Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 904  —  556. mál.




Frumvarp til laga



um neytendakaup.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Almennt gildissvið laganna.

    Lög þessi gilda um neytendakaup að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt fyrir í lögum.
    Með neytendakaupum er átt við sölu hlutar til neytanda þegar seljandi eða umboðsmaður hans hefur atvinnu sína af sölu.
    Með neytanda er átt við einstakling sem kaupir söluhlut utan atvinnustarfsemi.
    Umboðsmaður seljanda sem hefur atvinnu sína af sölu er samábyrgur seljanda vegna skyldna hans, nema neytanda hafi verið bent sérstaklega á að umboðsmaðurinn sé aðeins milliliður og ekki samábyrgur seljandanum. Samábyrgðin gildir ekki þegar seljandi sjálfur annast söluna.
    Lög þessi gilda einnig um skipti eftir því sem við getur átt.

2. gr.
Sérstakt gildissvið laganna.

    Lög þessi gilda um:
     a.      pöntun hlutar sem búa skal til;
     b.      afhendingu á vatni;
     c.      kaup á kröfum og réttindum.
    Lög þessi gilda ekki um:
     a.      fasteignakaup;
     b.      samninga um að reisa byggingar eða önnur mannvirki á fasteign;
     c.      afhendingu á raforku;
     d.      samninga þegar sá sem afhendir hlut skal jafnframt láta í té vinnu eða aðra þjónustu sem felur í sér mestan hluta af skyldum hans.

3. gr.
Lögin eru ófrávíkjanleg.

    Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiða mundi af lögum þessum.
    Ekki er heimilt að semja um að lög ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi um kaupsamning sem er nátengdur yfirráðasvæði ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ef það leiðir til kjara sem eru neytandanum óhagstæðari en leiða mundi af lögum þessum.

4. gr.
Áhættan af sendingu tilkynninga.

    Nú sendir samningsaðili tilkynningu í samræmi við ákvæði laga þessara og á þann hátt sem forsvaranlegt er miðað við aðstæður og getur sendandinn þá byggt á því að tilkynningin hafi verið send nógu snemma, komi annað ekki fram, þótt henni seinki, mistök verði við sendinguna eða hún nái ekki til gagnaðila.

II. KAFLI
Afhendingin.
5. gr.
Afhendingarstaður.

    Söluhlut skal hafa til reiðu til viðtöku á þeim stað þar sem seljandinn hafði atvinnustöð sína þegar kaup voru gerð. Ef kaup voru gerð án tengsla við atvinnustöð seljanda ber að afhenda hlutinn hjá neytandanum.
    Ef seljandi hefur fleiri en eina atvinnustöð skal miðað við þá atvinnustöð sem kaupunum tengdist þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar miðuðu við þegar kaup voru gerð.
    Aðilum er heimilt að semja um annan afhendingarstað.


6. gr.
Afhendingartími.

    Leiði ekki annað af samningi skal afhenda hlutinn innan sanngjarns tíma frá því að kaupin voru gerð.
    Ef samið hefur verið um svigrúm varðandi afhendingartíma á seljandinn rétt á að velja, nema atvik sýni að neytandi eigi að velja hann.
    Ef seljanda í reiðukaupum er rétt að velja afhendingartíma skal hann tilkynna neytanda með nægum fyrirvara hvenær sækja megi hlutinn.

7. gr.
Afhendingin.

    Söluhlutur telst afhentur þegar neytandi hefur veitt honum viðtöku.

8. gr.
Viðbótarskyldur við sendingarkaup.

    Ef seljandi á að sjá um að senda hlut er honum skylt að gera þá samninga sem nauðsynlegir eru til þess að hann verði fluttur á ákvörðunarstað með viðeigandi hætti og samkvæmt venjulegum skilmálum um slíka flutninga.
    Ef seljandi á ekki að kaupa tryggingar vegna flutnings hlutarins verður hann, ef neytandinn æskir þess, að gefa þær upplýsingar sem neytandanum eru nauðsynlegar til þess að hann geti keypt sér slíka tryggingu.
    Ef seljandi afhendir flutningsmanni hlut án þess að greinilega komi fram með auðkenningu, í flutningsskjali eða á annan skýran hátt, að hluturinn eigi að fara til neytanda verður seljandi að tilkynna neytanda greinilega hvar hann eigi að veita hlutnum viðtöku.

9. gr.
Heimild seljanda til að halda eigin greiðslu.

    Ef seljandi hefur ekki veitt lán eða greiðslufrest er hann ekki skyldur til að afhenda hlutinn, framselja skjöl eða á annan hátt að yfirfæra ráðstöfunarrétt yfir hlutnum, nema því aðeins að kaupverðið sé samtímis greitt.
    Ef seljandi á að senda hlut til annars staðar getur hann ekki látið það hjá líða, en hann getur komið í veg fyrir að neytandinn fái umráðin þar til kaupverðið er greitt.


10. gr.
Kostnaður.

    Seljandi greiðir kostnað vegna söluhlutar þar til hann hefur verið afhentur. Ákvæði þetta gildir ekki um kostnað sem stafar af því að afhendingu seinkar vegna atvika sem varða neytanda.
    Ef senda skal söluhlut til neytanda má semja um það að neytandi greiði til viðbótar kaupverðinu kostnað af sendingunni.

11. gr.
Afrakstur af söluhlut.

    Afrakstur af söluhlut, sem verður til fyrir umsaminn afhendingartíma, fellur til seljanda, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að afraksturinn félli til síðar. Afrakstur, sem síðar verður til, fellur til neytanda, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að hann félli til fyrr.
    Aðilum er heimilt að semja á annan veg.

12. gr.
Hlutir og kröfur sem bera vexti.

    Kaup á hlutum ná til þess arðs sem ekki var gjaldfallinn fyrir kaupin. Sama gildir um réttinn til áskriftar fyrir nýjum hlutum, enda hafi ekki verið unnt að nýta réttinn fyrir kaupin.
    Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.
    Aðilum er heimilt að semja á annan veg.

III. KAFLI
Áhættan af söluhlut.
13. gr.
Um það hvað í áhættu felst.

    Þegar áhættan af söluhlut hefur flust yfir til neytanda fellur skylda hans til þess að greiða kaupverðið ekki niður þótt hluturinn eftir það farist, skemmist eða rýrni ef um er að ræða atvik sem ekki verða rakin til seljanda.

14. gr.
Áhættuflutningur.

    Áhættan flyst yfir til neytanda þegar söluhlutur hefur verið afhentur í samræmi við ákvæði 7. gr. Ef hlutar er ekki vitjað eða honum veitt viðtaka á réttum tíma og það má rekja til neytanda eða atvika sem hann varða flyst áhættan yfir á neytandann þegar hlutur er honum til ráðstöfunar og vanefnd verður af hans hálfu við það að veita hlutnum ekki viðtöku.
    Ef neytandi á að vitja söluhlutar annars staðar en hjá seljanda flyst áhættan yfir til neytanda þegar afhendingartíminn er kominn og neytanda er kunnugt um að hluturinn er honum heimill til ráðstöfunar á afhendingarstaðnum.
    Áhættan flyst ekki yfir til neytanda fyrr en söluhlutur hefur verið auðkenndur honum með merkingu á flutningsskjölum eða það hefur á annan hátt verið gert ljóst að hlutur er ætlaður honum.
    Ef söluhlutur hefur verið keyptur og afhentur til reynslu eða á annan hátt með rétti til að skila honum aftur ber neytandi áhættuna af hlutnum þar til seljandinn hefur aftur veitt honum viðtöku. Þetta gildir þó ekki þegar neytandinn hefur rétt til að skila söluhlut samkvæmt ákvæðum í lögum eða sambærilegan rétt á grundvelli samnings um neytendakaup.

