Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 489. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 805  —  489. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987 (meðferð bótakrafna vegna tjóna erlendis).

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Í stað 1. mgr. 91. gr. laganna, sbr. lög nr. 116 20. desember 1993, koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skal vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá:
     a.      vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi til að taka að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna ökutækja,
     b.      erlendu vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og sem Fjármálaeftirlitinu hefur verið tilkynnt á lögformlegan hátt að taki að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna ökutækja hér á landi.
    Öll vátryggingafélög sem taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi skulu taka þátt í starfsemi tjónsuppgjörsaðila skv. 94. gr. a og upplýsingamiðstöðvar skv. 94. gr. b. Dómsmálaráðherra getur kveðið nánar á um slíka þátttöku í reglugerð.
    Öll vátryggingafélög sem hyggjast taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi skulu auk þessa tilkynna það Umferðarstofu.

2. gr.

    Í stað „3. mgr.“ í 4. mgr. 92. gr. laganna, sbr. lög nr. 32 8. apríl 1998, kemur: 5. mgr.

3. gr.

    Við 93. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Nú er ökutæki ekki vátryggt skv. 2. og 3. mgr. og ber þá ríkissjóður ábyrgð með sama hætti og vátryggingafélag sem tekið hefur að sér vátryggingu skv. 91. og 92. gr.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um greiðslu bóta vegna tjóna er ökutæki, sem undanþegin eru vátryggingarskyldu skv. 2. og 3. mgr., valda erlendis.

4. gr.

    1. mgr. 94. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra setur reglur um framkvæmd vátryggingarskyldunnar, þar á meðal um skyldu vátryggingafélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja.

5. gr.


    Á eftir 94. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 94. gr. a og 94. gr. b, er orðast svo:

    a. (94. gr. a.)

Tjónsuppgjörsaðili.

    Dómsmálaráðherra skal viðurkenna tjónsuppgjörsaðila sem greitt getur bætur vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis, ef
     a.      tjónþoli er búsettur hér á landi,
     b.      ökutækið er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki, eða ef ökutækið er óþekkt, eða ef ekki er unnt að hafa upp á vátryggingafélagi því sem vátryggði ökutækið, og
     c.      tjónið varð í öðru EES- eða EFTA-ríki eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
    Tjónsuppgjörsaðili á enn fremur að geta greitt bætur vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja sem vátryggð eru hér á landi, ef
     a.      tjónþoli er búsettur í öðru EES- eða EFTA-ríki,
     b.      ökutækið er að jafnaði staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, og
     c.      tjónið varð í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um greiðslu bóta frá tjónsuppgjörsaðilanum og um starfsemi hans. Hann getur enn fremur sett nánari reglur um meðferð bótakrafna hjá vátryggingafélögum og tjónsuppgjörsfulltrúum vátryggingafélaga skv. 11. tölul. 2. mgr. 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

    b. (94. gr. b.)

Upplýsingamiðstöð.

    Dómsmálaráðherra skal viðurkenna upplýsingamiðstöð til að aðstoða við öflun upplýsinga um vélknúið ökutæki sem valdið hefur tjóni og vátryggingu þess ef tjónþoli er búsettur hérlendis, ökutækið er vátryggt eða að öllu jöfnu staðsett hér, eða tjónið varð hér á landi. Þetta gildir þó því aðeins að
     a.      tjónþoli sé búsettur í EES- eða EFTA-ríki,
     b.      ökutækið sé vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í EES- eða EFTA-ríki,
     c.      tjónið hafi orðið í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um starfsemi upplýsingamiðstöðvarinnar og um skyldu vátryggingafélaga og tjónsuppgjörsfulltrúa skv. 3. mgr. 94. gr. a til að láta upplýsingamiðstöð skv. 1. mgr. og upplýsingaskrifstofum í öðrum EES- eða EFTA-ríkjum í té upplýsingar.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu í samráði við Samband íslenskra tryggingafélaga og Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (ABÍ). Frumvarpið hefur að markmiði að auðvelda tjónþola að fá bætur vegna umferðarslyss í EES-ríkjum og Sviss. Er lagt til að dómsmálaráðherra viðurkenni svonefndan tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð í þessu skyni. Ekki er þó gert ráð fyrir að komið verði á fót nýjum stofnunum, heldur að ABÍ annist þetta hlutverk. Er það í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og í flestum öðrum nágrannaríkjum Íslands.
    Tilefni frumvarpsins er innleiðing tilskipunar 2000/26/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum 73/239/EBE og 88/237/EBE (fjórðu tilskipunarinnar um ökutækjatryggingar). Tilskipun þessi var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001 31. janúar 2001 og síðan staðfest af Íslands hálfu í kjölfar ályktunar Alþingis frá 11. maí 2001. Er tilskipunin prentuð sem fylgiskjal með frumvarpinu.
    Þá felur frumvarpið í sér, í samræmi við ákvæði nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), svonefnds Vaduz-samnings, sem öðlaðist gildi fyrr á þessu ári, að ákvæði tilskipananna um ökutækjatryggingar skuli einnig gilda gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES, þ.e. Sviss.

2. Fjórða tilskipunin um ökutækjatryggingar.
    Tilskipun 2000/26/EB (fjórða tilskipunin) kemur í framhaldi af fyrstu, annarri og þriðju tilskipun EB um ökutækjatryggingar (tilskipun 72/166/EBE með breytingum samkvæmt tilskipunum 72/430/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE). Markmið hennar er einkum að auðvelda tjónþola að fá bætur vegna umferðarslyss í öðru aðildarríki ESB. Tilskipunin er enn fremur viðbót við fjölþjóðlegt samstarf um „græna kortið“ (ákvörðun 91/323/EBE) en gerðir þessar eru allar hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Fjórða tilskipunin gildir um tjónþola sem búsettur er í aðildarríki ESB, þegar tjón hefur orðið í öðru ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur eða í ríki sem ekki er aðili að ESB en hefur gerst aðili að tilhöguninni um grænt kort, og tjónið hlaust af notkun ökutækis sem vátryggt er og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki ESB (sbr. 1. gr. tilskipunarinnar). Vakin skal athygli á því að eftir upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn er gildissvið hennar allt Evrópska efnahagssvæðið, og á grundvelli hins nýja stofnsamnings EFTA nær hún einnig til EFTA-ríkja sem ekki eru aðilar að EES, þ.e. Sviss.
    Meginefni tilskipunarinnar er:
          Hvert vátryggingafélag skal tilnefna tjónsuppgjörsfulltrúa í hinum aðildarríkjunum, þannig að tjónþoli geti lagt bótakröfu sína fram í heimalandi sínu hjá tjónsuppgjörsfulltrúa erlends vátryggingafélags.
          Í hverju aðildarríki skal vera tjónsuppgjörsaðili sem getur fjallað um bótakröfu frá tjónþola sem fellur undir tilskipunina.
          Í hverju aðildarríki skal vera upplýsingamiðstöð til að aðstoða tjónþola við að afla upplýsinga um það ökutæki sem valdið hefur tjóni og hvernig háttað er vátryggingu þess.
    Reglurnar um tjónsuppgjörsfulltrúa og um tjónsuppgjörsaðila gilda eingöngu um tjón sem valdið er af ökutæki sem vátryggt er og að öllu jöfnu staðsett í öðru aðildarríki en því þar sem tjónþoli er búsettur (sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar). Tjónsuppgjörsaðili getur þó einnig farið með bótakröfur vegna tjóna af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja. (sbr. 3. mgr. 1. gr. og 7. gr. tilskipunarinnar).
    Tilskipunin varðar hvorki reglur alþjóðlegs einkamálaréttar né réttarfars um lagaskil og varnarþing. Starfsemi tjónsuppgjörsfulltrúans í aðildarríki felur þannig ekki í sér að unnt sé að höfða þar dómsmál gegn hlutaðeigandi vátryggingafélagi.

2.1.     Tjónsuppgjörsfulltrúar o.fl.
    Vátryggingafélag, sem tekur að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna ökutækja, skal tilnefna tjónsuppgjörsfulltrúa í öllum öðrum aðildarríkjum en því þar sem félagið hefur fengið starfsleyfi. Tjónsuppgjörsfulltrúinn á að hafa umboð til að koma fram fyrir hönd vátryggingafélagsins gagnvart tjónþola og fallast á kröfur hans að fullu. Hann skal vera fær um að rannsaka málið á tungumáli þess aðildarríkis þar sem tjónþoli er búsettur (sbr. 1.–3. og 5. mgr. 4. gr. og 8. gr. tilskipunarinnar).
    Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa kemur ekki í veg fyrir að tjónþoli beini kröfu beint að tjónvaldinum eða vátryggingafélaginu (sbr. 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar).
    Vátryggingafélagið eða tjónsuppgjörsfulltrúinn skal, eigi síðar en þremur mánuðum eftir að tjónþoli lagði fram bótakröfu sína, annaðhvort leggja fram rökstutt tilboð um bætur (ef ábyrgðin er viðurkennd og tjónið hefur verið metið) eða rökstutt svar við kröfu tjónþola (ef bótaábyrgð er hafnað eða tjónið hefur ekki verið endanlega gert upp). Enn fremur skal greiða vexti af þeirri fjárhæð sem vátryggingafélagið býðst til að greiða eða dómstóll ákvarðar síðar ef tilboðið var ekki lagt fram innan þriggja mánaða (sbr. 6. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar).

