Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 899  —  552. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Rannsóknarnefnd sjóslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Um aðgang að rannsóknargögnum fer samkvæmt ákvæðum 13. gr.
    Aðsetur rannsóknarnefndar sjóslysa er í Stykkishólmi nema ráðherra ákveði annað.

2. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Rannsóknarnefnd sjóslysa er heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að fela erlendu ríki að annast rannsókn sjóslyss á íslensku yfirráðasvæði að hluta til eða öllu leyti.

3. gr.

    1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur rétt til að kveðja sér til aðstoðar lögreglu, aðra opinbera aðila og annað björgunar- og hjálparlið. Er þessum aðilum skylt að veita þessa rannsóknaraðstoð.

4. gr.

    Við 9. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þegar við á skal rannsóknarnefnd sjóslysa láta rannsókn ná til fyrirkomulags tilkynninga um sjóslys, til leitar, björgunaraðgerða og annarra aðgerða sem ætlað er að draga úr afleiðingum sjóslysa.
    Samgönguráðherra er heimilt að fela rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka atriði sem varða almennt öryggi til sjós án þess að þau tengist sjóslysi.

5. gr.

    Í stað 2. mgr. 12. gr. laganna koma fjórar málsgreinar, svohljóðandi:
    Óheimilt er að veita aðgang að eftirfarandi gögnum sem rannsóknarnefnd sjóslysa aflar við rannsókn sjóslyss eða upplýsingar um þau, sbr. þó 3. og 4. mgr.:
     a.      upptökum eða endurritum af framburði þeirra sem nefndin yfirheyrir við rannsókn máls,
     b.      hvers konar skráðum fjarskiptum eða upptökum af fjarskiptum milli þeirra sem tengst hafa sjóslysi,
     c.      læknisfræðilegum og öðrum persónulegum gögnum sem varða þá sem tengst hafa sjóslysi,
     d.      hvers konar álitsgerðum sem nefndin hefur aflað í tengslum við mat á gögnum skv. a–c- lið.
    Veita má umsagnaraðilum skv. 13. gr. aðgang að gögnum skv. 2. mgr. að því marki sem rannsóknarnefnd sjóslysa ætlar að sé nauðsynlegt til að þeir geti veitt umsögn.
    Rannsóknarnefnd sjóslysa skal fella út úr lokaskýrslu sinni beina tilvísun til gagna skv. 2. mgr. nema að því leyti sem nauðsynlegt er talið til greiningar á orsökum sjóslyss.
    Þegar veittur er aðgangur að gögnum skv. 3. mgr. skal virða nafnleynd þeirra sem tengjast sjóslysi. Sama á við um lokaskýrslu nefndarinnar.

6. gr.

    Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist: innan þriggja mánaða.

7. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Rannsóknarnefnd sjóslysa getur endurupptekið þegar rannsakað mál, sbr. 13. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati.
    Þegar sérstaklega stendur á getur samgönguráðherra falið rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka nánar tiltekið sjóslys eða sérstök atriði sem tengjast sjóslysi, einkum ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Markmið þess er tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að auka hlutverk rannsóknarnefndar sjóslysa. Verði frumvarpið að lögum ber nefndinni að rannsaka atriði sem telja má að ráði miklu um afleiðingar sjóslysa, þ.e. hvernig fyrirkomulag hefur verið á tilkynningum um sjóslys, svo og hvernig háttað hefur verið leitar- og björgunaraðgerðum. Í öðru lagi er markmið frumvarpsins að veita ráðherra heimild til að fela nefndinni að taka upp mál þar sem rannsókn er þegar lokið ef aðstæður krefjast þess. Að öðru leyti felur frumvarpið í sér almennar breytingar, t.d. er kveðið skýrt á um þagnarskyldu þeirra sem hafa afskipti af rannsókn sjóslysa, hvar aðsetur nefndarinnar skuli vera og kveðið er á um samskipti nefndarinnar við aðra aðila sem að rannsókn sjóslysa kunna að koma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæðið er nýmæli, en þar er kveðið á um sérstaka þagnarskyldu nefndarinnar og þeirra sem starfa fyrir hana. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Ákvæði upplýsingalaga eiga aðeins við um rannsóknir sjóslysa ef gögn sem óskað er aðgangs að hafa ekki að geyma upplýsingar um einkahagi eða lögmæta einka- eða almannahagsmuni.

Um 2. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og veitir nefndinni heimild til að fela erlent ríki að annast rannsókn sjóslyss á íslensku yfirráðasvæði að hluta til eða öllu leyti. Ákvæðið á við þegar önnur ríki hafa verulega hagsmuni af rannsókn máls eða t.d. þegar rannsókn máls er fyrirsjáanlega svo yfirgripsmikil að rannsóknarnefnd sjóslysa er ekki fært að annast hana. Rannsóknarnefnd sjóslysa tæki ákvörðun um gerð slíks samnings við erlent ríki, en gert er ráð fyrir að slíkir samningar séu háðir samþykki samgönguráðherra.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er hliðstætt 1. mgr. 8. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að kveðið er skýrar á um skyldu opinberra aðila, þ.m.t. lögreglu og björgunar- og hjálparliðs, til að veita rannsóknarnefndinni alla þá aðstoð og upplýsingar sem hún fer fram á.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er nýmæli.
    Í 1. efnismgr. er tiltekið að rannsóknarnefnd sjóslysa skuli, þegar það á við, láta rannsókn sjóslyss jafnframt ná til atriða sem telja má að ráði miklu um afleiðingar sjóslysa, þ.e. til þess hvernig fyrirkomulag hefur verið á tilkynningum um sjóslys, svo og hvernig háttað hefur verið leitar- og björgunaraðgerðum. Ljóst er að mikilvægt er þegar litið er til almenns sjóöryggis að framangreindir þættir séu rannsakaðir samhliða, en ábendingar nefndarinnar eða tillögur sem varða þessa liði geta aukið öryggi á sjó í samræmi við meginmarkmið laganna.
    Í 2. efnismgr. er kveðið á um að samgönguráðherra geti falið rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka atriði sem varða almennt sjóöryggi, án þess að þau tengist sjóslysi. Talið er mikilvægt að ráðherra samgöngumála geti óskað eftir því við nefndina að tiltekin atriði, sem tengjast þó ekki sérstöku sjóslysi, en talin eru geta varðað almennt öryggi á sjó, séu rannsökuð. Mikilvægt getur verið að sjálfstæð og óháð nefnd láti í ljós álit og komi eftir atvikum með tilmæli í öryggisátt, þó svo að ekki sé um slys eða atvik á sjó að ræða. Slíkt getur stuðlað að auknu öryggi á sjó. Rétt er að taka fram að þótt ráðherra samgöngumála geti óskað eftir slíkri athugun eða rannsókn nefndarinnar er gert ráð fyrir að nefndin sé í störfum sínum við slíka athugun eða rannsókn sjálfstæð og óháð og að niðurstöður slíkrar athugunar eða rannsóknar, hver sem hún kann að vera, byggist á því grundvallarsjónarmiði laganna að nefndin sé óháð stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, sbr. 4. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um sérstakar takmarkanir sem gilda um afhendingu gagna sem rannsóknarnefnd sjóslysa aflar. Rannsókn sjóslysa samkvæmt lögum þessum hefur þá sérstöðu að markmiðið er að greina orsakaþætti sjóslysa til að koma í veg fyrir að sjóslys endurtaki sig. Talið er að það hamli mjög störfum rannsóknarnefndar sjóslysa ef gögn sem hún aflar geta orðið öðrum kunn, og eru því lagðar verulegar hömlur á að slík gögn séu afhent öðrum. Í því felst að þeir sem gefa rannsóknarnefnd sjóslysa skýrslu eða láta í ljós álit á tilteknum atriðum geti treyst því að slík gögn séu ekki hagnýtt í öðrum tilgangi, nema sérstaklega standi á. Slík gögn eru því t.d. alfarið undanþegin upplýsingalögum, nr. 50/1996. Gögn þau sem um ræðir eru tiltekin í 2. mgr.
    Um undantekningar vísast til 3. og 4. mgr. Í undantekningunum felst í fyrsta lagi að heimilt er að veita þeim sem gefa umsögn um drög að lokaskýrslu aðgang að gögnum skv. 2. mgr. að því marki sem rannsóknarnefnd sjóslysa ætlar að sé nauðsynlegt. Slíkt er talið óhjákvæmilegt til að tryggja umsögn sem nýtist nefndinni við rannsókn máls og við greiningu orsakaþátta. Í öðru lagi getur verið nauðsynlegt að víkja að umræddum gögnum í lokaskýrslu, en slíkt skal ekki gert nema að því leyti sem nauðsynlegt er til greiningar á orsökum sjóslyss.
    Þegar nauðsynlegt er að veita aðgang að gögnum nefndarinnar skv. 2. mgr. skal að fullu virða nafnleynd þeirra sem tengjast viðkomandi sjóslysi. Sama á við í lokaskýrslu nefndarinnar.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er óbreytt að öðru leyti en því að hér er kveðið á um tímamörk sem nefndin hefur til að skila skýrslu og tillögum í öryggisátt til þeirra aðila sem taldir eru í greininni.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og kveður á um það að samgönguráðherra geti falið rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka nánar tiltekið sjóslys eða sérstök atriði sem tengjast slysi á sjó ef sérstaklega stendur á. Tilefni þessa nýmælis er að upp geta komið tilvik þar sem þess er farið á leit við samgönguráðherra, sem yfirmann siglingamála hér á landi, að leitað verði nánari skýringa eða aflað frekari gagna um tiltekið sjóslys, og þykir þá óhjákvæmilegt að ráðherra geti falið nefndinni að rannsaka eða kanna frekar sjóslys þar sem rannsókn er lokið, eða að rannsakað verði frekar tiltekin atriði varðandi einstök slys á sjó. Um er að ræða undantekningarákvæði sem ber að skýra þröngt. Tilvik þar sem ákvæði þessu yrði beitt eru til að mynda þegar ný gögn eða upplýsingar koma fram sem hefðu getað haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar.
    Rétt er að benda á að þrátt fyrir þessa heimild er það á valdi nefndarinnar hvernig staðið yrði að slíkri rannsókn og hvernig slíkri rannsókn yrði lokið, en í þeim efnum mundi nefndin líta til sjálfstæðis síns með sama hætti og í þeim tilvikum þegar nefndin hefur rannsókn að eigin frumkvæði.

Um 8. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.

    Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að auka hlutverk rannsóknarnefndar sjóslysa og hins vegar að veita ráðherra heimild til að fela nefndinni að taka upp mál þar sem rannsókn er þegar lokið ef aðstæður krefjast þess. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að aðsetur nefndarinnar verði í Stykkishólmi og kveðið er á um samskipti nefndarinnar við aðra aðila sem að rannsókn sjóslysa kunna að koma. Í fjárlögum 2003 er heildarfjárveitingin til nefndarinnar 30,3 m.kr. og þar af var veitt 6,5 m.kr. hækkun frá fjárlögum 2002 vegna aukinna verkefna nefndarinnar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki um frekari kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð.