Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 543. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 890  —  543. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „3,00 kr.“ kemur: 3,40 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „2,20 kr.“ kemur: 2,50 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „1,60 kr.“ kemur tvívegis: 1,80 kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „0,32 kr.“ kemur: 0,36 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í umhverfisráðuneytinu að beiðni Endurvinnslunnar hf. sem óskaði eftir að endurskoðuð yrðu ákvæði um umsýsluþóknun í lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.
    Samkvæmt 1. gr. laganna er skilagjald lagt á drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni. Fjárhæð gjaldsins er ákveðin í lögunum en ráðherra er heimilt að hækka það í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Var það síðast gert með reglugerð nr. 448/2002, um breytingu á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur, og er fjárhæð skilagjaldsins nú 7,23 kr. án virðisaukaskatts.
    Til viðbótar skilagjaldi er lögð umsýsluþóknun á hverja umbúðaeiningu úr stáli, gleri og plastefni til að mæta kostnaði Endurvinnslunnar hf. af söfnun, endurvinnslu eða eyðingu slíkra umbúða og annarri tengdri umsýslu. Með lögum nr. 26/2000, um breytingu á lögum nr. 52/1989, var umsýsluþóknun þessi ákveðin föst krónutala í lögum á hverja umbúðaeiningu og er hún mismunandi eftir tegund umbúða. Við ákvörðun fjárhæðar umsýslugjaldsins var tekið mið af gjöldum og tekjum sem leiðir af söfnun og endurvinnslu eða eyðingu hverrar umbúðaeiningar fyrir sig þannig að umsýsluþóknun er hærri af óhagkvæmari tegundum.
    Lagt er til í frumvarpi þessu að fjárhæð umsýsluþóknunar af öllum umbúðategundum verði hækkuð í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá árinu 2000 þegar fjárhæð hennar var lögfest, eða um 13%. Frá árinu 2000 hafa verið kostnaðarhækkanir, sérstaklega hvað varðar laun verkafólks og flutninga innan lands. Kostnaður við móttöku umbúða hefur einnig aukist síðustu ár, aðallega vegna bættrar þjónustu við neytendur með samningi við SORPU um móttöku umbúða á endurvinnslustöðvum SORPU á höfuðborgarsvæðinu. Söluverð í erlendri mynt fyrir áldósir og plastflöskur til endurvinnslu hefur lækkað undanfarin missiri og einnig hefur gengisþróun verið óhagstæð. Til að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll fyrir Endurvinnsluna hf. er lögð til framangreind hækkun á umsýsluþóknun.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1989,
um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða
fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lögð til hækkun umsýsluþóknunar á þær umbúðaeiningar sem lögin taka til í því skyni að treysta rekstrargrundvöll Endurvinnslunnar hf.
    Miðað við óbreytt magn umbúða má gera ráð fyrir að árlegar tekjur af umsýsluþóknun sem ríkissjóður innheimtir og skilar til Endurvinnslunnar hf. hækki um tæpar 8 m.kr. frá því sem áætlað er í fjárlögum fyrir árið 2003 og verði um 66 m.kr. Reikna má með að hækkunin skili sér út í verðlag drykkjarvara.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi að öðru leyti áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs.