Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 842  —  509. mál.




Frumvarp til laga



um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.
Heimild.

    Iðnaðarráðherra er veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf. (félagið) og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. (eigendurnir), um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi (verkefnið).
    Samningarnir skulu kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, Alcoa Inc., félagsins og eigenda þess, sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félagið, eigendurna og starfsemina, þar með talin framkvæmd á ákvæðum laga þessara. Í slíkum samningum skal ákveðið hversu lengi ákvæði þeirra skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá stofnun Fjarðaáls sf.
    Fjárfestingarsamningur sá sem iðnaðarráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum um meginatriði verkefnisins skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Starfsemi félagsins og eigendanna skal vera í samræmi við íslensk lög og reglugerðir eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    

2. gr.
Verkefnið.

    Verkefnið, sem lög þessi taka til, felur í sér að félagið byggir álverksmiðju í Reyðarfirði í Fjarðabyggð til framleiðslu á áli og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi, þar með talin bygging hafnarmannvirkja eins og nánar verður um samið í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma þessara laga milli iðnaðarráðherra og félagsins og hafnarsamningi milli hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og félagsins. Álverksmiðjan er hönnuð til framleiðslu á allt að 322.000 tonnum af áli á ári.

3. gr.
Ábyrgðir ríkisstjórnarinnar.

    Í tengslum við framkvæmd verkefnisins skv. 2. gr. er ríkisstjórninni heimilt að tryggja efndir af hálfu Fjarðabyggðar eins og þær eru ákveðnar í fjárfestingarsamningi, auk efnda hafnarsjóðs Fjarðabyggðar eins og kveðið er á um í hafnarsamningi.

4. gr.
Undanþágur frá lögum.

    Eigendurnir skulu undanþegnir ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, um að meiri hluti stjórnarmanna skuli vera búsettur hér á landi.
    Félagið og eigendurnir skulu undanþegnir ákvæðum 2. og 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setja þau skilyrði að eigendur sameignarfélags skuli allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
    Félagið skal undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda tryggi félagið eignir sínar með öðrum hætti, sem telst venjulegur og viðtekinn er í álframleiðslu. Ákvæði laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, skulu ekki eiga við félagið. Félagið skal viðhalda viðlagatryggingu sem er venjuleg og viðtekin í álframleiðslu.
    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 62/1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, skal ekki leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem flutt er til landsins eða framleitt er innan lands og notað er til byggingarframkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju í Reyðarfirði. Flutningsjöfnunarsjóður greiðir ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.

5. gr.
Fyrirtækjafyrirkomulag og eignarhald.

    Í fjárfestingarsamningi er heimilt að semja um fyrirtækjafyrirkomulag dótturfélaga Alcoa Inc. á Íslandi og tilteknar takmarkanir í því efni. Jafnframt er heimilt að semja um tilteknar skyldur og kvaðir hvað varðar starfsemina, eignarhald á félaginu og félögum eigendanna, svo og framsal eignarréttar og hluta.

6. gr.
Skattlagning.

    Félagið og eigendurnir skulu greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
     1.      Þrátt fyrir breytingar, sem síðar kunna að verða á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, skulu eigendurnir greiða 18% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
              a.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 75/1981, er lægra en 18% á þeim degi sem afhending raforku fer fram að fullu skal það hlutfall gilda um eigendurna. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um eigendurna en skal þó aldrei vera hærra en 18%.
              b.      Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum með þeim skilyrðum sem fram koma í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa fleiri ára frá skattskyldum tekjum þar til afhending raforku fer fram að fullu þá skal það sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu níu almanaksára.
              c.      Fastafjármunir vegna byggingar álverksmiðjunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum umsömdum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á álverksmiðjunni, skulu flokkaðir í samræmi við 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981. Fyrningu skal hagað í samræmi við 4. tölul. þessarar greinar.
     2.      Eigendurnir skulu undanþegnir eignarskatti skv. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 75/1981.
     3.      Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með áorðnum breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/ 2002, um útflutningsaðstoð, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar, sem síðar kynnu að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir iðnaðarmálagjald.
     4.      Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 33. gr. laga nr. 75/1981. Þrátt fyrir ákvæði 34. og 45. gr. laga nr. 75/1981 skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
     5.      Í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kynnu að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir fasteignaskatt, skal félagið greiða Fjarðabyggð fasteignaskatt sem skal vera 1% af 255 milljónum Bandaríkjadala á meðalgengi fyrstu sex mánaða ársins 2007, sem er áætlað verðmæti lóðar, bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja innan lóðar og hafnarsvæðis sem þarf vegna framleiðslugetu sem nemur allt að 322.000 tonna álframleiðslu á ári, sem breytist í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu og tilteknar aðrar viðmiðanir sem nánar skal fjallað um í fjárfestingarsamningi.
     6.      Félagið skal undanþegið gatnagerðargjaldi samkvæmt lögum nr. 17/1996, um gatnagerðargjald, vegna framleiðslugetu sem nemur allt að 322.000 tonnum á ári eða annarra skatta eða gjalda í stað gatnagerðargjalds.
     7.      Með samningum, sem gerðir verða innan ramma laga þessara, má ákveða að Fjarðaál sf. skuli greiða umsamda fjárhæð til Fjarðabyggðar í stað byggingarleyfisgjalds samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og umsamda fjárhæð til ríkissjóðs í stað skipulagsgjalds samkvæmt lögum nr. 73/1997.
     8.      Stimpilgjöld, sbr. lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af kaup- eða leigusamningum sem útgefnir eru eða gerðir af hálfu félagsins og eigenda þess og af fjárfestingarlánum sem félagið og eigendurnir kunna að taka í sambandi við byggingu álverksmiðjunnar og hafnarbúnaðar, sem og af öllum stimpilskyldum skjölum sem nauðsynleg eru í sambandi við stofnun félagsins. Lán, sem tekin eru til endurfjármögnunar fjárfestingarlána, sem og hlutabréf í félögum eigendanna, skulu undanþegin stimpilgjaldi.
     9.      Félagið og eigendurnir skulu undanþegnir ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
     10.      Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga nr. 75/1981 skal 5% tekjuskattur lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögum eigendanna að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattári fyrir greiðslu arðs.
     11.      Ákvæði laga nr. 75/1981, með áorðnum breytingum, um frádrátt vaxtakostnaðar, svo sem þau eru við undirritun samninganna, skulu haldast óbreytt á upphaflegum gildistíma samningsins.
     12.      Hafnarsjóði Fjarðabyggðar er heimilt að gera sérstakan samning um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum, sbr. hafnareglugerð og hafnagjaldskrá, sem sett eru á grundvelli þeirra.
    Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.
    Í fjárfestingarsamningi er heimilt með tilliti til skattlagningar að semja um reglur og viðmiðanir er lúta að viðskiptum félagsins og eigendanna við Alcoa Inc. og fyrirtæki í eignatengslum við Alcoa Inc. Í því efni er m.a. heimilt að byggja á meginreglum verðlagningar óskyldra aðila samkvæmt reglum OECD.
    Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið og eigendurna.
    Á samningstímanum geta félagið og eigendurnir valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní árið áður en breytingarnar eiga að taka gildi.

7. gr.
Reikningsskilareglur.

    Með samningum, sem gerðir eru samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið og eigendurna, sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og breytingum sem taldar eru viðeigandi. Í þessum reikningsskilareglum er heimilt að hafa ákvæði þar sem félaginu er heimilað að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í Bandaríkjadölum, í samræmi við almennt viðurkenndar reikningsskilareglur sem gefnar eru út af Alþjóðlega reikningsskilaráðinu. Slíkt fyrirkomulag má fela í sér undanþágur frá ákvæðum laga nr. 75/1981, með áorðnum breytingum.

8. gr.
Lögsaga og lausn deilumála.

    Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem gerðir verða innan ramma þessara laga, skulu lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt er þó að vísa ágreiningi til gerðardóms.

9. gr.
Innflutningur og útflutningur.

    Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álverksmiðjuna og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skal vera undanþeginn tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með áorðnum breytingum. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álverksmiðjunnar.

10. gr.
Framsal.

    Heimilt er að semja um framsal félagsins og eigendanna á samningunum með tilteknum skilyrðum sem fram skulu koma í samningunum.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd verði veitt heimild til að semja við Alcoa Inc., Fjarðaál sf. og eigendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf., um álver í Reyðarfirði í Fjarðabyggð í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er veitt heimild til að semja við Fjarðaál sf. um að reisa og reka álverksmiðju til framleiðslu á allt að 322.000 tonnum af áli á ári. Kveðið er á um að félagið og eigendur þess starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga.
    Í öðru lagi er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að tryggja efndir af hálfu Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar.
    Í þriðja lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álverksmiðjunnar en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum.
    Í fjórða lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og stöðu gerðardóms auk þess sem íslensk lög ráða um túlkun og skýringu samninga.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir: aðdraganda samninga (1), Alcoa Inc., Fjarðaáli sf. og eigendum þess (2), væntanlegu álveri í Reyðarfirði (3), öðrum framkvæmdum (4), samningum (5), umhverfismálum (6), þjóðhagslegum áhrifum framkvæmda (7) og samfélagslegum áhrifum framkvæmda (8).
    Í fylgiskjölum er gerð nánari grein fyrir fyrirhuguðu álveri (I), helstu ákvæðum fjárfestingarsamnings (II), lóðarsamnings (III), hafnarsamnings (IV) og meginatriðum varðandi orkuöflun og orkusölu (V). Þá fylgir greinargerð Hönnunar um umhverfismál (VI), greinargerð Hollustuverndar ríkisins með tillögu að starfsleyfi (VII), greinargerð efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þjóðhagsleg áhrif álversins (VIII) og athugun Nýsis hf. á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði (IX).

1. Aðdragandi samninga.
    Í febrúar 1997 komu fulltrúar norska fyrirtækisins Hydro Aluminium Metal Products til Íslands í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Meðan á heimsókninni stóð fóru meðal annars fram viðræður milli iðnaðarráðuneytis, Hydro, Landsvirkjunar og Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar um hugsanlegt samstarf Íslendinga og Hydro Aluminium um byggingu álverksmiðju hér á landi. Formlegt samstarf þessara aðila hófst í maí sama ár þegar skipuð var samráðsnefnd og tveir vinnuhópar um svokallað Noral-verkefni, sem fólst í byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði með að minnsta kosti 200 þús. tonna framleiðslugetu á ári og tengdra virkjana á Austurlandi.
    29. júní 1999 undirrituðu fulltrúar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Hydro Aluminium og Landsvirkjunar yfirlýsingu um verkefnið. Í yfirlýsingunni var gerð grein fyrir viðskiptahugmyndinni sem lá að baki umræddri fjárfestingu, vinnu- og tímaáætlun, skuldbindingum og fyrirætlunum samstarfsaðila. Markmið samstarfsaðila var að búa svo í haginn með undirbúningsvinnu að taka mætti ákvörðun um hvort ráðist yrði í verkefnið fyrir 1. júní 2000. Í yfirlýsingunni kom jafnframt fram að stefnt væri að því að árleg framleiðslugeta álverksmiðjunnar yrði í upphafi 120 þús. tonn og að hún hæfi rekstur seinni hluta ársins 2003, en síðar yrði mögulegt að stækka hana í allt að 480 þús. tonn. Gert var ráð fyrir að íslenskir fjárfestar og Hydro Aluminium ættu sameiginlega meiri hluta í álfyrirtækinu. Loks var í yfirlýsingunni gert ráð fyrir að Fljótsdalsvirkjun yrði byggð til að afla fyrsta áfanga álverksmiðjunnar orku, en vegna síðari áfanga yrði ráðist í Kárahnjúkavirkjun auk jarðgufuvirkjana á Norðausturlandi.
    Á 125. löggjafarþingi lagði iðnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Í tillögunni var lagt til að Alþingi samþykkti á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess að lýsa yfir stuðningi við að haldið yrði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, og lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983. Var tillagan samþykkt sem ályktun Alþingis í desember 1999.
    Í tengslum við Noral-verkefnið var undirbúningsfélagið Reyðarál hf. stofnað af Hydro Aluminium og Hæfi hf., sem var í eigu Eignarhaldsfélags Alþýðubankans hf., Íslandsbanka- FBA hf., Landsbankans hf. og Þróunarfélags Íslands hf. Reyðaráli hf., sem ætlað var að vera framkvæmdaraðili og eigandi fyrirhugaðrar álverksmiðju, annaðist undirbúning vegna álverksmiðjunnar.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Reyðarál hf., Hæfi hf., Hydro Aluminium og Landsvirkjun undirrituðu nýja yfirlýsingu um Noral-verkefnið 24. maí 2000. Með viljayfirlýsingunni staðfestu samstarfsaðilarnir áhuga og skuldbindingu um að meta forsendur og hagkvæmni álverksmiðju í Reyðarfirði, nauðsynlegra virkjana og annarra tilheyrandi mannvirkja. Í yfirlýsingunni kom fram að miðað væri við að unnt yrði að taka ákvörðun fyrir 1. febrúar 2002 um hvort ráðist yrði í framkvæmdir. Í yfirlýsingunni var gert ráð fyrir að reist yrði álverksmiðja í Reyðarfirði og að afkastageta hennar yrði í upphafi u.þ.b. 240 þús. tonn af áli á ári og að hún hæfi rekstur árið 2006. Gert var ráð fyrir möguleika á stækkun í 360 þús. tonn og síðar hugsanlega í 480 þús. tonn. Gert var ráð fyrir að virkjunarframkvæmdir vegna álversins fælust annars vegar í byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fljótsdalsveitu og hins vegar Bjarnarflagsvirkjunar og stækkunar Kröfluvirkjunar.
    Í september 2001 var tímamörkum lokaákvörðunar frestað til 1. september 2002. Vorið 2002 varð hins vegar ljóst að Hydro Aluminium væri ekki í aðstöðu til þess að taka endanlega ákvörðun varðandi áframhald verkefnisins fyrir 1. september 2002. Taldi fyrirtækið sig þurfa lengri tíma til þess að meta fjárfestingarstefnu sína til næstu ára í kjölfar kaupa þess á þýska fyrirtækinu Vereinigte Aluminium-Werke AG. Gáfu aðilar Noral-verkefnisins í kjölfarið út sameiginlega yfirlýsingu 22. mars 2002 þar sem fram kom að ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun hefðu rétt til að leita nýrra samstarfsaðila að verkefninu. Með bréfi, dagsettu sama dag, skipaði iðnaðarráðherra viðræðunefnd til að eiga viðræður við álfyrirtæki um áhuga þeirra á að taka þátt í byggingu og rekstri álvers í Reyðarfirði, sem nýtti orku frá Kárahnjúkavirkjun. Í nefndina voru skipaðir Finnur Ingólfsson, þáverandi Seðlabankastjóri sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Kristján Skarphéðinsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti. Með nefndinni starfaði enn fremur Gunnar Örn Gunnarsson, starfsmaður iðnaðarráðuneytis, en Fjárfestingarstofan – orkusvið, undir forustu Garðars Ingvarssonar, veitti nefndinni nauðsynlega þjónustu.
    Í byrjun apríl 2002 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Með lögunum, nr. 38 frá 16. apríl 2002, var Landsvirkjun m.a. veitt heimild til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun með allt að 750 MW afli í þágu stóriðjuframkvæmda á Austurlandi. Iðnaðarráðherra gaf 2. september 2002 út virkjunarleyfi til Landsvirkjunar í samræmi við ákvæði laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun. 19. apríl 2002 undirrituðu Fjárfestingarstofan – orkusvið og bandaríska álfyrirtækið Alcoa Inc. (Alcoa) sameiginlega aðgerðaáætlun, um mat á kostum þess að Alcoa reisti álver í Reyðarfirði. Niðurstöður matsins áttu að liggja fyrir 24. maí 2002 en gildistími aðgerðaáætlunarinnar var framlengdur til 18. júlí 2002 með samkomulagi, dags. 23. maí 2003.
    Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, G. John Pizzey, aðstoðarforstjóri Alcoa, og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu viljayfirlýsingu um framhald viðræðna um mat og hugsanlega byggingu álvers á Austurlandi 19. júlí 2002. Í yfirlýsingunni var kveðið á um að verkefnið fælist í byggingu Kárahnjúkavirkjunar á vegum Landsvirkjunar, byggingu álvers í Reyðarfirði á vegum Alcoa, leigu á lóð í Reyðarfirði, hafnaraðstöðu á Mjóeyri sem Fjarðabyggð legði til og hafnarsjóður sveitarfélagsins byggði og ræki, og annarri aðstöðu tengdri verkefninu.
    Í nóvember 2002 var gengið frá samningi milli Alcoa, Hydro Aluminium og Hæfis hf. um sölu á öllu hlutafé í Reyðaráli hf. til Alcoa. Með kaupunum öðlaðist Alcoa m.a. rétt á rannsóknum og umhverfismati sem Reyðarál hf. hafði látið framkvæma vegna byggingar álvers í Reyðarfirði. Í kjölfar þessa var lögð fram samanburðarskýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers Alcoa og álvers Reyðaráls hf. sem Skipulagsstofnun heimilaði með úrskurði sínum, dags. 31. ágúst 2001. Nánar er vikið að umhverfismálum verkefnisins í 6. kafla athugasemda þessara.
    Viðræður um verkefnið gengu vel og í desember 2002 voru samningar um það áritaðir. Þeir eru fjárfestingarsamningur, lóðarsamningur, hafnarsamningur og rafmagnssamningur. Í samræmi við ákvæði viljayfirlýsingarinnar voru samningarnir lagðir fyrir stjórn Alcoa á stjórnarfundi 10. janúar 2003 og samþykkti stjórn félagsins að ráðast í verkefnið. Þá var rafmagnssamningur lagður fyrir stjórn Landsvirkjunar og samþykktur 10. janúar 2003 og hafnarsamningur fyrir sveitarstjórn Fjarðabyggðar og hafnarnefnd Fjarðabyggðar 20. janúar 2003.
    Að samningaviðræðum við Alcoa hafa eftirtaldir einstaklingar komið af hálfu stjórnvalda: Frá iðnaðarráðuneyti Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri og Guðjón Axel Guðjónsson deildarsérfræðingur. Frá fjármálaráðuneyti Maríanna Jónasdóttir skrifstofustjóri og Erla Pétursdóttir lögfræðingur. Frá Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar Garðar Ingvarsson framkvæmdastjóri og Andrés Svanbjörnsson yfirverkfræðingur. Frá samgönguráðuneyti Sigurbergur Björnsson verkefnisstjóri. Frá Siglingamálastofnun Íslands Gísli Viggósson forstöðumaður og Kristján Helgason verkfræðingur. Af hálfu Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar hefur Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri tekið þátt í samningaviðræðum. Lögfræðilegur ráðunautur stjórnvalda hefur verið Jón Sveinsson hæstaréttarlögmaður, Landslögum – lögfræðistofu, með aðstoð Viðars Lúðvíkssonar héraðsdómslögmanns.
    Af hálfu Landsvirkjunar hafa Bjarni Bjarnason framkvæmdastjóri, Stefán Már Pétursson framkvæmdastjóri og Edvard G. Guðnason deildarstjóri tekið þátt í viðræðunum. Lögfræðilegur ráðunautur Landsvirkjunar hefur verið Hjörtur Torfason hæstaréttarlögmaður.
    Samstarfsnefnd um staðarvalsathuganir iðnaðarsvæða á Reyðarfirði – STAR – sem stofnuð var á grundvelli samkomulags um samvinnu Fjárfestingarstofu – orkusviðs, Fjarðabyggðar og Orku- og stóriðjunefndar sveitarfélaga á Austurlandi um framhald staðarvalsathugana fyrir iðnaðarsvæði á Austurlandi kom einnig að undirbúningi verkefnisins. Verkefnisstjórn STAR var framkvæmdaraðili við mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði þegar unnið var í nafni Hrauns ehf. í samræmi við fyrri Noral-yfirlýsinguna, frá 29. júní 1999.
    Þegar Reyðarál hf., framkvæmdafélag í helmingseigu íslenskra fjárfesta og Hydro Aluminium, tók við undirbúningsframkvæmdum vegna byggingar álvers við Reyðarfjörð árið 2000 fékk STAR það hlutverk að samræma málefni sem tengjast atvinnulífi og sveitarstjórnum svo að Austurlandsfjórðungur gæti tekist á við verkefni sem tengjast uppbyggingu stóriðju og virkjunarframkvæmdum. Til að gera STAR færara um að sinna þessum markmiðum voru fulltrúar frá öðrum sveitarfélögum fengnir til samstarfs við nefndina í ársbyrjun 2001.

2. Alcoa Inc. og fyrirtækjafyrirkomulag.
    Alcoa Inc. er stærsta álfyrirtæki í heiminum, með um 129.000 starfsmenn í 38 þjóðlöndum. Starfsemi fyrirtækisins tekur til allra þátta álframleiðslu, súráls, frumvinnslu áls og úrvinnslu, auk annarrar starfsemi. Alcoa þjónar m.a. flugvéla-, bifreiða-, umbúða-, byggingar-, samgöngu- og iðnaðarmörkuðum. Velta fyrirtækisins árið 2001 var 22,9 milljarðar Bandaríkjadala. Fyrirtækið er skráð á verðbréfamörkuðum í New York, Brussel, Frankfurt, London, Sviss og Ástralíu. Áætlað er að hluthafar í fyrirtækinu árið 2001 hafi verið 266.800 og hlutir í því um 850 milljónir. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Pittsburgh, Pennsylvaníu, Bandaríkjunum, en fyrirtækið er einnig með skrifstofu í New York.
    Félagið, sem í upphafi hét Pittsburgh Reduction Company, var stofnað árið 1888 en einn stofnenda þess var Charles Martin Hall, sá hinn sami og fann upp aðferðina til að vinna ál úr súráli með rafgreiningu samtímis Paul Heroult. Árið 1907 var nafni fyrirtækisins breytt í Aluminum Company of America og síðar Alcoa.
    Alcoa World Alumina er einn af stærstu framleiðendum báxíts í heiminum og leiðandi í framleiðslu súráls. Alcoa og tengd fyrirtæki reka 26 álverksmiðjur um heim allan. Í Bandaríkjunum og Kanada eru reknar ellefu álverksmiðjur, tvær eru í Brasilíu, tvær í Noregi, þrjár á Spáni, þrjár á Ítalíu, ein í Þýskalandi, ein í Ghana, ein í Nígeríu og tvær í Ástralíu. Ársframleiðslugeta fyrirtækisins á áli nam u.þ.b. 4,1 milljón tonna árið 2001.
    Alcoa hefur sett sér stefnu í umhverfismálum og um heilsu og öryggi starfsmanna sem kveður á um að fyrirtækið starfi á öruggan og ábyrgan hátt. Grunnurinn að umhverfisstefnu Alcoa er sjálfbær þróun. Fyrirtækið hefur sett sér metnaðarfull markmið um sjálfbæra þróun fram til ársins 2020. Þessi markmið eru m.a. að hætta urðun úrgangs á landi og losun óhreinsaðs frárennslis í sjó, ár og vötn, framleiða umhverfisvænar vörur, samhæfa umhverfi og framleiðslu, setja umhverfið í öndvegi, tryggja slysalausa vinnustaði og gott umhverfi og góðan orðstír um heilbrigði og öryggi í þeim samfélögum þar sem fyrirtækið starfar.
    Álverið í Reyðarfirði verður í eigu Fjarðaáls sf., sem er sameignarfélag í eigu Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf. Einkahlutafélögin verða aftur í eigu Alcoa Inc. og/eða dótturfélaga fyrirtækisins. Rekstur álverksmiðjunnar verður í höndum Fjarðaáls sf. en skattlagning vegna rekstrar hennar fer fram hjá eigendunum, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráli ehf., í samræmi við reglur um sameignarfélög.

3. Lýsing á fyrirhugaðri álverksmiðju í Reyðarfirði.
    Álverksmiðjan verður á tæplega 90 ha iðnaðarlóð sem skipulögð er fyrir orkufrekan iðnað við Hraun í Fjarðabyggð, um 5 km austan við byggðina í Reyðarfirði. Áform Alcoa eru að byggja í einum áfanga álverksmiðju með allt að 322.000 tonna framleiðslugetu á ári. Gert er ráð fyrir að vinna við framkvæmdir hefjist haustið 2004 og að hún hefji framleiðslu vorið 2007. Fjárfestingarkostnaður vegna álverksmiðjunnar er áætlaður um 90 milljarðar íslenskra króna.
    Framleiðslutæknin í fyrirhugaðri álverksmiðju er byggð á hámarkssjálfvirkni og háþróuðustu tækni sem í boði er fyrir álver sem nota forbökuð rafskaut. Besta fáanlega tækni (BAT – best available technique) verður notuð við hreinsun útblásturs. Notaður verður þurrhreinsibúnaður með 99,5% hreinsivirkni til að fjarlægja og endurvinna flúoríð.
    Þegar álverksmiðjan tekur til starfa á árinu 2007 er áætlað að 420 starfsmenn verði ráðnir í fullt starf. Auk þess má reikna með um 35 ársverkum til viðbótar vegna sumar- og veikindaafleysinga. Alls þarf því 455 ársverk til að reka álverksmiðjuna. Nánar er fjallað um fyrirhugaða álverksmiðju í fylgiskjali I.

4. Aðrar framkvæmdir.
    Byggingu álverksmiðjunnar fylgja ýmsar aðrar framkvæmdir. Þær helstu eru Kárahnjúkavirkjun, háspennulínur, höfn og vegaframkvæmdir.
    Til að afla orku til álverksmiðjunnar mun Landsvirkjun reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal, Kárahnjúkavirkjun. Með lögum nr. 38/2002, um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, veitti Alþingi Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal með allt að 750 MW afli og virkja til þess vatnsföllin Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal. Í frumvarpi til þeirra laga er að finna nánari lýsingu á virkjunarmannvirkjum og tengdum framkvæmdum.
    Sveitarfélagið Fjarðabyggð mun byggja nýja höfn við iðnaðarsvæðið. Þar verður hráefnum skipað upp og afurðirnar settar í skip fyrir útflutning. Þó álverið fái forgang á notkun hafnarinnar mun hún nýtast fleiri aðilum á svæðinu.
    Auk áðurgreindra framkvæmda hefur verið ráðist í ýmsar samgöngubætur á svæðinu í tengslum við virkjunar- og álverksmiðjuframkvæmdir.
    Auk þessa verða byggð íbúðarhús vegna fjölgunar íbúa og aukinnar þjónustu á svæðinu. Í skýrslu Nýsis hf. um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers Alcoa í Reyðarfirði (fylgiskjal IX) er gerð ítarleg grein fyrir áformum um uppbyggingu húsnæðis.

5. Samningar.

    Samkomulag við Alcoa Inc., Fjarðaál sf., Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. um byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði felur í sér fjóra samninga, þ.e. fjárfestingarsamning, lóðarsamning, hafnarsamning og rafmagnssamning. Samningarnir eru í flestum atriðum sambærilegir við samninga ríkisstjórnar Íslands, Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf. sem gerðir voru 7. ágúst 1997.
    Samningarnir munu að stofni til byggjast á sömu grundvallaratriðum, m.a. varðandi lausn ágreiningsmála, óviðráðanleg ytri öfl, samningstíma, framlengingu samnings, framsal réttinda, uppsögn, breytingar og endurskoðun. Í hafnarsamningi eru nokkur ákvæði þó með öðrum hætti en í hinum samningunum. Samningarnir eru í upphafi miðaðir við 20 ára rekstur, en í þeim er gert ráð fyrir að Fjarðaál sf. og eigendurnir geti framlengt samninginn um 20 ár með óbreyttum kjörum ef rafmagnssamningurinn er í gildi. Hér verður þessum samningum lýst í örstuttu máli, en nánari lýsingu á þeim er að finna í fylgiskjölum II–V.
    Í fyrsta lagi verður gerður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Alcoa Inc., Fjarðaáls sf., Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf. hins vegar. Lagafrumvarp þetta er nauðsynleg forsenda þess að unnt verði að gera þennan samning. Í fylgiskjali II er meginatriðum fjárfestingarsamningsins lýst. Fjárfestingarsamningurinn verður birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Í öðru lagi verður gerður lóðarsamningur milli ríkissjóðs og Fjarðaáls sf. Samkvæmt samningnum leigir ríkissjóður félaginu 98 hektara landspildu úr landi jarðanna Sómastaða, Sómastaðagerðis og Hrauns undir álverksmiðjuna. Samningnum er lýst nánar í fylgiskjali III.
    Í þriðja lagi verður gerður hafnarsamningur milli hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og Fjarðaáls sf. Samningurinn kveður m.a. á um rétt félagsins til að nota höfnina, hafnarlandið og hafnarmannvirki og um greiðslur fyrir þessi not. Samningnum er nánar lýst í fylgiskjali IV.
    Í fjórða lagi verður gerður rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og Fjarðaáls sf. Gert er ráð fyrir að raforkuþörf álverksmiðjunnar verði 4.704 GWstundir á ári, 4.231 GWstundir á tryggðum grundvelli (forgangsorka) og 473 GWstundir á ótryggðum grundvelli. Í samningnum mun Fjarðaál sf. skuldbinda sig til þess að greiða Landsvirkjun fyrir 3.998 GWstundir eða 85% þessarar orku óháð því hvort fyrirtækið nýtir orkuna eða ekki.
    Greinargerð forstjóra Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaðan rafmagnssamning er í fylgiskjali V. Í henni kemur fram að Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun með það fyrir augum að geta lokið þeim að mestu á árinu 2007. Hefur Alcoa borið hluta af kostnaði við vegagerð og aðrar undirbúningsaðgerðir á virkjunarsvæðinu, sem hafist var handa um á liðnu sumri, og verður hann endurgreiddur fyrirtækinu þegar rafmagnssamningurinn gengur í gildi. Útboð hefur farið fram á tveimur af meginþáttum sjálfra virkjunarframkvæmdanna, þ.e. byggingu Kárahnjúkastíflu og gerð aðrennslisganga, og voru tilboð opnuð 6. desember sl. Er nú unnið að mati á þeim og viðræðum við verktaka, sem unnt á vera að leiða til lykta með gerð verksamninga í febrúar nk., þannig að vinna að þessum verkum geti hafist í marsmánuði.

6. Umhverfismál.
6.1. Almennt.
    Undirbúningur álverksmiðju í Reyðarfirði hefur farið fram í samræmi við gildandi löggjöf og hefur almenningur átt þess kost að hafa þar áhrif á undirbúningsstigi. Undirbúningurinn hefur jafnframt farið fram á grundvelli aðalskipulags fyrir sveitarfélagið Fjarðabyggð. Hér verður gerð nokkur grein fyrir þessu skipulagi, mati á umhverfisáhrifum og undirbúningi starfsleyfis. Í greinargerð Hönnunar hf., sem er fylgiskjal VI með frumvarpi þessu, er nánar fjallað um umhverfismál tengd álverksmiðju í Reyðarfirði.

6.2. Skipulag svæðisins.
    Álverksmiðjan fellur innan aðalskipulags sem í gildi er fyrir iðnaðarsvæðið. Breyta þarf gildandi deiliskipulagi þar sem byggingarreitur 420.000 tonna álvers Reyðaráls innan lóðarinnar er nokkru minni en 322.000 tonna álverksmiðju Fjarðaáls sf.
    Samkvæmt aðalskipulagi á lóð fyrir orkufrekan iðnað að vera vestan Hrauns í Reyðarfirði. Fyrir 420.000 tonna álverksmiðju Reyðaráls þurfti stærri lóð en gert er ráð fyrir í þessu skipulagi. Tillögur til breytinga voru gerðar á gildandi aðalskipulagi Reyðarfjarðar með það í huga að iðnaðarsvæðið við Hraun yrði stækkað vegna fyrirhugaðrar álverksmiðju. Enn fremur eru skipulagðar lóðir fyrir annan iðnað og þjónustu á iðnaðarsvæðinu.
    18. desember 2002 var birt í Lögbirtingablaðinu auglýsing um tillögu að breyttu deiliskipulagi í Fjarðabyggð. Frestur til að skila athugasemdum er til 29. janúar nk.

6.3. Umhverfisáhrif.
    Fyrirhugað er að breyta fyrri áætlunum Reyðaráls ehf. um byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði, Fjarðabyggð. Horfið hefur verið frá áætlunum um byggingu álverksmiðju sem nýtir HAL 250 tækni frá Norsk Hydro og í stað þess er áætlað að nota aðra tækni af sambærilegum gæðum eða betri, sem Alcoa, núverandi eigandi Reyðaráls ehf., mun leggja til og hefur reynslu af. Í október 1999 lagði Hraun ehf. fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum 480 þús. tonna álvers í Reyðarfirði. 10. desember 1999 úrskurðaði skipulagsstjóri ríkisins að frekara mat skyldi fara fram á umhverfisáhrifum álversins. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra sem felldi hann úr gildi og ómerkti meðferð málsins.
    Ný skýrsla um mat á umhverfisáhrifum byggingar allt að 420 þús. tonna álvers í tveimur áföngum var lögð fram af Reyðaráli hf. fyrir Skipulagsstofnun 11. maí 2001. Framkvæmdin var auglýst opinberlega og lá frammi til kynningar frá 25. maí til 6. júlí 2001. 31. ágúst það ár féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina með skilyrðum um að ekki yrði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hæfist og að við umhverfisvöktun yrði fylgst með styrk PAH-efna í lofti, ákomu slíkra efna á jörð og afrennsli í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann.
    Við kaup Alcoa á Reyðaráli hf. voru Skipulagsstofnun tilkynntar breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði. Breytingarnar fólust einkum í því að dregið var úr framleiðslugetu, hætt við byggingu rafskautaverksmiðju og að ekki kæmi til urðunar kerbrota eða annarra úrgangsefna á iðnaðarsvæðinu. Nýr eigandi Reyðaráls, Alcoa, lét vinna skýrslu þar sem borin eru saman umhverfisáhrif 420 þús. árstonna álverksmiðju sem áður var áætlað að byggja í tveimur áföngum og 322 þús. árstonna álverksmiðju eins og nú eru áform um að byggja í einum áfanga. Skýrslunni var skilað til Skipulagsstofnunar 22. nóvember 2002. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu 20. desember 2002 að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Fyrri úrskurður stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði fyrir allt að 420 þús. tonna ársframleiðslu gilti því áfram að teknu tilliti til breytinga á framkvæmdaáformum.

6.4. Starfsleyfi.
    Reyðarál ehf. sótti um starfsleyfi fyrir álverksmiðju í Reyðarfirði til Hollustuverndar ríkisins 4. desember 2002 í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Áður hafði verið auglýst tillaga að starfsleyfi fyrir allt að 420.000 tonn/ári af áli í kerskálum og tengdum steypuskálum ásamt rafskautaverksmiðju og urðunarstöðum fyrir kerbrot og annan úrgang sem tengist álverum sérstaklega.
    Við nýja tilhögun álverksmiðjunnar er ekki gert ráð fyrir rafskautaverksmiðju og urðunarstað fyrir kerbrot. Ekki er heldur ráðgerð vothreinsun til að draga úr útblæstri brennisteinsdíoxíðs. Þess í stað er öðrum aðferðum beitt til að tryggja að þynningarsvæði vegna loftmengunar af völdum brennisteinsdíoxíðs sé virt.
    Hollustuvernd ríkisins hefur gert tillögu að starfsleyfi Reyðaráls ehf. fyrir starfsemi á iðnaðarsvæðinu við Hraun í Reyðarfirði. Í fylgiskjali VII er greinargerð stofnunarinnar, dags. 17. desember 2002, ásamt tillögu Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu 18. desember 2002 en frestur til að gera athugasemdir rennur út 18. febrúar nk.

7. Áhrif á þjóðarhag.
    Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur lagt mat á þjóðhagsleg áhrif fjárfestinga í virkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði, sbr. fylgiskjal VIII. Í matinu eru skoðuð þrjú tilvik með samanburði við grunndæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir slíkum framkvæmdum. Auk þess eru skoðuð tvö tilvik sem sýna áhrif sérstakra mótvægisaðgerða stjórnvalda sem miða að því að jafna þær sveiflur í efnahagslífinu sem framkvæmdirnar valda. Framsetning á niðurstöðum er almennt birt sem frávik frá tilteknu grunndæmi, sem er án álvers- og virkjunarframkvæmda, en það er samhljóða þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem kynnt var í byrjun desember 2002. Í athugun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er miðað við áætlanir orku- og stóriðjufyrirtækja um orku- og stóriðjuframkvæmdir. Hafa ber í huga að matið er háð ýmsum forsendum sem óvissa ríkir um og raktar eru í greinargerðinni. Þar kemur m.a. fram að í tveimur tilvikanna sé um svo miklar framkvæmdir að ræða með tilliti til stærðar íslenska hagkerfisins að erfitt sé að fanga efnahagsleg áhrif þeirra til hlítar í þjóðhagslíkani.
    Í matinu kemur fram að áætlaður stofnkostnaður vegna fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju Alcoa í Reyðarfirði nemur um 165 milljörðum króna. Áætlað er að byggingu verksmiðjunnar verði lokið 2007, en fullri afkastagetu með 322 þús. tonnum verði náð á árinu 2008. Fjárfesting vegna framkvæmdanna nái hámarki á árunum 2005 og 2006 en þá falli til ríflega helmingur af heildarstofnkostnaði. Áætlað er að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum verði rúmlega 30% meiri en í grunndæmi á framkvæmdatímanum 2003–2006 og nálægt 50% meiri árin 2005–2006.
    Árleg mannaflaþörf vegna framkvæmdanna nemur rúmlega 1.250 ársverkum að jafnaði á tímabilinu 2003–2006 eða um 0,8% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Auk þess muni óbein áhrif þessara framkvæmda leiða til fjölgunar starfa sem nemur 800–900 umfram grunndæmi á þessu tímabili. Reiknað er með að rúmlega 500 störf skapist í álveri Alcoa í Reyðarfirði eftir að það hefur rekstur.
    Athugunin bendir til að framleiðslustig þjóðar- og landsframleiðslu á framkvæmdatíma verði að jafnaði 3% hærri en í grunndæminu. Horfur eru á að á árunum 2005 og 2006 verði árlegur hagvöxtur um 5%. Jafnframt eru líkur á að án mótvægisaðgerða verði þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands rofin. Hins vegar má reikna með að árlegur hagvöxtur eftir að framkvæmdum lýkur á árunum 2007–2009 verði innan við 1,½% verði ekki gripið til sérstakra mótvægisaðgerða. Atvinnuleysi gæti orðið 1% minna en í grunndæmi þegar áhrif af framkvæmdum eru sem mest. Hins vegar gæti atvinnuleysið aukist um 1% umfram grunndæmi þegar framkvæmdum lýkur. Atvinnuástand mun endurspegla hagvaxtarþróunina og atvinnuleysi því minnka verulega árin 2005 og 2006 en aukast að sama skapi eftir þann tíma. Á framkvæmdatíma er gert ráð fyrir að verðbólga verði 2% hærri en í grunndæmi en -¾ lægri en í grunndæmi á árunum 2007–2010.
    Aukinn innflutningur fjárfestingarvara vegna framkvæmdanna og aukin umsvif í þjóðarbúskapnum munu valda auknum viðskiptahalla á meðan á framkvæmdum stendur sem nemur að jafnaði 4½% af landsframleiðslu á tímabilinu 2003–2006. Aukinn álútflutningur mun hins vegar hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og heildarútflutningur fyrsta áratuginn eftir að framkvæmdum lýkur verður 12% hærri en í grunndæmi. Til langs tíma má reikna með að þjóðarframleiðsla verði ¾% hærri en í grunndæmi og landsframleiðsla 1% hærri.

8. Áhrif á samfélag.
    Í tengslum við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar álverksmiðju í Reyðarfirði var ráðgjafarfyrirtækið Nýsir hf. fengið til að vinna skýrslu um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif álvers á Miðausturlandi (sjá fylgiskjal IX).
    Við framkvæmdir vegna álversins 2003–2007 er talið þurfa tæplega 2.300 ársverk, þar af um 1.300 ársverk þegar framkvæmdir standa sem hæst árið 2006. Aðrar samhliða framkvæmdir munu þarfnast starfsfólks sem nemur tæplega 5.100 ársverkum á árunum 2002– 2008, þar af mun bygging Kárahnjúkavirkjunar og bygging tengivirkis og háspennulína krefjast um 3.850 ársverka og bygging íbúðarhúsnæðis (að meðtöldum götum og veitum) tæplega 800 ársverka. Þörfin mun rísa hæst árið 2006 þegar allar framkvæmdir á Mið- Austurlandi munu krefjast fjölda starfsmanna sem nemur rúmlega 2.600 ársverkum.
    Við mat á áhrifum framkvæmda er gert ráð fyrir að heimamenn muni sinna 10% af vinnu við framkvæmdir við álverið og að starfsmenn sem flytjast tímabundið til Austurlands með fjölskyldur sínar á meðan á framkvæmdum stendur sinni 15% starfa við framkvæmdir. Þá er gert ráð fyrir að erlent vinnuafl muni sinna 30% af vinnu við framkvæmdir og að Íslendingar sem dvelja í vinnubúðum muni vinna um 45% starfanna. Á meðan á framkvæmdum stendur verður auk þess til fjöldi óbeinna og afleiddra starfa við þjónustu á svæðinu og er talið að heimamenn muni geta sinnt um 40% þeirra en aðkomufólk um 60%. Talið er að þær forsendur sem hér hafa verið nefndar muni leiða til íbúafjölgunar vegna framkvæmda úr tæplega 8.100 manns upp í rúmlega 9.800 manns árið 2007.
    Áhrifa af framkvæmdunum mun gæta um allt land og er m.a. búist við að fjöldi iðnaðarmanna og verktaka á Austurlandi utan Miðausturlands og á Norðurlandi eystra muni taka þátt í verkefninu. Áætlað er að 322 þús. tonna álver skapi 420 heilsársstörf. Vegna orlofs, veikinda og annarra forfalla er áætlað að bæta þurfi við þá tölu 8%, sem þýðir í heild um 455 ársverk.
    Talið er að eftir að starfsemi álversins hefst muni óbein og afleidd áhrif leiða til þess að fyrir hvert eitt starf þar skapist 0,85 ný störf á Miðausturlandi. Hins vegar er talið að vegna sterkrar samkeppnisstöðu á vinnumarkaði Miðausturlands muni fyrirhugað álver leiða til þess að fyrir hvert eitt starf þar muni 0,2 leggjast niður í öðrum greinum. Nettóáhrifin eru því 1:0,65. Þannig munu um 450 ársverk í álverinu skapa nálægt 300 störf til viðbótar á svæðinu, ef forsendur þessar reynast réttar.
    Talið er að verulegs hluta margfeldisáhrifa af rekstri álversins muni gæta utan Miðausturlands, einkum á höfuðborgarsvæðinu og í einhverjum mæli á Akureyri. Erlendar rannsóknir sýna að fyrir hvert eitt starf í álveri skapist 2–3 óbein og afleidd störf í öðrum greinum. Ef það verður reyndin hér á landi, og áðurnefndar forsendur um margfeldisáhrif á Miðausturlandi haldast, mun því álverið skapa 1,5–2,0 störf annars staðar á landinu, þ.e. utan Miðausturlands.
    Störfin sem skapast þegar starfsemi álversins hefst árið 2007 munu koma í stað starfa heimamanna við framkvæmdir sem þá dragast verulega saman. Áætlað er að íbúafjöldi á Miðausturlandi verði u.þ.b. 9.700–9.800 árin 2007–2008 ef þessi áform ganga eftir. Árið 2007 munu störf í álverinu ekki bæta upp fækkun starfa heimamanna og fækkun starfa aðfluttra starfsmanna og leiða til þess að íbúafjöldi verður u.þ.b. 9.600 árið 2009.
    Fyrirhugað álver mun með beinum, óbeinum og afleiddum hætti leiða til mikillar atvinnusköpunar, hærri atvinnutekna og aukinna viðskipta á Miðausturlandi. Þetta yrði ný atvinnugrein á svæðinu sem hefði áhrif á margar aðrar greinar er selja vörur og þjónustu til álversins og starfsfólks þess. Verkefnið mun hafa áhrif á ferðamannaþjónustu og landbúnað. Í fyrra tilvikinu mun aukinn íbúafjöldi, viðskipti tengd framkvæmdum, bættar samgöngur og bættur hagur fólks auka eftirspurn eftir margvíslegri hótel- og veitingaþjónustu, útivist og afþreyingu sem aðilar í ferðaþjónustu njóta góðs af. Atvinna tengd álverinu mun einnig auka möguleika fólks sem starfar í ferðaþjónustu og landbúnaði á viðbótartekjum en atvinna í þessum tveimur greinum gefur almennt lágar tekjur og er árstíðabundin.
    Fólksfækkun á síðustu árum hefur aðallega átt rætur sínar að rekja til þess að ungt fólk sækir burt til náms og í leit að áhugaverðum og vel launuðum störfum. Bein, óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki sem á rætur á Miðausturlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldurs- og kynjaskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Reyðarál hf. árið 2000 sýndi að 40% 18–28 ára fólks á Miðausturlandi hefur örugglega eða líklega áhuga á að starfa í álverinu og að 17% brottfluttra Austfirðinga 25–49 ára telur líklegt að þeir muni flytja aftur til Austurlands ef álver rís á Reyðarfirði.
    Fyrirhugað álver og tengd starfsemi mun leiða til samgöngubóta, bættrar grunngerðar og aukinnar þjónustu, til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins. Bætt afkoma fólks og fjölgun íbúa mun leiða til öflugra menningar- og félagslífs á svæðinu og styrkja starfsemi stofnana, samtaka, félaga og hópa sem starfa á þessu sviði.
    Ef verkefnið verður framkvæmt eins og áformað er mun verða til samfélag á Miðausturlandi sem byggir afkomu sína á tveimur meginstoðum, þ.e. álframleiðslu og sjávarútvegi, sem mun jafnframt eflast með uppbyggingu fiskeldis. Þá leiðir verkefnið að öllum líkindum til þess að samfélagið á Miðausturlandi mun einkennast af uppgangi og athafnasemi.
    Í skýrslu Nýsis hf. er bent á mikilvægi þess fyrir sveitarfélögin, ríkisvaldið og Alcoa að aðgerðir á tilteknum sviðum eru þýðingarmiklar fyrir framgang verkefnisins.
    Sveitarfélögin sem verða fyrir mestum áhrifum vegna verkefnisins þurfa að endurskoða aðalskipulag sitt, undirbúa nýbyggingarsvæði, skipuleggja endurnýjun eldri hverfa og þéttingu byggðar. Þá þarf Fjarðabyggð að gera ýmsa samninga við Alcoa. Brýnt er að sveitarfélögin í samstarfi við ríkið grípi til aðgerða í húsnæðismálum, þannig að nægilegt framboð verði af bæði leiguhúsnæði og húsnæði til kaups, auk þess sem líklega þarf að grípa til bráðabirgðaráðstafana í húsnæðismálum. Þá er þýðingarmikið að fengin verði niðurstaða áður en framkvæmdir við íbúðarhúsnæði hefjast hvort ekki sé mögulegt og hagkvæmt að nýta jarðhita til húshitunar á Reyðarfirði, Eskifirði, í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði. Mikilvægt er að sveitarfélögin í gegnum samstarf sitt í Þróunarstofu Austurlands hefjist handa við að efla fyrirtæki á svæðinu með markvissum aðgerðum og auka samkeppnishæfni þeirra vegna þeirra miklu viðskiptatækifæra sem verkefnið mun veita. Þá er líka brýnt að sveitarfélögin sjái til þess að framboð á ýmsu menningar- og tómstundastarfi verði aukið.
    Að mati skýrsluhöfundar eru helstu viðfangsefni ríkisvaldsins vegna verkefnisins á sviði samgöngumála, gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, vegabætur tengdar Kárahnjúkavirkjun og vinnusókn í álverið og þátttaka í fjármögnun hafnar fyrir álverið. Í menntamálum er brýnt að framhaldsskólum þar eystra verði gert kleift að mennta og þjálfa fólk á svæðinu til þeirra nýju starfa sem verkefnið mun skapa. Heilbrigðisstofnun Austurlands þarf að undirbúa sig til að mæta þeirri þörf fyrir heilbrigðisþjónustu sem af verkefninu leiðir, m.a. bráða- og slysaþjónustu. Þýðingarmikið er að ríkisvaldið taki ásamt sveitarfélögunum þátt í að skipuleggja og fjármagna aðgerðir í húsnæðismálum. Einnig að ríkisvaldið með aðgerðum sínum stuðli að því að það náist að halda áfram að stækka sveitarfélögin á svæðinu, að stutt verði við bakið á þeirri viðleitni að efla fyrirtækin á Miðausturlandi. Þá þarf ríkið að huga að mótvægisaðgerðum í ríkisfjármálum á meðan verkefnið stendur sem hæst, m.a. til að halda aftur af verðbólgu og draga úr fjárfestingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er iðnaðarráðherra heimilað að ganga til samninga á grundvelli frumvarps þessa við Alcoa Inc., Fjarðaál sf. og stofnendur þess, Reyðarál ehf. og Alcoa á Íslandi ehf., um byggingu álvers í Reyðarfirði. Í samningi við félagið skal kveðið á um skuldbindingar ríkisins og félagsins og eigenda þess, sem hin fyrirhugaða starfsemi gefur tilefni til. Þar skal einnig fjallað um framkvæmd ákvæða laganna, eftir því sem nauðsynlegt er talið. Í samningnum skal kveðið á um gildistíma ákvæða hans sem ekki skal vera skemmri en 20 ár frá stofnun Fjarðaáls sf. Er í því efni miðað við sambærilegan gildistíma og fram kemur í öðrum áþekkum samningum sem gerðir hafa verið af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Gert er ráð fyrir að samningur um verkefnið verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda að undirskrift lokinni. Þá skulu félagið og eigendur þess starfa samkvæmt íslenskum lögum og reglum með þeim frávikum sem í frumvarpi þessu greinir.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefni það sem lögin fjalla um, en því er ítarlega lýst í almennum athugasemdum. Verkefnið er skilgreint sem bygging álverksmiðju í Reyðarfirði í Fjarðabyggð til framleiðslu á áli og skyld starfsemi, bygging hafnarmannvirkja og hafnarbúnaðar og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu, eins og nánar verður um samið í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma þessa frumvarps milli iðnaðarráðherra, Alcoa Inc., Reyðaráls ehf., Alcoa á Íslandi ehf. og Fjarðaáls sf. og hafnarsamningi milli hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og Fjarðaáls sf. Álverið verður hannað til að framleiða allt að 322 þús. tonn af áli á ári. Þá leigir ríkissjóður félaginu land undir álverksmiðjuna samkvæmt sérstökum samningi en land verksmiðjulóðar er allt í eigu ríkisins.

Um 3. gr.

    Í samningum, sem gerðir verða innan ramma þessa frumvarps, er m.a. kveðið á um ýmsar skuldbindingar sem aðilar hafa gengist undir í tengslum við verkefnið. Efndir þessara skuldbindinga eru með þeim hætti að eðlilegt er að félagið njóti trygginga þegar um er að ræða aðra aðila en ríkið sjálft. Ríkið tekur því á sig ábyrgð í sambandi við ákveðnar efndir í tengslum við verkefnið. Þær ábyrgðir sem hér um ræðir eru annars vegar vegna skuldbindinga Fjarðabyggðar varðandi ákvörðun um gjöld til sveitarfélagsins og hins vegar vegna skuldbindinga hafnarsjóðs Fjarðabyggðar um hafnaraðstöðu í þágu álverksmiðjunnar. Um framangreint verða gerðir sérstakir samningar af hálfu ríkisins við sveitarfélagið og hafnarsjóð Fjarðabyggðar.

Um 4. gr.

    Þar sem erlendur aðili er eigandi að einkahlutafélögunum tveimur er nauðsynlegt að heimila frávik frá þeim ákvæðum einkahlutafélagalaga, iðnaðarlaga, laga um verslunaratvinnu og laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna er fjalla um persónu eigenda og þjóðerni. Samkvæmt gildandi lögum er það á færi viðkomandi ráðherra að veita undanþágur en með tilliti til þess að um stórverkefni er að ræða þykir eðlilegt að fjalla um þessar undanþágur í frumvarpi þessu. Enn fremur er nauðsynlegt að heimila frávik frá ákvæðum um skyldutryggingar fasteigna með tilliti til brunatjóns og viðlaga. Gert er ráð fyrir að eignirnar verði tryggðar á þann hátt sem tíðkast í álframleiðslu.
    Í 2. gr. laga nr. 62/1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, er kveðið á um að leggja skuli flutningsjöfnunargjald á allt sement sem framleitt er í landinu eða flutt er til landsins. Skv. 3. gr. laganna renna tekjur af flutningsjöfnunargjaldi í flutningsjöfnunarsjóð sements en úr honum skal greiða flutningskostnað á sementi frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til annarra verslunarstaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til.
    Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1973 var áður að finna heimild til viðskiptaráðherra til að fella niður flutningsjöfnunargjald á sementi sem flutt er til landsins eða framleitt innan lands og notað til byggingar orkuvera eða annarra meiri háttar framkvæmda. Heimildin var felld brott með 3. gr. laga nr. 151/2000, um breytingu á lögum nr. 62/1973.
    Samkvæmt upplýsingum frá flutningsjöfnunarsjóði sements er líklegt að útgjöld hans aukist um 222–256 millj. kr. eða 102–117% miðað við útgjöld ársins 2001 og enn meira miðað við útgjöld ársins 2002. Þyrfti innheimt flutningsjöfnunargjald að hækka um 94–112% eftir því hvort miðað er við endurgreiðslutaxta til Sementsverksmiðjunnar eða Aalborg Portland. Þetta hefði í för með sér 14–16% hækkun á sementsverði.
    Í ljósi þeirra áhrifa sem jöfnun flutningskostnaðar á sementi vegna framkvæmdanna mun hafa á sementsverð er lagt til að flutningsjöfnunargjald verði ekki lagt á og jafnframt að flutningsjöfnunarsjóður greiði ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.

Um 5. gr.

    Rétt þykir að taka fram með skýrum hætti að semja megi í fjárfestingarsamningi um tiltekið fyrirtækjafyrirkomulag Alcoa Inc. á Íslandi. Alcoa hyggst starfrækja verksmiðjuna í nafni sameignarfélags, Fjarðaáls sf., sem verður að fullu í eigu tveggja einkahlutafélaga, Reyðaráls ehf. og Alcoa á Íslandi ehf., sem verða í eigu Alcoa Inc. Í fjárfestingarsamningi er gert ráð fyrir tilteknum kvöðum í þessu efni, sem lúta að því að einkahlutafélögin verði ætíð starfrækt og skráð á Íslandi og megi ekki stunda eða taka þátt í annarri starfsemi án samþykkis ríkisins. Þá er gert ráð fyrir því að samþykki ríkisins þurfi ætíð fyrir breyttu eignarhaldi sameignarfélagsins Fjarðaáls sf. Einnig er gert ráð fyrir ákvæðum um tilteknar takmarkanir á framsali eignarréttar í einkahlutafélögunum tveimur.

Um 6. gr.

    Fjárfestingarsamningurinn byggist á því að íslensk skattalög gildi nema kveðið sé á um annað í samningnum og frumvarpi þessu.
    Í upphafi greinarinnar er sett fram sú aðalregla að félagið og eigendurnir greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna álverksmiðjunnar samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem í greininni eru tilgreind. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni. Gert er ráð fyrir því að félagið verði ekki sjálfstæður skattaðili.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er að finna ákvæði um tekjuskatt eigendanna. Eigendurnir munu greiða 18% tekjuskatt í samræmi við almennar reglur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þremur frávikum frá almennum skattlagningarreglum lögaðila. Í a-lið er kveðið á um að ef tekjuskattshlutfall á hlutafélög er lækkað niður fyrir það sem nú er þá gildi hin nýja almenna skattprósenta einnig fyrir eigendurna. Ástæða þessarar undanþágu er að samið er um starfsemi sem ekki hefur framleiðslu fyrr en árið 2007. Þykir eðlilegt að eigendurnir njóti þeirra breytinga í sama mæli og önnur fyrirtæki fram að þeim tíma er rekstur hefst. Í fjárfestingarsamningi er að finna skilgreiningu á afhendingardegi rafmagns (Permanent Delivery Date). Þar er átt við 1. október 2007 eða annan þann dag sem Alcoa og Landsvirkjun samþykkja eða sem leiðir af töfum samkvæmt ákvæðum samninga um verkefnið. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að verði síðari hækkanir á skatthlutfallinu þá skuli hærra skatthlutfall gilda fyrir eigendurna, þó þannig að skatthlutfallið verður aldrei hærra en 18%. Í b-lið er heimild til að draga rekstrartap frá skattskyldum tekjum í allt að níu ár. Í lok árs 2002 var samþykkt breyting á 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 þannig að fyrirtækjum verður heimilt frá og með tekjuárinu 2004 að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa vegna síðustu tíu ára. Á tekjuárinu 2003 er fyrirtækjum heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa vegna síðustu níu ára. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartaps fleiri ára frá skattskyldum tekjum þá skuli það sama gilda um félagið. Þá er gert ráð fyrir því að ef árunum verði síðar fækkað skuli hið sama gilda um félagið, þó þannig að því sé ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa vegna síðustu níu almanaksára. Í c-lið er ákvæði um fyrningargrunn eigna en um skiptingu hans vegna byggingar álverksmiðju er samið fyrir fram í tilteknum hlutföllum, sem nánar er kveðið á um í viðauka með samningnum. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Í 2. tölul. 1. mgr. eru eigendurnir undanþegnir eignarskatti skv. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 75/1981.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er félagið undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002. Þetta þykir eðlilegt þar sem um er að ræða markaðar tekjur til verkefna sem félagið hefur ekki not af.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er vikið að fyrningarreglum varðandi eignir félagsins. Annars vegar getur það valið að afskrifa eign í hlutfalli við notkunartíma á fyrsta ári hennar í stað þess að nota fulla ársafskrift. Í öðru lagi er félaginu heimilað að afskrifa eignir að fullu í stað þess að bókfæra hrakvirði eins og lögin kveða á um.
    Í 5. tölul. 1. mgr. kemur fram að í stað fasteignaskatts skuli félagið greiða Fjarðabyggð tiltekna fjárhæð í fasteignaskatt vegna allra mannvirkja sem félagið á eða leigir og eru ætluð vegna framleiðslugetu er nemur allt að 322.000 tonnum. Álagningarstofn fasteignaskatts verður fjárhæð sem samsvarar 255 milljónum Bandaríkjadala á meðalgengi fyrstu sex mánaða ársins 2007. Þessi fjárhæð er vegna allra mannvirkja innan lóðar verksmiðjunnar og á hafnarsvæðinu og eru þau upp talin í fylgiskjali við fjárfestingarsamninginn.
    Í 6. tölul. 1. mgr. kemur fram að félagið er undanþegið greiðslu gatnagerðargjalds samkvæmt lögum nr. 17/1996.
    Í 7. tölul. 1. mgr. er veitt heimild til að ákveða að greiða skuli umsamda fjárhæð í stað byggingarleyfisgjalds og skipulagsgjalds samkvæmt lögum nr. 73/1997.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er stimpilgjald af ákveðnum tegundum stimpilskyldra skjala ákveðið 0,15%.
    Í 9. tölul. 1. mgr. eru félagið og eigendurnir undanþegnir ákvæðum laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Með ákvæðinu er kveðið á um sambærilegar undanþágur og gilda um Íslenska járnblendifélagið hf. og Alcan á Íslandi hf. (ISAL).
    Í 10. tölul. 1. mgr. er hluthöfum í eigendunum gert að greiða 5% afdráttarskatt vegna arðs í stað 15% afdráttarskatts líkt og kveðið er á um í 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga nr. 75/1981. Í tvísköttunarsamningum sem Ísland gerir við önnur ríki er almennt samið um lægri afdráttarskatt en 15% að uppfylltum tilteknum eignarhaldsskilyrðum.
    Í 11. tölul. 1. mgr. er félaginu og eigendunum heimilaður frádráttur vaxtakostnaðar í samræmi við 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, eins og sú grein hljóðar á samningsdegi, á upphafstímabili samningsins.
    Í 12. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að hafnarsjóði Fjarðabyggðar sé heimilt að semja um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum, hafnareglugerð og hafnagjaldskrá. Í fyrri lögum hefur slík heimild verið almenn en nú er lagt til að aflað verði sérgreindrar heimildar fyrir samningsgerðinni. Á grundvelli þessarar heimildar verður hafnarsjóði Fjarðabyggðar heimilt að semja um afslátt frá gjaldskránni svo sem tíðkast hefur.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að heimilað verði að kveða svo á í fjárfestingarsamningi að skattar og gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og losun verksmiðju þess á lofttegundum eða öðrum úrgangsefnum nema slíkir skattar eða gjöld verði lögð á öll fyrirtæki hér á landi, þ.m.t. álfyrirtæki. Áþekk regla gildir í þessum efnum um Alcan á Íslandi hf. (ISAL).
    Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin stefnumörkun um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyotobókunarinnar. Í stefnumörkuninni er kveðið á um að gert verði samkomulag við álfyrirtæki í landinu um aðgerðir til þess að halda útstreymi flúorkolefna við álframleiðslu innan við 0,14 tonn koltvíoxíðígilda á framleitt tonn af áli. Þá verði komið á formlegu samráði umhverfisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins við fyrirtæki í áliðnaði um aðgerðir til þess að halda útstreymi gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu í lágmarki. Hvað varðar skatta og gjöld vegna losunar lofttegunda eða annarra úrgangsefna þá gerir fyrirliggjandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum ekki ráð fyrir því að slíkir skattar eða gjöld verði lögð á gróðurhúsalofttegundir. Af hálfu viðsemjanda ríkisstjórnarinnar er talið mikilvægt að jafnræðis verði gætt við álagningu slíkra skatta eða gjalda ef til þess kemur.
    Í 3. mgr. er tekið fram að aðilar fjárfestingarsamningsins geti samið um tilteknar reglur og viðmiðanir er lúta að viðskiptum félagsins og eigendanna við Alcoa Inc. og fyrirtæki í eignatengslum við hið bandaríska fyrirtæki. Ætlast er til að slík viðskipti fari fram eins og um ótengda aðila væri að ræða. Tilteknar viðmiðanir eru þekktar í þessu efni, svo sem 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og viðmiðunarreglur OECD á þessu sviði („Transfer Pricing Guidelines for Multinational Enterprises and Tax Administrations“). Slíkar viðmiðunarreglur eru mjög ítarlegar í samningi ríkisins og Alcan á Íslandi hf. (ISAL) en ekki þykir ástæða til að hafa þær jafnviðamiklar nú. Í fjárfestingarsamningnum er gert ráð fyrir sérstökum viðauka við samninginn sem tekur á þessum þáttum. Þann viðauka má taka til endurskoðunar þyki tilefni til þess á samningstímanum.
    Í 4. mgr. er tekið fram með ótvíræðum hætti að félagið og eigendurnir verði háðir almennum reglum íslenskra laga varðandi skattframtal, álagningu, viðurlög og málskot. Ágreiningi um túlkun samningsákvæða má þó skjóta til gerðardóms samkvæmt ákvæðum samningsins.
    Í 5. mgr. greinarinnar kemur loks fram að á fyrsta samningstímabilinu sé félaginu og eigendunum heimilt að velja að almenn ákvæði íslenskra skattalaga gildi um skattlagningu aðila. Beiðni um slíkt skal leggja fram skriflega eigi síðar en 1. júní ári áður en breytingarnar eiga að taka gildi.

