eingöngu af framleiðslu en ekki öðrum þáttum, t.d. heildsöluverði, og enn fremur að búnaðargjald reiknaðist aðeins einu sinni af sömu framleiðslu. Meðan frumvarpið var til umfjöllunar í landbúnaðarnefnd Alþingis samþykkti búnaðarþing að óska eftir lækkun gjaldsins úr 2,55% í 2,00% og jafnframt að skipting þess milli gjaldþega breyttist. Erindi þetta var sent landbúnaðarnefnd. Við skoðun á breytingalögunum kemur í ljós að skiptingunni, sem kveðið er á um í viðauka með lögunum, hefur ekki verið breytt. Því er ekki lengur samræmi á milli gjaldprósentu og skiptingar þar sem skiptingin miðast enn við 2,55% gjald þótt álagningin verði nú 2,00%. Tilgangur frumvarpsins er að leiðrétta þetta misræmi.
    Þá var athygli nefndarinnar vakin á því að til að tryggja að skipting gjalds milli búgreina væri rétt væri nauðsynlegt að veita Bændasamtökum Íslands aðgang að upplýsingum um greiðendur búnaðargjalds og af hvaða búgreinum væri greitt.
    Á fund nefndarinnar kom Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökunum. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra og Persónuvernd og haft var samráð við landbúnaðarráðuneytið.
    Fram til 1. janúar 1998 hafði Framleiðsluráð landbúnaðarins með höndum innheimtu svonefndra sjóðagjalda, þ.m.t. gjalda til Búnaðarmálasjóðs, Bjargráðasjóðs, framleiðsluráðsgjalda og neytenda- og jöfnunargjalda, en innheimtumenn ríkissjóðs eftir þann tíma og skipta þeir gjaldinu skv. 6. gr. laga um búnaðargjald milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda, búgreinasamtaka og Bjargráðasjóðs. Við þessa tilfærslu innheimtunnar hafa hagsmunasamtökin ekki lengur aðgang að upplýsingum um hverjir greiða búnaðargjaldið með sama hætti og fyrr. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til tölfræðilegrar úrvinnslu á fjölda þeirra sem stunda mismunandi búgreinar eftir landsvæðum og hver þróunin er. Þá er Bændasamtökum Íslands nauðsynlegt að halda skrá yfir greiðendur gjaldsins svo að þeir geti notið réttinda hjá samtökunum umfram þá sem ekki stunda búnaðargjaldsskylda starfsemi, svo sem fengið sendar upplýsingar og notið lögfræðiráðgjafar. Þá eru viss réttindi tengd greiðslu búnaðargjalds, t.d. greiðsla úr Bjargráðasjóði.
    Í 1. gr. er lagt til að ríkisskattstjóri skuli láta Bændasamtökum Íslands í té upplýsingar um greiðendur búnaðargjalds og af hvaða búgreinum sé greitt. Skrána er samtökunum aðeins heimilt að nota til að sinna lögbundnum verkefnum sínum og þjónustu við bændur og er samtökunum óheimilt að nota upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi sem og að veita öðrum aðgang að þeim. Þá er gert ráð fyrir því að einstakir greiðendur geti andmælt því við ríkisskattstjóra að nöfn þeirra verði birt í skránni, ef til þess liggja lögmætar ástæður eða sérstakar aðstæður að mati ríkisskattstjóra.
    Í 2. gr. er tafla með hlutfallslegri skiptingu tekna af búnaðargjaldi og í 3. gr. er kveðið á um gildistöku greinanna en taflan í viðaukanum þarf að taka gildi á sama tíma og lækkunin á búnaðargjaldinu, sbr. 1. gr. laga nr. 84 26. maí 1997, um búnaðargjald.