IV. KAFLI
Eiginleikar söluhlutar, gallar o.fl.
15. gr.
Eiginleikar söluhlutar.

    Söluhlutur skal, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi.
    Ef annað leiðir ekki af samningi skal söluhlutur:
     a.      henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til;
     b.      hafa þá eiginleika til að bera sem neytandinn mátti vænta við kaup á slíkum söluhlut að því er varðar endingu og annað;
     c.      henta í ákveðnum tilgangi sem seljandinn vissi eða mátti vita um þegar kaup voru gerð, nema leiða megi af atvikum að neytandi hafi ekki byggt á sérþekkingu seljanda og mati hans eða hafi ekki haft sanngjarna ástæðu til þess;
     d.      hafa þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur vísað til með því að leggja fram prufu eða líkan;
     e.      vera í venjulegum eða öðrum forsvaranlegum umbúðum sem nauðsynlegar eru til að varðveita og vernda hann;
     f.      vera í samræmi við þær kröfur opinbers réttar sem gerðar eru í lögum eða opinberum ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga á þeim tíma sem kaup eru gerð, ef neytandinn ætlar ekki að nota hlutinn á þann hátt að kröfurnar séu þýðingarlausar;
     g.      vera laus við kvaðir frá þriðja manni, t.d. eignarrétt eða veðrétt. Söluhluturinn skal einnig vera laus við kröfur þriðja manns um kvaðir í hlutnum, enda þótt þeim sé mótmælt, nema kröfurnar séu augljóslega órökstuddar.

16. gr.
Gallar.

    Söluhlutur telst vera gallaður ef:
     a.      hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 15. gr.;
     b.      seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði varðandi hlutinn eða not hans sem seljandi hlaut að þekkja til og neytandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin;
     c.      hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun og ætla má að hafi haft áhrif á kaupin;
     d.      nauðsynlegar upplýsingar um uppsetningu, samsetningu, notkun, umönnun og geymslu fylgja ekki söluhlut.
    Regla c-liðar 1. mgr. gildir með sama hætti þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem annar en seljandi hefur gefið á umbúðum hlutarins, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu á vegum seljanda eða fyrri söluaðila.
    Neytandi getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð.
    Neytandi getur ekki borið fyrir sig galla ef orsök gallans má rekja til efniviðar sem neytandinn hefur sjálfur lagt til. Þetta gildir þó ekki ef seljandinn hefði átt að ráða neytanda frá notkun efnisins vegna óhentugra eiginleika þess.

17. gr.
Hlutur seldur „í því ástandi sem hann er“. Sala á uppboði.

    Þótt söluhlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“ eða með öðrum áþekkum almennum fyrirvara telst hann gallaður þegar:
     a.      ástand söluhlutar er verra en neytandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti;
     b.      fyrir liggja atvik sem lýst er í b- eða c-lið 1. mgr. 16. gr.
    Ef notaðir hlutir eru seldir á uppboði þar sem neytandi hefur haft möguleika á að vera viðstaddur gilda ákvæði 1. mgr. eftir því sem við getur átt.

18. gr.
Tímamark galla.

    Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til neytanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar.
    Ef annað sannast ekki skal galli, sem upp kemur innan sex mánaða frá því tímamarki þegar áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda, talinn hafa verið til staðar á því tímamarki þegar áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda. Þetta gildir þó ekki þegar telja verður að það geti ekki á nokkurn hátt samrýmst eðli gallans eða vörunnar.
    Seljandi ber einnig ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu gallans má rekja til vanefnda af hans hálfu. Sama á við þegar seljandi hefur með ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum hætti ábyrgst að hluturinn hafi tiltekna eiginleika eða að hlut megi nota með venjulegum eða sérstökum hætti tiltekinn tíma eftir afhendingu. Ábyrgðaryfirlýsing er bindandi fyrir yfirlýsingargjafann með þeim skilyrðum sem fram koma í ábyrgðaryfirlýsingunni og í auglýsingum tengdum henni.

V. KAFLI
Greiðsludráttur. Úrræði neytanda vegna afhendingardráttar seljanda.
19. gr.
Úrræði neytanda við greiðsludrátt.

    Ef hlutur er ekki afhentur eða hann er afhentur of seint og ekki er neytanda um að kenna eða atvikum sem hann varða getur neytandi:
     a.      haldið eftir greiðslu kaupverðs samkvæmt ákvæðum 20. gr.;
     b.      krafist efnda samkvæmt ákvæðum 21. gr.;
     c.      krafist riftunar samkvæmt ákvæðum 23. gr.;
     d.      krafist skaðabóta samkvæmt ákvæðum 24. gr.
    Réttur neytanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann setji fram aðrar kröfur eða ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    Ef seljandi fullnægir að öðru leyti ekki nógu snemma skyldum sínum samkvæmt samningnum gilda ákvæðin um greiðsludrátt, eftir því sem við getur átt, þó ekki ákvæði 3. og 4. mgr. 23. gr. Aðilum er heimilt að semja á annan veg.

20. gr.
Réttur neytanda til að halda eftir kaupverði.

    Ef neytandi á kröfu á hendur seljanda vegna greiðsludráttar hins síðarnefnda getur neytandinn haldið eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans.

21. gr.
Réttur til efnda.

    Ef söluhlutur hefur ekki verið afhentur á umsömdum afhendingartíma getur neytandi haldið fast við kaup og krafist efnda.
    Þetta gildir ekki ef um er að ræða hindrun sem seljandi ræður ekki við og heldur ekki ef efndir hefðu í för með sér slíkt óhagræði eða kostnað fyrir seljanda að það væri í verulegu ósamræmi við hagsmuni neytanda af efndum. Ef úr vandkvæðum greiðist innan hæfilegs tíma getur neytandi krafist efnda.
    Neytandi glatar rétti sínum til efnda ef hann dregur óhæfilega lengi að krefjast þeirra.

22. gr.
Fyrirspurnir.

    Nú beinir seljandi fyrirspurn til neytanda um það hvort hann vilji veita hlut viðtöku þrátt fyrir seinkun eða hann tilkynnir neytanda að hann muni afhenda hið selda innan tiltekins tíma, en neytandi svarar ekki án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk tilkynninguna. Getur neytandi þá ekki rift kaupunum ef efndir verða innan þess tíma sem nefndur var.

23. gr.
Riftun.

    Neytandi getur rift kaupum þegar greiðsludráttur hefur í för með sér verulegar vanefndir. Ef hlutur er afhentur of seint getur neytandi ekki rift kaupunum, nema hann tilkynni það seljanda innan sanngjarns tíma frá því að hann fékk vitneskju um afhendinguna.
    Við mat á því hvort greiðsludráttur hefur í för með sér verulegar vanefndir skal leggja sérstaka áherslu á þýðingu greiðsludráttarins fyrir neytandann. Skal m.a. taka tillit til tegundar söluhlutar sem kaupin varða og þess hvort afhending átti að fara fram á ákveðnum tíma.
    Einnig er unnt að rifta kaupum ef seljandi afhendir ekki söluhlut og efndir dragast fram yfir sanngjarnan viðbótarfrest sem neytandi hefur sett. Meðan viðbótarfrestur er að líða getur neytandi ekki rift kaupum, nema því aðeins að seljandinn hafi lýst því yfir að ekki verði af efndum á þeim tíma eða ljóst er að hann muni ekki efna kaupin.
    Ef kaup varða hlut sem er útbúinn sérstaklega fyrir neytanda samkvæmt fyrirmælum hans eða óskum, og geti seljandi af þeim sökum ekki ráðstafað hlutnum á annan hátt án verulegs tjóns, getur neytandi því aðeins rift kaupunum að greiðsludráttur leiði til þess að tilgangur hans með kaupunum raskist verulega.

24. gr.
Skaðabætur.

    Neytandi getur krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann bíður vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda.
    Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki ef seljandi sýnir fram á að greiðsludráttur hafi orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við eða ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hefði haft hindrunina í huga við samningsgerð eða getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum hennar.
    Ef greiðsludrátt má rekja til þriðja manns sem seljandi hefur falið að efna kaupin að nokkru leyti eða öllu er seljandi því aðeins laus undan ábyrgð að þriðji maður væri það einnig samkvæmt reglu 2. mgr. Sama gildir ef greiðsludrátt má rekja til afhendingaraðila sem seljandi hefur notað eða til einhvers annars á fyrra sölustigi.
    Lausn undan ábyrgð er til staðar meðan hindrun er fyrir hendi. Falli hún brott er unnt að koma fram ábyrgð, enda sé seljanda þá skylt að efna kaupin en hann láti það hjá líða.
    Um fjárhæð skaðabóta fer samkvæmt reglum XI. kafla.