Um 7. gr.

    Í greininni er ákveðið að aðilar geti samið um sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið og eigendurna sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og undanþágum sem taldar eru viðeigandi. Heimila má félaginu að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í Bandaríkjadölum, í samræmi við reglur Alþjóðlega reikningsskilaráðsins.

Um 8. gr.

    Við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma frumvarpsins skal farið að íslenskum lögum. Heimilt er þó að vísa ágreiningi til gerðardóms.

Um 9. gr.

    Samkvæmt tollalögum er heimilt að fella niður tolla og vörugjöld af hráefnum og efnivörum til iðnaðarframleiðslu, svo og af vélum og tækjum til framleiðslunnar. Engin gjöld eru nú á hráefnum og efnivörum. Eins er um fjárfestingarvörur sem fluttar eru inn frá EES- ríkjum og öðrum löndum sem fríverslunarsamningar eru við. Í fyrri málslið greinarinnar er við það miðað að felldir verði niður tollar og vörugjöld af innflutningi og kaupum félagsins á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir verksmiðju félagsins og tengd mannvirki, sem kunna að verða flutt inn frá öðrum löndum og bera tolla eða vörugjöld. Í síðari málslið greinarinnar er veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álverksmiðjunnar.

Um 10. gr.

    Í greininni kemur fram að semja megi um að félaginu og eigendunum sé heimilt að framselja samninginn við tilteknar afmarkaðar aðstæður.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.





Fylgiskjal I.


Markaðsskrifstofa
iðnaðarráðuneytisins
og Landsvirkjunar:


Lýsing á fyrirhuguðu álveri og iðnaðarhöfn í Reyðarfirði.


     1.    Inngangur.
            Alcoa Inc. í Bandaríkjunum hyggst reisa og reka álver með allt að 322.000 tonna ársframleiðslu í Reyðarfirði, Fjarðabyggð. Fyrir liggur samþykkt mat á umhverfisáhrifum álvers Reyðaráls hf. í Reyðarfirði fyrir allt að 420.000 tonna ársframleiðslu á iðnaðarlóð að Hrauni í Reyðarfirði. Alcoa keypti Reyðarál hf. í nóvember 2002 af Hydro Aluminium AS og Hæfi hf. með öllum réttindum og gögnum vegna undirbúnings álvers í Reyðarfirði. Álver Alcoa gengur undir nafninu Fjarðaál. Það verður í ýmsu frábrugðið álveri því sem Reyðarál hf. hugðist byggja, en Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að frávikin séu ekki matsskyld, heldur rúmist innan þess mats (á umhverfisáhrifum), sem þegar liggur fyrir. Fyrirhuguðum álversframkvæmdum er lýst í eftirfarandi greinargerð.

     2.    Staðhættir á iðnaðarlóðinni. (Mynd 1.)
            Álverið verður staðsett á iðnaðarsvæðinu við norðanverðan Reyðarfjörð. Iðnaðarlóðin er um 6 km austur af þéttbýlinu við Reyðarfjörð. Hún er að mestu mýrlendi og víðáttumiklar klappir, sums staðar með löngum mýrarteigum á milli. Votlendið hefur að mestu verið ræst fram og ræktað sem tún. Hefðbundinn landbúnaður var áður ríkjandi atvinnuvegur á þessu svæði, en hann lagðist að mestu af fyrir nokkrum árum. Býli í nágrenni iðnaðarsvæðisins eru Framnes, Sómastaðir, Sómastaðagerði, Flateyri, Hraun og Hólmar. Búið er á Framnesi, en þar er enginn landbúnaður stundaður. Sómastaðir eru leigðir undir gróðrarstöð. Land á Flateyri og Hrauni er leigt út tímabundið til hrossabeitar. Ábúendur á Hólmum stunda nautgriparækt og nytja æðarvarp.
            
            Allt land sem hér að ofan er nefnt, að undanskildu tveggja hektara stóru landi Framness, er í eigu íslenska ríkisins. Væntanlegt álver fellur innan aðalskipulags sem í gildi er fyrir iðnaðarsvæðið. Álverslóðin er um 88 ha að stærð. Breyta þarf gildandi deiliskipulagi lítils háttar þar sem byggingarreitur álvers Fjarðaáls innan lóðarinnar er frábrugðinn þeim sem þurfti fyrir álver Reyðaráls. Unnið er að því máli.

     2.    Hafnaraðstaða. (Mynd 2.)
            Hafnarsjóður Fjarðabyggðar mun byggja nýja höfn á svokallaðri Mjóeyri við vestanvert iðnaðarsvæðið við Hraun. Markmiðið með byggingu hafnarinnar er að auðvelda flutninga hráefnis til álversins og afurða frá því á erlenda markaði. Álverið mun hafa forgang að notkun hafnarinnar en hún verður einnig opin öðrum til afnota, enda verður hún byggð og rekin sem almenn höfn.
            
            Hafnarbakkinn verður af hefðbundinni stálþilsgerð með ankerisfestingum í malarfyllingu og steyptum framkanti. Viðlegukanturinn verður 380 m langur með 14,3 m dýpi. Gert er ráð fyrir því að allt að 250 m löng og 80.000 smálesta stór flutningaskip af svokallaðri „Panamax“ stærð geti legið við kantinn. „Panamax“ flutningaskip eru stærstu flutningaskip, sem komast eftir Panama skipaskurðinum. Landfylling verður varin til hliðar með grjótvörn. Athafnasvæði hafnarinnar verður um 74.000 m 2 að stærð með möguleikum til stækkunar með frekari landfyllingu til vesturs í allt að 112.000 m 2. Þar af mun álverið hafa til ráðstöfunar allt að 27.000 m 2 athafnasvæði fyrir vörugeymslur og gámastæði. Álverið mun á sinn kostnað reisa vöruskemmur, uppskipunarbúnað og búnað til flutnings á hráefni frá skipshlið í geymslur.

     4.    Flutningar.
            Miklir flutningar munu eiga sér stað til og frá álverinu. Er þar einkum að nefna um 200.000 tonn af byggingarefni á byggingartíma álversins en síðan munu árlega fara um höfnina öll hráefni til álvinnslunnar og framleiðsluafurðir, sem aðallega verða mismunandi form af álhleifum. Áætlaðar árlegar flutningstölur eru eins og fram koma í töflu 1.

             Tafla 1. Árlegir flutningar um Mjóeyrarhöfn.

Vörur     Eining          Innflutningur     Útflutningur
Óunnið ál          tonn          -          322.000
Súrál     “                    622.000     -
Rafskaut     “                    170.000     -
Skautleifar     “               -          41.000
Efni til kerfóðrunar     “                    7.200     -
Kerbrot     “               -          4.600
Flúoríð     “                    3.900     -
Olíur og eldsneyti     “                    12.500     -
Spilliefni og annað     “               -          6.000
Samtals         tonn               815.600      373.600

     5.        Vatnsnotkun.
                Vatnsnotkun í álverinu má skipta í tvo þætti, neysluvatn og iðnaðarvatn. Neysluvatn er einkum kranavatn til notkunar við sturtuböð og aðra hreinlætisaðstöðu og í mötuneyti fyrir starfsfólk. Iðnaðarvatn er fyrst og fremst kælivatn til notkunar í tækjum og framleiðslubúnaði álversins, en einnig til notkunar við slökkvistörf í brunatilfelli. Áætluð vatnsþörf Fjarðaáls er sýnd í töflu 2.

Tafla 2. Áætluð vatnsnotkun mismunandi hluta álversins.



Notandi

Eining

Kælivatn
Neysluvatn
Skautsmiðja

l/s

     3,5      -
Steypuskáli

     18      -
Stoðkerfi

     -     1,6
Drykkjarvatn

     -      0,35
Aðveitustöð

     4,2      -
Samtals

l/s

     257      1,95

             Ráðgert er að taka neysluvatn úr núverandi brunnsvæði við Njörvadalsá en iðnaðarvatn verður tekið úr borholum í áreyrum milli Norðurár og Sléttuár fyrir botni fjarðarins.

     6.    Raforkuöflun.
            Landsvirkjun mun sjá álverinu fyrir raforku, aðallega frá Kárahnjúkavirkjun. Lög um virkjunina voru samþykkt á Alþingi í apríl 2002.
            
            Orkuþörf álvers Reyðaráls miðað við 322.000 tonna ársframleiðslu er áætluð um 4,700 GWh á ári. Í samningsgerð við Landsvirkjun er miðað við að 90% orkunnar verði skilgreind sem forgangsorka og 10% sem afgangsorka með tilteknum skerðingarákvæðum.
            
            Tvær 400 kV háspennulínur (Fljótsdalslínur 3 og 4) munu tengja álverið við raforkukerfi Landsvirkjunar. Úrskurður Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum línanna lá fyrir í maí 2000. Framkvæmdin var samþykkt með skilyrðum og úrskurðurinn var staðfestur af umhverfisráðherra í nóvember 2000.

     7.    Álvinnsla með rafgreiningu.
            Ál er unnið úr súráli með rafgreiningu í hitaþolnum stálkerum. Til að framleiða 1 tonn af áli þarf u.þ.b. 2 tonn af súráli og 0,4 tonn af skautkolum, 20 kg af álflúoríði og raforku sem svarar til 13.000–14.000 kWst. Fullbúið álver samanstendur af kerskálum með tilheyrandi rafbúnaði, steypuskála, skautsmiðju og nauðsynlegu stoðkerfi.
            
            Í rafgreiningarkerinu klýfur rafstraumur súrálið annars vegar í súrefni sem gengur í efnasamband við kolefni í rafskautum og hins vegar ál sem sekkur til botns í kerinu og er síðan sogað upp í deiglu. Mismunandi aðferðir hafa verið þróaðar hjá hinum ýmsu stærri álframleiðendum en allar byggja þær á sömu grunnaðferð rafgreiningarinnar. Sú tækni sem notast verður við í Fjarðaáli verður af gerðinni AP30 upphaflega frá franska fyrirtækinu Pechiney en frekar þróað á vegum Alcoa. Þessi tækni byggir á svokallaðri CWPB rafgreiningartækni (Center-Worked Pre-Bake), sem gefur til kynna að rafskaut séu forbökuð og súrálsmötun eigi sér stað í lokuðu kerfi.
            
            Rafgreiningin fer fram í 336 stálkerum sem raðað er saman hlið við hlið í tveimur, 1.100 m löngum kerskálum eftir þeim endilöngum, 168 ker í hvorum skála. 300 kA (kílóAmper) jafnstraumur flæðir í gegnum raðtengd kerin hvert af öðru á milli forbakaðra kolarafskauta. Léttar álþekjur eru lagðar á yfirbygginguna til að loka kerunum og hindra að óæskilegar gastegundir komist út í andrúmsloftið í kerskálunum. Kerfóðrunin endist að jafnaði í 5–7 ár. Eftir það eru leifar hennar, sem kallast kerbrot, fluttar út til endurvinnslu. Gasið er sogað burtu í afsogskerfi og leitt til þurrhreinsistöðva. Nauðsynlegt er að opna þekjurnar við skautskipti, aftöppun á fljótandi áli og vegna viðhalds.

     8.    Fyrirkomulag og helstu mannvirki. (Myndir 3 og 4.)
            Fjarðaál mun framleiða 322.000 tonn af hrááli á ári. Framleiðslutæknin er byggð á hámarks sjálfvirkni og þróuðustu tækni sem í boði er fyrir álver sem nota forbökuð rafskaut. Besta fáanlega tækni (BAT-best available technique) verður notuð við hreinsun útblásturs.

            Helstu mannvirki álversins eru eftirfarandi:
                  *      Kerskálar til rafgreiningar áls úr súráli í kerum sem raðað er hlið við hlið.
                  *      Þurrhreinsivirki til hreinsunar á útblæstri.
                  *      Steypuskáli, þar sem fljótandi ál er steypt í hleifa.
                  *      Skautsmiðja, þar sem ný rafskaut eru tengd skautgöfflum og skautleifar aftengdar.
                  *      Aðveitustöð, þar sem háspennulínur tengjast afriðlunarbúnaði og kerskálum.
                  *      Olíubirgðastöð fyrir eldsneyti til upphitunar á ofnum í steypuskála.
                  *      Þjónustubyggingar, starfsmannaaðstaða, vörugeymslur og verkstæði.
            
            Stærðir og hæðir helstu mannvirkja Fjarðaáls eru sýndar í töflu 3.

Tafla 3. Stærðir og hæð helstu mannvirkja.



 Byggingar

Flatarmál (m²)

Hæð (m)
 Kerskáli (2x32.000)

64.000

18
 Steypuskáli

12.000

15–22
 Skautsmiðja

10.000

9–12
 Kerskálaþjónusta og verkstæði

5.000

15–19
 Starfsmannaaðstaða og skrifstofur

5.000

5
 Hráefnisgeymslur

4.500

45
 Skorsteinar

 Þurrhreinsivirki álvers

-

78
 Steypuskálar

-

30

     9.    Hreinsun á útblæstri.
            Í tillögum að starfsleyfi, sem kynntar voru almenningi með auglýsingu Umhverfisstofnunar í Lögbirtingablaðinu 18. desember 2002, er kveðið á um mengunarvarnir sem ber að viðhafa við rekstur álversins. Í starfsleyfistillögunum er gert ráð fyrir þynningarsvæði umhverfis álverið þar sem leyfilegt er að loftmengun fari fram úr loftgæðakröfum í gildandi mengunarvarnareglugerð eða sem sérstaklega eru ákveðnar fyrir Fjarðaál. Viðmiðunarmörk til að meta loftgæði í Reyðarfirði eru af ýmsum uppruna, en aðallega þó frá íslenskum reglugerðum og tilskipunum Evrópusambandsins sem koma til framkvæmda árið 2005. Íslensk viðmiðun um loftgæði eru sett í reglugerðum nr. 787/1999 og nr. 251/2002. Losun frá álverinu út í andrúmsloftið eru einkum flúoríð (F), flúorgas (HF), brennisteinstvíoxíð (SO 2), svifryk, fjölhringa kolvetnissambönd (PAH) og koltvíoxíð (CO 2).
            
            Hreinsun útblásturs frá álverinu fer fram í nútímalegu þurrhreinsivirki sem búið er pokasíum og endurvinnslubúnaði fyrir flúoríð og ryk. Þurrhreinsun byggist á því að kerum er lokað og kerreykurinn er sogaður inn í hreinsistöð þar sem flúorefnasambönd eru hreinsuð úr reyknum með súráli. Gasstraumurinn rífur súrálið, sem rennur á móti gasstraumnum, með sér og súrálið bindur flúoríðið í kerreyknum. Súrál, sem hefur bundið flúorgas og er blandað ryki, er kallað hlaðið súrál. Hlaðið súrál og ryk er síðan hreinsað úr kerreyknum með pokasíum og hlaðna súrálið notað sem hráefni til frekari vinnslu áls. Á þennan hátt eru flúor efnasambönd endurunnin í stað þess að sleppa þeim út í andrúmsloftið. Tvennt er gert samtímis. Dregið er úr loftmengun og um leið er sparað hráefni. Hreinsivirkni verður meiri en 99,5%. Gert er ráð fyrir að heildarmagn flúoríðs og ryks í útblæstri verði vel undir tillögum PARCOM (Oslo and Paris commissions 91/1) um bestu fáanlegu tækni fyrir ný álver. Útblæstri brennisteinstvíoxíðs verður haldið í skefjum með því að takmarka magn brennisteins í skautkolum.

   10.        Álsteypa.
             Í steypuskálanum verða aðallega framleiddir hleifar. Í grófum dráttum er ferlið þannig að fljótandi ál er flutt úr kerskála í áldeiglum í biðofna í steypuskála þar sem óæskileg efni eru hreinsuð úr álblöndunni. Álgjall sem myndast á yfirborði deiglanna er fjarlægt. Álgjallið er kælt og því komið til frekari úrvinnslu. Úr biðofni fer álið í steypuvél þar sem það er mótað í ýmsar gerðir hleifa. Þeir eru síðan geymdir á lager til útflutnings.

   11.        Rafskautagerð.
             Forbökuð rafskaut verða flutt inn tilbúin til notkunar. Skautin eru tengd við skautgaffla í svonefndri skautsmiðju. Tindum skautgafflanna er stungið í holur í forskautunum sem síðan eru fylltar með bráðnu steypujárni. Þegar steypujárnið storknar verður eftir ný eining forskauts með innsteyptum skautgaffli. Úr skautsmiðju fara skautin síðan til kerskála þar sem þeim er skipt út fyrir notuð rafskaut. Skautleifarnar eru hreinsaðar og safnað saman til útflutnings og endurvinnslu í erlendum rafskautaverksmiðjum.

   12.         Starfsmannafjöldi.
             Þegar álverið tekur til starfa á árinu 2007 er áætlað að 420 starfsmenn verði ráðnir í fullt starf. Auk þess má reikna með um 35 ársverkum til viðbótar vegna sumar- og veikindaafleysinga. Alls þarf því 455 ársverk til að reka álverið. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun má skipta menntunarkröfum starfsmanna í 5 flokka:
                  *      Starfsmenn með akademíska háskólamenntun          10–20
                  *      Starfsmenn með tæknimenntun á háskólastigi eða sambærilegt          20–25
                  *      Starfsmenn með sérstaka tæknimenntun          50–60
                  *      Starfsmenn með iðnnám eða fjölbrautarnám, sérsniðið að álvinnslu           . 300
                  *      Starfsmenn án sérstakrar menntunar, ófaglærðir starfsmenn          25–30
            
            Áætla má að um helmingur þessara 420 starfa verði dagvinnustörf en hinn helmingurinn verði unninn á vöktum. Gert er ráð fyrir að flestir yfirmenn verði ráðnir snemma á undirbúningstímanum og muni þeir vera til staðar á meðan álverið verður byggt. Smám saman verði fleiri starfsmenn ráðnir og settir í starfsþjálfun þar til þrem mánuðum áður en rekstur hefst, en þá verði fullráðið í öll störf.

   13.         Framkvæmdaáætlun og stofnkostnaður (Mynd 5.)
             Líklegt er að eigendur Fjarðaáls ráði stóran, alþjóðlegan alverktaka með reynslu í hönnun og byggingu álvera til að taka að sér hönnun, verksamningagerð, innkaup og stjórnun framkvæmda (EPCM Contract). Fram hefur komið að haft verði samstarf við íslenska ráðgjafaverkfræðinga og verktaka varðandi staðbundin atriði og byggingarhætti og munu íslenskir verkfræðingar taka þátt í hönnun mannvirkja og byggingareftirliti á þeim sviðum, sem íslensk verkþekking og reynsla nýtist best.
            
            Notast verður við íslenskt vinnuafl við framkvæmdir að svo miklu leyti sem unnt er. Ráðnir verða innlendir iðnaðarmenn og verkamenn í þjónustu alverktakans en einnig verða einstakir verkþættir boðnir út á meðal verktaka og framleiðenda, og samið við íslensk fyrirtæki ef þau reynast samkeppnisfær varðandi búnað, verkþekkingu og verð. Framleiðsla og uppsetning á sérhæfðum búnaði verður boðin út á alþjóða vettvangi að undangengnu forvali. Vinnubúðir verða settar upp á byggingarstað til að hýsa aðkomuverkamenn, stjórnendur, iðnaðarmenn og verktaka.
            
            Framkvæmdir hefjast haustið 2004 en þá verður hafist handa samtímis við lóðarframkvæmdir fyrir álverið og byggingu hafnarinnar. Áætluð vinnuaflsþörf vegna framkvæmda við Fjarðaál að meðtalinni höfninni eru um 2.300 ársverk. Mest verður umleikis um sumarið 2006 en þá er talið að allt að 1.500 manns muni starfa að framkvæmdunum samtímis. Draga mun úr vinnuaflsþörfinni veturinn 2006 til 2007 þar til framkvæmdum lýkur vorið 2007 en þá hefst rekstur. Gert er ráð fyrir að taka muni 6 mánuði að koma álverinu í fullan rekstur sem er áætlað að verði í október 2007. Áætluð skipting vinnuafls við framkvæmdir verður sem hér segir:
                  *      Heimamenn          10%
                  *      Starfsmenn sem flytja tímabundið inn á svæðið með fjölskyldur
                    sínar meðan á framkvæmdum stendur          15%
                  *      Innlendir starfsmenn sem dvelja í vinnubúðum en fara heim til sín
                    í fríum          45%
                  *      Erlendir starfsmenn          30%

            Heildarstofnkostnaður álversins er áætlaður um 90 milljarðar króna. Áætlaður kostnaður við Mjóeyrarhöfn er um 1,5 milljarðar króna.
Mynd 1.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3.
Mynd 4.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 5.




Fylgiskjal II.


Lýsing á meginatriðum í drögum að fjárfestingarsamningi milli
ríkisstjórnar Íslands, Alcoa Inc., Fjarðaáls sf.,
Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf.

(Drög dags. 20. desember 2002.)


1. Inngangur.

    Fjárfestingarsamningur ríkisstjórnar Íslands, Alcoa Inc., Fjarðaáls sf., Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf. er aðalsamningur verkefnisins. Í honum er kveðið á um grundvöll verkefnisins, undanþágur frá lögum og lagaákvæðum, breytingar á eignaraðild, rekstur, skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélags, þjónustu sveitarfélagsins, ábyrgðir o.fl. Hér á eftir fer stutt lýsing á einstökum greinum fjárfestingarsamningsins til útskýringa á efni samningsins, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringagagn á efni hans.

2. Lýsing á einstökum ákvæðum fjárfestingarsamningsins.
Inngangur.
    Í inngangi samningsins er fjallað um aðdraganda samningsins, aðila hans og undirbúning verkefnisins.

Grein 1.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna umfjöllun um hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er fjallað um uppbyggingu verkefnisins, markmið og undanþágur frá lögum. Í greininni kemur fram að Fjarðaál sf. (félagið) hafi verið stofnað hér á landi um rekstur álverksmiðjunnar svo sem kveðið er á um í sameignarsamningi, í samræmi við íslensk lög. Í greininni er enn fremur kveðið á um að markmið félagsins en það er frumframleiðsla á áli og álafurðum auk annarra tengdra verkefna.
    Í greininni er tilgangi Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráli ehf. (eigendurnir) lýst. Tilgangur eigendanna er að eiga sameignarfélagið Fjarðaál sf. Eigendurnir skulu búsettir og skráðir á Íslandi og mega ekki á gildistíma samningsins taka þátt í annarri starfsemi án samþykkis ríkisstjórnarinnar.
    Eigendurnir eru undanþegnir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá eru bæði félagið og eigendurnir undanþegnir ákvæðum 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Félaginu er veitt undanþága frá ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, og lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, en það skilyrði jafnframt sett að félagið sjái um að eignirnar séu tryggðar á þann hátt sem teljist venjulegur í álframleiðslu. Loks er félagið undanþegið ákvæðum 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
    Loks er í greininni kveðið á um að ríkisstjórnin ábyrgist útgáfu tilskilinna leyfa og undanþága auk þess sem Alcoa Inc. staðfestir það fyrirtækjaskipulag sem kveðið er á um í greininni.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um framsal hluta í félaginu og eigendunum. Í fyrsta lagi er kveðið á um að hvers konar yfirfærsla eignarhluta í félaginu verði að vera til skattaðila með búsetu hér á landi. Samþykki ríkisstjórnarinnar er krafist vegna slíkra yfirfærslna.
    Í öðru lagi er samþykkis ríkisstjórnarinnar krafist vegna hvers konar yfirfærslu eignarréttinda í eigendunum þar til verksmiðjan hefur rekstur. Frá þessu eru fimm undantekningar: a) þegar yfirfærsla á sér stað til dótturfélaga Alcoa sem staðsett eru í OECD-ríki, b) þegar eignarréttindi eru veðsett vegna fjármögnunar félagsins eða eigenda á verkefninu, c) þegar eignarréttindi eru veðsett í þágu Landsvirkjunar vegna rafmagnssamnings, d) þegar eignarréttindi eru seld í tengslum við veðsetningu samkvæmt b- eða c-lið, og e) þegar minni hluti eignarhluta (ekki yfir 49%) í félaginu er framseldur til félaga sem skráð eru í OECD-ríki.
    Í þriðja lagi er frjálst að yfirfæra eignarréttindi í eigendunum til dótturfélaga Alcoa, sem eru í meirihlutaeigu félagsins og staðsett í OECD-ríki. Framsal eignarréttinda í eigendunum til annarra aðila en dótturfélaga Alcoa eru háð samþykki ríkisstjórnarinnar nema um sé að ræða hlut sem ekki fer yfir 49% af eignarhlutum í eigendunum.
    Í greininni kemur loks fram að félag, sem eignast hluti í félaginu með þeim hætti sem nánar er um rætt í greininni, skuli talið aðili samningsins og skuli félagið staðfesta það með því að afhenda ríkisstjórninni tilkynningu þar um.

Grein 4.
    Í 4. gr. samningsins er fjallað um verkframkvæmdir og leyfisveitingar vegna þeirra. Í greininni er kveðið á um að félagið skuli hefja framkvæmdir í samræmi við samningana með það fyrir augum að vinnsla geti hafist á árinu 2007. Í greininni er kveðið á um útgáfu iðnaðarleyfis og verslunarleyfis. Þá er kveðið á um aðrar skyldur aðila til að tryggja framgang verkefnisins.

Grein 5.
    Í 5. gr. samningsins er kveðið á um viðskipti tengdra aðila. Félaginu, stofnendunum, Alcoa og dótturfélögum Alcoa er heimilt að eiga viðskipti sín á milli. Í slíkum tilfellum skulu aðilarnir gera merð sér viðskiptasamning sem byggir á sömu sjónarmiðum og samningar um viðskipti óskyldra aðila.
    Félaginu, eigendunum og öðrum dótturfélögum Alcoa er gert skylt að halda bókhald og reikninga til stuðnings útreikningum á söluverði af öllum álafurðum seldum milli félaga í gegnum verksmiðjuna. Það sama gildir um hráefni, aðföng, þjónustu og vexti af lánum.
    Í greininni er kveðið á um að ef þess er óskað þá skuli ofangreint bókhald og reikningar afhent óháðu endurskoðendafyrirtæki, sem aðilarnir eru sammála um, í þeim tilgangi að staðreyna hvort beitt sé reglum um viðskipti óskyldra aðila. Heimilt er að krefjast slíkrar endurskoðunar einu sinni á ári og fellur allur kostnaður vegna þessa á ríkisstjórnina.
    Í greininni er loks kveðið á um að 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, gildi um viðskipti þessara aðila. Þá skuli viðskipti á milli aðila vera í samræmi við reglur OECD um „Transfer pricing“.

Grein 6.
    Í 6. gr. samningsins er fjallað um umhverfismál. Í henni kemur annars vegar fram að álverksmiðjan og starfsemi félagsins við höfnina skuli rekin í samræmi við starfsleyfi sem umhverfisráðherra gefur út til félagsins. Hins vegar segir að ríkisstjórnin skuli ekki leggja neina umhverfisskatta eða -gjöld tengd losun CO 2 og SO 2 á félagið á meðan slík gjöld eða skattar hafa ekki almennt verið lagðir á önnur iðnfyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. álfyrirtæki.

Grein 7.
    Í 7. gr. er fjallað um meginreglur skattlagningar. Þar segir að félagið og eigendurnir skuli greiða þá skatta og gjöld sem lögð eru á samkvæmt íslenskum lögum á hverjum tíma, nema öðruvísi sé um samið í samningnum.
    Í greininni er einnig kveðið á um að almenn ákvæði íslenskrar löggjafar skuli gilda um skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu og aðrar uppgjörsreglur vegna tekjuskatts, virðisaukaskatts og gjalda sem sveitarfélög leggja á.

Grein 8.
    Í 8. gr. er fjallað um skatta sem ríkið leggur á. Í greininni kemur fram að þrátt fyrir hugsanlegar breytingar á lögum, nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skuli félagið greiða 18% tekjuskatt samkvæmt ákveðnum sérákvæðum sem talin eru upp í samningnum. Helstu atriði sérákvæðanna eru:
     a.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð er lægra en 18% á umsömdum afhendingardegi rafmagns (Permanent Delivery Date) skal það hlutfall gilda um eigendurna. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað skal það gilda um eigendurna en þó aldrei hærra en 18%.
     b.      Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa fleiri ára frá skattskyldum tekjum þá skal það sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu níu almanaksára.
     c.      Fastafjármunir vegna byggingar álverksmiðjunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum umsömdum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á álverksmiðjunni, skulu flokkaðir í samræmi við 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981.
    Í greininni kemur einnig fram að eigendurnir skuli vera undanþegnir eignarskatti, og félagið iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi. Þá er kveðið á um að félagið megi skrá viðskipti sín í Bandaríkjadölum. Þá er einnig kveðið á um að til útreiknings á skattskyldum hagnaði félagsins og eigendanna skuli umbreyta fjárhæðum á fjárhagsyfirlitum úr Bandaríkjadölum í íslenskar krónur í samræmi við tilteknar reglur.
    Í greininni er loks kveðið á um að 5% fjármagnstekjuskattur skuli lagður á arðgreiðslur til allra hluthafa í stofnendunum sem eru staðsettir í OECD-ríki. Þá er kveðið á um að heimildir til frádráttar fjármagnsgjalda, svo sem þær eru við undirritun samningsins, skuli haldast óbreytt á gildistíma hans.

Grein 9.
    Í 9. gr. er fjallað um fasteignaskatta sveitarfélaga og gatnagerðargjöld. Í greininni er kveðið á um að félagið skuli greiða 1% fasteignaskatt til sveitarfélagsins af öllum byggingum, aðstöðu og mannvirkjum, sem félagið á eða leigir og taldar eru tæmandi upp í viðauka B við samninginn. Í greininni er kveðið á um að álagningarstofn fasteignaskattsins skuli vera 250 milljónir dollara vegna mannvirkja á verksmiðjulóðinni og 5 milljónir dollara á hafnarsvæðinu. Þessar fjárhæðir skulu umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalkaupgengi Seðlabanka Íslands á dollar fyrir fyrstu 6 mánuði þess árs þegar umsamin afhending rafmagns á sér stað. Ef meðalgengið frá desember 2002 til júlí 2007 er hins vegar meira en 5% hærra skulu aðilarnir ræða réttláta lausn á þessum mun. Fasteignaskatturinn er lagður á 1. janúar á hvert miðað við breytingar á byggingarvísitölu.
    Enn fremur er kveðið á um að félagið skuli hvorki greiða gatnagerðargjöld samkvæmt lögum nr. 17/1996 til sveitarfélagsins né aðra skatta, gjöld eða þóknun sem kunna að verða lögð á í stað þeirra.

Grein 10.
    Í 10. gr. samningsins er fjallað um útgáfu byggingarleyfis og byggingarleyfisgjald. Þar kemur fram að sveitarfélagið muni gefa út byggingarleyfi til byggingar álverksmiðjunnar og nauðsynlegra mannvirkja í samræmi við byggingarreglugerð. Þá er kveðið á um að félagið greiði 400.000 dollara í byggingarleyfisgjald vegna útgáfu byggingarleyfis fyrir álverksmiðju með framleiðslugetu er nemur allt að 322.000 tonnum.

Grein 11.
    Í 11. gr. samningsins er fjallað um gjöld á innflutning og útflutning. Þar segir að innflutningur eða kaup innan lands á byggingarefnum, vélum, tækjabúnaði, hráefni o.fl. vegna byggingar og framleiðslu í álverksmiðjunni sé undanþeginn tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987.
    Í greininni kemur einnig fram að félaginu verði veittur frestur samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, á greiðslu virðisaukaskatts þar til endurgreiðsla hvers uppgjörstímabils er gjaldfallin.

Grein 12.
    Í 12. gr. er fjallað um aðra skatta og gjöld. Í greininni er kveðið á um að stimpilgjöld af kaup- eða leigusamningum sem útgefnir eru eða gerðir af hálfu félagsins eða eigendunum og af fjárfestingarlánum sem félagið kann að taka í sambandi við byggingu og rekstur álverksmiðjunnar skuli vera 0,15%. Einnig er kveðið á um að öll skjöl í sambandi við endurfjármögnun félagsins sem og hlutabréf í félögum eigendanna skuli undanþegin stimpilgjöldum.
    Þá er kveðið á um að félagið skuli greiða 150.000 dollara í skipulagsgjald fyrir álverksmiðju með framleiðslugetu er nemur allt að 322.000 tonnum. Loks segir að félagið skuli ekki greiða sérstaka rafmagnsskatta og gjöld meðan slík gjöld eða skattar hafa ekki almennt verið á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. álfyrirtæki.

Grein 13.
    Í 13. gr. er fjallað um reikningsskilareglur. Þar kemur fram að við gerð fjárhagsyfirlita í Bandaríkjadölum skuli beita þeim reikningsskilareglum sem gefnar eru út af alþjóðlegu endurskoðunarnefndinni (International Accounting Committee), enda séu þær ekki í andstöðu við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur segir að félaginu sé heimilt að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í Bandaríkjadölum, svo sem áður greinir.

Grein 14.
    Í 14. gr. er fjallað um endurskoðun skattfyrirkomulags. Í greininni er kveðið á um að á samningstímabilinu geti félagið og eigendurnir valið að íslensk skattalög skuli gilda. Slík beiðni þarf að vera skrifleg og verður að vera komin fram fyrir 1. júní, ári áður en slíkar breytingar eiga að koma til framkvæmda.

Grein 15.
    Í 15. gr. er fjallað um þjónustu sveitarfélagsins. Þar segir að sveitarfélagið veiti félaginu enga þjónustu nema um slíkt sé sérstaklega samið.

Grein 16.
    Í 16. gr. er fjallað um lagalega stöðu samninganna. Þar er m.a. kveðið á um að samningurinn skuli birtur í heild sinni á íslensku og ensku í B-deild Stjórnartíðinda, en tekið fram að samningurinn öðlist gildi samkvæmt ákvæðum sínum óháð birtingunni. Tekið er fram að samningurinn öðlist ekki gildi fyrr en starfsleyfi fyrir verksmiðjuna hefur verið gefið út.

Grein 17.
    Í 17. gr. er fjallað um ábyrgðir ríkisstjórnarinnar. Þar segir að ríkisstjórnin skuli gera allt sem nauðsynlegt er til að tryggja að eigendurnir og félagið njóti allra þeirra réttinda og hlunninda sem þeim eru veitt samkvæmt samningnum og að ekkert verði gert sem takmarki eða á annan hátt hafi óhagstæð áhrif á framkvæmd verkefnisins, rekstur félagsins eða stofnandans.
    Í greininni er enn fremur kveðið á um að ríkisstjórnin ábyrgist efndir og skyldur sveitarfélagsins og hafnarsjóðs, eða hlutafélags í meirihlutaeigu sveitarfélagsins, í samræmi við ákvæði þar að lútandi í hafnarsamningnum. Þá ábyrgjast eigendurnir efndir og skyldur félagsins samkvæmt samningnum í tengslum við byggingu og rekstur verksmiðjunnar.
    Í greininni er kveðið á um að Alcoa Inc. viðurkenni og staðfesti skuldbindingar dótturfyrirtækja sinna, félagsins og eigendanna, án þess þó að ábyrgjast fjárhagsskuldbindingar þessara aðila.

Grein 18.
    Í 18. gr. er fjallað um lög þau sem farið skal eftir og lausn deilumála. Þar segir að með samninginn skuli farið að íslenskum lögum, nema kveðið sé á um annað í samningnum.
    Í greininni segir að sérhvern ágreining skuli aðeins bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðilanna kjósi að vísa máli til gerðardóms.
    Þrátt fyrir ofangreint getur hvor aðilinn sem er vísað máli til gerðardóms sem leysir úr því á grundvelli gerðardómsreglna „Arbitration Institute of the Stockholm Chamber of Commerce“ eins og þær eru þegar samningur þessi er undirritaður. Gerðardómur skal skipaður þremur dómendum, einum tilnefndum af sækjanda, öðrum af varnaraðila og einum tilnefndum af aðilunum sameiginlega, en hann skal gegna stöðu formanns. Ef annar hvor aðilinn neitar að tilnefna dómendur skal hinn aðilinn leita til héraðsdóms Reykjavíkur sem tilnefnir gerðardómsmann. Ef þessir tveir gerðardómsmenn geta ekki komið sér saman um þriðja gerðardómsmanninn skal hann einnig tilnefndur af héraðsdómi Reykjavíkur. Hann skal hvorki vera af sama þjóðerni og samningsaðilar né heldur sama þjóðernis og eigendur í félaginu nema aðilar samþykki annað. Dómendur skulu uppfylla skilyrði í 6. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Gerðardómsmálið skal fara fram í Reykjavík en tungumál gerðardómsins er enska.
    Enn fremur segir að aðilarnir skuldbindi sig til að hlíta niðurstöðum gerðardóms án tafar og afsali sér rétti til hvers konar áfrýjunar að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað. Aðilarnir eru sammála um að niðurstöður gerðardóms skuli vera endanlegar og bindandi.

Grein 19.
    Í 19. gr. er fjallað um óviðráðanleg öfl og áhrif þeirra á ábyrgð aðila vegna vanefnda af völdum slíkra atvika. Er þar kveðið á um hvers konar atvik teljist til óviðráðanlegra atvika.
    Enn fremur er kveðið á um að sá sem heldur því fram að brest á efndum megi rekja til slíkra atvika hafi sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu.
    Loks er kveðið á um að gildistími samningsins skuli lengjast um þann tíma sem samsvarar töf vegna óviðráðanlegra afla.

Grein 20.
    Í 20. gr. er fjallað um samningstíma og framlengingu samningsins. Þar segir að 7.–15. gr. samningsins skuli frá umsömdum afhendingardegi rafmagns, teljast hafa verið í gildi frá stofnun félagsins og eigendanna. Aðrar greinar samningsins teljast hafa gildi frá undirritun.
    Enn fremur segir að ef samningurinn taki gildi skuli hann gilda til 20 ára frá umsömdum afhendingardegi rafmagns og falli þá úr gildi eða framlengist. Þá segir í greininni að hvenær sem er þar til einu ári fyrir lok gildistímans geti félagið og eigendurnir, ef rafmagnssamningurinn er í gildi, framlengt samninginn um 20 ár með sömu skilmálum, nema aðilar verði sammála um breytingar.
    Loks segir í greininni að ef rafmagnssamningnum er af einhverjum ástæðum rift á samningstímabili samningsins skuli félagið hafa möguleika á að segja fjárfestingarsamningnum upp með skriflegri tilkynningu þar um til gagnaðila.

Grein 21.
    Í 21. gr. er fjallað um viðurkennda texta samningsins. Samningurinn er bæði á ensku og íslensku og hafa báðir jafnt gildi. Þó er tekið fram að ef ósamræmis eða árekstra gæti milli textanna skuli enski textinn gilda.

Grein 22.
    Í 22. gr. er fjallað um framsal réttinda. Þar kemur fram að hvers konar framsal réttinda og skyldna allra aðila samkvæmt samningnum sé háð samþykki aðilanna. Samþykkja skal framsal án ástæðulauss dráttar.
    Í greininni er og kveðið á um að þrátt fyrir ofangreint og ef rafmagnssamningurinn er framseldur skuli félaginu og eigendunum heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningnum án samþykkis ríkisstjórnarinnar til eftirtalinna aðila: a) dótturfélaga Alcoa sem eru skattskyldir aðilar og staðsettir á Íslandi, b) fjármögnunaraðila sem tryggingu vegna fjármögnunar á verkinu, og c) Landsvirkjunar sem tryggingu fyrir skuldbindingum samkvæmt rafmagnssamningnum. Ef gengið er að tryggingu samkvæmt b- eða c-lið er ríkisstjórninni skylt að samþykkja framsal réttinda félagsins og eigendanna til hvaða lögaðila sem er sem staðsettur er á Íslandi og öðlast réttindi félagsins.
    Loks er í greininni kveðið á um að ef óskað er skuli aðilarnir gera beina samninga sín á milli, þar sem staðfestur er réttur aðila samkvæmt samningnum m.a. til framsals á samningnum.

Grein 23.
    Í 23. gr. er fjallað um breytingar og endurskoðun samningsins. Þar kemur fram að aðeins sé heimilt að breyta samningnum með skriflegum viðaukasamningi.
    Einnig er þar að finna ákvæði um gagnkvæma sanngirni samningsaðila við framkvæmd samningsins og breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar á honum vegna breyttra aðstæðna. Samningsaðilar geta þó beitt þessu ákvæði fyrir 1. júlí 2015 og ekki oftar en einu sinni á samningstímabilinu. Ef til framlengingar samningsins kemur er kveðið á um að beita megi ákvæðinu tvisvar sinnum á framlengingartímanum.
    Í greininni er loks kveðið á um að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 gildi ekki í viðskiptum aðilanna.

Grein 24.
    Í 24. gr. er fjallað um tilkynningar vegna samningsins. Í greininni er að finna ákvæði um með hvaða hætti tilkynningar skuli sendar og hvert beri að senda tilkynningar til einstakra aðila samningsins.

Grein 25.
    Í 25. gr. er fjallað um fjölda samningseintaka, lögfræðiálit aðila og tilkynningu ríkisstjórnarinnar til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Viðaukar.
    Samningnum fylgja þrír viðaukar, þ.e. viðauki um reglur um viðskipti óskyldra aðila (A, viðauki um sundurliðun á varanlegum rekstrarfjármunum og fyrningartafla (B) og viðauki um lýsingu mannvirkja (C). Fylgiskjal III.


Lýsing á drögum að lóðarsamningi milli
fjármálaráðherra og Fjarðaáls sf.

(Drög dags. 20. desember 2002.)


1. Inngangur.
    Einn þeirra samninga sem gera verður vegna verkefnisins er lóðarsamningur vegna lands undir væntanlega álverksmiðju. Aðilar lóðarsamningsins eru ríkissjóður Íslands og Fjarðaál sf. (hér eftir nefnt félagið).
    Samningurinn er 11 greinar og fer hér á eftir fer stutt lýsing á einstökum greinum samningsins til útskýringa á efni hans, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringagagn á efni samningsins. Til hægðarauka er látið nægja að vísa í lýsingu á drögum að fjárfestingarsamningi þegar um sameiginleg ákvæði er að ræða.

2. Lýsing á einstökum atriðum lóðarsamningsins.
Inngangur.

    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda, aðila samningsins, verkefnið og landið.

Grein 1.
    Í 1. gr. eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er kveðið á um leigu á lóð. Í greininni kemur m.a. fram að ríkissjóður samþykki að leigja félaginu annars vegar 87,954 hektara landrými í landi jarðanna Sómastaða, Sómastaðagerðis og Hrauns í Reyðarfirði og hins vegar 10,182 hektara viðbótarlandrými við Flateyri í Reyðarfirði undir álverksmiðjuna.
    Þá kemur einnig fram í greininni að lóðin sé leigð af ríkissjóði, sem ábyrgist að eiga landið, að það sé fallið til þeirra nota sem því eru ætluð og að það sé ekki háð neinum takmörkunum eða kvöðum.
    Í greininni segir að lóðin verði afhent félaginu án allra kvaða eða veðbanda og í því ástandi sem það var þegar það var selt ríkissjóði. Í greininni er kveðið á um að félagið taki að sér allan nauðsynlegan undirbúning á lóðinni.
    Í greininni er einnig kveðið á um lagalegar skyldur félagsins og rétt þess til að fjarlægja allar byggingar og mannvirki af hinu leigða landi án ábyrgðar félagsins gagnvart ríkissjóði, svo framarlega sem slíkt samrýmist starfsleyfi.
    Félagið tekur við vörslum leigulóðarinnar við undirritun samningsins og heldur þeim og afnotum af henni meðan lóðarsamningurinn er í gildi. Einnig kemur fram í greininni hver afnot félaginu skuli heimilt að hafa af lóðinni, en þau eru m.a. að nýta lóðina til byggingar og reksturs verksmiðju félagsins og önnur mannvirki er tengjast henni, þ.m.t. að fjarlægja jarðveg, urðun úrgangs í samræmi við starfsleyfi o.fl.
    Í greininni segir enn fremur að félagið skuli á eigin kostnað sjá um að halda lóðinni og öllum endurbótum, sem á henni verða gerðar, í góðu ástandi og í samræmi við starfsleyfi, auk viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða, meðan á leigutíma stendur.
    Í greininni er að finna ákvæði um rétt félagsins til að færa út starfsemi sína á lóðinni, að fengnum tilskildum leyfum.
    Þá er einnig fjallað um leigugreiðslur. Þar kemur fram að félagið skuli árlega greiða ríkissjóði 25.000 Bandaríkjadali. Leigugjald skal samkvæmt greininni reiknast frá umsömdum afhendingardegi rafmagns (Permanent Delivery Date), en leigugjaldið skal greitt 3. janúar ár hvert.
    Í greininni er auk þessa kveðið á um forkaupsrétt félagsins á leigulóðinni. Undantekningu er þó að finna varðandi hugsanlega sölu til sveitarstjórnar Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar.
    Í greininni er kveðið á um að meðan á byggingu hafnarinnar stendur og að fengnu samþykki félagsins hafi hafnarsjóður rétt til að taka allt að 65.000 m 2 af jarðefni í landfyllingu vegna byggingar hafnarinnar án endurgjalds.
    Í greininni er vikið að ábyrgð ríkissjóðs gagnvart hugsanlegum kröfum á hendur félaginu. Í greininni segir að ríkissjóður skuli ábyrgjast allar kröfur sem kunna að rísa á hendur félaginu í tengslum við verksmiðjulóðina, hvort sem þær eru til staðar fyrir eða eftir undirritun samningsins, vegna þess sem gert er eða reynt að gera fyrir undirritun og hefur á einhvern hátt áhrif á lóðina.
    Þá er einnig vikið að ábyrgð félagsins gagnvart ríkissjóði. Þar segir að félagið skuli ábyrgjast allar kröfur sem kunna að rísa á hendur ríkissjóði í tengslum við vanrækslu félagsins á að viðhalda verksmiðjulóðinni í samræmi við ákvæði starfsleyfis og/eða önnur svipuð leyfi sem kunna að verða veitt til viðbótar eða í staðinn fyrir starfsleyfið.
    Þá er kveðið á um að félagið skuli hafa forkaupsrétt ef ríkissjóður hyggst selja eða leigja land það sem er utan hafnarsvæðisins og hafnarlandsins sem liggur að lóð félagsins. Svæðið er 338,4 hektarar. Loks er kveðið á um að innan svæðisins sé ýmis landnýting háð samþykki félagsins og ríkissjóðs.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um uppsögn samningsins. Þar er kveðið á um að við lok gildistíma eða ef samningnum er sagt upp af ástæðum sem rekja má til félagsins skuli félagið fjarlægja verksmiðjuna og öll önnur tengd mannvirki og skila lóðinni til ríkissjóðs án þess að greiðsla komi fyrir frá ríkissjóði. Þá skal félagið tryggja að allur hættulegur úrgangsefni á yfirborði lóðarinnar séu fjarlægð að undanskildum úrgangsefnum úr landfyllingum og flæðigryfjum innan lóðarinnar svo lengi sem slík losun hefur verið í samræmi við ákvæði starfsleyfis.
    Loks er í greininni kveðið á um að ef samningnum er sagt upp áður en verksmiðjan hefur rekstur skuli ríkissjóður reyna að leigja lóðina að öllu leyti eða að hluta. Ef tekst að leigja lóðina út innan fimm ára frá uppsögn samningsins skulu aðilarnir í góðri trú reyna að ná samkomulagi um að endurgreiða félaginu útlagðan kostnað við undirbúning lóðarinnar.

Greinar 4 og 5.
    Hvað varðar 4. gr. (lög sem farið skal eftir og lausn deilumála) og 5. gr. (um óviðráðanleg öfl) vísast til lýsingar á 18. og 19. gr. í fjárfestingarsamningi sem eru efnislega samhljóða.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um samningstímann. Samkvæmt greininni öðlast samningurinn gildi við undirskrift aðilanna og heldur gildi í tuttugu ár frá umsömdum afhendingardegi rafmagns. Í greininni er skilyrði gildistöku að rafmagnssamningur félagsins og Landsvirkjunar hafi tekið gildi, nema skriflegt samkomulag sé milli ríkissjóðs og félagsins um annað. Ef rafmagnssamningnum er sagt upp fyrir lok gildistíma lóðarsamningsins getur félagið sagt lóðarsamningnum upp. Þá er einnig kveðið á um rétt félagsins til að framlengja samninginn um 20 ár. Slíkar framlengingar lúta sömu skilyrðum og ákvæðum og gilda um upprunalega samningstímann, nema að leiga skal ákveðin í samræmi við eftirfarandi jöfnu:

Ri = 25.000 x (avLME i-10)
1.500

þar sem

    Ri = leigan í Bandaríkjadölum á ári „i“,
    avLMEi-10 = meðalverð fyrir eitt tonn af hrááli í Bandaríkjadölum með lágmarkshreinleika upp á 99,7 prósent og þriggja mánaða afhendingarfresti, eins og það er uppgefið af Metal Bulletin fyrir 10 ára tímabil á undan árinu „i“.
    Í greininni er kveðið á um að ef bygging álverksmiðjunnar hefst ekki innan fimm ára frá undirritun samningsins eða ef bygging eða rekstur hefur verið stöðvaður í meira en þrjú ár þá skuli aðilarnir koma saman og semja um framhald og áhrif á samninginn. Ef samningar nást ekki innan eins árs eftir að samningaviðræður hófust og bygging er ekki hafin í millitíðinni þá hefur ríkissjóður rétt á að rifta samningnum sem skriflegri tilkynningu þar um. Slík tilkynning tekur gildi einu ári eftir móttöku hennar, en fellur úr gildi ef Fjarðaál sf. hefur byggingu eða rekstur að nýju á þeim tíma.
    Loks er í greininni kveðið á um að ef Fjarðaál sf. vanefndir skyldur sínar samkvæmt samningnum þá sé ríkissjóði heimilt að rifta samningnum með skriflegri tilkynningu þar um. Slík tilkynning tekur gildi einu ári eftir móttöku hennar, en fellur úr gildi ef Fjarðaál sf. hefur byggingu eða rekstur að nýju á þeim tíma.

Greinar 7–11.
    Hvað varðar 7. gr. (um viðurkennda texta), 8. gr. (framsal), 9. gr. (breytingar og endurskoðun samningsins), 10. gr. (tilkynningar) og 11. gr. (ýmis ákvæði) vísast til umfjöllunar um 21., 22., 23., 24. og 25. gr. fjárfestingarsamningsins sem eru efnislega samhljóða þessum greinum.
    Eigendur félagsins árita samninginn og ábyrgjast efndir og skyldur félagsins.

Viðaukar.
    Samningnum fylgja þrír viðaukar, þ.e. verksmiðjulóðarkort (A), lóðarkort (B), og jarðaafsöl (C).
Fylgiskjal IV.


Lýsing á drögum að hafnarsamningi milli
hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og Fjarðaáls sf.

(Drög dags. 20. desember 2002.)


1. Inngangur.
    Vegna verkefnisins þarf að byggja höfn og hafnaraðstöðu í Reyðarfirði. Sá samningur verður á milli hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og Fjarðaáls sf. (hér eftir nefnt félagið).
    Samningsdrögin eru 17 greinar og fer hér á eftir fer stutt lýsing á einstökum greinum hafnarsamningsins til útskýringa á efni samningsins, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringagagn á efni hans. Til hægðarauka er látið nægja að vísa í lýsingu á drögum að fjárfestingarsamningi þegar um sameiginleg ákvæði er að ræða.

2. Lýsing á einstökum ákvæðum.
Inngangur.

    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda, aðila samnings og hafnarframkvæmdina.

Grein 1.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er fjallað um byggingu hafnarinnar og hafnarmannvirkja. Í greininni er kveðið á um að hafnarsjóður taki að sér að byggja, eiga, stjórna, reka og viðhalda höfninni í þeim megintilgangi að þjónusta álverksmiðjuna. Hafnarsjóður skal sjá um allar rannsóknir, hönnun o.fl. í tengslum við höfnina og mögulegar síðari stækkanir hennar. Þá er kveðið á um að hafnarsjóður skuli afla sér lands og nauðsynlegra réttinda vegna byggingar og reksturs hafnarinnar og byggja höfnina á eigin kostnað.
    Í greininni er skilgreint hvað teljist til hafnarmannvirkja en þau eru öll mannvirki sem venjulega er að finna í höfnum. Í greininni er kveðið á um að höfninni sé ekki skylt að veita sérstaka meðhöndlun eða þjónustu að öðru leyti en því sem kveðið er á um í samningnum. Þá er og kveðið á um að hafnarsjóður skuli á eigin kostnað viðhalda höfninni og hafnarmannvirkjum í upprunalegu horfi og tryggja að höfnin sé í góðu ásigkomulagi. Kveðið er á um rétt félagsins til að gera athugasemdir við viðhald mannvirkja og gera úrbætur á kostnað hafnarsjóðs ef sjóðurinn verður ekki við athugasemdum þeirra. Þá er enn fremur kveðið á um skyldur hafnarsjóðs, vegna tjóns eða eyðileggingar sem kann að verða á höfninni eða hafnarmannvirkjum.
    Loks er í greininni kveðið á um að á byggingartíma hafnarinnar skuli hafnarsjóður eiga rétt á taka allt að 65.000 m2 af jarðefni til landfyllingar úr leigulóðinni án endurgjalds. Vegna þessa skal lóðarundirbúningur hefjast eigi síðar en 1. september 2004.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um búnað, sem félagið kann að þurfa að setja upp vegna starfsemi sinnar, notkun á honum og fjármögnun. Í greininni er kveðið á um að félagið hafi heimild til að setja upp á hafnarsvæðinu og starfrækja á eigin kostnað búnað, eins og tilgreint er í viðauka C (um hafnarbúnaðinn), en félagið hafi einnig fullt eignarhald á hafnarbúnaði sínum og sé heimilt að fjarlægja hann hvenær sem er. Þegar gildistími samningsins er runninn út eða samningnum sagt upp skal félagið fjarlægja hafnarmannvirki sín í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfis, eða eignarráð slíkra mannvirkja flytjast yfir til hafnarsjóðsins enda samþykki hafnarsjóðurinn það.
    Í greininni er kveðið á um heimild hafnarsjóðs til að nota krana þá, sem félagið setur upp, í þágu annarra notenda hafnarinnar, með samþykki félagsins enda komi greiðsla fyrir.
    Í greininni segir að félagið skuli leigja hluta lands innan hafnarlandsins og hafa rétt á að byggja vöruhús eða svipaða byggingu á lóðinni.

Grein 4.
    Í 4. gr. er fjallað um byggingu hafnarinnar. Í greininni er kveðið á um að hafnarsjóður skuli byggja höfnina í samræmi við byggingaráætlun í viðauka B.
    Í greininni segir m.a. að hafnarsjóður skuli upplýsa félagið um framgang framkvæmda og mánaðarlega leggja framvinduskýrslu fyrir félagið. Ef framvinda verksins er ekki í samræmi við áætlunina skulu hafnarsjóður og félagið koma sér saman um aðgerðir til úrbóta. Félagið skal hafa aðgang að hafnarsvæðinu í þeim tilgangi að meta framgang framkvæmda. Félagið skal upplýsa hafnarsjóð um breytingar á fyrirkomulagi hafnarmannvirkja að svo miklu leyti sem slíkar breytingar hafa áhrif á hafnaráætlunina.

Grein 5.
    Í 5. gr. er fjallað um afnot félagsins af höfn og hafnarmannvirkjum. Í greininni er kveðið á um að félagið og fulltrúar þess skuli hafa fullan aðgang og afnot af höfninni og hafnarmannvirkjum hvenær sem er, m.a. vegna losunar og lestunar og geymslu efna, tækja og vara vegna byggingar og reksturs álversins.
    Í greininni er kveðið á um forgang félagsins að höfninni og skyldu annarra til að víkja frá að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í tengslum við þetta skulu hafnarsjóður og félagið koma á samskiptum sín á milli til að koma á framfæri upplýsingum vegna reksturs hafnarinnar.
    Þá er og kveðið á um að félagið skuldbindi sig til þess að nota höfnina til alls venjulegs innflutnings á helstu hráefnum til álverksmiðjunni og til alls útflutnings á áli sem framleitt er í álverksmiðjunni. Félaginu er hins vegar heimilt að nýta önnur mannvirki hafnarsjóðsins til inn- og útflutnings þegar notkun hafnarinnar er ekki möguleg.
    Í greininni er jafnframt kveðið á um að félagið skuli gæta almennra reglna um öryggi og góða reglu í afnotum sínum af höfninni.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um skipulag og rekstur hafnarinnar. Samkvæmt greininni er höfnin og hafnarmannvirki í eigu og umsjón hafnarsjóðsins. Höfnin er rekin sem almenn höfn í samræmi við hafnalög. Í greininni kemur einnig fram að stjórnun og rekstur hafnarinnar er í höndum hafnarstjórnar, fyrir hönd og á ábyrgð hafnarsjóðsins. Hafnarstjóri sér um daglegan rekstur hafnarinnar fyrir hönd hafnarstjórnar.
    Í greininni er kveðið á um að rekstur hafnarinnar af hálfu hafnarsjóðs nái hvorki til lestunar og losunar skipa í þágu félagsins, né reksturs eða viðhalds á búnaði sem félagið reisir á eigin ábyrgð.
    Í greininni er kveðið á um að félagið skuli leggja til starfsfólk sem sjái um afgreiðslu skipa sem til hafnarinnar koma á vegum félagsins auk þess að útvega vatn til slíkra skipa. Hafnarsjóður getur óskað slíkrar þjónustu af hálfu félagsins vegna annarra skipa gegn sanngjarnri greiðslu.
    Í greininni er að endingu kveðið á um að komið skuli á fót sérstakri samráðsnefnd fjögurra manna og tilnefna samningsaðilar tvo menn hvor. Tilgangur nefndarinnar er að skapa vettvang fyrir regluleg samskipti milli aðilanna um málefni sem snerta þá.

Grein 7.
    Í 7. gr. er fjallað um hafnagjöld. Þar kemur fram að hafnagjöld (skipagjöld og vörugjöld) vegna nota félagsins af höfninni skuli ákveðin í samræmi við hafnagjaldskrána og þessa grein og skulu ekki vera hærri en meðaltal hafnargjalda sem lögð eru á í öðrum höfnum á Íslandi. Samkvæmt greininni skulu skipagjöld vegna skipa á vegum félagsins vera sambærileg við það sem tíðkast í öðrum höfnum á Íslandi. Þá er í greininni kveðið á um fjárhæð vörugjalda, sem byggja á tilteknum afslætti frá gildandi hafnagjaldskrá, svo og meðferð 25% viðbótarskatts á vörugjöld.
    Í greininni segir að aðilum sé ljóst að breytingar kunni að verða á hafnalögum í náinni framtíð. Ef breytingar verða gerðar á hafnalögum á gildistíma samningsins sem hafa í för með sér að hafnagjaldskrá verður lögð niður þá skuli síðasta gjaldskrá gilda þó þannig að miðað verði við breytingar á byggingarvísitölu eftir það.

Grein 8.
    Í 8. gr. samningsins er fjallað um stækkun hafnarinnar. Í greininni segir að hafnarsjóði sé heimilt að gera áætlanir um stækkun hafnarinnar og sé heimilt að hrinda þeim áætlunum í framkvæmd þegar ástæða þykir til. Félagið getur sömuleiðis óskað eftir stækkun hafnarinnar og framkvæmdir hafnarsjóður stækkunina á kostnað félagsins. Slíkar framkvæmdir skulu ekki hafa í för með sér truflun á hefðbundinn rekstur hafnarinnar og skal félaginu tilkynnt um allar slíkar fyrirætlanir.
    Í greininni er kveðið á um að hafnarmannvirkjum skuli ekki breytt nema með samþykkis hafnarsjóðs og félagsins. Þá er loks kveðið á um að forgangsréttur félagsins skuli ekki eiga við um stækkun hafnarinnar sem framkvæmd er vegna annarra notenda, en slík notkun annarra aðila á höfninni skal ekki hafa áhrif á notkun félagsins á höfninni.

Grein 9.
    Í 9. gr. er kveðið á um önnur réttindi félagsins. Félaginu skal heimilt að setja upp öll nauðsynleg mannvirki og útbúnað á hafnarsvæðinu og höfninni vegna reksturs verksmiðjunnar, að fengnu samþykki hafnarsjóðs fyrir tegund og legu slíks útbúnaðar. Félaginu skal heimilt að taka vatn úr sjó og flytja lóðarinnar. Í þessum tilgangi er félaginu heimilt að setja upp dælur. Þá skal félaginu heimilt að losa skólp og vatn í samræmi við lög, reglugerðir og starfsleyfi. Félaginu er heimilt að nýta sér þennan rétt án greiðslu, en allur kostnaður fellur þó á félagið. Þá er félaginu og verktökum á þess vegum heimilt að nýta hafnarsvæðið til bráðabirgða án greiðslu.
    Félagið hefur forkaupsrétt að höfninni ef hafnarsjóður hyggst selja hana eða hafnarlandið. Þá er ýmis landnotkun á hafnarlandinu háð samþykki félagsins og hafnarsjóðs.