2.2.     Tjónsuppgjörsaðili.
    Hvert aðildarríki skal koma á fót eða viðurkenna tjónsuppgjörsaðila sem ætlað er að annast greiðslu bóta til tjónþola sem fellur undir tilskipunina (sbr. 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar).
    Tjónþoli getur gert kröfu á hendur tjónsuppgjörsaðila í því ríki þar sem hann er búsettur, ef:
          Vátryggingafélagið eða tjónsuppgjörsfulltrúinn hafa ekki innan þriggja mánaða sent frá sér rökstutt svar við bótakröfu tjónþola.
          Vátryggingafélagið hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa í því ríki þar sem tjónþoli er búsettur. Þetta gildir þó ekki ef bótakrafan hefur verið gerð beint á hendur vátryggingafélaginu og tjónþoli hefur fengið rökstutt svar frá vátryggingafélaginu innan þriggja mánaða frá því að krafan var lögð fram.
          Ef ökutækið er óþekkt eða ekki reynist unnt að hafa upp á vátryggingafélaginu innan tveggja mánaða frá því slysið varð. Þetta gildir einnig um slys af völdum ökutækis sem er að öllu jöfnu staðsett í þriðja ríki (sbr. 7. gr. og 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar).
    Ef tjónþoli hefur höfðað dómsmál beint á hendur vátryggingafélaginu er ekki jafnframt hægt að beina kröfunni á hendur tjónsuppgjörsaðila. Tjónsuppgjörsaðili skal grípa til aðgerða innan tveggja mánaða frá því að tjónþoli lagði fram bótakröfu sína, en hætt skal aðgerðum ef vátryggingafélagið eða tjónsuppgjörsfulltrúinn sendir síðan rökstutt svar við kröfunni (sbr. 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar).
    Tjónsuppgjörsaðili sem hefur greitt bætur getur krafið endurgreiðslu frá tjónsuppgjörsaðila í aðildarríki því þar sem vátryggingafélagið hefur starfsstöð. Samkvæmt tilskipuninni gengur þessi tjónsuppgjörsaðili síðan inn í réttindi tjónþola gagnvart tjónvaldi eða vátryggingafélagi hans. Þegar um er að ræða óþekkt eða óvátryggð ökutæki getur tjónsuppgjörsaðili krafist endurgreiðslu frá ábyrgðarsjóði vegna óþekktra og óvátryggða ökutækja í því aðildarríki þar sem slysið átti sér stað eða þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett (skráð) (sbr. 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. tilskipunarinnar).
    Tjónsuppgjörsaðilar aðildarríkjanna skulu gera samning um störf þeirra og skyldur og um málsmeðferð við endurgreiðslu. Reglurnar um tjónsuppgjörsaðila skulu koma til framkvæmda frá þeim degi sem framkvæmdastjórnin ákveður eftir að slíkur samningur hefur verið gerður. Hafi samningurinn ekki verið gerður fyrir 20. júlí 2002 skal framkvæmdastjórnin gera ráðstafanir til að tryggja að reglurnar komi til framkvæmda fyrir 20. janúar 2003 (sbr. 3. mgr. 6. gr. og 10. gr. tilskipunarinnar).

2.3     Upplýsingamiðstöð.
    Hvert aðildarríki skal koma á fót eða viðurkenna upplýsingamiðstöð sem á að aðstoða tjónþola við að afla upplýsinga um það ökutæki sem valdið hefur tjóni og hvernig vátryggingu þess er háttað(sbr. 5. gr. tilskipunarinnar).
    Upplýsingamiðstöðin skal annaðhvort sjálf halda skrá með upplýsingum um skráð ökutæki í hlutaðeigandi aðildarríki og vátryggingu þeirra eða sjá um að samræma söfnun og miðlun þessara upplýsinga.
    Vátryggingafélögin skulu láta einstökum upplýsingamiðstöðvum í té upplýsingar um hvern þau hafa tilnefnt sem tjónsuppgjörsfulltrúa í viðkomandi aðildarríki.
    Í sjö ár eftir slys skal upplýsingamiðstöðin í því aðildarríki þar sem tjónþoli er búsettur, þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett, eða þar sem slysið varð, veita tjónþola án tafar upplýsingar um nafn og heimili vátryggingafélagsins, númer vátryggingarskírteinisins og nafn og heimili tjónsuppgjörsfulltrúa vátryggingafélagsins í heimaríki tjónþola. Ef ökutækið er undanþegið vátryggingarskyldu skal upplýsingamiðstöðin gefa upp nafn þess yfirvalds eða stofnunar sem annast bótagreiðslur vegna tjóna sem ökutækið veldur.
    Ef tjónþoli hefur lögmætra hagsmuna að gæta skal upplýsingamiðstöðin enn fremur upplýsa um nafn og heimilisfang eiganda ökutækisins, þess sem ekur því að jafnaði eða skráðs umráðamanns, svo sem þegar bætur fást einungis greiddar frá þessum aðilum vegna þess að vátrygging er ekki fyrir hendi eða tjónið nemur hærri fjárhæð en vátryggingarfjárhæðin.
    Um vinnslu persónuupplýsinga skal fara eftir innlendum reglum sem settar hafa verið í samræmi við tilskipun 95/46/EB um meðferð persónuupplýsinga um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga (5. mgr. 5. gr.).

3. Gildandi réttur.
3.1.     Ákvæði umferðarlaganna um bætur og vátryggingu.
    Ákvæði um fébætur og vátryggingu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis eru í XIII. kafla umferðarlaganna. Bótaskyldan er hlutlæg og gildir þótt tjón verði ekki rakið til bilunar eða galla á ökutækinu eða ógætni ökumanns, sbr. 88. og 89. gr. laganna. Ábyrgðin gildir um umferð á vegum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna og skilgreiningu þess hugtaks í 2. gr., auk þess sem ákvæði laganna gilda, eftir því sem við á, um umferð á lóðum, lendum, afréttum og almenningum, sbr. 3. mgr. 1. gr.
    Um ákvörðun fébóta gilda almenn ákvæði skaðabótaréttar. Í 2. og 3. mgr. 88. gr. laganna eru ákvæði um lækkun eða niðurfellingu bóta ef sá sem fyrir tjóni varð var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi og í 89. gr. eru ákvæði um sakarskiptingu.
    Samkvæmt 90. gr. laganna ber skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis ábyrgð á því og er fébótaskyldur skv. 88. og 89. gr. Fébótaskyldan færist þó yfir á þann sem notar ökutækið í algjöru heimildarleysi. Auk þessarar ábyrgðar fer um bótaábyrgð eftir almennum skaðabótareglum. Þær reglur gilda og um ábyrgð á tjóni sem hlýst af notkun annarra ökutækja en skráningarskyldra ökutækja.
    Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna skal greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem viðurkennt er eða skráð af dómsmálaráðherra. Auk ábyrgðartryggingarinnar skal skv. 92. gr. keypt vegna ökutækisins sérstök slysatrygging vegna slyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins og vegna vátryggingartaka (eiganda) sem slasast í eða af völdum eigin ökutækis. Ákvæði eru um hámark þeirrar fjárhæðar sem vátryggingarnar eiga að bæta vegna hvers tjónsviðburðar. Vátryggingarskyldan hvílir á eiganda ökutækisins eða þeim sem hefur varanlega umráð þess, sbr. 1. mgr. 93. gr. Samkvæmt 10. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja, nr. 78 30. janúar 1997, er óheimilt að skrá ökutæki nema það hafi verið tryggt lögmæltri vátryggingu. Undanþegin vátryggingarskyldu eru skv. 2. mgr. 93. gr. ökutæki í eigu ríkissjóðs og skv. 3. mgr. 93. gr. er heimilt að undanþiggja ökutæki í eigu erlendra ríkja eða alþjóðastofnana vátryggingarskyldu. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. skal dómsmálaráðherra setja nánari reglur um vátryggingarskylduna. Er þær reglur að finna í reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 556 29. desember 1993, með breytingum nr. 531 3. júní 1998 og nr. 309 3. maí 1999. Þar eru m.a. ákvæði um að við almenna skoðun ökutækis beri að færa sönnur á að lögmælt vátrygging sé í gildi og sama gildir við skráningu eigendaskipta og þegar skráningarmerki sem lögð hafa verið inn eru afhent að nýju. Þar eru og ákvæði til samræmis við ákvæði fyrstu, annarrar og þriðju tilskipunar EB um ökutækjatryggingar sem fela í sér að ábyrgðartryggingin skuli gilda um allt Evrópska efnahagssvæðið á grundvelli eins og sama iðgjaldsins. Skulu bætur að jafnaði greiddar samkvæmt þeim réttarreglum sem í gildi eru þar sem tjónið varð ( lex loci delicti). Þó er heimilt að leggja til grundvallar réttarreglur þess ríkis þar sem ökutækið sem tjóninu olli er skráð, enda veiti þær reglur betri rétt og slysið hafi orðið í öðru EES-ríki. Þá eru þar og ákvæði um sameiginlega ábyrgð vátryggingafélaga á greiðslu bóta (t.d. ábyrgðarsjóður eða ábyrgðarkerfi) vegna óvátryggðra ökutækja og óþekktra ökutækja.

