Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 473. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 903  —  473. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið voru flutt út á land árið 2002, sundurliðað eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.


    Ráðuneytið sendi fyrirspurnina til umsagnar allra undirstofnana ráðuneytisins. Ekki voru flutt fjarvinnsluverkefni á vegum undirstofnana þess út á land á árinu 2002 en ráðuneytinu hafa borist eftirfarandi svör um flutning og stofnun nýrra starfa úti á landi.

Vegagerðin.
    Hinn 1. janúar 2002 voru fastir starfsmenn Vegagerðarinnar 352, þar af 220 starfandi á landsbyggðinni.
    Árið 2002 var ekkert starf hjá Vegagerðinni flutt út á land en hins vegar var eitt nýtt starf stofnað, þ.e. staða tæknifræðings á Akureyri. Starfið felst í framkvæmdakaupum og eftirliti.
    Árið 2001 voru nokkur störf flutt eða stofnuð ný á landsbyggðinni:
          Fjögur störf þjónustufulltrúa á Ísafirði. Þjónustudeild, símsvörun og upplýsingagjöf til vegfarenda.
          Eitt starf tæknimanns á Sauðárkróki. Framkvæmdakaup, eftirlit og yfirborðsmerkingar vega.
          Eitt starf tæknifræðings á Akureyri. Áætlanadeild, umferð- og umferðaröryggismál.
          Eitt starf jarðfræðings á Akureyri. Rannsóknardeild, jarðfræðirannsóknir.
          Eitt starf vélamanns á Höfn. Þjónustusvæði, vélamaður.
    Árið 2000 voru nokkur störf flutt eða stofnuð ný á landsbyggðinni:
          Eitt starf tæknifræðings í Borgarnesi. Framkvæmdakaup og eftirlit, eftirlit með framkvæmdum.
          Eitt starf verkfræðings á Akureyri. Áætlanir, hönnun vega.
          Tvö störf eftirlitsmanna á Akureyri. Framkvæmdadeild, viðhaldsstjórnun vega, skoðun slitlaga og annað eftirlit.

Rannsóknarnefnd sjóslysa.
    Rannsóknarnefnd sjóslysa var flutt frá Reykjavík til Stykkishólms í desember 2001 og var þá framkvæmdastjóri ráðinn til starfa. Hinn 1. janúar 2002 var nýr starfsmaður ráðinn fyrir nefndina.

Ferðamálaráð Íslands.
    Ekki voru nein störf á vegum Ferðamálaráðs Íslands flutt út á land árið 2002 en verkefni sem unnin hafa verið varðandi upplýsingamiðlun á skrifstofu ráðsins í Reykjavík voru flutt til skrifstofu ráðsins á Akureyri í upphafi ársins 2002.
    Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun og Rannsóknarnefnd flugslysa fluttu ekki störf út á land á árinu 2002.