Grein 10–17.
    Hvað varðar lýsingu á 10. gr. (gildandi lög og ágreiningur), 11. gr. (um óviðráðanleg öfl), 12. gr. (gildistíma), 13. gr. (viðurkennda texta), 14. gr. (framsal), 15. gr. (breytingar og endurskoðun), 16. gr. (tilkynningar) og 17. gr. (ýmis ákvæði) vísast til lýsingar á sambærilegum ákvæðum í 18., 19., 20., 21., 22., 23., 24. og 25. gr. í fjárfestingarsamningi sem eru efnislega samhljóða þessum greinum.
    Eigendur félagsins árita samninginn og ábyrgjast efndir og skyldur félagsins. Íslenska ríkið áritar jafnframt samninginn og ábyrgist skuldbindingar hafnarsjóðs Fjarðabyggðar á byggingartíma hafnarinnar.

Viðaukar.
    Hafnarsamningnum skulu fylgja fimm viðaukar, verksmiðjulóðarkort (A), hafnaráætlun (B), hafnarbúnaðurinn (C), hafnarlóðarsamningur (D) og lóðarkort (E).

Fylgiskjal V.


Landsvirkjun:

Greinargerð forstjóra Landsvirkjunar um fyrirhugaðan rafmagnssamning
Landsvirkjunar og dótturfélags Alcoa Inc.


    Með lögum nr. 38/2002, um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, var Landsvirkjun veitt heimild til að reisa og reka svonefnda Kárahnjúkavirkjun með allt að 750 MW afli í þágu stóriðjuframkvæmda á Austurlandi. Var þá fyrst og fremst átt við álverksmiðju á Reyðarfirði, sem áform hafa verið uppi um að reisa á næstu árum. Þess var vænst, þegar frumvarp til laganna var lagt fyrir Alþingi, að félögin Hæfi hf. og Hydro Aluminium a.s. í Osló myndu í sameiningu ráðast í það verkefni, en í marsmánuði 2002 urðu slit á viðræðum þeirra við íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun um framkvæmd verkefnisins, þar sem félögin óskuðu að slá henni á frest um óákveðinn tíma.
    Í apríl 2002 voru síðan teknar upp viðræður við álfyrirtækið Alcoa Inc. í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum um möguleika á því að komið yrði á fót sambærilegri álverksmiðju að Mjóeyri við Reyðarfjörð, sem dótturfélag þess hér á landi myndi reisa og reka. Leiddu athuganir aðila til þess, að teknar voru upp viðræður á miðju sumri milli Landsvirkjunar annars vegar og Alcoa fyrir sína hönd og dótturfélagsins hins vegar um afhendingu á raforku frá Kárahnjúkavirkjun til þessarar verksmiðju, samhliða viðræðum Alcoa við fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Fjarðabyggðar um annan starfsgrundvöll verksmiðjunnar. Þær viðræður hafa nú verið leiddar til lykta á tilsettum tíma í öllum meginatriðum, þannig að samninganefndir Landsvirkjunar og Alcoa gátu hinn 20. desember sl. gengið frá drögum að rafmagnssamningi til langs tíma, sem unnt yrði að leggja fyrir stjórnir aðilanna til endanlegs samþykkis af hálfu hvors um sig.
    Samningur þessi lýtur að sölu á rafmagni til álvers í Reyðarfirði með árlegri afkastagetu sem svarar um 322.000 tonnum af frumbræddu áli, og stenst sú verksmiðjustærð vel á við afkastagetu Kárahnjúkavirkjunar að afli og orku, eins og hún hefur verið áætluð að undirstöðu til. Samningurinn verður gerður milli Landsvirkjunar og Fjarðaáls sf., óstofnaðs sameignarfélags tveggja innlendra hlutafélaga innan vébanda Alcoa Inc. Verður Fjarðaál eigandi og rekstraraðili að hinni fyrirhuguðu álverksmiðju, en gagnvart Landsvirkjun tekur Alcoa Inc. ábyrgð á tilteknum meginskuldbindingum félagsins eins og nánar kveður á í samningnum.
    Jafnhliða samningsgerðinni hefur Landsvirkjun unnið að undirbúningi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun, með það fyrir augum að geta lokið þeim í öllu verulegu á árinu 2007, ef samningurinn hlýtur endanlega staðfestingu. Hefur Alcoa borið hluta af kostnaði við vegagerð og aðrar undirbúningsaðgerðir á virkjunarsvæðinu, sem hafist var handa um á liðnu sumri, og verður hann endurgreiddur fyrirtækinu, þegar rafmagnssamningurinn gengur í gildi. Útboð hefur farið fram á tveimur af meginþáttum sjálfra virkjunarframkvæmdanna, þ.e. byggingu Kárahnjúkastíflu og gerð aðrennslisganga, og voru tilboð opnuð 6. desember sl. Er nú unnið að mati á þeim og viðræðum við verktaka, sem unnt á að vera að leiða til lykta með gerð verksamninga í febrúar nk., þannig að vinna að þessum verkum geti hafist í marsmánuði.
    Virkjunarleyfi frá iðnaðarráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar var gefið út 2. september sl., og var um leið gengið frá samkomulagi um endurgreiðslu Landsvirkjunar á rannsóknarkostnaði á vegum ríkissjóðs í þágu virkjunarinnar. Í samræmi við ákvæði leyfisins hefur iðnaðarráðuneytið gefið út auglýsingu um virkjunina eftir ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923, og hefur framkomnum athugasemdum frá hagsmunaaðilum á virkjunarsvæðinu verið vísað til viðeigandi meðferðar af hálfu Landsvirkjunar.
    Hinn fyrirhugaði rafmagnssamningur við Fjarðaál hefur nú verið samþykktur af hálfu stjórnar Landsvirkjunar, á fundi hennar hinn 10. janúar 2003. Á sama tíma var heimild til að ráðast í álversverkefnið borin undir stjórn Alcoa Inc. á reglulegum fundi hennar í New York, í samræmi við hina sameiginlegu viljayfirlýsingu um samningsgrundvöll, sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Alcoa gáfu út hinn 19. júlí 2002. Jafnframt hefur Landsvirkjun leitað eftir samþykki eigenda hennar við áætlunum um fjármögnun virkjunarframkvæmdanna, í samræmi við ákvæði laga nr. 42/1983 um ábyrgð eigenda á skuldbindingum fyrirtækisins.
    Hér á eftir fer lýsing á meginatriðum hins fyrirhugaða rafmagnssamnings. Taka ber fram, að lýsingunni er ekki ætlað að vera sérstakt skýringargagn varðandi túlkun á efni hans.

Forsendur samningsins.
    Samningurinn er ætlaður fyrir álver í Reyðarfirði með um 322.000 tonna árlega afkastagetu, sem fyrr segir. Verður álverið byggt í einum áfanga, og er að því stefnt að starfræksla geti hafist innan ársins 2007. Samkvæmt því muni virkjunarframkvæmdir í þágu samningsins hefjast af fullum þunga vorið 2003, en framkvæmdir við byggingu álversins fylgja í kjölfarið innan ársins 2004.
    Við það er miðað, að raforka til álversins komi fyrst og fremst frá Kárahnjúkavirkjun, sem einnig verði byggð í einum áfanga að meðtalinni Fljótsdalsveitu. Verður raforkan flutt að verksmiðjulóðinni eftir tveimur háspennulínum frá stöðvarhúsi virkjunarinnar undir Teigsbjargi í Fljótsdal. Virkjunin verður hluti af hinu samtengda raforkukerfi Landsvirkjunar og tengd öðrum orkuverum fyrirtækisins um meginflutningslínur milli þeirra, eins og þeim verður fyrir komið á hverjum tíma. Verður byggðalínan milli Kröfluvirkjunar og Hryggstekkjar í Skriðdal flutt til á stuttum kafla, þannig að tengingin verði við stöðvarhúsið í Fljótsdal. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri styrkingu á núverandi flutningskerfi um landið vegna rafmagnsafhendingar samkvæmt samningum, en flutningsgeta þess á Austurlandi svarar aðeins hluta af venjulegri orkunotkun álversins, þannig að tengingin við önnur orkuver verður fyrst og fremst til að mæta varaþörfum í báðar áttir. Hins vegar mun Landsvirkjun ábyrgjast, að rekstraröryggi gagnvart álverinu rýrni ekki á samningstímanum frá því sem nú má gera ráð fyrir.
    Samningurinn verður í svipuðu formi og fyrri samningar Landsvirkjunar um rafmagn til orkufreks iðnaðar, en tekur um leið mið af því, sem sérstakt má telja um stöðu álversins og virkjunarinnar. Á þetta m.a. við um samningstímann, sem ákveðinn er með tilliti til nauðsynjar þess að tryggja, að fjárfesting hvors aðila um sig skili sér í arðbærum rekstri um þann tíma, sem eðlilega þarf til miðað við umfang hennar, og til þeirra hagsmuna beggja aðila, sem gæta þarf vegna staðsetningar mannvirkjanna og aðstæðna að öðru leyti.

Rafmagnsafhending.
    Samningurinn kveður á um, hversu mikið rafmagn Landsvirkjun beri að hafa tiltækt á hverjum tíma handa álveri Fjarðaáls frá og með föstum afhendingardegi. Verður það aðallega á tryggðum grundvelli (forgangsafl og forgangsorka), en einnig á ótryggðum grundvelli (afgangsafl og afgangsorka). Er hlutfallið milli tryggðs og ótryggðs rafmagns (90:10) ákveðið svipað og í gildandi samningum Landsvirkjunar vegna álvera Alcan á Íslandi hf. – ÍSALs og Norðuráls hf. Nánar tiltekið verður þetta samningsbundna rafmagn sem hér segir:

Tryggt Ótryggt Samtals
Tiltækt afl (meðaltal á klst.) 483 MW 54 MW 537 MW
Orka á almanaksári 4.231 GWst 473 GWst 4.704 GWst

    Skilgreining rafmagns á ótryggðum grundvelli er efnislega hin sama og í samningum Landsvirkjunar við aðra kaupendur á sviði orkufreks iðnaðar, og felst í henni heimild til skerðingar á afli og orku innan tiltekinna ytri marka, ef um er að ræða vatnsskort við virkjanir Landsvirkjunar eða truflanir í hinu samtengda raforkukerfi. Til þess er ætlast, að slíkum skerðingum verði beitt án mismununar milli Fjarðaáls og hinna kaupendanna, að teknu tilliti til takmarkana á flutningsgetu í raforkukerfinu.
    Fyrirheitinu um tiltækt rafmagn fylgir bindandi skylda af hálfu Fjarðaáls til að kaupa eða greiða fyrir tiltekið orkumagn að lágmarki á almanaksári hverju, hvort sem það er nýtt eða ekki. Nemur þetta lágmark 3.998 GWst eða 85% af hinu samningsbundna rafmagni, og ber fyrirtækinu að standa skil á 1/ 12 þessa orkumagns fyrir hvern mánuð, en hin árlega skuldbinding er gerð upp eftir á samkvæmt meðaltali fyrir hver næstliðin tvö ár og samanburði við raunverulega notkun á sama tíma.
    Samkvæmt samningnum mun Alcoa Inc. ábyrgjast það með tilteknum hætti, að Fjarðaál standi við skuldbindingu sína um að taka við hinu umsamda lágmarksmagni eða greiða fullt verð fyrir það, og nær sú ábyrgð yfir allan samningstímann.
    Í samningnum er gert ráð fyrir, að Fjarðaál kunni að geta aukið við orkunotkun í álverinu umfram ofangreind mörk samningsbundins rafmagns vegna hagræðingar í rekstri, og muni þá Landsvirkjun taka til athugunar að verða við óskum félagsins um hækkun þessara marka, ef og eftir því sem tök séu á að hennar mati. Í samningnum verða einnig ákvæði um, hversu með skuli fara, ef svo ber undir á samningstímanum, að álverið hafi ekki not fyrir alla orku, sem skuldbinding Fjarðaáls um lágmarkskaup tekur til, en Landsvirkjun geti á sama tíma nýtt þá orku, sem ekki nýtist þrátt fyrir kaupskylduna, til ráðstöfunar í aðra þágu með viðeigandi hætti.
    Í samningnum eru enn fremur ákvæði um samráð milli aðila um rekstrarskilyrði fyrirtækja þeirra og rekstrarhorfur á hverjum tíma.

Upphaf afhendingar og bygging mannvirkja.
    Hinn fasti afhendingardagur rafmagns samkvæmt samningnum verður 1. október 2007, nema aðilar verði ásáttir um annað tímamark. Þó verður hvorum aðila heimilt að lýsa yfir frestun á afhendingardeginum um allt að 4 mánuði með tilkynningu til hins aðilans, er út sé gefin fyrir árslok 2004. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir frestun á deginum, nema byggingarframkvæmdir aðila verði fyrir töfum af völdum óviðráðanlegra afla (force majeure).
    Til þess er ætlast, að framkvæmdir við byggingu álversins og Kárahnjúkavirkjunar verði leiddar til lykta ekki síðar en á föstum afhendingardegi rafmagns, og á afhending á rafmagni til gangsetningar álversins í áföngum að geta hafist fimm mánuðum fyrir þann tíma.
    Í viðaukum við samninginn verður gerð grein fyrir meginþáttum framkvæmda við hvort mannvirki og áætlunum aðila um framvindu þeirra. Mun mega meta það sem ástæðu til riftunar á samningnum, ef ekki er þannig á haldið af hálfu annars hvors aðila, að framkvæmdum við mannvirki hans verði lokið innan tveggja ára eftir hinn tilsetta afhendingardag í síðasta lagi. Í viðaukunum verða einnig ákvæði um samráð og upplýsingaskipti milli aðila á byggingartímanum og gagnkvæmar heimildir til hliðrunar á framkvæmdum vegna tafa, er ekki verði hjá komist.
    Samkvæmt samningnum mun Alcoa Inc. ábyrgjast það með tilteknum hætti, að Fjarðaál standi við meginskyldu sína um að ljúka byggingu álversins.

Rafmagnsverð.
    Rafmagnssamningnum er ætlað að haldast í gildi um 40 ára rekstrartímabil frá hinum fasta afhendingardegi, eins og að neðan greinir. Þessi samningstími verði þó tvískiptur að því er til orkuverðs tekur, þannig að samningurinn kveði með beinum hætti á um verð á samningsbundnu rafmagni frá byrjun afhendingar og fyrir fyrstu 20 árin eftir afhendingardag. Þegar tvö ár séu eftir af því tímabili muni aðilar hins vegar taka upp samningsviðræður um endurskoðað orkuverð með hliðsjón af aðstæðum á þeim tíma, og skuli það gilda hin síðari 20 ár samningstímans.
    Samkvæmt ákvörðun Landsvirkjunar og samkomulagi um trúnað milli samningsaðila ber að fara með ákvæði samningsins um rafmagnsverð sem viðskiptaleyndarmál, enda er það ákveðið sjálfstætt eins og í öðrum samningum fyrirtækisins um orku til stóriðju. Er því ekki unnt að greina hér frá ákvæðum þessum í einstökum atriðum. Þó er rétt að taka fram, að hið umsamda orkuverð verður tiltekið sem einingarverð á hverja kílówattstund, sem afhent er eða fellur til greiðslu samkvæmt kaupskyldu, og ákvarðað mánaðarlega samkvæmt tengingu við alþjóðlegt markaðsverð á áli eftir umsaminni aðferð. Það verður og ákvarðað og greitt í Bandaríkjadollurum. Um afslátt fyrstu árin er ekki samið.
    Um tenginguna við álverð ber að taka fram, að Landsvirkjun hefur reynslu af þeirri verðlagningaraðferð frá öðrum samningum sínum, og hefur henni víða verið beitt annars staðar hin síðari ár. Af hálfu Landsvirkjunar er samkomulagið um orkuverð til álversins byggt á ítarlegum athugunum á verðþróun á heimsmarkaði fyrir ál og á orkukostnaði álverksmiðja víðsvegar um heim, sem fram hafa farið með ráðfærslu við viðurkennda óháða sérfræðinga á þessu sviði.
    Auk þess sem samningstímanum er skipt í tvö verðlagningartímabil verður í samningnum ákvæði þess efnis, að hvorum aðila um sig sé heimilt að óska eftir endurskoðun á hinu gildandi orkuverði, ef grundvallarbreytingar verði innan áliðnaðarins eða á sviði orkuafhendingar til álframleiðslu, er hafi það í för með sér, að jafnvægi í samningnum raskist í grundvallaratriðum, þannig að telja megi orkuverðið bersýnilega ósanngjarnt gagnvart öðrum eða báðum aðilum. Ágreining um þetta efni megi leggja í gerð, ef aðilar nái ekki samkomulagi. Þessu sanngirnisákvæði verður þó ekki beitt oftar en einu sinni á hvoru verðlagningartímabili.

Almenn ákvæði.
    Í samningnum verða ítarleg ákvæði um tæknilega hlið viðskiptanna, og kveðið er á um skyldur beggja aðila til að reisa og reka mannvirki sín og halda þeim við í samræmi við venjur vandaðra rekstraraðila. Kveðið er á um gagnkvæma takmörkun bótaábyrgðar milli aðila, ef tjón verður í rekstri án þess að ásetningur eða stórkostlegt gáleysi komi til. Tekið er fram, að það teljast ekki til vanefndar á samningsskyldum aðila, ef óviðráðanleg öfl (force majeure) komi í veg fyrir réttar efndir, og er ítarlega fjallað um atvik af því tagi og áhrif þeirra.
    Áskilið er, að rafmagn samkvæmt samningnum verði eingöngu til afnota fyrir álverið, og megi ekki ráðstafa því til annars nema með leyfi Landsvirkjunar. Jafnframt verði kaupanda óheimilt að afla rafmagns frá öðrum eða framleiða eigin rafmagn til notkunar í álverinu, nema um sé að ræða viðbótarrafmagn, sem Landsvirkjun hafi ekki tök á að láta í té með svipuðum kjörum og annars eru í boði.
    Í samningnum er mælt um, að honum verði ekki rift nema af ástæðum, sem þar eru tilgreindar, og eru þær takmarkaðar við mjög stórfelldan efndabrest.
    Um túlkun og beitingu samningsins á að fara að íslenskum lögum. Deilur út af samningnum skal útkljá fyrir íslenskum dómstólum, nema annar aðili eða báðir kjósi fremur að vísa málinu til gerðardómsmeðferðar. Skal hvor aðili þá tilnefna einn gerðardómsmann, en gerðardómsmennirnir tveir sameiginlega hinn þriðja, og skulu þeir allir fullnægja kröfum laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Að öðru leyti er gert ráð fyrir, að um málsmeðferð fari að reglum gerðardómsstofnunar verslunarráðsins í Stokkhólmi, eftir því sem við á, eða annarrar stofnunar, sem aðilar verða ásáttir um, ef hennar nýtur ekki lengur við.
    Kveðið er á um þá meginreglu, að hvorugur aðili geti framselt réttindi og skuldbindingar samkvæmt samningnum án samþykkis hins aðilans. Þó verður kaupanda heimilt að framselja réttindi sín og skyldur til lánastofnana sem tryggingu fyrir fjármögnun á álversverkefninu, enda komi þá einnig til beinir samningar milli Landsvirkjunar og hlutaðeigandi fjármálastofnana. Enn fremur eru ráð gerð fyrir, að heimilt geti verið að framselja samninginn til skyldfélaga hvors aðila um sig, en þó þannig, að það leysi aðilann ekki undan skuldbindingum sínum eftir samningum. Loks eru ákvæði um möguleika á því, að kaupandi framselji samninginn til þriðja aðila, er verði eigandi að álverksmiðjunni, og er sá möguleiki meðal annars bundinn því, að Landsvirkjun telji hinn nýja eiganda hæfan og ásættanlegan gagnaðila, og að framsalið leysi Fjarðaál og Alcoa Inc. ekki undan skuldbindingum vegna samningsins.
    Samningurinn verður gerður á íslenska og enska tungu, og skulu báðir textar jafngildir. Ef misræmi reynist milli þeirra beri þó að taka tillit til þess, að viðræður við samningsgerðina fóru fram á ensku.

Gildistími og ábyrgðir.
    Við það er miðað, að rafmagnssamningurinn öðlist gildi eftir að fyrir liggur fullnaðarsamþykki stjórnar Landsvirkjunar annars vegar og stjórnar Alcoa Inc. og Fjarðaáls sf. hins vegar og hvor aðili um sig hefur aflað þeirra grundvallarheimilda, sem nauðsynlegar eru til að hrinda honum í bindandi framkvæmd, eins og nánar verður tilgreint í samningnum. Meðal þessara gildistökuskilyrða er það, að Alþingi hafi samþykkt lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Hafi skilyrðunum ekki verið fullnægt fyrir árslok 2003, taki samningurinn ekki gildi nema um annað verði samið.
    Kveðið er á um, að samningurinn haldist í gildi fram um hinn fasta afhendingardag og gildi síðan um 40 ára samningstíma frá þeim degi, en renni þá út án uppsagnar. Áður en það gerist skuli aðilar þó taka upp viðræður í góðri trú um möguleika á framlengingu eða endurnýjun samningsins með skilmálum, sem báðir geti fellt sig við.
    Hinn 40 ára samningstími verður tvískiptur að því er orkuverð varðar, svo sem áður greinir. Að öðru leyti felur hann í sér staðfestingu þess, að bæði álverið og Kárahnjúkavirkjun verði mannvirki, er ætlað sé að standa til frambúðar og þurfi að eiga sér tryggan rekstrargrundvöll.
    Í samningnum er til þess vísað, að hér á landi séu uppi áform um breytingar á skipan orkumála í landinu, er komið geti til framkvæmda innan tíðar á grundvelli nýrrar löggjafar um raforkumál, einkum þannig, að skilið verði milli flutnings og dreifingar annars vegar og vinnslu og sölu hins vegar. Með tilliti til þess er svo á kveðið, að Landsvirkjun verði áfram ábyrg gagnvart kaupanda á skuldbindingum samkvæmt samningum þrátt fyrir slíkar breytingar eða aðra endurskipulagningu á fyrirtækinu eða þeim orkuvirkjum, sem það ráði nú fyrir, nema samkomulag verði um annað.
    Jafnframt eru gerð ráð fyrir ákvæðum þess efnis, að ákvörðun orkuverðs við endurskoðun eftir 20 ára rekstur fari eftir beinni ytri viðmiðun í stað samningsferlis, ef staða Landsvirkjunar hefur þá breyst þannig, að íslenska ríkið eigi ekki lengur 50% eignarhlut í fyrirtækinu eða hafi annars sams konar forræði gagnvart því og nú er, eða ríkið beri ekki lengur ábyrgð á skuldbindingum fyrirtækisins (í heild eða að hluta) með þeim hætti, sem mælt er um í gildandi lögum um Landsvirkjun.
    Um ábyrgð á skuldbindingum kaupanda megin má einkum vísa til þess, sem fyrr segir um takmörkun á heimildum til framsals á samningnum, og svo hins, að Alcoa Inc. mun taka ábyrgð með umsömdum hætti á efndum tvennra meginskyldna Fjarðaáls gagnvart Landsvirkjun. Er það annars vegar skuldbindingin um að leiða byggingu álversins til lykta á tilsettum tíma og hins vegar skuldbindingin um að greiða fyrir tiltekið orkumagn á ári hverju, eftir að rafmagn er tiltækt, hvort sem það er nýtt eða ekki. Um mikilvægi þeirrar ábyrgðar þarf ekki að fjölyrða, en hún felur meðal annars í sér grundvallarmun á rafmagnssamningnum, sem nú liggur fyrir, og þeirri samningsgerð, sem til umræðu var við fyrri aðila að verkefninu um álver í Reyðarfirði.

Arðsemi samningsins og áhrif á fjárhag.
    Ráðagerðir Landsvirkjunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og sölu á raforku til álverksmiðju í Reyðarfirði eru reistar á ítarlegu mati á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum þessa verkefnis ásamt umhverfisþáttum þess. Tekur matið meðal annars til athugana og áætlana um stofnkostnað og rekstrarkostnað, verðþróun og horfur á álmarkaði, gengi gjaldmiðla, líftíma virkjunarinnar og fjármagnskostnað, sem veginn er með tilliti til vaxtakjara á lánsfé og kröfu um arðsemi af eigin fé.
    Að því er varðar tilhögun og stofnkostnað virkjunarinnar er það einkum verkfræðisvið fyrirtækisins, sem unnið hefur að þessu mati, ásamt þeim samstarfshópi verkfræðilegra ráðgjafa, sem ráðinn var á sínum tíma til að annast endanlega hönnun virkjunarinnar. Í honum eru sex innlendar og erlendar verkfræðistofur, og hafa hinar erlendu víðtæka reynslu af verkefnum hér á landi. Einnig var leitað sérstakrar tæknilegrar aðstoðar hjá alþjóðlegum sérfræðingum varðandi jarðgangagerð og stíflugerð. Enn fremur hefur nú verið unnt að taka tillit til framkominna tilboða frá verktökum í gerð aðrennslisganga virkjunarinnar og stíflu við Kárahnjúka. Athugun á þeim gefur til kynna, að kostnaður miðað við hagstæðustu tilboðin verði mjög í samræmi við fyrri áætlanir Landsvirkjunar og ráðgjafa hennar. Rekstrarkostnaður virkjunarinnar hefur einnig verið vandlega metinn, og í áætlunum um hann og stofnkostnaðinn er meðal annars tekið tillit til fyrirhugaðra ráðstafana í þágu umhverfisverndar vegna virkjunarinnar.
    Um aðra þætti matsins hefur Landsvirkjun ítrekað leitað samráðs við óháða erlenda sérfræðinga, er njóta almennrar viðurkenningar, meðal annars um framtíðarþróun álverðs á heimsmarkaði og skilyrði álframleiðslu víðsvegar um heim. Útreikningar á arðgjöf virkjunarinnar hafa farið fram aðskilið í tveimur deildum innan fyrirtækisins, á fjármálasviði og orkusviði. Jafnframt hafa þeir verið bornir undir innlent ráðgjafarfyrirtæki, sem prófað hefur gildi þeirra með líkindafræðilegum aðferðum. Nú fyrir skemmstu hafa áætlanir Landsvirkjunar enn fremur verið lagðar fyrir nefnd sérfræðinga á vegum eigenda fyrirtækisins, sem látið hafa uppi álit um gildi arðsemismats Landsvirkjunar og fjárhagslega áhættu vegna virkjunarinnar og samningsins, og er matið vel rökstutt að þeirra dómi.
    Við matið er stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar nú áætlaður um 95 milljarðar króna miðað við verðlag og gengi í nóvember 2002. Nemi innlendur kostnaður rúmlega 40% þeirrar fjárhæðar. Árlegur rekstrarkostnaður er talinn verða um 740 milljónir króna, þar af um 120 milljónir vegna mótvægisaðgerða til verndar umhverfinu. Fjármagnskostnaður er áætlaður eftir reynslu Landsvirkjunar og raunhæfum möguleikum hennar til að afla viðeigandi lánsfjár til framkvæmda við virkjunina, sem bornir hafa verið undir alþjóðlega ráðgjafa á því sviði.
    Arðsemismat Landsvirkjunar, sem byggir á núvirtu fjárstreymi vegna kostnaðar og tekna, tekur til áranna 2002–2070, þ.e. rúmlega 60 ára frá upphafi rekstrar. Er virkjunin metin verðlaus í lok tímabilsins, þótt það sé mun skemmra en væntanlegur líftími hennar. Samkvæmt niðurstöðum matsins má vænta þess, að núvirtur hagnaður af orkusölu samkvæmt rafmagnssamningnum verði um 6,6 milljarðar króna, sem svarar til þess, að afkastavextir af fjárfestingu í verkefninu verði um 7,3% að nafngildi og 5,5% að raungildi. Á sama grundvelli má gera ráð fyrir, að arðgjöf eigin fjár vegna verkefnisins verði um 12,8% að nafngildi og 11% að raungildi. Er það talið mjög sambærilegt við þær kröfur um arðsemi eigin fjár, sem almennt eru gerðar meðal orkufyrirtækja í nálægum löndum.
    Við það mat á hagkvæmni virkjunarinnar og fyrirhugaðs rafmagnssamnings vegna álverksmiðju í Reyðarfirði, sem þannig liggur fyrir, hefur eðlilegrar varúðar verið gætt. Fari svo, að forsendur þess breytist í raun í mikilvægu tilliti, svo sem vegna aukins stofnkostnaðar eða þess, að álverð reynist lægra yfir samningstímabilið en grunnspá gefur til kynna, má eigi að síður gera ráð fyrir, að Landsvirkjun nái arðgjöf, sem talin er tryggja fyrirtækinu fullnægjandi skaðleysi. Það er því mat Landsvirkjunar, að samningurinn sé henni hagstæður og hafi jákvæð áhrif á afkomu og starfsemi fyrirtækisins.

Reykjavík, 16. janúar 2003

Friðrik Sophusson
forstjóri.

Fylgiskjal VI.


Hönnun hf.:

Greinargerð Hönnunar hf. á umhverfismálum
tengdum álverksmiðju í Reyðarfirði.

(13. janúar 2003.)


6.1    Almennt.
    Reyðarál ehf. (nú Fjarðaál hf.) hyggst breyta fyrri áætlunum um byggingu álvers í Reyðarfirði, Fjarðabyggð. Horfið hefur verið frá áætlunum um byggingu álvers sem nýtir HAL 250 tækni frá Norsk Hydro og í stað þess er áætlað að nota aðra tækni af sambærilegum gæðum eða betri, sem Alcoa, núverandi eigandi Reyðaráls ehf. mun leggja til og hefur reynslu af.
    Nýr eigandi fyrirtækisins, Alcoa Inc., hefur látið vinna skýrslu þar sem borin eru saman umhverfisáhrif 420.000 árstonna álvers sem áður var áætlað að byggja í tveim áföngum og 322.000 árstonna álvers í einum áfanga eins og nú eru áform um að byggja.
    Samanburðarskýrslan er unnin í samræmi við lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, grein 6, viðauka 2, lið 13a í lögunum og skýrslunni var skilað til Skipulagsstofnunar þann 22. nóvember 2002.
    Liður 13a fjallar um breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Skipulagsstofnun ákvarðar að framkvæmdir, sem tilgreindar eru í 2. viðauka, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær eru taldar geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
    Afgreiðsla málsins fyrir tilkynningarskyldar framkvæmdir sem þessa er sem hér segir. Skipulagsstofnun hefur 4 vikur til að taka ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Áður skal hún leita umsagna leyfisveitenda og annarra, eftir eðli máls hverju sinni, um það hvort og þá á hvaða forsendum fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Ekki er gert ráð fyrir aðkomu almennings við afgreiðslu tilkynningarskyldra framkvæmda.
    Skipulagsstofnun birti ákvörðun sína um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmda þann 20. desember 2002. Þar kemur m.a. fram að Skipulagsstofnun telur, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að óheimilt sé að krefjast mats á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði vegna breytingar á framkvæmdaáformum þegar úrskurður liggur fyrir um umfangsmeiri áform en nú eru fyrirhuguð, nema því aðeins að umfjöllun um matsskyldu leiði í ljós að breytingarnar geti haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, eins og tilgreint er í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.
    Í ákvörðun sinni telur Skipulagsstofnun að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði, Fjarðabyggð, séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

6.2    Skipulag svæðisins.
    Álver Alcoa-Reyðaráls er á svæði sem er iðnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Breyta þarf deiliskipulagi þar sem byggingarreitur 420.000 t álvers Reyðaráls innan lóðarinnar er nokkru minni en 322.000 t álvers Alcoa-Reyðaráls.
    Samkvæmt aðalskipulagi á „lóð fyrir orkufrekan iðnað“ að vera staðsett vestan Hrauns í Reyðarfirði. Fyrir 420.000 t álver Reyðaráls þurfti stærri lóð en gert er ráð fyrir í þessu skipulagi. Tillögur til breytinga voru gerðar á aðalskipulagi Reyðarfjarðar, með það í huga að iðnaðarsvæðið við Hraun yrði stækkað vegna fyrirhugaðs álvers. Enn fremur eru skipulagðar lóðir fyrir annan iðnað og þjónustu á iðnaðarsvæðinu.

6.3     Umhverfisáhrif.
    Samanburðarskýrslan er byggð upp með hliðsjón af fyrri skýrslu Reyðaráls fyrir álver með allt að 420.000 t ársframleiðslu. Ekki er um að ræða eiginlega matsskýrslu heldur er gerður samanburður á umhverfisáhrifum álvers Reyðaráls og álvers Alcoa-Reyðaráls. Hver kafli skýrslunnar fjallar um tiltekið atriði mats á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði, úrskurð Skipulagsstofnunar og samanburð við fyrirhugað álver Alcoa-Reyðaráls. Skýrslan var síðan notuð sem grunnur fyrir ákvörðunartöku um matsskyldu framkvæmdarinnar.
    Í skýrslunni er gerður samanburður á umhverfisáhrifum á byggingartíma (tafla 1) og samanburður umhverfisáhrifum á útblæstri á rekstrartíma frá álveri Alcoa-Reyðaráls og álveri Reyðaráls (tafla 2). Í töflu 3 er gerður samanburður á magni frárennslis og magni efna í frárennsli. Í töflu 4 er gefið yfirlit yfir mismunandi samfélags- og efnahagsleg áhrif álvers Alcoa-Reyðaráls og álvers Reyðaráls á rekstrartíma og í töflu 5 eru dregin saman megin umhverfis-og samfélagsleg áhrif álvers Alcoa-Reyðaráls og álvers Reyðaráls.
    Það eru einkum tveir þættir sem eru frábrugðnir. Í fyrsta lagi, verður engin rafskautaverksmiðja byggð í tengslum við álver Alcoa-Reyðarál eins og fyrirhugað var við álver Reyðaráls. Í öðru lagi mun Alcoa-Reyðarál ekki farga kerbrotum með urðun á svæðinu. Þessi mismunur endurspeglast í töluvert minni umhverfisáhrifum en frá álveri Reyðaráls. Einnig mun töluvert minna magn PAH-efna berast upp í andrúmsloftið og engin mengunarefni munu fara í sjó með frárennsli frá urðunarstað fyrir kerbrot.
              

Tafla 1. Samanburður á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers Alcoa-Reyðaráls
og álvers Reyðaráls á byggingartíma.

Álver Alcoa-Reyðaráls Álver Reyðaráls Áhrif
Umhverfi Lítil áhrif
–Áhrif á vetrarbeit 20–30 hreindýra. Búist við að þau færi sig um set.

–Áhrif á gróður og annað dýralíf talin óveruleg.
Lítil áhrif.
–Áhrif á vetrarbeit 20-30 hreindýra. Búist við að þau færi sig um set.
–Áhrif á gróður og annað dýralíf talin óveruleg.
Svipuð
Jöfnun lands og efnistaka Lítil áhrif.
–Jarðvegsflutningar, sprengt grjót og fyllingarefni. Efni notað til landmótunar innan iðnaðarsvæðisins.

–Aðflutt efni 85.000 m3.
Lítil áhrif.
–Jarðvegsflutningar, sprengt grjót og fyllingarefni. Efni notað til landmótunar innan iðnaðarsvæðisins.
–Aðflutt efni 105.000 m3.
Svipuð
Útblástur, frárennsli og úrgangur Lítil áhrif
–Staðbundin hávaða- og loftmengun

–Förgun skv. gildandi kröfum.
Lítil áhrif.
–Staðbundin hávaða- og loftmengun.
–Förgun skv. gildandi kröfum.
Svipuð
Samgöngur og hljóðstig Lítil áhrif.
–Aukin umferð.
–Hafnargerð mun minnka þörf á þungaflutningum á þjóðvegum.
–Hjáleið um hafnarsvæðið mun draga úr óþægindum í þéttbýlinu.
–Ströngustu reglur um hljóðstig verða uppfylltar.
Lítil áhrif.
–Aukin umferð
–Hafnargerð mun minnka þörf á þungaflutningum á þjóðvegum.
–Hjáleið um hafnarsvæðið mun draga úr óþægindum í þéttbýlinu.
–Ströngustu reglur um hljóðstig verða uppfylltar.
Svipuð
Vinnubúðir Lítil áhrif.
–Gert er ráð fyrir allt að 1.800 manns í vinnubúðum á landi og í fljótandi vinnubúðum.
–Öflun neysluvatns og rafmagns með sama hætti og ráðgert vegna álvers Reyðaráls.
Lítil áhrif.
–Gert er ráð fyrir 1.250–1.500 manns í vinnubúðum, þar af 250–500 í vinnubúðum á landi og 1.000 í fljótandi vinnubúðum.
Svipuð
Fornleifar Lítil til nokkur áhrif.
–8 af 11 fornminjum verða fyrir raski.
–Fornleifafræðingur verður viðstaddur alla jarðvegsvinnu nálægt fornminjum.
Lítil til nokkur áhrif.
–8 af 11 fornminjum verða fyrir raski.
–Fornleifafræðingur verður viðstaddur alla jarðvegsvinnu nálægt fornminjum.
Svipuð
Samfélagsleg áhrif Nokkur til talsverð áhrif.
–Um 2.000 ársverk.
–Mikil áhrif á atvinnu- og efnahagslíf Austurlands.
Nokkur til talsverð áhrif.
–Um 2.750 ársverk.
–Mikil áhrif á atvinnu- og efnahagslíf Austurlands.
Svipuð


Tafla 2. Samanburður umhverfisáhrifa á útblæstri frá álveri
Alcoa-Reyðaráls og álveri Reyðaráls.

LOFTTEGUND
Eining Álver Alcoa-
Reyðaráls
Álver
Reyðaráls
Áhrif
Loftkennt flúoríð t/ári 78,8 55,0 Svipuð(1)
Rykbundið flúoríð t/ári 27,5 50,8 Svipuð(1)
Heildarmagn flúoríðs t/ári 106,3 105,8 Svipuð(1)
SO2 (Óhreinsað) t/ári 4765(1) 6785(2) Svipuð(2)
SO2 (Hreinsað) t/ári Ákveðið síðar 828 Svipuð m.v. sömu kröfu um þynningarsvæði
PAH t/ári 0,167 1,97 Mun minni
Svifryk (PM10) t/ári 38,44 29,3 Svipuð(3)
CO2 x1000 t/ári 530 710 Minni
PFCs sem CO2 ígildi x1000 t/ári 34 58 Minni
NOx t/ári 27 133 Mun minni

(1)    Alcoa-Reyðarál mun tryggja að m.t.t. styrks loftkennds flúoríðs verði sömu kröfur um loftgæði og þynningarsvæði uppfylltar eins og gert var fyrir álver Reyðaráls, sjá umfjöllun í kafla 4.3.2.
(2)    Óhreinsaður útblástur SO 2. Með uppsetningu vothreinsivirkja við álver Reyðaráls minnkar útblástur SO 2 niður í 828 t/ári. Með uppsetningu hreinsivirkja verður dregið nægjanlega úr magni SO 2 í útblæstri álvers Alcoa-Reyðaráls til þess að uppfylla sömu kröfur um þynningarsvæði og settar voru fyrir álver Reyðaráls. Í kafla 4.3.2 er fjallað um þá tækni sem nú er til athugunar með það að markmiði að draga úr útblæstri SO 2.
(3)    Mismunur í magni svifryks má hugsanlega skýra með mismunandi forsendum við útreikninga fremur en raunverulegum mismun í útblæstri.

    Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur fram að ekki sé líklegt að áhrif svifryks verði veruleg vegna breytinga á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði. Einnig telur Skipulagsstofnun að áhrif PAH efna verði verulega minni en áður var gert ráð fyrir vegna breytinga á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði.
    Varðandi losun koldíoxíðs er það mat Skipulagsstofnunar að losun frá fyrirhuguðu álveri muni ekki koma til með að raska þeirri útstreymisspá sem lögð var til grundvallar samþykkt Alþingis til að mæta skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar. Varðandi losun flúorkolefnissambanda frá álverinu liggur fyrir að ríkisstjórn Íslands gerir ráð fyrir losun samsvari 0,14 t CO 2-ígilda/tonn ál til að standa við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar en losun flúorkolefnissambanda fellur ekki undir framangreint sérákvæði við Kyoto-bókunina. Samkvæmt framlögðum gögnum framkvæmdaraðila verður losun flúorkolefnissambanda innan viðmiðunarmarka stefnu íslenskra stjórnvalda eða um 0,11 t á hvert framleitt áltonn.
    Skipulagsstofnun telur að fyrstu niðurstöður loftdreifingarreikninga fyrir breytingar á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði sýni að ólíklegt sé að styrkur flúors og brennisteinstvíoxíðs muni fara yfir umhverfismörk utan þynningarsvæðis.
    Fram hefur komið í umsögnum að gæði veðurfarsgagna sem dreifing mengunarefna byggist á séu háð óvissu. Skipulagsstofnun telur þessa óvissu ásamt landnotkun og friðlýstu svæði í nágrenni álversins gera það að verkum að nauðsynlegt verði að fylgjast með styrk flúors í lífríki í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis eins og gert var ráð fyrir í úrskurði stofnunarinnar frá 31. ágúst 2001. Einnig telur stofnunin nauðsynlegt að fylgst verði sérstaklega með styrk brennisteinstvíoxíði í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis.
    Skipulagsstofnun telur að fyrir liggi a.m.k. annar raunhæfur kostur um mótvægisaðgerðir vegna magns brennisteinsdíoxíðs í útblæstri sem komi til álita, þ.e. vothreinsun, leiði vöktun í ljós óásættanleg umhverfisáhrif. Nánari ákvarðanir um slíka vöktun umhverfisáhrifa eru á höndum starfsleyfisveitanda, Hollustuverndar ríkisins.
    Skipulagsstofnun telur að áhrif breytinga á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði á gróður og dýralíf verði óveruleg utan þynningarsvæðis á landi að því tilskildu að styrkur brennisteinsdíoxíðs og flúors fari þar ekki yfir umhverfismörk.

Tafla 3. Samanburður á magni frárennslis og magni efna í frárennsli
frá álveri Alcoa-Reyðaráls og álveri Reyðaráls.

Efni Uppspretta Álver Alcoa-Reyðarál s Álver Reyðaráls Samanburður á áhrifum
Sjór
(10-15°C)
Vothreinsi-
búnaður
Líklega enginn(1) 9.000 m3/h Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls
Kælivatn
(30-40°C)
Steypuskáli Ákveðið síðar 180 m3/h Mun minna
SO2 Kerskálar - 9.500 t/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls
Föst efni (svifagnir) Kerskálar - 63 t/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa Reyðaráls
F Kerskálar/ kerbrotaurðun - 235 t/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls
PAH-16 Kerskálar - 25,0 kg/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls
BaP Kerskálar - 0,47 kg/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls
Auðleysan- legar olíur Steypuskáli - 3,9 t/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls
N kerbrotaurðun / þjónustubygg. 2,8 t/ári 12,1 t/ári Mun minna
P Kerbrotaurðun / þjónustubygg 0,3 t/ári 1,2 t/ári Mun minna
Þungmálmar og önnur efni Kerbrotaurðun - 17,9 t/ári Verður ekki hluti frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls

(1)    Alcoa er að skoða mögulegar hreinsiaðferðir til þess að uppfylla umhverfismörk og stærð þynningarsvæðisins án vothreinsunar, í samræmi við markmið fyrirtækisins um að koma algjörlega í veg fyrir frárennsli frá álverum sínum. Sá möguleiki er fyrir hendi að niðurstöður athugunar Alcoa verði þær að vothreinsun sé nauðsynleg við álverið.

    Skipulagsstofnun telur á grundvelli fyrirliggjandi gagna að umhverfisáhrif frárennslis frá álveri Alcoa-Reyðaráls verði óveruleg og að stærð þynningarsvæðis í sjó sem tillaga var gerð um fyrir áætlanir um álver Reyðaráls sé nægileg fyrir álver Alcoa-Reyðaráls. Skipulagsstofnun telur að ekki sé ástæða til að ætla að breytingar á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði muni hafa veruleg áhrif á sjó og sjávarlíf.

Tafla 4. Samanburður á samfélags- og efnahagslegum áhrifum álvers Alcoa-Reyðaráls og álvers Reyðaráls á rekstrartíma.

Álver Alcoa-Reyðaráls Álver Reyðaráls Áhrif
Íbúafjölgun á Austurlandi um 1.500 um 2.100 Minni
Áhrif á aðrar atvinnugreinar (sjávarútveg, landbúnað, ferðamennsku, þjónustu) - - Svipuð eða minni
Þjónusta við almenning - - Svipuð eða minni
Aukning á íbúðarhúsnæði um 570 íbúðir um 930 íbúðir Minni
Fjöldi ársverka í álveri 455 610 Minni
Óbein og afleidd störf um 300 um 400 Minni


Tafla 5. Meginumhverfis- og samfélagsleg áhrif álvers
Alcoa-Reyðaráls og álvers Reyðaráls.

Álver Alcoa-Reyðaráls Álver Reyðaráls Áhrif
Þynningarsvæði í lofti 2,6 km vestur og 2,6 km austur frá kerskálum. 2,6 km vestur og 2,6 km austur frá kerskálum. Svipuð
Þynningarsvæði í sjó Ekkert Um 1,7 km breitt og nær um 600 m út frá landi. Mun minni(1)
Loftgæði og umhverfi manna Hverfandi, eitt býli, Framnes, er staðsett innan þynningarsvæðis og verður lagt af. Hverfandi, eitt býli, Framnes, er staðsett innan þynningarsvæðis og verður lagt af. Svipuð
Lífríki á landi Viðkvæmar tegundir gróðurs, einkum mosar, fléttur, bláberjalyng og beitilyng, munu skaðast innan þynningarsvæðis og jafnvel hverfa innan fárra ára.

Skert vetrarbeitiland hreindýra og hugsanleg skerðing á fæðuöflunar- og varpsvæðum fugla.
Viðkvæmar tegundir gróðurs, einkum mosar, fléttur, bláberjalyng og beitilyng, munu skaðast innan þynningarsvæðis og jafnvel hverfa innan fárra ára.

Skert vetrarbeitiland hreindýra og hugsanleg skerðing á fæðuöflunar- og varpsvæðum fugla.
Svipuð
Lífríki fjöru og sjávar Óveruleg uppsöfnun PAH-efna í botndýr og set vegna ákomu úr lofti(1). Nokkur uppsöfnun PAH-efna í botndýr og set frá frárennsli í sjó. Mun minni(1)
Árleg raforkunotkun Um 4700 GW stundir Um 6000 GW stundir Minni
Íbúafjölgun á Austurlandi Um 1500 Um 2100 Minni
Aukning íbúðarhúsnæðis Um 570 íbúðir Um 930 íbúðir Minni
Ársverk í álveri 455 610 Minni
Óbein og afleidd ný störf Um 300 Um 400 Minni
Umferðaraukning 25–35 % 55–65% Minni
Sjónræn áhrif Reykháfar og síló munu meðal annars sjást frá Hólmahálsi og frá suður strönd fjarðarins. Reykháfar og síló munu meðal annars sjást frá Hólmahálsi og frá suður strönd fjarðarins. Svipuð
Hljóðstig Innan marka í reglugerð Innan marka í reglugerð. Svipuð

(1)    Alcoa er að skoða mögulegar hreinsiaðferðir til þess að uppfylla umhverfismörk og stærð þynningarsvæðisins án vothreinsunar, í samræmi við markmið fyrirtækisins um að koma algjörlega í veg fyrir frárennsli frá álverum sínum. Sá möguleiki er fyrir hendi að niðurstöður athugunar Alcoa verði þær að vothreinsun sé nauðsynleg við álverið.

    Skipulagsstofnun telur að breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði muni hafa minni samfélagsleg áhrif en fyrri áform um álver í Reyðarfirði.
    Skipulagsstofnun telur að breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði muni ekki hafa veruleg áhrif á sérstæðar jarðmyndanir eða landslag.
    Skipulagsstofnun telur að breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði á landnotkun verði ekki veruleg utan þynningarsvæðis á landi að því tilskildu að styrkur brennisteinsdíoxíðs og flúors fari þar ekki yfir umhverfismörk.
    Skipulagsstofnun telur að áhrif breytinga á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði á jafngildishljóðstig verði óveruleg. Nauðsynlegt sé að haga skipulagi og hönnun lóðar og mannvirkja með það í huga að hávaði og ónæði af völdum starfseminnar í íbúðarbyggð og á útivistarsvæðum verði sem minnst.

6.4     Starfsleyfi.
    Samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hefur verið gerð umsókn um starfsleyfi og henni skilað til Hollustuverndar ríkisins. Tillaga að starfsleyfi er til kynningar til 18. febrúar 2003.
    Umsóknin inniheldur gögn varðandi starfsleyfi fyrir álver Alcoa-Reyðaráls og er skipt niður í eftirfarandi hluta:
     1.      Greinargerð í samræmi við reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Vísað er í 10. gr. reglugerðarinnar, lið 10.2 a.-k. í kaflanum; umsókn um starfsleyfi. Til hagræðis er við hvern hluta vísað til viðkomandi upplýsinga í ofangreindri samanburðarskýrslu.
     2.      Viðauki: Álver í Reyðarfirði, Fjarðabyggð. Samanburður á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs 322.000 árstonna álvers Alcoa-Reyðaráls og allt að 420.000 árstonna álvers Reyðaráls í Reyðarfirði byggðu í tveimur áföngum. Nóvember 2002.
    Framleiðslutæknin í fyrirhuguðu álveri er byggð á hámarks sjálfvirkni og háþróuðustu tækni sem í boði er fyrir álver sem nota forbökuð rafskaut. Besta fáanlega tækni (BAT-best available technique) verður notuð við hreinsun útblásturs. Notaður verður þurrhreinsibúnaður með 99,5% hreinsivirkni til að fjarlægja og endurvinna flúor.
    Helstu mannvirki álversins eru kerskálar til rafgreiningar áls úr súráli í kerum sem raðað er hlið við hlið, þurrhreinsivirki, steypuskáli, þar sem fljótandi ál er steypt í hleifa, skautsmiðja, aðveitustöð, olíubirgðastöð fyrir eldsneyti ofna í steypuskála, þjónustubyggingar, vöruskemmur og geymslur.
    Áætlaðar tölur um notkun helstu hráefna og orku í 322.000 árstonna álveri Alcoa- Reyðaráls eru sýndar í töflu 7.

Tafla 7. Notkun helstu hráefna og orku.

Hráefni Eining Álver Alcoa-Reyðaráls
322,000 t/ári
Súrál tonn/ári 622,000
Álflúoríð " 4,000
Innflutt rafskaut " 176,000
Eldsneyti " 10,500
Orka GWst/ári 4,700

    Öllum viðmiðunarmörkum um loftgæði verður náð utan áður skilgreinds þynningarsvæðis fyrir álver Reyðaráls.
    Gerð mengunarvarnarbúnaðar mun taka mið af endanlegum loftdreifingarútreikningum. Slíkir útreikningar eru nauðsynlegir til þess að komast að raun um skilvirkni tækjabúnaðar í samhengi við landslag og þær veðurfarslegu aðstæður sem ríkja í Reyðarfirði. Að loknum loftdreifingarútreikningum verður tekin ákvörðun um uppsetningu mengunarvarnarbúnaðar sem er nauðsynlegur til að uppfylla umhverfismörk utan áður skilgreinds þynningarsvæðis. Leitað verður álits og samþykkis Skipulagsstofnunar og Hollustuverndar ríkisins um þessa ákvörðun.
    Útblástur gróðurhúsalofttegunda var reiknaður út frá gildum sem fengin voru úr leiðbeiningarreglum Alþjóðastofnunar áliðnaðarins (International Aluminium Institute, 2002). Þessar leiðbeiningarreglur eru viðauki við reglur nefndar um sjálfbæra þróun á vegum Alþjóðabankans (World Bank Council for Sustainable Development (WBCSD)) og Alþjóðaauðlindastofnunarinnar (World Resource Institute (WRI)). Í leiðbeiningarreglunum er að finna aðferðafræði sem skilar áreiðanlegum og gegnsæjum útreikningum á magni gróðurhúsalofttegunda. Álver Alcoa-Reyðaráls mun ná mjög lágum útblæstri flúorkolefnis, eða um 0,11 tonnum CO 2 ígildis fyrir hvert unnið áltonn.
    Útblástur frá steypuskála var reiknaður með því að nota aðferðafræði frá WBCSD sem byggir á staðbundnum uppsprettum (www.ghgprotocol.org). Útblástur gróðurhúsalofttegunda verður minni en gert var ráð fyrir frá álveri Reyðaráls.
    Frárennsli á byggingartíma mun taka mið af núgildandi kröfum og reglum um mengunarvarnir og er Alcoa að hanna kerfi til að gera enn betur en núverandi kröfur gera ráð fyrir. Alcoa hefur ströng innri markmið m.t.t. förgunar úrgangs. Öllum úrgangi, sem ekki er endurunnin, verður komið fyrir á viðurkenndum urðunarstað.
    Gert er ráð fyrir að uppistaða frárennslis verði kælivatn og skolp. Alcoa hefur þá stefnu að ekkert frárennsli iðnaðarvatns verði til sjávar frá álverum fyrirtækisins og er unnið að því að ná því markmiði fyrir álver Alcoa-Reyðaráls. Þá verður allt regnvatn af athafnasvæði álversins meðhöndlað til þess að lágmarka áhrif þess í sjó.
    Gert er ráð fyrir að styrkur efna í frárennsli frá skautsmiðju og neysluvatni verði svipaður bakgrunnsgildum. Skólp mun samanstanda af frárennsli frá mötuneyti, skrifstofum, baðherbergjum, sturtum, þvottaherbergjum o.fl., sem staðsett verða á iðnaðarlóð álversins. Allt skólp verður hreinsað samkvæmt reglugerð nr. 798/1999. Um er að ræða eins þrepa hreinsun, sem miðar að því að draga úr BOD5 (Biological oxygen demand) í skólpi um a.m.k. 20% frá upprunalegu gildi og að heildarmagn agna í skólpi verður minnkað um a.m.k. 50% frá upprunalegu gildi. Lokahönnun fráveitu frá álverinu verður unnin í samráði við Hollustuvernd ríkisins.
    Ráðgert er að taka neysluvatn úr núverandi brunnsvæði við Njörvadalsá en iðnaðarvatn verður tekið úr borholum í áreyrum milli Norðurár og Sléttuár fyrir botni fjarðarins.
    Áætluð vatnsþörf álvers Alcoa-Reyðaráls er sýnt í töflu 8. Magn kælivatns er áætlað um 25,7 l/s. Vatnsþörf er haldið í lágmarki með lokuðum hringrásarkerfum.

Tafla 8. Áætluð vatnsnotkun
mismunandi hluta álversins.

Notandi Eining Álver Alcoa-Reyðaráls
322,000 t
Skautsmiðja l/s 3,5
Steypuskáli - 18
Stoðkerfi - 1,6
Drykkjarvatn - 0,35
Aðveitustöð - 4,2
Samtals - 27,65

    Vöktunaráætlun verður sett á laggirnar við upphaf reksturs fyrirhugaðs álvers Alcoa- Reyðaráls.
    Samkvæmt skýrslu um samanburð á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers Alcoa-Reyðaráls og álvers Reyðaráls, er helsti munur þessara tveggja álvera sá að ekki verður byggð rafskautaverksmiðja við álver Alcoa-Reyðaráls. Auk þessa mun Alcoa-Reyðarál ekki farga kerbrotum á svæðinu. Þessi munur mun leiða til minni heildaráhrifa á umhverfið borið saman við álver Reyðaráls, þar á meðal minni losun PAH efna í andrúmsloft og ekkert frárennsli mengunarefna frá förgunarstað kerbrota. Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur fram að nauðsynlegt sé að fylgjast sérstaklega með dreifingu og styrk brennisteinsdíoxíðs og flúors í andrúmslofti og lífríki innan sem utan þynningarsvæðis. Þannig verði unnt að ganga úr skugga um að þær spár sem hafa verið lagðar fram um mengun í andrúmslofti gangi eftir. Nánari ákvarðanir um vöktun umhverfisáhrifa, um tíðni mælinga, mælistaði, vöktunarþætti og annað fyrirkomulag, sem og framfylgd og eftirlit eru á höndum starfsleyfisveitanda, Hollustuverndar ríkisins. Fylgiskjal VII.


Hollustuvernd ríkisins:

Tillaga að starfsleyfi Reyðaráls ehf., kt. 600100-2380, fyrir
starfsemi á iðnaðarsvæðinu við Hraun í Reyðarfirði.


Gefið út af Hollustuvernd ríkisins í samræmi við ákvæði laga
nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.


1 ALMENN ÁKVÆÐI

1.1    Starfsleyfi þetta gildir fyrir starfsemi Reyðaráls ehf., kt. 600100-2380, hér eftir tilgreint, sem rekstraraðili, á iðnaðarsvæðinu við Hraun í Reyðarfirði. Starfsleyfið gildir fyrir framleiðslu á fljótandi áli í kerskálum álvers, fyrir vinnslu í steypuskála álvers, meðhöndlun hráefna, kera og geymslu úrgangs frá eigin starfsemi.

    Álverið verður reist í einum áfanga þar sem hámarksframleiðsla verður 322.000 tonn af hrááli á ári.

1.2    Rekstur álversins skal vera í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og reglugerða settum samkvæmt þeim.

    Með vísan til 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun skal rekstur álvers vera í samræmi við bestu fáanlegu tækni sem völ er á í kerskálum, málmsteypu og hreinsivirkjum þeim tengdum til að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í starfsleyfi þessu. Bestu fáanlegu tækni fyrir áliðnað hefur verið lýst skv. ákvæðum tilskipunar um samþættar mengunarvarnir og eftirlit nr. 96/61/ESB og skilgreind í tilmælum nr. 94/1 innan Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum (PARCOM).

1.3    Rekstraraðili skal gera nauðsynlegar viðbótarráðstafanir sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 785/1999 til að tryggja að þau mörk sem sett eru í grein 2.1.6 séu uppfyllt og að mörk þynningarsvæðis sbr. gr. 1.8 og 1.9 í starfsleyfi þessu séu virt.

1.4    Rekstraraðili skal senda tilkynningar og skýrslur sem fram koma í starfsleyfi þessu til Hollustuverndar ríkisins og afrit til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

1.5    Komi fram skaðleg áhrif á umhverfi verksmiðjunnar eða hætta á skaðlegum áhrifum sem ekki voru áður ljós, skal Hollustuvernd ríkisins, að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd Austurlandssvæðis, halda fund með rekstraraðila og leita lausna til úrbóta. Í framhaldi af slíkum viðræðum skal Hollustuvernd ríkisins gera tillögur um endurskoðun starfsleyfis.

1.6    Tilkynna skal Hollustuvernd ríkisins ef fyrirhugað er að stöðva eða draga úr starfsemi verksmiðjunnar til að minnka framleiðslu fljótandi áls. Þetta skal gert með að minnsta kosti sjö daga fyrirvara þegar þessi ákvörðun liggur fyrir.

1.7    Sérstakur fulltrúi rekstraraðila skal vera tengiliður við Hollustuvernd ríkisins og ber ábyrgð á samskiptum rekstraraðila við stofnunina vegna eftirlits með mengunarvörnum fyrirtækisins.

1.8    Þynningarsvæði álversins vegna loftmengunar, sbr. 22. gr. reglugerðar um loftgæði nr. 787/1999, með síðari breytingum, er tilgreint á uppdrætti í viðauka 1. Utan þess svæðis skal uppfylla umhverfismörk til verndunar heilsu fólks og vistkerfa, sbr. reglugerð nr. 251/2002, og umhverfismörk fyrir flúoríð. Umhverfismörk fyrir flúoríð er sett 0,2 µg/m³ af vetnisflúoríði sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30 september ár hvert í samræmi við niðurstöður mats á umhverfisáhrifum. Uppfylla skal umhverfismörk til verndunar heilsu fólks alls staðar á íbúðarsvæðum.

1.9    Þynningarsvæði álversins vegna vatnsmengunar, sbr. 13. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999, með síðari breytingum, er tilgreint á uppdrætti í viðauka 1. Utan þess skal uppfylla umhverfismörk til verndunar vistkerfa, sbr. lög nr. 32/1986 (lögin eru í endurskoðun).

1.10    Rekstraraðili skal á tveggja ára fresti halda kynningarfund um umhverfismál álversins. Fyrsti fundur skal haldinn ári eftir að starfsemi í kerskála hefst. Reyðarál ehf. skal boða á fundinn fulltrúa Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Vinnueftirlits ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, bæjarstjórn Fjarðabyggðar og íbúasamtaka á svæðinu. Á fundinum skal rekstraraðili kynna varnir gegn mengun ytra umhverfis, árangur í mengunarvörnum og niðurstöður mælinga og umhverfisvöktunar.

1.11    Hætti rekstraraðili starfsemi á gildistíma starfsleyfis þessa skal hann, innan hæfilegs tíma og á eigin kostnað, sjá um að mengandi efni verði fjarlægð af lóð í samræmi við kröfur Hollustuverndar ríkisins.

1.12    Leiði tækniþróun á vegum rekstraraðila til endurnýjunar tækjabúnaðar umfram það sem fjallað er um í þessu starfsleyfi skal rekstraraðili tilkynna Hollustuvernd ríkisins þær breytingar með góðum fyrirvara sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 785/1999.

1.13    Önnur starfsleyfisskyld starfsemi sem kann að verða rekin á vegum Reyðaráls í tengslum við þann rekstur sem tilgreindur er í grein 1.1 skal rekin samkvæmt starfsleyfi fyrir viðkomandi starfsemi frá heilbrigðisnefnd Austurlands.

2 VARNIR GEGN MENGUN YTRA UMHVERFIS

2.1 LOFT

2.1.1    Rekstraraðili skal gera ráðstafanir til að draga úr losun mengunarefna. Mengunarvarnabúnaður skal ætíð vera í notkun. Rykmagn í útblásturslofti, sem berst út í andrúmsloftið frá tilteknum uppsprettum, að undanskildum útblæstri frá kerskálum og þurrhreinsibúnaði þar sem ákvæði greinar 2.1.6 gilda, skal vera minna en 50 mg/Nm³ miðað við eðlilegt loftmagn frá viðkomandi starfsemi.

