Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 811  —  420. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um arðsemismat vegna Sundabrautar.

     1.      Hver er áætluð arðsemi ólíkra leiða við fyrirhugaða Sundabraut? Svar óskast sundurliðað eftir leiðum.
    Fimm valkostir um legu og útfærslu Sundabrautar hafa verið til skoðunar undanfarið. Stofnkostnaður þeirra og arðsemi sést í eftirfarandi lista.
    Leið I, ytri leið, há bitabrú, kostnaður 9,9 milljarðar kr., arðsemi 10%.
    Leið I, ytri leið, botngöng, kostnaður 13,8 milljarðar kr., arðsemi 7%.
    Leið III, innri leið, grunnlausn, kostnaður 8,7 milljarðar kr., arðsemi 11%.
    Leið III, innri leið, landmótunarleið, kostnaður 6,9 milljarðar kr., arðsemi 14%.
    Leið V, jarðgöng kostnaður 12,0 milljarðar kr., arðsemi 8%.

     2.      Eru umhverfisáhrif á Elliðavog og lífríki Elliðaáa tekin inn í slíkt arðsemismat, þ.m.t. loft- og hljóðmengun nálægra íbúðarsvæða?
    Kostnaður við mótvægisaðgerðir gegn hávaða, svo að hljóðstig verði innan viðmiðunarmarka reglugerðar, er innifalinn í heildarkostnaðaráætlun hverrar lausnar og hefur því áhrif á arðsemisútreikninga.
    Niðurstöður útreikninga á loftmengun gefa ekki tilefni til sérstakra mótvægisaðgerða. Rannsóknir á lífríki í Elliðavogi og í Elliðaám, m.a. á hegðun laxfiska, hafa verið gerðar með hliðsjón af öllum leiðum. Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir en bráðabirgðaniðurstöður benda ekki til þess að þau skilyrði sem lífríkið setur framkvæmdum við hina ýmsu kosti hafi nokkur teljandi áhrif á samanburð þeirra með tilliti til kostnaðar og arðsemi.