3.2.     Tjón sem valdið er erlendis.
    Íslendingur sem verður fyrir tjóni í umferðarslysi erlendis verður í upphafi að beina bótakröfu sinni gegn tjónvaldi og/eða vátryggingafélagi hans, sem oftast munu vera erlendis. Á sama hátt mun útlendingur sem verður fyrir tjóni í umferðarslysi hér á landi yfirleitt að beina kröfu sinni gegn íslensku vátryggingafélagi.
    Um það hvar dómsmál gegn tjónvaldi og/eða vátryggingafélagi má höfða fer hér á landi eftir lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, og Lúganósamningnum um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum frá 16. september 1988, sbr. lög nr. 68 10. mars 1995.

3.3.     Tilhögunin um græna kortið.
    Græna kortið er alþjóðlegt skírteini sem gefið er út af vátryggingafélagi með heimild svonefndrar landsskrifstofu þess ríkis þar sem ökutæki er skráð eða að jafnaði staðsett.
    Fjölþjóðlegt samstarf um notkun grænna korta (eða tilhögunin um græna kortið) á rætur að rekja til tilmæla vinnuhóps um flutninga á vegum undir innanlandsflutninganefnd Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu á árinu 1949. Hefur tilhögunin verið í gildi frá 1953 og er markmið hennar að stuðla að og einfalda umferð vélknúinna ökutækja milli landa. Á grundvelli þessa hafa löndin gert með sér samkomulag um gagnkvæmt gildi ökutækjatrygginga, þ.e. ábyrgðartrygginga ökutækja. Ísland hefur átt aðild að tilhöguninni frá árinu 1970.
    Aðild að tilhöguninni eiga nú öll aðildarríki EES-samningsins og að auki: Albanía, Andorra, Bosnía og Hersegóvína, Búlgaría, Eistland, Íran, Ísrael, Júgóslavía, Króatía, Kýpur, Lettland, Malta, Makedónía, Marokkó, Moldavía, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Sviss, Tékkland, Túnis, Tyrkland, Ungverjaland og Úkraína.
    Tilhögunin gengur út á það að aka megi vélknúnu ökutæki sem er frá landi sem aðild á að tilhöguninni í umferð í öðru landi án þess að kaupa þurfi sérstaka vátryggingu sem bætir tjón í því landi.
    Tilhögunin tryggir að tjónþoli fái bætur vegna tjóns af völdum ökutækis sem að öllu jöfnu er staðsett í öðru landi en því þar sem slysið varð, hvort sem tjónið átti sér stað í landinu þar sem tjónþoli á heima eða í öðru landi sem fellur undir tilhögunina. Bætur til tjónþola verða greiddar af landsskrifstofunni í tjónslandinu, og að jafnaði samkvæmt bótareglum þess lands. Skrifstofan sem greiðir bæturnar á síðan endurkröfu á hendur landsskrifstofunni í heimalandi ökutækisins eða beint á hendur ábyrgðartryggingafélagi ökutækisins. Sem dæmi má nefna að ef íslensk bifreið veldur umferðarslysi á Ítalíu og ítalskur ríkisborgari verður fyrir líkamstjóni mun ítalska landsskrifstofan greiða honum bætur annaðhvort samkvæmt ítölskum rétti eða íslenskum, sbr. það sem fram kemur í kafla 3.1 hér að framan. Ítalska landsskrifstofan krefur síðan íslenska vátryggingafélagið um bæturnar, eða eftir atvikum íslensku skrifstofuna, sem þá krefðist greiðslu frá því vátryggingafélagi sem vátryggði ökutækið. Ef íslenskt ökutæki slasar Pólverja í Póllandi gilda eingöngu pólskar reglur um uppgjörið, sbr. það sem áður greinir um lex loci delicti.
    Hér á landi koma Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. fram sem landsskrifstofa.

4. Tillögur frumvarpsins.
    Þess er að framan getið að megintilgangur frumvarps þessa er að lögfesta ákvæði er tryggi framkvæmd ákvæða tilskipunar 2000/26/EB, um samræmingu á reglum um ábyrgðartryggingu vegna vélknúinna ökutækja (fjórðu tilskipunarinnar um ökutækjatryggingar) hér á landi. Er það gert með nýjum ákvæðum, 94. gr. a og 94. gr. b, þar sem lagt er til að dómsmálaráðherra skuli viðurkenna tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð hér á landi. Er ætlunin að Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (ABÍ) sinni báðum þessum hlutverkum.
    Þá er einnig lagt til að ákvæðin um ábyrgðartryggingu ökutækja gildi með sama hætti og þau gilda nú gagnvart EES-ríkjunum, einnig gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES, þ.e. Sviss, í samræmi við ákvæði hins nýja stofnsamnings EFTA.
    Gert er ráð fyrir að reglur um tjónsuppgjörsfulltrúa, sem tilskipunin gerir ráð fyrir og hérlend vátryggingafélög vélknúinna ökutækja og útibú erlendra félaga sem hér hafa fengið starfsleyfi skulu tilnefna, verði sett í lög um vátryggingastarfsemi og að kröfur um þá verði felldar inn í þau skilyrði sem gilda um starfsleyfi til vátryggingastarfsemi. Lagafrumvarp um það efni verður lagt fram af viðskiptaráðherra.
    Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa og stofnun tjónsuppgjörsaðila í öllum EES- og EFTA- ríkjunum mun auðvelda tjónþola að reka bótakröfu sína eftir umferðarslys í öðru aðildarríki. Tjónþoli þarf þannig ekki að reka kröfu sína gagnvart erlendu vátryggingafélagi með þeim vandamálum sem tengjast tungumálinu og þess háttar heldur getur hann rekið málið gagnvart tjónsuppgjörsfulltrúa vátryggingafélagsins í heimalandi sínu. Stofnun upplýsingamiðstöðvar í öllum ríkjunum mun leiða til þess að auðveldara verður fyrir tjónþola að afla upplýsinga um hvernig háttað er vátryggingu þess ökutækis sem valdið hefur tjóni eftir umferðarslys í öðru aðildarríki. Tjónþoli getur þannig haft samband við upplýsingamiðstöðina í heimalandi sínu sem síðan aðstoðar við að afla nauðsynlegra upplýsinga.
    Fjórða tilskipunin um ökutækjatryggingar kveður ítarlega á um starfsemi tjónsuppgjörsfulltrúa, tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðva. Er gert ráð fyrir því að nánar verði kveðið á um þau atriði í reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar. Um vexti af skaðabótakröfum fer samkvæmt vaxtalögum og skaðabótalögum og samrýmast ákvæði tilskipunarinnar því.
    Að auki er með frumvarpinu lagt til að lagastoð nokkurra reglna varðandi vátryggingarskylduna verði styrkt, svo sem að því er varðar hvaða vátryggingafélög annast lögmæltar ökutækjatryggingar, og kveðið er á um skylduaðild vátryggingafélaga sem taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja að samtökunum Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. Loks er lagt til að niður verði felld sérstök viðurkenning eða skráning dómsmálaráðherra á vátryggingafélögum sem annast lögmæltar ökutækjatryggingar en hins vegar kveðið á um skyldu félaganna til að tilkynna það Umferðarstofu.
    Kostnaður vegna tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvarinnar greiðist af vátryggingastarfseminni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga skal greiðsla bóta vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem er viðurkennt eða skráð af dómsmálaráðherra. Var orðunum „eða skráð“ bætt inn í ákvæðið með lögum nr. 116 20. desember 1993 í tengslum við aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60 11. maí 1994, þarf íslenskt vátryggingafélag að hafa starfsleyfi sem gefið er út af viðskiptaráðherra, og eftir atvikum Fjármálaeftirlitinu. Erlent vátryggingafélag sem hefur starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins má reka hér vátryggingastarfsemi, enda hafi Fjármálaeftirlitinu verið tilkynnt á þann hátt sem mælt er fyrir um í lögum um vátryggingastarfsemi að það hyggist taka að sér þessa starfsemi hér á landi. Félagi sem tekur að sér lögmæltar vátryggingar ber að fara eftir þeim reglum sem um þá starfsemi gilda hér.
    Áskilnaður um viðurkenningu dómsmálaráðherra á vátryggingafélagi sem annast ábyrgðartryggingu skráningarskyldra ökutækja er frá þeim tíma þegar vátryggingafélög þurftu ekki sérstakt leyfi til að annast vátryggingastarfsemi. Með núgildandi skipan á starfsleyfi til vátryggingastarfsemi verður ekki talin þörf á að áskilja sérstaka viðurkenningu dómsmálaráðherra vegna vátrygginga skráningarskyldra vélknúinna ökutækja. Með breytingu á 1. mgr. er lagt til að gildandi ákvæði verði aðlagað löggjöf um vátryggingastarfsemi og að ekki verði þörf á sérstakri viðurkenningu eða skráningu dómsmálaráðherra á vátryggingafélögum sem annast þessa starfsemi.
    Þá er lagt til að öll vátryggingafélög sem taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi skuli taka þátt í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar. Er það nauðsynlegt þar sem þessir aðilar hafa lögboðnu hlutverki að gegna. Lagt er til að dómsmálaráðherra geti kveðið nánar á um slíka þátttöku í reglugerð.
    Vegna eftirlits með vátryggingarskyldunni er nauðsynlegt að skráningaryfirvöld ökutækja og lögregla hafi upplýsingar um hvaða vátryggingafélög taka að sér lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja sem skráð eru hér á landi. Er því lagt til að lögfest verði að vátryggingafélag, sem hyggst taka að sér þessar tryggingar, skuli tilkynna það til Umferðarstofu sem fer með skráningu ökutækja.

