Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 622  —  393. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á safnalögum, nr. 106/2001.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason og Þorgeir Ólafsson frá menntamálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á safnalögum. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á eftirlitshlutverki safnaráðs með hliðsjón af setu forstöðumanna svokallaðra höfuðsafna í ráðinu, þ.e. að safnaráð hafi ekki lengur eftirlit með söfnum í eigu ríkisins. Ástæðan er sú að forstöðumenn höfuðsafna, sem öll eru í eigu ríkisins, bera ábyrgð á starfsemi safna sinna gagnvart ráðherra í samræmi við lög sem um söfnin gilda og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Það er því í andstöðu við þá skipan að fela safnaráði sérstakt eftirlitshlutverk gagnvart höfuðsöfnum. Í öðru lagi er lagt til að samræmi milli verkefna og verksviða höfuðsafna verði aukið og loks er lagt til að lögfest verði lagaheimild til þess að greiða kostnað af starfsemi safnaráðs.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 3. gr. Efnismgr. verður svohljóðandi:
    Kostnaður af starfsemi safnaráðs greiðist úr safnasjóði.

    Ólafur Örn Haraldsson, Einar Már Sigurðarson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2002.



Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Kjartan Ólafsson.