Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 637  —  324. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Í frumvarpinu er lagt til að hátekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 2%, hátekjumörk einstaklinga hækkuð um 2,75%, úr 331.666 kr. í 340.787 kr., lengdur er sá tími sem fyrirtæki geta nýtt eftirstöðvar rekstrartapa úr átta árum í tíu og lagðar eru til heimildir til stiglækkandi afskrifta á lausafé. Allt eru þetta breytingar sem ívilna verulega fyrirtækjum og hátekjufólki. Þessar breytingar eru harðlega gagnrýndar af hálfu samtaka launafólks, ASÍ og BSRB, Öryrkjabandalagsins og samtaka eldri borgara en eru aftur á móti mærðar af samtökum atvinnurekenda og öðrum aðilum sem tala máli stórfyrirtækja og efnameiri hluta samfélagsins. Hækkun á persónuafslætti, um 0,4%, er tilkomin við þrýsting frá samtökum launafólks. 2. minni hluti gagnrýnir framangreindar skattkerfisbreytingar en samanlagt rýra þær tekjur ríkissjóðs verulega.

Enn skortir upplýsingar.
    Við upphaf 2. umræðu um frumvarpið liggja enn ekki fyrir útreikningar frá embætti ríkisskattstjóra um áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna stiglækkandi afskrifta og er það í hæsta máta gagnrýnisvert að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp um umfangsmiklar skattkerfisbreytingar án þess að ítarlegir útreikningar séu fyrir hendi. Í minnispunktum frá fjármálaráðuneytinu frá 4. desember um stiglækkandi afskriftir er gert ráð fyrir að breytt fyrirkomulag leiði til 100–150 millj. kr. tekjutaps fyrir ríkissjóð en „árétta þarf að þessi áætlun er mikilli óvissu háð í báðar áttir“.
    Varðandi væntanlegt tekjutap ríkisins á komandi ári er rétt að minna á að vegna fyrri lagabreytinga sem koma til framkvæmda um þessi áramót er að finna enn frekari skattalækkanir í þágu fyrirtækja. Þannig kemur nú til framkvæmda lækkun tekjuskatts fyrirtækja úr 30% í 18%, sérstakur eignarskattur fyrirtækja fellur niður, eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% og eignarskattur einstaklinga lækkar úr 1,2% í 0,6%. Á móti þessum skattalækkunum hefur síðan áfengis- og tóbaksgjald verið hækkað og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra einnig. Í eftirfarandi töflu má sjá útreikninga fjármálaráðuneytisins á nettóáhrifum framangreindra kerfisbreytinga að teknu tilliti til áætlaðra veltubreytinga og fleira. Áhersla skal lögð á að enn skortir verulega á að allir útreikningar liggi fyrir.*

Millj. kr.
Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 30% í 18% 1. janúar 2002 ** -1.700
Sérstakur eignarskattur fyrirtækja fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -700
Sérstakur eignarskattur einstaklinga fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur einstaklinga lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -1.300
Tryggingagjald hækkar um 0,5% frá 1. janúar 2003 *** 1.800
Persónuafsláttur hækkar um 0,4% frá 1. janúar 2003 -230
Sérstakur tekjuskattur lækkar úr 7% í 5% frá 1. janúar 2003 -300
Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkar 100
Áfengisgjald hækkar 300
Tóbaksgjald hækkar 800
Samtals -1.830
Athugasemdir:
*        Hér er um nettóáhrif að ræða, þ.e. að teknu tilliti til áætlaðra veltubreytinga o.fl.
**     Tekjuskattur samlagsfélaga og sameignarfélaga lækkar úr 38% í 26% 1. janúar 2002.
***    Ríkissjóður undanskilinn.

