Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 245. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 749  —  245. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 13. des.)1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um alla frekari vinnslu afla um borð í skipum en blóðgun, slægingu og flokkun.
    Vinnsla samkvæmt ákvæðum laga þessara er háð sérstöku leyfi Fiskistofu.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal setja reglugerð um nýtingarstuðla sem gildir um útreikning á nýtingu aflaheimilda einstakra skipa eða skipaflokka sem vinna afla um borð. Um nýtingu afla þeirra skipa gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.


3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fullvinnsluskipi“ í 1. mgr. kemur: skipi sem leyfi hefur til vinnslu afla.
     b.      Í stað orðsins „fullvinnsluskipum“ í 2. mgr. kemur: skipum sem leyfi hafa til vinnslu afla.

4. gr.

    Í stað orðsins „fullvinnsluleyfi“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: leyfi til vinnslu afla.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fullvinnslu botnfiskafla“ í 1. málsl. kemur: vinnslu afla.
     b.      Í stað orðsins „fullvinnsluskips“ í 2. málsl. kemur: skips.
     c.      Í stað orðsins „fullvinnsluskip“ í lokamálslið kemur: skip sem vinnur afla um borð.

6. gr.

    3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofu er enn fremur heimilt vegna brota gegn ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa að svipta skip leyfi til vinnslu afla um borð.

7. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um vinnslu afla um borð í skipum.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.