2.1.2    Hönnun á þekjum og afsogsbúnaði frá rafgreiningarkerum og skipulag við opnun kera skal miða við að minna en 1,0% af kergasi sleppi út í kerskála. Við rekstur keranna skal uppfylla kröfur um útblástursmengun sem fram koma í grein 2.1.6. Einungis skulu notuð forbökuð rafskaut í rafgreiningarkerum.

2.1.3    Súrálsflutningar, mötun á ker og fjöldi spennurisa skal vera með þeim hætti að ryk og kergas sem sleppur út í kerskála verði í lágmarki. Miða skal við að meðaltal spennurisa yfir árið sé undir 0,2 á hvern kerdag.

2.1.4    Reyksöfnunarkerfið skal hannað þannig að afsog aukist frá kerum þar sem kerþekja er opnuð. Minnst ársfjórðungslega skal skrá meðalopnun kera yfir sólarhring (þekjumínútur/kerdag).

2.1.5    Ryk og loftkennt flúoríð í afsogslofti frá rafgreiningarkerum skal hreinsað með súráli og pokasíum. Súrál frá pokasíum skal að jafnaði notað til vinnslu í rafgreiningarkerum. Hönnun hreinsivirkja skal vera með þeim hætti að hreinsun uppfylli ákvæði greinar 2.1.6, jafnvel þótt ein eining hreinsivirkja sé tekin úr sambandi.

2.1.6    Eftir fyrsta starfsár skal magn mengunarefna í útblásturslofti (hreinsuðu gasi frá kerum og ræstilofti frá kerskála) ekki vera yfir neðangreindum mörkum miðað við heildarframleiðslu álversins.

Mengunarefni Ársmeðaltal
kg/t Al
Mánaðarmeðaltal
kg/t Al
Heildarflúoríð 0,35 0,8
Ryk 1,0 1,3
Brennisteinstvíoxíð 12** 12**
    **Tryggja skal að útblástur brennisteinstvíoxíðs sé það lágur að öll umhverfismörk utan þynningarsvæðis sbr. gr. 1.8. séu uppfyllt. Þegar endanleg útfærsla liggur fyrir og áður en rekstur hefst skal fyrirtækið sýna fram á hvernig ákvæði um þynningarsvæði séu uppfyllt samanber grein 2.1.8.

    Gera skal sérstaka áætlun um útblástur við gangsetningu, stöðvun eða bilanir í álverinu. Áætlunin skal lögð fyrir Hollustuvernd ríkisins til yfirferðar og samþykktar a.m.k. einu ári fyrir gangsetningu álversins.
    Útblástur skal ætíð vera í samræmi við ofangreind mörk við reglubundna endurnýjun kera.

2.1.7    Ef mengun mælist yfir mánaðarmeðaltali tvo mánuði í röð eða yfir ársmeðaltali í eitt almanaksár skal Reyðarál ehf., í samráði við Hollustuvernd ríkisins, hrinda í framkvæmd innan eins mánaðar áætlun um að draga úr útblástursmengun. Ef útblástur uppfyllir ekki enn skilyrði greinar 2.1.6 skal Hollustuvernd ríkisins krefjast frekari aðgerða til úrbóta og fylgja þeim eftir samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 7/1998, með síðari breytingum.

2.1.8    Skorsteinar skulu vera nægilega háir og útblásturshraði og hitastig útblásturslofts nægileg til að tryggja að ákvæði um loftgæði og þynningarsvæði sé uppfyllt (Skýring: miðað við núverandi útfærslu þurfa skorsteinar að vera um 80 m háir, hraði útblásturs þarf að vera um 17 m/s, og hitastig útblásturs 80°C).

2.1.9    Innihald brennisteins í eldsneyti skal vera nægilega lágt til að ákvæði greinar 2.1.6 um heildarbrennisteinslosun fyrirtækisins sé uppfyllt.

2.1.10    Rekstraraðili skal senda árlega skýrslu um innihald brennisteins í rafskautum og eldsneyti sem fyrirtækið notar.

2.1.11    Löndunar- og flutningskerfi fyrir súrál til kerskála álversins skal vera lokað með ryksöfnunarbúnaði við tengipunkta þannig að súrálsryk sem berst út í umhverfið sé í lágmarki. Uppskipun á öðrum efnum skal fara fram í samræmi við gildandi reglur um meðhöndlun slíkra efna.

2.2 VATN

2.2.1    Heimilt er að setja í fráveitu frá framleiðslusvæðinu kælivatn frá afriðlum, vélbúnaði og steypuskála og hreinsað húsaskólp, auk yfirborðsvatns.

2.2.2    Fráveitur skulu vera í samræmi við kröfur í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999, með síðari breytingum, og ákvæði í lögum um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, með síðari breytingum og uppfyllt séu ákvæði reglugerðar 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Varnir gegn olíumengun skulu vera samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 35/1994 um ráðstafanir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

2.2.3    Seyru og annan úrgang í hreinsibúnaði fráveitu skal fjarlægja eftir þörfum og endurvinna eða ef nauðsynlegt er koma á viðurkenndan förgunarstað í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 805/1999 um úrgang og nr. 806/1999 um spilliefni, með síðari breytingum.

2.2.4    Leita ber samþykkis Hollustuverndar ríkisins fyrir efnasamböndum sem rekstraraðili hyggst nota í kælikerfum álversins. Sjó má hafa í kælikerfum og til annarra sambærilegra iðnaðarnota og veita aftur í hafið, enda séu uppfyllt ákvæði gr. 2.2.6 og aðrar losunarkröfur varðandi aukið magn annarra efna í viðtaka. Ferskvatn sem nýtt hefur verið til kælingar má veita aftur í ferskvatn í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999, með síðari breytingum.

2.2.5    Yfirborðsvatn frá stöðum þar sem líklegt er talið að mengunarefni geti borist í það skal hreinsað á viðeigandi hátt sbr. ákvæði reglugerða 798/1999 og 35/1994.

2.2.6    Kælivatn sem er leitt frá lokuðu kælikerfi fyrir rafbúnað og steypuskála til sjávar skal uppfylla eftirfarandi kröfur:

Efnisþáttur Hámarksstyrkur
Olía og fita < 15 mg/l
Ál < 20 mg/l
Flúoríð < 50 mg/l
Svifagnir < 50 mg/l

2.3 ÚRGANGUR

2.3.1    Rekstraraðili skal skrá allan úrgang sem til fellur við framleiðsluna, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, með síðari breytingum, og leitast við að nýta endurnýtanlegan hluta hans, svo sem brotajárn, einangrun úr kerum og ofnum, bakskaut, rafskaut, kolefnisríkt ryk og úrgang sem inniheldur ál í miklum mæli. Skila skal skýrslu um þessa skráningu árlega.

2.3.2    Heimilt er að koma föstum úrgangi frá rekstraraðila, sem tilgreindur er í grein 2.5.2, og bíður endurvinnslu, fyrir á geymslusvæði án frárennslis innan lóðar Reyðaráls. Hindra skal aðgang almennings að geymslusvæðinu.

2.3.3    Almennan framleiðsluúrgang, sorp og umbúðir skal endurvinna eða skila á viðurkennda móttökustöð fyrir úrgang. Urðun og brennsla hvers konar úrgangs á verksmiðjusvæðinu er óheimil.

2.3.4    Spilliefnum, öðrum en þeim sem tilgreind eru í grein 2.5.2, skal skila til viðurkenndrar spilliefnamóttöku.

2.4 HÁVAÐI

2.4.1    Rekstraraðili skal draga úr hávaða frá verksmiðjunni eins og kostur er og tryggja að hávaði sé í samræmi við mörk reglugerðar um hávaða nr. 933/1999, með síðari breytingum.

2.5 GEYMSLUSVÆÐI

2.5.1    Á geymslusvæði rekstraraðila er heimilt að geyma spilliefni frá álveri rekstraraðila í Reyðarfirði, sem bíður endurvinnslu og tilgreindur er í grein 2.5.2.

2.5.2    Þær tegundir úrgangs sem heimilt er geyma eru úrgangur frá frumframleiðslu áls og notkunar forskauta samanber kafla 10 03 00 í reglugerð 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, og úrgangsfóðringar og eldföst efni frá frumframleiðslu áls samanber kafla 16 11 00 reglugerðar 184/2002.

2.5.3    Geymslusvæði skal vera þannig úr garði gert að vatn komist ekki að spilliefnum. Úrgang sem getur dreifst með vindi skal þekja þegar í stað eða koma fyrir með öðrum fullnægjandi hætti, Varðandi önnur atriði er vísa til ákvæða í 2.2 og 2.3 í starfsleyfi þessu.

3 MÆLINGAR OG UPPLÝSINGAGJÖF

3.1    Rekstraraðili skal útbúa vöktunaráætlun um mælingar útblásturs, frárennslis og hljóðstigs frá álverinu. Endanleg áætlun skal kynnt Hollustuvernd ríkisins a.m.k. einu ári fyrir gangsetningu álvers og er háð samþykki Hollustuverndar ríkisins. Áætlunin skal ná yfir alla þá þætti sem tilgreindir eru í greinum 2.1.6, 2.2.6, og 2.5 ásamt öðrum þáttum sem kunna að hafa marktæk áhrif á styrk efna í umhverfinu. Drög að áætlun eru í viðauka 2.

    Mæliáætlun og mæliaðferðir skulu endurskoðaðar í fyrsta sinn þegar eitt ár er liðið frá því að mælingar hófust og síðan hvenær sem rekstraraðili eða Hollustuvernd ríkisins óska eftir slíkri endurskoðun.

    Rekstraraðili skal, í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, gera yfirlit yfir þær hávaðauppsprettur sem kunna að valda hávaða yfir leyfilegum mörkum, sbr. grein 2.4.1, utan iðnaðarsvæðisins að Hrauni. Kortlögð skal dreifing hávaða frá starfseminni í samræmi við framangreint yfirlit. Ef gerðar verða meiriháttar breytingar á rekstri sem geta haft áhrif á hávaða frá álverinu, skal endurmeta dreifingu hans.

3.2    Söfnun sýna skal fara fram á stöðum og yfir tímabil þar sem talið er að niðurstöður mælinga komi til með að verða lýsandi fyrir framleiðsluferli álversins. Tíðni mælinga skal vera nægileg til að niðurstöður verði tölfræðilega marktækar fyrir þau mælitímabil sem tilgreind eru í greinum 2.1.6 og 2.2.

3.3    Skrá skal þann tíma sem hreinsivirki álvers eru ekki í rekstri eða biluð ásamt útreikningum á losun mengunarefna þess vegna og skulu þær upplýsingar fylgja í skýrslu rekstraraðila sbr. gr. 3.6.

3.4    Rekstraraðili skal tilkynna Hollustuvernd ríkisins ef niðurstöður mælinga samkvæmt grein 3.1 og viðauka 2 samræmast ekki kröfum í starfsleyfi þessu og staðfesta slíkar upplýsingar skriflega innan sjö daga frá því að niðurstöður hafa verið sannreyndar. Niðurstöður mælinga og efnagreininga skulu varðveittar í eitt ár hið minnsta þannig að gögn séu rekjanleg til grunnniðurstaðna og skulu öll gögn vera aðgengileg Hollustuvernd ríkisins.

3.5    Hollustuvernd ríkisins skal yfirfara niðurstöður mælinga á útblæstri frá álverinu og mæliaðferðir rekstraraðila. Slíkt endurmat skal fara fram eigi sjaldnar en árlega. Hollustuvernd ríkisins eða þriðji aðili viðurkenndur af stofnuninni skal framkvæma nákvæma úttekt á losun mengunarefna frá verksmiðjunni samkvæmt ákvæðum 12. gr. reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit nr. 786/1999, með síðari breytingum.

3.6    Ársfjórðungslega skal rekstraraðili senda Hollustuvernd ríkisins niðurstöður mælinga á útblæstri í samræmi við samþykkta vöktunaráætlun. Niðurstöður mælinga skulu skráðar í sömu einingum og notaðar eru í greinum 2.1.6 og 2.2.6.

3.7    Rekstraraðili skal árlega efna til fundar með, Hollustuvernd ríkisins og Heilbrigðiseftirliti Austurlands til þess að gera grein fyrir niðurstöðum mengunarmælinga samkvæmt grein 3.1, rekstri hreinsibúnaðar, árangri af viðbótarráðstöfunum og öðrum málum tengdum mengunarvörnum.

4 EFTIRLIT MEÐ REKSTRI

4.1    Rekstur, þjónusta og viðhald ofna, kera, þekja og hreinsibúnaðar skal vera í samræmi við áætlanir rekstraraðila. Þær skulu vera aðgengilegar Hollustuvernd ríkisins.

4.2    Hafa skal sérstakt herbergi fyrir eftirlit með hreinsivirkjum.

4.3    Rekstraraðili skal tilkynna Hollustuvernd ríkisins innan 24 klukkustunda um hvers konar bilun eða stöðvun í hreinsibúnaði fyrir kergas sem varir lengur en 1 klukkustund og kemur í veg fyrir að búnaðurinn geti sogað og hreinsað a.m.k. 80% af gasi frá þeim hluta kerskálanna sem hreinsibúnaðurinn þjónar. Ef talið er að mengun af völdum slíkrar bilunar eða stöðvunar fari á einni viku fram úr skammtímameðaltali samkvæmt ákvæðum í grein 2.1.6, reiknað fyrir einn mánuð, skal Hollustuvernd ríkisins krefjast úrbóta og getur fylgt þeim eftir í samræmi við VI kafla laga nr. 7/1998, með síðari breytingum.

4.4    Viðmiðunarmörk fyrir hávaða og losun mengunarefna í vatn og loft skulu gilda við eðlilegar rekstraraðstæður. Til eðlilegra rekstraraðstæðna teljast mengunartoppar og önnur frávik sem teljast til eðlilegra sveiflna í rekstrinum, þ.m.t. þegar notað er óheppilegt hráefni. Ofangreind viðmiðunarmörk gilda einnig þótt upphafleg virkni búnaðar sem dregur úr mengun hafi minnkað vegna slits.

4.5    Rekstraraðili skal setja sér umhverfismarkmið og starfa samkvæmt þeim. Velja má staðlað umhverfisstjórnunarkerfi, t.d. ÍST EN ISO 14001:1996 eða þátttöku í umhverfismálakerfi ESB sbr. reglugerð nr. 321/1996, eða starfa samkvæmt eigin kerfi.

4.6    Rekstraraðili skal færa grænt bókhald og skila inn útstreymisbókhaldi fyrir mengunarefni í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 með síðari breytingum.

5 UMHVERFISVÖKTUN

5.1    Framkvæma skal bakgrunnsrannsóknir og meta ástand umhverfisins áður en rekstur álversins hefst samkvæmt sérstökum samningi milli Hollustuverndar ríkisins og hlutaðeigandi iðnrekenda á iðnaðarsvæðinu að Hrauni eins og lýst er í viðauka 3 með starfsleyfi þessu.

5.2    Rekstraraðili skal standa fyrir mælingum á helstu umhverfisþáttum í nágrenni álversins eftir gangsetningu eins og lýst er í viðauka 3 með starfsleyfi þessu. Slíkar mælingar skulu gerðar samkvæmt áætlun sem rekstraraðili leggur fram og Hollustuvernd ríkisins samþykkir. Við staðsetningu fastra mælistöðva skal einnig gert ráð fyrir mælistöðvum sunnan Reyðarfjarðar.

5.3    Aðrar mælingar eða rannsóknir til samanburðar við bakgrunnsrannsóknir skulu framkvæmdar samkvæmt sérstökum samningi milli Hollustuverndar ríkisins og rekstraraðila.

5.4    Rekstraraðili skal semja og senda Hollustuvernd ríkisins árlega skýrslu um umhverfisvöktun samkvæmt grein 5.2. Hollustuvernd ríkisins skal hafa aðgang að niðurstöðum bakgrunnsrannsókna sem lýst er í grein 5.1.

6 GJÖLD OG KOSTNAÐUR

6.1    Starfsemi Reyðaráls ehf. samkvæmt starfsleyfi þessu fellur í 1. flokk samkvæmt fylgiskjali 1 í reglugerð nr. 785/1999, með síðari breytingum. Rekstraraðili skal greiða Hollustuvernd ríkisins gjald vegna útgáfu og kynningar á starfsleyfi þessu og árlegt eftirlitsgjald samkvæmt gildandi gjaldskrá Hollustuverndar ríkisins.

6.2    Rekstraraðili skal greiða allan kostnað við rannsóknir á mengun í nágrenni álversins samkvæmt grein 3.1 og 5. kafla í starfsleyfi þessu eða sinn hluta af kostnaðinum ef önnur fyrirtæki á svæðinu valda samskonar mengun. Mælingar skulu vera í höndum aðila sem rekstraraðili tilnefnir og Hollustuvernd ríkisins samþykkir.

7 ENDURSKOÐUN

7.1    Starfsleyfi þetta skal endurskoða reglulega í samræmi við 20. gr. reglugerðar 785/1999, ef breyting verður á rekstri í samræmi við ákvæði 18. gr. og ef forsendur breytast í samræmi við ákvæði 21. gr. sömu reglugerðar.

8 GILDISTAKA

8.1    Starfsleyfi þetta, sem veitt er í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 785/1999, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar starfsemi hefst í kerskála álversins og gildir til 1. júní 2020.


VIÐAUKI 1: Þynningarsvæði álvers í Reyðarfirði

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 2: Áætlun um mælingar á útblæstri og frárennsli álvers Reyðaráls.

Mengunarefni Mælistaður Tímabil meðaltals Mælieining Tíðni sýnatöku
Loftkennt flúoríð Hreinsað gas í reykháfi Mánuður kg/t Al Stöðug í einum reykháfi frá hverju hreinsivirki
Flúoríð í ryki Hreinsað gas í reykháfi Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg úr einum reykháfi, nægilega stór sýnaröð til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Ryk Hreinsað gas í reykháfi Árleg marktæk mæling auk þess að fylgst verður með rofi á pokasíum með vöktunarnemum kg/t Al Árleg úr einum reykháfi, nægilega stór sýnaröð til að fá tölfræðilega marktækt gildi. Vöktunarnemar á rofi pokasía verða settir upp í hverjum hluta þurrhreinsivirkja og munu hafa stöðugt eftirlit með ástandi pokasía.
PAH-16 Hreinsað gas í reykháfi Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg úr einum reykháfi, nægilega stór sýnaröð til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Brennisteins- tvíoxíð Gas í reykháfi Mánuður kg/t Al Reiknað út frá massajafnvægi og árlega, nægilega mörg sýni til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Loftkennt flúoríð Í þaki kerskála Mánuður kg/t Al Samfelld mæling á dæmigerðum stöðum
Flúoríð í ryki Ræstiloft frá kerskála Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg, nægilega mörg sýni til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Ryk Ræstiloft frá kerskála Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg, nægilega mörg sýni til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Ryk, annað en frá þurrhreinsi- búnaði Tilteknar uppsprettur Marktæk mæling mg/Nm³ Óregluleg
Olía Kælivatn frá afriðlum og steypuskála Marktæk mæling mg/l Tvisvar á ári


VIÐAUKI 3: Áætlun um umhverfisvöktun vegna álvers Reyðaráls.

ALMENNT

Endanleg áætlun um bakgrunnsrannsóknir og vöktun skal borin undir Hollustuvernd ríkisins tveimur árum fyrir gangsetningu álvers og eru þær áætlanir háðar samþykki Hollustuverndar ríkisins. Mælingarnar skulu framkvæmdar af viðurkenndum aðilum. Áður en rekstur álversins hefst verður grunnrannsóknum á umhverfi og lífríki lokið svo samanburður náist eftir að álverið tekur til starfa. Eftir gangsetningu álversins verður reglulegu eftirliti komið á fót til að vakta umhverfisáhrif vegna losunar lofttegunda, frárennslis og úrgangs þ.á m. skaðlegs úrgangs. Vöktunaráætlunin skal byggð á grunnrannsóknunum og skal hún endurskoðuð í kjölfar niðurstaðna fyrstu þriggja starfsáranna. Í kjölfar endurskoðunarinnar skal gerð langtímaáætlun.

Vöktunaráætlunin eftir gangsetningu álversins miðast við eftirtalin atriði:

     *      Reglulegar mælingar SO 2, flúoríðs (bæði loftkennt og í ryki) ásamt mælingum á svifryki og PAH-16 í andrúmslofti á sömu stöðum og fyrir gangsetningu álvers.
     *      Samfelldar veðurmælingar m.t.t. vindskilyrða og hitastigstiguls.
     *      Rannsóknir vegna áhrifa af tímabundnum, óhagstæðum veðurskilyrðum.
     *      Eftirlit með þekju mosa og fléttna með 6 ára millibili. Töku ljósmynda 3. hvert ár og samanburð við ljósmyndir teknar á sömu stöðum þegar grunnrannsóknir stóðu yfir. Töku sýna samhliða þekjumælingum til efnagreiningar m.t.t. flúoríðs, brennisteins og þungmálma.
     *      Árlegar mælingar á flúoríðinnihaldi í grasi, laufum og barrnálum á vaxtartíma gróðurs.
     *      Sambærilegri könnun á vistfræði og lífríki fjörunnar 2 árum eftir gangsetningu álversins.
     *      Mælingu á PAH-16 og þungmálmum í skelfiski einu sinni innan tveggja ára eftir gangsetningu álversins.
     *      Sýnatöku á botni neðan fjöru til að kanna hvort orðið hafi breytingar á samfélögum botndýra eftir 2 ára rekstur álversins.
     *      Eftirlit með yfirborðs- og grunnvatni fari fram 3. hvern mánuð í 2 ár eftir gangsetningu álversins, á sömu stöðum og skoðaðir voru í grunnrannsóknum, með tilliti til efna- og eðlisfræðilegra þátta svo sem pH, alkalímálma, F, Cl og SO 4.
     *      Mælingar á ákomu PAH-16 á jörð, jafnt að vetri sem sumri, afrennsli þeirra í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum utan sem innan skilgreindra þynningarsvæða.
     *      Greiningu á mögulegum áhrifum flúoríðs á tennur og bein í hausum af sláturfénaði frá völdum bæjum í Reyðarfirði. Árlegri mælingu á S/N hlutfall og flúoríði í beitargróðri og heyi fyrir viðkomandi búfénað.

SAMANTEKT

Rannsóknir fyrir rekstur Vöktun á rekstrartíma
Veðurmælingar Veðurmælingum mun haldið áfram á iðnaðarsvæðinu og á 3 öðrum stöðum í Reyðarfirði (sbr. kafla 3.2.3 í matsskýrslu) Mælingum verður haldið áfram í 2 ár eftir gangsetningu. Endurskoðað í ljósi niðurstaðna
Loft Mælingar á SO2 í andrúmslofti á 3 stöðum innan og utan þynningarsvæðis
Mæling grunngilda loftkennds flúoríðs, ryks og flúoríðs í andrúmslofti og styrkur PAH-16 í loftbornu ryki á sömu stöðum innan og utan þynningarsvæðis
Mælingar á styrk F, Cl, SO4, og PAH-16 í úrkomu, ásamt sýrustigi (pH)
Mælingum verður haldið áfram í 2 ár eftir gangsetningu. Endurskoðað í ljósi niðurstaðna
Grunnvatn Mælt sýrustig (pH) í vatni úr jarðvegi í nágrenni iðnaðarsvæðisins. Auk þess styrkur F, Cl, SO4 og PAH-16 mældur á stöðum í innan við 2 km fjarlægð frá því Mælingum verður haldið áfram í 2 ár eftir gangsetningu. Endurskoðað í ljósi niðurstaðna
Yfirborðsvatn Mælingar á efnasamsetningu yfirborðsvatns á nálægum vatnasviðum
Viðbótarmælingar á styrk PAH-16 og/eða Borneff 6 að vori í leysingum
Viðbótarmælingar á styrk PAH-16 og/eða Borneff 6 í yfirborðssnjó að vetri þegar færi gefst á 3 stöðum innan og utan þynningarsvæðis
Mælingum verður haldið áfram í 2 ár eftir gangsetningu. Endurskoðað í ljósi niðurstaðna
Gróður Loftmyndir teknar til samanburðar Endurtekið síðar ef nauðsynlegt þykir
Ljósmyndir teknar af fléttum á klettum og klöppum og af gróðri á fyrirfram völdum stöðum Sömu staðirnir ljósmyndaðir annað hvert ár
Grunngildi flúoríðs mæld í grasi, laufum og barrnálum á fyrirfram völdum stöðum Árlegar mælingar
Mælingar á styrk þungmálma, flúoríðs og brennisteins í mosa Mælt annað hvert ár
Mælingar á flúoríði og S/N hlutfalli í grasi og heyi Árlegar mælingar
Sjávarset og botndýr Grunngildi PAH-16 í botnseti og botndýrum Uppsöfnun í sjávarseti og lífverum utan sem innan skilgreindra þynningarsvæða mæld 2 og 6 árum eftir gangsetningu álversins. Endurskoðað í ljósi niðurstaðna
Dýralíf Rannsókn á vistkerfi fjöru og sjávar á fyrirfram völdum stöðum Endurskoðað í ljósi niðurstaðna að 2 árum liðnum
Mælingar á flúoríði í beinum grasbíta. Athugun á mögulegum áhrifum flúoríðs á tennur og bein Árlegar mælingar. Endurskoðað í ljósi niðurstaðna


Hollustuvernd ríkisins 17.12.2002.

Greinargerð með tillögu að
starfsleyfi samkvæmt reglugerð fyrir
álver í Reyðarfirði.


1 Inngangur
Þann 4. desember 2002 sótti Reyðarál öðru sinni formlega um starfsleyfi fyrir álver í Reyðarfirði vegna breyttrar tilhögunar, þar sem nýir eigendur koma nú að fyrirtækinu. Nú er gert ráð fyrir álveri með framleiðslu allt að 322.000 tonn/ári af áli í kerskálum og tengdum steypuskálum, en ekki er gert ráð fyrir rafskautaverksmiðju og ekki er gert ráð fyrir urðunarstað fyrir kerbrot og annan úrgang sem tengist álverum sérstaklega. Núverandi áætlanir eru tilgreindar sem áætlanir Alcoa-Reyðaráls til aðgreiningar frá eldri áætlunum.

Fyrir um ári var auglýst tillaga að starfsleyfi fyrir álver með þeirri tilhögun sem fyrri eigendur ráðgerðu. Unnið var úr athugasemdum af hálfu Hollustuverndar ríkisins, og leyfið var tilbúið til útgáfu, en var þó ekki gefið formlega út þar sem fyrirtækið óskaði þá eftir því að útgáfu yrði frestað.

Við nýja tilhögun er ekki gert ráð fyrir rafskautaverksmiðju og urðunarstað fyrir kerbrot. Ennfremur er ekki ráðgerð vothreinsun til að draga úr útblæstri brennissteinsdíoxíðs. Þess í stað verður öðrum aðferðum beitt til að tryggja að það þynningarsvæði vegna loftmengunar af völdum brennisteinsdíoxíðs, sem áður hefur verið skilgreint sé virt. Um þær aðgerðir er nánar fjallað í umfjöllun um greinar 2.1.6 og 2.1.8 í starfsleyfinu.

Meðfylgjandi tillaga að starfsleyfi er með þeim fyrirvara að framkvæmdin verði ekki úrskurðuð í nýtt mat á umhverfisáhrifum, og starfsleyfið verður ekki gefið út fyrr en slíkur úrskurður liggur endanlega fyrir.

Starfsleyfistillögurnar eru byggðar á eftirfarandi atriðum:
     *      Eldri tillögu um álver í Reyðarfirði og þeim athugasemdum sem gerðar voru við þær tillögur.
     *      Skýrslu fyrirtækisins um samanburð á núverandi áætlunum um álver í Reyðarfirði og fyrri áætlunum.
     *      Kynningu á nýjum útreikningum á dreifingu loftmengunarefna frá fyrirtækinu miðað við háa skorsteina og lágt brennisteinsinnihald í rafskautum.

Meðfylgjandi eru umsókn Reyðaráls um starfsleyfi, skýrsla um samanburð á fyrirhuguðu álveri Alcoa-Reyðaráls og Reyðaráls, afrit af kynningarglæru á nýjum útreikningum á dreifingu loftmengunar frá fyrirtækinu, skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 420.000 árstonna álver og fylgigögn með þeirri skýrslu og úrskurður Skipulagsstofnunar um þá framkvæmd. Í þeim gögnum er gerð grein fyrir mengun frá álframleiðslu, hver losun mengunarefna verður frá álframleiðslunni í Reyðarfirði, áhrif mengunarefna frá álframleiðslu í umhverfinu og öðrum atriðum. Í þessari greinargerð er svo fjallað um innihald nokkurra greina í starfsleyfistillögunum.

Gert er ráð fyrir að endanleg skýrsla um dreifingu loftmengunarefna frá fyrirtækinu miðað við háa skorsteina og lágt brennisteinsinnihald í rafskautum liggi fyrir um miðjan janúar 2003. Stofnunin mun þá boða til almenns fundar þar sem þessar starfsleyfistillögur verða kynntar samhliða því að niðurstöður dreifireikninganna verði kynntar á aðgengilegri hátt, en meginniðurstöðurnar eru í meðfylgjandi kynningarglærum.

Starfsleyfistillögurnar liggja frammi til umsagnar til 18. febrúar 2003. Hollustuvernd ríkisins verður lögð niður þann 31. desember 2002 og tekur þá Umhverfisstofnun við hlutverki hennar. Umhverfisstofnun verður til húsa að Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík og athugasemdir sem gerðar verða eftir 31. desember 2002 skal því stíla á Umhverfisstofnun. Endanlegt starfsleyfi verður þá væntanlega gefið út af Umhverfisstofnun.

2 Athugasemdir við einstakar greinar starfsleyfistillagnanna.

2.1 Almennt

2.1.1 Grein 1.1 og titill starfsleyfis

Starfsleyfi fyrir álver með afköst allt að 322.000 tonn á ári af áli. Ekki er gert ráð fyrir rafskautverksmiðju og því munu áhrif PAH efna verða minni. Jafnframt er nú gert ráð fyrir því að flytja út til endurvinnslu kerbrot og annan slíkan úrgang og því er ekki gert ráð fyrir urðunarstað, en í stað hans verður aðstaða þar sem úrgangur sem bíður endurvinnslu verður geymdur á þurrum stað. Þá er gert ráð fyrir hefðbundinni meðhöndlun rafskauta, kera og annars búnaðar, súráls, raflausnar og annarra hráefna.

2.1.2 Grein 1.2
Álverið verður byggt í samræmi við bestu tækni sem völ er á miðað við það sem kynnt hefur verið í Evrópu og Norður-Ameríku.

2.1.3 Grein 1.3
Gerð er krafa um viðbótarráðstafanir til að draga úr mengun útblásturs og til að tryggja að ákvæði um þynningarsvæði haldi. Þær ráðstafanir sem um ræðir eru meðal annars viðbótar sogkerfi fyrir ker sem opnuð eru og háir skorsteinar fyrir útblástur kerskála.

2.1.4 Grein 1.9 og 1.10
Hér er þynningarsvæði verksmiðjunnar skilgreint í sjó og í lofti, og eru þau óbreytt frá því sem áður var gert ráð fyrir. Nú eru ný ákvæði um loftgæði komin inn í reglugerð 251/2002. Hér er þynningarsvæði byggt á 0,2 µg/m³ af vetnisflúoríð sem meðaltalsstyrkur í andrúmslofti yfir tímabilið frá 1. apríl til 30 september, en mælt var með því í niðurstöðum um mat á umhverfisáhrifum fyrir álver í Reyðarfirði, frekar en þau 0,3 µg/m³ sem almennt hefur verið miðað við hérlendis og gert er ráð fyrir að gildi almennt um álver.

2.1.5 Grein 1.13
Önnur starfsemi, sem er ekki nauðsynlega hluti af álveri, svo sem rekstur vélaverkstæðis, þvottahúss og annað sambærilegt, skal rekin í samræmi við reglur viðkomandi heilbrigðisnefndar, ef um slíka starfsemi verður að ræða á svæðinu.

2.2 Varnir gegn mengun

2.2.1 Grein 2.1.4
Þegar þekja er opnuð er sog frá keri aukið til að tryggja að sem minnst ryk og gas sleppi út í skálann.

2.2.2 Grein 2.1.6
Mengunarmörkin í tillögunum eru sett miðað við bestu tækni og viðbótarráðstafanir. Mörk fyrir flúoríð eru sett þannig að heildarflúoríðlosun verði sambærileg við það sem áður var gert ráð fyrir. Mörk fyrir brennisteinsdíoxíð eru sett 12 kg/tonn af áli og er þá miðað við að ákveðna skorsteinshæð, útstreymishraða og hitastig útblásturs eins og athugasemdir við grein 2.1.8 fjalla nánar um hér fyrir neðan.

2.2.3 Grein 2.1.7
Úrræði Hollustuverndar ríkisins ef fyrirtækið uppfyllir ekki kröfur eru meðal annars tilgreind hér og síðan nánar í grein 4.3.

2.2.4 Grein 2.1.8
Til að tryggja að þynningarsvæðið haldi og að heilsuverndarmörk séu uppfyllt alls staðar þarf að tryggja að lágmarkshæð skorsteina sé þannig að loftmengandi efnum sé dreift nægilega og efnin lendi ekki í niðurstreymi við byggingar eða landslag. Í þeim reikningum sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að skorsteinar sé 78 m háir og nái því upp í um 92 m hæð yfir sjó. Ennfremur er áætlað að útstreymishraði lofts um skorstein sé um 17 m/s og hitastig útblásturs um 80°C (sjá glæru 40). Hér er í fyrsta sinn hérlendis gert ráð fyrir háum skorsteinum með góðum útblásturshraða til að tryggja dreifingu loftmengunar. Endanleg útfærsla getur orðið önnur, þ.e. annað samspil skorsteinshæðar, útblásturshraða, hitastigs og brennisteinslosunar, en nokkuð ljóst er að hægt er að tryggja að umhverfismörk séu virt alls staðar með aðferð sem þessari. Miðað við þessar forsendur er styrkur flúoríðs að meðaltali undir 0,2 µg/m³ alls staðar utan þynningarsvæðisins. Styrkur brennisteinsdíoxíðs miðað við þessar forsendur fer yfir mörk fyrir klukkustundargildi 15 sinnum á ári (leyfður fjöldi er 24 sinnum á ári). Farið verður yfir sólarhringsmörk brennisteinsdíoxíð þrisvar á ári (leyft er sjö sinnum á ári). Mörk fyrir ársmeðaltal brennisteinsdíoxíðs eru alltaf virt (sjá glæru 53). Miðað við þessar niðurstöður og ákvæði reglugerðar 251/2002 verður gerð krafa um samfelldar mælingar á brennisteinsdíoxíð í umhverfinu á þeim stöðum þar sem gera má ráð fyrir að styrkur verði mestur.

2.2.5 Grein 2.2.1
Hér er tilgreind heimiluð fráveita. Ekki er gert ráð fyrir vothreinsun.

2.2.6 Greinar 2.3 og 2.5
Hér er fjallað um úrgang og geymslu á úrgangi sem bíður endurvinnslu. Gert er ráð fyrir að úrgangur verði fluttur út tvisvar á ári til endurvinnslu. Geyma verður úrgang á þurrum loftræstum stað, t.d. í húsi eða gámi.

2.3 Mælingar og upplýsingagjöf

2.3.1 Grein 3.1 og Viðauki 2
Drög að mæliáætlun er tilgreind í Viðauka 2. Gert er ráð fyrir að gaskennd flúoríð sé mælt stöðugt frá hverri þurrhreinsistöð. Árlega verði gerð tölfræðilega marktæk könnun og útreikningar á ryki, flúoríði í ryki og brennisteinsdíoxíði frá einum reykháfi og kerskálaþaki. Jafnframt er gert ráð fyrir að í hvert pokahús í þurrhreinsistöð sé komið fyrir mælum sem greina hvort gat sé komið að síupoka. Gert er ráð fyrir að hönnuð verði viðunandi aðstaða til mælinga á gaskenndu flúoríði og verði það mælt samfellt á dæmigerðum stöðum í kerskála. Þessi mæliáætlun skal frágengin áður en starfsemi hefst.

2.4 Eftirlit með rekstri

2.4.1 Grein 4.3
Ef svo ólíklega vill til að meiriháttar bilun verði í þurrhreinsivirki, en rekstur kerskála sé áfram óbreyttur getur Hollustuvernd strax gripið til aðgerða, en þarf ekki að bíða eftir að mánaðarmeðaltal hafi verið tvo mánuði yfir viðmiðunarmörkum sbr. grein 2.1.7. Aðgerðir sem grípa má til eru áminning með fresti um úrbætur, dagsektir ef fyrirmælum er ekki sinnt eða að ekki er fylgt tímasettri áætlun um úrbætur og loks takmörkun eða algera stöðvun framleiðslu í samræmi við kafla VI í lögum 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og kafla IX í reglugerð 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit.

2.5 Umhverfisvöktun

2.5.1 Greinar 5.1, 5.2 og 5.3
Reglubundnar mælingar bundnar í starfsleyfi eru samkvæmt grein 3.1 og 5.1 til 5.3. Grunnur að vöktunaráætlun kemur fram í viðauka 3. Nýir eigendur gera ráð fyrir nokkrum breytingum á þeim aðferðum sem áætlað er að nota við vöktunina, miðað við það sem þeir þekkja betur, en sá rammi sem unnið er eftir er óbreyttur. Hollustuvernd ríkisins miðar við að áætlun um grunnmælingar og vöktun þurfi að liggja fyrir ári áður en framkvæmdir hefjast.

2.6 Gjöld og kostnaður

2.6.1 Greinar 6.1 og 6.2
Fyrirtækið ber þann kostnað sem hlýst af starfsleyfi þessu

2.7 Endurskoðun

2.7.1 Grein 7.1
Regluleg endurskoðun starfsleyfa á að fara fram á fjögra ára festi, en auk þess má endurskoða starfsleyfi ef forsendur breytast eða ef breyting verður á rekstri.

2.8 Gildistaka

2.8.1 Grein 8.1
Gert er ráð fyrir að starfsleyfið taki gildi þegar starfsemi hefst í kerskála álversins og að það gildi til 1. júní 2020.

Fylgiskjal VIII.


Fjármálaráðuneytið,
efnahagsskrifstofa:


Þjóðhagsleg áhrif stóriðju- og virkjunarframkvæmda.

(10. janúar 2003.)

Inngangur.
    Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur að beiðni iðnaðarráðuneytis lagt mat á þjóðhagsleg áhrif fjárfestinga í virkjunum, byggingar álvers á Reyðarfirði og stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga. Athugunin nær til eftirfarandi kosta:
     1.      Að 90.000 tonna stækkun álvers Norðuráls komi til framkvæmda árið 2005 og 60.000 tonna stækkun árið 2009 en ekki verði af byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði.
     2.      Að Alcoa byggi 322.000 tonna álverksmiðju á Reyðarfirði sem hefji framleiðslu árið 2007 en ekki verði af stækkun Norðuráls.
     3.      Að 90.000 tonna stækkun álvers Norðuráls komi til framkvæmda árið 2005 og 60.000 tonna stækkun árið 2009. Jafnframt byggi Alcoa 322.000 tonna álverksmiðju á Reyðarfirði sem hefji framleiðslu árið 2007.
    Þessi þrjú tilvik eru skoðuð með samanburði við grunndæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir slíkum framkvæmdum. Auk þess eru skoðuð tvö tilvik sem sýna áhrif sérstakra mótvægisaðgerða stjórnvalda sem miða að því að jafna þær sveiflur í efnahagslífinu sem framkvæmdirnar valda. Í niðurstöðum eru tölur settar fram sem frávik frá grunndæminu og sýna því ekki heildarniðurstöðu fyrir viðkomandi hagstærð. Frávikin eru sett fram sem prósentur en ekki sem hlutfallsleg breyting á þeirri stærð sem um er fjallað.

1    Niðurstöður.

Almennt.

     *      Í þessari athugun er í meginatriðum stuðst við sömu aðferðir og beitt hefur verið við hliðstæðar athuganir á undanförnum árum. Niðurstöður eru birtar sem frávik frá tilteknu grunndæmi, sem er án álvers- og virkjunarframkvæmda, en það er samhljóða þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem kynnt var í desemberbyrjun 2002.
     *      Staða þjóðarbúsins í grunndæmi skiptir miklu máli fyrir niðurstöðu framreikninganna. Þannig má til dæmis gera ráð fyrir að þrýstingur á verðbólgu verði minni en ella ef atvinnuleysi reynist meira en grunndæmið segir til um.
     *      Mikilvæg forsenda í grunndæminu er að gengisvísitala krónunnar verði 130 stig allt framkvæmdatímabilið sem er ívið lægra en meðaltal ársins 2002.
     *      Mikilvægt er að hafa í huga að framreikningar af þessu tagi eru óvissir. Hér er um svo miklar framkvæmdir að ræða með tilliti til stærðar íslenska hagkerfisins að erfitt er að fanga efnahagsleg áhrif þeirra til hlítar í þjóðhagslíkani.


Stækkun Norðuráls.

     *      Horfur eru á að framleiðslustig þjóðar- og landsframleiðslu verði 1½% hærra á framkvæmdatíma fyrri áfanga stækkunar Norðuráls, 2003-2006, en í grunndæmi 1 . Í seinni áfanga stækkunar er reiknað með að framleiðslustigið verði 1% hærra en í grunndæmi.
     *      Áhrifin á árlegan hagvöxt eru mun minni 2 . Langtímaáhrif á landsframleiðslu verða að líkindum ekki fjarri ½%.
     *      Áætlað er að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum verði 12% meiri á fyrri hluta framkvæmdatímans en ella og 5% meiri þegar seinni áfangi stækkunar stendur yfir. Reikna má með minna atvinnuleysi á fyrri hluta framkvæmdatímans og heldur meiri þrýstingi til hækkunar verðlags en ella. Þessi áhrif eru talin verða tiltölulega hófleg og verðbólga mun að öllum líkindum haldast innan þolmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabanka allt framkvæmdatímabilið. Er þá gengið út frá því að verðbólga verði 2–2½% í grunndæmi.
     *      Innflutningur fjárfestingarvöru og aukin eftirspurn valda auknum viðskiptahalla á framkvæmdatíma og má ætla að áhrifin nemi um 1½% af landsframleiðslu að meðaltali. Heildarútflutningur gæti hins vegar orðið 5% hærri en í grunndæmi fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda.

Álver Alcoa.

     *      Horfur eru á að framleiðslustig þjóðar- og landsframleiðslu verði 3% hærra en í grunndæmi á framkvæmdatíma 2003–2006. Árlegur hagvöxtur gæti jafnframt orðið 1½% meiri. Til lengdar má reikna með að landsframleiðsla verði 1% hærri en ella og þjóðarframleiðsla ¾% hærri.
     *      Heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum gæti orðið rúmlega 30% meiri á framkvæmdatíma en ella og þegar framkvæmdir standa sem hæst, á árunum 2005 og 2006, má búast við að fjárfesting verði 47% meiri en í grunndæmi.
     *      Mikil uppsveifla í fjárfestingu þessi ár og niðursveifla að loknum framkvæmdum gera ríkar kröfur til hagstjórnar. Árlegur hagvöxtur gæti orðið nálægt 5% árin 2005 og 2006 og verðbólga um 4½-6½% án mótvægisaðgerða. Á hinn bóginn er hætta á að hagvöxtur minnki nokkuð á árunum 2007–2010 og verði 1% lægri en í grunndæmi.
     *      Talsverðar sveiflur verða einnig á vinnumarkaði. Þannig gæti atvinnuleysi orðið 1% minna en í grunndæmi þegar áhrif af framkvæmdum eru sem mest. Hins vegar gæti atvinnuleysið aukist um 1½% umfram grunndæmi þegar framkvæmdum lýkur.
     *      Viðskiptajöfnuður gæti orðið 4½% af landsframleiðslu óhagstæðari en í grunndæmi á framkvæmdatíma. Af þessum sökum er líklegt að erlend staða þjóðarbúsins verði um 15% lakari sem hlutfall af landsframleiðslu við lok framkvæmda. Aukinn útflutningur áls skapar hins vegar forsendur til að jafnt og stöðugt gangi á erlendar skuldir eftir að framkvæmdum lýkur. Miðað við óbreytt nafngengi íslensku krónunnar má reikna með að útflutningur verði 10–14% meiri næstu tvo áratugina eftir að framkvæmdum lýkur.

Álver Alcoa og stækkun Norðuráls.

     *      Reikna má með að framleiðslustig lands- og þjóðarframleiðslu verði 3–4% hærra en í grunndæmi á tímabilinu 2003–2010. Árlegur hagvöxtur verður líklega 1¾% meiri en í grunndæmi á framkvæmdatíma 2003–2006. Til lengdar er líklegt að þjóðarframleiðsla verði 1% hærri en í grunndæmi og landsframleiðsla 1¾% hærri.
     *      Horfur eru á að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum verði um 67% meiri en í grunndæmi á árunum 2005 og 2006 og að jafnaði 25% hærri 2003–2010. Miklar breytingar í fjárfestingu valda snörpum sveiflum í þjóðarbúskapnum. Hagvöxtur gæti orðið 5–7% þegar mest lætur og verðbólga 5–8%. Snöggur samdráttur í framkvæmdum gæti hins vegar valdið tímabundinni stöðnun. Gera má ráð fyrir að viðskiptajöfnuður á framkvæmdatíma 2003–2010 verði óhagstæðari en í grunndæmi sem nemur 5% af landsframleiðslu að jafnaði.
     *      Eins og í fyrri dæmum skapar aukinn álútflutningur forsendu til viðsnúnings á viðskiptajöfnuði og hærra raungengis en í grunndæmi. Miðað við óbreytt nafngengi má gera ráð fyrir að árlegar tekjur af útflutningi verði um 14–20% meiri en í grunndæmi tímabilið 2010–2025.

Áhrif mótvægisaðgerða.

     *      Þessar framkvæmdir, einkum bygging álvers Alcoa, munu hafa umtalsverð áhrif á framvindu efnahagsmála hér á landi, einkum þegar framkvæmdir standa sem hæst. Mikilvægt er að hagstjórn taki mið af þessum aðstæðum. Það á bæði við um stjórn peningamála og ríkisfjármála.
     *      Vaxtahækkun og samdráttur í opinberum framkvæmdum hamla gegn aukinni innlendri eftirspurn og þar með verðbólgu. Til dæmis gæti 2% hækkun raunvaxta 3 leitt til þess að verðbólga yrði ½–1% lægri að meðaltali en ella, þ.e. án aðgerða. Verði jafnframt dregið úr fjárfestingu hins opinbera um 10% yrðu áhrifin enn sterkari, eða sem nemur lækkun verðbólgu um 1½–2½% að meðaltali árin 2005 og 2006. Samanlagt gætu slíkar aðgerðir því lækkað verðbólgu um 2–3½% og þannig stuðlað að því að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist.
     *      Líklegt er að þessir útreikningar vanmeti fremur en ofmeti áhrif vaxtabreytinga á verðbólgu þar sem áhrifin eru hér metin á grundvelli sögulegra gagna í þjóðhagslíkani. Þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á efnahagslífinu á undanförnum árum hafa stuðlað að skilvirkari stjórn peningamála en áður, ekki síst hvað varðar áhrif vaxtabreytinga á þróun efnahagslífsins.

2    Aðferðafræði, helstu forsendur og fyrirvarar.
    Í þessari athugun er í meginatriðum stuðst við sömu aðferðir og beitt hefur verið við hliðstæðar athuganir á undanförnum árum, meðal annars er sama þjóðhagslíkan notað. Niðurstöður eru almennt birtar sem frávik frá tilteknu grunndæmi, sem er án álvers- og virkjunarframkvæmda, en það er samhljóða þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem kynnt var í desemberbyrjun 2002. Þar er gert ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 1¾% á árinu 2003 og 2½–3% á árunum 2004–2007. Jafnframt er reiknað með að verðbólga verði að jafnaði rúmlega 2% og atvinnuleysi á bilinu 2–2½%. Staða þjóðarbúsins í grunndæmi skiptir miklu máli fyrir niðurstöðu framreikninganna. Þannig má til dæmis gera ráð fyrir að þrýstingur á verðbólgu verði minni en ella ef atvinnuleysi reynist meira en grunndæmið segir til um.
    Framreikningarnir byggja annars vegar á þeim almennu efnahagslegu forsendum sem grunndæmið hvílir á og hins vegar upplýsingum framkvæmdaraðila um stofnkostnað, mannafla og tímasetningar vegna byggingar virkjana og álverksmiðja. Mikilvæg forsenda í grunndæminu er að gengisvísitala krónunnar verði 130 stig allt framkvæmdatímabilið sem er ívið lægra en meðaltal ársins 2002. Önnur mikilvæg forsenda í grunndæmi er að samneysla vaxi árlega um 2½% og fjárfesting hins opinbera um 1½%. Í öllum þremur tilvikunum er gert ráð fyrir að fjórðungur af vinnuaflinu vegna byggingar virkjana og verksmiðja komi frá útlöndum og yfirgefi landið að framkvæmdum loknum. Einnig er miðað við að 85% tekna erlenda vinnuaflsins verði ráðstafað utan Íslands. Þá er reiknað með að 65% aðfanga við fjárfestingu í álverum og 53% aðfanga vegna fjárfestingar í orkuverum séu innflutt. Reynist þessi hlutföll hærri má gera ráð fyrir minni þrýstingi á verðbólgu en ella. Nánar er fjallað um áhrif breyttra forsendna á niðurstöður framreikninganna í lokakafla.
    Stofnkostnaður framkvæmda miðast við verðlag innanlands á árinu 2001 og gengi Bandaríkjadollars í nóvember 2002 (85 kr), þar sem kostnaðartölur hafa verið gefnar upp í erlendri mynt.
    Langtímaáhrif framkvæmdanna eru metin með hliðsjón af niðurstöðum fyrri athugana sem meðal annars leiða í ljós að framleiðslustig landsframleiðslu hækkar til lengri tíma litið vegna þess að framkvæmdirnar auka framleiðni þjóðarbúsins, þ.e. reiknað er með að framleiðni í álframleiðslu sé meiri en sem nemur meðalframleiðni í þjóðarbúskapnum.
    Við túlkun á niðurstöðunum er mikilvægt að hafa í huga að framreikningar af þessu tagi eru óvissir. Þannig er í a.m.k. tveimur tilvikanna um svo miklar framkvæmdir að ræða með tilliti til stærðar íslenska hagkerfisins að erfitt er að fanga efnahagsleg áhrif þeirra til hlítar í þjóðhagslíkani. Þetta á sérstaklega við um nákvæmni tímasetningar og stærðargráðu áhrifanna innan tímabilsins, þ.e. frá einu ári til annars. Líklegra er þó að mat á heildaráhrifunum yfir allt tímabilið sé ekki eins mikilli óvissu háð.
    Hér á eftir er fyrst fjallað um áhrif stækkunar Norðuráls eingöngu. Síðan um byggingu álvers Alcoa eingöngu. Loks er fjallað um þessa tvo kosti sameiginlega.

3    Stækkun Norðuráls.
    Hér eru skoðuð áhrif þess að framleiðslugeta Norðuráls verði aukin um 90 þúsund tonn árið 2005 og um 60 þúsund tonn til viðbótar árið 2009. Áætlað er að stækkunin krefjist nálægt 90 milljarða króna fjárfestingar í álveri og virkjunum. Meginþungi fyrri hluta framkvæmda verður á árunum 2004 og 2005 en seinni áfangi framkvæmda verður mestur árin 2008 og 2009. Samkvæmt þessu yrði heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum 12% hærri en annars hefði orðið á árunum 2003–2006 og um fimmtungi hærri en í grunndæmi þegar framkvæmdir standa sem hæst. Árleg mannaflaþörf vegna framkvæmdanna er um 400 ársverk að jafnaði á tímabilinu 2003–2006 eða sem nemur um ¼% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Reiknað er með 240 viðbótarstörfum í álveri Norðuráls við Grundartanga í kjölfar stækkunarinnar. Innflutt fjárfestingarvara vegna framkvæmdanna og aukin umsvif í þjóðarbúskapnum valda auknum viðskiptahalla meðan á framkvæmdum stendur sem nemur að jafnaði 2% af landsframleiðslu frá grunndæmi á tímabilinu 2003–2006.

Tafla 1. Áhrif stækkunar Norðuráls.
Frávik frá grunndæmi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Niðurstöður þessa dæmis eru að bæði landsframleiðsla og þjóðarframleiðsla verði 1½% hærri að jafnaði á fyrri hluta framkvæmdatímans en í grunndæmi. Áhrifin á árlegan hagvöxt eru mun minni. Þar sem stækkun Norðuráls verður samkvæmt áætlun í tveimur aðgreindum áföngum er ekki að vænta alvarlegs samdráttar í lok framkvæmda þótt gera megi ráð fyrir minni hagvexti en í grunndæmi á fyrsta ári eftir fyrri áfanga framkvæmda.
    Horfur eru á að verðlagsáhrif verði fremur hófleg og að 4% þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka haldi án þess að gripið verði til sérstakra aðgerða. Athugunin bendir þó til að verðbólga yrði nálægt þolmörkunum árið 2005. Atvinnuleysi gæti orðið ¼% lægra en í grunndæmi.
    Til lengdar er ekki ástæða til að gera ráð fyrir því að stækkun Norðuráls hafi áhrif á verðbólgu eða atvinnustig. Hins vegar má reikna með jákvæðum áhrifum á framleiðslu og útflutning. Líkur eru á að lands- og þjóðarframleiðsla geti orðið ½% hærri til lengdar vegna stækkunar Norðuráls. Aukning útflutnings veltur á raungengi og álverði. Miðað við þá þróun álverðs 4 sem hér er gengið út frá og óbreytt gengi íslensku krónunnar verður útflutningur 5% hærri en í grunndæmi á tímabilinu 2005–2025. Sé miðað við lægra raungengi en niðurstöður útreikninga leiða í ljós má gera ráð fyrir hagstæðari útkomu í útflutningi og viðskiptajöfnuði. Þetta á að sjálfsögðu einnig við dæmin sem greint er frá hér á eftir.

4    Álver Alcoa.
    Áætlaður stofnkostnaður vegna fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju Alcoa á Reyðarfirði nemur um 165 milljörðum króna. Samkvæmt þeim áætlunum sem gengið er út frá í þessari athugun verður byggingu verksmiðjunnar lokið árið 2007 en fullri afkastagetu með 322 þúsund tonna ársframleiðslu verður náð á árinu 2008. Fjárfesting vegna þessara framkvæmda nær hámarki á árunum 2005 og 2006 en þá fellur til ríflega helmingur af heildarstofnkostnaði. Áætlað er að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum verði rúmlega 30% meiri en í grunndæmi á framkvæmdatímanum 2003–2006 og nálægt 50% meiri árin 2005– 2006. Árleg mannaflaþörf vegna framkvæmdanna nemur rúmlega 1.250 ársverkum að jafnaði á tímabilinu 2003-2006 eða um 0,8% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Auk þess munu óbein áhrif þessara framkvæmda leiða til fjölgunar starfa sem nemur 800-900 umfram grunndæmi á þessu tímabili. Þegar upp er staðið má hins vegar reikna með rúmlega 500 störfum í álveri Alcoa á Reyðarfirði.

Tafla 2. Áhrif álvers Alcoa.
Frávik frá grunndæmi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Athugunin bendir til að landsframleiðsla á framkvæmdatíma verði að jafnaði 3% hærri en í grunndæminu. Horfur eru á að á árunum 2005 og 2006 verði árlegur hagvöxtur um 5%. Jafnframt eru líkur á að án mótvægisaðgerða verði þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka rofin. Hins vegar má reikna með að árlegur hagvöxtur á árunum 2007–2009, þ.e. eftir að framkvæmdum lýkur, verði innan við 1½% verði ekki gripið til sérstakra mótvægisaðgerða. Atvinnuástandið endurspeglar hagvaxtarþróunina og atvinnuleysi mun því minnka verulega árin 2005 og 2006 en aukast að sama skapi eftir þann tíma.
    Aukinn innflutningur fjárfestingarvara vegna framkvæmdanna og aukin umsvif í þjóðarbúskapnum munu valda auknum viðskiptahalla á meðan á framkvæmdum stendur sem nemur að jafnaði 4½% af landsframleiðslu á tímabilinu 2003–2006. Aukinn álútflutningur mun hins vegar hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og heildarútflutningur fyrsta áratuginn eftir að framkvæmdum lýkur verður 12% hærri en í grunndæmi. Til langs tíma má reikna með að þjóðarframleiðsla verði ¾% hærri en í grunndæmi og landsframleiðsla 1% hærri.

5    Álver Alcoa og stækkun Norðuráls.
    Hér er gert ráð fyrir að stækkun Norðuráls og bygging álvers Alcoa fari að mestu leyti fram á sama tíma. Það yrðu einhverjar mestu framkvæmdir sem hér hafa orðið. Gangi þessi áform eftir mun álframleiðsla hér á landi nær þrefaldast. Heildarfjárfesting vegna þessara álvera ásamt virkjunum á tímabilinu 2003–2010 myndi nema um 250 milljörðum króna. Árleg vinnuaflsnotkun er áætluð um 2.000 ársverk, eða ríflega 1¼% af heildarframboði vinnuafls yfir tímabilið 2004–2006. Á þessu árabili yrði fjárfesting alls í hagkerfinu um 55% meiri en í grunndæmi. Hagvöxtur gæti orðið 5–7% þegar hann verður sem mestur og atvinnuleysi um eða innan við 1%.

Tafla 3. Áhrif álvers Alcoa og stækkunar Norðuráls.
Frávik frá grunndæmi.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2007 mun óhjákvæmilega gæta stöðnunar í hagvexti þegar framkvæmdir dragast mjög mikið saman en það má alfarið rekja til hins feiknarlega umfangs framkvæmdanna. Framkvæmdir fara síðan aftur af stað 2008 vegna seinni áfanga stækkunar Norðuráls og niðurstöður þjóðhagslíkansins sýna að þjóðarbúið stefnir í aukið jafnvægi upp úr 2010 með hagvöxt sem mælist að jafnaði um 3% á ári.
    Athuganir fjármálaráðuneytisins benda til að landsframleiðsla verði að meðaltali 4% hærri á framkvæmdatímanum 2003–2010 en í grunndæminu. Til langs tíma má reikna með jákvæðum áhrifum á framleiðslu, útflutning, viðskiptajöfnuð og raungengi þar sem m.a. landsframleiðsla gæti orðið 1¾% hærri en í grunndæmi.

6    Mótvægisaðgerðir.
    Fyrirhugaðar álvers- og virkjunarframkvæmdir munu hafa umtalsverð áhrif á framvindu efnahagsmála á næstu árum. Jafnframt munu miklar sveiflur í fjárfestingu milli ára valda töluverðum sveiflum í efnahagslífinu. Mikilvægt er að hagstjórn taki mið af þessum aðstæðum. Hér á eftir er gerð grein fyrir áhrifum hugsanlegra aðgerða til að hamla gegn þessum sveiflum. Rétt er að taka fram að hér er einungis um afmörkuð dæmi að ræða þar sem leitast er við að sýna hvers megnug þau hagstjórnartæki eru sem stjórnvöld hafa til umráða. Enn fremur er ástæða til að ítreka þá fyrirvara sem áður voru nefndir og lúta að umfangi framkvæmdanna með tilliti til stærðar íslenska hagkerfisins.
    Hvernig seytla áhrif þessara framkvæmda út í hagkerfið? Einföld lýsing gæti verið eitthvað á þessa leið: Framkvæmdirnar kalla á mikið innstreymi erlends fjármagns, annars vegar í formi erlends lánsfjár innlendra aðila, einkum Landsvirkjunar, vegna virkjunarframkvæmda og hins vegar vegna fjármögnunar álversframkvæmdanna. Þessi síðasttaldi hluti getur verið hvort sem er í formi erlends lánsfjár eigenda eða eiginfjárframlaga. Bein afleiðing þessa er að eftirspurn eftir vinnuafli og öðrum framleiðsluþáttum eykst sem aftur leiðir til þess að atvinnuleysi minnkar. Ef eftirspurnin er meiri en sem nemur minnkun atvinnuleysis, eins og hér á við, verður þrýstingur á laun til hækkunar. Framboð á gjaldeyri eykst sem leiðir til hækkunar á gengi íslensku krónunnar. Viðskiptahalli er að sjálfsögðu óhjákvæmilegur meðan verið er að flytja inn þær erlendu vörur sem notaðar eru í framkvæmdirnar. Erlendar skuldir þjóðarbúsins aukast einnig en hér þarf þó að hafa í huga að ábyrgðaraðilarnir hvað varðar sjálfar álversframkvæmdirnar eru erlend fyrirtæki, þ.e. Norðurál og Alcoa.
    Þegar meginhluti framkvæmdanna er genginn yfir verður óhjákvæmilegur samdráttur sem meðal annars kemur fram í minni eftirspurn eftir vinnuafli, minni hagvexti og lægri verðbólgu. Staðan gagnvart útlöndum fer hins vegar batnandi þegar fjárfestingin fer að skila útflutningstekjum sem að lokum standa undir afborgunum af þeim erlendu lánum sem tekin hafa verið til að fjármagna fjárfestinguna. Þegar samdráttarskeiðinu í lok framkvæmda er lokið tekur við hægari aðlögun hagkerfisins að nýrri stöðu þar sem framleiðslustig hagkerfisins hefur vaxið sem nemur hinni nýju framleiðslu og þeim heildaráhrifum sem hún hefur.
    Á mynd 1 er sýnt hvernig heildarframleiðsla á áli mun þróast á næstu árum fyrir þá þrjá kosti sem hér eru til athugunar auk grunndæmis með óbreyttri framleiðslu. Þar kemur meðal annars fram að tilkoma álvers Alcoa mun leiða til meira en tvöföldunar álframleiðslu í tonnum talið og enn meira að teknu tilliti til stækkunar Norðuráls. Af þessu má ráða hve umfang framkvæmdanna er mikið.

Mynd 1. Áætlað heildarframleiðslumagn á áli á Íslandi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Efnahagsleg áhrif þessara þriggja kosta eru einnig mismikil eins og fram hefur komið. Á mynd 2 eru dregnar saman helstu niðurstöður fyrir þau tvö tímabil sem hér hefur verið fjallað um.