Um 2. gr.


    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að tvær nýjar málsgreinar bætist við 91. gr. umferðarlaganna. Verði sú breyting samþykkt þarf að breyta tilvísun í 4. mgr. 92. gr. laganna til 3. mgr. 91. gr. í 5. mgr.

Um 3. gr.


    Í 2. og 3. mgr. 93. gr. umferðarlaga eru ákvæði þess efnis að eigi sé skylt að kaupa vátryggingu vegna ökutækja í eigu ríkissjóðs og að dómsmálaráðherra geti undanþegið ökutæki í eigu erlendra ríkja og alþjóðastofnana vátryggingarskyldu. Undanþága vegna ökutækja ríkissjóðs hefur ekki verið nýtt og heimild til að undanþiggja ökutæki erlendra ríkja og alþjóðastofnana hefur ekki verið notuð. Vegna undanþáguheimildanna er hins vegar nauðsynlegt að kveða á um það hvernig fer ef heimildirnar verða notaðar og slík ökutæki valda tjóni.
    Er því lagt til að við 93. gr. bætist nýtt ákvæði (4. mgr.) sem kveður á um réttarstöðu þess sem kann að eiga bótarétt vegna ökutækis í eigu ríkissjóðs eða erlends ríkis eða alþjóðastofnunar sem undanþegið væri vátryggingarskyldunni þannig að réttarstaða tjónþolans gagnvart ríkinu verði með sama hætti og gagnvart vátryggingafélagi ef ökutækið væri vátryggt skv. 91. og 92. gr., þ.e. að tjónþoli eigi beina kröfu á hendur ríkissjóði. Skv. 1. mgr. 95. gr. laganna er vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna skv. 1. mgr. 91. gr. Þá er með nýrri 5. mgr. lagt til að heimilt verði að setja reglur um hvernig fari ef ökutæki sem undanþegin eru vátryggingarskyldu valda tjóni erlendis. Ákvæði þessi eru nauðsynleg vegna tilhögunarinnar um græna kortið og tilskipana EB um ökutækjatryggingar.

Um 4. gr.


    Skv. 1. mgr. 94. gr. umferðarlaga setur dómsmálaráðherra reglur um vátryggingarskylduna. Á þeim grundvelli hefur verið sett reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 556 29. desember 1995. Lagt er til að ákvæði þetta verði gert fyllra. Er annars vegar tekið fram að reglurnar skuli varða framkvæmd vátryggingarskyldunnar og hins vegar er sérstaklega tilgreind skylda vátryggingafélaganna til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi (t.d. ábyrgðarsjóði) vegna tjóns af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja. Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. annast uppgjör þessara tjóna hér á landi.

Um 5. gr.


    Lagt er til að á eftir 94. gr. laganna komi tvær nýjar greinar, 94. gr. a og 94. gr. b.
     Um a-lið (94. gr. a).
    Með 1. og 2. mgr. er lagt til að dómsmálaráðherra viðurkenni tjónsuppgjörsaðila sem getur greitt bætur í þeim tilvikum sem greinir í fjórðu ökutækjatryggingatilskipuninni. Tjónsuppgjörsaðili getur þannig fjallað um bótakröfu frá tjónþola sem búsettur er hér á landi, ef tjónið (slysið) átti sér stað í öðru EES- eða EFTA-ríki eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið og ef tjónið er af völdum ökutækis, sem er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki en Íslandi, eða af völdum óþekkts eða óvátryggðs ökutækis. Ökutæki telst samkvæmt tilskipuninni staðsett í landi þar sem það er skráð eða, ef um er að ræða ökutæki sem ekki þarf að skrá, í landi þar sem umráðamaður þess er búsettur. Tjónsuppgjörsaðili á enn fremur að geta endurgreitt bótafjárhæð sem greidd hefur verið af tjónsuppgjörsaðila í öðru EES- eða EFTA-ríki vegna tjóns af völdum ökutækis sem vátryggt er hér á landi.
    Fyrirhugað er að Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. verði tilnefndar sem tjónsuppgjörsaðili hér á landi.
    Skv. 3. mgr. á ráðherra að geta sett nánari reglur um greiðslu bóta frá tjónsuppgjörsaðila og um starfsemi hans að öðru leyti, m.a. reglur um hvaða bótakröfur skuli fjalla um í samræmi við tilskipunina og reglur um málsmeðferð hjá tjónsuppgjörsaðilanum, þar á meðal um tilkynningar til vátryggingafélagsins, tjónþola o.fl. um móttöku bótakröfu.
    Þá er og gert ráð fyrir að ráðherra geti sett nánari reglur um meðferð vátryggingafélaga og tiltekinna tjónsuppgjörsfulltrúa á bótakröfum vegna tjóna sem falla undir tilskipunina. Reglur þessar munu í fyrstu gilda um meðferð bótakrafna hér á landi, þ.e. hjá íslenskum vátryggingafélögum og tjónsuppgjörsfulltrúum erlendra vátryggingafélaga. Hins vegar mun einnig verða unnt að setja reglur um tjónsuppgjörsfulltrúa sem íslensk vátryggingafélög tilnefna í hinum EES- eða EFTA-ríkjunum þannig að innlend vátryggingafélög geti ef þau óska fylgst með því að tjónsuppgjörsfulltrúar fylgi þessum reglum.
    Ákvæði þessi miða að því að innleiða ákvæði 4. og 6. mgr. 4. gr. og 6. og 7. gr. tilskipunarinnar í íslenskan rétt.
    Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu, sbr. kafla 2.1 og 2.2.
     Um b-lið (94. gr. b).
    Með greininni er lagt til að dómsmálaráðherra viðurkenni upplýsingamiðstöð sem á að aðstoða við öflun upplýsinga um ökutæki sem valdið hefur tjóni og um vátryggingu þess þegar um er að ræða tilvik sem falla undir tilskipunina, sbr. 1. mgr. Upplýsingamiðstöðin mun þannig bæði fjalla um erindi frá tjónþolum og upplýsingamiðstöðvum í öðrum EES- eða EFTA-ríkjum.
    Fyrirhugað er að tilnefna Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. sem upplýsingamiðstöð hér á landi.
    Upplýsingar sem upplýsingamiðstöðin á samkvæmt tilskipuninni að skrá eða safna er hér á landi m.a. að finna í ökutækjaskrá sem Umferðarstofa heldur og hjá einstökum vátryggingafélögum. Þetta eru upplýsingar um skráningarnúmer ökutækja sem skráð eru hér á landi, um vátryggingafélög sem ábyrgðartryggja vélknúin ökutæki, um tjónsuppgjörsfulltrúa erlendra vátryggingafélaga hér á landi, um númer vátryggingarskírteina, græn kort o.fl., um ökutæki sem undanþegin eru vátryggingarskyldu, og um eigendur eða umráðamenn ökutækja.
    Með 2. mgr. er ráðherra enn fremur heimilað að setja reglur um starfsemi upplýsingamiðstöðvarinnar o.fl. Er m.a. fyrirhugað að setja reglur um hvaða upplýsingum upplýsingamiðstöðin skuli safna og miðla til tjónþola, þar á meðal hvenær tjónþoli geti fengið upplýsingar um eiganda eða umráðamann ökutækis, svo og um skyldu vátryggingafélaga og tjónsuppgjörsfulltrúa til að miðla upplýsingum til upplýsingamiðstöðvarinnar. Þannig verða settar reglur um að íslensk vátryggingafélög o.fl. skuli láta upplýsingamiðstöðvum í hinum EES- og EFTA-ríkjunum í té upplýsingar um hver sé tilnefndur tjónsuppgjörsfulltrúi í viðkomandi ríki.
    Vinnsla, þar á meðal miðlun persónuupplýsinga um eigendur og umráðamenn ökutækja o.fl., skal samkvæmt tilskipuninni vera í samræmi við innlendar reglur sem settar eru í samræmi við tilskipun 95/46/EB, um meðferð persónuupplýsinga um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, sbr. lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77 23. maí 2000.
    Ákvæði þessi miða að því að innleiða ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu, sbr. kafla 2.1.

Um 6. gr.


