Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 407. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 822  —  407. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Helgu Halldórsdóttur um samning við sveitarfélög á Vesturlandi um menningarmál.

     1.      Hvað líður undirbúningi menntamálaráðuneytisins við lokafrágang samnings við sveitarfélög á Vesturlandi um menningarmál?
    Undirbúningur að gerð menningarsamnings við sveitarfélög á Vesturlandi hófst árið 2001. Frá þeim tíma hefur verið unnin skýrsla um menningarmál á Vesturlandi sem lögð hefur verið til grundvallar samningsferlinu og drög að samningi liggja fyrir. Við undirbúninginn hefur verið að því stefnt að samningurinn gæti tekið gildi árið 2003. Ekki fékkst fé í fjárlögum 2003 en menntamálaráðherra hefur hins vegar ákveðið að veita 2 millj. kr. til undirbúnings menningarsamnings við sveitarfélög á Vesturlandi á næsta ári að því gefnu að sveitarfélögin á Vesturlandi leggi fram sambærilega fjárhæð.
    Á síðastliðnum árum hefur farið fram mikil uppbygging á ýmsum menningarstöðum á Vesturlandi og hefur ríkissjóður lagt fé til hennar. Má nefna að umsvif Snorrastofu í Reykholti eru mikil og vaxandi og gestafjöldi í Reykholti hefur vaxið hratt, og er það að þakka bættum samgöngum og miklum dugnaði heimamanna. Þá má og nefna Eiríksstaði í þessu sambandi, en þar hefur mikil uppbygging átt sér stað. Ráðuneytið hefur hug á að ræða við sveitarfélögin á Vesturlandi um möguleika þess að tengja þessa staði og jafnvel fleiri fyrirhuguðum menningarsamningi.

     2.      Hvaða fjárhæð er gert ráð fyrir að renni til samningsins?

    Menntamálaráðherra hefur fullan vilja til þess að gera menningarsamning við sveitarfélög á Vesturlandi. Hvorki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um þá fjárhæð sem renna á til samningsins af hálfu ríkisins né sveitarfélaganna, enda er það háð fjárveitingu í fjárlögum ársins 2004. Eins og fram kemur hér að framan er gert ráð fyrir að allt að 4 millj. kr. renni til framkvæmdar slíks samnings árið 2003 og er þá miðað við að samningurinn komist á það ár.