Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 864  —  521. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 2. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Hafi hlutafé í eldra félagi verið hækkað upp í eða yfir mörk 1.–4. málsl. skal ekki fara niður fyrir það lágmark nema hið lága hlutafé í félaginu hafi verið hækkað og lækkað samtímis.

2. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: heiti félagsins og hugsanlegt erlent aukheiti.


3. gr.

    Orðin „eða fjárhæðir sem komið hafa fram vegna færslna í endurmatsreikning samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga“ í 1. mgr. 29. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    Í stað orðanna „skipuð einum eða tveim mönnum“ í 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: skipuð einum manni.

5. gr.

    Í stað orðanna „lagt í varasjóð“ í 1. málsl. 2. mgr. 75. gr. laganna kemur: fært á yfirverðsreikning innborgaðs hlutafjár samkvæmt lögum um ársreikninga.

6. gr.

    3. tölul. 1. mgr. 82. gr. laganna orðast svo: þegar endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir ársreikningaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. ákvæði laga um ársreikninga um skil á ársreikningum.

7. gr.

    Í stað orðanna „Ef hlutafélagaskrá telur að einkahlutafélag hafi hætt störfum“ í 1. mgr. 83. gr. laganna kemur: Ef hlutafélagaskrá telur sig hafa upplýsingar um það, m.a. frá ársreikningaskrá, að einkahlutafélag hafi hætt störfum.

8. gr.

    Á eftir 83. gr. laganna kemur ný grein, 83. gr. a, sem orðast svo:
    Í skuldlausu einkahlutafélagi geta hluthafar afhent hlutafélagaskrá skriflega yfirlýsingu um að allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar skuldir félagsins hafi verið greiddar og félaginu slitið. Yfirlýsingin skal vera undirrituð með nafni, kennitölu og heimilisfangi allra hluthafa félagsins. Með yfirlýsingu skal fylgja vottorð frá toll- og skattyfirvöldum um að félagið skuldi ekki opinber gjöld.
    Hlutafélagaskrá má einungis skrá slit félagsins ef yfirlýsing hluthafanna berst skránni innan tveggja vikna frá undirskrift yfirlýsingarinnar.
    Hluthafar bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum einkahlutafélagsins, hvort sem þær eru gjaldfallnar, ógjaldfallnar eða umdeildar, frá þeim tíma er yfirlýsingin um slit félagsins var gefin.
    Úthluta skal til hluthafa þeim eignum einkahlutafélags sem eftir kunna að standa.

9. gr.

    Í stað orðanna „83. gr.“ í 1. mgr. 84. gr. laganna kemur: 3. mgr. 83. gr.

10. gr.

    2. mgr. 116. gr. laganna orðast svo:
    Útibússtjóri skal senda ársreikningaskrá ársreikninga aðalfélags og útibús samkvæmt lögum um ársreikninga.


11. gr.

    3. málsl. 117. gr. laganna orðast svo: Gæta skal ákvæða 7. mgr. 1. gr.

12. gr.

    3. mgr. 121. gr. laganna orðast svo:
    Tilkynningar til hlutafélagaskrár ásamt fylgiskjölum og tilskildum skráningar- og birtingargjöldum skal senda beint til hlutafélagaskrár.

13. gr.

    2. mgr. 123. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    134. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er ætlunin að gefa kost á að slíta einkahlutafélögum með einföldum, ódýrum en þó tryggum hætti af hálfu þeirra sem að félaginu standa. Jafnframt er tækifærið notað til að gera m.a. vissar breytingar sem snerta ákvæði um ársreikninga vegna þróunar í löggjöf um þá.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er stefnt að skýrum reglum um hvað gildi ef eldra félag með hlutafé undir lágmarki laganna um einkahlutafélög hækkar hlutafé sitt upp í eða yfir lágmark laganna. Ekki er þá gert ráð fyrir því að unnt sé að fara aftur undir lágmarkið nema hækkun og lækkun fari fram samtímis, t.d. úr 20 þús. kr. í 1 millj. kr. og aftur niður í 20 þús. kr. þar sem jafnframt er stefnt að greiðslu til hluthafa. Kjósi eldra félag hins vegar að hækka sig t.d. úr 20 þús. kr. í 100 þús. kr. á að það að vera unnt. Æskilegt er þó að félög reyni að koma sér upp fyrir lágmarksfjárhæð laganna hverju sinni.