    Samkvæmt tilskipun 2000/26/EB eiga ákvæði tilskipunarinnar að koma til framkvæmda fyrir 20. janúar 2003. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.



Fylgiskjal I.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/26/EB frá 16. maí 2000

um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE

(Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr. og 95. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ), á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 7. apríl 2000,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Eins og sakir standa er misræmi á milli ákvæða laga og stjórnsýslufyrirmæla í aðildarríkjunum um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og þetta misræmi er hindrun í vegi frjálsra fólksflutninga og frjálsrar tryggingaþjónustustarfsemi.

     2)      Nauðsynlegt er því að samræma þessi ákvæði til að innri markaðurinn geti starfað snurðulaust.

     3)      Í tilskipun 72/166/EBE ( 4 ) samþykkti ráðið ákvæði um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og til að kveða á um skyldu til að viðhalda vátryggingu gagnvart slíkri ábyrgð.

     4)      Í tilskipun 88/357/EBE ( 5 ) samþykkti ráðið ákvæði um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum á sviði frumtrygginga, annarra en líftrygginga, og um að greiða fyrir því að réttur til að stunda þjónustustarfsemi sé nýttur.

     5)      Fyrirkomulagið með skrifstofur vegna græna skírteinisins tryggir að skjótt tjónsuppgjör geti farið fram í landi tjónþola jafnvel þótt hinn aðilinn sé frá öðru landi í Evrópu.

     6)      Fyrirkomulagið með skrifstofur vegna græna skírteinisins leysir ekki allan vanda tjónþola sem þarf að gera kröfu í öðru landi á hendur aðila sem er búsettur þar og á hendur vátryggingafélagi með starfsleyfi þar (erlent réttarkerfi, erlent tungumál, framandi málsmeðferð við tjónsuppgjör og oft óviðunandi tafir á tjónsuppgjöri).

     7)      Í ályktun sinni frá 26. október 1995 um tjónsuppgjör vegna umferðarslysa sem verða utan heimalands kröfuhafa ( 6 ) fór Evrópuþingið þess á leit við framkvæmdastjórnina, í samræmi við 2. mgr. 192. gr. sáttmálans, að hún legði fram tillögu að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins til að leysa þennan vanda.

     8)      Tímabært er að bæta við þær ráðstafanir sem komið var á með tilskipunum 72/166/EBE, 84/5/EBE ( 7 ) og 90/232/EBE ( 8 ) til að tryggja að tjónþolar, sem hafa orðið fyrir tjóni vegna slysa sem vélknúin ökutæki valda, sitji við sama borð án tillits til þess hvar innan bandalagsins slysin verða. Ýmsu er ábótavant að því er varðar tjónsuppgjör vegna slysa, sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar, sem eiga sér stað í öðru ríki en því þar sem tjónþoli hefur búsetu.

     9)      Beiting þessarar tilskipunar við slys sem eiga sér stað í þriðju löndum þar sem fyrirkomulagið um notkun græna skírteinisins gildir og sem hafa áhrif á tjónþola sem eru búsettir innan bandalagsins og þar sem vélknúin ökutæki koma við sögu sem eru tryggð og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki, felur ekki í sér þá landfræðilegu útvíkkun á lögboðinni ökutækjatryggingarvernd sem kveðið er á um í 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 72/166/EBE.

     10)      Þetta felur í sér að tjónþoli öðlast rétt til að beina kröfu sinn beint til vátryggingafélags aðilans sem ber ábyrgð á slysinu.

     11)      Viðunandi lausn fyrir tjónþola sem verða fyrir tjóni vegna slysa, sem vélknúin ökutæki valda og sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar og verða í öðru ríki en þar sem þeir eru búsettir, gæti verið að mega gera kröfu í aðildarríkinu, þar sem þeir hafa búsetu, á hendur tjónsuppgjörsfulltrúa sem er tilnefndur þar af vátryggingafélagi aðilans, sem ber ábyrgð á slysinu.

     12)      Þessi lausn fæli í sér að farið yrði með tjón, sem tjónþolar verða fyrir utan aðildarríkisins þar sem þeir hafa búsetu, eftir málsmeðferð sem þeim er kunn.

     13)      Það fyrirkomulag að hafa tjónsuppgjörsfulltrúa í aðildarríkinu þar sem tjónþoli hefur búsetu hefur hvorki áhrif á það hvaða efnisrétti skuli beita í hverju einstöku tilviki né á lögsögu.

     14)      Það að sá, sem orðið hefur fyrir tjóni, skuli eiga rétt til að beina kröfu sinni beint til vátryggingafélags er rökrétt viðbót við að tilnefna slíka fulltrúa og bætir auk þess lagalega stöðu tjónþola að því er varðar slys af völdum vélknúinna ökutækja sem eiga sér stað utan aðildarríkisins þar sem aðilinn er búsettur.

     15)      Í því skyni að bæta úr téðum atriðum, sem ábótavant er, skal kveða á um að aðildarríkið, þar sem vátryggingafélagið hefur starfsleyfi, krefjist þess að félagið tilnefni tjónsuppgjörsfulltrúa sem búsettir eru, eða hafa staðfestu, í hinum aðildarríkjunum og skulu þeir safna öllum nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við kröfur vegna slíkra slysa og gera viðeigandi ráðstafanir til að gera upp kröfur fyrir hönd vátryggingafélagsins og á kostnað þess, þar á meðal greiða skaðabætur. Tjónsuppgjörsfulltrúar skulu hafa umboð til að koma fram fyrir hönd vátryggingafélagsins gagnvart fólki sem orðið hefur fyrir tjóni vegna slíkra slysa, auk þess að koma fram fyrir hönd þess frammi fyrir innlendum yfirvöldum, þar á meðal dómstólum þegar þess gerist þörf, svo fremi það samræmist reglum alþjóðlegs einkamálaréttar um val á lögsögu.

     16)      Starfsemi tjónsuppgjörsfulltrúa er ekki nægilegur grundvöllur fyrir því að valin sé lögsaga dómstóla í aðildarríkinu, þar sem tjónþoli er búsettur, ef reglur alþjóðlegs einkamálaréttar um val á lögsögu kveða ekki á um það.

     17)      Tilnefning fulltrúa sem annast uppgjör bótakrafna skal vera eitt af skilyrðunum fyrir því að hefja og stunda vátryggingastarfsemi þá sem talin er upp í 10. flokki A-liðar í viðaukanum við tilskipun 73/239/EBE ( 9 ), að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga. Þetta skilyrði skal því uppfyllt með einu opinberu leyfi sem gefið er út af yfirvöldum í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið hefur aðalskrifstofu, eins og tiltekið er í II. bálki tilskipunar 92/49/EBE ( 10 ). Þetta skilyrði skal einnig gilda um vátryggingafélög sem hafa aðalskrifstofu utan bandalagsins og hafa tryggt sér leyfi sem heimilar þeim að hefja vátryggingastarfsemi í aðildarríki bandalagsins. Af þessum sökum skal tilskipun 73/239/EBE breytt og bætt við hana.

     18)      Auk þess að tryggja að vátryggingafélagið hafi fulltrúa í ríkinu þar sem tjónþoli er búsettur, er rétt að tryggja tjónþola þann rétt að krafan verði gerð upp eins skjótt og auðið er. Því er nauðsynlegt, ef vátryggingafélagið eða fulltrúi þess skyldu bregðast þeirri skyldu sinni að bjóða skaðabætur innan viðunandi frests, að í landslögum séu viðeigandi skilvirk og kerfisbundin stjórnsýsluviðurlög, fjárhagsleg eða jafngild, svo sem fyrirmæli ásamt stjórnsýslusektum, reglubundin skýrslugjöf til eftirlitsyfirvalda, vettvangseftirlit, birting í innlendu lögbirtingablaði og í dagblöðum, afturköllun á starfsemi félagsins (bann við gerð nýrra samninga í tiltekinn tíma), tilnefning sérstaks fulltrúa eftirlitsyfirvalda sem hefur eftirlit með því að rekstur sé í samræmi við vátryggingalög, afturköllun starfsleyfis eða viðurlög gagnvart stjórnendum og forstöðumönnum. Þetta skal ekki hafa áhrif á beitingu neinna annarra ráðstafana, einkum og sér í lagi samkvæmt eftirlitslögum, sem kunna að teljast við hæfi. Til þess að vátryggingafélagið geti boðið bætur byggðar á rökstuðningi innan tilskilins frests er það þó skilyrði að ekki leiki vafi á bótaábyrgð og tjóninu sem orðið er. Rökstutt boð um skaðabætur skal vera skriflegt og í því tíundaður grundvöllur mats á bótaábyrgð og tjóni.

     19)      Auk þessara viðurlaga er rétt að kveða á um að vextir skuli greiðast ofan á bótafjárhæð sem vátryggingafélag býður eða dómstóll dæmir tjónþola, hafi bætur ekki verið boðnar innan tilskilins frests. Ef innlendar reglur aðildarríkja taka til kröfu um dráttarvexti er heimilt að beita þessu ákvæði með tilvísun til þeirra reglna.

