Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 551. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 898  —  551. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að birta skýrslu um starfslok fyrrverandi forstjóra Landssíma Íslands hf.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðarson, Gísli S. Einarsson,


Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Karl V. Matthíasson, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson,
Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Svanfríður Jónasdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að birta nú þegar skýrslu þá sem tekin var saman af Ríkisendurskoðun um starfslok fyrrverandi forstjóra Landssíma Íslands hf. og tengd efni á árinu 2002.

Greinargerð.


    Einstakir þingmenn Samfylkingarinnar hafa óskað eftir því við samgönguráðherra að hann upplýsi um innihald skýrslu sem Ríkisendurskoðun tók saman um mitt árið 2002, að beiðni þáverandi stjórnarformanns Landssíma Íslands hf., um starfslok fyrrverandi forstjóra félagsins og tengd efni. Þessu hefur samönguráðherra, sem er handhafi meira en 90% hlutafjár í fyrirtækinu fyrir hönd ríkissjóðs, ítrekað hafnað.
    Í kjölfarið, eða hinn 6. nóvember 2002, óskaði allur þingflokkur Samfylkingarinnar eftir því að Ríkisendurskoðun yrði falið að taka saman skýrslu um sama efni, eins og þingsköp heimila og gert er ráð fyrir í lögum um Ríkisendurskoðun. Forseti Alþingis, Halldór Blöndal, hafnaði þeirri skýrslubeiðni á fundi forsætisnefndar 28. janúar 2003. Aðrir fulltrúar stjórnarflokkanna í forsætisnefnd Alþingis gerðu ekki athugasemdir við þessa einstæðu afgreiðslu forseta þingsins.
    Á nefndum fundi forsætisnefndar lagði Guðmundur Árni Stefánsson, 1. varaforseti þingsins, fram eftirfarandi bókun:
    „Þess eru fá dæmi í þingsögunni að forsætisnefnd Alþingis, sem eðli máls samkvæmt hefur það hlutverk helst að styðja og styrkja þingmenn í störfum sínum, hamli því að þingmenn geti sinnt stjórnarskrárbundnum skyldum sínum, þ.e. að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Sú afgreiðsla forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, án athugasemda frá fulltrúum stjórnarflokkanna í nefndinni, að hafna sjálfsagðri beiðni 17 manna þingflokks Samfylkingarinnar, um skýrslu frá Ríkisendurskoðanda, er dapurleg og er ekki til þess fallinn að styrkja stöðu Alþingis.
    Þingmenn Samfylkingarinnar munu ekki láta deigan síga og áskilja sér allan rétt til þess að tryggja að þingmenn geti sinnt störfum sínum í samræmi við stjórnarskrárbundinn rétt þeirra og raunar skyldu til eftirlits með framkvæmdavaldinu.“
    Í framhaldi af þessu er ljóst að leita þarf annarra leiða til að ná fram rétti þingmanna í þessum efnum. Því er þessi þingsályktunartillaga lögð fram. Þá er vert að benda á umfjöllun umboðsmanns Alþingis um mál af þessum toga sem fram kom í skýrslu hans fyrir árið 2001. Hann segir m.a. um þessi málefni (á bls. 14): „Hafa verður í huga að ekki er sjálfgefið að breytt rekstrarform opinberrar þjónustu eða verkefna leiði til þess að mögulegt sé að láta hjá líða að taka tillit til stjórnsýslureglna við framkvæmd slíkra málefna.“
    Nauðsynlegt er að fá skýra afstöðu Alþingis til þessara álitamála sem lúta að grundvallaratriðum í stjórnsýslu og túlkun stjórnarskrárinnar. Í því ljósi er þess vænst að tillaga þessi fáist afgreidd á yfirstandandi þingi.