Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 701  —  463. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI

Breyting á vatnalögum, nr. 15 20. júní 1923,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 49. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Um leyfi til að virkja fallvatn fer samkvæmt raforkulögum.

2. gr.

    2. mgr. 50. gr. og 54.–67. gr. laganna falla brott.

II. KAFLI
Breyting á orkulögum, nr. 58 29. apríl 1967,
með síðari breytingum.

3. gr.

    II. og IV. kafli laganna falla brott.

4. gr.

    1. mgr. 61. gr. laganna orðast svo:
    Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það hlutverk, annaðhvort einar sér eða í samvinnu við önnur fyrirtæki, að stunda starfsemi á orkusviði.

5. gr.

    62.–67. gr. og 3. tölul. 68. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    79. gr. laganna orðast svo:
    Öll gjöld samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og gjaldskrám settum samkvæmt þeim má taka lögtaki á kostnað gjaldanda og stöðva afhendingu hitaorku ef ekki er staðið í skilum á greiðslu á settum gjalddaga.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 60 4. júní 1981, um raforkuver,
með síðari breytingum.

7. gr.

    4.–7. mgr. 2. gr. og 3. og 6. gr. laganna falla brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 42 23. mars 1983, um Landsvirkjun,
með síðari breytingum.

8. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Tilgangur Landsvirkjunar er að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

9. gr.

    3. gr., 4. mgr. 6. gr., 7. gr., 13. og 18. gr. laganna falla brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 10 19. mars 2001,
um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja.

10. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Iðnaðarráðherra veitir Hitaveitu Suðurnesja hf. einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu innan sveitarfélaga, sem aðild eiga að fyrirtækinu, eftir því sem um semst við einstök sveitarfélög og ríkissjóð um yfirtöku á veitukerfi þeirra.

11. gr.

    10. gr. laganna fellur brott.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 40 30. maí 2001,
um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.

12. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Iðnaðarráðherra er heimilt, að fengnu áliti stjórnar Orkubús Vestfjarða hf., að ákveða að rekstur einstakra orkumannvirkja skuli vera undanþeginn einkarétti félagsins, svo sem bygging og rekstur jarðvarmaveitna og fjarvarmaveitna með kyndistöðvum innan þeirra sveitarfélaga sem þess óska.

13. gr.

    8. gr. laganna fellur brott.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 139 21. desember 2001,
um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

14. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Gjaldskrár fyrir sölu á heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.

VIII. KAFLI
Gildistaka.
15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. júlí 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum á orkusviði sem eru nauðsynlegar vegna breytinga sem felast í frumvarpi til raforkulaga en það er lagt fram samhliða þessu frumvarpi. Nauðsynlegt þykir að gera breytingar á vatnalögum, nr. 15/1923, orkulögum, nr. 58/1967, lögum um raforkuver, nr. 60/1981, lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, lögum nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, og lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.
    Um starfsemi Landsvirkjunar er fjallað í lögum um Landsvirkjun, reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra, nr. 259/1997, og sameignarsamningi eigenda frá 27. febrúar 1981, með síðari breytingum. Lagðar eru til lágmarksbreytingar á lögum um Landsvirkjun svo að starfsemi fyrirtækisins samræmist þeim breytingum á skipan raforkumála sem fram koma í frumvarpi til raforkulaga. Í framhaldinu verður nauðsynlegt að breyta framangreindri reglugerð um Landsvirkjun. Í frumvarpi til raforkulaga er m.a. lagt til að skapaðar verði forsendur til samkeppni í vinnslu og sölu raforku og orkufyrirtækjum gert skylt að halda aðgreindum reikningum fyrir samkeppnisstarfsemi annars vegar og einokunarstarfsemi hins vegar. Er því gert ráð fyrir að öllum skyldum verði aflétt af Landsvirkjun og forréttindi fyrirtækisins falli niður. Með sama hætti eru lagðar til breytingar á hlutverki Rafmagnsveitna ríkisins svo að það samræmist áðurgreindum breytingum á skipan raforkumála og lögum um Hitaveitu Suðurnesja hf. og Orkubú Vestfjarða hf.
    Hinn 11. desember 2000 skipaði fjármálaráðherra starfshóp um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði.
    Ekki eru gerðar breytingar á I. kafla orkulaga, er m.a. fjallar um hlutverk Orkustofnunar,
þar sem starfandi er nefnd á vegum iðnaðarráðherra sem er ætlað að fjalla um hlutverk Orkustofnunar, m.a. í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi til raforkulaga. Í
kjölfar þeirrar vinnu kunna að verða gerðar lagabreytingar í þessu sambandi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 2. og 3. mgr. 49. gr. vatnalaga í ljósi þess að lagt er
til í frumvarpi til raforkulaga að þar verði kveðið á um leyfi til að virkja fallvötn.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að fella brott þau ákvæði vatnalaga sem fjalla um atriði sem mælt er fyrir um í frumvarpi til raforkulaga, svo sem eignarnám vegna vinnslu raforku, dreifingu og flutning, gjaldtöku og fleira.

Um 3. gr.

    Lagt er til að II. og IV. kafli laganna falli brott þar sem um vinnslu og dreifingu raforku er kveðið í frumvarpi til raforkulaga.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 61. gr. orkulaga er kveðið á um hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins. Í greininni er gert ráð fyrir að Rafmagnsveiturnar stundi bæði starfsemi sem samkvæmt frumvarpi til raforkulaga telst samkeppnisstarfsemi og einokunarstarfsemi. Er lagt til að hlutverkið breytist svo að það samræmist þeim tillögum sem lagðar eru til í frumvarpi til raforkulaga.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er lagt til að 62.–67. gr. orkulaga falli brott en þar er kveðið á um atriði sem lagt er til að verði breytt með frumvarpi til raforkulaga, svo sem gjaldskrá, rétt til að reisa ný raforkuver og fleira. Þá er lagt til að 3. tölul. 68. gr. falli brott.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að lögtaksheimild 79. gr. orkulaga vegna rafmagnsgjalda falli brott svo og heimild til að stöðva afhendingu rafmagns.

Um 7. gr.

    Í 1. gr. og 1.–3 mgr. 2. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, er mælt fyrir um tilteknar virkjanir og framkvæmdir tengdar þeim sem tilgreindum aðilum er heimilt að ráðast í. Flestar
þær virkjanaheimildir sem þar eru taldar hafa þegar verið nýttar en aðrar gilda áfram. Þykir ekki ástæða til að fella þessar heimildir úr gildi þó að í bráðabirgðaákvæði II við frumvarp til raforkulaga komi fram að þær heimildir sem veittar hafa verið fyrir gildistöku laganna haldi gildi sínu. Þær almennu heimildir sem fram koma í 2. gr. laga um raforkuver þykir þó rétt að fella úr gildi þar sem um virkjanaleyfi er fjallað í frumvarpi til raforkulaga. Í frumvarpi til raforkulaga er kveðið á um sjónarmið sem leggja má til grundvallar við veitingu virkjanaleyfa og verður því að fella brott 3. gr. laga um raforkuver um röð virkjanaframkvæmda. Að lokum er í 6. gr. eignarnámsheimild sem fella verður brott enda er gert ráð fyrir eignarnámsheimild í frumvarpi til raforkulaga.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. 2. gr. laga um Landsvirkjun er m.a. kveðið á um að Landsvirkjun skuli flytja raforku og selja m.a. til iðjufyrirtækja að svo miklu leyti sem almenningsrafveitur hafa ekki milligöngu um slíka sölu. Í frumvarpi til raforkulaga er gerð sú krafa að það fyrirtæki sem annast flutning taki ekki þátt í neinni annarri starfsemi en nauðsynleg er til að það geti rækt skyldur sínar. Tilgangur Landsvirkjunar getur því ekki verið bæði að flytja og selja raforku. Þá er í 2. mgr. 2. gr. laga um Landsvirkjun mælt fyrir um að Landsvirkjun megi ekki taka að sér ráðgjöf eða verktöku í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði. Nú er gert ráð fyrir að öll forréttindi Landsvirkjunar verði felld niður og á Landsvirkjun því að geta tekið þátt í samkeppni á þessu sviði. Í þessari grein frumvarpsins eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna framangreindra atriða.

Um 9. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ákvæði laga um Landsvirkjun sem ekki samrýmast frumvarpi til raforkulaga eða óeðlilegt er að standi áfram í breyttu fyrirkomulagi raforkumála falli brott. Þannig þykir ekki eðlilegt að kveða á um orkusvæði, sbr. 3. gr. laga um Landsvirkjun, forgöngu um virkjanir, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna, leyfi ráðherra til byggingar mannvirkja, sbr. 7. gr. laganna, gjaldskrá og samrekstrarsamninga, sbr. 13. gr. laganna, og eignarnám, sbr. 18. gr. laganna.

Um 10. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að iðnaðarráðherra veiti Hitaveitu Suðurnesja hf. einkaleyfi til starfrækslu rafveitu. Almenn ákvæði um slíkar leyfisveitingar er að finna í frumvarpi til raforkulaga.

Um 11. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ákvæði laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja hf. sem ekki samrýmast frumvarpi til raforkulaga eða óeðlilegt er að standi áfram í breyttu fyrirkomulagi raforkumála falli brott. Þannig þykir ekki eðlilegt að kveða á um gjaldskrá, sbr. 10. gr. laganna.

Um 12. gr.

    Með breytingu þeirri sem lögð er til í þessari grein frumvarpsins er lagt til að felld verði brott heimild iðnaðarráðherra til að undanþiggja rekstur mannvirkja til raforkudreifingar einkarétti Orkubús Vestfjarða hf. Almenn ákvæði um einkaleyfi til raforkudreifingar er að finna í frumvarpi til raforkulaga.

Um 13. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ákvæði laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða hf. sem ekki samrýmast frumvarpi til raforkulaga eða óeðlilegt er að standi áfram í breyttu fyrirkomulagi raforkumála falli brott. Þannig þykir ekki eðlilegt að kveða á um gjaldskrá, sbr. 8. gr. laganna.

Um 14. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ákvæði laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur sem ekki samrýmast frumvarpi til raforkulaga eða óeðlilegt er að standi áfram í breyttu fyrirkomulagi raforkumála falli brott. Þannig þykir ekki eðlilegt að kveða á um gjaldskrá, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Um 15. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi þegar í stað en komi til framkvæmda á sama tíma og gert er ráð fyrir að raforkulög komi til framkvæmda.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði.

    Markmiðið með frumvarpinu er að leggja til nokkrar breytingar á lögum á orkusviði sem eru nauðsynlegar vegna breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi til raforkulaga og lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.