Mynd 2. Spá um hagvöxt, fjárfestingu og útflutning – frávik frá grunndæmi.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    
    Hvaða hagstjórnarviðbrögð eru möguleg við þessar aðstæður? Í fyrsta lagi getur Seðlabankinn hækkað vexti til þess að hamla gegn verðbólgu og draga úr þenslu. Í öðru lagi geta bæði ríki og sveitarfélög lagt sitt af mörkum með því meðal annars að draga úr eða fresta fjárfestingum á meðan mest gengur á en auka þær að sama skapi þegar framkvæmdum lýkur.
    Ekki virðist vera tilefni til að beita mótvægisaðgerðum komi aðeins til stækkunar Norðuráls. Annað gildir um hin tvö tilfellin þar sem niðurstöður framreikninga benda til þess að um mun kröftugri hagsveiflu verði að ræða. Í báðum tilvikum hafa verið skoðuð áhrif af eftirfarandi aðgerðum:

Mótvægisaðgerð 2003–2006 2007–2010
Breyting fjárfestingar hins opinbera -10% 10%
Breyting raunvaxta 2% -1½%

    Aðgerðirnar miðast við meðalfrávik frá grunndæmi og eru einungis settar fram með þessum hætti til að gefa hugmynd um heildaráhrif. Þetta á jafnt við um umfang aðgerðanna og samsetningu. Að teknu tilliti til þessara aðgerða verða helstu niðurstöður eftirfarandi:


Álver Alcoa.

    Tveggja prósenta hækkun launvaxta á fyrra tímabilinu leiðir til þess að verðbólga yrði a.m.k. ½% lægri að meðaltali en án aðgerða. Verði jafnframt dregið úr fjárfestingu hins opinbera um 10% verða áhrifin enn sterkari, eða sem nemur að meðaltali 1½% til lækkunar verðbólgu árin 2005 og 2006. Þrátt fyrir þessar aðgerðir er hætta á að verðbólgan fari yfir verðbólguþolmörk Seðlabanka. Aðgerðirnar halda aftur af hagvexti á fyrra tímabilinu en lækkun vaxta og aukin fjárfesting á síðara tímabilinu leiðir hins vegar til meiri hagvaxtar en ella.

Tafla 4. Áhrif álvers Alcoa að teknu tilliti til aðgerða.
Frávik frá grunndæmi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sé gert ráð fyrir að helmingur þess vinnuafls sem starfar tímabundið við framkvæmdirnar verði erlent í stað fjórðungs samkvæmt þessum útreikningum myndi það leiða að jafnaði til rúmlega ¼% lægri verðbólgu en ella á tímabilinu 2003–2006.


Álver Alcoa og stækkun Norðuráls.

    Með hliðstæðum hætti og að framan greinir mun 2% hækkun raunvaxta draga úr verðbólgu sem nemur ¾% að jafnaði tímabilið 2003–2006. Sé dregið úr fjárfestingu hins opinbera í sama mæli, þ.e. um 10%, verður verðbólgan 1¼% lægri að jafnaði á sama tímabili. Samkvæmt þessum útreikningum myndu aðgerðirnar ekki duga einar og sér til að halda verðbólgu innan þolmarka. Hér þarf þó að hafa í huga að spágildi líkansins um þróunina frá einu ári til annars er nokkurri óvissu háð og því ber að taka þessum tölum með fyrirvara. Mótaðgerðir á tímabilinu 2007–2010 með gagnstæðum formerkjum hvað snertir raunvexti og fjárfestingu hins opinbera myndu síðan draga verulega úr niðursveiflu í þjóðarbúskapnum.

Tafla 5. Áhrif álvers Alcoa og stækkunar Norðuráls að teknu tilliti til aðgerða.
Frávik frá grunndæmi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Sé gert ráð fyrir að helmingur þess vinnuafls sem starfar tímabundið við framkvæmdirnar verði erlent í stað fjórðungs samkvæmt þessum útreikningum myndi það leiða að jafnaði til ½% lægri verðbólgu en ella á tímabilinu 2003–2006.


Nokkrir fyrirvarar við útreikningana.

    Niðurstöður þessara tveggja dæma undirstrika mikilvægi virkrar hagstjórnar á framkvæmdatímanum, jafnt í opinberum fjármálum sem peningamálum. Rétt er að undirstrika að hér eru einungis skoðuð tvö tiltekin dæmi til að sýna hugsanlega stærðargráðu slíkra aðgerða.
    Það er hins vegar rétt að hafa þann fyrirvara á þessum útreikningum að þeir kunna að vanmeta áhrif vaxtabreytinganna á verðbólgu. Ástæðan er sú að þessi áhrif eru í líkaninu metin á grundvelli sögulegra gagna. Þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á efnahagslífinu á undanförnum árum, ekki síst á sviði peningamála, hafa stuðlað að aukinni næmni ýmissa hagstærða gagnvart vaxtabreytingum. Þetta hefur gert stjórn peningamála mun virkari en áður, ekki síst hvað varðar áhrif vaxtabreytinga á þróun efnahagslífsins.
    Til viðbótar má nefna að í framreikningunum er miðað við að nafngengi krónunnar sé óbreytt allt tímabilið. Þetta er mikilvæg reikniforsenda sem gefur færi á samanburði þessara mismunandi kosta bæði innbyrðis og við grunndæmið. Hins vegar má búast við því að í aðdraganda og við upphaf framkvæmda muni gengi krónunnar hækka vegna mikils innstreymis erlends fjármagns, sérstaklega í stærri verkefnunum þar sem reiknað er með álveri Alcoa. Afar erfitt er að áætla hversu mikil styrking gengisins gæti orðið en hún hefur áhrif til lækkunar verðbólgu. Einnig má gera ráð fyrir að rekstrarskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina verði lakari vegna hækkunar raungengis. Það úrræði sem grípa má til í þeim tilgangi að draga úr hækkun á gengi krónunnar er að Seðlabanki Íslands kaupi gjaldeyri. Þörf á slíkum inngripum verður að meta með hliðsjón af öðrum aðgerðum sem hugsanlega verður gripið til. Fylgiskjal IX.


Nýsir hf.,
ráðgjafarþjónusta:


MAT Á SAMFÉLAGSLEGUM OG EFNAHAGSLEGUM
ÁHRIFUM ÁLVERS ALCOA Í REYÐARFIRÐI

(Nóvember 2002.)


1. INNGANGUR

1.1 LÝSING VERKEFNIS
    Væntanlegt álver í Reyðarfirði er verkefni Alcoa, sem er stærsta álfyrirtæki í heimi. Höfuðstöðvar þess eru í Bandaríkjunum. Alcoa er með yfir 400 starfsstöðvar í 38 löndum og eru starfsmenn þess í heild um 129 þúsund.
    Áform Alcoa eru þau að reisa álver með 322 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Gert er ráð fyrir að vinna við byggingu álversins hefjist á árinu 2004 og að álverið hefji framleiðslu á árinu 2007. Álverið á að rísa á iðnaðarlóð í landi Sómastaðagerðis, Sómastaða, Hrauns og Flateyrar í norðanverðum Reyðarfirði. Staðurinn er utan sjónlínu þéttbýlis í Reyðarfirði og á Eskifirði, hafnaraðstæður eru ákjósanlegar fyrir stór skip og landrými nóg. Tvær 400 kV háspennulínur verða lagðar að álverinu úr Fljótsdal og gerð verður höfn á iðnaðarsvæðinu.
    Áformað er að rafmagn til álversins komi frá Kárahnjúkavirkjun sem Landsvirkjun er að undirbúa. Kárahnjúkavirkjun með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal er um 630 MW og getur framleitt um 4.470 GWst/ári. Það hentar vel fyrir raforkuþörf álversins.
    Áætlað er að bygging álversins kosti um 100 milljarða króna. Helstu mannvirki álversins verða eftirfarandi: turnar fyrir súrál, kerskálar þar sem ál er unnið úr súráli, steypuskáli, skautsmiðja, spennistöðvar og þjónustubyggingar (verkstæði, vöruskemmur, mötuneyti, rannsóknastofur og skrifstofubyggingar), og þurrhreinsivirki. Ströngustu mengunarkröfum verður framfylgt við álverið.
    Markaður fyrir framleiðslu álversins verður fyrst og fremst í Evrópu en einnig í Bandaríkjunum. Vaxandi eftirspurn og jafnvel skortur er á áli á báðum mörkuðum og mun Alcoa selja framleiðslu álversins í gegnum sölukerfi sitt.
    Áætlað er að 322 þús. tonna álver skapi 420 heilsársstörf. Vegna orlofs, veikinda og annarra forfalla er áætlað að bæta þurfi við þá tölu 8%, sem þýðir í heild um 454 ársverk. Álverið mun skapa margvísleg viðskiptatækifæri fyrir þjónustufyrirtæki á Austurlandi og innanlands. Gera má ráð fyrir að álverið skapi með beinum og óbeinum hætti um 750 störf á Mið-Austurlandi eftir að það er komið í fullan rekstur.

1.2 MARKMIÐ
    Markmið þessa mats á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum væntanlegs álvers eru eftirfarandi:
          Í fyrsta lagi, könnun á samfélagslegum og efnahagslegum aðstæðum á Mið-Austurlandi þar sem fyrirhugað álver verður reist.
          Í öðru lagi verður lagt mat á samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fyrirhugaðs álvers, bæði meðan á byggingartíma þess stendur og eftir að það hefur starfsemi.
          Í þriðja lagi verða settar fram ábendingar um skipulag uppbyggingar á Mið-Austurlandi ef álverið verður reist.
          Í fjórða lagi verður lagt mat á þróun byggðar og samfélags á Mið-Austurlandi ef ekkert verður af áformum um byggingu álvers.
          Í fimmta lagi verða metin uppsöfnuð áhrif annarra verkefna á Mið-Austurlandi sem unnið verður að samtímis. Má þar nefna Kárahnjúkavirkjun, háspennulínur frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar, höfn við álverið og væntanleg jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

1.3 MATSSVÆÐI
    Matssvæðið er skilgreint sem Mið-Austurland en innan þess svæðis getur fólk með góðu móti sótt vinnu í væntanlegt álver eftir að rekstur þess hefst. Á meðan framkvæmdum við álverið stendur mun áhrifanna hins vegar gæta um allt Austurland. Þess vegna er í skýrslunni einnig fjallað nokkuð um Austurland allt eftir því sem við á. Hins vegar verður afmörkun matssvæðis alltaf annmörkum háð. Þannig má t.d. gera ráð fyrir því að áhrif byggingar álvers og virkjunar á atvinnusköpun og viðskipti muni jafnvel verða meiri á Akureyri en Hornafirði, einfaldlega vegna þess að Akureyri er mun fjölmennara byggðarlag og þar er mikill fjöldi iðnaðarmanna, verktaka og þjónustufyrirtækja.
    Austurland er í þessari athugun skilgreint sem allt fyrrverandi Austurlandskjördæmi en það nær frá Langanesi til Skeiðarársands. Alls bjuggu um 11.800 manns á Austurlandi þann 1. des. 2001.
    Mið-Austurland er skilgreint í þessari athugun sem svæðið er nær frá og með Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystra í norðri til og með Breiðdals í suðri. Landfræðileg mörk þess eru skýr í norðri, þ.e. um Smjörfjöll og Hellisheiði. Mörk þess til suðurs eru skilgreind sem mörkin milli Breiðdalshrepps og Djúpavogshrepps. Frá Breiðdalsvík, syðsta sveitarfélaginu, er vegalengdin nú u.þ.b. 105 km að fyrirhuguðu álveri að Hrauni í Reyðarfirði en hún styttist í u.þ.b. 71 km þegar jarðgöngin verða gerð milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Á Mið- Austurlandi bjuggu 8.060 íbúar þann 1. des. 2001.

1.4 AÐFERÐAFRÆÐI
    Í þessari matsskýrslu er byggt á svipaðri aðferðafræði og í mati á samfélagslegum og hagrænum áhrifum sem unnið hefur verið að í öðrum löndum, sbr. heimildaskrá. Með þessum matsaðferðum má sjá fyrir væntanleg félagsleg og hagræn áhrif af fyrirhugaðri framkvæmd á nærliggjandi byggð og meta þá almannahagsmuni sem um er að ræða. Þessar aðferðir tengjast einnig skipulagsvinnu fyrir viðkomandi sveitarfélag og nærliggjandi svæði. Í þeim felst ekki aðeins mat á kostnaði og áhrifum sem fylgir væntanlegu verkefni heldur er reynt, með samráði við þá sem hagsmuna eiga að gæta, að draga úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum og vinna að því að jákvæðu áhrifin vegi þyngra. Séu neikvæðar afleiðingar fyrirsjáanlegar getur samráðið falist í því að móta aðferðir við mat á því hvernig bæta megi fyrir þær.
    Mat á samfélagslegum áhrifum af verkefni sem þessu felur í sér þrjá þætti:
     Grunnlýsing. Lýst er núverandi samfélagi á Mið-Austurlandi og helstu fyrirsjáanlegum breytingum. M.a. er fjallað um efnahags- og atvinnulíf, vinnuafl, mannfjölda, húsnæðismál, þjónustu einkaaðila og grunngerð, opinbera þjónustu, þjónustu við atvinnulífið, land- og auðlindanýtingu, menningu og lífshætti á svæðinu.
     Lýsing verkefnis. Verkefninu er lýst í grófum dráttum og þeim áhrifum sem það kemur til með að hafa á umhverfi sitt. Sérstök áhersla er lögð á þau atriði sem eru líklegust til að hafa mikil áhrif, byggt á könnun á heimildum, skoðanakönnun, sérfræðiþekkingu og viðtölum við forystumenn á svæðinu og almenning. Lýsing verkefnisins er ekki aðeins bundin við staðreyndir (þ.e. staðarval, aðstæður og vinnuafl) heldur er þar einnig að finna hugmyndir um nálgun, stefnu og aðgerðir sem munu hafa áhrif á einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu.
     Samfélagsleg áhrif. Metin eru líkleg samfélagsleg áhrif, byggð á félagslegum, efnahagslegum og landfræðilegum athugunum og sambærilegum athugunum erlendis. Geta stjórnvalda, einkafyrirtækja og annarra á svæðinu til að bregðast við nýjum þörfum sem verkefnið leiðir af sér verður lögð til grundvallar mati á samfélagslegum áhrifum. Sjónum verður sérstaklega beint að því að skilgreina öll hugsanleg vandkvæði og hvernig taka megi á þeim.
    Framvinda athugunarinnar er samt sem áður ekki órofin heldur var haft samráð við Fjárfestingarstofuna orkusvið, Alcoa og ýmsa forystumenn á Austurlandi um málefni og ábendingar sem fram komu á fyrstu stigum athugunarinnar er leiddu síðan til frekari upplýsingaöflunar og nákvæmari athugana.
    Grunnupplýsinga var aflað eftir mörgum leiðum. Farnar voru margar vettvangsferðir í þeim tilgangi að kynna sér svæðið, rætt var við ýmsa forystumenn og haldnir með þeim fundi. Safnað var gögnum og tölulegum upplýsingum, aðallega frá opinberum aðilum. Þá vann Félagsvísindastofnun á árinu 2000 fyrir Reyðarál hf. að könnunum meðal ungs fólks 18–28 ára sem þá var búsett á Austurlandi og meðal fólks sem flutti brott af Austurlandi á árunum 1995–1999 og hafði ekki snúið til baka. Margvíslegar ályktanir eru dregnar af þessum könnunum um viðhorf fólks, væntingar og væntanleg viðbrögð ef af verkefninu verður.

1.5 ÞÁTTTAKENDUR
    Aðalhöfundur skýrslunnar er Sigfús Jónsson ráðgjafi hjá Nýsi hf., en Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir, ráðgjafi hjá Nýsi hf., vann einnig að gagnasöfnun og gerð skýrslunnar. Mark Shrimpton, Community Resource Services Ltd., St. John´s á Nýfundnalandi veitti sérfræðilega ráðgjöf um uppbyggingu skýrslunnar og matsaðferðir.
    Fulltrúar Alcoa og Eyjólfur Árni Rafnsson, verkfræðingur hjá Hönnun hf., sem er verkefnisstjóri mats á umhverfisáhrifum vegna álversins, lögðu fram mikilvægar upplýsingar vegna vinnu við skýrsluna.
    Vegna mats á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum verkefnisins var komið á fót ráðgjafarnefnd sem í áttu sæti fulltrúar þeirra sveitarfélaga á Austurlandi sem verða fyrir mestum áhrifum vegna fyrirhugaðs álvers, menn úr atvinnulífi á Austurlandi, auk fulltrúa Alcoa, Landsvirkjunar, Fjárfestingarstofu og Iðnaðarráðuneytis. Ráðgjafarnefndin hittist nokkrum sinnum og fór yfir öll þau efnisatriði sem eru til umfjöllunar í skýrslunni. Nefndin kom með margar gagnlegar ábendingar og var samstarf við hana ómetanlegt við gerð skýrslunnar.
    Auk þeirra mikilvægu upplýsinga sem fram koma í könnunum Félagsvísindastofnunar, lögðu ýmsar stofnanir fram tölulegar upplýsingar. Má þar nefna sveitarfélögin á svæðinu, Byggðastofnun, Hagstofuna, Fasteignamat ríkisins, Vegagerðina, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Skattstjóra Austurlands.

1.6 INNIHALD SKÝRSLU
    Skýrslunni er skipt niður í fjóra meginhluta auk inngangskafla. Í 2. kafla er almenn lýsing á samfélagslegum og efnahagslegum aðstæðum á Austurlandi. Í 3. kafla er lýst framtíðarsýn á Austurlandi án álvers. Í 4. kafla er fjallað um áætluð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fyrirhugaðs álvers. Skýrslan er einnig samin á ensku.

2. LÝSING Á SAMFÉLAGS- OG EFNAHAGSLEGUM ÞÁTTUM

2.1 AUSTURLAND OG MIÐ-AUSTURLAND
    Öll umfjöllun um Austurland og Mið-Austurland í þessum kafla er með þeim hætti að fyrrnefnda svæðið er skilgreint sem fyrrverandi Austurlandskjördæmi frá Langanesi í norðri að Skeiðarársandi í suðri, en hið síðarnefnda Mið-Austurland, nær frá Fljótsdalshéraði til Breiðdals, þ.e. kjördæmið að undanskildum sveitarfélögunum í Bakkafirði, Vopnafirði, Djúpavogi og Hornafirði.

2.1.1 INNGANGUR
    Á Austurlandi öllu búa um 11.800 manns. Byggðin er mjög dreifð. Um ¾ íbúanna búa við sjávarsíðuna og um fjórðungur á Fljótsdalshéraði. Við sjávarsíðuna eru 12 þéttbýlisstaðir en 2 samliggjandi þéttbýlisstaðir eru á Héraði.
    Atvinnuástand er nokkuð gott á Austurlandi þegar á heildina er litið, en mismunandi eftir byggðarlögum. Meðaltekjur á Austurlandi eru svipaðar og á landsbyggðinni en lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Tekjurnar eru lágar í sveitum en mun hærri í útgerðarbæjum. Nokkur öflug sjávarútvegsfyrirtæki eru á Austurlandi og stendur sjávarútvegur nokkuð traustum fótum í fjórðungnum. Á Austurlandi eru um 400 bújarðir, en landbúnaður hefur almennt dregist saman á undanförnum árum og áratugum. Ferðaþjónusta er vaxandi á svæðinu.
    Helstu veikleikar Austurlands eru einhæfni í atvinnulífi í samanburði við höfuðborgarsvæðið, hátt hlutfall láglaunastarfa og fækkun fólks vegna þess að þeir sem flytja á brott úr fjórðungnum hafa verið fleiri en aðfluttir. Töluvert er af árstíðarbundnum störfum fyrir ófaglært fólk svo sem í fiskvinnu, ferðaþjónustu, byggingarstarfsemi og sláturhúsum. Þessi störf freista almennt ekki unga fólksins sem flytur í stórum stíl til höfuðborgarsvæðisins vegna þeirra miklu tækifæra sem þar eru til náms og starfa. Ungar konur á Austurlandi virðast sjá færri náms- og starfsmöguleika í sinni heimabyggð og flytja á brott í enn meira mæli en ungir karlmenn. Þessi mikli brottflutningur hæfileikaríks ungs fólks hefur neikvæð áhrif á samfélagið, þ.e. aldursskipting íbúanna verður óhagstæð og ójafnvægi verður í fjölda karla og kvenna. Það leiðir einnig til þess að fólk með góða menntun vantar til að byggja upp ný fyrirtæki og efla með því atvinnulíf á Austurlandi.
    Samgöngur eru almennt góðar. Á Egilsstöðum er varaflugvöllur fyrir millilandaflug og reglulegt áætlunarflug er til Egilsstaða og Hornafjarðar. Skipaleiðir til og frá Evrópu eru styttri til Austurlands en annarra landshluta og hafnaraðstaða er yfirleitt góð í fjórðungnum. Ferjan Norræna siglir á milli Seyðisfjarðar og Færeyja, Danmerkur og Noregs á sumrin. Ný og stærri ferja verður tekin í notkun árið 2003. Margir þjóðvegir sem tengja þéttbýlisstaði á Austurlandi eru nú lagðir bundnu slitlagi. Áform eru um miklar vegabætur svo sem jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og vegabætur milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og á virkjanasvæðinu. Þá er kominn vegur milli Akureyrar og Austurlands sem opinn er allt árið.
    Opinber þjónusta svo sem heilbrigðisþjónusta og skólar er í nokkuð góðu horfi, svo og félagsleg þjónusta, tómstundastarf og menningarlíf. Fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er almennt traust og í Fjarðabyggð, Austur-Héraði og Hornafirði hafa nokkur sveitarfélög sameinast í öflugar heildir. Rekstur opinberrar þjónustu er frekar óhagkvæmur vegna fámennis og dreifðrar byggðar.
    Lágt fasteignaverð og takmarkaðir möguleikar á endursölu, ásamt háum fjármagnskostnaði, valda því m.a. að lítið hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði síðustu 10 árin á Austurlandi.

2.1.2 ÍBÚAÞRÓUN
    Á mynd 2.1 má sjá breytingar á fjölda íbúa á árabilinu 1990–2001, annars vegar á Austurlandi og hins vegar á Mið-Austurlandi.

Mynd 2.1 Fjöldi íbúa á Austurlandi og Mið-Austurlandi 1990–2001.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hinn 1. desember 2001 bjuggu 11.798 íbúar á Austurlandi Þetta eru um 4,1 % landsmanna. Karlar voru 424 fleiri en konur, eða 7,5% fleiri.
    Á sama tíma voru 8.060 íbúar á Mið-Austurlandi, rúm 2,8% landsmanna. Karlar voru 250 fleiri en konur, þ.e. 6,4%.
    Stærstu þéttbýlisstaðirnir á Mið-Austurlandi eru Egilsstaðir/Fellabær (sem eru í sitt hvoru sveitarfélaginu), Fjarðabyggð (Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður), Seyðisfjörður og Fáskrúðsfjörður. Auk þess búa í þorpunum þremur, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Borgarfirði eystra samtals um 500–550 íbúar. Íbúar í sveitum eru 1.100–1.200 talsins.
    Á árinu 1971 bjuggu 8.247 íbúar á Mið-Austurlandi. Á árabilinu 1971–2001 fækkaði því íbúunum örlítið. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um yfir 30%, eða u.þ.b. 1% á ári. Sé litið til þessa tímabils má skipta síðustu 30 árum í þrennt og gildir þá í meginatriðum það sama um Austurland allt og Mið-Austurland, en eftirfarandi tölur eiga við síðarnefnda svæðið.
     1.      Vaxtarskeið 1971–1979. Íbúum fjölgaði úr 8.247 í 9.080 eða um 10%.
     2.      Stöðnunartímabil 1979–1990. Íbúum fjölgaði mjög hægt, þ.e. frá 9.080 í 9.215 eða um 1,5%.
     3.      Samdráttarskeið frá 1990. Íbúum fækkaði úr 9.215 árið 1990 í 8.060 árið 2001 en það er um 14%, eða 1,3% á ári.
    Breytingar hafa verið mismunandi eftir byggðalögum en ef myndin er einfölduð má segja að hún hafi einkennst af vexti á Egilsstöðum og í Fellabæ, stöðnun eða fækkun á útgerðarstöðum og töluverðri fólksfækkun í sveitum.

2.1.2.1 Aldursdreifing
    Á mynd 2.2 er aldursdreifing á Mið-Austurlandi sýnd. Myndin sýnir jafnframt aldursskiptingu fyrir landið í heild.
    Það sem einkennir aldursskiptingu íbúanna á Mið-Austurlandi er eftirfarandi:
     1.      Aldurshópurinn 50–70 ára er fremur fámennur. Þetta er einkennandi fyrir þjóðina þar sem fæðingatíðni á árunum frá 1930 til 1940 og á árum síðari heimsstyrjaldar var lág. Hinn 1. desember 2001 voru 529 íbúar á svæðinu á aldrinum 45–49 ára, en aðeins 445 á aldrinum 55–59 ára. Það bendir því allt til þess að á næstu 10–15 árum muni 50–65 ára fólki fjölga nokkuð á vinnumarkaði.
     2.      Börn á aldrinum 0–4 ára eru færri en börn á aldrinum 5–14 ára. Árgangar 0–4 ára barna á svæðinu eru að meðaltali 104 einstaklingar en árgangar 5–14 ára að meðaltali 130 einstaklingar.
     3.      Hlutfall kvenna í aldurshópnum 20–34 ára og karla 25–34 ára er nokkuð lægra en landsmeðaltal. Þess vegna er fjöldi barna 0–4 ára einnig undir landmeðaltali.

Mynd 2.2 Aldursdreifing á Mið-Austurlandi og landinu öllu 1. janúar 2002.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2.1.2.2 Búferlaflutningar
    Tölur um búferlaflutninga á Mið-Austurlandi á árunum 1971–2000 sýna að 2.768 fleiri fluttu frá svæðinu en til þess eða 95 að meðaltali á ári. Þannig hefur svæðið tapað rúmlega 1% íbúanna á ári vegna flutninga 1971–2000. Fjöldi þeirra sem flutti á brott umfram aðflutta var um 0,6% á ári 1971–1980, 1,0% árlega á árunum 1981–1990, en um 2,2% á hverju ári 1991–2000. Á Mið-Austurlandi var fjöldi þeirra sem flutti á brott umfram aðflutta 209 íbúar árið 2000 eða 2,6%. Mikill meirihluti þeirra flutti á suðvesturhornið.
    Tölur um búferlaflutninga miðast við einstök sveitarfélög. Alls fluttu 16.238 úr sínu sveitarfélagi á tímabilinu 1971–1999 en á sama tíma fluttu 13.445 til þessara sömu sveitarfélaga. Af þeim sem fluttust búferlum flutti um 1/3 milli sveitarfélaga á Mið-Austurlandi. Því má áætla að um 10.800 íbúar hafi flutt frá Mið-Austurlandi á árunum 1971–1999 en tæplega 9.000 íbúar hafi flutt inn á svæðið. Mikið var um að sömu einstaklingar flyttust til og frá svæðinu á þessu tímabili.
    Á mynd 2.3 má sjá fjölda þeirra sem fluttu á brott frá Mið-Austurlandi umfram aðflutta sl. 11 ár en þeir voru 2.120 á þessu tímabili, flestir 1991, 1997 og 1998.

Mynd 2.3 Fjöldi þeirra sem fluttu á brott umfram aðflutta á Mið-Austurlandi.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í nóvember 1997 voru birtar niðurstöður rannsóknar um orsakir búferlaflutninga sem Félagsvísindastofnun HÍ vann fyrir Byggðastofnun. Rannsóknin sýndi að aðeins 50,5% þeirra sem höfðu fæðst á Mið-Austurlandi og voru á lífi 1992 bjuggu þar enn. Erlendis bjuggu 3,7% og 31,8% á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er af þessu að þrátt fyrir að íbúar á Mið-Austurlandi væru ánægðir með margt, t.d. veðurfar, heilsugæslu, þjónustu leikskóla og grunnskóla og þjónustu við aldraða þá hefur mikill vöxtur í atvinnulífi á höfuðborgarsvæðinu haft mikið aðdráttarafl og virkað sterkt þegar fólk hefur metið kosti og galla þess að flytja búferlum.
    Sem hluti af rannsókn Félagsvísindastofnunar var gerð sérstök könnun, þar sem 1.800 einstaklingar víðs vegar af landinu voru spurðir um lífsskilyrði sín, með það í huga að þeir sem væru óánægðir væru líklegastir til að flytjast á brott. Könnunin sýndi að þeir sem voru hvað óánægðastir voru bændur, sjómenn, fiskvinnslufólk og fólk á aldrinum 18–24 ára. Könnunin sýndi enn fremur að íbúar í fjölmennum byggðarlögum voru mun ánægðari með lífsskilyrði sín en íbúar í fámennum byggðarlögum. Fólk sem bjó í bæjum og þorpum með 200–1.000 íbúum var almennt óánægt með aðstæður sínar. Það kvartaði m.a. um háan orkukostnað, hátt verð á vörum og þjónustu, skort á tækifærum til framhaldsmenntunar í byggðarlaginu, skort á tækifærum til tómstundaiðkana og takmörkuð atvinnutækifæri. Einnig kvartaði fólk um lágt og lækkandi fasteignaverð. Íbúar í sveitum voru almennt ánægðari með aðstæður sínar.
    Um 20% af þeim sem tóku þátt í könnuninni á Mið-Austurlandi sögðust hafa hugleitt að flytjast burt frá svæðinu. Enn fremur sýndi könnunin að fólk á Mið-Austurlandi var almennt ánægðara með veðurfar í sinni heimabyggð en fólk í öðrum byggðarlögum á landinu. Það var einnig ánægt með heilsugæslu á svæðinu, þjónustu leikskóla, grunnskólana og þjónustu við eldri borgara.
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði í nóvember og desember 2000 fyrir Reyðarál hf. afstöðu þeirra sem fluttu á brott frá Mið-Austurlandi 1995–1999 til álvers í Reyðarfirði og hvaða áhrif það gæti haft á búsetuskilyrði á svæðinu. Send var póstkönnun til fólks á aldrinum 20–49 ára. Úr þeim hópi var tekið 500 manna úrtak. Þegar þeir sem höfðu flutt aftur til Austurlands og aðrir sem ekki áttu heima í úrtakinu höfðu verið felldir burt voru 487 manns eftir. Af þeim 487 sem eftir voru í úrtakinu svöruðu 236 manns spurningalistum, eða um 48% svarhlutfall.
    Þessi hópur mat atvinnuaðstæður á Austurlandi í samanburði við það byggðarlag er það hafði flutt til ekki mikils. Um 73% voru mjög eða frekar óánægðir með skort á fjölbreytni í atvinnulífi á Austurlandi miðað við byggðarlagið sem það hafði flutt til. Um 62% voru mjög eða frekar óánægðir með tekjuöflunarmöguleika fyrir austan samanborið við nýja heimabyggð. Atvinnuöryggi á Austurlandi kom þó vel út í samanburði við önnur byggðarlög.
    Helstu ástæður þess að fólk flutti frá Austurlandi var að það fór í nám og að því fannst fá og einhæf atvinnutækifæri í fyrrum byggðarlagi sínu fyrir austan. Þá nefndu margir persónulegar ástæður. Í rannsókn Stefáns Ólafssonar prófessors, 1997, kom fram að atvinnuaðstæður voru oftast nefndar sem ástæða fyrir brottflutningi. Því eru niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar árið 2000 í nokkru samræmi við þá rannsókn.
    Þegar leitað er orsaka fyrir því hvers vegna fólk flytur í miklum mæli frá þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna til höfuðborgarsvæðisins er of algengt að einblínt sé á það hvað sé að í viðkomandi byggðarlagi. Allar rannsóknir á búferlaflutningum sýna hins vegar að það er ekki síður aðdráttarafl þeirra staða sem flutt er til sem ræður ákvörðuninni um flutning. Athyglisvert er að á mörgum útgerðarstöðum þar sem vel hefur tekist að halda kvóta í heimabyggð og þar sem nokkuð traust sjávarútvegsfyrirtæki eru til staðar hefur íbúafjöldi annað hvort staðið í stað síðustu árin eða fólki fækkað. Í þessu sambandi má nefna staði á Austurlandi eins og Neskaupsstað, Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð. Þetta á einnig víðar við t.d. á Súðavík, Hólmavík, Skagaströnd, Siglufirði og Þórshöfn og í Vestmannaeyjum.
    Málið er einfaldlega það að útgerðarstaður með nokkur hundruð eða örfá þúsund íbúa getur trauðla keppt um fólkið við 180 þúsund manna borgarsamfélag. Ekki síst borgarsamfélag sem býður upp á öll þau tækifæri sem eru til staðar á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar áhugaverð og vel launuð störf og fjölbreytt framboð námstækifæra, margvíslega þjónustu og afþreyingu.

2.1.3 ATVINNU- OG EFNAHAGSLÍF
    Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar voru á árinu 2001 unnin milli 139 og 140 þúsund ársverk á landinu öllu, þ.e. liðlega 83 þúsund á höfuðborgarsvæðinu og um 56 þúsund á landsbyggðinni, en sveiflur eru töluverðar milli árstíða. Á Austurlandi er vægi frumvinnslugreina og úrvinnslugreina í atvinnulífinu meira en fyrir landið í heild og vægi þjónustugreina að sama skapi minna. Breytingar á fjölda ársverka og í atvinnuskiptingu á Mið-Austurlandi á tímabilinu 1986–1997 voru eftirfarandi, sjá töflu 2.1:

Tafla 2.1 Breytingar á fjölda ársverka og í atvinnuskiptingu
á Mið-Austurlandi á tímabilinu 1986–1997.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Breytingar á fjölda ársverka og í atvinnuskiptingu á Íslandi á tímabilinu 1986–1997 eru sýndar í töflu 2.2.
    Fróðlegt er að bera Mið-Austurland saman við landið allt og ekki síður við höfuðborgarsvæðið, því þá er munurinn enn meira sláandi. Á árinu 1997 voru 17% ársverka á Mið-Austurlandi í frumvinnslugreinum, 35% í úrvinnslugreinum og 48% í þjónustugreinum. Á sama tíma var hlutfallið fyrir höfuðborgarsvæðið sem hér segir: 2% í frumvinnslugreinum, 22% í úrvinnslugreinum og 76% í þjónustugreinum. Á þessum tölum er mikill munur. Á Mið- Austurlandi er mun hærra hlutfall þeirra greina sem eru í stöðnun eða samdrætti en að sama skapi mun hærra hlutfall vaxtargreina á höfuðborgarsvæðinu.


Tafla 2.2 Breytingar á fjölda ársverka og í atvinnuskiptingu
á Íslandi á tímabilinu 1986–1997.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjögur fyrirtæki á svæðinu eru stærst. Þau eru Síldarvinnslan í Neskaupstað með 280 starfsmenn og ársveltu upp á 5,5 milljarða 2001, Hraðfrystihús Eskifjarðar með um 200 starfsmenn og ársveltu upp á 3,8 milljarða 2001, Kaupfélag Héraðsbúa á Egilsstöðum með um 120 starfsmenn og ársveltu upp á 2,2 milljarða 2001 og Kaupfélagið á Fáskrúðsfirði og Loðnuvinnslan hf., með um 170 starfsmenn samtals og ársveltu upp á 2,5 milljarða 2001 samanlagt.
    Fólksfækkun hefur verið stöðug í sveitum og tekjur bænda minnkað í samanburði við aðrar starfsstéttir. Búin eru mörg hver of lítil til framfærslu ein og sér. Tekjur af landbúnaði hafa minnkað smám saman þar sem niðurgreiðslur hafa lækkað og framleiðslutakmörkunum verið beitt bæði gagnvart sauðfjár- og kúabændum. Margir bændur hafa hætt búskap og aukið störf utan bús eða farið yfir í aðrar búgreinar. Á Fljótsdalshéraði hafa bændur m.a. farið í ferðaþjónustu, skógrækt og lífræna ræktun en þetta hefur ekki bætt upp tekjurýrnun í hefðbundnum búskap. Íbúafjöldi í sveitum á Fljótsdalshéraði er um það bil 1/3 af því sem hann var fyrir um 100 árum síðan.
    Miklar sveiflur hafa verið í útgerðarbæjunum en þar er þegar á heildina er litið svipaður íbúafjöldi og fyrir 30 árum síðan. Tekjur eru hæstar í Fjarðabyggð og Fáskrúðsfirði. Þar er lítið sem ekkert atvinnuleysi og þurft hefur að flytja að vinnuafl. Engin einhlít skýring er á því hvers vegna einn útgerðarbær blómstrar á meðan annar stendur í stað eða hnignar. Þrátt fyrir góða afkomu í Fjarðabyggð og Fáskrúðsfirði hefur fólki fækkað þar síðustu árin.
    Á Seyðisfirði hefur átt sér stað endurskipulagning í sjávarútvegi og íbúunum fækkað. Bærinn hefur notið góðs af bílaferjunni Norrænu yfir sumarmánuðina en með skipinu kemur fjöldi erlendra ferðamanna. Árið 2000 voru farþegar með henni um 7.000, þar af um 1.500 Íslendingar.
    Egilsstaðir, ásamt nágrannabænum Fellabæ, er það byggðarlag sem mest hefur vaxið á Mið-Austurlandi. Atvinnulífið þar er nokkuð stöðugt en það byggist mikið á þjónustustarfsemi. Úrvinnsla landbúnaðarafurða, byggingastarfsemi, veitur og starfsemi tengd flugvellinum er einnig mikilvæg fyrir atvinnu á staðnum. Atvinnulífið er fjölbreyttara og auðveldara er fyrir menntuð hjón að finna störf við beggja hæfi en niðri á fjörðunum, þó að undanskildum Neskaupstað og Reyðarfirði. Fólk er í auknum mæli farið að sækja vinnu daglega milli staða, m.a. Egilsstaða og Reyðarfjarðar og milli byggðarlaganna innan Fjarðabyggðar.
    Aðalbreytingar á atvinnulífi á Mið-Austurlandi 1986–1997 í samanburði við landið í heild voru eftirfarandi:
          Landbúnaðarstörfum fækkaði um svipað hlutfall á Mið-Austurlandi og á landinu öllu, m.a. vegna samdráttar í framleiðslu og fækkunar íbúa.
          Sjómönnun fækkaði á Mið-Austurlandi en fjölgaði á landinu í heild. Fjölgun sjómanna á landinu stafaði mest af fjölgun frystiskipa og smábáta. Á Mið-Austurlandi gætti þessara breytinga minna en annars staðar, m.a. vegna mikilvægis loðnu- og síldveiða.
          Fiskvinnslustörfum fækkaði meira á Mið-Austurlandi en á landinu í heild. Bolfiskvinnsla í frystihúsum dróst mikið saman en vinnsla á síld og loðnu jókst í staðinn. Sú vinnsla krefst minna vinnuafls og er sveiflukenndari en bolfiskvinnslan.
          Störfum í iðnaði á Mið-Austurlandi fækkaði um 27% árin 1986–1997 en þeim fækkaði um 10% á landinu í heild. Slátrun, kjötvinnsla, ullariðnaður, skipasmíðar og viðgerðir eru þær greinar iðnaðar þar sem störfum fækkaði helst.
          Störfum í byggingariðnaði fækkaði um 17% á Mið-Austurlandi 1986–1997 en um 8% á landinu öllu. Aðalástæðan er sú að hagvöxtur var minni á svæðinu, færri íbúðarhús voru byggð, byggingaframkvæmdir í sveitum voru í lágmarki og lítið var byggt af iðnaðarhúsnæði. Aðalbyggingaframkvæmdirnar á svæðinu voru viðhald á íbúðar- og iðnaðarhúsnæði, ásamt framkvæmdum við vegi, flugvelli og hafnargerð. Síðan 1997 hefur verið mikill uppgangur í byggingarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu.
          Ef litið er á alla þjónustu, þ.e. að meðtalinni heilsugæslu, skólum, verslun, bönkum og samgöngum, fjölgaði ársverkum um 7,3% á Mið-Austurlandi 1986–1997 en þau jukust um 19,2% á landinu í heild. Þessi árangur er góður í samanburði við önnur jaðarsvæði. Aðalástæðan fyrir því var mikill vöxtur í opinberri þjónustu á svæðinu (í menntakerfinu, félagskerfinu og heilbrigðiskerfinu) svo og í þjónustu sérfræðinga og ferðaþjónustu.
    Í heildina fækkaði störfum um u.þ.b. 800 á Mið-Austurlandi á árunum 1986–1997. Þar af fækkaði um nærri 400 störf í fiskvinnslu, um 250 í landbúnaði og yfir 200 til samans í iðnaði og byggingavinnu. Á móti fjölgaði nýjum störfum í verslun og þjónustu um 130 á sama tíma.
    Með samanburði á öllum atvinnugreinum á svæðinu má draga tvær ályktanir:
          Sá veikleiki er í atvinnusamsetningu á Mið-Austurlandi að hlutfall vinnuafls í frumvinnslu- og úrvinnslugreinum er mun hærra þar (52%) en á landinu öllu (36%), hvað þá á höfuðborgarsvæðinu (24%).
          Svæðisbundinn veikleiki er í atvinnulífi Mið-Austurlands. Í samdráttargreinum hefur fækkað meira á Mið-Austurlandi og í vaxtargreinum hefur fjölgað minna þar en á landinu í heild og samanburður við höfuðborgarsvæðið er enn meira sláandi.
    Veik atvinnusamsetning leiðir oft til svæðisbundins veikleika því í samdráttargreinum halda atvinnurekendur að sér höndum varðandi framkvæmdir, aðföng og kaup á þjónustu.
    Vaxtargreinarnar ná ekki að bæta það upp þar sem aukning er fremur lítil í þeim.

2.1.4 VINNUMARKAÐUR
    Vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar (Landshagir, 2001) sýnir að atvinnuþátttaka á landsvísu, mæld í ársverkum, er um 50% af fólksfjöldanum. Hún skiptist þannig að 40% eru í fullu starfi, um 8% í hluta starfi og um 2% er erlent vinnuafl. Sé þessari viðmiðun beitt fyrir Mið- Austurland má áætla að stærð vinnumarkaðarins þar sé eftirfarandi, mæld í ársverkum:

Fólk í fullu starfi 3.200–3.300
Fólk í hluta starfi 600–700
Erlent vinnuafl 100–200
Alls vinnuafl (ársverk): 3.900–4.200

    Upplýsingar frá Skattstofu Austurlands fyrir tekjuárið 1999 gefa til kynna að um 3.500 manns hafi verið í fullu starfi, þ.e. með árslaun yfir 1 milljón krónur. Þetta svarar til þeirra sem voru í fullu starfi og erlends vinnuafls.
    Samkvæmt sömu upplýsingum voru um 3.200 manns á Mið-Austurlandi sem höfðu lægri tekjur en 1 milljón króna árið 1999. Af þessum hópi voru líklega um 900–1.000 lífeyrisþegar og u.þ.b. 800–1.000 námsmenn sem aðeins vinna í 3–4 mánuði á ári að meðaltali. Af þeim 1.200–1.500 sem þá eru eftir eru húsmæður líklega stærsti hópurinn. Upplýsingarnar frá Skattstofunni gefa til kynna að hlutastörf eru líklega örlítið hærri en vinnumarkaðskönnunin gefur til kynna, eða e.t.v. 800–1.000 ársverk. Það má því draga þá ályktun með nokkurri vissu að vinnuafl á Mið-Austurlandi árið 1999 hafi numið 4.000–4.200 ársverkum.
    Nýliðar á vinnumarkaði eru um 130 á ári ef ekki er tekið tillit til búferlaflutninga. Á sama tíma hætta störfum um 55–60 manns á ári vegna aldurs. Nettóaukning á vinnumarkaði er þar af leiðandi um 70–75 manns á ári. Þá tölu má síðan lækka vegna mikils brottflutnings ungs fólks.
    Samtals 3.185 einstaklingar gáfu upp skattskyldar tekjur innan við 1 milljón króna tekjuárið 1999. Þetta voru aðallega skólafólk, húsmæður í hlutastarfi, bændur og lífeyrisþegar. Í tekjuhæsta hópnum eru m.a. yfirmenn á fiskiskipum, læknar, forstjórar og nokkrir embættismenn.
    Í töflu 2.3 er sýnt hve margir einstaklingar eru í hverju tekjubili.

Tafla 2.3 Skattskyldar tekjur einstaklinga eftir tekjuflokkum, tekjuárið 1999.



Tekjubil Fjöldi einstaklinga
< 500 1.550
500–999 1.635
1.000–1.499 1.209
1.500–1.999 682
2.000–2.499 515
2.500–2.999 348
3.000–3.499 270
3.500–3.999 169
4.000–4.499 112
>4.500 220
Samtals: 6.710
Heimild: Skattstofa Austurlands.

    Árstíðabundnar sveiflur eru í framboði og eftirspurn eftir vinnuafli á svæðinu. Á haustin er sláturtíð. Meginvinnuaflið í sláturhúsum eru bændur, makar þeirra og uppkomin börn. Aðalvertíð fyrir loðnu á Austurlandi er í janúar og febrúar. Í fiskvinnslu er árstíðabundið vinnuafl, aðallega skólafólk, farandverkafólk og útlendingar. Aldursdreifing vinnuafls er breytileg milli fyrirtækja og eftir árstíðum. Unga fólkið er fjölmennt á sumrin.
    Nokkur munur er á þátttöku karla og kvenna á vinnumarkaði hér á landi. Karlar eru 54% starfandi fólks en konur 46%. Af þeim sem eru í fullu starfi eru karlar 64% og konur 36%. Konur eru 79% þeirra sem eru í hluta starfi en karlar 21%. Af þeim karlmönnum sem starfa á vinnumarkaði, þ.e. bæði í fullu starfi og hluta starfi, starfa 12% í frumvinnslu (fiskveiðar og landbúnaður), 33% í iðnaði (fiskiðnaður og byggingastarfsemi meðtalin) og 55% í þjónustugreinum. Atvinnuskipting meðal kvenna er töluvert önnur, þ.e. 86% starfa í þjónustugreinum, 11% í iðnaði og 3% í frumvinnslu. Almennt er því auðveldara fyrir karla en konur að finna störf við hæfi á Mið-Austurlandi.
    Skortur er á góðum upplýsingum um menntunarstig íbúa á Mið-Austurlandi. Þó hafa verið gerðar kannanir m.a. úrtakskönnun Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri í apríl árið 2000. Þar kom fram að 53% sögðust einungis hafa lokið skyldunámi, um 27% einhverskonar iðn- eða starfsnámi, um 11% höfðu lokið stúdentsnámi og um 9% voru með próf á háskólastigi.
    Þetta er í samræmi við það sem fram kom í vinnuaflskönnun sem gerð var á árinu 1997 og viðtölum við íbúana, en út frá því mátti áætla að um 55–60% vinnuaflsins á svæðinu væri ófaglært, háskólamenntað fólk ekki meira en 5–10%, en faglært fólk, skilgreint mjög vítt, væri u.þ.b. 30–35%. Síðastnefndi hópurinn nær til margra stétta og í honum eru m.a. iðnaðarmenn, skipstjórnarmenn, vélstjórar, matsveinar, bændur með próf úr búnaðarskóla, menntað fiskvinnslufólk, verslunarmenntað fólk, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, leikskólakennarar og grunnskólakennarar. Fyrir sumar þessara stétta er nú krafist háskólamenntunar. Meðal unga fólksins blasir nokkuð önnur mynd við. Menntunarstig þess er almennt hærra.
    Á árunum 1991–1998 bar nokkuð á atvinnuleysi á Austurlandi, einkum yfir vetrarmánuðina. Var það meira hjá konum en körlum eins og fram kemur á mynd 2.4. Atvinnuleysi á Austurlandi hefur þó lengst af verið undir landsmeðaltali og frá upphafi tímabilsins hefur það þróast með hagstæðari hætti en fyrir landið í heild. Síðustu tvö ár hefur atvinnuleysi aukist töluvert á Austurlandi og nú er svo komið að atvinnuleysi er meira meðal kvenna þar en kvenna á landinu öllu. Atvinnuleysi karla á Austurlandi er svipað og atvinnuleysi karla á landinu öllu.


Mynd 2.4 Atvinnuleysi karla og kvenna 1991–2001.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Síðustu þrjú ár hefur borið nokkuð á vinnuaflsskorti, m.a. á Austurlandi. Suma mánuði hefur vantað fólk í 100–200 störf. Flest þessara starfa eru í þjónustugreinum eða fiskvinnslu. Þau eru aðallega fyrir ófaglærða og laun tiltölulega lág.

2.1.5 SVEITARFÉLÖG
    Mörk margra sveitarfélaga á Austurlandi voru í upphafi dregin við aðstæður sem voru allt aðrar en eru nú og sum þeirra eru of fámenn sem þjónustueiningar nú á tímum. Nokkur sveitarfélög hafa verið sameinuð á undanförnum árum og hefur þeim fækkað töluvert. Meginmarkmiðið hefur verið að stækka einingarnar þannig að þær geti veitt íbúunum betri þjónustu og staðbundið vald styrkst. Sveitarfélögin hafa verið að taka við nýjum verkefnum, einkum verkefnum sem áður voru sameiginleg verkefni ríkisins og sveitarfélaga og tekjustofnar þeirra stækkað.
    Fram til 1998 voru 20 sveitarfélög á Mið-Austurlandi en þeim fækkaði á því ári í 12. Óvíst er um frekari stækkun sveitarfélaga á svæðinu, en töluverð umræða er í gangi meðal sveitarstjórnarmanna þar um.
    Megintekjustofn sveitarfélaga hér á landi er útsvar. Útsvar sveitarfélaga á öllu landinu var 77,8% af skatttekjum þeirra á árinu 2001, fasteignaskattur 12,5%, framlög úr Jöfnunarsjóði 9,5% og aðrir skattar 0,2%. Auk skatttekna innheimta sveitarfélögin margvísleg þjónustugjöld, svo sem fyrir veitur, hafnir, leikskóla og íþróttamannvirki.
    Greiðslur Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga hafa það að markmiði að jafna tekjur og þjónustubyrði þeirra svo og greiða fyrir kostnað vegna grunnskólahalds. Á Mið-Austurlandi eru framlög sjóðsins almennt hærri á Fljótsdalshéraði en á fjörðunum. Á fjörðunum eru framlögin lægst á fjölmennustu útgerðarstöðunum. Á Norður-Héraði og Fljótsdalshreppi hafa þau, svo dæmi sé tekið, numið yfir 50% af skatttekjum, á Austur-Héraði nálægt 28% en í Fjarðabyggð um 22%. Vegna áhrifa Jöfnunarsjóðs eru skatttekjur á íbúa nú hæstar í þeim sveitarfélögum á Mið-Austurlandi sem hafa fæsta íbúana og hæstan kostnað vegna skólahalds.
    Útgjöldum sveitarfélaga má í aðalatriðum skipta í tvennt, rekstrarkostnað (80–85%) og fjárfestingar (15–20%). Á árinu 2001 voru útgjöld sveitarfélaga í landinu u.þ.b. 54 milljarðar kr. Alls var 39,3% af rekstrarútgjöldum varið til fræðslumála og 23,8% til félagsþjónustu. Skuldir sveitarfélaga eru nokkuð mismunandi.
    Við athugun þessa voru skoðaðir ársreikningar stærstu sveitarfélaganna á Mið-Austurlandi fyrir árið 2001. Þar kemur fram að skuldir þeirra eru svipaðar eða jafnvel heldur lægri en hjá sveitarfélögum af svipaðri stærð annars staðar á landinu. Ekkert sveitarfélag á Mið-Austurlandi er með óeðlilega háa skuldastöðu. Hins vegar hvílir á nokkrum þeirra nokkur byrði vegna félagslegra íbúða sem þau hafa orðið að innleysa til sín.
    Verulegur munur er á einstökum útgjaldaliðum milli sveitarfélaga. Í töflu 2.4 er samantekt á rekstrarkostnaði á íbúa í þremur mikilvægum málaflokkum, félagsmálum, fræðslumálum og æskulýðs- og íþróttamálum fyrir árið 2001:

Tafla 2.4 Rekstrarkostnaður sveitarfélaga á íbúa í þremur málaflokkum 2001.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af þessum samanburði sést að fræðslumálin kosta mun meira í sveitahreppum en þéttbýli, m.a. vegna meiri skólaaksturs og minni bekkjardeilda. Á móti eru félagsþjónusta og íþrótta- og æskulýðsmál almennt mun stærri í sniðum og víðtækari í þéttbýli.
    Sveitarfélögin á Mið-Austurlandi eru sem hér segir:
     Fjarðabyggð varð til árið 1998 við sameiningu þriggja sveitarfélaga, kaupstaðanna Neskaupstaðar og Eskifjarðar og Reyðarfjarðarhrepps. Byggð í sveitarfélaginu er að langmestu leyti einskorðuð við þessa þrjá þéttbýlisstaði. Þann 1. desember 2001 voru íbúarnir 3.062 og langflestir þeirra búa í þéttbýli. Þrátt fyrir fólksfækkun mörg undanfarin ár er sveitarfélagið hið fjölmennasta á Mið-Austurlandi. Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs en opinber þjónusta er allnokkur. Vegna þess hve sjávarútvegur og fiskvinnsla er stór þáttur í atvinnulífinu eru meðaltekjur nokkuð yfir landsmeðaltali í Fjarðabyggð, eða um 12%.
    Tæpur helmingur íbúanna býr í Neskaupstað eða rúmlega 1.400 manns. Staðurinn er stærsti útgerðarbærinn. Síldarvinnslan hf. (SVN) er langstærsta fyrirtækið. Þar starfa um 280 manns; á sjó, í fiskvinnslu og ýmsum þjónustugreinum tengdri starfseminni. Starfsmannafjöldi er þó dálítið breytilegur eftir árstíma. Í Neskaupstað eru Verkmenntaskóli Austurlands, vélsmiðja, netagerð, sparisjóður, útibú Landsbankans, félagsmiðstöð, hótel, stærsta sjúkrahús svæðisins, náttúrugripasafn, Lífeyrissjóður Austurlands, útibú frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, flugvöllur, íþróttahús, sundlaug og golfvöllur. Í Oddsskarði er skíðasvæði.
    Eskifjörður, með 960 íbúa, er útgerðarbær með góðri höfn. Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. er langstærsta fyrirtæki staðarins með um 200 starfsmenn. Auk fiskiskipaflotans á það stórt frystihús, þar sem verkaður er bolfiskur og uppsjávarfiskur, fiskmjölsverksmiðju og ýmsar þjónustudeildir. Þar er einnig skrifstofa Eimskipafélags Íslands. Á Eskifirði eru íþróttahús, golfvöllur, sýsluskrifstofa, bankaútibú, sérfræðiþjónusta, heilsugæslustöð, Hulduhlíð sem er dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra og skrifstofa Alþýðusambands Austurlands.
    Á Reyðarfirði eru um 620 íbúar og þar er nokkuð fjölbreytt atvinnulíf. Þar er góð hafnaaðstaða fyrir vöruflutninga. Útgerðin er smærri í sniðum en í nærliggjandi bæjum. Þar eru m.a. kjötvinnsla, vélsmiðja, bílaverkstæði, verkfræðistofa, Kaupþing Austurlands og útibú frá KHB og sparisjóði Norðfjarðar. Einnig er þar svæðisskrifstofa fyrir Vegagerð ríkisins og Skólaskrifstofa Austurlands.
     Austur-Hérað er næst fjölmennasta sveitarfélagið á Mið-Austurlandi með um 2.030 íbúa og þar af búa rúmlega 1.600 á Egilsstöðum. Flestir starfa við þjónustu og opinbera starfsemi og þar hefur þróast mikil samgöngu- og þjónustumiðstöð Fljótsdalshéraðs og alls Mið- Austurlands. Kaupfélag Héraðsbúa er á Egilsstöðum og einnig ýmis einkaþjónusta og opinber þjónusta, þar á meðal svæðisskrifstofa Rarik, Skattstofa Austurlands, Vinnueftirlit ríkisins, Fasteignamat ríkisins, Þróunarstofa Austurlands, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra Austurlandi, Svæðisvinnumiðlun Austurlands og Héraðsdómur Austurlands. Skógrækt ríkisins er með höfuðstöðvar á Egilsstöðum og einnig Ferðaskrifstofa Austurlands. Þar er m.a. flugvöllur, hótel, grunnskóli, sundlaug, íþróttahús, heilsugæslustöð, dvalarheimili aldraðra, sjúkrahús, bankaútibú, Búnaðarsamband Austurlands, lista- og handverksfyrirtæki, verkfræðistofur, endurskoðendur, lögfræðingar, arkitektastofa, fasteignasalar, hárgreiðslustofur, ljósmyndaþjónusta og bíó. Þá eru nokkrar verslanir með fjölbreytt vöruúrval. Meðaltekjur í sveitarfélaginu eru 5% yfir landsmeðaltali og skuldastaða svipuð og gerist hjá sveitarfélögum af þessari stærð.
    Á Seyðisfirði búa rúmlega 770 íbúar. Þetta er að mörgu leyti dæmigerður útgerðarbær þar sem nálægt þriðjungur íbúanna starfar við fiskveiðar- og vinnslu. Helstu fyrirtæki staðarins eru SR-mjöl, útgerðarfélagið Gullberg og frystihús í eigu Skagstrendings hf. Á Seyðisfirði er heilsugæsla, sjúkrahús og sýsluskrifstofa. Nefna ber þá sérstöðu að Seyðisfjörður er annar fjölfarnasti viðkomustaður ferðalanga að og frá landinu vegna aðstöðu ferjunnar Norrænu í bænum. Árið 2000 voru farþegar með henni um 7.000, þar af um 1.500 Íslendingar. Ferjan flutti sama ár um 2.000 ökutæki, þar af 380 íslensk. Meðaltekjur íbúanna eru 13% yfir landsmeðaltali. Tekjur og gjöld eru í meðallagi og skuldastaða svipuð og gerist hjá sveitarfélögum af þessari stærð.
    Í Fellahreppi eru tæplega 460 íbúar, þar af um 380 í Fellabæ. Atvinnulíf í sveitarfélaginu er mjög svipað því sem er á Austur-Héraði, það er á sviði þjónustu og opinberrar starfsemi. Meðaltekjur eru um 7% yfir landsmeðaltali. Tekjur og útgjöld eru svipuð og í sambærilegum sveitarfélögum.
    Á Norður-Héraði eru liðlega 300 íbúar en sveitarfélagið varð til við sameiningu þriggja sveitahreppa, þ.e. á Jökuldal, Jökulsárhlíð og Hróarstungu. Aðalatvinnugreinin er landbúnaður. Tekjur eru lágar í sveitarfélaginu en vegna hárra framlaga úr Jöfnunarsjóði er tekjustaða sveitarfélagsins þó góð. Stíflumannvirki Kárahnjúkavirkjunar verða staðsett í sveitarfélaginu.
    Í Fljótsdalshreppi eru um 80 íbúar. Landbúnaður er aðalatvinnugreinin. Tekjur eru lágar eða nálægt 50% undir landsmeðaltali. Rekstur sveitarfélagsins er þó ekki þungur, að undanskildum fræðslumálum eins og sjá má í framangreindri töflu. Stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar verður staðsett í sveitarfélaginu.
    Í Búðahreppi (Fáskrúðsfirði) eru um 570 íbúar. Útgerð og fiskvinnsla er undirstaða atvinnulífs. Kaupfélag Fáskrúðsfjarðar er langstærsti atvinnurekandi bæjarins. Þar eru m.a. banki, íþróttahús, sundlaug, dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða, heilsugæsla, bifreiðaverkstæði, hótel, vélsmiðjur, trésmíðaverkstæði, netaverkstæði og lítill flugvöllur. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið nokkuð þungur m.a. vegna félagslegra íbúða sem margar standa auðar.
     Stöðvarhreppur og Breiðdalshreppur eru litlir útgerðarstaðir á sunnanverðu svæðinu. Á fyrrnefnda staðnum búa um 260 manns og á þeim síðarnefnda um 190 manns. Skatttekjur eru nálægt meðaltali sveitarfélaga af sambærilegri stærð og hið sama á við um skuldir.
    Að síðustu ber að geta þriggja lítilla sveitarfélaga en það eru Borgarfjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur og Mjóafjarðarhreppur. Í þessum sveitarfélögum eru íbúar um 150, 65 og 30, talið í sömu röð. Á Borgarfirði eystri er útgerð og fiskvinnsla undirstaða atvinnulífs. Skatttekjur eru svipaðar og í sveitarfélögum af sambærilegri stærð og eru skuldir nálægt meðaltali. Í Fáskrúðsfjarðarhreppi og Mjóafirði byggir atvinna á samblandi af landbúnaði og sjávarútvegi, auk fiskeldis í Mjóafirði. Skatttekjur og skuldir eru nálægt meðaltali í fyrrnefnda sveitarfélaginu en í því síðarnefnda eru tekjur svolítið undir meðaltali en skuldir mjög litlar, langt undir meðaltali sveitarfélaga með færri en 300 íbúa.
    Langstærsta samfellda sveitahéraðið á Mið-Austurlandi er Fljótsdalshérað. Þar búa um 900 manns í strjálbýli utan Egilsstaða og Fellabæjar.
    Á Austurlandi utan Mið-Austurlands eru fjórir þéttbýlisstaðir: Hornafjörður, Djúpivogur, Vopnafjörður og Bakkafjörður. Hornafjörður er langstærstur þeirra.

4.1.6 HÚSNÆÐISMÁL
    Alls eru um 4.700 íbúðir á Austurlandi, þar af um 3.190 á Mið-Austurlandi. Í Fáskrúðsfirði, Fjarðabyggð, Austur-Héraði og Fellahreppi eru um 2.400 íbúðir. Þetta eru þau sveitarfélög þar sem búast má við að áhrifa gæti mest á húsnæðismarkaði við tilkomu álvers á Reyðarfirði. Fasteignaverð hefur verið lágt á svæðinu og lítil hreyfing á fasteignamarkaði, nema helst á Egilsstöðum. Samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins er markaðsverð húsa á Mið-Austurlandi á milli helmingur og 2/3 markaðsverðs í Reykjavík, eftir staðsetningu og húsgerð.
    Heildarflatarmál húsnæðis á Mið-Austurlandi var liðlega 720.000 fermetrar 2002. Íbúðarhúsnæði er tæplega 400 þúsund fermetrar og atvinnuhúsnæði um 325 þúsund fermetrar, þ.e. án útihúsa í sveitum, sbr. nánari sundurliðun í töflu 2.5 en þar er því skipt niður í flokka eftir þeirri gerð sem Fasteignamatið notar.