Sama stefna frá 1991.
    Allar götur frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk lyklavöld í Stjórnarráðinu, fyrst með stuðningi Alþýðuflokks frá 1991 til 1995 og síðan Framsóknarflokks frá árinu 1995, og fram á þennan dag hefur verið fylgt þeirri stefnu í skattamálum að flytja skattbyrðar af stöndugum fyrirtækjum og efnafólki yfir á launafólk. Jafnframt hafa margvísleg þjónustugjöld verið aukin og eru þar alvarlegastar álögur á sjúklinga, bæði vegna stóraukins lyfjakostnaðar og beinnar þátttöku þeirra við læknisverk.
    Skattabreytingar ríkisstjórnarinnar að þessu sinni eru mjög í anda þessarar stefnu, tekjuskattar fyrirtækja lækka en þær skattaívilnanir sem fram koma í þágu launafólks eru óverulegar og hafa verið knúnar fram með félagslegum þrýstingi.
    Til glöggvunar á þeim miklu tilfærslum sem átt hafa sér stað í gegnum skattkerfið frá árinu 1991 og fram á þennan dag er birt hér tafla sem sýnir hvernig tekjuskattur fyrirtækja hefur þróast á þessu árabili í samanburði við tekjuskatta einstaklinga og skattleysismörk.Skattur lagður á

Vegna tekna ársins


Hf., %


Sf., %


Einstak- lingur, %


Þar af ríki, %

Þar af útsvar, %

Persónu-
afsláttur, kr.
Skattleysis-
mörk ellilífeyris-
þega, kr.
Skattleysis- mörk launamanns kr.
Hátekju-
skattur,
%
Hátekju-
mörk á mánuði, kr.
1990 1989 50 50 37,74 30,8 6,94 18.631 49.367 49.367
1991 1990 45 45 39,79 32,8 6,99 21.482 53.988 53.988
1992 1991 45 45 39,79 32,8 6,99 23.377 58.751 58.751
1993 1992 39 41 39,85 32,8 7,05 23.968 60.144 60.144
1994 1993 33 41 41,34 34,3 7,04 23.761 57.477 57.477 5 203.340
1995 1994 33 41 41,84 33,15 8,69 23.930 57.193 57.193 5 207.840
1996 1995 33 41 41,00 33,15 8,78 24.494 58.419 59.310 5 233.820
1997 1996 33 41 41,94 33,15 8,79 24.544 58.522 60.332 5 233.820
1998 1997 33 41 41,98 30,41 11,57 24.544 58.466 60.902 5 233.820
1998 1997 33 41 40,00 29,31 11,57 23.901 58.466 60.902 5 233.820
1999 1998 30 38 39,02 27,41 11,61 23.360 59.867 62.361 7 266.500
2000 1999 30 38 38,00 26,41 11,93 23.329 60.848 63.386 7 273.063
2000 2000 30 38 38,37 26,00 11,96 23.912 62.320 64.916 7 273.063
2001 2000 30 38 38,37 26,00 11,00 24.510 63.878 66.540 7 322.083
2002 2001 30 38 38,76 26,08 12,00 25.245 65.132 67.845 7 331.666
2003 2002 18 26 38,54 25,75 12,79 26.002 67.468 70.279 5 340.787
Heimild: Embætti ríkisskattstjóra, að undanskildum útreikningi á skattleysismörkum.

Víti til að varast.
    Allir gestir efnahags- og viðskiptanefndar sem voru í forsvari fyrir samtök launafólks, öryrkja og eldri borgara í tengslum við frumvarpið mótmæltu skattastefnu ríkisstjórnarinnar harðlega og sögðu að um hana mundi ekki ríkja neinn friður í samfélaginu. Engan þarf að undra hörð viðbrögð við skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Menn gera sér að sjálfsögðu grein fyrir því að ríkisstjórnir undir forsæti Sjálfstæðisflokksins frá 1991 hafa stefnt að því leynt og ljóst að færa fjármögnun velferðarþjónustunnar að verulegu marki út úr hinu eiginlega skattkerfi og yfir í beinar álögur á notendur þjónustunnar. Í skýrslu sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 1998 um einkaframkvæmd innan velferðarþjónustunnar var lögð áhersla á að „sem stærstur hluti tekna rekstraraðila (verði) fenginn með notendagjöldum“. Hér var augljóslega verið að boða skólagjöld og sjúklingaskatta sem valda félagslegri mismunun.
    Þegar líða tók á tíunda áratuginn varð ljóst að aukin misskipting var farin að valda alvarlegri félagslegri mismunun. Í skýrslu sem landlæknisembættið gaf út í apríl 1997 undir heitinu Heilbrigðisþjónustan, árangur og skipulag í nútíð og framtíð segir m.a.: „Gjalda ber varhug við frekari hækkun gjalda eða verulegum þjónustugjöldum, því að í óbirtri rannsókn landlæknisembættisins kemur í ljós að meðal barnafólks, sem hefur lægstar ráðstöfunartekjur á mánuði, er allstór hópur sem hefur frestað eða hætt við að leita læknismeðferðar og taka út lyf vegna fjárskorts.“ Í skýrslunni kemur fram að það er einkum á sviði tannlækninga sem fólk veigrar sér við að leita lækninga. „Hér hefur orðið grundvallarbreyting á, því að fyrri rannsóknir benda ekki til misræmis í aðgengi fólks eftir stéttum og efnum.“

