Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 606  —  355. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Minni hlutinn mun ekki standa gegn málinu en þó veita því brautargengi með mjög eindregnum fyrirvara og tilvísun í sjónarmið sem margoft hefur verið vakið máls á í umræðum á Alþingi á undanförnum árum. Ástæða þess að undirritaður mun ekki ganga gegn lagabreytingunum er sú að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna á ekki annarra kosta völ lögum samkvæmt en að grípa til ráðstafana til að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins.
    Ljóst er að rúmlega 7,5 milljarða kr. vantar upp á að Lífeyrissjóður sjómanna geti staðið undir skuldbindingum sínum samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt í lok ársins 2001. Heildarskuldbindingar sjóðsins eru um 8,8% meiri en eignir hans og hefur staðan versnað frá því sem var í árslok 2000 þegar mismunurinn var tæp 6%.
    Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða má heildarstaða lífeyrissjóðs aldrei vera verri en 10% af heildarskuldbindingu og jafnframt má staðan ekki vera verri en 5% samfellt í fimm ár. Staða Lífeyrissjóðs sjómanna er að sönnu innan þess ramma sem lögin setja þar sem heildarstaðan er innan 10% markanna og hún var innan 5% markanna fyrir tveimur árum. Í skýrslu Talnakönnunar kemur hins vegar fram að það sé nokkuð ljóst að staðan muni fara niður fyrir þessi mörk á næsta ári.
    Lífeyrisréttindi sjómanna hafa ítrekað verið skert með lögum á undanförnum árum en réttindin voru skert um 11,5% árið 1999 og aftur um 12% árið 2001. Eðlilegt er að spyrja hvers vegna komið sé fyrir Lífeyrissjóði sjómanna eins og raun ber vitni. Ekki er einvörðungu til ávöxtunar á fjármunum sjóðsins að líta heldur ber að beina sjónum að ábyrgð útgerðarmanna og þá ekki síður ríkisvaldsins.
    Á undanförnum þingum hefur Guðjón A. Kristjánsson alþingismaður flutt tillögur um að bæta stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna og hefur hann kallað til ábyrgðar bæði útgerðarmenn til að greiða hærra iðgjald í sjóðinn og ríkisvald til að veita fjármunum inn í sjóðinn vegna vanefnda frá fyrri tíð. Undirritaður hefur ætíð stutt þennan málflutning.
    Fyrst að ábyrgð útgerðarinnar. Ljóst er að Lífeyrissjóður sjómanna þarf öllum öðrum lífeyrissjóðum fremur að axla byrðar vegna örorkugreiðslna. Slysatíðni og ekki síður álag á stoðkerfi líkamans veldur því að sjómenn fara hlutfallslega fleiri á örorku en aðrar stéttir. Óeðlilegt er að sjómenn þurfi á fullorðinsaldri að axla einir þennan kostnað sem hlýst af álagi í atvinnugreininni. Eins og fram kemur í samanburðartöflu í fylgiskjali sem fengin er frá Lífeyrissjóði sjómanna nema greiðslur vegna örorku 43% af öllum greiðslum úr þessum sjóði samanborið við 20–25% úr öðrum stórum lífeyrissjóðum. Af þessu sést að Lífeyrissjóður sjómanna virkar eins og tryggingasjóður fyrir útgerðina. Af þeim sökum er sanngjarnt að atvinnurekendur, í þessu tilfelli útgerðarfyrirtækin, leggi meira af mörkum til lífeyrissjóðsins vegna mikilla útgjalda sem stafa að stórum hluta beinlínis af vinnuaðstæðum sjómanna.
    Ábyrgð ríkisvaldsins í þessum efnum er einnig mikil. Árið 1981 var gert um það sérstakt samkomulag að sjómenn afsöluðu sér tilteknum hlut í fiskverði (2–3%) gegn því að ríkissjóður stæði straum af þeim kostnaði sem hlytist af því að sjómenn gætu látið af störfum við 60 ára aldur. Við þetta samkomulag hefur ríkissjóður ekki staðið. Ítrekað hefur verið gefinn ádráttur um að til greina kæmi stuðningur úr ríkissjóði. Núverandi fjármálaráðherra hefur hins vegar vísað öllu slíku á bug. Minni hlutinn hvetur til þess að sú afstaða verði endurskoðuð.
    Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér nú á réttindum sjóðsfélaga munu ekki leiða til skerðingar á réttindum þeirra sem hafa hafið töku lífeyris og þær breytingar sem gerðar eru á makalífeyri til frambúðar eru aldurstengdar, þannig að þær bitna ekki á þeim sem fæddir eru fyrir 1945, auk þess sem maki mun búa við óskertan lífeyri svo lengi sem hann hefur barn á framfæri yngra en 19 ára eða er 50% öryrki. Þá eru lagðar til breytingar á aldursmörkum við töku lífeyris með hlutfallslegri hækkun eða lækkun á lífeyri eftir því hvenær taka lífeyris hefst. Ljóst er að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna reynir að fara eins mildilegar leiðir til að bæta stöðu lífeyrissjóðsins og unnt er. Með hliðsjón af þessu og að bæði samtök sjómanna og stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna styðja frumvarpið mun minni hlutinn greiða frumvarpinu atkvæði en hvetur jafnframt til þess að málefni þessa lífeyrissjóðs verði skoðuð frá grunni.