25. gr.
Upplýsingaskylda um hindrun.

    Ef hindrun kemur í veg fyrir að seljandi geti efnt kaupin á réttum tíma skal hann tilkynna neytanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til að efna kaupin. Fái neytandi ekki slíka tilkynningu án ástæðulauss dráttar frá því að seljandi fékk eða gat fengið vitneskju um hindrunina getur neytandi krafist þess að það tjón sé bætt sem unnt hefði verið að komast hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna með nægum fyrirvara.

VI. KAFLI
Úrræði neytanda vegna galla á söluhlut.
26. gr.
Úrræði neytanda vegna galla.

    Ef söluhlutur reynist gallaður og gallinn er hvorki sök neytanda né stafar af aðstæðum sem hann varða getur neytandi:
     a.      haldið eftir greiðslu kaupverðs samkvæmt ákvæðum 28. gr.;
     b.      valið milli úrbóta eða nýrrar afhendingar samkvæmt ákvæðum 29. og 30. gr.;
     c.      krafist afsláttar samkvæmt ákvæðum 31. gr.;
     d.      krafist riftunar samkvæmt ákvæðum 32. gr.;
     e.      krafist skaðabóta samkvæmt ákvæðum 33. gr.;
    Réttur neytanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann geri aðrar kröfur eða þótt ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    Reglurnar um galla gilda einnig um aðra ágalla á efndum seljanda, eftir því sem við á. Unnt er að semja um annað. Það gildir þó ekki um skyldur seljanda samkvæmt kaupsamningi til uppsetningar á söluhlut.

27. gr.
Tilkynning.

    Ef söluhlutur er gallaður ber neytanda að tilkynna seljanda um að hann muni bera gallann fyrir sig án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var. Frestur neytanda til að leggja fram kvörtun er aldrei styttri en tveir mánuðir frá því að hann varð galla var.
    Ef neytandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku getur hann ekki borið gallann fyrir sig síðar. Ef söluhlut, eða hlutum hans, er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að hlutnum var veitt viðtaka. Þetta gildir ekki ef seljandi hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma. Frestir skv. 1. og 2. málsl. eiga ekki við ef um er að ræða galla skv. g-lið 2. mgr. 15. gr.
    Jafnframt heimilt að tilkynna þeim aðila um galla sem í samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr honum.
    Neytandi glatar rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda um gallann innan tímamarka greinarinnar. Þetta gildir ekki ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er á annan hátt ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.

28. gr.
Réttur neytanda til að halda eftir kaupverði.

    Ef neytandi á kröfu á hendur seljanda vegna galla söluhlutar getur neytandinn haldið eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans.

29. gr.
Krafa um úrbætur og nýja afhendingu.

    Neytandi getur valið á milli þess að krefja seljanda um úrbætur á galla á eigin reikning eða krefjast nýrrar afhendingar af seljanda. Þetta á ekki við ef fyrir hendi er hindrun sem seljandi ræður ekki við eða það hefur í för með sér ósanngjarnan kostnað fyrir seljanda.
    Við mat á því hvort kostnaður er ósanngjarn skv. 2. málsl. 1. mgr. skal leggja áherslu á verðmæti ógallaðs söluhlutar, þýðingu gallans og hvort hægt er að beita öðrum úrræðum án verulegs óhagræðis fyrir neytandann.
    Þótt neytandi krefjist ekki úrbóta eða nýrrar afhendingar er seljanda heimilt að bæta á eigin kostnað úr galla eða afhenda annan hlut án tafar. Ef seljandi býður fram úrbætur eða nýja afhendingu í samræmi við lögin getur neytandi ekki krafist afsláttar eða riftunar.

30. gr.
Framkvæmd úrbóta og nýrrar afhendingar.

    Úrbætur og ný afhending skulu fara fram án kostnaðar og verulegs óhagræðis fyrir neytanda, innan hæfilegs tíma og þannig að neytandinn fái bætt útgjöld sín úr hendi seljanda.
    Seljandi á ekki rétt á að bæta úr sama galla eða afhenda nýjan söluhlut vegna sama galla oftar en tvisvar sinnum nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæta frekari úrbætur eða afhendingu.
    Ef úrbætur eða ný afhending seljanda hafa það í för með sér að neytandi getur ekki notað söluhlut í meira en eina viku getur neytandi krafist þess að fá sambærilegan hlut til umráða á kostnað seljanda. Þetta á þó aðeins við ef krafan telst sanngjörn með hliðsjón af þörfum neytandans og þeim kostnaði og óhagræði sem það hefur í för með sér fyrir seljanda.
    Ef ekki reynist um galla að ræða getur seljandi aðeins krafist greiðslu fyrir þær athuganir sem nauðsynlegar voru til að komast að raun um hvort söluhlutur væri gallaður, og greiðslu fyrir lagfæringu á hlutnum ef seljandi hefur gert neytanda það ljóst að hann þurfi sjálfur að bera umræddan kostnað.

31. gr.
Afsláttur.

    Ef ekki verður af úrbótum eða nýrri afhendingu skv. 29. og 30. gr. getur neytandi krafist afsláttar af kaupverði. Skal afslátturinn reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.
    Ef sérstök rök mæla með því má ákveða afslátt með hliðsjón af þýðingu gallans fyrir neytanda.
    Neytandi getur ekki krafist afsláttar þegar um er að ræða kaup á notuðum hlutum á uppboði þar sem neytandi hefur haft möguleika á að vera viðstaddur.

32. gr.
Riftun.

    Í stað afsláttar skv. 31. gr. getur neytandi rift kaupum nema þegar galli er óverulegur.

33. gr.
Skaðabætur.

    Neytandi getur krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna galla á söluhlut.
    Um fjárhæð skaðabóta fer samkvæmt reglum XI. kafla.

34. gr.
Tjón á öðrum munum.

    Skaðabótaábyrgð seljanda fyrir tjón af völdum galla nær til, auk tjóns á söluhlutnum sjálfum, tjóns á hlutum sem söluhluturinn var notaður til framleiðslu á eða hlutum sem standa í nánu og beinu sambandi við fyrirhuguð not söluhlutar.
    Neytandi getur krafist skaðabóta vegna annars tjóns á munum en fjallað er um í 1. mgr. nema þegar seljandi sýnir fram á að tjónið verði ekki rakið til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda.
    Þegar seljandi greiðir skaðabætur vegna tjóns á öðrum munum en söluhlutnum sjálfum tekur seljandi yfir kröfur neytanda gegn framleiðanda samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð.

35. gr.
Krafa á hendur fyrri söluaðila.

    Neytandi getur borið gallakröfu sína á hendur seljanda fram gegn fyrri söluaðila ef sams konar krafa vegna gallans verður höfð uppi af seljanda eða öðrum sem öðlast hefur hlutinn frá fyrri söluaðila.
    Samningi við fyrri sölu, sem takmarkar rétt seljanda eða annars framsalshafa, verður ekki beitt gegn kröfu neytanda skv. 1. mgr. í víðtækara mæli en unnt hefði verið að semja um í skiptum neytandans og seljandans.
    Ákvæði 27. gr. um tilkynningar gilda með samsvarandi hætti um ákvæði þessarar greinar.
    Neytandi getur, með sömu skilyrðum og koma fram í 1.–3. mgr., gert kröfu vegna galla á hendur aðila sem samkvæmt samningi við seljanda eða fyrri söluaðila hefur framkvæmt vinnu við hlutinn.
    Neytandi getur einnig gert kröfu á grundvelli 1. mgr. 84. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, ef það veitir honum víðtækari rétt en samkvæmt grein þessari.
    Fyrri söluaðila er óheimilt að skuldajafna kröfu sinni á hendur seljanda á móti kröfu neytanda.

36. gr.
Ábyrgð á upplýsingum skv. 16. gr.

    Þegar sá er hlut hefur búið til eða annar fyrri söluaðili hefur gefið upplýsingar þær sem nefndar eru í 2. mgr. 16. gr. ber hann ábyrgð á því tjóni sem neytandinn verður fyrir vegna upplýsinganna, eftir atvikum óskipt með seljanda.

