Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 647  —  387. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um framkvæmdir við viðhaldsverkefni.

     1.      Telur ráðherra það brjóta í bága við lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, að undanskilja framkvæmd laganna almennt og reglubundið viðhald, sem felur ekki í sér breytingu mannvirkis, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 715/2001, um skipulag opinberra framkvæmda, sbr. athugasemdir efnahags- og viðskiptanefndar í bréfi til ráðherra, dags. 30. apríl sl.? Ef svo er, hvernig hyggst ráðherra bregðast við því?
    Hinn 21. september 2001 setti fjármálaráðuneytið reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda, nr. 715/2001. Reglugerðin var sett með heimild í 23. gr. laga nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda. Í reglugerðinni er mælt fyrir um ítarlegri undirbúning opinberra framkvæmda, ásamt því að málsmeðferð, hlutverk og ábyrgðarskipting þeirra aðila er koma að slíkum framkvæmdum var skilgreind með skýrari hætti en verið hafði.
    Við samningu reglugerðarinnar var talið að merking hugtaksins „viðhald“ hefði það víðtæka og óljósa skírskotun að heimilt væri í reglugerð að mæla nánar fyrir um það hvers konar viðhald félli undir gildissvið hennar. Í reglugerðinni var því farin sú leið að undanskilja þá tegund viðhalds sem á sér stað með jöfnum og reglubundnum hætti út líftíma eignarinnar og hefur það að markmiði að viðhalda fasteign í óbreyttu ástandi. Annað viðhald, svo sem meiri háttar viðhaldsframkvæmdir og endurbætur sem hafa í för með sér breytingar á fasteign, félli áfram undir lög um skipan opinberra framkvæmda. Með því að undanskilja almennt og reglubundið viðhald þyrfti ekki að fara með slíkar viðhaldsframkvæmdir í gegnum hina ítarlegu málsmeðferð sem mælt er fyrir um í lögunum og reglugerðinni.
    Eftir að ráðuneytinu bárust athugasemdir efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 30. apríl sl., varðandi 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar tók ráðuneytið þá ákvörðun að fá utanaðkomandi álit á því hvort það stæðist lög um skipan opinberra framkvæmda að undanskilja almennt og reglubundið viðhald gildissviði hennar. Ákveðið var að fá Othar Örn Petersen hæstaréttarlögmann til að vinna lögfræðiálit fyrir ráðuneytið, en hann hefur mikla reynslu af þessu sviði réttarins. Í áliti hans, sem barst ráðuneytinu 11. október sl., kemst hann að þeirri niðurstöðu að ákvæðið samrýmist ekki lögunum og að nauðsynlegt sé að breyta annaðhvort lögum um skipan opinberra framkvæmda eða umræddu ákvæði reglugerðarinnar.
    Varðandi viðbrögð ráðuneytisins við álitinu er vísað til svars við næstu spurningu.

     2.      Hefur ákvæðum reglugerðar nr. 715/2001 verið breytt í kjölfar fyrrgreindra athugasemda efnahags- og viðskiptanefndar? Ef svo er ekki, hver er ástæða þess?
    Eftir að ráðuneytinu barst framangreind álitsgerð var tekin sú ákvörðun í ráðuneytinu að breyta reglugerðinni á þá leið að 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. hennar sem undanskilur almennt og reglubundið viðhald sem ekki felur í sér breytingu á mannvirki var felld brott, sbr. reglugerð nr. 834/2002. Um almennt og reglubundið viðhald fer því nú með sama hætti og áður en reglugerðin tók gildi.