     20)      Tjónþolar, sem hafa orðið fyrir tjóni í slysi sem hlýst af notkun vélknúinna ökutækja, eiga stundum erfitt með að fá gefið upp nafn vátryggingafélagsins sem viðkomandi ökutæki eru ábyrgðartryggð hjá.

     21)      Aðildarríki skulu koma á fót upplýsingamiðstöðvum í þágu slíkra aðila til að tryggja að slíkar upplýsingar séu veittar eins skjótt og auðið er. Í þessum upplýsingamiðstöðvum skulu tjónþolar einnig geta nálgast upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa. Nauðsynlegt er að slíkar miðstöðvar hafi með sér samstarf og veiti skjót svör við beiðnum um upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa frá miðstöðvum í öðrum aðildarríkjum. Rétt er að slíkar miðstöðvar safni upplýsingum um það hvenær tryggingavernd rennur út í raun en ekki um það hvenær upprunalegum gildistíma tryggingaskírteinisins lýkur ef samninginn má endurnýja með því að segja honum ekki upp.

     22)      Setja skal sérákvæði um ökutæki (svo sem ökutæki í eigu hins opinbera eða hers) sem undanþágur frá ábyrgðartryggingarskyldu gilda um.
     23)      Ef lögmætir hagsmunir tjónþola felast í því að honum sé tilkynnt um deili á eiganda ökutækisins, þeim sem ekur því að jafnaði eða skráðum umráðamanni þess, svo sem ef hann getur einungis fengið bætur frá þessum mönnum vegna þess að ökutækið er ekki tryggt á viðeigandi hátt eða ef tjón nemur meiru en vátryggingarfjárhæð, ber einnig að veita þessar upplýsingar.

     24)      Tilteknar upplýsingar, svo sem nafn og heimilisfang eigandans eða þess sem ekur ökutækinu að jafnaði og númer vátryggingarskírteinis eða skráningarnúmer ökutækisins, eru persónuupplýsingar í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 11 ). Vinnsla slíkra gagna, með skírskotun til þessarar tilskipunar, verður því að vera í samræmi við innlendar ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt tilskipun 95/46/EB. Nafn og heimilisfang þess sem ekur ökutækinu að jafnaði skal því einungis látið uppi að kveðið sé á um slíkt í landslögum.

     25)      Nauðsynlegt er að tjónþoli geti leitað til tjónsuppgjörsstofnunar ef vátryggingafélagið hefur ekki tilnefnt fulltrúa eða er augljóslega að tefja uppgjör kröfu eða ef ekki eru vituð deili á vátryggingafélagi til þess að tryggja að tjónþoli verði ekki af þeim bótum sem hann á rétt á. Íhlutun tjónsuppgjörsstofnunar skal takmarkast við örfá, einstök tilvik þar sem vátryggingafélag hefur ekki uppfyllt skyldur sínar þrátt fyrir letjandi áhrif hugsanlegrar viðurlagaálagningar.

     26)      Hlutverk tjónsuppgjörsstofnunar er einungis að gera upp bótakröfur vegna hvers kyns tjóns sem tjónþoli verður fyrir þegar ekki leikur vafi á ábyrgð og því verður tjónsuppgjörsstofnun að takmarka starfsemi sína við að ganga úr skugga um að bætur hafi verið boðnar innan þeirra tímamarka og í samræmi við málsmeðferð sem mælt hefur verið fyrir um, án þess að meta málsatvik.

     27)      Lögpersónur, sem samkvæmt lögum ganga inn í kröfu tjónþola gegn þeim sem ber ábyrgð á slysinu eða vátryggingafélagi hans (svo sem, til dæmis, önnur vátryggingafélög eða tryggingastofnanir), skulu ekki eiga rétt á að gera samsvarandi kröfu á tjónsuppgjörsstofnun.

     28)      Tjónsuppgjörsstofnun skal eiga rétt á kröfuhafaskiptum að því marki sem hann hefur bætt tjónþola tjónið. Til að auðvelda tjónsuppgjörsstofnun að framfylgja kröfu sinni á hendur vátryggingafélagi, sem hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa eða er augljóslega að tefja uppgjör kröfu, skal sá aðili sem greiðir bætur í ríki tjónþola sjálfkrafa öðlast endurkröfurétt með yfirfærslu réttinda tjónþola til tilsvarandi aðila í ríkinu þar sem vátryggingafélagið hefur aðsetur. Síðarnefndur aðili er í bestri aðstöðu til að höfða mál vegna endurkröfu á hendur vátryggingafélaginu.

     29)      Jafnvel þótt aðildarríkin geti séð til þess að krafa á hendur tjónsuppgjörsstofnun sé til vara skal ekki skylda tjónþola til að leggja fram kröfu á hendur þeim sem ber ábyrgð á slysinu áður en hann gerir kröfu á hendur tjónsuppgjörsstofnun. Staða tjónþola í slíku tilviki skal ekki vera lakari en þegar um er að ræða kröfu gegn ábyrgðarsjóði samkvæmt 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE.

     30)      Þetta kerfi má gera starfhæft með samningi milli tjónsuppgjörsstofnana, sem aðildarríkin koma á fót eða samþykkja, sem skilgreinir starfsemi þeirra og skyldur og málsmeðferð við endurgreiðslu.

     31)      Ef ómögulegt reynist að finna vátryggjanda ökutækisins skulu gerðar ráðstafanir til þess að sá sem að lokum á að reiða fram fjárhæðina sem tjónþoli fær í skaðabætur, sé ábyrgðarsjóðurinn sem kveðið er á um í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE í aðildarríkinu þar sem hið ótryggða ökutæki, sem olli slysinu, er að öllu jöfnu staðsett. Ef ómögulegt reynist að staðfesta um hvaða ökutæki er að ræða skulu gerðar ráðstafanir til þess að sá sem að lokum á að reiða fram fjárhæðina sé ábyrgðarsjóðurinn sem kveðið er á um í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið

1.     Markmiðið með þessari tilskipun er að mæla fyrir um sérákvæði sem gilda um tjónþola sem eiga rétt á skaðabótum vegna hvers kyns tjóns sem þeir verða fyrir í slysum, sem eiga sér stað í öðru aðildarríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, og hljótast af notkun ökutækja sem eru tryggð og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki.

Með fyrirvara um löggjöf þriðju landa um skaðabótaábyrgð og alþjóðlegan einkamálarétt skal þessi tilskipun einnig gilda um tjónþola sem eru búsettir í aðildarríki og eiga rétt á bótum vegna hvers kyns tjóns af völdum slysa sem eiga sér stað í þriðju löndum þar sem landsskrifstofur bifreiðatrygginga, sem eru skilgreindar í 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE, hafa gerst aðilar að fyrirkomulaginu um notkun græna skírteinisins ef slík slys hljótast af notkun ökutækja sem eru tryggð, og að jafnaði staðsett, í aðildarríki.

2.     Ákvæði 4. og 6. gr. skulu aðeins gilda þegar um er að ræða slys sem hlýst af notkun ökutækis

a)      sem er vátryggt hjá starfsstöð í öðru aðildarríki en því ríki þar sem tjónþoli er búsettur, og

b)      sem er að jafnaði staðsett í öðru aðildarríki en því ríki þar sem tjónþoli er búsettur.

3.     Ákvæði 7. gr. skulu einnig gilda um slys af völdum ökutækja frá þriðju löndum sem falla undir 6. og 7. gr. tilskipunar 72/166/EBE.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „vátryggingafélag“: félag sem fengið hefur starfsleyfi yfirvalda í samræmi við 6. gr. eða 2. mgr. 23. gr. tilskipunar 73/239/EBE;

b)      „starfsstöð“: aðalskrifstofa, útibú eða umboð vátryggingafélags, eins og skilgreint er í c-lið 2. gr. tilskipunar 88/357/EBE;

c)      „ökutæki“: ökutæki eins og það er skilgreint í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

d)      „tjónþoli“: tjónþoli eins og hann er skilgreindur í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

e)      „aðildarríkið þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett“: landsvæðið þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett eins og það er skilgreint í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE.

3. gr.

Réttur til að beina kröfu beint til vátryggingafélags

Sérhvert aðildarríki skal tryggja að tjónþolar þeir, sem um getur í 1. gr., sem hafa orðið fyrir slysi í skilningi þess ákvæðis, eigi rétt á að beina kröfu sinni beint til vátryggingafélagsins sem aðilinn, sem ber ábyrgð á slysinu, er ábyrgðartryggður hjá.

4. gr.

Tjónsuppgjörsfulltrúar

1.     Sérhvert aðildarríki skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll vátryggingafélög, sem tryggja gegn áhættu sem flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, annarri en ábyrgð vegna flutninga, tilnefni tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki öðru en því þar sem þau hafa fengið starfsleyfi yfirvalda. Tjónsuppgjörsfulltrúi skal fara með kröfur og uppgjör vegna tjóna af völdum slysa í þeim tilvikum sem um getur í 1. gr. Tjónsuppgjörsfulltrúi skal vera búsettur eða hafa staðfestu í aðildarríkinu þar sem hann hefur verið tilnefndur.

