Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 491. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 807  —  491. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að ríkisstjórnin beiti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland standi utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn Írak.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma þeirri afstöðu á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem við á að leita skuli allra leiða til að afstýra innrás í Írak, þar á meðal að veita vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna nægan tíma til að ljúka störfum sínum. Komi til hernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skal Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði né verði um neins konar þátttöku að ræða af Íslands hálfu í slíkum aðgerðum.

Greinargerð.


    Allt frá því að vopnaeftirlit á vegum Sameinuðu þjóðanna hófst að nýju í Írak í lok nóvember á síðasta ári hefur það legið í loftinu að óháð niðurstöðum eftirlitsmanna yrði ráðist inn í landið. Fyrir því hafa verið færðar ástæður eins og þær að stjórnvöld í Írak búi yfir gereyðingarvopnum, heimsbyggðinni stafi hernaðarógn af Írak, í landinu sitji harðstjórn að völdum og að hún styðji hryðjuverkamenn. Það er sannfæring flutningsmanna að enginn vandi verði leystur með stríðsaðgerðum og þess vegna eigi Ísland ekki að styðja slíkar aðgerðir ef til þeirra kemur. Engu að síður telja flutningsmenn rétt að ræða í greinargerð þau atriði sem mest hefur verið haldið á lofti af þeim sem telja hugsanlegt að leiða málið til lykta með hernaðaraðgerðum.

Hugmyndir um stjórnarskipti í ljósi sögunnar.
    Ýmsir ráðamenn á Vesturlöndum hafa rætt hugmyndir sínar um stjórnarskipti í Írak sem eitt af markmiðum innrásar í landið. Þær hugmyndir er rétt að skoða í ljósi reynslunnar af slíkri íhlutun á þessu svæði. Lengst af 20. öld voru ítök Breta og Bandaríkjamanna mikil í Miðausturlöndum, ekki síst við Persaflóa. Írak var meira að segja stofnað sem ríki af Bretum árið 1921 sem fóru með málefni þess í umboði Þjóðabandalagsins fyrstu árin. Saga vestrænna afskipta á þessu svæði er saga mistaka.
    Írak var stofnað sem konungsríki og konungurinn sóttur til annars lands. Fyrir valinu varð Faysal, sonur Husseins konungs Sádi-Arabíu og bróðir Abdullah Jórdaníukonungs. Krýning Faysals fyrsta var upphafið að stjórnartíð Hasjímíta, sem náðu aldrei að vinna sér traust landsmanna, og henni lauk með blóðugri byltingu árið 1958. Fimm árum síðar, 1963, rændi svo Baath-flokkurinn völdum með umfangsmiklum stuðningi leyniþjónustu Bandaríkjanna en þá var Abdul-Karim Qassim, leiðtogi landsins, ráðinn af dögum. Baath-flokkurinn hefur síðan haldið völdum í Írak, lengst af undir forustu Saddams Husseins.
    Í grannríkinu Íran var Muhammad Mossadeq steypt af stóli að undirlagi Bandaríkjastjórnar 1953 og til valda efldur Mohammed Reza Pahlavi, keisari. Ítök Bandaríkjamanna urðu svo mikil í valdatíð hans, m.a. vegna uppbyggingar olíuiðnaðarins, að andóf gegn keisarastjórninni varð jafnframt andóf gegn ítökum og íhlutun Bandaríkjastjórnar í málefnum landsins. Keisaradæmið leið undir lok með byltingu undir forustu bókstafstrúaðra shíta 1979 og við stjórnartaumum tók Ayatollah Ruhollah Khomeini.