VII. KAFLI
Skyldur neytanda.
37. gr.
Kaupverð.

    Ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi eða upplýsingum frá seljanda, t.d. í auglýsingum eða útstillingum, skal neytandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal neytandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.
    Ef kaupverðið á að ráðast af fjölda, máli eða þyngd skal við þetta miðað á þeim tíma þegar áhættan af söluhlutnum flyst frá seljanda til neytanda. Þegar kaupverðið er ákveðið eftir þyngd skal fyrst draga frá þyngd umbúða.
    Seljandi getur ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikning hafi ekki verið samið um það í kaupsamningnum.

38. gr.
Greiðsla kaupverðs. Réttur neytanda til að halda eftir kaupverði.

    Leiði greiðslutíma ekki af kaupsamningnum skal neytandinn greiða kaupverðið þegar seljandinn krefst þess.
    Ef ekki hefur verið samið um annað ber neytanda ekki skylda til að greiða kaupverðið fyrr en hluturinn er afhentur neytanda eða stendur honum til ráðstöfunar í samræmi við samninginn og lög þessi.
    Neytandi er ekki bundinn af ákvæðum fyrir fram gerðs samnings um skyldu til að greiða kaupverð á ákveðnum tíma án tillits til þess hvort seljandi uppfyllir skyldur sínar á réttum tíma.
    Áður en neytandinn greiðir kaupverðið á hann rétt á að rannsaka hlutinn á venjulegan hátt ef það er ekki ósamrýmanlegt umsaminni aðferð við afhendingu og greiðslu kaupverðsins.

39. gr.
Greiðslustaður kaupverðs.

    Kaupverðið skal greiða á atvinnustöð seljanda. Ef seljandi hefur fleiri en eina atvinnustöð skal miðað við þá atvinnustöð sem kaupunum tengdist þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar miðuðu við þegar kaup voru gerð. Ef seljandi hefur ekki atvinnustöð sem tengist kaupunum skal miðað við heimili hans. Ef greiðsla á að fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals skal greiðslan innt af hendi á afhendingarstaðnum.
    Seljandinn ber ábyrgð á auknum kostnaði við greiðslu sem stafar af því að hann hefur flutt atvinnustöð sína eftir að kaupin voru gerð.

40. gr.
Atbeini neytanda að efndum kaupa.

    Neytanda er skylt:
     a.      að stuðla fyrir sitt leyti að því, eftir því sem sanngjarnt er að ætlast til af honum, að seljandi geti efnt skyldur sínar og
     b.      taka við hlutnum með því að sækja hann eða veita honum viðtöku.

VIII. KAFLI
Afpöntun og skilaréttur.
41. gr.
Afpöntun fyrir afhendingu.

    Ef neytandi afpantar hlut áður en hann er afhentur getur seljandi ekki haldið fast við kaupin og krafist greiðslu. Ef ekkert annað leiðir af samningi aðila getur seljandinn þess í stað krafist skaðabóta fyrir það tjón sem afpöntunin veldur.
    Aðilar geta samið um viðmiðunarskaðabætur við afpöntun. Viðmiðunarskaðabætur skulu þó ekki vera hærri en ætla mætti að skaðabætur yrðu skv. XI. kafla.
    Ef ekki hefur verið samið um skaðabætur vegna afpöntunar fer um fjárhæð skaðabóta eftir XI. kafla.

42. gr.
Skilaréttur eftir afhendingu.

    Eftir að söluhlutur hefur verið afhentur ber neytanda að greiða kaupverð þrátt fyrir að hluturinn sé endursendur seljanda.
    Skylda neytanda til greiðslu kaupverðs fellur niður:
     a.      við riftun;
     b.      ef aðilar hafa samið um skilarétt, t.d. ef hluturinn er keyptur til reynslu;
     c.      ef neytandi hefur slíkan rétt samkvæmt ákvæðum í lögum eða sambærilegan rétt á grundvelli samnings um neytendakaup.
    Neytandi getur skipt söluhlut ef samið hefur verið um rétt til skipta eða hann leiðir af almennum réttarreglum.

IX. KAFLI
Úrræði seljanda vegna vanefnda af hálfu neytanda.
43. gr.
Kröfur seljanda.

    Ef neytandi greiðir ekki kaupverðið eða fullnægir ekki öðrum skyldum sínum samkvæmt samningnum eða lögum þessum, og það verður hvorki rakið til seljanda né atvika sem hann varða, getur seljandinn:
     a.      krafist efnda samkvæmt ákvæðum 44. gr.;
     b.      krafist riftunar samkvæmt ákvæðum 45. gr.;
     c.      krafist skaðabóta og vaxta samkvæmt ákvæðum 46. gr.;
     d.      haldið eftir greiðslum samkvæmt ákvæðum 9. gr.
    Réttur seljanda til skaðabóta og vaxta fellur ekki brott þótt hann neyti annarra úrræða eða við það að slík úrræði verði ekki höfð uppi.

44. gr.
Réttur til að krefjast efnda.

    Seljandi getur haldið fast við kaupin og krafið neytanda um greiðslu kaupverðsins. Þetta gildir þó ekki á meðan ekki er unnt að greiða vegna stöðvunar samgangna eða greiðslumiðlunar eða vegna annarra atvika sem neytandi getur hvorki stjórnað né yfirunnið.
    Ef hlutur hefur ekki verið afhentur glatar seljandi rétti sínum til þess að krefjast efnda ef hann bíður óhæfilega lengi með að setja slíka kröfu fram.
    Um rétt seljanda til að krefjast efnda á þeirri skyldu neytanda að hann stuðli að efndum gilda ákvæði 21. gr. eftir því sem við á.

45. gr.
Riftun.

    Seljandi getur rift kaupum vegna dráttar á greiðslu kaupverðsins eða annarra samningsbrota þegar um verulegar vanefndir af hálfu neytanda er að ræða. Seljandi getur ekki rift kaupunum eftir að kaupverðið hefur verið greitt.
    Einnig er unnt að rifta kaupum þegar neytandi greiðir ekki kaupverðið innan sanngjarns viðbótarfrests sem seljandi hefur sett til efndanna. Seljandi getur ekki rift kaupum meðan viðbótarfrestur er að líða nema því aðeins að neytandi hafi lýst því yfir að hann muni ekki efna kaupin á þeim tíma.
    Ef neytandi hefur þegar veitt söluhlut viðtöku getur seljandi því aðeins rift kaupunum að hann hafi gert um það fyrirvara eða neytandi hafni hlutnum.

46. gr.
Skaðabætur. Vextir.

    Ef kaupverðið er ekki greitt á réttum tíma getur seljandi krafist vaxta af kaupverðinu í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu.
    Seljandi getur einnig krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum greiðsludráttar neytanda. Þetta á þó ekki við meðan neytandi sýnir fram á að greiðsludráttur stafi af stöðvun almennra samgangna eða greiðslumiðlunar eða annarri hindrun sem neytandi hefur ekki stjórn á og ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað haft í huga við samningsgerðina, komist hjá afleiðingunum af eða yfirunnið. Reglur 3. og 4. mgr. 24. gr. gilda eftir því sem við á.
    Um fjárhæð skaðabóta fer samkvæmt reglum XI. kafla.

47. gr.
Upplýsingaskylda um hindrun.

    Ef hindrun tálmar því að neytandi geti efnt kaupin á réttum tíma skal hann tilkynna seljanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til efnda. Fái seljandi ekki slíka tilkynningu innan sanngjarns tíma frá því að neytandinn vissi eða mátti vita um hindrunina getur seljandi krafist bóta fyrir það tjón sem hann hefði getað komist hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna í tíma.

48. gr.
Ákvörðun um einkenni hlutar.

    Nú á neytandi að ákveða lögun hlutar, mál eða aðra eiginleika hans og gerir það ekki á umsömdum tíma eða án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk um það hvatningu frá seljanda. Getur seljandi þá sjálfur ákveðið þessi einkenni í samræmi við það sem hann má ætla að séu hagsmunir neytanda. Þetta kemur ekki í veg fyrir að seljandi geti haldið fram öðrum kröfum sem hann á.
    Seljandi skal upplýsa neytanda um þau einkenni sem hann ákveður skv. 1. mgr. og veita neytanda hæfilegan frest til að gera á þeim breytingar. Geri neytandi það ekki án ástæðulauss dráttar, eftir að hafa fengið tilkynningu frá seljanda, verður ákvörðun seljanda um einkennin bindandi.