2.     Val á tjónsuppgjörsfulltrúa skal vera ákvörðun vátryggingafélagsins. Aðildarríkjunum er óheimilt að takmarka þetta val.

3.     Tjónsuppgjörsfulltrúi getur unnið fyrir eitt eða fleiri vátryggingafélög.

4.     Tjónsuppgjörsfulltrúi skal, í tengslum við slíkar kröfur, safna öllum nauðsynlegum upplýsingum er varða tjónauppgjör og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að semja um þær. Sú krafa að tilnefndur sé tjónsuppgjörsfulltrúi skal ekki fyrirbyggja rétt tjónþola eða vátryggingafélags hans til að hefja málssókn beint gegn þeim sem var valdur að slysinu eða vátryggingafélagi hans.

5.     Tjónsuppgjörsfulltrúar skulu hafa umboð til að koma fram fyrir hönd vátryggingafélagsins gagnvart tjónþolum í þeim tilvikum sem um getur í 1. gr. og bæta kröfur þeirra að fullu. Þeir verða að vera færir um að kanna mál á opinberu tungumáli eða -málum aðildarríkisins þar sem tjónþoli er búsettur.

6.     Aðildarríkin skulu gera það að skyldu, og styðja með viðeigandi, árangursríkum og kerfisbundnum stjórnsýsluviðurlögum, fjárhagslegum eða samsvarandi, að innan þriggja mánaða frá þeim degi þegar tjónþoli gerir bótakröfu, annað hvort beint á vátryggingafélag þess sem olli slysinu eða tjónsuppgjörsfulltrúa þess,

a)      sé þess krafist að vátryggingafélag þess sem olli slysinu eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess bjóði bætur og rökstyðji þær í tilvikum þar sem ekki ríkir ágreiningur um bótaábyrgð og tjón hefur verið metið, eða

b)      þess sé krafist að vátryggingafélag sem bótakröfu er beint til eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess gefi rökstutt svar við þeim atriðum sem tiltekin eru í kröfunni í tilvikum þar sem bótaábyrgð er hafnað eða ekki hefur verið skorið úr um hana eða ef tjón hefur ekki verið metið að fullu.

Aðildarríkin skulu setja ákvæði til að tryggja að þegar bætur eru ekki boðnar innan þriggja mánaða frestsins skuli vextir greiðast ofan á bótafjárhæðina sem vátryggingafélag býður eða dómstóll dæmir tjónþola.

7.     Framkvæmdastjórnin skal gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um framkvæmd fyrstu undirgreinar 4. mgr. og um skilvirkni þess ákvæðis sem og um samræmi innlendra viðurlagaákvæða fyrir 20. janúar 2006 og leggja fram tillögur ef nauðsyn ber til.

8.     Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa skal ekki í sjálfu sér teljast opnun útibús, í skilningi b-liðar 1. gr. tilskipunar 92/49/EBE og tjónsuppgjörsfulltrúi skal ekki talinn vera starfsstöð í skilningi c-liðar 2. gr. tilskipunar 88/357/EBE né starfsstöð í skilningi Brussel-samningsins frá 27. september 1968 um dómsvald og um viðurkenningu dóma í einkamálum ( 12 ).

5. gr.

Upplýsingamiðstöðvar

1.     Í því skyni að gera tjónþola kleift að fara fram á bætur skal sérhvert aðildarríki koma á fót eða samþykkja upplýsingamiðstöð sem:

a)      halda skal skrá um:

    1.    skráningarnúmer vélknúinna ökutækja sem eru að öllu jöfnu staðsett á yfirráðasvæði viðkomandi ríkis;

    2.    (i)    númer vátryggingaskírteina sem taka til notkunar þessara ökutækja að því er varðar áhættu sem flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, aðra en ábyrgð vegna flutninga, og, ef gildistími vátryggingaskírteinis er útrunninn, einnig daginn sem vátryggingarvernd rennur út;

              (ii)    númer græna skírteinisins eða landamæravátryggingaskírteinis ef annað þessara skjala gildir um ökutækið, svo framarlega sem það nýtur undanþágunnar sem kveðið er á um í b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

    3.    þau vátryggingafélög sem notkun ökutækja er tryggð hjá að því er varðar áhættu sem flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, aðra en ábyrgð vegna flutninga, og tjónsuppgjörsfulltrúar sem tilnefndir eru af slíkum vátryggingafélögum í samræmi við 4. gr., en nöfn þeirra skulu tilkynnt upplýsingamiðstöðinni í samræmi við 2. mgr. þessarar greinar;

    4.    skrá um ökutæki sem í hverju aðildarríki njóta undanþágu frá kröfu um ábyrgðartryggingarvernd í samræmi við a- og b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

    5.    þegar um er að ræða ökutæki sem kveðið er á um í 4-lið:

              (i)    nafn yfirvalds eða stofnunar sem tilnefnd er í samræmi við aðra undirgrein a-liðar 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE til að annast bótagreiðslur til tjónþola í tilvikum þar sem málsmeðferðin, sem kveðið er á um í fyrsta undirlið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 72/166/EBE, á ekki við ef ökutækið nýtur undanþágunnar sem kveðið er á um í a-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

              (ii)    nafn stofnunar sem ábyrgist ökutækið í aðildarríkinu þar sem það er að öllu jöfnu staðsett ef ökutækið nýtur undanþágunnar sem kveðið er á um í b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

b)      eða samræma söfnun og miðlun þessara upplýsinga;

c)      og aðstoða bótakröfuhafa við að fá aðgang að upplýsingunum sem fjallað er um í 1.-5. lið a-liðar.
Upplýsingar samkvæmt 1.–3. lið a-liðar skal geyma í sjö ár eftir að skráning ökutækisins eða gildistími vátryggingasamningsins rennur út.

2.     Vátryggingafélög, sem um getur í 3. lið a-liðar í 1. mgr., skulu tilkynna upplýsingamiðstöðvum í öllum aðildarríkjunum nafn og heimilisfang þess tjónsuppgjörsfulltrúa sem þau hafa tilnefnt, samkvæmt 4. gr., í hverju aðildarríki.

3.     Aðildarríkin skulu tryggja að í sjö ár eftir slysið eigi tjónþoli rétt á því að upplýsingamiðstöðin í aðildarríkinu þar sem hann er búsettur, í aðildarríkinu þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett eða í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað, láti honum í té, án tafar, eftirtaldar upplýsingar:

a)      nafn og heimilisfang vátryggingafélagsins;

b)      númerið á vátryggingaskírteininu; og

c)      nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa vátryggingafélagsins í ríkinu þar sem tjónþoli er búsettur.

Upplýsingamiðstöðvar skulu hafa með sér samvinnu.

4.     Upplýsingamiðstöðin skal láta tjónþola í té nafn og heimilisfang eiganda ökutækisins, þess sem ekur því að jafnaði eða skráðs umráðamanns þess ef lögmætir hagsmunir tjónþola felast í því að hann fái þessar upplýsingar. Að því er varðar þetta ákvæði skal upplýsingamiðstöðin einkum snúa sér:

a)      til vátryggingafélagsins, eða

b)      til skráningarskrifstofu ökutækja.

Njóti ökutækið undanþágunnar, sem kveðið er á um í a-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE, skal upplýsingamiðstöðin tilkynna tjónþola um nafn þess yfirvalds eða stofnunar sem tilnefnd er í samræmi við aðra undirgrein a-liðar 4. gr. þeirrar tilskipunar til að annast bótagreiðslur til tjónþola í þeim tilvikum þar sem málsmeðferðin, sem kveðið er á um í fyrsta undirlið 2. mgr. 2. gr. í þeirri tilskipun, gildir ekki.

Ef ökutækið nýtur undanþágunnar, sem kveðið er á um í b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE, skal upplýsingamiðstöðin tilkynna tjónþola nafn stofnunarinnar sem ábyrgist ökutækið í landinu þar sem það er að öllu jöfnu staðsett.

5.     Sú vinnsla persónuupplýsinga, sem um getur í málsgreinunum hér að framan, skal fara fram í samræmi við innlendar ráðstafanir sem gerðar eru í samræmi við tilskipun 95/46/EB.

6. gr.

Tjónsuppgjörsstofnun

1.     Sérhvert aðildarríki skal koma á eða samþykkja tjónsuppgjörsstofnun sem annast bótagreiðslur til tjónþola í þeim tilvikum sem um getur í 1. gr.

Slíkir tjónþolar geta gert kröfu á tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem þeir eru búsettir:

a)      ef vátryggingafélag eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess hefur ekki látið í té rökstutt svar við þeim atriðum sem koma fram í kröfu innan þriggja mánaða frá þeim degi sem tjónþoli gerði bótakröfu á hendur vátryggingafélaginu sem ökutækið, sem olli slysinu, var tryggt hjá eða á hendur tjónsuppgjörsfulltrúa þess; eða

b)      ef vátryggingafélag hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa í ríkinu þar sem tjónþoli er búsettur í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Í því tilviki geta tjónþolar ekki gert kröfu á hendur tjónsuppgjörsstofnun ef þeir hafa gert bótakröfu beint á hendur vátryggingafélaginu þar sem ökutækið, sem olli slysinu, var tryggt og hafa fengið rökstutt svar innan þriggja mánaða frá því að krafan var gerð.