Um 2. gr.

    Rétt þykir að hafa í lögunum ákvæði um möguleika á skráningu hugsanlegs erlends aukheitis til samræmis við lagaframkvæmd. Þetta getur auðveldað samskipti félags við útlönd og komið í veg fyrir að það noti óeðlilega þýðingu á heiti sínu og sú notkun kynni að bitna á öðru félagi. Geta félög í þessu sambandi jafnvel þurft að huga að skráningu vörumerkja af hálfu annarra félaga.

Um 3. gr.

    Hér er fellt niður ákvæði um endurmatsreikning til samræmis við lög um ársreikninga.

Um 4. gr.

    Með þessari grein er felld niður sú krafa að í tveggja manna stjórn einkahlutafélags þurfi að hafa a.m.k. einn varamann. Þetta hefur valdið vissum erfiðleikum í framkvæmd og verið til óþæginda ef tveir menn stofna félag og þurfa að leita að þriðja manni til að vera varamaður. Þykir nægilega tryggt að tveir menn geti verið í stjórn án varamanns úr því að leyft er að í stjórn einkahlutafélags geti verið einn maður og annar til vara.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um að fé sem félagi hefur verið greitt umfram nafnverð fyrir hluti þegar það var stofnað eða hlutafé þess hækkað skuli lagt í yfirverðsreikning innborgaðs hlutafjár í stað varasjóðs.

Um 6. gr.

    Í greininni er fjallað um sendingu ársreikninga til ársreikningaskrár, ekki hlutafélagaskrár.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr.

    Á Íslandi eru yfir 15 þúsund einkahlutafélög. Má ætla að allmörg þeirra hafi algjörlega hætt starfsemi án þess að þeim hafi verið slitið formlega. Aðalreglan samkvæmt hlutafélagalöggjöfinni er að kosin skuli skilanefnd en gjaldþrotaskipti geta skipt verulegu máli í reyndinni. Skilanefndarmeðferð kostar þó sitt. Er tilgangurinn með grein þessari að gera hluthöfum einkahlutafélaga, sem oft eru mjög lítil og geta jafnvel verið með einum hluthafa, kleift að slíta félaginu með einföldum og ódýrum hætti. Að jafnaði þarf frumkvæði hluthafa til.
    Ef einkahlutafélag ákveður að hætta rekstri eða hann hefur legið niðri um langt skeið og félagið er með öllu skuldlaust eru engir þeir hagsmunir fyrir hendi sem mæla gegn því að félaginu sé slitið með einföldum og skjótum hætti og það síðan afskráð í hlutafélagaskrá. Skránni hefur að vísu verið veitt heimild í 83. gr. laganna til að hafa frumkvæði að slitum einkahlutafélags með tiltölulega einföldum hætti ef skráin telur að félagið hafi hætt störfum, það sé án starfandi stjórnar, endurskoðanda eða skoðunarmanns eða sinni ekki tilkynningarskyldu sinni til skrárinnar. Heimildin í þessari grein frumvarpsins felur þó í sér aðferð sem er allfrábrugðin aðferðinni í 83. gr. um frumkvæðisrétt hlutafélagaskrár. Er hin nýja heimild byggð á fyrirmynd í dönskum lögum um einkahlutafélög sem er talin hafa gefist vel þar í landi. Núgildandi reglur um félagsslit skv. XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, halda að sjálfsögðu gildi sínu óbreyttar.
    Í 1. málsl. 1. mgr. segir að hluthafar skuldlauss einkahlutafélags geti með skriflegri yfirlýsingu lýst því yfir við hlutafélagaskrá að allar gjaldfallnar sem ógjaldfallnar skuldir félagsins hafi verið greiddar og félaginu slitið. Eðlilegt þykir að gera þá kröfu að um skriflega yfirlýsingu sé að ræða þar eð verið er að afmá skráningu einkahlutafélags úr hlutafélagaskrá. Enn fremur er í 2. málsl. 1. mgr. gerð sú krafa að allir hluthafar undirriti yfirlýsinguna en gera má ráð fyrir að þeir séu venjulega fáir ef þessi leið er farin. Mikilvægt er að þessu skilyrði sé fullnægt þar eð hluthafar einkahlutafélags bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins reynist yfirlýsing þeirra um skuldleysi félagsins vera röng. Í 3. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að með yfirlýsingu skuli fylgja vottorð frá toll- og skattyfirvöldum til tryggingar á því að einkahlutafélagið skuldi ekki opinber gjöld.
    Það verður að telja æskilegt að sá tími sem líður frá því að yfirlýsing um félagsslit er undirrituð þangað til hún er afhent hlutafélagaskrá sé eins skammur og kostur er. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að hluthafar hafi tvær vikur til að afhenda skránni hina undirrituðu yfirlýsingu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að hluthafar beri beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldum sem enn kunna að hvíla á einkahlutafélaginu miðað við þann tíma þegar yfirlýsing um félagsslit er gefin. Þetta þýðir að unnt er að ganga að eignum þeirra aðila sem síðast voru skráðir hluthafar einkahlutafélagsins.
    Skv. 4. mgr. skal úthluta þeim eignum einkahlutafélags, sem eftir kunna að standa, til hluthafa.


Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.

    Í greininni er kveðið á um að útibússtjóri skuli senda ársreikningaskrá, ekki hlutafélagaskrá, ársreikninga aðalfélags og útibús ár hvert og þá innan þess frests sem áskilinn er í lögum um ársreikninga (átta mánuðir frá lokum reikningsárs).

Um 11. gr.

    Í greininni er leiðrétt villa í tilvísun til 1. gr. laganna.
    

Um 12. gr.

    Í greininni felst að felld eru niður ákvæði um að tilkynningar til hlutafélagaskrár séu ekki sendar beint þangað heldur fyrir milligöngu sýslumanns í því lögsagnarumdæmi þar sem tilkynnandi á heimili. Slíkar tilkynningar hafa enda eigi tíðkast.

Um 13. gr.

    Hér er gert ráð fyrir því að felld verði niður skylda félaga til þess að senda í júnímánuði ár hvert tilkynningar um heimilisföng einkahlutafélaga og nöfn, kennitölur og heimilisföng stjórnarmanna, varastjórnarmanna, framkvæmdastjóra, endurskoðenda eða skoðunarmanna og prókúruhafa miðað við 1. júní. Með slíku ákvæði var stefnt að því að auka áreiðanleika upplýsinga í hlutafélagaskrá þar eð mikið væri leitað til hennar um hvers kyns upplýsingagjöf, m.a. af hálfu opinberra aðila og lögmanna. Reynslan hefur hins vegar sýnt að sárafá félög sinna þessari tilkynningarskyldu, jafnvel aðeins tíunda hvert félag, og erfitt og dýrt er að framfylgja ákvæðinu. Þar að auki þykir það ekki nauðsynlegt þar eð tilkynna þarf hvort sem er allar breytingar á stjórn o.fl. samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.

Um 14. gr.

    Eðlilegt er talið að felld séu brott ákvæði 134. gr. laganna þar sem segir að lögin um einkahlutafélög taki til samlagshlutafélaga eftir því sem við á. Þykir réttara að hafa ákvæði um það í lögum um hlutafélög að þau lög gildi um slík félög eftir því sem við á. Er þá m.a. horft til þess að komið hafa að undanförnu upp hugmyndir um að stofna slík félög, sem hafa ekki verið skráð hér á landi, með öflugri starfsemi á sviði verðbréfaviðskipta. Þá er talið nauðsynlegt að hlutabréf slíkra félaga geti gengið kaupum og sölum á verðbréfamarkaði og verið skráð þar.


Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 138/1994,
um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að samræma reglur um skil ársreikninga einkahlutafélaga þeirri þróun sem hefur orðið í löggjöf um ársreikninga félaga í atvinnurekstri. Í frumvarpinu er gefinn sá kostur að slíta einkahlutafélögum með einföldum, ódýrum en þó tryggum hætti af hálfu þeirra sem að félaginu standa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.