Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 346. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 623  —  346. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um félagamerki.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti og Borghildi Erlingsdóttur frá Einkaleyfastofu. Þá barst nefndinni umsögn um málið frá Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Lögmannafélagi Íslands og Samtökum iðnaðarins.
    Frumvarpið, verði það samþykkt, leysir af hólmi lög um almenn gæðamerki, nr. 89/1935. Nauðsynlegt þykir að endurskoða réttarreglur á þessu sviði í heild sinni m.a. með tilliti til lagasamræmingar sem hefur átt sér stað í Evrópusambandinu.
    Nefndin leggur til að tilvísun 2. gr. frumvarpsins til refsiákvæða í lögum um vörumerki verði felld niður en þess í stað verði tekið upp sérstakt refsiákvæði í frumvarpið. Þetta er gert til að tryggja skýrleika refsiheimildarinnar og refsinæmi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      Orðin „m.a. refsiákvæði“ í 2. gr. falli brott.
     2.      Á eftir 9. gr. bætist við ný grein er orðist svo:
                  Sá sem af ásetningi brýtur gegn félagamerkjarétti skal sæta sektum. Eftir atvikum getur refsing verið fangelsi í allt að þrjá mánuði.
                  Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðila framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðilanum sekt enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur hagnast á brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum enda séu brot tengd starfi hjá lögaðilanum.

Alþingi, 9. des. 2002.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.Pétur Blöndal.


Kjartan Ólafsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.Árni Steinar Jóhannsson.