Tjónþolar geta hins vegar ekki gert kröfu á tjónsuppgjörsstofnun hafi þeir hafið málsókn beint á hendur vátryggingafélaginu.

Tjónsuppgjörsstofnunin skal grípa til aðgerða innan tveggja mánaða frá þeim degi sem tjónþoli gerir bótakröfu á hendur henni en hún skal hætta aðgerðum ef vátryggingafélagið, eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess, sendir í kjölfarið rökstutt svar við kröfunni.

Tjónsuppgjörsstofnunin skal þegar í stað tilkynna:

a)      vátryggingafélagi ökutækisins sem olli slysinu eða tjónsuppgjörsfulltrúa þess;

b)      tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið, sem gaf út vátryggingaskírteinið, hefur staðfestu;

c)      þeim sem var valdur að slysinu, ef vitað er,

að hún hafi móttekið kröfu frá tjónþola og að hún muni svara kröfunni innan tveggja mánaða frá því að hún var gerð.

Ákvæði þetta skerðir hvorki rétt aðildarríkis til að meta hvort bætur þessarar stofnunar teljast fullnaðarbætur eða ekki né til að setja ákvæði um tjónsuppgjör milli þess aðila og þess eða þeirra sem voru valdir að slysinu og annarra vátryggjenda eða tryggingastofnana á vegum hins opinbera sem eiga að greiða tjónþola bætur vegna sama slyss. Aðildarríki mega þó ekki veita tjónsuppgjörsstofnun heimild til þess að setja nein skilyrði fyrir greiðslu bóta, önnur en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, svo sem að tjónþoli sýni fram á að sá sem ber skaðabótaábyrgð sé ófær um eða neiti að bæta tjónið.

2.     Tjónsuppgjörsstofnunin, sem bætt hefur tjónþola tjónið í ríkinu þar sem hann er búsettur, skal eiga rétt á að krefjast endurgreiðslu á fjárhæðinni, sem greidd var í bætur, frá tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið, sem gaf út vátryggingaskírteinið, hefur staðfestu.

Réttindi tjónþola gagnvart þeim sem var valdur að slysinu eða vátryggingafélagi hans skulu þá færast yfir til síðarnefndrar tjónsuppgjörsstofnunar að því marki sem tjónsuppgjörsstofnunin í aðildarríkinu þar sem tjónþoli er búsettur hefur bætt tjónið sem um ræðir. Sérhverju aðildarríki ber skylda til að viðurkenna slík kröfuhafaskipti eins og kveðið er á um þau í hinum aðildarríkjunum.

3.     Ákvæði þessarar greinar skulu koma til framkvæmda:

a)      eftir að samningur hefur verið gerður milli tjónsuppgjörsstofnananna, sem komið er á eða sem aðildarríkin samþykkja, um störf þeirra og skyldur og málsmeðferð um endurgreiðslu;

b)      frá og með þeim degi sem framkvæmdastjórnin ákveður, eftir að hún hefur, í nánu samstarfi við aðildarríkin, gengið úr skugga um að slíkur samningur hafi verið gerður.

Framkvæmdastjórnin skal gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um framkvæmd þessarar greinar og um áhrif hennar fyrir 20. júlí 2005 og leggja fram tillögur ef nauðsyn ber til.

7. gr.

Ef ómögulegt reynist að staðfesta um hvaða ökutæki er að ræða eða ef ómögulegt reynist, innan tveggja mánaða frá slysinu, að finna vátryggingafélagið, getur tjónþoli sótt um bætur frá tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem hann er búsettur. Tjón skal bætt í samræmi við 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE. Tjónsuppgjörsstofnunin skal þá eiga kröfu, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. þessarar tilskipunar:

a)      ef ekki er unnt að staðfesta um hvaða vátryggingafélag er að ræða: á hendur ábyrgðarsjóðnum, sem kveðið er á um í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE, í aðildarríkinu þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett;

b)      ef um er að ræða óþekkt ökutæki: á hendur ábyrgðarsjóðnum í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað;

c)      ef um er að ræða ökutæki frá þriðja landi: á hendur ábyrgðarsjóðnum í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað.

8. gr.

Tilskipun 73/239/EBE er breytt sem hér segir:

a)      Í 1. mgr. 8. gr. bætist eftirfarandi liður við:

    „f)    tilkynni nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa sem tilnefndur er í hverju aðildarríki öðru en því þar sem sótt er um starfsleyfið, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans, að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga.“

b)      Í 2. mgr. 23. gr. bætist eftirfarandi liður við:

    „h)    tilkynni nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa sem tilnefndur er í hverju aðildarríki öðru en því þar sem sótt er um starfsleyfið, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans, að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga.“

9. gr.

Tilskipun 88/357/EBE er breytt sem hér segir:

Í 4. mgr. 12. gr. a bætist eftirfarandi undirgrein við:

    „Ef vátryggingafélag hefur ekki tilnefnt fulltrúa geta aðildarríkin samþykkt að tjónsuppgjörsfulltrúi, sem tilnefndur er í samræmi við 4. gr. tilskipunar 2000/26/EB(*) annist störf fulltrúans sem tilnefndur er samkvæmt þessari málsgrein.
    (*)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65).“

10. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta fyrir 20. júlí 2002 nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þau skulu beita þessum ákvæðum fyrir 20. janúar 2003.

2.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3.     Með fyrirvara um 1. mgr. skulu aðildarríkin koma á fót eða samþykkja tjónsuppgjörsstofnun í samræmi við 1. mgr. 6. gr. fyrir 20. janúar 2002. Ef tjónsuppgjörsstofnanir hafa ekki gert samning í samræmi við 3. mgr. 6. gr. fyrir 20. júlí 2002 skal framkvæmdastjórnin koma með tillögu um ráðstafanir til að tryggja að ákvæði 6. og 7. gr. komi til framkvæmda fyrir 20. janúar 2003.

4.     Aðildarríkin mega, í samræmi við sáttmálann, viðhalda eða samþykkja ákvæði sem eru hagstæðari fyrir tjónþola en ákvæðin sem nauðsynleg eru til að fara að tilskipun þessari.

5.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

11. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

12. gr.

Viðurlög

Aðildarríkin skulu samþykkja viðurlög vegna brota á innlendum ákvæðum sem þau samþykkja til framkvæmdar þessari tilskipun og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að þessum viðurlögum sé beitt. Viðurlögin skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þessi ákvæði eigi síðar en 20. júlí 2002 og breytingar, sem kunna að verða gerðar á þeim, eins fljótt og unnt er.

13. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.


Gjört í Brussel 16. maí 2000.


     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    Nicole FONTAINE     Manuel CARRILHO

    forseti.     forseti.

..............




Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987.

    Tilefni frumvarps þessa er innleiðing á tilskipun 2000/26/EB um samræmingu á lögum aðildarríkja Evrópusambandsins um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum 72/239/EBE og 88/237/EBE, sem tekin hefur verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarpið miðar að því að auðvelda tjónþola að fá bætur vegna umferðarslyss í ríkjum EES og í Sviss. Er lagt til að dómsmálaráðherra viðurkenni svonefndan tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð í þessu skyni. Ekki er þó gert ráð fyrir að komið verði á fót ríkisstofnun, heldur að samtökin Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. annist þetta hlutverk. Kostnaður við tjónsuppgjörsaðilann og upplýsingamiðstöðina greiðist af viðkomandi vátryggingarstarfsemi og er því ekki ástæða til að ætla að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB C 343, 13.11.1997, bls. 11 og Stjtíð. EB C 171, 18.6.1999, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB C 157, 25.5.1998, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 16. júlí 1998 (Stjtíð. EB C 292, 21.9.1998, bls. 123), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 21. maí 1999 (Stjtíð. EB C 232, 13.8.1999, bls. 8) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 15. desember 1999 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 2. maí 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 16. maí 2000.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 103, 2.5.1972, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 84/5/EBE (Stjtíð. EB L 8, 11.1.1984, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 92/49/EBE (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB C 308, 20.11.1995, bls. 108.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Önnur tilskipun ráðsins (84/5/EBE) frá 30. desember 1983 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar á vélknúnum ökutækjum (Stjtíð. EB L 8, 11.1.1984, bls. 17). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 90/232/EBE (Stjtíð. EB L 129, 19.5.1990, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Þriðja tilskipun ráðsins (90/232/EBE) frá 14. maí 1990 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar á vélknúnum ökutækjum (Stjtíð. EB L 129, 19.5.1990, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Fyrsta tilskipun ráðsins (73/239/EBE) frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga (Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 95/26/EB (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Tilskipun ráðsins (92/49/EBE) frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar, og um breytingu á tilskipunum 73/239/EBE og 88/357/EBE (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 95/26/EB (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Stjtíð. EB, L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Stjtíð. EB C 27, 26.1.1998, bls. 1 (samsteypt skjal).