Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 546. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 893  —  546. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu.

Flm.: Jón Bjarnason, Árni Steinar Jóhannsson, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér í krafti eignarhluta ríkisins í Landssíma Íslands fyrir því að fyrirtækið setji sér það markmið og hefjist þegar handa um að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-farsímakerfinu. Jafnframt felur Alþingi ráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum þess efnis að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins.

Greinargerð.


    Að morgni jóladags á nýliðnu ári olli þrumuveður á Austfjörðum því að GSM-kerfi Landssímans á Fáskrúðsfirði datt út. Kerfið lá niðri til klukkan 4 síðdegis. Sú kerfisbilun sem þarna varð hafði að sjálfsögðu óþægindi í för með sér og má hrósa happi að afleiðingar urðu ekki grafalvarlegar. Kerfið er notað til að kalla út lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir og því ljóst að illa hefði getað farið ef slys eða eldsvoða hefði borið að höndum. Nefna má fleiri hliðstæð dæmi úr flestum héruðum landsins.
    Framangreint dæmi sýnir hversu mikilvægt það er að fjarskipti séu traust. GSM-kerfið hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og almenningur sem og opinberir aðilar treysta á það í æ ríkari mæli. Nokkuð vantar þó upp á að kerfið nái til allra landsmanna. Þá er það algjörlega undir símrekanda komið hversu hratt brugðist er við bilunum í kerfinu en slíkt getur haft verulega þýðingu í öryggistilliti. Í því tilviki sem kom upp á Fáskrúðsfirði var það til að mynda gagnrýnt hversu seint Landssíminn brást við biluninni þótt ekki verði lagt mat á það hér hvort sú gagnrýni eigi við rök að styðjast.
    Samkeppnishæfni búsetu og atvinnulífs er mjög háð nútímafjarskiptum. Notkun GSM-farsíma hefur breiðst hratt út, einkum meðal ungs fólks og í viðskiptalífinu. Samkvæmt upplýsingum Póst- og fjarskiptastofnunar eru nú um 235 þúsund GSM-farsímanúmer í notkun hér á landi. Það að svæði í byggð séu í GSM-símasambandi er í huga fjölmargra einn af mælikvörðum á það hvort nútíminn hafi haldið þar innreið sína. GSM-símasamband er afar mikilvægt fyrir eflingu ferðaþjónustu og viðskipta í hinum dreifðu byggðum landsins. Ferðafólk og vegfarendur vítt og breitt um landið treysta á að í byggð og á helstu þjóðvegum sé GSM- símasamband. Það er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og alla íbúa þessa lands að eiga greiðan og öruggan aðgang að nútímafjarskiptum. Annað felur í sér mismunun. Gagnvart svo mikilvægri almannaþjónustu sem GSM-símafjarskipti eru nú orðin eiga íbúar landsins alls að búa við jafnrétti óháð búsetu hvað varðar aðgengi að þessari þjónustu. Í þessu samhengi verður jafnframt að leggja áherslu á að ekki verði slegið slöku við í að efla gæði og öryggi annarrar fjarskiptaþjónustu, svo sem í almenna símkerfinu og NMT-farsímakerfinu.
    Ljóst er að talsverður kostnaður fylgir því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-kerfinu og ljóst að víða verður það ekki rekið á viðskiptagrunni frekar en mörg önnur almannaþjónusta. Því er nauðsynlegt og eðlilegt að gera þá kröfu að ríkisvaldið tryggi öllum íbúum þjóðarinnar jafnt aðgengi að þessari þjónustu.
    Unnt er að tryggja hámarksöryggi og útbreiðslu GSM-farsímakerfisins með ýmsum hætti. Nærtækast er einfaldlega að fela Landssíma Íslands, sem er að nær öllu leyti í eigu þjóðarinnar, að ráðast í verkefnið. Með því einu að lækka arðsemiskröfuna sem gerð er til fyrirtækisins má ná markmiðinu án þess að veita til þess fé úr ríkissjóði. Hvað varðar aðra hluthafa í félaginu þarf að vera tryggt að þeir eigi innlausnarrétt á hendur ríkinu á sínum hlutum.
    Hugnist mönnum ekki sú leið sem að framan greinir má tryggja útbreiðslu kerfisins með alþjónustukvöðum, en slíkar kvaðir falla að uppbyggingu þeirra fjarskiptalaga sem nú eru í gildi. Yrði sú leið farin hlýtur að teljast eðlilegt að fela Landssímanum að sjá um að uppfylla slíkar kvaðir, enda rekur fyrirtækið stærstan hluta þess fjarskiptakerfis sem fyrir er í landinu.
    Skilgreining GSM-farsímakerfisins sem öryggis- og neyðarkerfi í fjarskiptalögum leiðir sjálfkrafa til þess að tryggja verður þjónustuna annaðhvort með því að fela Landssímanum að sjá um hana eða með alþjónustukvöðum sem jafnframt yrðu að öllum líkindum lagðar á Landssímann.