Alþingi, 5. des. 2002.Ögmundur Jónasson.

Fylgiskjal.


Lífeyrissjóður sjómanna:

Hátt hlutfall örorkulífeyris – skipting lífeyris eftir tegundum.

    Lífeyrissjóður sjómanna greiddi 975 millj. kr. í lífeyri á árinu 2001 og hækkuðu lífeyrisgreiðslur um rúm 12% frá fyrra ári. Skipting á milli einstakra tegunda lífeyris á árinu var mjög svipuð því sem verið hefur undanfarin ár. Hlutfall örorkulífeyris er hæst eða 43% af heildarlífeyrisgreiðslum. Fróðlegt er að bera saman skiptingu lífeyris eftir tegundum hjá nokkrum lífeyrissjóðum.

Skipting lífeyris eftir tegundum – samanburðartafla.

Skipting lífeyris í % Lífeyrir í
millj. kr.
Ellilífeyrir Örorkulífeyrir Makalífeyrir Barnalífeyrir
Lífeyrissjóður verslunarmanna 62 25 11 3 1.828
Lífeyrissjóðurinn Framsýn 61 30 7 2 1.763
Sameinaði lífeyrissjóðurinn 64 18 16 2 1.210
Lífeyrissjóður sjómanna 42 43 11 4 975
Lífeyrissjóður Norðurlands 55 32 10 3 843
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 50 38 9 3 214
Lífeyrissjóðurinn Lífiðn 51 30 17 2 178
Samvinnulífeyrissjóðurinn 68 16 15 1 716
Lífeyrissjóður Austurlands 43 45 9 3 321
Lífeyrissjóður Vestfirðinga 45 37 14 4 288
Lífeyrissjóður lækna 79 9 12 0 244
Lífeyrissjóður verkfræðinga 76 10 13 1 117
Lífeyrissjóður bænda 71 18 9 2 515
Lífeyrissjóður Suðurnesja 49 40 9 3 421
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 40 45 13 3 243
Lífeyrissjóður Vesturlands 56 34 8 3 250
Lífeyrissjóður Suðurlands 50 39 6 4 143
Lífeyrissjóður Bolungarvíkur 46 40 12 2 43
Allir lífeyrissjóðir samtals (54 sjóðir) 66 16 16 2 22.184

Lífeyrisgreiðslur Lífeyrissjóðs sjómanna 2001 og 2002.

2002 Hlutfall 2001 Breyting milli ára
Ellilífeyrir 485.553.658 42% 410.489.600 18,3%
Örorkulífeyrir 503.265.739 43% 418.880.094 20,1%
Makalífeyrir 124.437.732 11% 107.744.872 15,5%
Barnalífeyrir 40.614.828 4% 38.107.689 6,6%
Samtals 1.153.871.957 975.222.255 18,3%

Fjöldi lífeyrisþega 2001 í nokkrum lífeyrissjóðum.

Lsj.
sjómanna
Lsj.
verslunarm.
Lsj.
Framsýn
Sameinaði lsj. Lsj.
Norðurlands
Lsj. Vestmannaeyja
Ellilífeyrir 1.284 3.010 5.774 1.838 2.228 336
Örorkulífeyrir 882 1.155 1.997 442 1.013 258
Makalífeyrir 499 835 1.108 830 611 118
Barnalífeyrir 507 498 506 175 335 110
Samtals 3.172 5.498 9.385 3.285 4.187 822