Tafla 2.5 Stærð húsnæðis á Mið-Austurlandi 2002.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



[ Heimild: Fasteignamat ríkisins, 2002.

]


    Samkvæmt fasteignaskrá eru um 40 íbúðir í byggingu á Mið-Austurlandi, flestar á Austur- Héraði og í Fjarðabyggð.
    Í töflu 2.6. er íbúðarhúsnæði flokkað eftir aldri en ekkert liggur fyrir um ástand húsnæðis eða viðhaldsþörf.

Tafla 2.6 Aldur íbúðarhúsnæðis á Mið-Austurlandi.



Aldur Fjöldi Hlutfall
01–10 ára 194 6,1%
11–20 ára 453 14,2%
20–30 ára 880 27,6%
30 + ára 1.663 52,1%
Heimild: Fasteignamat ríkisins, 2002.

    Eins og framangreindar tölur bera með sér var mikið byggt á áttunda áratugnum. Mikil uppbygging stóð þá yfir í sjávarútvegi og um mitt þetta tímabil flutti fleira fólk til landsbyggðarinnar en frá henni. Yfir 52% íbúðarhúsnæðis á Mið-Austurlandi er yfir 30 ára gamalt.
    Meðalstærð íbúða á Mið-Austurlandi er um 125 fermetrar, að frátöldum bílskúrum, og meðalfjöldi íbúa á íbúð er 2,53. Til samanburðar eru í Reykjavík 2,6 íbúar á íbúð og á landinu öllu 2,7.
    Á Austurlandi öllu eru um 500 félagslegar íbúðir. Á hluta íbúðanna hvílir kaupskylda viðkomandi sveitarfélags og það hefur orðið sumum þeirra nokkuð erfitt.
    Sveitarfélög á Mið-Austurlandi hafa á undanförnum árum innleyst meira en 100 félagslegar íbúðir sem þau geta ekki selt aftur vegna þess hve kostnaðarverð þeirra er hátt. Það hefur tekist að leigja út flestar íbúðirnar í Fjarðabyggð og Austur-Héraði, en ekki nema hluta þeirra á Fáskrúðsfirði og fá með því leigutekjur til að greiða af veðlánunum. Þrátt fyrir þetta mikla framboð af leiguhúsnæði er erfitt að fá íbúð til leigu á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð.

2.1.7 ÞJÓNUSTA OG GRUNNGERÐ
    Ríkisvaldið ber ábyrgð á vissum þáttum í opinberri þjónustu á Austurlandi. Má þar nefna sýslumenn, lögreglu, héraðsdóm, heilbrigðisþjónustu, almannatryggingar, vinnumiðlun, rekstur framhaldsskóla, þjónustu við fatlaða, fasteignamat, skattamál, skipaskoðun, vinnueftirlit og rekstur flugvalla og þjóðvega.
    Á vegum sveitarfélaga er einnig fjölþætt þjónusta við íbúana og ber fræðslumálin þar hæst eftir að rekstur grunnskóla var fluttur til þeirra frá ríkinu.

Skólar
    Á skólaárinu 2002–2003 eru 13 grunnskólar á Mið-Austurlandi með tæplega 1.300 nemendur. Flestir skólanna eru fyrir 1.–10. bekk eins og fram kemur í töflu 2.7.

Tafla 2.7 Nemendafjöldi 2002–2003 samkvæmt haustskýrslum.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samstarf er á milli nokkurra sveitarfélaga um sameiginlegan rekstur grunnskóla, t.d. milli Fljótsdalshrepps og Austur-Héraðs og milli Búðahrepps og Fáskrúðsfjarðarhrepps. Sumir skólarnir eru vannýttir vegna fámennra bekkjardeilda. Mismunur í stærð árganga veldur oft óhagræði í skipulagi skólastarfs. Unnið hefur verið að stækkun nokkurra skóla á Mið- Austurlandi, m.a. vegna markmiða um samfelldan skóladag og einsetningu skóla.
    Hægt er að fjölga skólabörnum töluvert á Austur-Héraði og í Fellabæ án þess að stækka núverandi rými grunnskólanna. Ef til fjölgunar íbúa kemur þarf að stækka grunnskólann á Reyðarfirði. Verið er að ljúka framkvæmdum við grunnskólana á Eskifirði og í Neskaupstað. Að þeim loknum verða þeir rúmgóðir og geta tekið við fleiri nemendum.
    Samkvæmt rannsókn á orsökum búferlaflutninga sem Félagsvísindastofnun HÍ vann fyrir Byggðastofnun og kom út 1997 lýstu 94% aðspurðra í Neskaupstað, á Eskifirði og Reyðarfirði yfir ánægju með þjónustu grunnskólans í sveitarfélaginu. Þetta var næsthæsta niðurstaðan fyrir landið allt.
    Yfirleitt eru engir biðlistar eftir leikskólaplássi á Mið-Austurlandi nema í Neskaupstað og hægt er að taka við fleiri börnum án nokkurra vandræða.
    Á Egilsstöðum eru tveir leikskólar undir sameiginlegri stjórn og eru þeir fullnýttir. Á Hallormsstað er leikskóli með einni deild. Hann er ekki alveg fullnýttur. Á Eiðum er góð aðstaða fyrir 20 börn en hún er ekki í notkun sem stendur
    Í Fellabæ er tveggja deilda leikskóli. Þar er enginn biðlisti og nokkur pláss laus.
    Á Seyðisfirði er tveggja deilda leikskóli sem er fullnýttur.
    Í Fjarðabyggð eru nokkrir leikskólar. Í Neskaupstað er þriggja deilda leikskóli. Þar er nokkur biðlisti og þarf að byggja eina deild til að mæta núverandi þörf. Á Eskifirði er nýr þriggja deilda leikskóli. Biðlisti er enginn og eru nokkur pláss laus. Á Reyðarfirði er tveggja deilda leikskóli og hann er u.þ.b. fullsetinn en engir biðlistar. Gert hefur verið ráð fyrir því að auðvelt sé að byggja við hann þriðju deildina.
    Í Búðahreppi er tveggja deilda skóli og laus pláss.
    Ef fólki fjölgar á svæðinu þarf að hefja byggingu nýs leikskóla á Egilsstöðum og stækka leikskólann á Reyðarfirði. Svæðið er annars vel í stakk búið til að taka á móti barnafjölskyldum hvað þetta varðar.
    Framhaldsnám er í boði hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum og Verkmenntaskólanum í Neskaupstað. Auk þess er hússtjórnarskóli á Hallormsstað. Í Menntaskólanum á Egilsstöðum eru um 300 nemendur í reglulegu námi, nokkrir tugir nemenda utanskóla og nokkur fjöldi í kvöldskóla. Í skólanum er heimavist fyrir um 120 nemendur. Í boði eru þrjár brautir til stúdentsprófs, þ.e. málabraut, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut. Um helmingur nemenda á Mið-Austurlandi sem lýkur 10. bekk hefur nám við Menntaskólann á Egilsstöðum. Nokkrir nemendur skipta um skóla eftir 1–2 ár og fara í verkmenntaskóla eða fjölbrautaskóla þar sem þeir finna nám við sitt hæfi.
    Verkmenntaskólinn í Neskaupstað er skipulagður svipað og fjölbrautaskóli. Í boði er margvíslegt iðn- og tækninám, auk bóknáms. Heildarnemendafjöldi er tæplega 200. Nemendur í bóknámi eru aðallega frá Neskaupstað en nemendur í iðn- og tækninámi koma víðs vegar af svæðinu. Margvísleg fullorðinsfræðsla er í boði hjá skólanum, til dæmis stutt hagnýt námskeið. Við skólann er rúmgóð heimavist og aðstaða til íþrótta er í íþróttahúsi bæjarins. Kennsla í grunndeildum málmiðna, tréiðna og rafiðna fer fram í nýju verkkennsluhúsi og tekur eitt ár. Framhaldsdeildir iðnnáms eru í vélsmíði, rennismíði, húsasmíði og rafvirkjun þegar nemendafjöldi leyfir. Námið tekur 3–4 ár eftir iðngreinum. Tvær stúdentsbrautir eru kenndar við skólann, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut. Nám á sjávarútvegsbraut tekur tvö ár og haustið 1998 hófst nám í vélstjórn 1. stigs. Iðnmeistaranám hófst haustið 1997 við skólann og eru nemendur alls staðar að frá Austurlandi. Skólinn hefur lengi sinnt fullorðinsfræðslu og endurmenntun. Farskólinn á Austurlandi hefur þessa starfsemi með höndum.
    Fræðslunet Austurlands var stofnað haustið 1998. Það er samstarfsvettvangur margra skólastofnana, sveitarfélaga og atvinnulífs. Það er tengiliður á milli þeirra aðila sem nú sinna formlegri háskólakennslu og þeirra sem bjóða upp á símenntunarnám annars vegar og hins vegar einstaklinga, fyrirtækja og stofnana á Austurlandi. Fræðslunetið kynnir, miðlar og skipuleggur nám eða þau námskeið sem einstaklingar og fyrirtæki á svæðinu óska eftir, m.a. á háskólastigi.

Félagsþjónusta
    Sveitarfélög bera ábyrgð á félagsþjónustu fyrir einstaklinga og fjölskyldur, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þau eru einnig ábyrg fyrir þjónustu við aldraða og að nokkru leyti félagslegum húsnæðismálum og þjónustu við fatlaða hvað varðar almenna félagsþjónustu. Greiðslur almannatrygginga, þar með taldar atvinnuleysisbætur og elli- og örorkulífeyrir svo og sjúkratryggingar og skipulag heilbrigðisþjónustu eru á ábyrgð ríkisins. Ríkið rekur einnig sérstaka félagsþjónustu við fatlaða hvað varðar búsetu, atvinnu, dagþjónustu, ráðgjöf og ýmis konar stuðningsþjónustu við fatlaða og fjölskyldur þeirra.
    Meginreglan er sú að ríkið ber ábyrgð á stuðningsaðgerðum við hópa, en sveitarfélögin bera ábyrgð á þjónustu við einstaklinga sem þurfa ýmiskonar stuðning og aðstoða til dæmis einstæða foreldra, langveika, lágtekjufólk, öryrkja, aldraða og vímuefnaneytendur. Stærstu sveitarfélögin á Mið-Austurlandi hafa félagsmálanefndir og fagmenntað fólk að störfum. Félagsþjónusta sveitarfélaga hefur byggst upp á undanförnum árum og er nauðsynlegt að hún haldi áfram að þróast og eflast í samræmi við fjölgun íbúa.

Almannavarnir og öryggismál
    Sveitarfélög á Mið-Austurlandi starfrækja annaðhvort eigið slökkvilið eða eru þátttakendur í byggðasamlögum um slökkvilið. Sjúkraflutningar eru á ábyrgð heilsugæslustöðvanna. Sýslumenn á svæðinu eru á Seyðisfirði og Eskifirði en þeir bera ábyrgð á lögreglu og starfi almannavarnanefnda. Björgunarsveitir eru öflugar á svæðinu.

Tómstundir og útivist
    Á flestum þéttbýlisstöðum á Mið-Austurlandi eru félagsheimili, íþróttavellir, íþróttahús og sundlaug. Þá er góð aðstaða til skíðaiðkana í Oddsskarði og í Stafdal við Seyðisfjörð. Aðstaða til hvers kyns útivistar er góð. Má þar nefna fjallgöngur, veiði í ám og vötnum, skotveiði, hestamennsku og golf. Golfvellir eru m.a. í Fellabæ, á Eskifirði og í Neskaupstað.

Heilbrigðisþjónusta
    Starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands er frá Bakkafirði til Djúpavogs, eða báðar Múlasýslurnar, og er skrifstofa hennar á Eskifirði. Heilsugæslustöðvar eru á öllum þéttbýlisstöðunum en læknar eru ekki búsettir á Bakkafirði, Borgarfirði eystra, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Hjá stofnuninni starfa 14 læknar. Þrjár af heilsugæslustöðvunum eru í starfstengslum við sjúkrahús, þ.e. á Seyðisfirði, í Neskaupstað og á Egilsstöðum.
    Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað er eina sjúkrahúsið á svæðinu þar sem skurðstofa er starfrækt. Þar eru rúmlega 30 rúm, að meðtalinni hjúkrunardeild. Á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum eru 6 sjúkrarúm og 24 langlegurúm. Á Seyðisfirði eru 4 sjúkrarúm, 8 rúm á heilabilunardeild og 8 hjúkrunarrými. Í Neskaupstað er fæðingadeild. Á Eskifirði er hjúkrunarheimilið Hulduhlíð með um 20 rúmum, sem er sjálfseignastofnun rekin á ábyrgð Fjarðabyggðar. Á Fáskrúðsfirði er hjúkrunarheimili með um 14 rúmum sem rekið er af sveitarfélaginu.
    Heilbrigðisstofnun Austurlands ber ábyrgð á sjúkraflutningum á starfssvæði sínu.

Sorphirða og sorpeyðing
    Sveitarfélögin á svæðinu frá Neskaupstað til Stöðvarfjarðar stofnuðu Sorpsamlag Mið- Austurlands 1995 í því skyni að sjá sameiginlega um sorphirðu og sorpeyðingu. Á vegum sorpsamlagsins starfar verktaki sem safnar heimilissorpi og öðru sorpi sem flokkað er í gáma. Sorpsamlagið er með urðunarstað við sunnanverðan Reyðarfjörð.
    Annað sorpsamlag er starfandi á Fljótsdalshéraði, Sorpeyðing Austur-Héraðs og Fellahrepps bs. Norður-Hérað og Seyðisfjarðarkaupstaður kaupa urðunarþjónustu af samlaginu en verktakar sjá um sorphirðu og koma því á sorpplan á urðunarstað sem er á Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá. Landeigandi þar sér um rekstur á staðnum, förgun og alla umhirðu. Hann annast einnig sorphirðu á Egilsstöðum og í Fellabæ. Íbúar í dreifbýli í Fellahreppi, Austur- Héraði og Norður-Héraði geta komið rusli í gáma á tilteknum stöðum eða ekið með það að Tjarnarlandi. Fljótsdalshreppur kaupir urðunarþjónustu af samlaginu en verktaki sér um sorphirðu frá hverjum bæ einu sinni í viku.

Vatn og fráveita
    Allir þéttbýlisstaðir á Austurlandi reka vatnsveitur en sveitarfélögin eru ábyrg fyrir starfsemi þeirra. Neytendur greiða vatnsgjald með fasteignagjöldum en mörg fyrirtæki, svo sem fiskvinnslufyrirtæki, greiða aukavatnsgjald eftir mæli. Við botn Reyðarfjarðar eru góðar vatnslindir sem gætu nýst væntanlegu álveri. Fráveitumál eru á ábyrgð hvers sveitarfélags. Skolp hefur lengst af runnið óhreinsað til sjávar og er svo enn að mestu leyti á Austurlandi. Umhverfisráðuneytið hefur aðstoðað sveitarfélög með fjárframlögum til þess að koma fráveitumálum í betra horf. Auk þess innheimta þau holræsagjald með fasteignagjöldum.

Hafnir
    Hafnir eru á öllum þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna á Austurlandi og eru starfræktar af sveitarfélögunum. Rekstur hafnanna er á ábyrgð sveitarfélaganna en fjármögnun framkvæmda er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Á Seyðisfirði er ferjuhöfn og á Reyðarfirði er vöruflutningahöfn með góðum gámastæðum.
    Aðalútskipunarhöfn Eimskips á Austurlandi er á Eskifirði. Þaðan voru flutt rúmlega 60 þúsund tonn af fiskafurðum, lýsi og fiskimjöli árið 2000 og um 9.400 tonn af öðrum vörum. Við sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar í eitt sveitarfélag varð til einn öflugur hafnarsjóður sem getur veitt góða þjónustu og er nægilega öflugur til að byggja og reka hafnarmannvirki við álver í Reyðarfirði.
    Í töflum 2.8 og 2.9 eru sýndir vöruflutningar frá og að fjórum höfnum á Mið-Austurlandi.

Tafla 2.8 Vöruflutningar frá eftirtöldum höfnum 2000.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 2.9 Vöruflutningar til eftirtalinna hafna 2000.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Markmið með fyrirhugaðri byggingu hafnarmannvirkja við Hraun í Reyðarfirði er að skapa góðar aðstæður til uppskipunar á hráefni og vörum fyrir fyrirhugað álver og útskipunar á fullunnum afurðum frá því. Ennfremur er það markmið Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar að mannvirkið geti að nokkru leyti þjónað þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar í nágrenni svæðisins og annarri atvinnuuppbyggingu í komandi framtíð. Með gerð mannvirkisins aukast möguleikar á að taka á móti stærri skipum með vöru til og frá Austurlandi vegna lengri viðlegukants og meira viðlegudýpis en er við aðrar hafnir á Mið-Austurlandi.
    Iðnaðarlóðin og hafnarmannvirkið eru í um 5 km fjarlægð frá þéttbýlinu í Reyðarfirði. Lóðin er á landi tveggja jarða, Sómastaðagerðis og Hrauns. Til einföldunar er iðnaðarlóðin í þessu verkefni kennd við Hraun. Fyrirhugað iðnaðarsvæði við Hraun, sem er í eigu ríkisins, hefur um langt skeið verið skipulagt fyrir iðnað. Deiliskipulag iðnaðarsvæðis fyrir orkufrekan iðnað, hafnarsvæði og tengdan þjónustuiðnað að Hrauni hefur verið samþykkt. Jafnframt er búið að samþykkja aðalskipulag Reyðarfjarðar 1990–2010, þar er gert ráð fyrir um 120 ha iðnaðarsvæði við Hraun. Reyðarfjörður er um 1,5 km breiður þar sem höfnin verður staðsett, þ.e. á Mjóeyri sem er flöt eyri sem gengur um 100 m út í fjörðinn.
    Hafnarmannvirkið verður byggt í einni samfelldri framkvæmd. Áætlað er að 380 m langur viðlegukantur verði byggður með allt að 14,3 m viðlegudýpi til austurs frá Mjóeyri. Stærð þess svæðis er fer undir hafnarmannvirkin verður um 11 ha.
    Núverandi sjávardýpi við viðlegukantinn er frá um 2 m dýpi að um 14 m. Grynnst er svæðið við Mjóeyri en dýpkar fjær eyrinni til austurs og vesturs. Til að ná um 14,3 m viðlegudýpi við kantinn er áætlað að dæla upp seti af sjávarbotni til fyllingar og í bakland.
    Áætlað heildarmagn fylliefnis til fyrirhugaðrar hafnargerðar er um 225 þús. m³. Mestur hluti þess efnis fellur til vegna nauðsynlegrar dýpkunar og bergskeringa. Einnig verður fengið efni með vinnslu í grjótnámi á hafnarlóð og úr áreyrum Sléttuár.
    Áætlað er að það þurfi samtals um 4.000 m³ af steypu og er gert ráð fyrir á þessu stigi að efni verði fengið úr eyrum Jökulsár á Dal um 70 km frá Reyðarfirði.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við höfn og álver hefjist haustið 2003. Áætlað er að hafnarmannvirkin verði byggð á um 20 mánuðum. Mest verður unnið yfir sumartímann og þá verða starfsmenn er vinna við framkvæmdirnar flestir. Þá er áætlað er að þeir verði um 35. Þeim fækkar síðan yfir veturinn og má jafnvel búast við að framkvæmdir liggi niðri yfir háveturinn. Mögulegt er að vinnubúðir verði samnýttar með starfsmönnum er standa að byggingu álvers. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að þær verði á Mjóeyri innan fyrirhugaðrar hafnarlóðar.
    Kostnaður við hafnargerðina er áætlaður um 1 milljarður króna.

Flugvellir
    Varaflugvöllur fyrir millilandaflug er á Egilsstöðum. Brautin er 2.000 metra löng og 45 metra breið og öll nútíma leiðsögutæki til staðar. Hins vegar er hvorki flugskýli fyrir flugvélar sem koma þangað í heimsókn né aðstæður til viðgerða á flugvélum. Tollafgreiðsla er á Egilsstaðaflugvelli. Þá eru flugbrautir í Neskaupstað, á Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík og Borgarfirði eystra.
    Árið 2000 fóru rúmlega 73 þúsund farþegar um Egilsstaðaflugvöll en til samanburðar fóru um 191 þúsund farþegar um Akureyrarflugvöll og nálægt 441 þúsund farþegar um Reykjavíkurflugvöll.
    Sumarið 2002 hóf þýska flugfélagið LTU vikulegt áætlunarflug milli Egilsstaða og Þýskalands. Áætlunarflugið mun halda áfram næstkomandi sumar.
    
Vegir
    Vegagerðin starfrækir svæðisskrifstofu á Reyðarfirði. Flestir vegir sem tengja saman þéttbýlisstaði á Mið-Austurlandi eru nú með varanlegu slitlagi, nema stuttir kaflar milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Snjór er hreinsaður af vegum milli þéttbýlisstaðanna á hverjum morgni yfir vetrartímann ef þörf krefur og veður leyfir. Reynslan sýnir að fjallvegir á milli þéttbýlisstaða á Mið-Austurlandi teppast aðeins örfáa daga á ári og sum árin alls ekki. Þjónustan hefur batnað mjög mikið á síðustu árum og virðist vera auðvelt með daglegri hreinsun að halda vegum opnum. Ef fjallvegir lokast er yfirleitt ekki ferðaveður á láglendi heldur.

Orka

    Á Mið-Austurlandi er rafmagn notað að mestu leyti sem orkugjafi við húshitun, nema á Egilsstöðum og Fellabæ, en þar er hitaveita. Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK) þjóna öllu svæðinu með rafmagn, nema á Reyðarfirði, en þar er rafveita í eigu sveitarfélagsins. RARIK kaupir rafmagnið af Landsvirkjun við Hryggstekk í Skriðdal. Þaðan liggur 132 kV lína að Eyvindará. Frá Eyvindará er 66 kV lína til Seyðisfjarðar og 66 kV lína til Eskifjarðar. Þá liggur 66 kV lína beint frá Hryggstekk að Stuðlum í Reyðarfirði en þaðan liggur 66 kV lína til Fáskrúðsfjarðar og 66 kV lína til Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Öllum þéttbýlisstöðum á svæðinu er því þjónað með 66 kV línu, með varaafli frá annarri línu eða dieselstöð.
    Rafmagnsveitur ríkisins eiga tvær virkjanir á svæðinu, Lagarfossvirkjun sem er 7,5 MW og Grímsárvirkjun 2,5 MW. Orkan frá þeim er flutt um rafmagnslínur að Eyvindará. Rafmagnskerfið á svæðinu hefur næga afkastagetu til að geta tekið við aukningu þess íbúafjölda sem fylgja mun álveri. Nú eru um 20% viðskiptavina RARIK á Austurlandi.
    Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu RARIK á Egilsstöðum hefur verið hægur stígandi í notkun raforku á Austurlandi eins og fram kemur í töflu 2.10.

Tafla 2.10 Smásala raforku á Austurlandi 1995–2001.


Ár GWh
2001 205
2000 200
1999 201
1998 195
1997 197
1996 182
1995 178

Heimild: Rafmagnsveitur ríkisins, 2002.



    Mikil sala 1997 er vegna mikillar loðnufrystingar það ár. Ef litið er lengra til baka eru nokkrar sveiflur milli ára en þróunin hefur í stórum dráttum verið eins og fram kemur í töflunni. Aukning frá 1995 til 2001 er um 15% en síðan 1990 hefur raforkusala aukist um 29%, þ.e. árleg meðal aukning er svipuð hvort árabilið sem er valið.

Fjarskipti
    Fjarskiptakerfi á Mið-Austurlandi er í góðu lagi, hvort heldur er útvarp, sjónvarp eða símkerfi. Ljósleiðari hefur verið lagður í kringum landið sem veitir mikið öryggi á svæðinu. Á myndum 2.6–2.9 er með myndrænum hætti sýnt hvernig ýmsum þáttum fjarskiptamála er háttað. Miklar framfarir hafa átt sér stað á þessu sviði og ástandið á landsbyggðinni hefur batnað verulega síðastliðin ár. Það á bæði við um tæknilega og fjárhagslega þætti.
    Egilsstaðir og Fjarðabyggð eru í sambandi við ljósleiðara eins og mynd 2.5 sýnir og hann liggur milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar skammt fyrir ofan þá lóð sem fyrirhuguð er undir álver. Engin vandkvæði eru á að tengjast honum og þar með yrði til staðar öflug leið til gagnaflutninga og fjarskipta.


Mynd 2.5 Ljósleiðari og örbylgjusambönd.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur á mynd 2.6 er gott GSM samband á þéttbýli á Mið-Austurlandi. Það dettur þó út á milli staða, einkum á fjallvegum og ekki er reiknað með að úr því verði bætt á allra næstu árum.


Mynd 2.6.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






    Mynd 2.7 sýnir útbreiðslu senda fyrir NMT kerfið. Það virkar nokkuð vel á öllu Mið- Austurlandi og hið sama má segja um mestan hluta hringvegarins. Nýlega var bætt við stöðvum við hina nýju Háreksstaðaleið sem nú er hluti af þjóðvegi 1 milli Jökuldals og Mývatnssveitar. Jafnan eru þó einhverjir blettir þar sem samband er slæmt eða dettur alveg út.
    Samband á að vera nokkuð gott frá Mið-Austurlandi með suðurströndinni allt til Reykjavíkur með sömu undantekningum og á leiðinni um Norðurland.

Mynd 2.7.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.8.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    ATM-kerfi Landssímans er lokað kerfi sem getur veitt fjölþætta fjarskiptaþjónustu, t.d. flutt hljóð, myndir og gögn. Einn tengipunktur í þessu kerfi er á Reyðarfirði.
    FM sendingar Ríkisútvarpsins nást allsstaðar í byggð og hið sama má segja um útsendingar Bylgjunnar. Á Eiðum er nýr 20 kW langbylgjusendir sem nær um allt Austurland og nálæg mið. Sjónvarpssendingar frá Ríkisútvarpinu, Stöð 2 og Sýn nást á öllu Austurlandi en Skjár einn næst á Egilsstöðum og Reyðarfirði.

2.1.8 LANDNÝTING OG AUÐLINDIR
    Austurland býr yfir miklum náttúruauðlindum, bæði á sjó og landi. Aðeins lítill hluti landsins er nýttur fyrir byggð og mannvirki. Stærri svæði eru hins vegar nýtt til sauðfjárræktar, útivistar og ferðamennsku.
    Úr Vatnajökli til norðurs falla miklar jökulár sem má nýta til raforkuframleiðslu og til orkufreks iðnaðar. Sá virkjunarkostur sem þykir hagkvæmastur er svonefnd Kárahnjúkavirkjun. Lítil sem engin ummerki eru um jarðhita í yfirborði í byggð á Austurlandi. Jarðhiti hefur verið nýttur til hitaveitu á Egilsstöðum og í Fellabæ. Jarðfræðistofan Stapi hefur nýlega leitað að jarðhita með því að kanna hitastigul í grunnum borholum í nánd við þéttbýlisstaði á Austfjörðum. Niðurstöðurnar lofa góðu um mögulega nýtingu jarðhita á nokkrum stöðum. Afgerandi jákvæð frávik með yfir 100° C/km hitastigul hafa fundist skammt innan við Sléttu í Reyðarfirði, milli Borgarholts og Eskifjarðarsels í Eskifirði, skammt innan við eyðibýlið Fannardal í Norðfirði og á tveimur stöðum við Brimnes og Dali í Fáskrúðsfirði.
    Fiskimið eru góð úti fyrir Austurlandi og byggir öflugur sjávarútvegur þar á nýtingu þeirra Styrkur Austurlands liggur í nálægð við góð mið fyrir uppsjávarfiska, þ.e. síld, loðnu og kolmunna. Einnig eru ágæt mið fyrir þorsk og aðrar tegundir botnfiskjar. Í nokkrum fjarðanna, t.d. Berufirði, Mjóafirði og Reyðarfirði eru aðstæður til fiskeldis í sjókvíum taldar góðar. Laxeldi er hafið í Mjóafirði og í Berufirði og á Reyðarfirði eru áform um að hefja laxeldi í stórum stíl. Reiknað er með að ársverk verði um 120 í Fjarðabyggð árið 2006.
    Náttúrulegar aðstæður til landbúnaðar eru nokkuð góðar á afmörkuðum svæðum. Stærsta samfellda landbúnaðarsvæðið er Fljótsdalshérað, en þar er töluverð mjólkurframleiðsla. Í dölum og á afskekktari jörðum er land víða gott til sauðfjárræktar. Skógrækt er nokkur á Fljótsdalshéraði og lífrænn landbúnaður hefur skotið rótum. Austurlandsskógar eru að hefja átak í trjárækt á fjörðunum.
    Austurland býr við nokkuð hagstæða veðráttu miðað við önnur svæði landsins, þar er gróðursælt og náttúrufegurð mikil. Tækifæri til útivistar og uppbyggingar ferðaþjónustu eru því fjölbreytt. Hálendið upp af Austurlandi er töluvert nýtt af ferðamönnum.
    Veiðar á villtum dýrum og fuglum, svo og lax- og silungsveiði er nokkur á Austurlandi. Meðal annars má nefna veiðar á hreindýrum, gæs og rjúpum.
    Samkvæmt lögunum er það hlutverk sveitarfélaga að undirbúa svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Svæðisskipulag er unnið sameiginlega af sveitarstjórnum á hverju svæði. Markmið svæðisskipulags er að samræma skipulag einstakra sveitarfélaga hvað varðar landnotkun og þróun byggðar. Hvert sveitarfélag um sig þarf að samþykkja svæðisskipulagið áður en það er staðfest af ráðherra. Sveitarfélögin á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystra luku gerð sameiginlegs svæðisskipulags, sem staðfest var á árinu 2001. Það er eina svæðisskipulagið í byggð á Austurlandi. Auk þess nær svæðisskipulag miðhálendisins til nokkurra sveitarfélaga á Austurlandi. Allir þéttbýlisstaðir á Mið-Austurlandi hafa samþykkt aðalskipulag.

2.1.9 MENNING OG LÍFSHÆTTIR
    Mannlíf á Austurlandi hefur mótast í tímans rás af landbúnaði og sjávarútvegi og mjög dreifðri byggð. Samfélagið þar hefur einnig lagað sig vel að erlendum áhrifum og miklum sveiflum í atvinnulífinu. Nefna má fjölda erlendra hermanna í síðari heimsstyrjöldinni, m.a. á Reyðarfirði og áhrif franskra sjómanna á Fáskrúðsfirði á skútuöld. Seint á 19. öld og fram á 20. öld voru norsk áhrif á Austurlandi mjög sterk. Þeir starfræktu nokkrar hvalveiðistöðvar og voru í forystu við uppbyggingu síldveiða í fjórðungnum. Þá má benda á mikinn fjölda aðkomufólks á Austfjörðum vegna síldveiða á síðari hluta 7. áratugarins. Á síðustu árum hefur nokkuð af fólki sem er af erlendu bergi brotið sest að á Austfjörðum og hefur það einkum starfað við fiskvinnslu.
    Félags- og menningarlíf er fjölbreytt á Austfjörðum og mörg félög starfandi. Það á bæði við um leikfélög, kóra, starfsemi óperu og fjölþætt ungmenna- og æskulýðsstarf. Félags- heimili eru í langflestum sveitarfélögum sem nýtast til margháttaðrar menningarstarfsemi. Íþróttaiðkun er í miklum blóma og er aðstaða víða góð innan húss. Á Egilsstöðum er nú lokið uppbyggingu eins besta íþróttasvæðis á landinu utan húss. Tónlistarlíf stendur einnig með miklum blóma á Austurlandi. Þá er töluvert af góðu handverksfólki á svæðinu.
    Söfn eru víða á Austurlandi. Almenningsbókasöfn eru í nær öllum sveitarfélögum í fjórðungnum. Héraðsskjalasöfn eru á Egilsstöðum, Norðfirði og Hornafirði. Einnig eru fjölbreytt söfn á nokkrum stöðum t.d. Minjasafnið á Burstafelli í Vopnafirði, Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði, Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, Sjóminjasafnið á Eskifirði, Stríðsárasafn Íslands, Reyðarfirði, steinasafn Petru á Stöðvarfirði, Nönnusafn í Berufirði, safn Ríkarðs Jónssonar, Langabúð á Djúpavogi, Sýslusafnið á Höfn og Byggðasafn Austur-Skaftafellssýslu en innan þess eru reknar nokkrar deildir.
    Minjavörður er á Egilsstöðum og starfssvæðið er allt kjördæmið. Mikið er af friðlýstum húsum á Austurlandi og nokkuð um skráðar fornminjar.
    Menningarlíf hefur eflst mikið á Austurlandi undanfarin ár. Ríkið og sveitarfélög á Austurlandi gerðu með sér samning í maí 2001 um samstarf í menningarmálum. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Austurlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga við það í einn farveg. Á samningstímanum sem er til ársloka 2004 verður unnið að þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu fjögurra menningarmiðstöðva á Austurlandi. Menningarráð Austurlands er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og hefur m.a. það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum og úthluta fjármagni til menningarnefnda.

3. FRAMTÍÐARSÝN ÁN VERKEFNISINS
    Flest bendir til þess að ef ekkert verður af álvers- og virkjanaframkvæmdum muni fólk halda áfram að flytja frá Austurlandi á næstu árum í svipuðum mæli og s.l. 10 ár og stöðnun eða samdráttur vera áfram á vinnumarkaði. Samdráttur mun líklega halda áfram í landbúnaði og sveiflur verða í framboði atvinnu við sjómennsku og fiskvinnu.
    Samt sem áður eru nokkur ný tækifæri til uppbyggingar atvinnulífs á Austurlandi í sjónmáli. Það er vinsælt meðal ferðamanna að sækja fjórðunginn heim og skammt er í að lokið verði gerð vegar með bundnu slitlagi, sem opinn er allt árið, milli Austurlands og Akureyrar. Ný og stærri ferja kemur í stað Norrænu í mars 2003 og mun hún þjóna áfram ferjuleiðinni milli Seyðisfjarðar, Færeyja, Noregs og Danmerkur. Þetta mun hvoru tveggja styrkja ferðaþjónustu á Austurlandi. Vandinn er hins vegar sá að mjög erfitt er að byggja á ferðamannaþjónustu nema hluta úr árinu. Þessi atvinnugrein er mjög árstíðabundin og almennt eru laun í henni lág og arðsemi fyrirtækja lítil.
    Nokkur fyrirtæki eru með áform um uppbyggingu laxeldis í sjókvíum á Austurlandi og er það nú hafið í Mjóafirði og er á undirbúningsstigi í Reyðarfirði og Berufirði. Einnig eru fleiri aðilar með áform um laxeldi í fjörðunum á Austurlandi. Uppbygging þessarar nýju atvinnugreinar á Austurlandi er mjög áhugaverð og fellur vel að þeirri atvinnustarfsemi og grunngerð sem fyrir er á svæðinu.
    Þá er þorskeldi í örri þróun við Norður Atlantshaf, þ.e. með seiðaeldisstöðum á landi og matfiskeldi í sjókvíum. Í þorskeldi og jafnvel eldi fleiri tegunda, kunna að felast áhugaverð tækifæri fyrir Austfirðinga á komandi árum.
    Þessi vaxtarfæri sem hér hafa verið nefnd eru ekki stór í sniðum, að laxeldinu undanskildu, og nokkurri óvissu háð. Ef þau heppnast munu þau vart gera meira en að vega upp á móti þeim samdrætti sem orðinn hefur í atvinnu í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.
    Fólksfækkun leiðir gjarnan til samdráttar í þjónustugreinum og kemur það m.a. fram gagnvart íbúunum í lokun verslana, bankaútibúa, pósthúsa o.s.frv., auk þess sem skólakerfið og heilbrigðisþjónustan eru endurskipulögð þannig að þjónustan er skert í byggðarlaginu. Samdrátturinn leiðir einnig til þess að meðalaldur íbúanna hækkar og ungt fólk flytur á brott. Með hækkandi meðalaldri lækka tekjur sveitarfélagsins sem leiðir til enn frekari samdráttar í þjónustu. Samfelld niðursveifla hefur neikvæð áhrif á samfélagið, byggðirnar missa fólk með forystuhæfileika, andrúmsloftið í byggðunum verður þrúgandi og framtíðarvonir bresta. Eftir situr fólk sem ekki kemst á brott, svo sem tekjulágir lífeyrisþegar, fólk sem stendur höllum fæti á vinnumarkaði og fólk sem er hneppt í hálfgerða átthagafjötra vegna fasteigna sinna.
    Í meðfylgjandi töflum er gefið yfirlit um helstu styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri í sjávarbyggðum og sveitum á Austurlandi ef ekki verður af áformum um álver í Reyðarfirði. Þetta er í raun lýsing á því starfsumhverfi atvinnulífsins sem nú er undirstaða búsetu í þessum byggðarlögum. Ógerlegt er að sjá fyrir um það hver hin raunverulega þróun verður, en megináhrifaþáttum hennar er lýst í töflunum, þ.e. þeim sem eru fyrirsjáanlegir í dag.

SJÁVARBYGGÐIR Á AUSTURLANDI ÁN ÁLVERS
STYRKUR: Gjöful fiskimið úti fyrir Austurlandi, mikill kvóti í uppsjávarfiski, öflug útgerð smábáta, togara og síldar- og loðnuskipa, góð þekking á veiðum og vinnslu, gott vinnuafl, öflug sjávarútvegsfyrirtæki, afkastamiklar loðnubræðslur, góð hafnaraðstaða víða, góðar aðstæður til sjókvíaeldis í fjörðunum, jarðhiti í Fjarðabyggð, nálægð við Evrópu, traust alþjóðleg markaðsstaða íslensks sjávarútvegs, EES-samningurinn, góðar vegasamgöngur, flugvöllur á Egilsstöðum, góð opinber þjónusta, öflug sveitarfélög og ósnortin náttúra. Á svæðinu er hvorki hætta á jarðskjálftum né eldgosum.
VEIKLEIKAR: Fækkun íbúa, fækkun starfa, launaþróun óhagstæð í samanburði við höfuðborgarsvæðið, fremur einhæft atvinnulíf, óhagstæð aldursskipting, kynjahlutfall ójafnt, lágt menntunarstig, fá tækifæri fyrir ungt menntað fólk, hátt hlutfall láglaunastarfa á vinnumarkaði, lítil uppbygging iðnaðar og þjónustugreina, hár fjarskiptakostnaður, fjarlægð frá höfuðborginni, hátt vöruverð á minni stöðum, lágt fasteignaverð og hár húshitunarkostnaður. Veiði og vinnsla á uppsjávarfiski er árstíðabundin og sveiflukennd. Fjarlægð til Keflavíkurflugvallar takmarkar möguleika á útflutningi fersks fisks með flugi.
ÓGNANIR: Samanburður við höfuðborgarsvæðið verður stöðugt óhagstæðari sem leiðir til áframhaldandi fólksfækkunar, atgervisflótta, fjármagnsstreymis út af svæðinu, færri áhugaverðra og vel launaðra starfa, veikari stöðu sveitarfélaga og þess að forræði yfir stærstu fyrirtækjunum og veiðiheimildum getur farið burt úr fjórðungnum. Samkeppnisstaða fiskveiða gagnvart fiskeldi á alþjóðlegum mörkuðum fyrir sjávarafurðir er smám saman að veikjast. Stöðugt auknar kröfur til framleiðenda á fiskmjöli og hætta á innflutningsbanni til Evrópu. Almennt minnkandi landvinnsla á botnfiski. Snjóflóðahætta á nokkrum stöðum. Hætta er á að barátta alþjóðlegra samtaka umhverfissinna muni þrengja stöðugt að tilverugrundvelli veiðisamfélaga.
TÆKIFÆRI: Fiskeldi, þ.e. laxeldi og þorskeldi, bæði í sjókvíum og á landi. Möguleikar á nýtingu jarðhita á nokkrum stöðum. Aukin tækifæri í ferðaþjónustu, m.a. tengd vegabótum, nýrri ferju í stað Norrænu og hugsanlega alþjóðlegum flugsamgöngum til Egilsstaða. Fjarðaskógar. Hugsanleg sóknarfæri í upplýsingatækni, fjarvinnslu og hugbúnaðargerð.

    Ef ekkert verður af álvers- og virkjanaframkvæmdum má gera ráð fyrir að íbúum Mið- Austurlands haldi áfram að fækka, að hlutfall 20–40 ára fólks og barna verði lægra en það er í dag, að ójafnvægi í hlutfalli milli karla og kvenna aukist og að meðaltekjur á Austurlandi haldi áfram að dragast aftur úr hækkandi meðaltekjum á höfuðborgarsvæðinu.

SVEITIR Á AUSTURLANDI ÁN ÁLVERS (FLJÓTSDALSHÉRAÐ)
STYRKUR: Landgæði, bæði til ræktunar og beitar. Gott veðurfar til landbúnaðar á íslenskan mælikvarða. Góð aðstaða til skógræktar, lífrænnar framleiðslu og uppbyggingar ferðaþjónustu. Góð þekking á landbúnaði og úrvinnslu. Nálægð við þéttbýlisstaði vegna þjónustu, verslunar og atvinnu. Traust kaupfélag með mjólkur- og kjötvinnslu. Góðar vegasamgöngur, flugvöllur á Egilsstöðum, góð opinber þjónusta og nálægð við ósnortna náttúru, m.a. hálendið. Hvorki er hætta á jarðskjálftum né eldgosum.
VEIKLEIKAR: Mikil og langvarandi fækkun íbúa, stöðugt lækkandi tekjur í samanburði við þéttbýlið, fækkun starfa í landbúnaði, óhagstæð aldursskipting, kynjahlutfall ójafnt og lágt menntunarstig. Takmarkaðir möguleikar þeirra sem fjærst búa frá þéttbýli til aukatekna. Lágt verð á bújörðum. Lágt afurðaverð og stöðnun í eftirspurn. Litlir sem engir möguleikar til útflutnings. Uppbygging takmörkuð af framleiðslustjórnun í landbúnaði.
ÓGNANIR: Samanburður við þéttbýlið verður stöðugt óhagstæðari sem leiðir til áframhaldandi fólksfækkunar, atgervisflótta og veikari stöðu sveitarfélaga. Samkeppnisstaða sauðfjárræktar gagnvart svína- og kjúklingarækt er smám saman að veikjast. Breyttar neysluvenjur með stöðnun eða samdrætti í neyslu á kjöti og mjólk. Staða framleiðenda gagnvart sölu- og markaðsfyrirtækjum verður stöðugt veikari.
TÆKIFÆRI: Aukin tækifæri í ferðaþjónustu, m.a. tengd vegabótum, nýrri ferju í stað Norrænu, auknum flugsamgöngum til Egilsstaða og skotveiði. Hugsanleg tækifæri í loðdýrarækt. Aukin tækifæri til vinnu utan bús tengt vegabótum.

    Samkeppnisstaða landsbyggðarinnar um fólk og fjármagn gagnvart höfuðborgarsvæðinu er almennt veik. Austurland er þar engin undantekning. Fjölbreytt tækifæri eru til náms og starfa á höfuðborgarsvæðinu. Stór hluti fjárfestinga landsmanna í atvinnulífinu beinast að verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og í útlöndum. Á höfuðborgarsvæðinu eru flest áhugaverðustu og best launuðu störfin, mest fjölbreytni í þjónustu og menningarlífi og mikill vöxtur á nær öllum sviðum. Þar er 65–80% starfa í þeim atvinnugreinum sem örast hafa vaxið undanfarin ár. Á Austurlandi fækkar fólki vegna mikilla búferlaflutninga, einkum ungu fólki sem flyst til höfuðborgarsvæðisins. Tækifæri til arðbærra fjárfestinga eru fá á Austurlandi, velta fyrirtækja á svæðinu hefur nánast staðið í stað undanfarin ár þegar á heildina er litið og lítið er um húsbyggingar. Í landsfjórðungnum er hátt hlutfall frumvinnslu- og úrvinnslugreina en lágt hlutfall helstu vaxtargreina. Fjöldi starfa í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, sem eru mikilvægar atvinnugreinar á Austurlandi, hefur dregist saman s.l. 5 ár.
    Fyrirhugað álver í Reyðarfirði er stærsta tækifærið sem er í sjónmáli til að snúa byggðaþróun á Austurlandi við og auka samkeppnishæfni svæðisins þannig að það laði til sín fjármagn og atgervisfólk.

4. MAT Á SAMFÉLAGSLEGUM OG EFNAHAGSLEGUM ÁHRIFUM ÁLVERS Í REYÐARFIRÐI

4.1 INNGANGUR
    Í þessum kafla er fjallað um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði, bæði á byggingartíma og eftir að rekstur hefst. Matið byggir m.a. á lýsingu verkefnis (1. kafli) og almennri lýsingu á samfélagslegum og efnahagslegum þáttum á svæðinu (2. kafli). Viðfangsefnið er nálgast á þann hátt að metið er hver bein, óbein og afleidd áhrif verkefnisins eru á einstaka þætti í samfélagsgerð svæðisins, miðað við getu þess til að bregðast við nýjum þörfum. Fjallað er um það hvernig einstakir þættir verkefnisins, þar með taldar aðferðir og stefna þeirra sem standa að verkefninu, svo og aðgerðir hins opinbera, fyrirtækja og annarra sem hagsmuna eiga að gæta, geti stuðlað að því að hámarka ávinning þessa stóra verkefnis fyrir Austurland.
    Rétt er að taka fram að ýmsir þættir munu stuðla að því að lágmarka hugsanleg neikvæð áhrif verkefnisins. Þessir þættir eru m.a.:
    Dreifing áhrifa. Fyrirhugað álver mun ekki krefjast eða leiða til þess að til verði einhæfur iðnaðarbær við Reyðarfjörð. Þvert á móti mun atvinnusköpun og áhrif álversins á athafnalíf dreifast um Mið-Austurland. Væntanlegt starfsfólk, þ.e. bæði úr hópi þeirra sem nú búa á Mið-Austurlandi og aðfluttra, mun búa í nokkrum þeim byggðarlögum sem liggja innan þeirrar fjarlægðar að dagleg vinnusókn í álverið er möguleg. Væntanleg jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar munu stækka vinnusóknarsvæðið til suðurs. Þá er hafin rannsókn á nýjum jarðgöngum milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Búseta fólks sem ræðst í önnur störf sem skapast vegna tilkomu álversins mun líklega verða enn dreifðari. Aðfluttir munu hafa nokkurt val um búsetu, byggt á þáttum eins og atvinnu fyrir maka, skólum, fjölbreytni í þjónustu, húsnæði sem stendur til boða o.fl. Áhrifin á einstök byggðarlög verða mikil en vel viðráðanleg.
    Fólksfækkun. Nær öll byggðarlögin á fjörðunum og sveitirnar hafa mátt þola fólksfækkun sl. 10–15 ár. Það hefur leitt til lakari nýtingar húsrýmis, þjónustu og grunngerðar í byggðarlögunum. Því geta þessi byggðarlög tekið við nokkurri fjölgun fólks án vandkvæða, en í flestum þeirra þyrfti þó að byggja íbúðarhúsnæði.
    Traust atvinnulíf. Það atvinnulíf sem fyrir er á Mið-Austurlandi stendur nokkuð traustum fótum, einkum sjávarútvegur. Styrkur hans er m.a. nálægð við fiskimið, mikill kvóti í uppsjávarfiski, öflug sjávarútvegsfyrirtæki og mikil þekking í veiðum og vinnslu. Ekki virðast neinar líkur á því að atvinnulífið sem heild bíði skaða af tilkomu álversins og tengdrar starfsemi á svæðið. Þvert á móti munu skapast mörg ný viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki á svæðinu.
    Samráð við heimamenn. Viðtöl við forystumenn sveitarfélaga, yfirmenn ríkisstofnana, atvinnurekendur, fulltrúa stéttarfélaga og aðra á Mið-Austurlandi sem málið varðar hafa gefið til kynna litlar áhyggjur vegna fyrirhugaðs álvers. Þvert á móti hafa þeir mikinn áhuga á þessu verkefni og vilja samstarf um að hámarka jákvæð áhrif þess. Stofnað var til formlegs samráðs við heimamenn með stofnun sérstakrar ráðgjafarnefndar sem kom með margar góðar ábendingar um efni skýrslu þessarar. Skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Reyðarál hf. meðal ungra Austfirðinga 18–28 ára sýndi að 75% voru hlynntir byggingu álvers í Reyðarfirði.
    Tímasetning. Tímaáætlun verkefnisins er nógu rúm fyrir sveitarfélögin, atvinnulífið, ríkisvaldið og þá sem standa að verkefninu til að undirbúa aðgerðir, svo sem starfsþjálfun og uppbyggingu grunngerðar, áður en rekstur fyrirhugaðs álvers hefst.
    Matið byggir ekki aðeins á því að meta og mæla hugsanleg neikvæð áhrif álversins. Þvert á móti snýst það um að meta bæði jákvæð og neikvæð áhrif, sem endurspeglast í þeirri hugsun að verkefnið getur haft margvísleg jákvæð áhrif fyrir svæðið, sérstaklega ef tækifærið er nýtt til atvinnusköpunar og nýrrar hugsunar um skipulag og framtíðarstefnu á svæðinu.
    Líklegur ávinningur svæðisins af álveri í Reyðarfirði er eftirfarandi:
    Hagvöxtur og aukin fjölbreytni atvinnulífs. Fyrirhugað álver mun með beinum, óbeinum og afleiddum hætti leiða til mikillar atvinnusköpunar, hærri atvinnutekna og aukinna viðskipta. Þetta yrði ný atvinnugrein á svæðinu sem hefði áhrif á margar aðrar greinar er myndu selja vörur og þjónustu til álversins og starfsfólks þess. Verkefnið mun hafa áhrif á ferðamannaþjónustu og landbúnað. Í fyrra tilvikinu mun bæði aukinn íbúafjöldi, bættar samgöngur og bættur hagur fólks auka eftirspurn eftir margvíslegri útivist og afþreyingu sem aðilar í ferðaþjónustu njóta góðs af. Atvinna tengd álverinu mun einnig auka möguleika fólks sem starfar í ferðaþjónustu og landbúnaði á viðbótartekjum en atvinna í þessum tveimur greinum gefur almennt lágar tekjur og er árstíðabundin.
    Viðnám gegn brottflutningi fólks. Fólksfækkun á síðustu árum hefur aðallega átt rætur sínar í því að ungt fólk sækir burt til náms og í leit að áhugaverðum og vel launuðum störfum. Bein, óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki sem á rætur á Mið-Austurlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldursskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Skoðanakönnunin sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Reyðarál hf. sýndi að 40% 18–28 ára fólk á Mið-Austurlandi hafði örugglega eða líklega áhuga á að starfa í álverinu og að 17% brottfluttra Austfirðinga 20–49 ára taldi líklegt að þeir myndu flytja aftur til Austurlands ef álver risi í Reyðarfirði.
    Bætt grunngerð og þjónusta. Fyrirhugað álver og tengd starfsemi mun leiða til samgöngubóta, bættrar grunngerðar og aukinnar þjónustu, til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins.
    Öflugra menningar- og félagslíf. Bætt afkoma fólks og fjölgun íbúa mun leiða til öflugra menningar- og félagslífs á svæðinu og styrkja starfsemi stofnana, samtaka félaga og hópa sem starfa á þessu sviði.
    Viðtöl við fólk á Mið-Austurlandi og könnun Félagsvísindastofnunar leiða í ljós að svæðið myndi styrkjast ef þar væru stærri þéttbýlisstaðir og meira framboð af áhugaverðum og vel launuðum störfum, einkum fyrir ungt vel menntað fólk. Þetta mun gerast ef álverið verður reist. Nokkrir þeirra sem spurðir voru töldu að bæta þyrfti tækifæri fólks á svæðinu til tómstunda- og félagsstarfsemi og til náms á framhalds- og háskólastigi. Sumir kvörtuðu um háan húshitunarkostnað og hátt vöruverð á Mið-Austurlandi, einkum í samanburði við Reykjavík.

4.2 ÍBÚAÞRÓUN
4.2.1 FRAMKVÆMDATÍMI
    Áhrif af framkvæmdum við álverið (að höfn meðtalinni) á atvinnusköpun og íbúafjölda, eru sýnd í Viðauka I, töflum 4 og 8. Áhrif annarra tengdra verkþátta (virkjanir, háspennulínur, grunngerð og húsnæði) á atvinnusköpun og íbúaþróun eru sýnd í Viðauka I, töflum 5, 6 og 8.

Framkvæmdir við álver
    Við framkvæmdir vegna álversins 2003–2007 er talið þurfa tæplega 2.300 ársverk, þar af um 1.300 ársverk þegar framkvæmdir standa sem hæst árið 2006. Aðrir þættir verkefnisins munu þarfnast starfsfólks sem nemur tæplega 5.100 ársverkum á árunum 2002–2008, þar af mun bygging Kárahnjúkavirkjunar og bygging tengivirkis og háspennulína krefjast um 3.850 ársverka og byggingar íbúðahúsnæðis (að meðtöldum götum og veitum) um 790 ársverka. Þörfin mun rísa hæst árið 2006 þegar allir þættir verkefnisins munu krefjast fjölda starfsmanna sem nemur rúmlega 2.600 ársverkum.
    Við mat á áhrifum framkvæmda er gert ráð fyrir að heimamenn muni sinna 10% af vinnu við framkvæmdir við álverið og að starfsmenn sem flytja tímabundið til Austurlands með fjölskyldur sínar á meðan á framkvæmdum stendur muni manna 15% starfa við framkvæmdir. Þá er gert ráð fyrir að erlent vinnuafl muni sinna 30% af vinnu við framkvæmdir og að Íslendingar sem dvelja í vinnubúðum muni vinna um 45% starfanna. Þessi áætlaða skipting er byggð á mati aðila í byggingariðnaði sem mikla reynslu hafa af stórframkvæmdum sem þessum hér á landi.
    Ársverk á Mið-Austurlandi eru nú um 50% af íbúafjölda svæðisins. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall hækki smám saman á næstu 7 árum í 51% af íbúafjöldanum vegna breytinga í aldursskiptingu, m.a. hækkað hlutfall 50–65 ára fólks og minnkandi fæðingatíðni. Forsendurnar eru því þær að fyrir hvert nýtt starf sem skapast fjölgar íbúunum um nálægt 2. Þá er ennfremur gert ráð fyrir því að 200 ársverk á Mið-Austurlandi frestist á árunum 2005–2006, vegna þess að þegar framkvæmdir standa sem hæst verður ýmsum verkefnum frestað á meðan.
    Þessar forsendur sem hér hafa verið nefndar munu leiða til íbúafjölgunar vegna framkvæmda (Viðauki I, tafla 8) upp í rúmlega 9.800 manns árið 2007. Árið 2007 munu störf í álverinu ekki bæta upp fækkun starfa heimamanna og tímabundið aðfluttra við framkvæmdir og leiða til þess að íbúafjöldi verður u.þ.b. 9.600 árið 2009.

Mynd 4.1 Vinnuaflsþörf á framkvæmdatímanum 2002–2009.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




4.2.2 REKSTRARTÍMI

Rekstur álvers
    Áætlað er að álverið þurfi 420 starfsmenn í fullu starfi auk um 8% vegna afleysinga, eða um 454 ársverk. Óbein og afleidd áhrif eru talin skapa 295 ársverk til viðbótar á svæðinu. Það eru því alls 750 ársverk sem rekstur álversins skapar (Viðauki I, tafla 2).
    Útreikningar á tengslum milli fjölda starfa og íbúafjölda eru byggðir á upplýsingum úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Byggt á því er miðað við eftirfarandi forsendur fyrir árið 2001 um ársverk sem hlutfall af íbúafjölda fyrir Mið-Austurland (stuðst er við sama hlutfall og fyrir landið allt):

Fólk í fullu starfi 40%
Fólk í hluta starfi 8%
Erlent vinnuafl 2%

    Enn fremur er gert ráð fyrir því að ársverk sem hlutfall af íbúafjölda munu aukast smám saman úr 50% árið 2002 í 51% árið 2009, eins og útskýrt er í kafla 4.2.1 hér á undan.

Mynd 4.2 Áhrif álvers á íbúafjölda á Mið-Austurlandi.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Áætluð íbúafjölgun sem verður vegna reksturs álversins er 1.468 frá 2006 til 2009 (Viðauki I, tafla 8). Áætlað er að sá íbúafjöldi sem er á Mið-Austurlandi í lok árs 2001, þ.e. um 8.060 manns, eigi eftir að dragast saman á næstu árum niður í 7.940 áður en áhrifa verkefnisins fer að gæta. Því eru áhrif þess metin ofan á íbúagrunn sem er 7.940 íbúar frá og með árinu 2003. Ef áform um álverið ganga eftir þá verður komið alveg nýtt umhverfi atvinnu- og efnahagslífs á svæðinu með hærri meðaltekjum og meiri viðskiptatækifærum á fjölmörgum sviðum.
    Við mat á áhrifum álversins á atvinnusköpun í öðrum greinum er ekki mögulegt að taka tillit til áhrifa þjóðfélagsbreytinga næstu 10–15 árin. Sem dæmi má nefna að byggðin í landinu þjappast æ meira saman á Suðvesturlandi, menntunarstig þjóðarinnar fer hækkandi, þátttaka kvenna í atvinnulífinu breytist hratt með aukinni menntun þeirra, vinnumarkaður þróast ört í átt til meiri fjölbreytni og sveigjanleika í ráðningafyrirkomulagi, orkunotkun á mann eykst stöðugt, sorpmagn eykst sífellt, neysluvenjur fólks breytast með aukinni hagsæld, bifreiðaeign og bifreiðanotkun er að aukast og upplýsingatækninni fleygir fram. Gildismat í þjóðfélaginu breytist hratt, umhverfissjónarmið fá sífellt meira vægi, einstaklingshyggja eykst, hefðbundið fjölskylduform breytist, fólk verður sífellt kröfuharðara sem neytendur og tækninni fleygir ört fram.

Staðsetning óbeinna og afleiddra starfa
    Óbein og afleidd störf sem álverið skapar myndast með þrennum hætti, þ.e. neyslutengsl, baktengsl og lárétt tengsl (sjá kafla 4.3.2). Neyslutengslanna gætir mest í þeim byggðarlögum sem starfsmennirnir búa í og einnig að nokkru leyti á Egilsstöðum vegna hlutverks bæjarins sem miðstöðvar samgangna, verslunar og þjónustu. Baktengsla á svæðinu, sem myndast vegna kaupa álversins á vörum og þjónustu, mun gæta mest í Fjarðabyggð og á Egilsstöðum. Láréttra tengsla, sem mæla samdrátt í annarri atvinnustarfsemi vegna samkeppni frá álverinu um vinnuaflið, mun gæta um allt Mið-Austurland og ekki síst í jaðarbyggðum þar sem tekjur eru lágar og atvinna stopul.
    Nettófjöldi óbeinna og afleiddra starfa á Mið-Austurlandi sem myndast er u.þ.b. 300 störf. Þessi störf munu að mestu leyti myndast í Fjarðabyggð og á Egilsstöðum, en að einhverju leyti á Fáskrúðsfirði.

Áhrif álversins á íbúafjöldann
    Væntanleg áhrif álversins á íbúafjöldann verða líklega sem hér segir:
     Núverandi íbúar flytja síður á brott. Á síðustu árum hefur margt ungt fólk á þrítugsaldri flutt brott af svæðinu, og konur í meira mæli en karlar. Tilkoma álversins mun að öllum líkindum draga verulega úr brottflutningi ungs fólks, sérstaklega ef það með beinum eða óbeinum hætti getur leitt til aukinnar fjölbreytni í framboði á störfum fyrir ungar konur. Áhugi unga fólksins á störfum í fyrirhuguðu álveri var staðfestur í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Reyðarál hf. árið 2000. Margt fólk á sextugs- og sjötugsaldri flytur á brott vegna þess að störf fyrir ófaglært fólk, sem ekki eru líkamlega erfið og henta þessu fólki, eru fá á Mið-Austurlandi. Það eru meiri möguleikar fyrir þetta fólk að finna „ýmis“ þjónustustörf við hæfi á höfuðborgarsvæðinu og í mörgum tilvikum eru börn þeirra og barnabörn búsett þar. Álverið mun í gegnum afleidda eftirspurn skapa fjölda þjónustustarfa sem henta fólki á þessum aldri og ef börn þeirra og tengdabörn finna einnig störf við hæfi eru meiri líkur en ella á að stórfjölskyldan haldi kyrru fyrir á svæðinu.
     Kynhlutfall. Eins og fram kom í 2. kafla er hlutfall karla á vinnualdri (15–69 ára) nokkuð hærra en hlutfall kvenna. Líklega flytja margir ungir menn á brott því þeir annað hvort finna ekki maka á svæðinu eða að væntanlegur maki er ekki reiðubúinn að búa á Mið-Austurlandi. Það er því mikilvægt að fyrirhugað álver skapi áhugaverð störf fyrir konur en slíkt mun hafa áhrif í þá átt að draga úr því misvægi sem er í hlutfalli milli kynja á svæðinu.
     Aðflutningur. Hugsanleg áhrif á aðflutning fólks voru könnuð af Félagsvísindastofnun fyrir Reyðarál hf. meðal 25–50 ára fólks sem flutt hafði á brott frá Mið-Austurlandi á árunum 1995–1999 og ekki snúið til baka í árslok 2000. Könnunin sýndi töluverðan áhuga þessa fólks á að snúa til baka ef störf sem freista þeirra væru í boði. Um 17% sögðu að það væri frekar eða mjög líklegt að þeir myndu flytja til baka ef álver yrði reist í Reyðarfirði, en 49% sögðu að það væri frekar eða mjög ólíklegt. Svörin voru nokkuð háð aldri og það kom greinilega fram að áhugi unga fólksins á að flytja til baka var meiri en þeirra sem eldri voru.
     Aldursskipting. Jákvæðar breytingar munu verða á aldursskiptingu íbúanna ef af verkefninu verður. Fyrstu árin mun fólki á aldrinum 20–39 ára að öllum líkindum fjölga verulega og af þeim sökum einnig börnum sem þeim fylgja.

