Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 408. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 825  —  408. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Helgu Halldórsdóttur um varaeintakasafn Landsbókasafns – Háskólabókasafns í Reykholti.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að tryggt verði nægjanlegt fjármagn til varaeintakasafns Landsbókasafns – Háskólabókasafns í Reykholti?
     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að varaeintakasafnið verði áfram byggt upp á faglegan hátt til frambúðar með virku starfi í Reykholti?


    Í fjárlögum ársins 2003 er gert ráð fyrir að framlag til starfsemi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns á fjárlagalið 02-905 hækki um 8 millj. kr. vegna rekstrar varaeintakasafns þess sem geymt er í Reykholti í Borgarfirði. Telur ráðuneytið að með þessu móti sé tryggt nægjanlegt fjármagns til rekstrar og uppbyggingar þessarar starfsemi á vegum safnsins.
    Ráðuneytið lítur svo á að rekstur varaeintakasafns Landsbókasafns – Háskólabókasafns sé hluti af almennum rekstri safnsins og mun beita sér fyrir því að nægilegt fé fáist áfram til rekstrarins og að uppbygging varaeintakasafnsins verði unnin á faglegan hátt í samráði og náinni samvinnu við landsbókavörð.