Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 633  —  376. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið en með því eru lagðar til breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997. Með ákvörðun þingsins 28. nóvember sl. var málinu vísað til iðnaðarnefndar Alþingis þrátt fyrir að framkvæmd laganna heyri undir viðskiptaráðherra og því verið eðlilegra að vísa frumvarpinu til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hefur iðnaðarnefnd fjallað um málið og boðað til sín gesti. Með bréfi, dags. 9. desember 2002, vísaði iðnaðarnefnd síðan málinu til efnahags- og viðskiptanefndar til endanlegrar afgreiðslu.
    Með frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að útvíkka starfsheimildir núverandi tryggingardeildar útflutningslána til þess að henni verði unnt að stuðla frekar að íslenskum útflutningi vöru og þjónustu og treysta þannig samkeppnisstöðu íslensks útflutnings. Þá er frumvarpið unnið í samræmi við þær samningsskuldbindingar íslenskra stjórnvalda sem fram koma í leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um lágmarksáhættutímabil.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    
Árni R. Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir skrifar ekki undir álitið.

Alþingi, 9. des. 2002.
Vilhjálmur Egilsson,


form.

Hjálmar Árnason,


frsm.


Einar K. Guðfinnsson.Gunnar Birgisson.


Össur Skarphéðinsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.Fylgiskjal.Álit


um frv. til l. um breyt. á l. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttir frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Guðlaug Stefánsson frá Samkeppnisstofnun, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Úlfar Steindórsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpið miðar að því að víkka út starfsheimildir tryggingardeildar útflutnings frá því sem verið hefur. Komið hefur í ljós að sambærilegar tryggingardeildir á Norðurlöndunum búa við rýmri lagareglur. Frumvarpið hefur þannig að markmiði að treysta samkeppnisstöðu íslensk útflutnings.
    Í 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um þá meginreglu að hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki ESB og EFTA veita eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni, sé ósamrýmanleg framkvæmd EES-samningsins. Á þessu er tekið í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að heimildir tryggingardeildar útflutnings til að veita ábyrgð eða tryggingu skuli takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við framkvæmd laganna að þessu leyti verði unnið samkvæmt leiðbeiningarreglum sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út.
    Þá telur meiri hlutinn afar mikilvægt að þess sé gætt við framkvæmd laganna að tryggingardeildin fari ekki inn á starfssvið fjármálafyrirtækja enda felur útvíkkun starfsheimilda deildarinnar samkvæmt frumvarpinu ekki neitt slíkt í sér.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni R. Árnason og Svanfríður Jónasdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Pétur Blöndal skrifar ekki undir álitið.

Alþingi, 9. des. 2002.

Hjálmar Árnason, form.
Guðjón Guðmundsson.
Ísólfur Gylfi Pálmason.
Kjartan Ólafsson.
Bryndís Hlöðversdóttir, með fyrirvara.
Árni Steinar Jóhannsson, með fyrirvara.