X. KAFLI
Sameiginlegar reglur um riftun og nýja afhendingu.
49. gr.
Réttaráhrif riftunar og nýrrar afhendingar.

    Þegar kaupum er rift falla skyldur aðila til að efna þau niður.
    Hafi kaup verið efnd að fullu eða að hluta af hálfu samningsaðila má krefjast skila á því sem móttekið hefur verið. Aðili getur þó haldið því sem hann hefur móttekið þar til gagnaðili skilar því sem hann hefur tekið við. Sama á við þegar aðili á rétt til skaðabóta eða vaxta og fullnægjandi trygging er ekki sett.
    Ef seljandinn á að afhenda söluhlut á ný getur neytandi haldið hjá sér því sem hann hefur móttekið þar til afhending hefur átt sér stað að nýju.
    Riftun hefur engin áhrif á samningsákvæði um atvinnuleyndarmál, um lausn ágreiningsefna eða um réttindi og skyldur aðila sem leiðir af riftuninni.

50. gr.
Afrakstur og vextir þegar greiðslum er skilað.

    Þegar kaupum er rift skal neytandi færa seljanda þann afrakstur til tekna sem hann hefur haft af hlutnum og greiða hæfilegt endurgjald fyrir veruleg not sem hann hefur að öðru leyti haft af honum.
    Ef seljandi á að endurgreiða kaupverðið ber honum að greiða vexti í samræmi við ákvæði vaxtalaga frá þeim degi er neytandi tilkynnti seljanda að hann mundi bera fyrir sig gallann. Seljanda ber á sama hátt að greiða vexti frá þeim degi er hann tók við greiðslunni þegar neytandi er krafinn um endurgjald fyrir not af söluhlut skv. 1. mgr.

51. gr.
Missir réttar til riftunar og afhendingar á ný.

    Neytanda er því aðeins heimilt að rifta kaupum eða krefjast afhendingar á ný að hann geti skilað hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hluturinn var í þegar neytandi veitti honum viðtöku. Neytandi glatar þó ekki rétti sínum til þess að krefjast riftunar eða nýrrar afhendingar þegar
     a.      ástæður þess að ekki er unnt að skila hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni má rekja til eiginleika hans eða annarra aðstæðna sem ekki varða neytandann;
     b.      hluturinn hefur rýrnað, skemmst eða eyðilagst og það má rekja til verknaðar sem gera varð til að ganga úr skugga um hvort hann væri gallaður;
     c.      hluturinn hefur verið notaður af neytanda við fyrirhuguð not áður en neytanda varð ljós eða mátti verða ljós galli sá sem leiðir til riftunar eða kröfu um afhendingu á ný.
    Neytandi glatar ekki heldur réttinum til riftunar eða nýrrar afhendingar ef hann við skilin bætir þá verðmætisrýrnun sem orðin er á hlutnum.

XI. KAFLI
Sameiginlegar reglur um skaðabætur.
52. gr.
Umfang skaðabóta.

    Skaðabætur vegna vanefnda af hálfu annars samningsaðila skulu svara til þess tjóns, þ.m.t. vegna útgjalda, verðmunar og tapaðs hagnaðar, sem gagnaðili bíður vegna vanefndanna. Þetta gildir þó einungis um það tjón sem aðili gat með sanngirni séð fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndar.
    Skaðabætur ná ekki til:
     a.      líkamstjóns;
     b.      tjóns í atvinnustarfsemi neytanda.

53. gr.
Verðmunur við riftun.

    Ef kaupum er rift og neytandi kaupir af öðrum (staðgöngukaup) eða seljandi selur öðrum (staðgöngusala) með forsvaranlegum hætti og innan sanngjarns tíma frá riftun skal, þegar verðmunur er reiknaður út, leggja til grundvallar kaupverðið og verðið við staðgönguráðstöfunina.
    Ef kaupum er rift án þess að gerðar séu staðgönguráðstafanir þær sem um ræðir í 1. mgr. og unnt er að staðreyna gangverð söluhlutar skal, þegar verðmunur er reiknaður út, leggja til grundvallar kaupverðið og gangverðið á riftunartímanum.
    Gangverð er það verð sem er á sambærilegum hlutum á afhendingarstað. Þegar ekki er um gangverð að ræða á afhendingarstað skal miða við verðið á öðrum stað sem með sanngirni má jafna til afhendingarstaðarins, þó þannig að taka skal tillit til munar á flutningskostnaði.

54. gr.
Skylda til að takmarka tjón. Mildun ábyrgðar.

    Samningsaðila, sem ber fyrir sig vanefndir af hálfu gagnaðila, er með sanngjörnum ráðstöfunum skylt að takmarka tjón sitt. Vanræki hann það ber hann sjálfur þann hluta tjónsins sem af því leiðir.
    Skaðabætur má lækka ef þær teljast ósanngjarnar fyrir hinn bótaskylda þegar litið er til fjárhæðar tjónsins í samanburði við það fjártjón sem venjulega verður í sambærilegum tilvikum og atvika að öðru leyti.

XII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
55. gr.
Fyrirsjáanlegar vanefndir.

    Um fyrirsjáanlegar vanefndir fer eftir 61. og 62. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup.

56. gr.
Gjaldþrot.

    Um rétt til að ganga inn í kaup, halda eftir greiðslu eða rifta kaupum vegna gjaldþrots samningsaðila fer eftir lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.

57. gr.
Vanefndir að því er varðar hluta hins selda.

    Ef vanefndir seljanda varða einvörðungu hluta hins selda eiga reglur um greiðsludrátt og galla í V. og VI. kafla við. Neytandi getur rift kaupunum með öllu ef vanefndir eru verulegar á samningnum í heild sinni.
    Ef ráða má af atvikum að seljandi hafi lokið afhendingu af sinni hálfu, þótt umsamið magn hafi ekki allt verið afhent, eiga reglurnar um galla við.

58. gr.
Riftunarréttur neytanda við afhendingu í áföngum.

    Ef seljandi á að afhenda hið selda í áföngum og vanefndir verða á tiltekinni afhendingu getur neytandi rift kaupum að því er hana varðar samkvæmt reglunum um riftun.
    Ef vanefndir veita neytanda réttmæta ástæðu til að ætla að vanefndir verði á afhendingum síðar þannig að riftunarréttur skapist getur neytandi á þeim grundvelli einnig rift kaupum að því er síðari afhendingar varðar ef það gerist áður en sanngjarn frestur er liðinn.
    Ef neytandi riftir kaupum að því er eina afhendingu varðar getur hann samtímis rift kaupunum varðandi fyrri eða síðari afhendingar ef slíkt samhengi er milli þeirra að þær nýtist ekki í þeim tilgangi sem gert var ráð fyrir við samningsgerðina.

59. gr.
Riftunarréttur seljanda við afhendingu í áföngum.

    Ef seljandi á að afhenda í áföngum og neytandi að greiða eða stuðla að efndum varðandi hverja afhendingu og vanefndir verða af neytanda hálfu á tiltekinni afhendingu getur seljandi rift að því er hana varðar samkvæmt reglum 45. gr.
    Ef vanefndir veita seljanda réttmæta ástæðu til að ætla að slíkar vanefndir verði á síðari afhendingum að riftunarréttur skapist getur seljandi á þeim grundvelli einnig rift kaupum að því er þær afhendingar varðar ef það gerist áður en sanngjarn frestur er liðinn.

60. gr.
Umönnun söluhlutar.