4.3 ATVINNU- OG EFNAHAGSLÍF
4.3.1 BYGGINGARTÍMI
    Áætlaðar fjárfestingar Alcoa í álveri sem hefur framleiðslugetu upp á 322 þús. tonn á ári, nema 100 milljörðum íslenskra króna. Heildarfjárfesting vegna Kárahnjúkavirkjunar og háspennulína er áætluð 90–100 milljarðar króna. Alls er því fjárfesting vegna verkefnisins nálægt 200 milljaðrar íslenskra króna.
    Áætla má að um 70% kostnaðar séu innfluttar fjárfestingarvörur, en um 30% innlendur kostnaður. Innlendur kostnaður er því áætlaður um 30 milljarðar króna. Langstærsti hluti innlends kostnaðar er vinnuafl.
    Útreikningar í kafla 4.3.2 sýna að rekstur álversins muni í gegnum margfeldisáhrif skapa 0,65 starf fyrir hver eitt starf í álverinu. Áætlað er að óbein og afleidd áhrif vegna framkvæmda við álverið verði þau sömu þannig að hvert eitt starf heimamanna við framkvæmdir skapi til viðbótar 0,65 störf. Það er ennfremur áætlað að margfaldarinn fyrir störf tímabundið aðfluttra verði 0,5, fyrir erlenda starfsmenn 0,15 og fyrir innlent vinnuafl sem dvelur í vinnubúðum 0,1. Rökin fyrir mun minni margfeldisáhrifum tveggja síðarnefndu hópanna þessara hópa eru þau að þeir verja mun minni hluta tekna sinna til neyslu á svæðinu, fjárfesta ekki þar og greiða ekki útsvar þar heldur.
    Gífurlegur fjöldi aðkomumanna, bæði innlendra og erlendra, verður á Mið-Austurlandi á framkvæmdatímanum. Sumir munu búa á svæðinu um lengri eða skemmri tíma, jafnvel með fjölskyldum sínum, sem mun enn frekar auka umsvif þar á þessum tíma.
    Þar sem mörg þau störf sem til verða vegna óbeinna eða afleiddra áhrifa af framkvæmdum við álverið verða árstíðabundin og til skamms tíma er áætlað að íbúar á Mið-Austurlandi, að meðtöldum námsmönnum, muni aðeins manna um 40% þeirra. Hin 60% verða mönnuð af aðkomufólki sem kemur tímabundið til starfa á svæðinu, t.d. námsmönnum.
    Áætluð margfeldisáhrif framkvæmda við álver og höfn eru talin nema 523 ársverkum sem dreifast á árin 2003–2007. Gert er ráð fyrir að 40% ársverkanna verði unnin af heimamönnum og 60% af aðkomufólki (Viðauki I, tafla 4).
    Gert er ráð fyrir því að gerðir verði nokkrir stórir verksamningar vegna byggingar álvers en að síðan verði nokkrir undirverktakar vegna hvers samnings. Helstu sóknarfæri fyrir verktaka af Austurlandi eru vegna undirverktakasamninga. Undirverktakan felst m.a. í samsetningu á raf- og vélbúnaði, viðhaldi véla og mannvirkja, flutningum, rekstri vinnubúða og útvegun á stáli, byggingarefni, tækjum, áhöldum og neysluvörum.
    Nefna má nokkur dæmi um hugsanlega undirverktöku vegna byggingar álversins. Í kerskála þarf t.d. að setja saman og ganga frá kerum, fóðra kerin, vinna að pípulögnum og loftræsikerfi, uppsetningu krana, samsetningu og frágangi rafbúnaðar. Í steypuskála þarf að vinna að frágangi steypuvéla, samsetningu og frágangi rafbúnaðar, pípulögnum og kælikerfi og uppsetningu krana. Í skautsmiðju þarf að fóðra ker og framleiða skautgaffla. Setja þarf upp vinnubúðir fyrir nokkur hundruð manns. Þegar framkvæmdir verða í hámarki árið 2006 má gera ráð fyrir að um 1.600 manns verði starfandi á verksmiðjulóðinni.
    Verktakafyrirtæki á Mið-Austurlandi munu finna mörg verkefni sem henta þeim annað hvort vegna byggingar álversins eða í tengdum verkefnum, svo sem jarðvinnu og húsbyggingum. Margvísleg viðskiptatækifæri munu skapast fyrir fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu til verktaka- og framkvæmdaaðila eða til þeirra sem starfa við framkvæmdirnar. Farþega- og vöruflutningar um Egilsstaðaflugvöll munu aukast mikið og aukin eftirspurn verður eftir hvers kyns flutningaþjónustu. Einnig mun eftirspurn eftir hótelrými aukast verulega. Í nokkrum tilvikum, t.d. flugþjónustu, mun ný og aukin þjónusta nýtast öllum íbúum svæðisins.
    Áhrifin á atvinnu- og efnahagslíf Austurlands verða gífurleg á meðan á framkvæmdum stendur og má búast við tímabundinni spennu, m.a. vegna þess að nokkur stór verkefni verða í gangi samtímis. Einkum má búast við að áhrifin á verktakafyrirtæki, verslun, þjónustu og samgöngufyrirtæki verði mikil. Þá má vænta þess að eftirspurn eftir húsnæði aukist mikið og að verð hækki, einkum þó á Héraði og í Fjarðabyggð.

4.3.2 REKSTRARTÍMI
4.3.2.1 Aðferðafræði
    Við mat á samfélags- og efnahagslegum áhrifum af rekstri álvers má beita mismunandi aðferðum. Fjallað verður stuttlega um aðferðafræði slíkrar matsvinnu og síðan verður gerð grein fyrir þeirri aðferð sem notuð verður í þessu verkefni.
    Fyrst má nefna að í athugun sem Byggðastofnun gerði á árinu 1990 á áhrifum orkufreks iðnaðar á atvinnulíf og byggð var beitt svonefndri „economic base“ aðferð. Hún byggir á því að flokka störf í tvennt, þ.e. útflutningsstörf og afleidd störf, og mæla hlutföllin þar á milli. Niðurstaða Byggðastofnunar var að fyrir nýtt álver væru hlutföllin þarna á milli 1:2,3, sem er að fyrir hvert eitt starf í álveri myndu skapast 2,3 störf í öðrum greinum. Byggðastofnun bar einnig saman með sömu aðferð áhrif af nýju álveri miðað við að það væri staðsett á höfuðborgarsvæðinu, í Eyjafirði og í Reyðarfirði. Niðurstaðan var sú að ef álver yrði staðsett á Akureyri myndu skapast 1,3 ný störf á svæðinu fyrir hvert eitt starf í álveri og í Reyðarfirði 1 nýtt starf á svæðinu. Í þessari niðurstöðu felst að fyrir hvert 1 starf í álveri í Reyðarfirði verður til 1 viðbótarstarf á Mið-Austurlandi og 1,3 annars staðar á landinu. Fyrir álver í Reyðarfirði mun því minna en helmingur óbeinna og afleiddra starfa verða til á svæðinu samkvæmt útreikningum Byggðastofnunar.
    Þessi aðferð að skipta störfum í útflutningsstörf og afleidd störf stendur fræðilega á fremur veikum grunni en hins vegar er auðvelt að beita mælingum samkvæmt henni. Margt annað kemur til álita við mat á margfeldisáhrifum en það hve störfum fjölgar mikið. Tilkoma stóriðjuvers hefur t.d. áhrif á launaþróun og verðlag á áhrifasvæði sínu. Hún getur hugsanlega leitt til fækkunar láglaunastarfa, bætt rekstrarafkomu sveitarfélaga þannig að þau geti boðið betri þjónustu og bætt afkomu þjónustufyrirtækja, sem m.a. leiðir til aukinnar fjölbreytni starfa á svæðinu.
    Á árinu 2000 vann Richard S. Conway að rannsókn á efnahagslegum áhrifum áliðnaðar í Washington fylki í Bandaríkjunum. Áliðnaðurinn í fylkinu er 60 ára gamall og byggist aðallega á 5 stórum fyrirtækjum. Þar starfa um 7.500 manns og veltan á árinu 1998 var 2,6 milljarðar Bandaríkjadollara (um 260 milljarðar króna).
    Gert var sérstakt spá- og hermilíkan með ýmsum breytum til að mæla bein og óbein áhrif áliðnaðar á hagkerfi fylkisins. Hegðun hagkerfisins var fyrst reiknuð með allri framleiðslu áliðnaðarins (og þannig með öllum störfunum, tekjum starfsfólksins og aðkeyptum vörum og þjónustu innan fylkisins) til að skapa grunnspá til nokkurra ára. Útreikningur með hermilíkaninu var síðan endurtekinn án áliðnaðarins og þannig búin til fráviksspá. Mismunurinn á milli grunnspár og fráviksspár var notaður sem mælikvarði á margfeldisáhrif áliðnaðarins.
    Niðurstaðan hvað störf varðar var sú að fyrir hvert eitt starf í áliðnaði höfðu skapast 2,9 afleidd störf annars staðar í hagkerfi fylkisins. Margfaldarinn er nokkuð hár vegna hárra launa í áliðnaði og vegna þess að hátt hlutfall af aðkeyptum vörum og þjónustu til áliðnaðar er keypt innan fylkisins.
    Í rannsókninni voru einnig reiknuð margfeldisáhrif áliðnaðar á störf innan þeirra níu sýslna í Washingtonfylki sem hafa áliðnað. Flest þeirra eru í fremur dreifðri byggð. Í sex þessara sýslna er áliðnaðurinn af svipaðri stærðargráðu og fyrirhugað álver í Reyðarfirði, eða á bilinu 350 til 880 störf. Áhrifin á óbein og afleidd störf eru m.a. háð því hversu öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er innan sýslunnar. Mestu staðbundnu margfeldisáhrifin reyndust í Chelan sýslu (íbúafjöldi 60 þúsund) eða 2,74 og minnst í Klickitat sýslu (íbúafjöldi 19 þúsund) 1,84, sem gefur til kynna að fyrir hvert eitt starf í áliðnaði hafa orðið til 0,84–1,74 störf í öðrum greinum í gegnum óbein og afleidd áhrif. Atvinnulífið í Klickitat sýslu er ekki nærri því eins fjölbreytt og í Chelan sýslu og því mun líkara því sem er á Mið-Austurlandi.
    Ein af meginniðurstöðum Conway´s er að margfeldisáhrif fyrir fylkið allt eru töluvert meiri en samanlögð margfeldisáhrif allra níu sýslnanna, sem gefur til kynna að hluta áhrifanna gæti utan sýslanna, líklega í stærstu borgum fylkisins. Í rannsókn Conway's eru mæld efnahagsleg áhrif iðnaðar sem þegar er til staðar í fylki þar sem búa 5–6 milljónir manna. Hagkerfi Washingtonfylkis er u.þ.b. 20 sinnum stærra en íslenska hagkerfið. Af þeirri ástæðu eru þeir sjálfum sér nógir um hærra hlutfall af aðföngum fyrir áliðnað en Íslendingar, þ.e. að undanskilinni raforku og hráefni. Þá er einnig meiri úrvinnsla úr áli í Washingtonfylki en hér á landi.
    Mat á efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði snýst um nýtt iðnaðarfyrirtæki sem ekki verður tilbúið að hefja starfsemi fyrr en eftir 5 ár. Slíkt mat er ætíð háð ákveðinni óvissu. Þótt niðurstöður Conway's séu gagnlegar fyrir þessa athugun er ekki mögulegt að beita hermilíkani hans. Það er sniðið að mati á starfsemi sem þegar er til staðar en ekki á útflutningsstarfsemi sem áætlað er að verði sett á fót eftir nokkur ár, þar sem aðferð sem kennd er við útflutningsgrunn (export base model) hentar mun betur. Aðferðin byggist á því að flokka tengsl ríkjandi útflutningsgreinar, eða ráðandi útflutningsfyrirtækis, við aðra efnahagsstarfsemi og grunngerð á svæðinu. Samkvæmt þessari aðferð er sá vöxtur í atvinnu- og efnahagslífi sem fylgir álverinu flokkaður niður í eftirfarandi tengsl innan svæðisins, sjá mynd 4.3.

Mynd 4.3 Margfeldisáhrif álvers.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Baktengsl lýsa þeim áhrifum sem verða vegna kaupa á aðföngum til framleiðslunnar og þeirri grunngerð sem nauðsynlegt er að byggja upp vegna hennar, þar með talin bygging álvers og bygging og rekstur virkjana.
     Framtengsl lýsa þeim áhrifum sem verða af starfsemi álversins í gegnum úrvinnslu, flutning á framleiðsluvörum á markað o.fl.
     Neyslutengsl lýsa þeirri auknu eftirspurn sem skapast vegna neyslu starfsfólks í álveri og afleiddum störfum, skattgreiðslum þeirra og fyrirtækisins og starfsmanna í afleiddum störfum. Starfsmennirnir kaupa hús, bíla, neysluvörur og þjónustu og greiða opinber gjöld. Hið opinbera nýtir m.a. skatta og útsvör til að starfrækja menntastofnanir og heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
     Lárétt tengsl lýsa sambúðar- og samkeppnisáhrifum álvers á aðrar greinar á svæðinu svo sem aukin samkeppni um vinnuafl og sköpun nýrra tækifæra í ferðaþjónustu vegna betri grunngerðar. Þau tákna einnig áhrif á samkeppnisvörur, stoðvörur og aukaafurðir.
    Þessi tengsl munu leiða til mismikillar atvinnusköpunar innan Mið-Austurlands. Neyslutengsla mun gæta mest en baktengsla minna og áhrifa þeirra mun gæta til langs tíma. Framtengsl verða mjög takmörkuð því ekki er á þessu stigi reiknað með frekari úrvinnslu áls á svæðinu, en láréttu tengslin munu hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á atvinnulíf svæðisins. Áhrifa láréttu tengslanna mun gæta mun meira á framkvæmdatíma en rekstrartíma álversins. Þau munu m.a. hafa áhrif á byggingastarfsemi, viðgerðarþjónustu, ferðaþjónustu, verslun og viðskipti.

4.3.2.2 Neyslutengsl
    Beinar launagreiðslur 322 þúsund tonna álvers eru áætlaðar um 1,8 milljarðar króna á ári, mælt á núverandi verðlagi. Af beinum launagreiðslum má áætla að um 16% fari í skatta til ríkisins, 12% í útsvar til sveitarfélaga, 4% í lífeyrissjóðsgreiðslur og 1% í iðgjöld til stéttarfélaga. Áætla má að um 3% fari í sparnað og um 64% til neyslu.
    Samkvæmt upplýsingum frá öðrum álfyrirtækjum hér á landi er starfsmannakostnaður að meðtöldum launatengdum gjöldum, fræðslu, fæði og akstri rúmlega 4 m. kr. á ársverk.
    Samkvæmt skiptingu útgjalda á grundvelli vísitölu neysluverðs Hagstofunnar frá október 2002 fara 20% útgjalda heimila í matvörur, drykkjavörur og tóbak, 5,7% í föt og skó, 16,1% í húsnæði, 2,7% í orkukaup, 6,7% í húsgögn og heimilisbúnað, 3,8% í heilsugæslu og lyf, 14% í kaup og rekstur ökutækja, 1,9% í flutninga, 3,1% í póst og síma, 14% í tómstundaiðkun og menningu, 0,5% í menntun, 5,5% í veitingahús og hótel og 6,1% í ýmsar vörur og þjónustu.
    Starfsmannakostnaður 322 þúsund tonna álvers er áætlaður rúmlega 2 milljarðar á ári á núverandi verðlagi. Áætlað er að 50–60% af þessari fjárhæð eða um 1,0–1,2 milljarður króna verði eytt innan Mið-Austurlands í gegnum neyslu, fjárfestingar einstaklinga, útsvör og skatta, en 40–50% verði eytt utan svæðisins. Þessi hlutföll eru áætluð því engin leið er að reikna þau út með nákvæmari hætti.
    Af þeirri fjárhæð sem varið er innan Mið-Austurlands er áætlað að einn þriðji eða um 330–400 milljónir króna endi sem launagreiðslur hjá viðkomandi þjónustuaðilum og opinberum aðilum. Miðað við það að margfeldisáhrifa gætir líka af þessum launagreiðslum í næstu umferð og svo koll af kolli, verða uppsöfnuð áhrif u.þ.b. 0,5 af upphaflegri fjárhæð, eða rúmlega 500 milljónir króna sem skapar um 250–300 viðbótarstörf á svæðinu. Sé miðað við að margfaldari neyslutengsla sé 0,6 skapar það 272 óbein og afleidd störf. Þessa niðurstöðu verður að taka með fyrirvara um allt að 10–15% skekkjumörk.

4.3.2.3 Baktengsl
    Kaup álversins á rekstrarvörum og þjónustu, að frátöldum kaupum á rafmagni og hráefni, eru samkvæmt upplýsingum Alcoa áætluð um 30 milljónir Bandaríkjadollara á ári. Innlend kaup á aðföngum eru áætluð 9 milljónir Bandaríkjadollara á ári eða um 900 milljónir króna.
    Þessar rekstrarvörur og þjónusta eru af margvíslegum toga og er óvarlegt að áætla að meira en 30% af verði þeirra sé launakostnaður, eða um 300 milljónir króna. Ekki er ráðlegt að gera ráð fyrir að meira en þriðjungur til helmingur þessara starfa verði unninn af launþegum á Mið-Austurlandi sem gæti þýtt um 100–150 milljónir króna á ári fyrir þá, eða 50–60 óbein ársverk og sem síðan skapa 25–30 afleidd ársverk til viðbótar, eða 75–90 ársverk alls.
    Til viðbótar þarf að gera ráð fyrir að rafmagnskaup álversins muni hafa einhver efnahagsleg áhrif á svæðinu. Eftir að rekstur virkjunar hefst munu starfa þar um 15 manns, keyptar verða að rekstrarvörur og þjónusta, auk þess sem neyslutengsl skapast vegna starfsmanna. Telja verður að bein, óbein og afleidd ársverk vegna þess þáttar verði tæplega 30.
    Miðað við ofangreint ættu baktengsl að skapa u.þ.b. 105–120 ársverk. Margfaldari í gegnum baktengsl sem er 0,25 gefur 113 óbein og afleidd störf. Þessa niðurstöðu verður að taka með fyrirvara um allt að 10–15% skekkjumörk.

4.3.2.4 Almennt um margfeldisáhrif
    Eftirfarandi forsendur, byggðar á því sem fjallað er um hér að framan, eru settar fram um svæðisbundin margfeldisáhrif álversins á atvinnulíf á Mið-Austurlandi.
          Áhrifin í gegnum framtengsl verða í algjöru lágmarki og eru því ekki reiknuð.
          Áhrif í gegnum lárétt tengsl eru óviss, einkum eftir að rekstur álversins hefst. Það er ekki mögulegt með neinni nákvæmni að reikna þessi áhrif nokkur ár fram í tímann. Eftir að hafa fjallað um málið með sveitarstjórnarmönnum og fulltrúum úr atvinnulífi á svæðinu þá er það niðurstaðan að áætla þessi margfeldisáhrif sem –0,2, þ.e. að fyrir hvert eitt starf sem skapast í álverinu tapist 0,2 önnur störf á svæðinu í atvinnustarfsemi sem verður undir í samkeppni á vinnumarkaði svæðisins við tilkomu álversins.
          Svæðisbundin margfeldisáhrif á atvinnulífið í gegnum neyslutengsl eru áætluð 0,6 og baktengsl 0,25 eins og áður hefur verið fjallað um.
          Nettó svæðisbundin margfeldisáhrif af rekstri álversins á atvinnulíf eru áætluð 0,65 (0.60+0.25–0.20).
    Útreikningar byggðir á ofangreindum forsendum eru settir fram í Viðauka I, töflu 2. Ekki er víst að þessar forsendur haldist óbreyttar í 5–10 ár, auk þess sem þær eru háðar nokkrum skekkjumörkum. Gera verður ráð fyrir því að ríkisvaldið, sveitarstjórnirnar á svæðinu og Alcoa muni með stefnumörkun sinni og aðgerðum hafa áhrif á það hver óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers verða. Á það verður einnig að leggja áherslu að meta má margfeldisáhrif með öðrum hætti en í fjölda starfa sem skapast, svo sem áhrif á laun og verðlag, aukin fjölbreytni í atvinnulífi, bætt afkoma þjónustufyrirtækja og vörusala og hagkvæmari rekstur opinberrar þjónustu.
    Rétt er að taka fram, að nær samfelldar byggingaframkvæmdir verða við virkjanir, byggingu álvers, línulögn, hafnargerð og jarðgöng á Mið-Austurlandi í um 6 ár ef að verkefninu verður og munu þær hafa gríðarleg margfeldisáhrif á svæðinu. Það gæti reynst erfitt að aðgreina þau áhrif frá þeim áhrifum sem rekstur álversins hefur einn og sér.
    Gera má ráð fyrir að árið 2009 muni álverið með beinum, óbeinum og afleiddum störfum skapa um 750 ný ársverk á Mið-Austurlandi, þar af rúmlega 450 í álverinu sjálfu. Það skiptir einnig miklu máli í þessu sambandi að álver greiða að meðaltali hærri laun en aðrar framleiðslugreinar, að fiskveiðum undanskildum. Mikill skortur er á vel launuðum störfum í landi á Austfjörðum. Mikilvægustu efnahagsleg áhrif álversins á svæðinu verða því líklega þau að verulega vel launuðum störfum fjölgar og lífskjör verða bætt.
    Aukning um 750 varanleg störf á Mið-Austurlandi á u.þ.b. 6 árum getur leitt til almennra launa- og verðhækkana. Skortur á vinnuafli getur haft neikvæð áhrif á greinar svo sem landbúnað, ferðaþjónustu og ýmsar þjónustugreinar. Aukin eftirspurn getur leitt til hækkunar á verði á húsnæði o.fl., en almennar verðhækkanir geta verið óhagstæðar fyrir þá sem búa við lágar tekjur.
    Hins vegar bendir ýmislegt til þess að slík vandamál verði takmörkuð eða komi ekki upp nema í litlum mæli. Tímaáætlun verkefnisins er nokkuð rúm þannig að nægur tími gefst til að skipuleggja og undirbúa alla þætti þess. Þarfir fyrir aukið vinnuafl og húsnæði, eða samgöngubætur, eru nú þegar fyrirséðar og því má tímanlega gera áætlanir um það hvernig skuli bregðast við þeim. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga, forystumenn stéttarfélaga og aðrir viðmælendur létu í ljós þá skoðun að vinnumarkaður og húsnæðismarkaður, svo og stjórnsýsla hins opinbera, muni ráða vel við að mæta nýjum þörfum vegna álversins. Þrátt fyrir að atvinnulíf sé að ýmsu leyti traust hefur fólki fækkað undanfarinn áratug og þar með er nokkur umframgeta í þjónustu og grunngerð á svæðinu.

4.3.2.5 Áhrif álversins á aðrar atvinnugreinar
    Fyrirsjáanleg áhrif álvers í Reyðarfirði á aðrar atvinnugreinar á svæðinu eru sem hér segir:
     Sjávarútvegur: Eins og fjallað var um í 2. kafla stendur sjávarútvegur á svæðinu nokkuð traustum fótum m.a. vegna nálægðar við gjöful fiskimið og öflugra fyrirtækja. Hins vegar fela störf við fiskveiðar í sér fjarvistir að heiman og störf í fiskvinnslu eru ótrygg og tekjur óvissar. Þess vegna munu ýmsir sem starfa í sjávarútvegi vilja komast í störf í fyrirhuguðu álveri eða önnur ný störf sem af því munu leiða. Nú þegar er skortur á vinnuafli í fiskvinnslu og honum er mætt með erlendu vinnuafli og öðru aðkomufólki. Menntun margra sjómanna, nema vélstjóra og skipstjórnarmanna, er ekki í samræmi við þarfir álversins. Fæst fiskverkafólk hefur þá menntun sem krafist verður í væntanlegu álveri. Öðru máli gegnir um vélstjóra og iðnaðarmenn sem vinna hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Af þessum sökum er ekki að búast við að nema tiltölulega lítill hluti þeirra starfsmanna sem nú starfa í sjávarútvegi muni sækjast eftir störfum í væntanlegu álveri, helst þó úr loðnubræðslum og vélaverkstæðum. Laun skipstjórnarmanna eru það há að þeir myndu lækka verulega í launum við að fara til starfa í álverinu. Hins vegar mun fyrirhugað álver líklega draga til sín mikið af ungu fólki á svæðinu sem að öðrum kosti myndi hugsanlega fara til starfa í sjávarútvegi.
     Landbúnaður: Samdráttur hefur verið í landbúnaði undanfarin ár. Störf í álveri, eða afleidd störf, munu gefa fólki sem hefur starfað í landbúnaði tækifæri til að skipta um starfsvettvang eða ná sér í viðbótartekjur. Þetta mun hjálpa þeim bændum að bregða búi sem það kjósa og öðrum að takast á við búháttabreytingar vegna aukinna tekna.
     Iðnaður og byggingarstarfsemi: Þó nokkur lítil fyrirtæki sem eru í iðnaði og byggingarstarfsemi auk sjálfstætt starfandi iðnaðarmanna munu njóta góðs bæði af framkvæmdum við fyrirhugað álver og rekstri þess. Það mun gerast í gegnum baktengsl, þ.e. með sölu á vörum og þjónustu til álversins og í gegnum neyslutengsl, t.d. með húsbyggingum fyrir starfsfólk í álverinu eða afleiddum störfum. Nokkur iðnaðarfyrirtæki, t.d. í viðgerðarþjónustu og minni háttar framleiðslu, munu líklega missa starfsfólk yfir til álversins, auk þess sem störf þar munu freista margra iðnaðarmanna.
     Ferðaþjónusta: Aðilar í ferðaþjónustu munu njóta aukinna tekna á svæðinu vegna tilkomu álversins og bættra samgangna. Ný tækifæri munu skapast fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. þau sem eru í hótel- og veitingarekstri. Þá munu margir vera á ferðinni í viðskiptaerindum, svo sem verktakar, sérfræðingar og eftirlitsmenn, sem munu óska eftir hótelrými í nálægð við álverið og virkjanaframkvæmdir. Það getur hugsanlega leitt til skorts á herbergjum og hækkunar á verði tímabundið. Þessi áhrif eru þó aðeins til skamms tíma meðan á framkvæmdum stendur og úr þeim dregur þegar ný hótel hefja starfsemi.
    Áður hefur verið nefnt að eftirspurn eftir vinnuafli, tengt bæði framkvæmdum og rekstri álversins, geti leitt til þess að fólk sem hefur haft lág laun og/eða árstíðabundna vinnu muni njóta betri stöðu á vinnumarkaði. Þetta getur haft áhrif á ferðaþjónustu sem hefur lengi byggst á árstíðabundnu vinnuafli, fólki í hlutastörfum og láglaunafólki. Búast má við að þessi áhrif muni vara í skamman tíma.
    Ekki er líklegt að tilkoma álversins dragi úr ferðamannastraumi til Mið-Austurlands, einkum ef vandað er til hönnunar og frágangs á lóðinni í kringum álverið. Jafnvel má fremur búast við auknum ferðamannastraumi, bæði meðan á framkvæmdum stendur og eftir að rekstur hefst, sérstaklega ef útbúinn er útsýnisstaður þar sem horfa má yfir svæðið og boðið er upp á leiðsögn fyrir þá sem vilja heimsækja álverið. Þá munu vegir sem byggðir verða á hálendinu vegna Kárahnjúkavirkjunar nýtast ferðafólki.
     Þjónustugreinar: Búast má við vexti í þjónustugreinum vegna fjölgunar íbúa, aukinnar atvinnu og hærri tekna. Vöxtur þjónustugreina mun vafalaust efla Egilsstaði sem þjónustumiðstöð Mið-Austurlands og Reyðarfjörð vegna nálægðar við álverið. Búast má við að makar þeirra sem flytjast vegna starfa í fyrirhuguðu álveri muni bæta úr skorti á sérmenntuðu fólki svo sem í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, skólum og fleiri þjónustugreinum.

4.4 VINNUMARKAÐUR
4.4.1 KÖNNUN
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði fyrir Reyðarál hf. afstöðu ungs fólks á Mið- Austurlandi, á aldrinum 18–28 ára, til álvers í Reyðarfirði. Könnunin, sem fór fram í nóvember og desember 2000, náði til fólks með lögheimili á svæðinu frá Fljótsdalshéraði til Breiðdalsvíkur. Af þeim 364 sem voru í úrtakinu svöruðu 203, eða 56%.
    Þegar á heildina er litið voru ungir Austfirðingar sem þátt tóku í könnuninni frekar óánægðir með atvinnuástand í sínu byggðarlagi, bæði vegna lítillar fjölbreytni í atvinnulífi og takmarkaðra möguleika á tekjuöflun. Hins vegar var nokkur ánægja með atvinnuöryggi. Talsverð óánægja var með vöruúrval (51%) og enn meiri með vöruverð (70%) í verslunum á Austurlandi. Um 43% svarenda var mjög eða frekar ánægður með framboð hentugs húsnæðis en sú afstaða var breytileg eftir búsetu. Nokkur ánægja var með tækifæri til náms að loknum grunnskóla. Um 43% voru mjög eða frekar ánægðir með námstækifæri. Um 56% svarenda sögðust mjög eða frekar ánægðir með möguleika til útivistar og tómstundastarfa í sínu byggðarlagi.
    Þegar öll ofangreind atriði voru greind eftir því hvort ungt fólk teldi líklegt að það myndi búa á Austurlandi eftir 10 ár kom í ljós munur á sjö af tíu atriðum. Fólk sem ætlaði ekki að búa á Austurlandi eftir 10 ár var óánægðra en fólk, sem ætlaði að búa þar, með eftirfarandi þætti: atvinnumöguleika, fjölbreytni í atvinnulífi, tekjuöflunarmöguleika, atvinnuöryggi, verðlag, fjölbreytni og vöruúrval í verslunum og möguleika til tómstunda og útivistar. Af þessu má álykta að óánægja með þessi atriði geti stuðlað að brottflutningi ungs fólks af Austurlandi. Því virðist mikilvægast að styrkja atvinnulífið og bæta verslunina til að halda ungu fólki í sinni heimabyggð. Önnur atriði eins og tækifæri til náms eftir grunnskóla og húsnæðisaðstæður hafa líklega ekki eins mikil áhrif á ákvörðun fólks um hvort það verði kyrrt í heimabyggð eða flytur burt.
    Þeir sem sögðust ætla búa annars staðar en á Austurlandi eftir 10 ár voru einnig spurðir að því hvort fleiri og betri atvinnutækifæri í þeirra byggðarlögum myndu auka líkur á að þeir yrðu um kyrrt á Austurlandi. Um 90% þeirra sögðu að svo væri.
    Ungt fólk á Austurlandi var almennt hlynnt byggingu álvers í Reyðarfirði. Um 56% voru mjög hlynnt og þrír af hverjum fjórum svarendum voru mjög eða frekar hlynntir byggingu álvers í Reyðarfirði. Um 40% sögðust hafa áhuga á að vinna í álveri ef það yrði reist í Reyðarfirði. Þessi afstaða var nokkuð breytileg eftir kyni og búsetu.
    Alls töldu 87% að bygging álvers í Reyðarfirði myndi styrkja efnahagslega stöðu byggðalaga á Austurlandi mjög eða frekar mikið. Um 59% svarenda töldu að með tilkomu álvers ættu laun eftir að hækka á Austurlandi, um 40% töldu að laun ættu eftir að haldast svipuð og nær enginn að þau ættu eftir að lækka.
    Þegar kom að áhrifum álvers í Reyðarfirði á mannlíf í byggðarlögum á Austurlandi töldu rúmlega þrír af hverjum fjórum ungum Austfirðingum að það ætti eftir að leiða til mun eða nokkuð betra mannlífs.
    Að lokum var greint frá afstöðu ungra Austfirðinga til þess hvaða áhrif þeir teldu að tilkoma álvers myndi hafa á brottflutning frá Austurlandi. Um 82% töldu að brottflutningur ætti eftir að minnka og einungis 3% að brottflutningur myndi aukast.

4.4.2 BYGGINGARTÍMI
    Áætluð vinnuaflsþörf vegna framkvæmda fyrirhugaðs álvers (að meðtalinni höfn) er um 2.300 ársverk. Um veturinn 2005–2006 er áætlað að um 900–1.000 manns verði að störfum, og um sumarið 2006 allt að 1.600 manns. Draga mun úr vinnuaflsþörfinni veturinn 2006–2007 þar til búið verður að mestu leyti að ljúka framkvæmdum vorið 2007 ef áform ganga samkvæmt tímaáætlun. Eftir að leitað var álits hjá reyndum stjórnendum hjá byggingafyrirtækjum er áætlað að skipting vinnuafls við framkvæmdir verði sem hér segir:
          Heimamenn: 10%
          Starfsmenn sem flytja tímabundið inn á svæðið með fjölskyldur sínar meðan á framkvæmdum stendur: 15%
          Erlendir starfsmenn: 30%
          Innlendir starfsmenn sem dvelja í vinnubúðum en fara heim til sín í fríum: 45%.
    Mesta óvissan tengist stærð þess hóps starfsmanna sem munu flytja tímabundið inn á svæðið með fjölskyldum sínum, eða 15%. Þetta hlutfall virðist frekar hátt, en þessir starfsmenn munu sjá fram á nokkurra ára samfellda vinnu við framkvæmdir, auk þess sem hugsanlegt starf í álverinu sjálfu að framkvæmdum loknum freistar líka.
    Framkvæmdaaðili verkefnisins mun gera sitt besta til að hámarka möguleika heimamanna til atvinnu og viðskipta á meðan á framkvæmdum stendur og upplýsa fyrirtæki á svæðinu, sveitarfélög og menntastofnanir tímanlega um áætlanir sínar og þarfir.
    Fyrri reynsla sýnir að sumir þeirra sem starfa í byggingariðnaði en búa annars staðar munu sýna áhuga á að flytja á svæðið og síðan sækja um störf í álverinu sjálfu. Sumir þeirra munu vera Austfirðingar sem hafa flutt á brott; um 17% þeirra sem spurðir voru í könnun Félagsvísindastofnunar, þ.e. höfðu flutt burt 1995–1999 og voru á aldrinum 20–49 ára, sögðu að það væri frekar eða mjög líklegt að þeir myndu flytja til baka ef álverið yrði byggt. Svörin voru háð aldri þar sem þeir yngri í hópi svarenda voru líklegri til að snúa til baka en þeir eldri ef álverið yrði reist. Slíkir búferlaflutningar til baka á heimaslóðir eru líklegri til að eiga sér stað vegna vinnu í álverinu en við framkvæmdir eingöngu því vinna í álverinu er varanlegri.
    Hvernig þau störf dreifast sem skapast vegna tilkomu álversins, bæði á framkvæmdatíma og eins eftir að rekstur hefst, veltur á þáttum eins og fyrirkomulagi vakta, staðsetningu og stærð vinnubúða eða aðstöðu fyrir starfsmenn til dvalar og fjarlægð frá heimili til vinnustaðar.

4.4.3 REKSTRARTÍMI
    Í þessum kafla er lýst þörfum álversins fyrir vinnuafl á rekstrartíma og líklegum viðbrögðum á vinnumarkaði svæðisins og kannað hvað hann getur tekið á móti mörgum viðbótarstörfum með tilliti til núverandi atvinnustigs og horfa á næstu árum. Í kaflanum er fjallað um líklega þróun vinnumarkaðar á næstu árum, hve margir þurfa að flytja til svæðisins ef álver tekur til starfa í Reyðarfirði og hvernig heppilegast sé að nálgast þetta viðfangsefni.
    Eins og áður sagði er áætlað að álverið skapi í heild 454 ársverk. Álverið mun nota bestu fáanlega tækni í heiminum, bæði með tilliti til tæknigetu og mengunarvarna. Búnaður verður settur upp til að minnka útblástur frá kerskálanum, sem verður langt innan bæði íslenskra og alþjóðlegra krafna. Sjálfvirkni og tölvuvæðing hafa gjörbreytt álvinnslutækninni á undanförnum árum og svo til upprætt hina líkamlega erfiðu vinnu sem áður einkenndi þennan iðnað. Samfara tækni- og tölvuvæðingunni er búið að gjörbylta sjálfum vinnslubúnaðinum, rafskautunum og álbræðslukerunum þannig að stórlega hefur dregið úr hita, mengun og óþrifnaði.
    Fjöldi kvenna sem starfa í áliðnaði hefur farið vaxandi og þær vinna nú störf sem áður voru aðeins talin vera fyrir karlmenn. Mörg álfyrirtæki beita sérstökum aðgerðum til að laða að fleiri konur til starfa í álverum.
    Álverið verður í sterkri stöðu til að keppa við aðra atvinnustarfsemi um vinnuafl. Önnur álver á Íslandi greiða hærri laun en aðrar sambærilegar starfsstéttir fá að sjómönnum undanskildum. Álverin veita örugga atvinnu og vaktavinnu sem almennt er betur borguð en dagvinna. Vinna í álveri er áhugaverð fyrir fólk úr mörgum starfsgreinum með margvíslega menntun og starfsþjálfun.

4.4.3.1 Menntun vinnuafls
    Menntunarkröfum sem gerðar verða til starfsmanna er skipt í fimm flokka sem hér segir:
          Störf sem ekki krefjast neinnar sérþekkingar, þ.e. ófaglært verkafólk.
          Störf sem krefjast sérstaks iðn- eða fjölbrautanáms.
          Störf sem krefjast tæknimenntunar.
          Störf sem krefjast tæknimenntunar á háskólastigi eða sambærilegrar menntunar.
          Störf sem krefjast akademískrar háskólamenntunar.
    Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun verða störfin í álverinu alls 420 og má áætla að þau skiptist sem hér segir:
          Þörf er fyrir 10–20 starfsmenn með akademíska háskólamenntun eða sambærilega menntun.
          Þörf er fyrir 20–25 starfsmenn með tæknimenntun á háskólastigi eða sambærilega menntun.
          Þörf er fyrir 50–60 starfsmenn með sérstaka tæknimenntun.
          Þörf er fyrir um 300 starfsmenn með iðnnám eða sérstakt fjölbrautanám til að vinna við álframleiðslu.
          Þörf er fyrir um 25–30 störf sem krefjast engrar sérstakrar þjálfunar.
    Áætlað má að um helmingur þessara 420 starfa verði dagvinnustörf en hinn helmingurinn verði unninn á vöktum.
    Gert er ráð fyrir að flestir yfirmenn verði ráðnir snemma í undirbúningsferlinu og muni vera til staðar á meðan álverið verði reist. Smám saman verði fleiri starfsmenn ráðnir þar til þremur mánuðum áður en rekstur hefst en þá verði ráðið í öll störf.
    Því miður er skortur á ítarlegum upplýsingum um menntunarstig íbúa á Mið-Austurlandi. Miðað við vinnuaflskönnun sem gerð var vegna fyrri athugunar á samfélagslegum áhrifum álvers, sem út kom í febrúar 1998 og viðtöl við íbúana má áætla að um 55–60% vinnuaflsins á svæðinu sé ófaglært, háskólamenntað fólk ekki meira en 5–10%, en faglært fólk, skilgreint mjög vítt, sé u.þ.b. 30–35%. Síðastnefndi hópurinn er fjölmennur og í honum eru m.a. iðnaðarmenn, skipstjórnarmenn, vélstjórar, matsveinar, bændur með próf úr búnaðarskóla, menntað fiskvinnslufólk, verslunarmenntað fólk, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, leikskólakennarar og grunnskólakennarar. Fyrir sumar þessara stétta er nú krafist háskólamenntunar en margt fólk í þeim starfsgreinum á Austurlandi er án háskólamenntunar.

4.4.3.2 Viðbrögð á vinnumarkaði
    Í þessum hluta kaflans er fjallað um það hvernig vinnumarkaðurinn á Mið-Austurlandi getur brugðist við þörfum álversins fyrir vinnuafl og þeirri þörf fyrir vinnuafl sem skapast í öðrum greinum. Hér á eftir er lýst því vinnuafli sem er til staðar og væntanlegum nýliðum á vinnumarkaði á næstu árum. Kannað er frá hve stóru svæði ætla má að fólk sé reiðubúið að sækja vinnu í álverið. Stærð aðdráttarsvæðisins veltur bæði á samgöngum og því vinnufyrirkomulagi sem verður í boði. Hér á eftir verður einnig fjallað um möguleika á því að laða til svæðisins enn frekara vinnuafl. Má þar nefna brottflutta Austfirðinga, fólk sem myndi hugsanlega flytja austur ef atvinna byðist í álveri eða nýjum störfum og vinnusókn fólks úr öðrum landshlutum.
    Áætlað hefur verið hver séu líkleg viðbrögð helstu markhópa á vinnumarkaði við framboði starfa í álverinu. Þessar áætlanir eru byggðar á viðtölum við ýmsa aðila á Austfjörðum, skoðanakönnun sem unnin var fyrir Reyðarál hf. og almennri þekkingu á íslenskum vinnumarkaði.

1. Heimamenn sem nú eru á vinnumarkaði
    Sá fjöldi heimamanna sem tiltækur er til vinnu í álverinu mun takmarkast m.a. af þeirri vegalengd sem fólk er reiðubúið að ferðast til og frá vinnu daglega. Innan 30 mínútna akstursfjarlægðar eru nú um 5.400–5.500 íbúar, aðallega í Neskaupstað, á Eskifirði, Reyðarfirði, Egilsstöðum og í Fellabæ. Eftir að jarðgöng koma milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar bætast um 600 íbúar við þá tölu. Um 2.000 íbúar til viðbótar búa í byggðarlögum sem liggja í 30–60 mínútna akstursfjarlægð.
    Reynslan sýnir að margt fólk er reiðubúið að sækja vinnu daglega í allt að 30 mínútna akstursfjarlægð frá heimili sínu, t.d. milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar, svo og milli Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Fólk sem sækir vinnu daglega um lengri veg þreytist á því en gerir það samt ef engin önnur tækifæri bjóðast, laun eru há, starfið áhugavert eða vinnan unnin í löngum lotum með góðum fríum inn á milli, t.d. hjá sjómönnum. Fjöldi fólks sem nú býr í 30–60 mínútna akstursfjarlægð frá væntanlegu álveri mun líklega hafa áhuga og möguleika á að vinna þar. Í þessum hópi er m.a. fólk sem hefur óstöðuga vinnu og/eða lág laun. Má þar nefna bændur, maka þeirra, vörubílstjóra, sjálfstætt starfandi iðnaðarmenn, smábátasjómenn, fiskvinnslufólk og starfsfólk í ferðaþjónustu.
    Almennt má líta svo á að tækifærin til að ráða heimafólk til starfa í álverinu séu sem hér segir:
    Innan 1 klst. vinnusóknar frá álverinu eru a.m.k. 250 bújarðir. Á flestum eru sauðfjárbú en á 40–50 er mjólkurbú. Á um helmingi búa með mjólkurframleiðslu eru rekin blönduð bú. Margir bændur og makar þeirra vinna utan bús, einkum þeir sem búa í nálægð við þéttbýli. Bændur stunda m.a. skólaakstur, akstur vörubíla, starfa í byggingavinnu og við mannvirkjagerð, sláturhúsavinnu, uppskipun, sjómennsku og fiskvinnslu. Konurnar vinna í fiskvinnu, á sjúkra- og umönnunarstofnunum, við heimilishjálp, í mötuneytum, við þrif, kennslu, á leikskólum, heimilisiðnað eða ferðamannaþjónustu. Ef varanlegri og betur launuð störf eru í boði innan hæfilegrar akstursfjarlægðar munu margir bændur og eiginkonur þeirra líklega hafa áhuga á þeim.
    Á Mið-Austurlandi er töluvert af fólki með iðn- eða tæknimenntun, svo sem smiðir, rafvirkjar, pípulagningamenn, múrarar, iðnaðarmenn o.fl. Margir þeirra eru sjálfstætt starfandi, svo sem við viðhalds- og viðgerðarstörf, eða þeir starfrækja lítil verkstæði. Aðrir starfa hjá stærri málmiðnaðar- eða byggingafyrirtækjum. Sumir þeirra búa við ótryggar tekjur. Varanleg og vel launuð störf munu freista margra þeirra.
    Í byggðarlögum við sjávarsíðuna á Mið-Austurlandi eru margir sjómenn sem hafa ábyggilega áhuga á að breyta um starf. Margir smábátasjómenn sem veiða á eigin bátum búa við margvíslegar takmarkanir svo sem vegna fiskveiðistjórnunar, fiskgengdar eða veðurs. Þeir geta aðeins stundað veiðar hluta úr árinu og hafa því áhuga á fastri vinnu þar sem þeir gætu hugsanlega stundað smábátaútgerð í aukavinnu. Margir sjómenn á togurum eða nótaveiðiskipum eru með góð laun en eru þreyttir á erfiðum vinnuaðstæðum og löngum fjarvistum frá heimilum sínum. Margir þeirra munu hafa áhuga á öruggu og vel launuðu starfi í landi.
    Laun í fiskiðnaði eru fremur lág nema í loðnubræðslum eða við verkstjórn. Margt starfsfólk í fiskiðnaði mun ábyggilega hafa áhuga á störfum tengdum álverinu.
    Eins og sagt var hér að framan mun fjöldi heimamanna sem sækja um vinnu í álverinu velta að einhverju leyti á vegabótum á svæðinu þannig að álverið verði innan viðráðanlegrar akstursfjarlægðar. Margt af því fólki sem hér hefur verið rætt um þarf frekari grunnmenntun til þess að öðlast þá hæfni sem gerð verður krafa um til umsækjenda um störf í væntanlegu álveri. Nægur tími er til undirbúnings áður en álverið tekur til starfa að þjálfa heimafólk til væntanlegra starfa. Framhaldsskólarnir á svæðinu eru vel undir það búnir að sjá um grunnmenntun og starfsþjálfun, svo og Fræðslunet Austurlands, en í sumum tilvikum er nauðsynlegt að starfsþjálfun fari fram í álverum Alcoa erlendis.

2. Nýliðar á vinnumarkaði
    Fjöldi ungs fólks sem kemur inn á vinnumarkaðinn á Mið-Austurlandi er nálægt 130 manns á ári að meðaltali. Miðað við 4–5 ára undirbúningstíma eru það í kringum 520–650 manns.
    Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Reyðarál hf. meðal ungra Austfirðinga 18–28 ára sögðust um 40% hafa áhuga á að vinna í álveri ef það yrði reist í Reyðarfirði. Þessi afstaða var nokkuð breytileg eftir kyni og búsetu. Karlar (53%) höfðu frekar áhuga á að vinna í álveri en konur (29%). Þá er ljóst að áhugi á að starfa í álverinu var mun meiri í Fjarðabyggð (52,5%) og á Suðurfjörðum (50,0%) en á Seyðisfirði (41,2%) og Fljótsdalshéraði (25,4%).
    Hvað unga fólkið áhrærir þarf að huga að tvennu. Í fyrsta lagi að vekja áhuga ungra karlmanna á störfum í álverinu og bjóða upp á sérstaka náms- og þjálfunarbraut við Verkmenntaskólann í Neskaupstað fyrir þá. Til að halda þeim virkum þar til álverið tekur til starfa mætti gefa þeim kost á störfum við byggingu álversins og einnig gefa þeim tækifæri á tímabundnum störfum í álverum Alcoa erlendis. Í öðru lagi þarf að huga að því hvernig hægt er að laða ungar konur af svæðinu til starfa í álverinu. Það má gera með sérstöku verkefni sniðnu að þeirra þörfum til að þær flytjist síður burt af svæðinu og undirbúi sig til starfa í álverinu. Álverið mun einnig leiða til þess að ýmsum þjónustustörfum fjölgar á svæðinu en mörg þeirra eru áhugaverð fyrir konur.

3. Brottfluttir Austfirðingar
    Hluti þess fólks sem hafði flutt á brott frá Austurlandi síðustu 5–10 árin áður en skoðanakönnun Reyðaráls hf. fór fram, einkum fólk á aldrinum 18–30 ára, gat vel hugsað sér að flytja til baka ef áhugaverð og vel launuð störf byðust. Gróflega má áætla að um 300 manns á aldrinum 18–30 ára „vanti“" í aldurspýramída Mið-Austurlands. Af þessari áætluðu tölu um brottflutta Austfirðinga eru u.þ.b. 2/ 3 konur og u.þ.b 1/ 3 karlar.
    Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var meðal fólks 20–49 ára sem flutt hafði frá Mið-Austurlandi á árunum 1995–1999 kom fram að um 39% svarenda hafði á undanförnum tveimur árum hugleitt að flytja aftur til Austurlands. Nokkuð fleiri konur (46%) en karlar (33%) höfðu hugleitt að flytja aftur. Þá var einnig breytilegt eftir aldri hvort fólk hefði hugleitt að flytja aftur. Mun algengara var að þeir yngri hefðu hugleitt að flytja aftur en þeir eldri.
    Í samræmi við það að lakar atvinnuaðstæður voru oft nefndar sem ástæður fyrir brottflutningi í könnuninni kom í ljós að fleiri atvinnutækifæri myndu auka töluvert líkur á að fólk flytti aftur til Austurlands. Um 70% þeirra sem ekki töldu líklegt að þeir byggju á Austurlandi eftir 10 ár myndu hugleiða flutning aftur á Austurland ef fleiri og betri atvinnutækifæri sköpuðust þar. Töluverður munur var á þessari afstöðu eftir aldri. Fólk á aldrinum 20–29 ára (80%) og 30–39 ára (67%) var mun tilbúnara til að hugleiða að flytja til baka ef fleiri og betri atvinnutækifæri byðust en fólk á aldrinum 40–49 ára (27%).
    Um 17% töldu mjög eða frekar líklegt að þeir flyttu ef álver risi í Reyðarfirði, en 49% töldu það mjög eða frekar ólíklegt. Þessi afstaða var breytileg eftir aldri þar sem yngra fólk var almennt tilbúnara til að flytja til baka en það eldra.

4. Aðkomufólk
    Aðkomufólki sem flyst til Austurlands vegna fyrirhugaðs álvers má skipta í þrjá hópa:
    Í fyrsta lagi, aðkomufólk sem kemur upphaflega til að vinna við framkvæmdir við álverið eða virkjanaframkvæmdir og ákveður að dveljast áfram á svæðinu. Í öðru lagi, fólk sem býr í þorpum og bæjum sem eru utan daglegrar vinnusóknar til álversins, t.d. á Hornafirði, Djúpavogi, Vopnafirði og Norðurlandi eystra. Sumt af þessu fólki býr við óöryggi í núverandi starfi, er þreytt á því eða er sjálfstætt starfandi og hefði áhuga á að flytja ef því byðist starf við hæfi. Í þriðja lagi, menntað fólk sem hefur áhuga á tæknistörfum eða stjórnunarstörfum eða sérhæfðum skrifstofustörfum. Fólk sem sækir í þessi störf getur komið víða að.
    Þessu til viðbótar má búast við að einhverjir Íslendingar sem búsettir eru erlendis hafi áhuga á að snúa til fósturjarðarinnar, einkum þeir sem hafa menntun og starfsreynslu sem nýtist í starfi í álveri. Þá má búast við því að nokkrir erlendir ríkisborgarar sem starfa á vegum Alcoa muni koma til starfa í fyrirhuguðu álveri, a.m.k. fyrstu árin.

5. Vinnusókn um langan veg
    Mögulegt er að manna hluta starfa í álveri með fólki sem býr utan daglegrar vinnusóknar en myndi vilja vinna í vinnulotum sem gætu tekið t.d. 5–7 daga í einu. Slíku fólki þarf að útvega gistingu og fæði á vinnustað svo og flutning á milli heimilis og vinnustaðar. Til dæmis kæmi til greina að aka starfsfólki sem starfaði með þessu fyrirkomulagi til og frá Akureyri.
    Þetta fyrirkomulag er einungis notað ef ekki reynist unnt að fá nægilega margt starfsfólk sem býr í nálægð við álverið. Fyrirkomulag sem þetta er þekkt á olíuborpöllum, í námugreftri á heimskautasvæðum og í rekstri vatnsaflsvirkjana í óbyggðum. Margir einstaklingar hafa áhuga á svona störfum, bæði vegna þeirra kjara sem í boði eru og góðra fría sem eru á milli vinnulota. Ekki þarf að flytja fjölskylduna og maki getur haldið áfram í sínum störfum. Þetta er vinsælt fyrirkomulag, t.d. meðal sjálfstætt starfandi iðnaðarmanna sem geta nýtt sér fríin til tekjuöflunar. Þetta fyrirkomulag er hins vegar dýrt fyrir vinnuveitandann og hann notar það ekki nema hann eigi ekki annarra kosta völ.

6. Væntanlegt vinnuafl
    Sé horft til áætlaðs fjölda nýliða á vinnumarkaði, fjölda þeirra heimamanna sem líklega munu hafa áhuga á starfi í álverinu, auk aðkomufólks og Austfirðinga sem flutt hafa á brott en hefðu áhuga á að snúa til baka, er í töflum 4.1 sýnt hvað er líklega raunhæft og mögulegt í þeim efnum. Þessar tölur verður að taka með fyrirvara um nokkur skekkjumörk fyrir hvern hóp. Aðlögunartími til að ná þessum markmiðum er nokkur ár eftir að verkefnið hefst. Hægt er að nýta framkvæmdatímann vel, bæði til að halda í unga fólkið og laða að aðkomufólk sem kemur sumt fyrst til starfa við framkvæmdir. Framkvæmdatíminn er einnig góður aðlögunartími fyrir ýmis fyrirtæki á svæðinu sem munu sjá ný viðskiptatækifæri bjóðast.

Tafla 4.1 Væntanlegt vinnuafl, 2009, 322 þúsund tonna álver.



Tegund vinnuafls: Álver Afleidd störf Alls
Heimafólk 120 80 200
Nýliðar 120 80 200
Brottfluttir Austfirðingar 60 40 100
Aðkomufólk 155 95 250
Heildarvinnuaflsþörf 455 295 750


4.5 SVEITARFÉLÖG
4.5.1 BYGGINGARTÍMI
    Á byggingartíma álversins má gera ráð fyrir að áhrifin verði mest í Fjarðabyggð. Einnig verða áhrifin mikil hjá sveitarfélögum á Fljótsdalshéraði, einkum vegna þess að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun munu þá standa sem hæst. Svo kann að fara að sveitarfélögin á Héraði haldi áfram að sameinast í stærri heildir, þau eru nú 4 en voru fyrir nokkrum árum síðan 10 talsins. Ef þau sameinast mun það auðvelda þeim að takast á við þau miklu verkefni sem blasa við ef af þessum áformum verður.
    Almennt er talið að afkoma sveitarfélaga sé góð ef rekstrargjöld þeirra fara ekki yfir 80% af skatttekjum. Á árinu 2001 var þetta hlutfall 82,7% fyrir landið í heild. Í Fjarðabyggð voru skatttekjur sveitarfélagsins fyrir árið 2001 um 12% yfir landsmeðaltali. Rekstrarútgjöld Fjarðabyggðar voru hins vegar 87,5% af skatttekjum 2001. Í samanburði við landsbyggðarsveitarfélög með yfir 1.000 íbúa var kostnaður við rekstur flestra málaflokka heldur hærri í Fjarðabyggð. Heildarskuldir Fjarðabyggðar voru í árslok 2001 21,6% yfir landsmeðaltali sveitarfélaga. Á móti koma hins vegar töluverðar peningalegar eignir.
    Það mun reyna mest á Fjarðabyggð á byggingartíma álversins. Á þeim tíma verða mikil umsvif í sveitarfélaginu og þá þarf að fjárfesta í mannvirkjum, veitum, götum, höfn, undirbúningi nýbyggingarsvæða o.fl. Þær auknu tekjur sem sveitarfélagið fær vegna starfsmanna álversins koma ekki fyrr en rekstur þess hefst. Á byggingartímanum verða flest störfin unnin af aðkomufólki sem greiðir sitt útsvar annars staðar. Veltuaukningin á svæðinu skilar sér í auknum veltusköttum sem allir renna til ríkisins.
    Gatnagerðagjöld sem innheimt eru í Fjarðabyggð og tengigjöld veitna eru mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Þau standa ekki undir kostnaði við gatnagerð og undirbúning nýbyggingarsvæða. Þar sem markaðsverð fasteigna er lágt í Fjarðabyggð gæti það dregið úr áhuga væntanlegra húsbyggjenda ef gatnagerðargjöldin verða hækkuð.
    Það er brýnt viðfangsefni að búið verði þannig um hnútana að sveitarfélagið Fjarðabyggð geti tekist á við alla þá uppbyggingu sem framundan er í sveitarfélaginu, ef áform um álver verða að veruleika, án þess að fjárhagsstöðu þess verði teflt í tvísýnu á byggingartíma álversins. Sama gildir reyndar einnig um Austur-Hérað, þar má líka búast við mikilli uppbyggingu.

4.5.2 REKSTRARTÍMI
    Áhrifa á sveitarfélögin mun gæta í auknum tekjum af útsvari, fasteignagjöldum og þjónustugjöldum. Á móti koma væntanlega minni framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að óbreyttum reglum sjóðsins. Framlög Jöfnunarsjóðs eru að meðaltali 10–20% af skatttekjum sveitarfélaga í þéttbýli en allt að 50% af skatttekjum sveitahreppa. Fasteignaskattur af álverinu mun auka tekjur Fjarðabyggðar töluvert. Starfsmenn greiða hins vegar útsvar til þess sveitarfélags sem þeir búa í.
    Sveitarfélögin munu standa frammi fyrir auknum kröfum um grunngerð og þjónustu, svo og til starfsmanna. Þau þurfa að skipuleggja nýbyggingarsvæði og beita sér fyrir átaki í húsnæðismálum, annað hvort með samvinnu innbyrðis eða í samstarfi við verktaka. Endurskoða þarf gildandi aðalskipulag í sumum sveitarfélögum og ná samkomulagi við Alcoa um grunngerð og þjónustu á lóð álversins (höfn, vatn, fráveita og brunavarnir).
    Þar sem þróun atvinnulífs skiptir sveitarfélögin miklu máli gætu þau í samstarfi við Þróunarstofu Austurlands aðstoðað einstaklinga og fyrirtæki við að nýta sér þau viðskiptatækifæri sem skapast með tilkomu álversins.
    Almennt mun fjárhagur sveitarfélaga á svæðinu batna töluvert eftir að starfsemi álversins hefst, en þau gætu þurft að fjárfesta á framkvæmdatímanum til þess að hámarka áhrifin af verkefninu. Þau tvö sveitarfélög á Mið-Austurlandi sem búast má við að eflist mest með tilkomu álversins eru Fjarðabyggð og Austur-Hérað. Einnig má búast við að Fáskrúðsfjörður styrkist töluvert. Það yrði hagstætt fyrir þróunina ef sveitarfélögin á Fljótsdalshéraði myndu sameinast í eitt öflugt sveitarfélag, svo og sveitarfélögin á suðurfjörðum. Ákvörðun um álver á Reyðarfirði kann einnig að kalla á gerð svæðisskipulags fyrir Mið-Austurland.

4.6 HÚSNÆÐISMÁL
4.6.1 INNGANGUR
    Ljóst er að tilkoma álvers í Reyðarfirði mun auka stórlega eftirspurn eftir bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði á svæðinu. Á framkvæmdatímanum verða húsnæðismál starfsmanna að stærstum hluta leyst með vinnubúðum. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeim sem búa á svæðinu með fjölskyldum sínum muni fjölga um leið og framkvæmdir hefjast. Einnig munu margvísleg viðskiptatækifæri aukast sem kalla á aukna eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði.
    Þar sem fjárfesting í húsnæði er til langs tíma er ljóst að það sem byggt verður af íbúðar- og atvinnuhúsnæði á framkvæmdatíma álversins mun nýtast þegar rekstur þess hefst. Þess vegna er hvað athugun á húsnæðismálum snertir ekki rökrétt að skilja að framkvæmdatíma og rekstrartíma. Ekki er talið skynsamlegt að leysa þá eftirspurn sem myndast eftir íbúðarhúsnæði með varanlegum lausnum í húsnæðismálum jafnskjótt og hún myndast. Í þeim efnum er ráðlegt að gera ráð fyrir bráðabirgðalausnum í húsnæðismálum fyrir hluta starfsmanna álversins í allt að 1–2 ár eftir að rekstur þess hefst. Slíkt dregur úr spennu í byggingarstarfsemi og fjárfestingum á mesta álagstíma og leiðir til þess að byggðar verði almennt vandaðri byggingar, auk þess sem kostnaður verður lægri. Í því sambandi þarf líka að hafa í huga að sveitarfélögin þurfa áður að vinna að gatnagerð og lagningu veitna og ekki er heppilegt að gera það heldur á meðan bygging álversins stendur sem hæst.
    Í sambandi við húsnæðismál þarf einnig að huga vel að því hverjir munu standa fyrir húsbyggingum og hvernig sú uppbygging verður fjármögnuð. Búast má við að sveitarfélögin semji við verktakafyrirtæki og fjárfesta um að taka að sér tiltekin nýbyggingahverfi og byggja þau í heilu lagi en selja síðan einstaklingum. Þetta fyrirkomulag hefur rutt sér nokkuð til rúms á síðustu árum og gefist vel. Lausar lóðir innan þegar byggðra hverfa verða væntanlega auglýstar lausar til umsóknar fyrir einstaklinga.
    Ekki munu allir þeir sem flytja til Mið-Austurlands vegna þeirra áforma sem uppi eru um byggingu álvers og virkjana vera reiðubúnir að kaupa húsnæði strax. Mikil þörf mun myndast fyrir leiguhúsnæði og verður að leysa það verkefni í samstarfi ríkis og sveitarfélaga á svæðinu svo áform um álver og virkjanir geti gengið eftir.
    Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Mið-Austurlandi mun ef af framkvæmd verkefnisins verður ráðast aðallega af þremur þáttum: Fólksfjölgun á svæðinu, breytingum í fjölskyldustærð og þörf fyrir endurnýjun eldra húsnæðis. Í Viðauka I, töflu 10, er viðbótareftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem leiðir af tilkomu álversins reiknuð út.
    Ekki er mögulegt að reikna út eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði og opinberum byggingum með sömu nákvæmni og eftir íbúðarhúsnæði. Ástæðan er m.a. sú að til eru nokkrir flokkar af atvinnuhúsnæði og opinberum byggingum sem eru ólíkir innbyrðis, t.d. verslunar- og skrifstofuhúsnæði, frystihús, skólar og sjúkrahús. Einnig gilda önnur sjónarmið um úreldingu og endurnýjunarþörf atvinnuhúsnæðis og opinberra bygginga. Þannig getur verið nægur fermetrafjöldi af ónotuðu atvinnuhúsnæði á tilteknu svæði, en ekki af þeirri gerð sem ný eftirspurn kallar á. Í Viðauka I, töflu 9, er lagt mat á áætlaða viðbótareftirspurn eftir atvinnuhúsnæði og opinberum byggingum sem skapast með tilkomu álversins.
    Í Viðauka I, töflu 6, er sýndur mögulegur uppbyggingarhraði bæði íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis sem svar við þeirri eftirspurn sem myndast.

