Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 848  —  479. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið voru flutt út á land árið 2002, sundurliðað eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Á vegum félagsmálaráðuneytisins urðu til tvö stöðugildi á landsbyggðinni árið 2002. Um er að ræða stöðu hjá varasjóði húsnæðismála, sem vistaður hefur verið á Sauðárkróki, og stöðu atvinnu- og jafnréttisráðgjafa í Norðausturkjördæmi. Hér að aftan er gerð grein fyrir starfseminni.

1.    Varasjóður húsnæðismála.

    Með lögum nr. 86/2002, um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum, var lagður grunnur að starfrækslu nýs sjóðs, varasjóðs húsnæðismála. Hinum nýja sjóði er ætlað að veita framlög til sveitarfélaga og félaga á þess vegum vegna félagslegra íbúða, sbr. nánari ákvæði þar að lútandi, og tekur hann jafnframt við öllum réttindum og skyldum varasjóðs viðbótarlána sem lagður verður niður samhliða.
    Setning fyrrgreindra laga um varasjóð húsnæðismála og reglugerðar hans, nr. 656/2002, byggist á samkomulagi félags- og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 4. apríl 2002.
    Varasjóður húsnæðismála tók formlega til starfa 1. ágúst 2002 og lagðist starfsemi varasjóðs viðbótarlána því niður frá og með sama tíma.
    Ákveðið var að starfsemi varasjóðsins flyttist til Sauðárkróks frá og með 1. nóvember 2002 og er því um nýtt starf á landsbyggðinni að ræða er nemur einu stöðugildi.

2.    Samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis og Byggðastofnunar um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa.
    Þriggja ára tilraunaverkefni um jafnréttisráðgjafa á Norðurlandi vestra var hrint af stað af hálfu félagsmálaráðuneytisins 26. mars 1998. Meginverkefni ráðgjafans var að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Enn fremur átti hann að vinna í samvinnu við atvinnuráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur í kjördæminu.
    Með samningi milli félagsmálaráðuneytisins og Byggðastofnunar hefur verið tekin ákvörðun um að færa verkefnið út og framlengja það. Um er að ræða samstarfsverkefni þessara aðila um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa á landsbyggðinni. Samstarf aðilanna gildir til ársins 2005 og munu ráðgjafarnir verða á Blönduósi, í Norðausturkjördæmi og í Suðurkjördæmi. Verður byggt á starfi jafnréttisráðgjafa Norðurlands vestra og mun því nýtast öðrum héruðum landsins til sóknar fyrir konur í dreifbýli á vinnumarkaðinn. Verkefnið er sérstaklega brýnt því að talið er að staða kvenna á vinnumarkaði hafi versnað hlutfallslega gagnvart körlum á landsbyggðinni.
    Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir:
     *      framhaldi á núverandi starfi jafnréttisráðgjafa á Blönduósi, sem verður atvinnu- og jafnréttisráðgjafi hins nýja Norðvesturkjördæmis til 31. júlí 2003,
     *      að frá og með 1. ágúst 2002 til ársloka 2004 verði ráðinn atvinnu- og jafnréttisráðgjafi fyrir Norðausturkjördæmi,
     *      að frá og með 1. ágúst 2003 til ársloka 2005 verði ráðinn atvinnu- og jafnréttisráðgjafi fyrir Suðurkjördæmi.