    Nú sækir neytandi ekki söluhlut eða veitir honum ekki viðtöku á réttum tíma eða önnur atvik, sem neytanda varða, leiða til þess að hann fær hlutinn ekki afhentan. Skal seljandi þá á kostnað neytanda annast um hlutinn með þeim hætti sem sanngjarnt er miðað við aðstæður, enda hafi hann hlutinn í vörslum sínum eða geti með öðrum hætti annast hann.
    Hafni neytandi söluhlut sem hann hefur veitt viðtöku skal hann á kostnað seljanda annast um hlutinn á þann hátt sem sanngjarn er miðað við aðstæður. Hafni neytandi söluhlut sem hefur verið sendur til hans honum til ráðstöfunar á ákvörðunarstað skal hann annast um hlutinn á kostnað seljanda, enda sé honum það kleift án þess að greiða kaupverðið eða baka sér með því ósanngjörn útgjöld eða óhagræði. Þetta á þó ekki við ef seljandi sjálfur eða einhver á hans vegum getur annast hlutinn á ákvörðunarstað.
    Samningsaðili, sem annast skal um söluhlut, getur falið það þriðja manni samkvæmt reglum 74. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Ákvæði 75., 76., 77. og 78. gr. sömu laga um rétt aðila til skaðabóta og trygginga fyrir kostnaði, um sölu eða aðrar ráðstafanir á söluhlut og um reikningsgerð og reikningsfærslu gilda með sama hætti.

61. gr.
Sérreglur um neytendahugtakið í tilteknum alþjóðlegum kaupum.

    Um kaupsamninga um söluhluti við aðila sem hafa atvinnustöð eða heimilisfesti í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins gilda lögin um kaup á hlut til persónulegra nota fyrir kaupandann, fjölskyldu hans eða heimilisfólk, nema seljandinn hafi við samningsgerð hvorki vitað né mátt vita að hluturinn var keyptur í því skyni.

XIII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
62. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 12/2000 frá 28. janúar 2000, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.

63. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2003.
    Lög þessi gilda einvörðungu um þá samninga sem gerðir verða eftir gildistöku laganna.

64. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Frá þeim tíma er lög þessi öðlast gildi verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup:
     1.      4. gr. laganna fellur brott.
     2.      A-liður 3. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.
     3.      4. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.
     4.      2. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.
     5.      2. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.
     6.      2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.
     7.      Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
                  a.      3. og 4. mgr. falla brott.
                  b.      Í stað orðanna „1.–4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.
     8.      Í stað orðanna „Í öðrum kaupum en neytendakaupum gildir þetta“ í 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: Þetta gildir.
     9.      Orðin „einnig í neytendakaupum“ í 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. laganna falla brott.
     10.      Orðin „og gildir það einnig í neytendakaupum“ í 2. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna falla brott.
     11.      4. mgr. 31. gr. laganna fellur brott.
     12.      2. málsl. 1. mgr. 32. gr. laganna fellur brott.
     13.      2. mgr. 35. gr. laganna fellur brott.
     14.      Orðin „einnig í neytendakaupum“ í 2. málsl. 4. mgr. 41. gr. laganna falla brott.
     15.      2. mgr. 45. gr. laganna fellur brott.
     16.      4. mgr. 67. gr. laganna fellur brott.
     17.      Orðin „einnig í neytendakaupum“ í 3. málsl. 79. gr. laganna falla brott.
     18.      Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „Í öðrum kaupum en neytendakaupum getur kaupandi“ í 1. mgr. kemur: Kaupandi getur.
                  b.      2. og 3. mgr. falla brott.
     19.      2. mgr. 85. gr. laganna fellur brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er unnið á vegum viðskiptaráðuneytisins og miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópusambandsins 99/44/EB frá 25. maí 1999, um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi. Tilskipunin var birt í Stjórnartíðindum EB 7. júlí 1999.
    Frumvarpið byggist í meginatriðum á fyrrnefndri tilskipun en auk hennar var við samningu frumvarpsins höfð hliðsjón af norrænum rétti á sviði neytendakaupa, þá sérstaklega norskum rétti.
    Með lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, voru í fyrsta sinn lögfest hér á landi ákvæði um neytendakaup. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um neytendakaup verði tekin út úr lögum um lausafjárkaup og að sett verði heildstæð lög um neytendakaup.
    Í lögum um lausafjárkaup er að finna reglur um samningssambandið kaup. Hugtakið kaup er ekki skilgreint sérstaklega í lögunum, en það felur í sér að með samningi verður yfirfærsla af eignarrétti yfir verðmætum gegn greiðslu. Í lögunum er að finna reglur um afhendingartíma, afhendingarstað, kaupverð, afleiðingar vanefnda o.fl. Lög um lausafjárkaup eiga við um kaupsamninga án tillits til þess hvort kaupandinn eða seljandinn hefur atvinnu af sölu eða kaupum eður ei. Reglur laganna eru í meginatriðum frávíkjanlegar og gilda því hafi aðilar ekki samið um annað sín á milli. Í kaupalögunum er hins vegar að finna mikilvægar sérreglur um neytendakaup. Neytendakaup eru skilgreind í 4. gr. laga um lausafjárkaup sem „kaup þar sem seljandinn hefur atvinnu sína af sölu og söluhlutur er aðallega ætlaður til persónulegra nota fyrir kaupandann, fjölskyldu hans, heimilisfólk eða þá sem hann umgengst, nema seljandinn hafi við samningsgerð hvorki vitað né mátt vita að hluturinn var keyptur í því skyni“. Samkvæmt lögunum teljast kaup á kröfum og réttindum ekki til neytendakaupa. Í neytendakaupum er skv. 1. mgr. 4. gr. laga um lausafjárkaup ekki unnt að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru kaupanda óhagstæðari en almennt leiðir af lögunum. Lögin eru þannig að mestu ófrávíkjanleg til hagsbóta fyrir neytendur. Að öðru leyti eiga kaupalögin við um kaup að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt fyrir í lögum. Þau ná yfir kaup á flestu lausafé, en gilda ekki um fasteignakaup. Þá ná kaupalögin almennt ekki til kaupa á þjónustu.
    Frumvarp til laga um neytendakaup hefur það meginmarkmið að efla réttarstöðu neytenda. Nauðsyn lagasetningar er að mestu hin sama fyrir neytendakaup og önnur kaup, en sérstök lög um neytendakaup eru mun skýrari fyrir hinn almenna neytanda. Núgildandi kaupalög eru nokkuð flókin og getur hinum almenna neytanda reynst erfitt að fá yfirlit yfir gildandi reglur. Er setning sérstakra laga, sem ætlað er að gilda aðeins um kaup þar sem seljandinn hefur atvinnu sína af sölu og kaupandinn er leikmaður, til þess fallin að einfalda lagaákvæði um neytendakaup og gera þau auðskiljanlegri og gegnsærri fyrir hinn almenna neytanda. Þannig er hægt að einfalda reglur sem sérstaklega varða neytendur. Í kaupalögunum eru annars vegar almennar reglur og hins vegar ýmsar reglur sem gilda aðeins um kaup þeirra sem hafa atvinnu sína af sölu. Þá eru í lögunum sérreglur sem gilda einungis um neytendakaup. Það getur því reynst neytendum nokkuð erfitt að finna ákvæði sem eiga við tiltekið atvik. Í sérlögum um neytendakaup er einfaldara fyrir neytendur að finna ákvæði sem sérstaklega eiga við um ákveðna stöðu sem upp er komin. Með sérstökum lögum um neytendakaup er einnig auðveldara að bregðast við breytingum á markaði og aðlaga lagaumhverfi að sérstökum þörfum neytenda. Þá er mikilvægt að íslensk löggjöf fylgi alþjóðlegri réttarþróun og þróun í grannríkjum okkar.
    Helsti ókosturinn við að setja sérstök lög um neytendakaup felst í því að sérstök neytendakaupalög hafa óhjákvæmilega að geyma margar endurtekningar á ákvæðum almennra kaupalaga, en skýrleiki laganna fyrir neytendur þykir vega þyngra.
    Eins og áður segir byggist frumvarp þetta að hluta til á tilskipun Evrópusambandsins 99/44/EB um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi. Aðildarríkjum var skylt að leiða í lög ákvæði tilskipunarinnar fyrir 1. janúar 2002. Tilskipunin er tvíþætt. Fyrst og fremst felast í 2.–5. gr. reglur um rétt neytenda gagnvart seljanda þegar vara er haldin göllum, og eru þær reglur teknar upp í frumvarp þetta. Í 6. gr. er síðan að finna ákvæði sem fjallar um ábyrgðir, en lagðar eru til breytingar á samkeppnislögum í sérstöku frumvarpi, sem lagt er fram samhliða þessu, til að koma þeim ákvæðum til framkvæmda. Tilskipunin veitir lágmarksvernd, sbr. 2. mgr. 8. gr., og er aðildarríkjum því frjálst að lögleiða strangari ákvæði sem ætlað er að tryggja neytendum fyllri vernd.
    Tilgangur tilskipunarinnar er að stuðla að háum neytendaverndarstaðli, sbr. 1. og 3. mgr. 153. gr. sáttmála Evrópubandalagsins. Þá miðar tilskipunin að samræmingu á lögum aðildarríkja Evrópusambandsins um sölu neysluvara, en ósambærilegar reglur geta leitt til mismunandi markaða fyrir neysluvörur og röskun á samkeppni milli seljenda. Þannig er tilskipuninni ætlað að auka öryggi neytenda og gera þeim kleift að nýta sér innri markaðinn til fulls.
    Neytendaréttur hefur fengið mikla athygli innan Evrópusambandsins á síðustu árum og hafa verið settar nokkrar tilskipanir sem miða að því að vernda rétt neytenda. Tilhneigingin innan Evrópuréttarins hefur verið að setja reglur á þeim sviðum þar sem sérstök þörf hefur verið á lagasamræmingu. Því er neytendalöggjöf Evrópusambandsins nokkuð brotakennd.
    Umfang neytendaverndar hefur einnig vaxið ört á Íslandi og má m.a. rekja það til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en eitt svið samningsins fjallar um neytendavernd. Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbundu stjórnvöld sig til þess að setja í innlendan rétt ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins, þar á meðal á sviði neytendaréttar. Í viðauka XIX (neytendavernd) í EES-samningnum er að finna upptalningu þeirra gerða Evrópusambandsins sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Hérlendis hafa ný lagafyrirmæli verið sett og gildandi lögum breytt til þess að fullnægja samningsskyldum Íslands til þess að innleiða ákvæði tilskipananna. Frá gildistöku samningsins hafa m.a. verið sett lög um vernd neytenda gegn villandi auglýsingum, lög um húsgöngu- og fjarsölu og lög um neytendalán. Þá hafa verið settar reglur um verðmerkingar og ótvírætt einingaverð á vöru, lög um alferðir og lög um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis (time-share) svo dæmi séu nefnd af þessu réttarsviði. Auk þess hefur ákvæðum samningalaganna verið breytt í því skyni að styrkja réttarstöðu neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum í viðskiptum, en spor í þá átt hafði áður verið stigið með setningu laga nr. 11/1986.
    Neytendaréttur hefur einnig verið í örri þróun annars staðar á Norðurlöndum. Lengst af höfðu kaupalög á Norðurlöndum engin ákvæði að geyma um neytendakaup eða neytendavernd. Á áttunda áratugnum voru gerðar lagabreytingar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi í þá átt að auka vernd neytenda, ýmist með setningu sérstakra laga um neytendakaup eða með því að gera ýmis ákvæði í kaupalögum þessara ríkja ófrávíkjanleg ef um var að ræða neytendakaup. Á Íslandi varð niðurstaðan hins vegar sú að bíða átekta með lagasetningu á þessu réttarsviði, enda var þá þegar hafin umræða um nauðsyn þess að endurskoða gildandi lög um lausafjárkaup, m.a. með hliðsjón af réttarþróun á Norðurlöndum, svo og annars staðar.
    Í Svíþjóð voru árið 1973 sett lög um neytendakaup. Í Noregi var árið 1974 gerð breyting á norsku kaupalögunum sem aðallega fólst í því að ýmis ákvæði laganna voru gerð ófrávíkjanleg í neytendakaupum, nema þar sem undanþágan var neytandanum til hagsbóta. Í Finnlandi voru sett sérstök lög um neytendavernd árið 1978, og í Danmörku voru nýjar reglur í neytendakaupum lögfestar árið 1979 með þeim hætti að bætt var nýjum kafla um neytendakaup við kaupalögin frá 1906.
    Í Noregi voru samþykkt ný kaupalög sem tóku gildi á árinu 1988. Upphaflega innihéldu norsku kaupalögin bæði reglur um neytendakaup og önnur kaup, en á árinu 2002 voru samþykkt sérstök lög um neytendakaup í Noregi og jafnframt voru ákvæði um neytendakaup felld úr kaupalögunum. Í Danmörku gilda enn þá kaupalögin frá 1906, en sérreglur um neytendakaup hafa verið í lögunum frá 1980. Í Svíþjóð voru sett ný kaupalög ásamt sérstökum lögum um neytendakaup á árinu 1990, en í Finnlandi eru í gildi kaupalög sem í meginatriðum ná einnig til neytendakaupa. Þar eru einnig í gildi sérstök lög um neytendavernd, en í þeim er að finna sérstakar reglur um neytendakaup.
    Á öllum Norðurlöndunum hefur að undanförnu verið unnið að þeim breytingum á ákvæðum laga um neytendakaup sem nauðsynlegar eru til að koma til framkvæmda tilskipun Evrópusambandsins um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi og hefur verið nokkur samvinna milli landanna um þetta. Á árinu 1999 var sett á laggirnar á vegum norrænu ráðherranefndarinnar starfshópur sem fékk það verkefni að gera skýrslu um framkvæmd tilskipunarinnar út frá norrænum neytendasjónarmiðum. Skýrsla starfshópsins kom út í september 2000 og er hægt að nálgast hana í TemaNord 2000:612.
    Ísland hefur jafnframt tekið þátt í Norðurlandasamstarfi um málefni neytenda auk þátttöku í samvinnu aðildarríkja ESB á sviði neytendamála, en í bókun 31 við EES-samninginn er að finna ályktun ráðsins frá 13. júlí 1992 um mikilvægustu framtíðarverkefni við mótun stefnu um neytendavernd, sbr. 92/C 186/01.
    Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er sem fyrr segir að finna margvísleg ákvæði um neytendakaup. Flest þeirra er nú að finna í lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, en sum ákvæðanna eru nýmæli í íslenskri löggjöf ef frumvarpið verður að lögum. Núgildandi lög um lausafjárkaup eiga sér fyrirmynd í norsku kaupalögunum frá 1988. Á árinu 2002 felldu Norðmenn ákvæði um neytendakaup brott úr kaupalögum sínum og settu sérstök lög um neytendakaup og er þeirri fyrirmynd fylgt í frumvarpi þessu.
    Við setningu nýrra kaupalaga, sem tóku gildi 1. júní 2001 var réttarstaða neytenda styrkt mjög og með setningu laganna var fyllt inn í þá eyðu sem myndast hafði í annars heildstæðri löggjöf á sviði neytendaverndar. Með lögfestingu sérstakra laga um neytendakaup yrði réttarstaða neytenda efld enn frekar og verður vernd neytenda samkvæmt íslenskum lögum þá sambærileg við þau sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Lagt er til að í lögunum verði tæmandi reglur um neytendakaup líkt og í lögum um lausafjárkaup nú. Frumvarpið felur í sér styrkingu á réttindum neytenda, sérstaklega með tilliti til reglna um kröfur neytandans vegna vanefnda seljanda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um I. kafla.

    Í kaflanum eru ákvæði um gildissvið laganna. Þar kemur m.a. fram að þau gilda um neytendakaup nema á annan veg sé mælt í lögum. Þá eru hugtökin neytendakaup og neytandi skilgreind í kaflanum og kveðið á um að lögin gildi um skipti eftir því sem við á. Þá er í 2. gr. kveðið á um þau tilvik sem lögin ná yfir og önnur tilvik sem falla utan gildissviðs laganna. Í 3. gr. er kveðið á um að lögin séu ófrávíkjanleg og í 4. gr. er fjallað um áhættuna af sendingu tilkynninga.

Um 1. gr.

