Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 792  —  336. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Vísinda- og tækniráð.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


         
    Frumvörpin þrjú um Vísinda- og tækniráð, sem allsherjarnefnd hefur til umfjöllunar, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem menntamálanefnd hefur til umfjöllunar, og opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem iðnaðarnefnd hefur til umfjöllunar, eru tengd órofa böndum og því standa fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd og iðnaðarnefnd einnig að nefndaráliti þessu.
    Minni hlutinn tekur undir það markmið frumvarpanna að efla þurfi vísindarannsóknir og tækniþróun í landinu en getur ekki stutt þær leiðir sem ríkisstjórnin vill fara til að ná því. Minni hlutinn styður heildarstefnumótun um vísindi og rannsóknir í einu frumvarpi þar sem fram komi heilsteyptur rammi um íslenska vísinda- og tæknistarfsemi. Það að frumvörpin eru þrjú, vistuð í þremur ráðuneytum undir hatti þriggja ráðherra, opinberar ágreining á milli stjórnarflokkanna um málið og innbyrðis innan Stjórnarráðsins. Að þessum ágreiningi hafa þessi lagafrumvörp síðan verið sniðin í stað þess að ráðast í þá uppstokkun sem nauðsynleg er í stjórnkerfinu til þess að gera málaflokknum kleift að þrífast og dafna.
    Með breytingunni er m.a. ætlunin að auka bein pólitísk afskipti af stefnumótun og þróun vísinda og tækni. Hugmyndin er sú að með því sé unnt að efla samvinnu vísindasamfélagsins og stjórnvalda en það býður um leið þeirri hættu heim að stjórnvöld hverju sinni forgangsraði verkefnum fyrir vísindasamfélagið. Slíkt er mjög varasamt fyrir þróun vísinda og rannsókna.
Við þessa lagasmíð er gjarnan vísað til Finnlands sem fyrirmyndar og þess árangurs sem þar hefur náðst í vísinda- og tæknistarfsemi á síðustu árum. Árangur Finna er athyglisverður en margt er ólíkt með okkur og frændum vorum Finnum þegar kemur að þessum málaflokki. Finnar hafa lagt óhemju vinnu og fjármagn í uppbyggingu vísinda- og tækniþróunar. Á sama tíma og ríkisstjórn Íslands hefur þrengt svo að verk- og tæknimenntun að til vandræða horfir og svelt fjárhagslega bæði framhalds- og háskólastigið hafa Finnar lagt áherslu á fjárfestingu í menntun og rannsóknum, m.a. með stofnun 20 háskóla og tækniháskóla utan Helsinki og 37 tækniskóla. Þeir gengu auk þess í Evrópusambandið fyrir nokkrum árum sem hefur haft gagnvirk áhrif á þróun og uppbyggingu vísinda og tækni í samfélaginu. Þá var árið 1994 stofnuð sérstök þingnefnd um framtíðarmálefni Finnlands sem er skipuð 17 þingmönnum en hlutverk hennar er að „finna upp framtíðina“. Hefur nefndin sérstaklega beint sjónum að byggðaþróun, framtíð vinnunnar og eðli á tímum þekkingarþjóðfélagsins og þekkingarstjórnun. Þá hefur nefndin einnig gefið út skýrslur um samskipti þingsins við finnskt þjóðfélag og um möguleikana sem felast í Evrópusambandsaðildinni, en allt eru þetta verkefni sem nefndin telur skipta miklu þegar framtíð Finnlands er annars vegar. Finnar hafa tileinkað sér samráðs- og samræðuhefð til að stilla saman strengi og ná sáttum um mikilvæg stefnumál. Finnska kerfið er sniðið að þessari hefð en því miður er ekki því sama að fagna á Íslandi. Til marks um þetta má benda á undirbúning breytinganna sem birtast í frumvörpunum þremur en þau voru unnin algerlega án samráðs við stjórnarandstöðuna. Tvær kynningarferðir voru m.a. farnar til Finnlands vegna málsins og var fulltrúum stjórnarandstöðu haldið utan við þær.
    Í máli flestra fulltrúa vísindasamfélagsins sem gáfu umsagnir kom það fram að lykillinn að því að árangur næðist á vettvangi vísinda og tækni væri stórlega aukið fjármagn til málaflokksins. Ekkert hefur komið fram sem sýnir vilja stjórnvalda til slíkrar fjárfestingar.
    Í ljósi þess sem að framan greinir mun minni hlutinn ekki styðja frumvarpið.

Alþingi, 12. des. 2002.



Guðrún Ögmundsdóttir,


form., frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Guðjón A. Kristjánsson.