4.6.2 EFTIRSPURN EFTIR NÝJU ÍBÚÐARHÚSNÆÐI
    Eftirspurn eftir nýju íbúðarhúsnæði er reiknuð sem hér segir:
          Áætlað er að íbúum fjölgi bæði vegna framkvæmda og reksturs álvers úr 8.152 manns árið 2003 í rúmlega 9.600 manns árið 2009, sem mun skapa þörf fyrir tæplega 570 nýjar íbúðir.
          Vegna fyrirsjáanlegra breytinga í fjölskyldustærð mun meðalfjöldi íbúa í íbúð, sem er 2,53 árið 2002, breytast. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall standi í stað 2003 en fari síðan hækkandi upp í 2,6 til ársins 2009 vegna þess að gert er ráð fyrir töluverðum aðflutningi ungra fjölskyldna með börn. Þetta mun leiða til neikvæðrar eftirspurnar sem nemur 92 íbúðum 2004–2009.
          Endurnýjunarþörf fyrir gamalt og úrelt íbúðarhúsnæði er talin vera 1% af öllu húsnæði á Mið-Austurlandi á ári. Gert er ráð fyrir að þessari endurnýjunarþörf verði mætt að hálfu leyti fram til 2009, en að fullu eftir það. Þetta mun leiða til eftirspurnar sem nemur 96 íbúðum á árunum 2004–2009.
    Áætluð heildareftirspurn eftir nýju húsnæði sem afleiðing af ofantöldum þáttum er talin vera um 570 nýjar íbúðir á árunum 2004–2009 (Viðauki I, tafla 10).
    Meðalstærð íbúða á Mið-Austurlandi er 125 fermetrar, án bílskúrs. Ekki er gert ráð fyrir að meðalstærð íbúða breytist næstu 10 árin. Hver ný íbúð að meðtöldum bílskúr og kostnaði við gatnagerð og veitur er talin kosta að meðaltali 15 milljónir króna. Heildarfjárfesting í nýju íbúðarhúsnæði er því áætluð 8,5 milljarðar króna. Verkfræðistofan Hönnun hf. hefur áætlað að það þurfi að meðaltali 1,4 ársverk til að byggja eina íbúð. Það þýðir að það þarf u.þ.b. 790 ársverk til að byggja þann fjölda íbúða sem verkefnið krefst.
    Á árinu 2002 voru nærri 325 þús. fermetrar af atvinnuhúsnæði, að meðtöldum opinberum byggingum, á Mið-Austurlandi, eða 81 fermetri á ársverk. Svo virðist sem að það sé nú þegar offramboð af vissum gerðum atvinnuhúsnæðis á svæðinu. Þetta þarf að hafa í huga þegar eftirspurn eftir nýju atvinnuhúsnæði og opinberum byggingum er metin, svo og aukin þörf fyrir skrifstofu- og þjónustuhúsnæði.
    Eftir að rekstur álversins hefst árið 2007 er gert ráð fyrir því að það muni skapast 295 óbein og afleidd störf. Miðað er við að þau skiptist þannig að 24% verði í opinberri þjónustu og 76% í annarri atvinnustarfsemi. Reiknað er með að hvert nýtt ársverk í annarri atvinnustarfsemi kalli á 35 fermetra í atvinnuhúsnæði. Í útreikningum á skólahúsnæði er reiknað með að hver viðbótarnemi í leikskóla þurfi 8 fermetra, viðbótarnemi í grunnskóla 10 fermetra og viðbótarnemi í framhaldsskóla 12 fermetra. Reiknuð eftirspurn eftir opinberum byggingum er tæplega 12.000 fermetrar, þar af er skólahúsnæði um 3.800 fermetrar, eftirspurn eftir heilbrigðisstofnunum 2.200 fermetrar og eftirspurn eftir öðrum opinberum byggingum um 5.900 fermetrar (Viðauki I, tafla 9).
    Á Mið-Austurlandi árið 2002 eru 117 þús. fermetrar í sérhæfðu húsnæði (aðallega opinberar byggingar) og 208 þús. fermetrar í almennu atvinnuhúsnæði. Lágmarksendurnýjunarþörf þess er reiknuð 0,5% á ári eða tæplega 13 þús. fermetrar á tímabilinu 2002–2009. Ef eftirspurn eftir viðbótarhúsnæði og endurnýjun samkvæmt ofanskráðu er fullnægt er áætlað að það kosti tæplega 2,8 milljarða og krefjist 230 ársverka við framkvæmdir (Viðauki I, tafla 9).
    Þörfin fyrir atvinnuhúsnæði og opinberar byggingar mun einkum beinast að tilteknum byggingum. Ljóst er að hvað almennt atvinnuhúsnæði varðar þá er þörfin mest fyrir hvers kyns skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, en síður húsnæði fyrir framleiðslu og vörugeymslur. Þá verður töluverð þörf fyrir skólahúsnæði (3.800 fermetrar). Þrátt fyrir fækkun barna á Mið- Austurlandi s.l. 10 ár munu breytingar sem orðið hafa á skólastarfi síðan þá og væntanlega meiri þétting byggðar innan fjórðungsins valda því að byggja þarf nýtt skólahúsnæði.

4.6.3 DREIFING UPPBYGGINGAR MEÐAL SVEITARFÉLAGA
    Búið er að samþykkja aðalskipulag í Reyðarfirði 1990–2010 og aðalskipulag fyrir Austur- Hérað er nýstaðfest. Jafnframt er unnið að því að skipuleggja ný svæði til íbúðarbyggðar í sveitarfélögunum. Ekkert bendir til þess að vandkvæðum verði bundið að byggja nýtt húsnæði í takt við væntanlega eftirspurn og eins og fram hefur komið er umframgeta í þjónustu og grunngerð samfélagsins á Mið-Austurlandi. Það á við um skóla, leikskóla og ýmislegt annað sem fjölskyldur hafa í huga þegar ákvörðun er tekin um búsetu.
    Í Viðauka I, töflu 11 er áætluð dreifing nýs íbúðar- og atvinnuhúsnæðis eftir sveitarfélögum. Ljóst er að einungis er hægt að áætla þessa dreifingu innan rúmra vikmarka því einstaklingar munu sjálfir velja sér búsetu. Þeir þættir sem helst verða ráðandi í þeim efnum næstu 7 árin, ef framkvæmd verkefnisins verður samkvæmt áætlun, eru: Nálægð við álverið, staðsetning atvinnukosta fyrir maka, þjónusta í byggðarlaginu fyrir fjölskylduna, samgöngur og framboð á góðum byggingarlóðum eða íbúðarhúsnæði til sölu.
    Að teknu tilliti til ofangreindra þátta er ljóst að val einstaklinga um búsetu mun standa helst milli Fjarðabyggðar og Austur-Héraðs, en að uppbygging nýs íbúðarhúsnæðis mun í einhverjum mæli eiga sér stað líka á Fáskrúðsfirði og í Fellabæ. Uppbygging nýs íbúðarhúsnæðis verður að öllum líkindum í mjög litlum mæli utan þessara fjögurra sveitarfélaga.
    Að öllu samanlögðu verður ekki séð að nein vandkvæði verði í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu þó að fólki fjölgi varanlega eins og áætlanir og vonir standa til þegar rekstur álvers hefst í Reyðarfirði. Í Viðauka 2, eru sýndar áætlanir Fjarðabyggðar um mögulega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á óbyggðum lóðum í þegar byggðum hverfum og á skipulögðum nýbyggingasvæðum. Alls eru þetta 648 íbúðir, þar af 434 á Reyðarfirði, 151 á Eskifirði og 63 í Neskaupstað.
    Á Egilsstöðum er lóðaframboð til íbúðarbygginga samkvæmt upplýsingum Austur-Héraðs sem hér segir: Lóðaveltan, þ.e. lóðir sem þegar hefur verið úthlutað en íbúðarhús hafa ekki verið tekin í notkun, svarar til um 50 íbúða í einbýlis-, par- og fjölbýlishúsum. Íbúðarlóðir sem eru lausar til umsóknar í lok október 2002 eru fyrir samtals 14 íbúðir. Fyrir liggur deiliskipulag fyrir um 23 íbúðir til viðbótar, en deiliskipulagið verður væntanlega afgreitt fyrir miðjan desember 2002. Hafinn er frumundirbúningur að deiliskipulagi nýs íbúðasvæðis austan núverandi þéttbýlis, á svæði sem talið er geta rúmað 90–100 íbúðir.
    Önnur framtíðar íbúðarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi eru þessi:
     1.      Norðan núverandi íbúðabyggðar. Um 8 ha lands til íbúðarbyggðar.
        Svæðið er talið henta vel til fjölbýlisbyggðar. Reikna má með nýtingu í kringum a.m.k. 15 íbúðir/ha, eða um 120 íbúðir alls. Landið er í eigu Austur-Héraðs.
     2.      Svæði sunnan núverandi þéttbýlis. Um 90 ha lands til íbúðarbyggðar.
        Miðað við þéttleika sem nemur a.m.k. 12 íbúðir/ha er á þessu svæði öllu nægjanlegt land fyrir á annað þúsund íbúða, eða byggðar sem svarar til að minnsta kosti c.a. 2.500 íbúa. Landið er í einkaeign.
    Lóðarframboð til atvinnustarfsemi er sem hér segir:
    Svæði við Kaupvang, sem er samanlagt 1,6 ha er tilbúið til úthlutunar. Unnið er að undirbúningi framkvæmda á miðbæjarsvæði. Við Miðás er um 2 ha til atvinnustarfsemi, en deiliskipulag er ekki tilbúið. Samkvæmt nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir um 11 ha lands til atvinnustarfsemi sunnan núverandi byggðar. Það svæði er í einkaeign.
    Í Fellabæ eru nú nokkrar lóðir í byggðinni lausar. Verið er að opna nýja götu við Dalbrún en þar eru 10 einbýlishúsalóðir og 3 parhúsalóðir. Í eldri hverfum eru 5 lóðir auðar. Í byggingu eru nú 3ja íbúða raðhús og 3 einbýlishús. Í Hvömmum bíður nýtt hverfi með 27 íbúðum deiliskipulags. Ef til kemur er nóg landrými í kringum bæinn til að taka til skipulags fleiri svæði til íbúðabyggðar.
    Svæði fyrir framtíðar íbúðarbyggð á aðalskipulagi Búðahrepps á Fáskrúðsfirði 1980–2000 eru u.þ.b. 12,5 ha. Þar af eru 37 íbúðir á 3,5 ha svæði sem hefur verið deiliskipulagt. Þá eru um 10 lausar íbúðahúsalóðir við þegar byggðar götur.
    Nægilegt rými er fyrir nýtt atvinnuhúsnæði á öllum þéttbýlisstöðunum og má í því sambandi benda á Reyðarfjörð og miðbæ Egilsstaða fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Í núgildandi aðalskipulagi sveitarfélaganna fjögurra eða tillögum að aðalskipulagi sem eru í vinnslu er í heildina gert ráð fyrir 1.250 íbúðum en heildareftirspurn talin tæplega 570 íbúðir. Að auki má geta þess að lóðarþörf verður minni en þessari tölu nemur vegna endurnotkunar nokkurra lóða sem verða úreltar og núverandi hús rifin.

4.7 ÞJÓNUSTA OG GRUNNGERÐ
    Uppbygging þeirrar grunngerðar sem nauðsynleg er vegna byggingar álversins og almennt á byggingartíma þess er í nokkrum tilvikum verkefni sveitarfélagsins, í sumum tilvikum verkefni ríkisins og jafnvel samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum verði gert samkomulag milli Alcoa og hins opinbera um uppbyggingu vissra þátta í grunngerð. Með grunngerð er m.a. átt við vatnsveitu, fráveitu, vegi, höfn, flugvöll og fjarskiptakerfi.
    Þjónusta við atvinnulífið er af margvíslegum toga. Í sumum tilvikum er hún verkefni ríkisins, í öðrum tilvikum verkefni sveitarfélaga og í nokkrum tilvikum er um að ræða aðkomu bæði ríkis og sveitarfélaga. Hér má nefna sorpeyðingu, brunavarnir og eldvarnaeftirlit, skipulag, byggingareftirlit, vinnueftirlit og heilbrigðiseftirlit. Þessi þjónusta er öll til staðar á Mið- Austurlandi.
    Svipaða sögu er að segja af þjónustu við íbúana, t.d. á sviði skólamála, félags- og heilbrigðismála, íþrótta- og tómstundamála og menningarmála. Þessi þjónusta er öll til staðar á Mið-Austurlandi og er annað hvort á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaganna, eða samstarfsverkefni þeirra.

Fræðslumál:
    Það mun skapast aukin eftirspurn eftir menntun vegna væntanlegrar fjölgunar íbúa og nýrra starfstækifæra í kjölfar ákvörðunar um að ráðast í verkefnið. Mikilvægt er að undirbúa íbúa svæðisins sem best fyrir ný starfstækifæri tengd álverinu. Verkmenntaskólinn í Neskaupstað, Menntaskólinn á Egilsstöðum og Fræðslunet Austurlands geta auðveldlega sinnt þessu verkefni.
    Skólamannvirki, þ.e. bæði leikskóli og grunnskóli, verða byggð upp af sveitarfélögunum, eftir því sem þörf krefur og mun það haldast nokkuð í hendur við það hvar fólkið mun kjósa að búa. Rekstur skólanna í höndum sveitarfélaganna er í góðu horfi og er ekki við öðru að búast en svo verði áfram. Auknum fólksfjölda munu fylgja auknar útsvarstekjur sem m.a. fjármagna byggingar og rekstur skólanna.

Heilbrigðismál:
    Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu mun aukast í takt við fjölgun íbúanna sem verður vegna verkefnisins. Auk þess mun verða þörf á sértækri heilbrigðisþjónustu, bæði vegna framkvæmda við álverið svo og eftir að rekstur þess hefst. Heilbrigðisstofnun Austurlands er vel í stakk búin til að sinna nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu við íbúa svæðisins og sértækri heilbrigðisþjónustu vegna álversins ef eftir því verður leitað af hálfu Alcoa. Mikilvægt er að stofnuninni verði gert kleyft að efla bráðaþjónustu vegna hugsanlegra slysa.

Félagsþjónusta:
    Þótt verkefnið muni leiða til aukinnar eftirspurnar eftir félagsþjónustu vegna fjölgunar íbúa, munu auknar tekjur og atvinna hjálpa til við að leysa sum félagsleg vandamál. Félagsþjónusta við fjölskyldur, börn, aldraða, fatlaða, öryrkja, einstæða foreldra, láglaunafólk og fólk sem stendur af einhverjum ástæðum höllum fæti er skipulögð af sveitarfélögunum. Sú þjónusta mun halda áfram eins og lög gera ráð fyrir en þróast í takt við breyttar þarfir og breytingar í löggjöf. Búast má við minniháttar félagslegum vandamálum sem tengjast framkvæmdunum, eins og alltaf er, en þau verða tímabundin. Aukinn tekjumismunur getur einnig leitt til félagslegra vandamála á svæðinu sem félagsþjónustan á að vera í stakk búin að glíma við.

Öryggisþjónusta:
    Auk beinna krafna frá álverinu um öryggisþjónustu (t.d. öryggisgæslu, brunavarnir, sjúkraflutninga og aðra neyðaraðstoð) mun þörfin aukast vegna íbúafjölgunar og almennrar uppbyggingar á svæðinu.
    Kröfum fyrirtækisins verður m.a. mætt með samningum við sveitarfélagið, viðkomandi ríkisstofnanir, eða samkomulagi við fyrirtæki á þessu sviði. Líklegt er að gagnkvæmur hagur verði af samstarfi við opinbera aðila á þessu sviði.
    Fjölgun íbúa og almenn atvinnuuppbygging geta leitt til aukinnar eftirspurnar eftir almannavörnum og neyðarþjónustu, t.d. vegna aukinna slysa, aukinnar neyslu vímuefna o.fl.

Tómstundir og útivist:
    Mikilvægt er að á framkvæmdatíma verkefnisins verði í samstarfi við sveitarfélögin séð fyrir öflugu tómstundastarfi meðal þeirra sem starfa við framkvæmdirnar. Til lengri tíma litið mun það fólk sem kemur til með að starfa í álverinu og fjölskyldur þeirra gera kröfur til þess að í boði sé margvísleg tómstundastarfsemi fyrir alla aldursflokka. Sveitarfélögin þurfa að bregðast við með því að koma upp góðri aðstöðu og skipuleggja þjónustu á þessu sviði. Þar sem aðstaða frá náttúrunnar hendi er mjög góð til útivistar þarf í sjálfu sér ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir á því sviði.
    Á árinu 2000 var unnið að stefnumótun í menningarmálum á vegum starfshóps sveitarfélaga á Austurlandi og Þróunarstofu Austurlands. Gefin var út skýrsla Stefna í menningarmálum á Austurlandi í nóvember 2000. Í maí 2001 var undirritaður samningur milli Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og menntamálaráðuneytisins um samstarf í menningarmálum. Einnig undirrituðu 16 sveitarfélög á Austurlandi samstarfssamning sín á milli um samstarf í menningarmálum auk þess að undirrita viljayfirlýsingu um stofnun fjögurra menningarmiðstöðva á Austurlandi.

Vatn og fráveita:
    Allir þéttbýlisstaðir á Austurlandi reka vatnsveitur en sveitarfélögin eru ábyrg fyrir starfsemi þeirra. Neytendur greiða vatnsgjald með fasteignagjöldum en mörg fyrirtæki, svo sem fiskvinnslufyrirtæki, greiða aukavatnsgjald eftir mæli. Hjá flestum vatns- og fráveitum á Mið-Austurlandi er vannýtt afkastageta þótt sums staðar þurfi að taka til hendinni í endurbótum og uppbyggingu, m.a. vegna aukinna krafna. Við botn Reyðarfjarðar eru góðar vatnslindir sem nýtast sem neysluvatn, en gert er ráð fyrir að iðnaðarvatn verði að mestu tekið úr Búðará á Svínadal. Gert er ráð fyrir því að vatnsveitulögn frá Fjarðabyggð verði lögð að lóð álversins áður en framkvæmdir hefjast. Að öllum líkindum verður álverið sjálft með eigið fráveitukerfi.

Sorpeyðing:
    Sorpeyðing Mið-Austurlands er með urðunarstað við sunnanverðan Reyðarfjörð og er gert ráð fyrir að öllu almennu sorpi sem tengist álverinu og íbúum á fjörðunum verði ekið þangað til eyðingar. Talið er að þessi urðunarstaður muni endast í 15–20 ár, en nóg er af öðru landi á Mið-Austurlandi sem hægt er að fá sem urðunarstað þegar þar að kemur.

Orkumál:
    Núverandi raforkukerfi fullnægir þörfum svæðisins hvað almenna raforkunotkun snertir, þótt nauðsynlegt kunni að verða að bæta þjónustu við einstök byggðarlög, allt eftir því hvar það fólk sem kemur að vegna álversins mun setjast að. Þá er hitaveita á Egilsstöðum og í Fellabæ sem getur þjónað fjölmennari byggð þar.
    Nokkur jarðhiti hefur komið í ljós við jarðhitaleit á sumum fjarðanna, m.a. Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Ef af verkefninu verður er mikilvægt að jarðhitarannsóknum verði haldið áfram og stefnt að því að nýta hann til húshitunar ef það er tæknilega mögulegt og hagkvæmt.
    Rafmagnsveitur ríkisins eru reiðubúnar að leggja til rafmagn á byggingarstað álversins á meðan á framkvæmdum stendur.

Höfn:
    Núverandi hafnarmannvirki á Mið-Austurlandi eru í megindráttum fullnægjandi fyrir núverandi og fyrirsjáanlega þörf, þar með talda flutninga vegna byggingar væntanlegs álvers. Vöruflutningahöfn er á Reyðarfirði sem mætt getur allri þörf álversins á byggingartímanum. Viðlegukantur er 80 metra langur og með 6.000 fermetra malbikuðu gámasvæði. Þá er einnig ágætis vöruflutningahöfn á Eskifirði og þar er aðalhöfn Eimskip hf. á Austurlandi.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við höfn og álver hefjist haustið 2003. Áætlað er að hafnarmannvirkin verði byggð á um 20 mánuðum. Mest verður unnið yfir sumartímann og þá verða starfsmenn er vinna við framkvæmdirnar flestir. Þá er áætlað að þeir verði um 35. Þeim fækkar síðan yfir veturinn og má jafnvel búast við að framkvæmdir liggi niðri yfir háveturinn. Mögulegt er að vinnubúðir verði samnýttar með starfsmönnum er standa að byggingu álvers. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að þær verði á Mjóeyri innan fyrirhugaðrar hafnarlóðar. Kostnaður við hafnargerðina er áætlaður um 1 milljarður. Hafnarsjóður Fjarðabyggðar mun byggja og reka höfnina en ríkissjóður greiða nálægt helming stofnakostnaðar. Tilkoma álversins mun efla Hafnarsjóð Fjarðabyggðar.
    Markmið með fyrirhugaðri byggingu hafnarmannvirkja við Hraun í Reyðarfirði er að skapa góðar aðstæður til uppskipunar á hráefni og vörum fyrir væntanlegt álver og til útskipunar á fullunnum afurðum frá því. Ennfremur er það markmið Hafnarsjóðs til Fjarðabyggðar að mannvirkið geti að nokkru leyti þjónað þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar í nágrenni svæðisins og annarri atvinnuuppbyggingu í komandi framtíð. Með gerð mannvirkisins aukast möguleikar á að taka á móti stærri skipum með vöru til og frá Austurlandi vegna lengri viðlegukants og meira viðlegudýpis en er við aðrar hafnir á Mið-Austurlandi.

Flugvöllur:
    Núverandi flugvöllur á Egilsstöðum getur auðveldlega tekið við aukinni flugumferð sem yrði vegna byggingar virkjunar og álvers. Stærð og afkastageta hans er slík að hann gæti þjónað miklu fjölmennara svæði. Búast má við auknu innanlands- og utanlandsflugi um völlinn. Einkum má búast við miklum farþegaflutningum á byggingartímanum. Þá er mikið öryggi í flugvellinum vegna sjúkraflugs.

Vegir:
    Á næstu árum eru áformaðar áframhaldandi vegabætur á Mið-Austurlandi, sem m.a. tengjast áformum um byggingu virkjana og álvers. Gert er ráð fyrir því að á árinu 2004 verði kominn vegur með bundnu slitlagi milli Egilsstaða og Akureyrar. Verið er að undirbúa gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og er búist við að framkvæmdir geti hafist árið 2003. Framkvæmdatími er áætlaður tvö og hálft ár og geta göngin því í fyrsta lagi verið tilbúin í árslok 2005. Tvíbreið göng með vegtengingum eru talin kosta a.m.k. 3 milljarða króna. Endurbótum á Suðurfjarðaveg um Kambanesskriður milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur er nú lokið.
    Mikilvægt er að ljúka vegabótum í næsta nágrenni fyrirhugaðs álvers áður en byggingaframkvæmdir hefjast af krafti og áformað er að verja til þeirra um 400 milljónum króna. Það eru hjáleið um hafnarsvæðið á Reyðarfirði fyrir þungaflutninga, endurbættur áframhaldandi vegur að álverinu og endurbætur á Hólmahálsi þar sem vegurinn verður breikkaður og halli vegar minnkaður. Nú þegar eru hafnar framkvæmdir við veginn frá þéttbýlinu á Reyðarfirði að fyrirhuguðu álveri.
    Þá þarf að huga að styrkingu vegar um Fagradal. Fræsa þarf upp veginn og leggja nýtt slitlag fyrir meiri öxulþunga. Einnig þarf að skoða nánar framtíðarfyrirkomulag vegtenginga á Egilsstöðum og Eskifirði. Engar frekari vegaframkvæmdir eru nauðsynlegar á byggingartíma álversins, þótt auknir flutningar á vörum og fólki, bæði milli Reyðarfjarðar og álversins og Reyðarfjarðar og Egilsstaða, geti leitt til tafa fyrir vegfarendur. Hafin er rannsókn á hugsanlegum nýjum jarðgöngum milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar og Vopnafjarðar og Héraðs. Mikilvægt er að þeim verði haldið áfram.
    Þá eru miklar vegabætur fyrirhugaðar í tengslum við virkjanaframkvæmdir. Meðal annars eru miklar vegaframkvæmdir hafnar í Fljótsdal innan við Hallormsstað og vegna brúargerðar á Jökulsá á Fljótsdal. Aðalvegtenging vegna virkjanaframkvæmda verður um Fljótsdal og Fljótsdalsheiði í Kárahnjúka og er þegar byrjað á framkvæmdum við þann veg. Einnig þarf að lagfæra veg um Jökuldal frá Skjöldólfsstöðum að Kárahnjúkum.
    Vegagerðin vinnur nú að lokatillögum um legu vegar upp úr Vopnafirði að þjóðvegi 1. Mikilvægt er fyrir íbúa Vopnafjarðar að tengjast betur Mið-Austurlandi með góðum vegi sem opinn er allt árið um kring eða jarðgöngum.
    Töluverð aukning verður á umferð tengdri vinnusókn í álverið. Eins og áður hefur verið lýst er ekki ljóst hve mikil vinnusókn verður frá einstökum byggðarlögum en meginumferðin verður frá Neskaupstað og Eskifirði annars vegar og Reyðarfirði, Egilsstöðum og Fáskrúðsfirði hins vegar. Umferðarþungi mun m.a. fara eftir vaktafyrirkomulagi og að hve miklu leyti starfsfólki verður ekið til og frá vinnu í fólksflutningabifreiðum. Ólíklegt er að umferðin aukist svo mikið að það valdi verulegum töfum.

Fjarskipti:
    Talið er að fjarskiptaþjónusta og fjarskiptakerfi á svæðinu séu í góðu horfi fyrir núverandi og væntanlegar þarfir vegna álversins. Meðal annars liggur ljósleiðari til svæðisins, bæði um Suðurland og Norðurland. Ekki er enn hægt að nota GSM-síma á fjallvegum og fáförnum leiðum en slíkt verður ekki vandamál í framtíðinni.

4.8 LANDNÝTING OG AUÐLINDIR
    Álverið verður byggt á landi sem er lítið sem ekkert notað í dag og bygging þess mun ekki hafa nein áhrif á náttúruauðlindir í nágrenninu eða nýtingu þeirra.
    Eins og áður var rætt hefur samdráttar gætt í landbúnaði á svæðinu í mörg ár. Hins vegar mun töluverður hluti þeirra sem starfa í landbúnaði sækjast eftir aukastörfum í álverinu eða störfum því tengdu og það gæti betur tryggt áframhaldandi búsetu í sveitum og nýtingu bújarða.
    Land er verðmætt til útivistar, svo sem fyrir veiðar, skíðaiðkun og gönguferðir, þar á meðal ferðamannaþjónustu. Fólksfjölgun á svæðinu mun líklega leiða til aukinnar notkunar á landi til útivistar. Með góðri stýringu á landnotkun og umferð eru engin sérstök vandamál fyrirséð í þessum efnum.

4.9 MENNING OG LÍFSHÆTTIR
4.9.1 BYGGINGARTÍMI
    Á meðan á byggingarframkvæmdum við álver og virkjanir stendur verður viðvarandi tímabundin spenna í athafnalífi sem mun hafa töluverð áhrif á menningu og lífshætti á Austfjörðum. Hins vegar má skipuleggja vinnufyrirkomulag og vinnubúðir aðkomufólks þannig á framkvæmdatímanum að það lágmarki hugsanleg neikvæð áhrif á svæðinu. Þetta má m.a. gera með því að gera kröfu til þess að allur aðbúnaður í vinnubúðum verði vandaður og að vinnubúðirnar verði við hliðina á byggingarstað.

4.9.2 REKSTRARTÍMI
    Eftir að álverið er komið í rekstur og byggingarframkvæmdum lokið munu aðstæður breytast mikið. Þeir sem munu starfa við álverið og önnur ný störf munu dreifast á nokkur byggðarlög á Mið-Austurlandi og búa þar ásamt fjölskyldum sínum. Auknir aðflutningar fólks ásamt auknum tekjum munu stuðla að fjölbreyttara mannlífi og efla hvers kyns félags- og menningarstarfsemi á Austurlandi.
    Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Reyðarál hf. á árinu 2000 voru ungir Austfirðingar 18–28 ára spurðir um það hvort þeir teldu að tilkoma álvers í Reyðarfirði ætti eftir að leiða til betra eða verra mannlífs í byggðarlögum á Austurlandi. Alls töldu 76% að það myndi leiða til betra mannlífs, 18% töldu að það myndi hvorki leiða til betra né verra mannlífs og 6% til verra mannlífs. Af þessu er nokkuð ljóst að ungir Austfirðingar töldu flestir að álver í Reyðarfirði ætti eftir að hafa töluverð jákvæð áhrif á mannlíf í byggðarlögum á Austurlandi.

4.10 HUGSANLEGAR BREYTINGAR Á YTRI AÐSTÆÐUM Í REKSTRI
    Álver eru eins og önnur fyrirtæki háð ytri aðstæðum í rekstri sínum. Rekstrarumhverfi getur á hverjum tíma þróast bæði til hagstæðari og óhagstæðari vegar. Í því sambandi skiptir miklu að traustir aðilar standi að rekstri álversins og að orkusamningar og fjármögnunarsamningar séu þannig úr garði gerðir að rekstraraðilinn haldi áfram rekstri þrátt fyrir óhagstæð ytri skilyrði. Í sambandi við áhrif breytinga í rekstrarumhverfi álversins skipta nokkur atriði máli.
          Um þessar mundir er skortur á áli í heiminum og fyrirsjáanleg mikil og vaxandi eftirspurn á næstu árum. Þessar góðu markaðsaðstæður eiga að tryggja góðan rekstrargrundvöll fyrir væntanlegt álver.
          Ísal hf. sem rekið hefur álver hér á landi hefur aldrei dregið saman rekstur sinn þrátt fyrir að upp hafi komið óhagstæðar ytri aðstæður í rekstri tímabundið. Styrkur fyrirtækisins og orkusölusamningur hafa ráðið hér miklu um.
          Dæmi eru um það erlendis frá að stórfyrirtæki eins og álver hafa staðið frammi fyrir rekstrarstöðvun vegna óhagstæðra ytri skilyrða. Í slíkum tilvikum er oftast svo mikið í húfi fyrir fjármögnunaraðilann að það er mun hagkvæmara fyrir hann að greiða taprekstur tímabundið í þeirri von að geta selt fyrritækið síðar á hagstæðu verði, en að tapa því fjármagni sem lánað var í upphafi til fjárfestingarinnar. Hér er um að ræða slíkar fjárhæðir að fjármögnunaraðili mun gera allt sem í hans valdi stendur til að halda rekstri álversins áfram ef erfiðleikar koma upp í rekstrinum.
    Gert er ráð fyrir að þannig verði gengið frá fjármögnunarsamningi, sölusamningi og orkusamningi að álver Alcoa verði rekið á fullum afköstum óháð ytri aðstæðum á fjármögnunartímabilinu sem er 12–14 ár.

4.11 ÁHRIF Á AUSTURLANDI UTAN MIÐ-AUSTURLANDS
    Verkefnið mun hafa nokkur áhrif á atvinnulíf á Austurlandi utan Mið-Austurlands, einkum meðan á framkvæmdum stendur. Iðnaðarmenn og lítil verktakafyrirtæki munu finna þar ýmis verkefni við hæfi, t.d. sem undirverktakar eða sem starfsmenn. Þetta getur verið áhugavert fyrir aðila frá stöðum eins og Vopnafirði, Djúpavogi og Hornafirði. Fólk frá þessum byggðarlögum getur unnið við framkvæmdir og farið heim t.d. um helgar eða þegar frí eru. Fyrir þetta fólk er um að ræða 2–4 klst. akstur að virkjanasvæði eða álveri eftir því hvar það býr.
    Á framkvæmdatíma má búast við miklum áhrifum í byggðarlagi eins og Vopnafirði sem er í aðeins 1–2 klst. akstursfjarlægð frá virkjanasvæðinu. Atvinnulíf þar hefur verið í nokkurri lægð og fólki fækkað. Því mun þetta verkefni koma sér vel fyrir Vopnfirðinga. Mikilvægt er í þessu sambandi að lokið verði á næstu árum við lagningu nýs vegar upp úr Vopnafirði að þjóðveginum milli Egilsstaða og Akureyrar. Ennfremur er unnið að rannsóknum á jarðgöngum milli Vopnafjarðar og Héraðs.
    Ástæða þess að áhrif af framkvæmdum verða líklega minni á Djúpavogi og Hornafirði er sú að atvinnuástand þar er betra en á Vopnafirði. Á Djúpavogi hefur m.a. verið ákveðið að hefjast handa við laxeldi í Berufirði sem krefjast mun margra stafsmanna. Einnig er vegalengd frá Hornafirði að virkjanasvæði eða álveri nokkru meiri en frá Djúpavogi og Vopnafirði sem kann að draga úr áhuga manna, einkum ef atvinnuástand er gott heima fyrir.
    Búast má við að áhrif af framkvæmdum á atvinnu og viðskipti á Akureyri verði töluverð. Þar er mikill fjöldi iðnaðarmanna, mörg verktakafyrirtæki og ýmis þjónustufyrirtæki. Akstursfjarlægð þangað frá fyrirhuguðu virkjanasvæði eða álveri er aðeins 3–4 klst.
    Rekstur álversins mun hafa mun minni áhrif á atvinnusköpun utan Mið-Austurlands en framkvæmdir við álverið. Þau áhrif sem helst má sjá fyrir eru eftirfarandi:
          Einhverjir íbúar á Austurlandi utan Mið-Austurlands, svo og á Norðurlandi eystra, munu hafa áhuga á afleysingastörfum í álverinu, og jafnvel fullu starfi sem unnið yrði í vinnulotum, einkum ef Alcoa býður þeim aðstöðu til gistingar.
          Búast má við að íbúar í byggðarlögum sem eru í meira en 30–60 mínútna akstursfjarlægð frá álverinu og eiga kost á starfi þar kjósi að flytja og setjast að í byggðarlagi sem er nálægt álverinu. Það kann að leiða til brottflutnings frá byggðarlögum sem eru frekar afskekkt eða þar sem atvinnulífið stendur höllum fæti, t.d. Bakkafirði og Borgarfirði eystra. Sé horft til Austurlands alls má gera ráð fyrir að verkefnið leiði til samþjöppunar byggðar í fjórðungnum, svo og innan Mið-Austurlands, en mikil dreifing byggðar er einn helsti veikleiki svæðisins.
          Í einhverjum tilvikum kunna fyrirtæki á Austurlandi utan Mið-Austurlands að selja álverinu tiltekna þjónustu en vegna smæðar þeirra byggðarlaga sem um ræðir og fyrirtækja sem þar eru verða slík viðskipti líklega í algjöru lágmarki. Þessi áhrif kunna að verða jafnvel meiri á Akureyri.

HEIMILDASKRÁ
         Byggðastofnun (1997) Svæðisbundin byggðaáætlun. Miðfirðir Austurlands.
         Einar Már Sigurðarson og Helga Magnea Steinsson (1994) Austfirðingar í framhaldsskólum. Áfangaskýrsla.
         Félagsvísindastofnun (2001) Afstaða brottfluttra Austfirðinga til álvers í Reyðarfirði. Höfundar Ævar Þórólfsson, Guðrún Árnadóttir og Friðrik H. Jónsson.
         Félagsvísindastofnun (2001) Framtíðarsýn ungs fólks á Austurlandi og afstaða þess til álvers í Reyðarfirði. Höfundar Ævar Þórólfsson, Guðrún Árnadóttir og Friðrik H. Jónsson.
         Fosso, E. J. (1997) Vil ungdom bli boende på industristeder under omstilling. SNF-projekt nr. 4100 Lokale arbeidsmarkeder i omstilling. Stiftelsen for Samfunns- og Næringslivsforskning Bergen, Mars 1997.
         Fosso, E.J. (1997) Interviews with young people, public servants and business people in the Central East Region in December 1997.
         Glasson, J., Therivel, R. and Chadwick, A. (1999) Introduction to Environmental Impact Assessment. UCL Press, London.
         Gramling, Robert (1996) Oil on the Edge: Offshore Development, Conflict and Gridlock, State University of New York Press, Albany, NY, USA.
         Gylfi Magnússon (1997) Internal and External Migration in Iceland 196094: A Structural Model, Government Policies and Welfare Implications (New Haven: Yale University).
         Hagstofa Íslands (2002) Landshagir 2002.
         Háskólinn á Akureyri (1997) Háskólamenntun á Austurlandi. Könnun á stöðu.
         Hjalti Jóhannesson (1990), Internal Migration in Iceland 1983–1987: A Study of Regional Differences (Ontario: York University).
         HMDC (1995) 'Hibernia Construction Project Personal Expenditure Study'. Report to the Hibernia Management and Development Company, prepared by Community Resource Services Ltd., St. John's, NF, Canada.
         Karl Sigurðsson, Gunnar Þór Jóhannesson og Kristjana Stella Blöndal (1999). Afstaða Íslendinga til stóriðju, virkjana og umhverfismála. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
         Samband íslenskra sveitarfélaga (2002) Árbók sveitarfélaga 2002.
         Rekstur og ráðgjöf ehf. (1997) Greinargerð um sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.
         Shrimpton, M. (1992) Islands and Offshore Oil: A Newfoundland Perspective. Paper presented at an Island Living Conference, PEI, Canada.
         Shrimpton, M. (1994) Rotational Work Systems: Community and Regional Development Implications. ISER Offshore Oil Project, Memorial University of Newfoundland.
         Stefán Ólafsson (1997) Búseta á Íslandi. Rannsókn á orsökum búferlaflutninga. Byggðastofnun.
          Stefna í menningarmálum á Austurlandi. Tillögur samstarfshóps sveitarfélaga á Austurlandi og Þróunarstofu Austurlands. 1. nóvember 2000.
         Vegagerð ríkisins (1993) Jarðgöng á Austurlandi. Nefndarálit.
         Vilhjálmur Egilsson (1982) The Location of a large firm in a small village. Ph.D. thesis at the University of Southern California.
         Wills, Jonathan (1991) A Place in the Sun: Shetland and Oil Myths and Realities, Institute of Social and Economic Research, St. John's, NF, Canada.
         Þjóðhagsstofnun (2000) The National Economic Impact of the Noral Project.

ÍTAREFNI
         Barrow, C. J. 1997. Environmental and Social Impact Assessment: An Introduction. London: Arnold. ISBN: 0340662719
         Becker, Henk A. 1997. Social Impact Assessment: Method And Experience In Europe, North America, And Developing World. UCL Press Limited, 1Gunpowder Square, London EC4A 3DE and 1900 Frost Road, Suite 101, Bristol, PA 19007-1598 ISBN: 1-85728-347- 3 PB www.tandf.co.uk/program.html
         Burdge, Rabel J. 1999. A Community Guide to Social Impact Assessment: Revised Edition. Middleton, Wisconsin (PO Box 53562-0863) Social Ecology Press, ISBN 0-941042-17-0. To order www.dog-eared.com/socialecologypress/
         Burdge, Rabel J. 1998. A Conceptual Approach to Social Impact Assessment: Revised Edition Collection of Writings by Rabel J. Burdge and Colleagues. Middleton, Wisconsin (PO Box 620863) Social Ecology Press, ISBN 0-941042-16-2. To order www.dog- eared.com/socialecologypress/
         Finsterbusch, K. 1995. In Praise of SIA: a Personal Review of the Field of Social Impact Assessment. Impact Assessment, 13:229–252.
         Gramling, Robert and William R. Freudenburg. 1992. Opportunity-Threat, Development, and Adaptation: Toward a Comprehensive Framework for Social Impact Assessment. Rural Sociology, 57:216–234.
         Goodrich, Colin G. and C. Nicholas Taylor, eds. 1995. Special Issue on Social Impact Assessment. Project Appraisal. Volume 10:3.
         Howitt, Richard. 1993. Social Assessment as “applied peoples” Geography. Australian Geographical Studies, 31:127–140.
         Interorganizational Committee on Guidelines and Principles for Social Impact Assessment. 1994. Guidelines and Principles for Social Impact Assessment. U.S. Dept. Commerce. NOAA Tech. Memo. NMFS-F/SPO-16: 29p.
         King, Thomas F. 2000. What Should be the “Cultural Resources” Element of an EIA? Environmental Impact assessment Review. 20:5–30.
         Mulvihill, Peter R. and Peter Jacobs. 1998. Using Scoping as a Design Process. Environmental Impact Assessment Review. 18:353–370.
         Murdock, Steven H., Richard S. Krannich and F. Larry Leistritz. 1999. Hazardous Wastes in Rural America: Impacts Implications and Options for Rural Communities. Lanham, Maryland: Rowman & Littlefield. ISBN: 0-8476-9100-4.
         Rickson, Roy E. Marcus Lane, Mark Lynch-Blosse, John Western. 1995. Community, Environment, and Development: Social Impact Assessment in Resource-Dependent Communities . Impact Assessment, 13:347–386.
         Taylor, C. Nicholas, C. Hobson Bryan and Colin G. Goodrich. 1995. Social Assessment: Theory, Process And Techniques. Taylor Baines & Assoc. PO Box8620, Riccarton, Christchurch, New Zealand. ISBN: 0-473-03245-7. To order: www.tba.co.nz
         Vanclay, Frank and D. A. Bronstein. eds. 1995. Environmental and Social Impact Assessment. Wiley & Sons: Chichester, Sussex, UK: ISBN: 047195764X www.wiley.co.uk/
         Vanclay, Frank. 1999. Social Impact Assessment. In Petts, J. ed. Handbook of Environmental Impact Assessment. Volume 1. Oxford: Blackwell Science, 301–326. ISBN: 0-632-04772- 0. To order: bookshop.blackwell.co.uk/
         Vanclay, Frank. M. Van Schooten and R. Slootweg. 2000. Social Impact Assessment. In C. Briffett and J. Obbard eds. Environmental Assessment in East Asia. Singapore: Institute for Southeast Asian Studies (in Press). To order merlion.iseas.edu.sg/pub.html
         Albrecht, D.E., S.H. Murdock, F.L. Leistritz, and S. Albrecht. 1985. „The Impacts of Large- Scale Developments on Rural Communities in the Western United States.“ Research in Rural Sociology and Development. Greenwich, CT: Jai.
         Burchell, R.W., D. Listokin, and W.R. Dolphin. 1985. The New Practitioner's Guide to Fiscal Impact Analysis. Center for Urban Policy Research, Rutgers University.
         Canter, L.W., S.F. Atkinson, and F.L. Leistritz. 1985. Impact of Growth: A Guide for Socio- Economic Impact Assessment and Planning. Chelsea, MI: Lewis.
         Johnson, T.G., B.J. Deaton, and E. Segarra, (eds.). 1988. Local Infrastructure Investment in Rural America. Boulder, CO: Westview.
         Leistritz, F.L., R.A. Chase, and S.H. Murdock. 1986. „Socioeconomic Impact Models: A Review of Analytical Methods and Policy Implications.“ Integrated Analysis of Regional Systems. London: Pion.
         Leistritz, F.L. and B.L. Ekstrom. 1986. Social Impact Assessment and Management: An Annotated Bibliography. New York: Garland.
         Leistritz, F.L. and S.H. Murdock. 1981. The Socioeconomic Impact of Resource Development: Methods for Assessment. Boulder, CO: Westview.
         Leistritz, F.L., S.H. Murdock, N.E. Toman, and D.M. Senechal. 1982. „Local Fiscal Impacts of Energy Resource Development: Applications of an Assessment Model in Policy Making.“ North Central Journal of Agricultural Economics. 4(1): 47–57.
         Leistritz, F.L., N.E. Toman, S.H. Murdock, and J. DeMontel. 1981. „Cash Flow Analysis for Energy Impacted Local Government: A Case Study of Mercer County, North Dakota.“ Socio-Economic Planning Sciences 15: 165–174.
         Murdock, Steve H., R.R. Hamm, and F.L. Leistritz. 1982. „Demographic Effects,“ pgs. 61–96 in G.F. Summers and A. Selvik, eds. Energy Resource Communities. Madison, WI: MJM Publishing Co.
         Finsterbusch, K. 1985. State of the art in social impact assessment. Environment and Behaviour 17, 192–221.
         International Association for Impact Assessment 1994. Guidelines and Principles for social impact assessment. Impact Assessment 12, 2.
         Murdock, Steve H., F.L. Leistritz, R.R. Hamm. 1986. „The State of Socioeconomic Impact Analysis in the United States: Limitations and Opportunities for Alternative Futures,“ Journal of Environmental Management 23: 99–117.
         Murdock, Steve H., F.L. Leistritz, and E.C. Schriner. 1982. „Demographic Changes Associated with Rapid Growth,“ pgs. 63–96 in B.A. Weber and R.E. Howell, eds. Coping with Rapid Growth. Boulder, CO: Westview Press.

VIÐAUKI I. REIKNILÍKAN – TÖLULEGAR FORSENDUR OG SPÁR


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



VIÐAUKI II. ÁFORM FJARÐABYGGÐAR UM UPPBYGGINGU HÚSNÆÐIS


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI III. KÖNNUN MEÐAL BROTTFLUTTRA AUSTFIRÐINGA


Könnun á afstöðu brottfluttra Austfirðinga til álvers í Reyðarfirði
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði í nóvember og desember 2000 fyrir Reyðarál hf. afstöðu brottfluttra Austfirðinga til álvers í Reyðarfirði og hvaða áhrif það gæti haft á búsetuskilyrði á Austurlandi. Send var póstkönnun til fólks á aldrinum 20–49 ára sem hafði flutt frá Austurlandi á árunum 1995–1999. Úr þeim hópi var tekið 500 manna úrtak. Þegar þeir sem höfðu flutt aftur á Austurland og aðrir sem ekki áttu heima í úrtakinu höfðu verið felldir burt voru 487 manns eftir. Af þeim 487 sem eftir voru í úrtakinu svöruðu 236 manns spurningalistum sem gerir um 48% svarhlutfall.
    Kynjaskipting svarenda var mjög jöfn, rétt rúmlega helmingur karlar (50,4%) og tæplega helmingur konur (49,6%). Meðalaldur svarenda er 31 ár. Af svarendum eiga 78% heima á höfuðborgarsvæðinu en 22% á landsbyggðinni. Af þeim sem búa á landsbyggðinni eiga flestir heima á Norðurlandi eystra (42%).
    Brottfluttir Austfirðingar meta atvinnuaðstæður á Austurlandi í samanburði við núverandi heimabyggð ekki mikils. Um 73% eru mjög eða frekar óánægðir með fjölbreytni í atvinnulífi á Austurlandi miðað við núverandi heimabyggð. Um 62% eru mjög eða frekar óánægðir með tekjuöflunarmöguleika fyrir austan samanborið við núverandi heimabyggð. Atvinnuöryggi á Austurlandi kemur þó vel út í samanburði við önnur byggðarlög.
    Þegar kemur að verðlagi og fjölbreytni og vöruúrvali í verslun kemur Austurland ekki vel út. Um 76% brottfluttra Austfirðinga eru mjög eða frekar óánægðir með verðlag samanborið við núverandi heimabyggð og 56% lýsa yfir óánægju með fjölbreytni í vöruval í verslunum.
    Um 52% svarenda eru mjög eða frekar ánægðir með framboð hentugs húsnæðis á Austurlandi miðað við núverandi heimabyggð, en hins vegar kom fram töluverð óánægja með kostnað við rekstur húsnæðis á Austurlandi í þessum samanburði.
    Tækifæri til náms eftir grunnskóla virðast ekki vera fullnægjandi á Austurlandi, að minnsta kosti í samanburði við aðra landshluta. Um 54% eru mjög eða frekar óánægð með þau miðað við tækifæri til náms í núverandi byggðarlagi.
    Möguleikar til útivistar og tómstundastarfs koma vel út fyrir Austurland miðað við núverandi heimabyggð.
    Helstu ástæður þess að fólk flutti frá Austurlandi var að það fór í nám og að því fannst fá og einhæf atvinnutækifæri í fyrrum byggðarlagi sínu fyrir austan. Þá nefndu margir persónulegar ástæður. Í rannsókn Stefáns Ólafssonar, prófessors, 1997, kom fram að atvinnuaðstæður voru oftast nefndar sem ástæða fyrir brottflutningi. Því eru niðurstöður þessarar könnunar í nokkru samræmi við þá rannsókn.
    Um 39% brottfluttra Austfirðinga hafa á undanförnum tveimur árum hugleitt að flytja aftur á Austurland. Nokkuð fleiri konur (46%) en karlar (33%) hafa hugleitt að flytja aftur. Þá er einnig breytilegt eftir aldri hvort fólk hafi hugleitt að flytja aftur. Mun algengara er að þeir yngri hafa hugleitt að flytja aftur en þeir eldri.
    Í samræmi við það að lakar atvinnuaðstæður voru oft nefndar sem ástæður fyrir brottflutningi kemur í ljós að fleiri atvinnutækifæri auka töluvert líkur á að fólk flytji aftur til Austurlands. Um 70% þeirra sem ekki töldu líklegt að þeir byggju á Austurlandi eftir 10 ár myndu hugleiða flutning aftur á Austurland ef fleiri og betri atvinnutækifæri sköpuðust þar. Töluverður munur er á þessari afstöðu eftir aldri. Fólk á aldrinum 20–29 ára (80%) og 30–39 ára (67%) er mun tilbúnara til að hugleiða að flytja til baka ef fleiri og betri atvinnutækifæri byðust en fólk á aldrinum 40–49 ára (27%).
    Fram kom í könnuninni töluverður vilji fólks til að flytja aftur á Austurland ef fleiri og betri atvinnutækifæri sköpuðust. Um 17% telja mjög eða frekar líklegt að þeir flytji ef álver rís í Reyðarfirði, en 49% telja það mjög eða frekar ólíklegt. Þessi afstaða er breytileg eftir aldri þar sem yngra fólk er tilbúnara til að flytja en það eldra.
    Brottfluttir Austfirðingar eru nokkuð jákvæðir í garð stóriðju almennt. Um 60% greindu frá mjög eða frekar jákvæðri afstöðu en 18% frá mjög eða frekar neikvæðri afstöðu. Þessi afstaða er breytileg eftir kyni. Karlar eru mun jákvæðari í garð stóriðju (68%) en konur (53%).
    Töluverður meirihluti brottfluttra Austfirðinga er mjög eða frekar hlynntur byggingu álvers í Reyðarfirði (66%). Um 23% þeirra er mjög eða frekar andvígir því. Fleiri karlar eru hlynntir byggingu álvers (69%) en konur (63%).
    Um 79% brottfluttra Austfirðinga telja að bygging álvers í Reyðarfirði muni styrkja byggð og atvinnulíf á Austurlandi mjög eða frekar mikið. Einungis 10% telja að álverið eigi eftir að styrkja byggð og atvinnulíf mjög eða frekar lítið. Um 38% telja að mjög eða frekar margir brottfluttir Austfirðingar eigi eftir að flytja til baka á heimaslóðir ef álver risi í Reyðarfirði. Um 29% telja að mjög eða frekar fáir eigi eftir að flytja til baka.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI IV. KÖNNUN MEÐAL UNGS FÓLKS Á AUSTURLANDI


Könnun á afstöðu ungs fólks á Mið-Austurlandi til álvers í Reyðarfirði
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði fyrir Reyðarál hf. afstöðu ungs fólks á Mið- Austurlandi, á aldrinum 18–28 ára, til álvers í Reyðarfirði. Könnunin, sem fór fram í nóvember og desember s.l., náði til fólks með lögheimili á svæðinu frá Fljótsdalshéraði til Breiðdalsvíkur. Af þeim 364 sem voru í úrtakinu svöruðu 203, eða 56%.
    Kynjaskipting var nokkuð jöfn, 55% voru konur og 45% karlar, og meðalaldur rúm 22 ár. Um 37% eru búsettir í Fjarðabyggð. Rúmlega 44% eru einhleypir, um 39% giftir eða í sambúð og 17% í sambandi án þess að vera í sambúð. Í námi eru 41% en 59% stundar vinnu.
    Þegar á heildina er litið eru ungir Austfirðingar frekar óánægðir með atvinnuástand í sínu byggðarlagi, bæði vegna lítillar fjölbreytni í atvinnulífi og takmarkaðra möguleika á tekjuöflun. Hins vegar var nokkur ánægja með atvinnuöryggi. Talsverð óánægja var með vöruúrval (51%) og enn meiri með vöruverð (70%) í verslunum á Austurlandi. Um 43% svarenda er mjög eða frekar ánægður með framboð hentugs húsnæðis en sú afstaða er breytileg eftir búsetu. Nokkur ánægja er með tækifæri til náms að loknum grunnskóla. Um 43% segjast mjög eða frekar ánægðir með námstækifæri. Um 56% svarenda sögðust mjög eða frekar ánægðir með möguleika til útivistar og tómstundastarfs í sínu byggðarlagi.
    Þegar öll ofangreind atriði eru greind eftir því hvort ungt fólk teldi líklegt að það myndi búa á Austurlandi eftir 10 ár kemur í ljós munur á sjö af tíu atriðum. Fólk sem ætlar ekki að búa eftir 10 ár er óánægðra en fólk sem ætlar að búa á Austurlandi með eftirfarandi þætti: atvinnumöguleika, fjölbreytni í atvinnulífi, tekjuöflunarmöguleika, atvinnuöryggi, verðlag, fjölbreytni og vöruúrval í verslun og möguleika til að stunda tómstundir og útivist. Af þessu má álykta að óánægja með þessi atriði geti stuðlað að brottflutningi ungs fólks af Austurlandi. Því virðist mikilvægast að styrkja atvinnulífið og bæta verslunina til að halda ungu fólki í sinni heimabyggð. Önnur atriði eins og tækifæri til náms eftir grunnskóla og húsnæðisaðstæður hafa líklega ekki eins mikil áhrif á ákvörðun fólks um hvort það verði kyrrt í heimabyggð eða flytur burt.
    Um 68% svarenda hefur á undanförnum tveimur árum hugleitt að flytja frá Austurlandi. Nokkur munur er á þessu eftir aldri. Áberandi flestir á aldrinum 20–22 ára hafa hugleitt að flytja frá Austurlandi (89%). Hærra hlutfall þeirra sem er í námi hefur hugleitt að flytja burt (76%) en þeirra sem eru í vinnu (62%).
    Eftir 10 ár ætla um 43% sér að búa á Austurlandi en 57% annars staðar. Af þeim sem ætla að búa annars staðar en á Austurlandi ætla flestir að búa á höfuðborgarsvæðinu (43%) en töluverður hluti ætlar einnig að búa annars staðar á landsbyggðinni (32%).
    Einhleypt fólk er líklegra en aðrir til að flytja frá Austurlandi og námsmenn eru einnig líklegri til að flytja burt en ungt fólk sem stundar vinnu.
    Þeir sem sögðust ætla búa annars staðar en á Austurlandi eftir 10 ár voru einnig spurðir að því hvort fleiri og betri atvinnutækifæri í þeirra byggðarlögum myndu auka líkur á að þeir yrðu um kyrrt. Um 90% þeirra sögðu að fleiri og betri atvinnutækifæri myndu auka líkur á búsetu þeirra á Austurlandi.
    Almennt séð eru ungir Austfirðingar frekar jákvæðir í garð þeirrar stóriðju sem er starfandi í landinu. Um 67% þeirra greindu frá jákvæðri afstöðu en einungis 8% frá neikvæðri afstöðu. Afstaða fólks sem stundar vinnu er jákvæðari en námsmanna.
    Ungt fólk á Austurlandi er almennt hlynnt byggingu álvers í Reyðarfirði. Um 56% eru mjög hlynnt og þrír af hverjum fjórum svarendum eru mjög eða frekar hlynntir byggingu álvers í Reyðarfirði.
    Um 40% sögðust hafa áhuga á að vinna í álveri ef það yrði reist í Reyðarfirði. Þessi afstaða var nokkuð breytileg eftir kyni og búsetu. Karlar (53%) hafa frekar áhuga á að vinna í álveri en konur (29%). Þá er ljóst að áhugi á að starfa í álverinu er mun meiri í Fjarðabyggð (52,5%) og á Suðurfjörðum (50,0%) en á Seyðisfirði (41,2%) og Fljótsdalshéraði (25,4%)
    Alls töldu 87% að bygging álvers í Reyðarfirði myndi styrkja efnahagslega stöðu byggðalaga á Austurlandi mjög eða frekar mikið. Um 59% svarenda telja að með tilkomu álvers eigi laun eftir að hækka á Austurlandi, um 40% telja að laun eigi eftir að haldast svipuð og nær enginn að þau eigi eftir að lækka.
    Þegar kemur að áhrifum álvers í Reyðarfirði á mannlíf í byggðarlögum á Austurlandi telja rúmlega þrír af hverjum fjórum ungum Austfirðingum að það eigi eftir að leiða til mun eða nokkuð betra mannlífs.
    Að lokum er greint frá afstöðu ungra Austfirðinga til þess hvaða áhrif þeir telja að tilkoma álvers hafi á brottflutning frá Austurlandi. Um 82% telja að brottflutningur eigi eftir að minnka og einungis 3% að brottflutningur muni aukast.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga
um álverksmiðju í Reyðarfirði.

    Með frumvarpinu er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Fjarðaál sf. og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf., um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi. Skv. 3. gr. frumvarpsins er ríkisstjórninni heimilað að tryggja efndir af hálfu sveitarstjórnar Fjarðabyggðar um að staðið verði við ákvæði samninga um skattlagningu og hafnaraðstöðu. Sambærileg ákvæði eru í lögum um álbræðslu á Grundartanga. Samkvæmt samgönguáætlun er kostnaður við stóriðjuhöfnina áætlaður 1.113 m.kr., þar af er styrkhæfur hluti 1.081 m.kr. og hlutur ríkissjóðs í kostnaðinum 661 m.kr. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að hafnarmannvirkin og rekstur þeirra verði fjármögnuð með tekjum af hafnargjöldum. Í 5. gr. frumvarpsins eru sérákvæði um skattlagningu í samræmi við sérstöðu verkefnisins og munar þar mestu um ákvæði um fasteignaskatt til sveitarfélagsins og að eigendurnir verði undanþegnir eignarskatti í ríkissjóð. Nánar er fjallað um einstök skattaleg ákvæði í greinargerð frumvarpsins. Loks er í 8. gr. ákvæði um undanþágu frá tollum og vörugjöldum á byggingarefnum, vélum og tækjum vegna fjárfestingarinnar. Samkvæmt gildandi tollalögum er heimilt að fella niður tolla og vörugjöld af hráefnum og hráefnisvörum til iðnaðarframleiðslu og af vélum og tækjum til framleiðslunnar. Þá eru engin gjöld lögð á fjárfestingarvörur sem fluttar eru inn frá EES- ríkjum og frá öðrum löndum sem fríverslunarsamningar eru við. Ákvæðið á því við um fjárfestingarvörur sem kunna að verða fluttar inn frá öðrum ríkjum og seinni málsliður 8. gr. á við um tolla og vörugjöld af vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna fjárfestingarinnar. Framangreind ákvæði 5. og 8. gr. frumvarpsins eru að mestu sambærileg við ákvæði í samningi ríkisstjórnarinnar við Norðurál hf. og Columbia Ventures Corporation um álver á Grundartanga. Gera má ráð fyrir auknum skatttekjum af umsvifum á framkvæmdatíma og þegar verksmiðjan er komin í fulla framleiðslu, en í fylgiskjali með frumvarpinu áætlar efnahagsskrifstofa að landsframleiðsla aukist varanlega um 1% vegna verkefnisins. Á framkvæmdatímanum er áætlað að landsframleiðsla verði um 3% hærri en annars og má því gera ráð fyrir að gripið verði til aðgerða í ríkisfjármálum til mótvægis og þá einkum að opinberum framkvæmdum verði frestað. Að öllu samanlögðu mun því afkoma ríkissjóðs að líkindum batna verði frumvarpið að lögum og ráðist í framkvæmdirnar.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Munurinn á landsframleiðslu og þjóðarframleiðslu felst í jöfnuði þáttatekna gagnvart útlöndum, þ.e. mismun vaxtatekna og -gjalda og arðgreiðslna og -tekna. Þessi liður hefur um langt árabil verið neikvæður hér á landi og þjóðarframleiðslan þar af leiðandi verið lægri en landsframleiðslan.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Gera þarf greinarmun á framleiðslustigi landsframleiðslu/þjóðarframleiðslu annars vegar og hagvexti hins vegar. Í fyrra tilvikinu er um að ræða mælikvarða á heildarframleiðsluverðmæti þjóðarbúsins á ákveðnu tímabili en í því síðara er átt við aukningu framleiðslunnar milli tveggja tímabila á föstu verðlagi.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Stjórntæki peningamálayfirvalda til að hafa áhrif á raunvexti eru stýrivextir Seðlabankans. Breytingar á stýrivöxtum hafa síðan áhrif á aðra vexti með mismunandi hætti og mismikilli tímatöf eftir aðstæðum. Eðli máls samkvæmt er því ekki unnt að segja fyrir um hve mikið stýrivextir Seðlabankans þurfa að breytast eða hvenær til þess að skila tiltekinni breytingu raunvaxta. Það verður að vera háð mati bankans á aðstæðum hverju sinni.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Gengið er út frá að verð á áli hækki að nafnverði um 1–2% í erlendri mynt á ári. Í þessu sambandi er m.a. stuðst við langtímahorfur CRU International Ltd.