Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 490. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 806  —  490. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla, þjóðaratkvæðagreiðsla, samhliða kosningum til Alþingis 10. maí nk. um hvort ráðist skuli í byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða ekki. Alþingi felur ríkisstjórninni að gera nauðsynlegar ráðstafanir og tilkynna viðkomandi aðilum að ekki skuli hafist handa um framkvæmdir fyrr en að fengnu samþykki meiri hluta kjósenda en horfið frá þeim ella ef meiri hluti kjósenda reynist þeim andvígur. Alþingi felur dómsmálaráðherra að undirbúa og kynna kosninguna, þ.m.t. að tryggja að unnt verði að greiða atkvæði um málið í kosningum utan kjörfundar.

Greinargerð.


    Bygging fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar og tengd stóriðja er í senn gríðarlega umdeilt og afdrifaríkt mál og niðurstaðan mun varða miklu um framtíð miðhálendisins. Umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir setja nú æ meira mark á miðbik hálendisins sunnan jökla en svæðið norðan jökla er tiltölulega ósnortið enn. Fram undan eru alþingiskosningar 10. maí nk. og það ylli því óverulegum ef nokkrum töfum á upphafi eiginlegra framkvæmda að bíða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu ef samþykkt yrði. Reynist hins vegar meiri hluti þjóðarinnar andvígur framkvæmdunum yrði afstýrt því slysi að í þær væri ráðist í andstöðu við meirihlutavilja þjóðarinnar. Báðir málsaðilar ættu að eiga auðveldara með að sætta sig við niðurstöðu málsins ef ákvörðun verður tekin af þjóðinni sjálfri með framangreindum hætti.
    Tillagan sem hér er flutt gerir ráð fyrir að samhliða alþingiskosningum 10. maí 2003 verði áform um mestu og umdeildustu framkvæmdir sem ráðgerðar hafa verið hérlendis borin undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. Að baki liggja harðar deilur um Kárahnjúkavirkjun og hugmyndir um aðrar virkjanir á þessu svæði og úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 sem flestir viðurkenna að er byggður á þröngum pólitískum viðhorfum. Fjölmargar ástæður renna stoðum undir þá hugmynd að frekari framvinda málsins verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn geti tekið þátt í. Mótmæli síðustu daga og vikna eru þau mestu sem upp hafa risið í íslensku samfélagi á seinni árum, þar sem m.a. hafa verið haldnir fjölmennir útifundir og samkomur til varnar hálendi Íslands.
    Kannanir á afstöðu almennings til Kárahnjúkavirkjunar hafa sýnt að þjóðin skiptist í fylkingar í afstöðu sinni. Einnig sést af blaðagreinum og skoðanaskiptum á netmiðlum að almenningur lætur sig málið miklu skipta. Hér er um óafturkræfar aðgerðir að ræða sem hafa áhrif löngu eftir daga þeirra sem nú lifa og bera ábyrgð á náttúru Íslands.
    Einnig ber að líta á málið út frá alþjóðlegum skuldbindingum okkar í umhverfismálum, svo sem Ríó-yfirlýsingunni, rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og samningnum um líffræðilega fjölbreytni, að ógleymdri áætlun um sjálfbær Norðurlönd sem Íslendingar eiga aðild að. Þá gera tilskipanir Evrópusambandsins kröfur til undirbúnings ákvarðana um framkvæmdir af þessu tagi, m.a. eru tilskipanir ESB grundvöllur laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Með alþjóðasamningum höfum við undirgengist mikilvægar skyldur er snerta varúð í umhverfismálum, trúverðugleika og gagnsæi í umfjöllun um þau og um að láta fara fram hlutlægt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda áður en ákvarðanir um þær eru teknar. En skyldur okkar lúta ekki síður að því að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð við mat á umhverfisáhrifum. Um lýðræðislegu hliðina í þessu tiltekna máli má segja að margir telja stjórnvöld hafa farið offari í beitingu valds síns.
    Flutningsmenn tillögunnar eru andvígir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar og hafa margoft gert grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála. Í ljósi þess hversu afdrifarík niðurstaða í þessu máli getur orðið fyrir nútíð og komandi kynslóðir telja flutningsmenn full rök standa til að gefa öllum kosningarbærum mönnum tækifæri til að taka afstöðu til framhalds þess í almennri atkvæðagreiðslu. Með kosningunni væri unnt að tryggja að ekki yrði af byggingu Kárahnjúkavirkjunar ef meiri hluti þjóðarinnar reyndist henni andvígur.