Álögur á sjúklinga afleiðingar skattastefnu.
    Þegar aðstöðugjöld fyrirtækja voru lækkuð á fyrri hluta tíunda áratugarins fylgdu rýrnandi kjör innan velferðarþjónustunnar jafnframt því sem álögur jukust mjög á sjúklinga. Í heilbrigðisþjónustunni hefur þetta leitt til stóraukinna útgjalda fyrir sjúklinga. Í árslok 2001 birti BSRB könnun sem unnin var í samráði við lækna um kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Tekin voru dæmi af sjö sjúklingum sem áttu við mismunandi veikindi að stríða og lagðir fram útreikningar á þróun kostnaðar þeirra á tímabilinu 1990–2001. Öllum þessum sjúklingum var fylgt í gegnum ráðlagða læknismeðferð í eitt ár og haldið til haga kostnaði þeirra yfir árið. Sama eða sambærileg meðferð var skoðuð á fimm ára fresti; 1990,
1996 og 2001. Niðurstaðan var mjög afgerandi. Í öllum tilvikum hafði kostnaður sjúklingsins stóraukist, í sumum hafði hann margfaldast. Samanburður af þessu tagi er alltaf erfiður og í sumum tilvikum kynni að vera um einhverja kostnaðaraukningu að ræða vegna aukinnar meðferðar. Það á t.d. við varðandi lungnaþembu. Þá er á það að líta að í sumum tilfellum er kostnaðarhlutdeild sjúklinga meiri en í þeim dæmum sem notuð voru í könnuninni, í öðrum tilfellum minni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Sjúkdómur 1990 1996 2001 1990–1996 1996–2001 1990–2001
#1 lungnaþemba 8.504 36.927 70.902 334,23% 92,01% 733,75%
#1b nikótínmeðferð sleppt 8.505 36.928 46.380 334,20% 25,60% 445,34%
#2 fjölbreytt vandamál 10.665 37.320 34.886 249,93% -6,52% 227,11%
#3 kransæðasjúkdómur 13.560 24.719 34.475 82,30% 39,47% 154,25%
#4 barn með eyrnabólgu 17.524 22.556 24.342 28,71% 7,92% 38,91%
#5 þunglyndi 19.626 54.527 53.388 177,83% -2,09% 172,02%
#6 ofnæmi 19.481 42.840 57.067 119,91% 33,21% 192,94%
#7 gigt 29.905 43.241 48.563 44,59% 12,31% 62,39%
Heimild: BSRB.

Breytingar á skatteftirliti.
    Í frumvarpinu eru tillögur um breytingar sem lúta að skattaframkvæmdinni. Ríkisskattstjóri varar við fyrirhuguðum breytingum á 4. gr., segir þær „óþarfar og ekki til bóta“. Hér er um það að ræða að færa endanlegt ákvörðunarvald um lágmark reiknaðs endurgjalds í hendur fjármálaráðuneytis en nú hvílir þetta vald hjá ríkisskattstjóra. Samkvæmt frumvarpinu á ríkisskattstjóri að setja fram tillögur sem hljóti staðfestingu ráðuneytis. Ríkisskattstjóri vísar í fyrirkomulag annars staðar á Norðurlöndum þar sem hvarvetna tíðkast að embætti hliðstæð ríkisskattstjóraembættinu setji reglur um skattmat. Sé það hins vegar ásetningur löggjafans að breyta þessu fyrirkomulagi telur embættið að færa eigi gerð reglna um skattmat og reglna um reiknað endurgjald alfarið í hendur ráðuneytisins. 2. minni hluti telur eðlilegast að gerð þeirra reglna sem vísað er til eigi stoð í lögum í ríkari mæli en nú er en telur ekki óeðlilegt að reglur sem gilda um þessi efni séu tengdar pólitískri ábyrgð eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Ljóst er af umsögnum ríkisskattstjóra að æskilegt hefði verið að vinna breytingartillögurnar sem lúta að skattaframkvæmdinni betur og má í því sambandi vísa til umsagnar hans um 8. gr. frumvarpsins sem veitir skattstjóra heimild til að fara með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi. Embætti ríkisskattstjóra leggst ekki gegn þessari lagabreytingu en segir engu síður að ekki sé ástæða „til að gera hana eina út af fyrir sig og ekki fyrr en gerðar eru aðrar nauðsynlegar breytingar á skipulagi skatteftirlits og það fé lagt í skatteftirlit sem það þarf til að það geti orðið með viðunandi hætti.“