     3.      Hve mörg eru viðhaldsverkefni á vegum ríkisins á þessu ári og hvað kosta þau? Hve mörg þeirra teljast almennt og reglubundið viðhald þar sem kostnaður ríkisins nemur a.m.k. 5 millj. kr. og hver er heildarkostnaður við þau?
    Kostnaður vegna viðhaldsverkefna einstakra mannvirkja getur numið allt frá nokkrum tugum þúsunda til tuga milljóna króna á ári. Mikill fjöldi mannvirkja er í ríkiseigu og er meginreglan að umsjónaraðilar þeirra séu hlutaðeigandi stofnanir eða starfsemi sem nýtir viðkomandi eignir nema umsýslan hafi sérstaklega verið færð til Fasteigna ríkissjóðs sem sjá um viðhald og rekstrarkostnað húsnæðisins og innheimta í staðinn leigu af hlutaðeigandi stofnun til að standa undir framangreindum kostnaði. Ákvarðanir er varða almennt viðhald og rekstrarkostnað mannvirkjanna eru í höndum viðkomandi umsjónaraðila enda séu fjárheimildir fyrir hendi.
    Fjárheimildir til alls viðhalds á þessu ári nema samtals um 5.735 millj. kr. Í þeim fjárheimildum er að finna allt viðhald ríkisins jafnt á húsbyggingum sem öðrum mannvirkjum, vegum og vegamannvirkjum, skipum, flugvélum, búnaði og tækjum. Fjárveitingarnar skiptast niður á stofnanir og verkefni með eftirfarandi hætti:

Millj. kr.
Vegagerð 4.234
Fasteignir ríkissjóðs 695
Sjúkrahús og sjúkrastofnanir 340
Háskólar og háskólastofnanir 141
Landhelgisgæslan 65
Hafrannsóknastofnunin 65
Framhaldsskólar 50
Alþingi 24
Sendiráð 16
Flugmálastjórn, Keflavík 15
Fangelsismálastofnun 10
Fasteignir ráðuneyta 10
Skógrækt ríkisins 6
Landgræðsla ríkisins 5
Garðyrkjuskóli ríkisins 5
Hólaskóli 4
Aðrar stofnanir 50
Samtals 5.735

    Ráðuneytið hefur ekki yfir að ráða upplýsingum um sundurliðaðan kostnað einstakra stofnana við framangreind viðhaldsverkefni fyrir yfirstandandi ár eða hvernig fjárhæðirnar skiptast niður á einstök verkefni. Af þessum sökum hefur ráðuneytið ekki heldur upplýsingar um hve stór hluti kostnaðarins teljist almennt og reglubundið viðhald mannvirkja. Þó liggur fyrir að viðhaldskostnaður Fasteigna ríkissjóðs sem sjá um umsýslu og viðhald á stærstum hluta af almennu skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins ásamt flestum fasteignum framhaldsskóla, skattstofa, lögreglustöðva, dómstóla og sýslumannsembætta er eins og fram kemur í töflunni um 700 millj. kr. Af þeim verkefnum sem unnið er að á þessu ári eru um 34 viðhaldsverkefni sem stofnunin hefur talið almennt og reglubundið viðhald og eru stærri en 5 millj. kr. hvert. Kostnaður vegna þeirra verkefna nemur samtals um 309 millj. kr.

     4.      Hvernig hefur framkvæmdum við viðhaldsverkefni verið háttað á þessu ári og hefur ákvæðum laganna verið beitt um almennt og reglubundið viðhald mannvirkja þar sem áætlaður kostnaður ríkisins nemur a.m.k. 5 millj. kr., eins og efnahags- og viðskiptanefnd telur rétt að gert verði, sbr. fyrrnefnt bréf nefndarinnar til ráðherra?
    Framkvæmdaáætlun Fasteigna ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár var lögð fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir við upphaf ársins. Framkvæmdin að öðru leyti frá setningu reglugerðar nr. 715/2001, um skipulag opinberra framkvæmda, hefur verið á þá leið sem mælt var fyrir um í reglugerðinni. Í því felst að ekki hefur verið talið að umsýsluaðilar hlutaðeigandi eigna hafi þurft að fara eftir þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í lögunum og reglugerðinni enda séu fjármunir til framkvæmdanna fyrir hendi og þær teljist almennt og reglubundið viðhald sem feli ekki í sér breytingu mannvirkis.
    Eftir að reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda var breytt á þá leið að 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. hennar var felldur brott teljast allar framkvæmdir sem eru yfir 5 millj. kr. fjárhæðarmörkum vera opinberar framkvæmdir í skilningi laga um skipan opinberra framkvæmda og reglugerðarinnar.