Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 894  —  547. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8 25. febrúar 1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ábyrgðaryfirlýsing er lagalega bindandi fyrir ábyrgðaraðila á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í ábyrgðarskilmálum og auglýsingum hans.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 24. gr. a, svohljóðandi:
    Ef ábyrgðaryfirlýsing er veitt skal seljandi vöru eða þjónustu upplýsa neytanda á skýran og greinargóðan hátt um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett til þess að neytandi geti borið fyrir sig ábyrgðina. Jafnframt skal seljandi upplýsa neytanda á skýran hátt um þau ófrávíkjanlegu réttindi sem hann nýtur samkvæmt ákvæðum laga og ábyrgðaryfirlýsingin hefur engin áhrif á. Ef neytandi óskar þess ber seljanda að afhenda honum skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ritaða á pappír eða á öðrum varanlegum miðli sem er neytandanum aðgengilegur. Skriflegar ábyrgðaryfirlýsingar skulu vera á íslensku.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta til breytinga á samkeppnislögum, nr. 8/1993, er fylgifrumvarp frumvarps til laga um neytendakaup, sem lagt er fram samhliða. Markmið frumvarpsins er að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópusambandsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999, um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi, sem birt var í Stjórnartíðindum EB 7. júlí 1999. Aðildarríkjum var skylt að leiða í lög ákvæði tilskipunarinnar fyrir 1. janúar 2002.
    Tilskipunin er tvíþætt. Í 2.–5. gr. hennar felast reglur um rétt neytanda gagnvart seljanda þegar vara er haldin göllum, og eru þær reglur teknar upp í frumvarp til laga um neytendakaup. Í 6. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem varða efni ábyrgðaryfirlýsinga sem algengt er að seljendur vöru og þjónustu leggi fram í tengslum við kaup, og er frumvarpi þessu ætlað að koma þeim ákvæðum til framkvæmda. Tilskipunin veitir lágmarksvernd, sbr. 2. mgr. 8. gr., og er aðildarríkjum því frjálst að lögleiða strangari ákvæði sem ætlað er að tryggja neytendum fyllri vernd.
    Fram til þessa hafa ekki verið lögfestar hér á landi ítarlegar reglur um ábyrgðir eða sambærilegar yfirlýsingar, sem veita eiga neytendum betri rétt en þeir mundu njóta samkvæmt lögum ef engin slík ábyrgð eða yfirlýsing hefði verið gefin. Nú er hins vegar nauðsynlegt, á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins um neytendakaup, að lögfesta ítarlegri ákvæði um þetta efni.
    Annars staðar á Norðurlöndum hafa ákvæði tilskipunarinnar verið innleidd í lögum um eftirlit með markaðssetningu og samningsskilmálum, sem hafa að geyma ákvæði um óréttmæta viðskiptahætti og eftirlit með þeim. Hér á landi hafa sambærileg lagaákvæði verið sett í VI. kafla samkeppnislaga, nr. 8/1993, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum. Er því talið eðlilegt að ákvæðum um ábyrgðir verði skipað í VI. kafla samkeppnislaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 24. gr. samkeppnislaga, en í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ábyrgðaryfirlýsingu megi aðeins gefa ef hún veitir viðtakanda meiri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum. Lagt er til að bætt verði við greinina ákvæði sem kveður á um það að ábyrgðaryfirlýsing sé lagalega bindandi fyrir ábyrgðaraðila á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í ábyrgðarskilmálum og auglýsingum hans. Byggist ákvæðið á 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að nýrri grein, 24. gr. a, verði bætt inn í samkeppnislögin. Ákvæði greinarinnar byggjast á 2., 3. og 4. mgr. 6. gr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í ákvæðinu er í fyrsta lagi kveðið á um þær upplýsingar sem koma skulu fram í ábyrgðarskilmálum. Byggjast 1. og 2. málsl. greinarinnar á 2. mgr. 6. gr. tilskipunar um neytendakaup. Í málsliðunum kemur ekki fram tæmandi talning á upplýsingum sem vera skulu í ábyrgðarskilmálum. Kveðið er á um að ábyrgðaraðili skuli gefa upplýsingar um hvað felst í ábyrgðinni. Þá ber ábyrgðaraðila að gefa upplýsingar um skilyrði þess að unnt sé að bera ábyrgðina fyrir sig. Sem dæmi um slík skilyrði má nefna gildistíma ábyrgðarinnar, hvar ábyrgðin gildi og nafn og heimilisfang ábyrgðargjafans. Einnig má nefna sem dæmi tilvik þar sem ábyrgð gildir aðeins ef innsigli er órofið. Ef ábyrgðaraðili gefur ekki upplýsingar um takmarkanir eða sérstök skilyrði fyrir ábyrgð getur það leitt til þess að hann geti ekki borið slíkt fyrir sig þar sem það telst ekki hluti af samningi aðila. Ábyrgðaraðili skal einnig á skýran hátt gefa upplýsingar um að ábyrgðin takmarki ekki réttindi neytanda samkvæmt lögum á nokkurn hátt.
    3. málsl. greinarinnar er í samræmi við 3. mgr. 6. gr. tilskipunar um neytendakaup. Í ákvæðinu kemur fram að ábyrgðaraðili skuli afhenda skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ef neytandi óskar þess. Getur neytandi krafist þess að ábyrgðaraðili afhendi honum skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ritaða á pappír eða á öðrum varanlegum miðli sem er aðgengilegur neytandanum. Í þessu felst að afhenda má skilmálana á blaði eða senda þá í tölvupósti. Ekki er hins vegar nægilegt að vísa neytandanum á ábyrgðarskilmála sem er að finna á heimasíðu ábyrgðaraðilans.
    Í 4. málsl. er kveðið á um það á hvaða tungumáli skilmálar ábyrgðaryfirlýsingarinnar skuli vera. Byggist ákvæðið á 4. mgr. 6. gr. tilskipunar um neytendakaup. Skulu skilmálar ábyrgðaryfirlýsinga sem veittar eru skriflega vera á íslensku. Ákvæðið takmarkar ekki rétt ábyrgðaraðila til að hafa skilmálana á fleiri tungumálum en íslensku.

Um 3. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júní 2003. Miðað er við sama gildistökudag og í frumvarpi til laga um neytendakaup.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum,
nr. 8/1993, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að skerpa á þeim reglum sem gilda um ábyrgðaryfirlýsingar neytendakaupa. Einnig er markmið frumvarpsins að innleiða tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/44/EB frá 1999 um sama efni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.