Stafar grannríkjum Íraks geigvænleg hernaðarógn af Saddam Hussein?
    Þegar rætt er um hvort rétt sé að gera innrás í Írak til að umbylta stjórnarfarinu er iðulega til þess tekið hversu árásargjarn Saddam Hussein sé og vonlaust að halda aftur af honum enda hafi hann tvívegis ráðist á önnur ríki, fyrst Íran 1980 og svo Kúveit 1990. Stríðsrekstur Íraka bliknar þó óneitanlega í samanburði við Egyptaland sem háði alls sex stríð á árunum 1948–1973, fimm gegn Ísrael auk borgarastyrjaldarinnar í Jemen (þar sem Egyptaher beitti efnavopnum). Fjórar styrjaldir af þessum sex hófust fyrst og síðast fyrir tilstilli Egypta. Þá hefur Ísraelsríki átt upptökin að þremur styrjöldum á þessu svæði fyrir utan óteljandi loftárásir og ýmsar takmarkaðar hernaðaraðgerðir gegn grannríkjunum. Að halda því fram að Írak hafi sérstaklega staðið fyrir ófriði í þessum heimshluta eru einfaldlega ekki gild rök í málinu.
    Ef litið er á stríðin tvö sem Saddam Hussein hóf, gegn Íran og Kúveit, kemur í ljós að í báðum tilfellum réðst hann til atlögu gegn ríkjum sem voru einangruð og veik fyrir. Byltingin í Íran 1979 og það umrót sem henni fylgdi hafði vissulega dregið úr hernaðarmætti Írana. Þar að auki reyndi Íransstjórn leynt og ljóst að fá Kúrda í Norður-Írak og shíta-múslima í Suður- Írak til að gera uppreisn gegn stjórn Husseins þar sem markmið Íransstjórnar var að breiða út hina íslömsku byltingu. Saddam Hussein nýtti sér fjandskapinn milli Bandaríkjanna og Írans til að tryggja sér stuðning hinna fyrrnefndu í stríðinu sem stóð til 1988 og kostaði eina milljón mannslífa. Fyrir innrásina í Kúveit þreifaði hann fyrir sér með afstöðu Bandaríkjastjórnar til málsins. Á fundi með Saddam Hussein lýsti April Glaspie, sendiherra Bandaríkjanna, því yfir að bandarísk stjórnvöld hefðu „enga skoðun á innbyrðis átökum Arabaríkja, eins og landamæradeilu [Íraka] við Kúveit“. Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti því yfir að Bandaríkin hefðu „engar sérstakar varnar- eða öryggisskuldbindingar gagnvart Kúveit“. Þessar yfirlýsingar túlkaði Íraksstjórn sem vinsamlegt hlutleysi. Þegar hins vegar varð ljóst að beitt yrði fullri hörku til að hrinda innrásinni í Kúveit og Saddam sá að hann hafði metið stöðuna rangt lýsti hann sig þegar í stað tilbúinn til að draga hersveitir sínar til baka og virða fyrri landamæri. Úr því varð ekki þar eð hann gat ekki fallist á þá skilmála Bandamanna að skilja allan vígbúnað sinn eftir í Kúveit. Lærdómurinn sem draga má af þessu er sá að Saddam Hussein hefur hingað til ekki verið tilbúinn að taka verulega áhættu í stríðsaðgerðum heldur velur hann veikburða andstæðinga sem virðast ekki hafa stuðning stórvelda. Í raun þarf það ekki að koma á óvart þar sem Saddam Hussein hefur alla tíð lagt höfuðáherslu á að halda völdum í Írak.
    Ein helsta spurningin sem uppi er varðandi samskipti Íraks og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nú lýtur að meintum gereyðingarvopnum í eigu Íraka. Því hefur mjög verið haldið á loft í umræðum um Íraksdeiluna að nauðsynlegt sé að afvopna Íraka, einkum og sér í lagi ef í ljós komi að þeir ráði yfir gereyðingarvopnum. Ekki þarf að orðlengja þá afstöðu flutningsmanna að öllum slíkum vopnum beri að farga, hvar í heiminum sem þau finnast. Á hinn bóginn má spyrja við hvaða aðstæður mest hætta mundi stafa af slíkum vopnum, komi það á daginn að Íraksstjórn búi yfir þeim.
    Þessi spurning er rædd á eftirtektarverðan hátt í grein eftir John J. Mearsheimer, prófessor við Chicago-háskóla, og Stephen M. Walt, prófessor við Harvard-háskóla, sem nefnist „Can Saddam Be Contained? History Says Yes,“ og birtist á vef CIAO-stofnunarinnar (Columbia International Affairs Online). Þeir Mearsheimer og Walt benda á að í Persaflóastríðinu 1991 skaut Íraksher eldflaugum á Ísrael og á Sádi-Arabíu. Þessar eldflaugar gátu borið efnavopna- og sýklavopnahleðslur en Íraksstjórn kaus ekki að beita slíkum vopnum þá. Þeim hefur ekki heldur verið beitt gegn bandarískum hersveitum við Persaflóa þrátt fyrir stöðugar loftárásir þeirra á Írak undanfarin tíu ár. Sú ályktun sem greinarhöfundar segja að megi draga af þessu er að Íraksstjórn beiti ekki slíkum vopnum að fyrra bragði vegna þess að yfir vofi hættan á að svarað yrði í sömu mynt. Jafnframt vitna þeir til bréfs sem George Tenet, yfirmaður leyniþjónustunnar CIA, sendi Bandaríkjaþingi til að skýra frá því mati sinnar stofnunar að ólíklegt væri að Saddam Hussein beitti gereyðingarvopnum gegn Bandaríkjamönnum nema því aðeins að þeir ógnuðu stjórn hans í Írak (grein þeirra Mearsheimer og Walt má lesa á vefslóðinni www.ciaonet.org/special_section/iraq/papers/was01/was01.html).
    Þegar öllu er á botninn hvolft verður að telja undarlegt að sömu aðilar og á sínum tíma lögðu ofuráherslu á að viðhalda ógnarjafnvægi og hótun um „fullt endurgjald“ til að „halda aftur af“ Sovétríkjunum skuli nú telja ógn stafa af hugsanlegum vopnabúrum Íraka. Það er ekki sannfærandi og ber ekki vott um heilsteypta málafylgju ef svokölluð fælingaráhrif eru stundum tekin með í reikninginn og stundum ekki.
    Síðast en ekki síst verður að minna á reynsluna af nýlegum hernaðaraðgerðum gegn Afghanistan og stjórnarskiptunum þar í landi. Enginn mælir bót þeirri stjórn sem þar var sett af en bæði hið skelfilega mannfall meðal óbreyttra borgara og núverandi ástand í landinu verður að hafa í huga þegar rætt er um að knýja fram stjórnarskipti í Írak með vopnavaldi.