Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 686  —  412. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Guðrúnu W. Jensdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason, Ragnar M. Gunnarsson og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Ólaf Ólafsson og Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara og Garðar Sverrisson og Arnþór Helgason frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af því að samráðshópur um málefni eldri borgara skilaði skýrslu nú í vetur með ýmsum tillögum. Í frumvarpinu er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sé hækkað um 614 kr. eða um 12,73%. Af þeirri hækkun eru 500 kr. vegna sérstaks átaks í uppbyggingu öldrunarstofnana eða viðhalds þeirra. Að öðru leyti er um verðlagsbreytingar að ræða. Í kostnaðarmati með frumvarpinu er miðað við að 163.000 gjaldendur á árinu 2003 inni af hendi greiðslu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Má þá reikna með að 81,5 millj. kr. renni til uppbyggingar öldrunarstofnana til viðbótar við það sem áður var gert ráð fyrir. Nefndin bindur vonir við að þessi sérstaka gjaldtaka bæti úr brýnustu þörf á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Telur nefndin að þessar úrbætur séu til þess fallnar að mæta betur þörf annarra aldurshópa fyrir hjúkrunarrými.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Þuríður Backman skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Telja þær að örorkulífeyrisþegar eigi ekki, frekar en ellilífeyrisþegar sem eru orðnir 70 ára, að greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fyrirvari Þuríðar Backman varðar einnig það að hún telur að of mikið af tekjum sjóðsins fari í rekstur. Telur hún að mun stærri hluti eigi að fara til uppbyggingar öldrunarstofnana.
    Ásta Möller, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. des. 2002.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Einar Oddur Kristjánsson.



Katrín Fjeldsted.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Þuríður Backman,


með fyrirvara.