Athyglisverð fylgigögn.
    Fylgigögnin með þessu minnihlutaáliti eru frá samtökum launafólks, Öryrkjabandalaginu og samtökum eldri borgara. Þau eru athyglisverð fyrir þær sakir hve samhljóða þau eru. Mjög eindregin afstaða er tekin gegn skattastefnu ríkisstjórnarinnar og er greinilegt að áralöng misréttisstefna er farin að leiða til óþreyju og kröfu um stefnubreytingu í skattamálum og efnahagsmálum almennt.

Alþingi, 10. des. 2002.Ögmundur Jónasson.

Fylgiskjal I.


Umsögn Landssambands eldri borgara.

    Frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur Landssambandi eldri borgara borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 324. mál.
    Tvö meginefnisatriði frumvarpsins vill LEB gera athugasemdir við, þ.e. breytingar skv. 2. grein þess á 8. lið 31. greinar laganna, um tveggja ára lengingu heimilda til þess að nýta fyrra rekstrartap til skattafrádráttar.
    Hitt efnisatriðið er skv. 13. grein frumvarpsins um framlengingu svokallaðs sérstaks tekjuskatts, en jafnframt um lækkun álagsprósentunnar úr 7 í 5%.
    Landssamband eldri borgara telur, að því er varðar þessi tvö efnisatriði um lækkun álagsprósentunnar og framlengingu frestsins til að nýta fyrri töp til skattalækkunar, að þar sé farið alrangt að ef líta eigi til jafnræðissjónarmiða.
    Skattar á rekstraraðilum eru stórlega að lækka um þessar mundir vegna annarra skattalaga breytinga og einnig hafa skattar á lægstu tekjur sífellt verið að hækka að undanförnu vegna lækkandi hlutfalls skattleysismarka miðað við tekjur.
    LEB sýnist því farið alrangt að með þessar tvær meginefnisbreytingar sem frumvarpið felur í sér.
    Að öðru leyti sýnist frumvarpið fyrst og fremst snúast um tækni og framkvæmdalegar breytingar sem LEB gerir ekki athugasemdir við.

Virðingarfyllst
f.h. Landssambands eldri borgara

Benedikt Davíðsson.
Fylgiskjal II.


Umsögn Öryrkjabandalags Íslands.

    Öryrkjabandalagi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Öryrkjabandalag Íslands mótmælir því harðlega að ráðgert skuli að ganga enn lengra í því að auka skattbyrði á öryrkja og nýta þá tekjulind til að létta sköttum af ráðamönnum og öðrum þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Þess vegna leggst Öryrkjabandalagið eindregið gegn því að framangreint frumvarp verði samþykkt og varar þingmenn mjög við þeirri freistingu sem í því er fólgin.
    Athygli vekur að í frumvarpinu er ekki einungis lagt til að hinn sérstaki hátekjuskattur verði lækkaður úr 7% í 5%, heldur einnig að tekjumörkin gagnvart þessu skattþrepi verði enn einu sinni hækkuð hlutfallslega mun meira en skattleysismörk lífeyrisþega, svo mjög að nú lætur nærri að þau hafi náð þingfararkaupi.
    Hafa ber í huga að frá 1992 til 2003 hafa skattleysismörk lífeyrisþega hækkað úr kr. 60.144 í kr. 69.603 á mánuði, eða um 15,7%, sem nær ekki helmingi þess sem verðlag hefur hækkað á sama tíma og er órafjarri almennri launaþróun. Á hinn bóginn er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að hækka tekjumörk hátekjuskatts í rúmar 340 þúsund krónur á mánuði. Samþykki þingmenn þessi áform hafa þeir á umliðnum áratug, frá 1993 til 2003, hækkað þessi tekjumörk úr kr. 203.340 á mánuði í kr. 340.788, eða um 68%, langt umfram þróun verðlags á þessu tímabili og margfalt á við þróun skattleysismarka öryrkja.
    Öryrkjabandalag Íslands skorar á alþingismenn að sýna þá siðferðisábyrgð að létta álögum af öryrkjum áður en þeir lagfæra enn frekar sín eigin kjör.

Fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands,Garðar Sverrisson, formaður.


Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri.
Fylgiskjal III.


Umsagnir Alþýðusambands Íslands.

    Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Meginefni breytingartillögunnar er að teknar verði upp breyttar reglur um fyrningar á lausafé fyrirtækja.
    Alþýðusamband Íslands vill mótmæla þeirri málsmeðferð að breytingartillaga sem þessi skuli lögð fram með litlum fyrirvara og án nokkurs mats á áhrifum þess. Slík málsmeðferð er með öllu óásættanleg.
    Almennt vill Alþýðusambandið mótmæla þeirri þróun sem átt hefur sér stað á liðnum misserum að færa skattbyrði frá fyrirtækjum til almenns launafólks. Í því samhengi skal minnt á ályktun miðstjórnar ASÍ frá 16. október 2002 en þar segir m.a.: „Miðstjórn ASÍ lýsir yfir mikilli óánægju sinni með það óréttlæti sem einkennir tekjuhlið fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar og telur hana leiða til aukins tekjumismunar.
    Á sama tíma og skattaálögur á almennt launafólk eru hækkaðar … eru skattar á hátekju- og stóreignafólk og fyrirtæki lækkaðir … Miðstjórn ASÍ mótmælir þessu óréttlæti harðlega og ítrekar gagnrýni sína á skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi í lok síðasta árs. Augljóst er, að þau varnaðarorð sem þá voru viðhöfð eru nú að líta dagsins ljós.“

    Til upprifjunar skal hér minnt á að í umsögn ASÍ dagsettri 7. nóvember 2001 um þær tillögur til skattkerfisbreytinga sem þá voru til umfjöllunar hjá Alþingi sagði m.a.: „Alþýðusambandið hefur sett fram alvarlega gagnrýni á fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar og telur að með þeim sé vegið að kjörum almenns launafólks. Kjarni þeirrar gagnrýni sem Alþýðusambandið hefur sett fram er í raun þríþættur en snýst í grundvallaratriðum um að verði þessar tillögur að lögum, sé verið að færa skattbyrðina yfir á laun og vinnu, af eignum og fjármagni.
    Alþýðusambandið vill vekja athygli á að ef svigrúm hefur skapast til skattalækkana þá hefur það svigrúm orðið til við það að skattleysismörk hafa ekki hækkað í takt við laun á undanförnum árum þó að þau hafi hækkað í takt við umsamin laun eftir að ríkisstjórnin féllst á þá kröfu ASÍ við gerð kjarasamninga 2000.“

    Vegna þess mikla ágreinings sem er um stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum fyrirtækja telur Alþýðusamband Íslands ekki ástæðu til þess að taka efnislega afstöðu til þeirra afmörkuðu þátta sem þetta frumvarp fjallar um. Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að tekin verði upp opin umræða um skattkerfi bæði fyrirtækja og einstaklinga, með það að markmiði að ná breiðari sátt um skattkerfið. Augljóst er að slík sátt er ekki til staðar og áskilur ASÍ sér rétt til þess að beita sér fyrir slíkri umræðu á næstu mánuðum.

f.h. Alþýðusambands Íslands

Grétar Þorsteinsson,
forseti ASÍ.


    Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 324. mál.
    Frumvarpið snýr að því að hækka persónuafslátt vegna tekjuársins 2003 um 0,4% eða úr 26.718 krónum í 26.825 krónur.
    Alþýðusamband Íslands lýsir sig fylgjandi umræddri tillögu enda er hún í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2000, sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamninga það ár.

f.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason,
deildarstjóri hagdeildar.


    Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um tekjuskatt og eignarskatt, 324. mál.
    Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
     *      Að heimilt verði að nýta eftirstöðvar rekstrartapa í tíu ár í stað átta.
     *      Að framlengja sérstakan tekjuskatt um eitt ár og lækka skatthlutfallið jafnframt úr 7% í 5%.
     *      Að breyta vaxtaákvæðum laganna til samræmis við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
     *      Breytingar sem snúa beint að skattaframkvæmdinni.
    Alþýðusambandið telur óeðlilegt að auka möguleika fyrirtækja til að komast hjá greiðslu tekjuskatts með því að heimila þeim að nýta yfirfæranlegt tap í tíu ár í stað átta. Þessa breytingu verður að skoða í því samhengi að tekjuskattshlutfall lögaðila hefur verið lækkað verulega og er nú aðeins 18%. Þetta hefur leitt til þess að tekjuskattur lögaðila sem hlutfall af heildarskatttekjum ríkissjóðs hefur lækkað umtalsvert á liðnum árum. Þannig nam tekjuskattur lögaðila 4,8% af heildarskatttekjum ríkissjóðs árið 2000 en stefnir í að vera um 2,3% á næsta ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga.
    Samkvæmt frumvarpinu er einnig lagt til að sérstakur tekjuskattur verði framlengdur um eitt ár en skatthlutfallið lækki úr 7% í 5%. Alþýðusambandið telur eðlilegt að þessi skattur verði framlengdur en telur eðlilegra að lækka skattbyrði á almennt launafólk frekar en hátekjufólk.
    Almennt má segja um framangreindar tillögur að þær hafa í för með sér lækkun á sköttum fyrirtækja og hátekjufólks. Á sama tíma er verið að auka skattbyrði á almennt launafólk með því að láta skattleysismörk ekki halda í við almennar launabreytingar. Almennt launafólk er því að greiða sífellt stærri hluta tekna sinna í tekjuskatt.
    Alþýðusambandið gerir ekki athugasemdir við önnur atriði frumvarpsins.

f.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason,
deildarstjóri hagdeildar.
Fylgiskjal IV.


Umsögn BSRB um frumvarp til laga um tekjuskatt og eignarskatt, 324. mál.
(3. desember 2002.)

     1.      Við afnám á verðleiðréttum skattskilum fyrirtækja var horfið frá skattlagningu á raunverðsafkomu yfir í skattlagningu á nafnverðsafkomu. Skattbyrði fyrirtækja ræðst því nú af verðbólgu að þessu leyti, en í því sambandi má benda á að launafólk hefur mátt þola að vera háð verðbólgustiginu varðandi skattbyrði sína þar sem skattleysismörk hafa ekki hækkað í samræmi við verðlag.
             Í frumvarpinu er lagt til að komið sé til móts við fyrirtækin vegna niðurfellingar verðbólguleiðréttinga með því að hækka afskriftahlutföll og heimila stiglækkandi afskriftir á lausafé þannig að fyrningar fyrstu árin verði meiri. Jafnframt er lagt til að nýta megi yfirfæranlegt tap tíu ára í stað átta. Þannig er fyrirtækjum gert kleift að lækka tekjuskattsstofn sinn á sama tíma og eignarskattsstofn fyrirtækjanna lækkar.
             Samhliða afnámi verðleiðréttra skattskila var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%. Í ljósi þess að tekjuskattur lögaðila, sem hlutfall af heildarskatttekjum ríkissjóðs, helmingast frá 2000 til 2003 vill BSRB benda á uppsafnaða þörf, frá upptöku staðgreiðslunnar, fyrir leiðréttingu á skattbyrði launafólks vegna áhrifa verðlags.
     2.      Í frumvarpinu er einnig lagt til að persónuafsláttur vegna tekjuársins 2003 hækki um 0,4% umfram fyrri ákvörðun til samræmis við umsamdar almennar launahækkanir á árinu. BSRB styður þá tillögu og að sérstakur tekjuskattur verði framlengdur um eitt ár.
             BSRB leggst hins vegar gegn því að sérstakur tekjuskattur lækki um 2%, fari úr 7% í 5%, og að skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar sé þannig lækkuð sérstaklega umfram annað launafólk.
     3.      BSRB gerir ekki athugasemdir við önnur atriði frumvarpsins.

f.h. BSRB

Gunnar Gunnarsson hagfræðingur.