    Greinin fjallar um gildissvið laganna. Skv. 1. mgr. gilda lögin um neytendakaup. Í málsgreininni er vísað til þess að annað geti verið ákveðið í lögum. Er þar bæði átt við önnur ákvæði sjálfra laganna um neytendakaup og ákvæði í öðrum lögum. Í frumvarpinu koma fram takmarkanir á gildissviði þess, t.d. í 2. mgr. 2. gr. Frumvarpi þessu er einungis ætlað að gilda um neytendakaup, um önnur lausafjárkaup gilda lög um lausafjárkaup. Einnig geta ákvæði annarra laga komið til viðbótar lögum um neytendakaup og má þar nefna sem dæmi lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga.
    Í 2. mgr. er hugtakið neytendakaup skilgreint. Framsetning ákvæðisins er með nokkuð öðrum hætti en í 4. gr. laga um lausafjárkaup, þar sem nú er fjallað um neytendakaup, en með því er ekki stefnt að efnisbreytingu, heldur miðar breytt framsetning að samræmingu við hugtakanotkun Evrópuréttar. Skilgreiningin afmarkar tegund hins selda og stöðu aðila í samningssambandinu. Að auki verður að vera um einhvers konar kaup að ræða. Í ákvæðinu er orðið „sala“ notað, en það hefur í þessu samhengi sömu þýðingu. Hvað viðvíkur tegund hins selda er orðið „hlutur“ notaður. Eru þetta sömu hugtök og notuð eru í kaupalögunum.
    Í skilgreiningunni kemur í fyrsta lagi fram að til að um neytendakaup geti verið að ræða þarf að hafa farið fram sala til neytanda. Í öðru lagi er það skilyrði sett að seljandinn, eða umboðsmaður hans, þarf að hafa sölustarfsemi að atvinnu. Af því leiðir að innbyrðis sala milli neytenda telst ekki vera neytendakaup í skilningi laganna. Hvorki umsvif seljanda, hvort sem þau eru lítil eða mikil, né tilgangur hans með sölustarfseminni skipta hins vegar máli. Því getur verið um neytendakaup að ræða þótt arður af sölustarfseminni renni til viðskiptamanna eða til góðgerðamála.
    Í 3. mgr. er hugtakið neytandi skilgreint og er þar miðað við að til neytenda teljist þeir einstaklingar sem í meginatriðum hafa ekki atvinnu af sölustarfsemi. Þannig getur komið til greina að dreifingaraðili geti talist neytandi ef hann kaupir vörur að hluta til eigin nota og að hluta til endursölu. Ef kaupin á vörunum eru hins vegar aðeins gerð með endursölu að markmiði er tæpast hægt að tala um kaupandann sem neytanda í skilningi frumvarpsins.
    Ákvæði 4. mgr. fjallar um ábyrgð umboðsmanns eða fulltrúa seljanda. Ákvæðið er nýmæli í íslenskum lögum, en samhljóða ákvæði er að finna í norskum lögum um neytendakaup. Í málsgreininni er kveðið á um að umboðsmaður seljanda sé samábyrgur seljanda vegna skyldna hans, nema neytanda hafi verið sérstaklega bent á að einungis sé um millilið að ræða. Skilyrði samábyrgðar umboðsmanns seljanda er að hann hafi atvinnu sína af sölustarfsemi. Samábyrgðin gildi þó ekki ef seljandi hefur sjálfur annast sölunna.
    Í 5. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að lögin um neytendakaup gilda einnig um skipti eftir því sem við getur átt. Er þetta í samræmi við 2. mgr. 1. gr. kaupalaganna. Ákvæðið á aðeins við um skipti á hlutum.

Um 2. gr.

    Frumvarpsgreinin hefur að geyma nánari afmörkun á gildissviði laganna að því er varðar tiltekin atriði. Er í ákvæðinu tekið af skarið um hvort lögin eigi við um ákveðin tilvik eða ekki. Upptalningu ákvæðisins er þó ekki ætlað að vera tæmandi.
    Í 1. mgr. eru í þremur liðum talin upp tilvik sem lögin eiga við um. Í fyrsta lagi eiga lögin skv. a-lið við um pöntunarkaup, þ.e. þegar pantaður er hlutur sem búa skal til. Í framkvæmd eiga pöntunarkaup helst við þegar um er að ræða einstaklingsbundna handverksframleiðslu eða verksmiðjuframleiðslu. Í ákvæðinu er ekki gert að skilyrði að seljandinn útvegi verulegan hluta eða allt efni sem þarf til framleiðslunnar, en slíkt skilyrði er að finna í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. kaupalaganna sem er að öðru leyti sambærilegt ákvæðinu. Því er í ákvæðinu rýmkun á gildissviði miðað við gildandi lög sem felst í því að ákvæðum laga um neytendakaup er ætlað að ná til pöntunarkaupa þar sem neytandinn útvegar sjálfur efni eða verulegan hluta þess. Byggist breytingin á 4. mgr. 1. gr. Evróputilskipunarinnar um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi (tilskipun um neytendakaup). Þetta ákvæði tilskipunarinnar nær til samninga um pöntun hluta sem búa skal til, einnig í tilvikum þar sem neytandinn leggur til verulegan hluta þess efnis sem nota á við framleiðsluna. Til að rýmkun á gildissviði laganna varðandi pöntunarkaup þar sem neytandi leggur til efni hafi ekki í för með sér minni vernd fyrir neytendur er lagt til í 2. málsl. 4. mgr. 16. gr. frumvarpsins að ákvæði 1. málsl. málsgreinarinnar, þar sem kveðið á um að neytandi getur ekki borið fyrir sig galla ef orsök gallans má rekja til efniviðar sem neytandi hefur sjálfur lagt til, gildi ekki ef seljandinn hefði átt að ráða neytanda frá notkun efnisins vegna óhentugra eiginleika þess.
    Í öðru lagi eiga lögin skv. b-lið við um sölu og afhendingu á vatni. Þykir rétt, með tilliti til skýrleika laganna, að taka þetta sérstaklega fram þó að í sjálfu sér falli vatn innan gildissviðs laganna, sbr. skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við túlkun laga um lausafjárkaup þó að í texta þeirra laga komi ekki fram að þau nái til sölu og afhendingar á vatni. Því er ekki unnt að gagnálykta út frá þessu að sala og afhending á vatni falli ekki innan gildissviðs kaupalaganna.
    Samkvæmt c-lið ná lögin í þriðja lagi til kaupa á kröfum og réttindum. Samkvæmt þessu ná lögin til kaupa neytenda á hverju því sem er fjárhagslegs eðlis. Þó ber að hafa í huga við neytendakaup á kröfum og réttindum að um er að ræða söluhluti sérstaks eðlis og að á þessu sviði gilda ýmis sérákvæði í lögum. Kaup á kröfum og réttindum falla almennt undir gildissvið kaupalaganna, en ákvæðið felur í sér breytingu frá 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. kaupalaganna þar sem tekið er fram að kaup á kröfum og réttindum teljist ekki til neytendakaupa. Þessi sérregla um neytendakaup var á sínum tíma rökstudd í greinargerð með frumvarpi til laga um lausafjárkaup með því að slík kaup væru alla jafna ekki til persónulegra nota í skilningi laganna. Bæði hefur nokkur breyting orðið á þessu sviði og jafnvel þó að svo væri ekki þykir ekki ástæða til að sérreglur gildi í neytendakaupum að því er þetta varðar, enda ekki ástæða til að réttarvernd neytenda sé minni en almennt gerist.
    Í 2. mgr. eru í fjórum liðum talin upp tilvik sem lögin gilda ekki um. Af a-lið 2. mgr. má sjá að lögin gilda ekki um fasteignakaup. Ákvæðið er í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. kaupalaganna og eru rökin fyrir því að halda fasteignakaupum utan gildissviðs laga þessara þau að fasteignakaup eru sérstaks eðlis og mörg álitaefni sem upp koma í slíkum kaupum verða aðeins leyst á grundvelli sérstaks eðlis þeirra.
    Í öðru lagi falla utan gildissviðs laganna skv. b-lið samningar um að reisa byggingar eða önnur mannvirki á fasteign. Þetta er í samræmi við gildissvið laga um lausafjárkaup, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. Nær reglan til allra gerða bygginga og annarra mannvirkja, auk framkvæmda við byggingar og mannvirki sem eru varanlega skeytt við fasteignir.
    Í þriðja lagi gilda lögin ekki um afhendingu raforku skv. c-lið 2. mgr. Ákvæðið er í samræmi við túlkun laga um lausafjárkaup. Rökstuðningur fyrir því að afhending raforku falli utan gildissviðs laganna felst í því að rafmagn er að jafnaði afhent í órofinni starfsemi og því verður raforka ekki afmörkuð á sama hátt og aðrir hlutir.
    Í fjórða og síðasta lagi eiga lögin skv. d-lið 2. mgr. ekki við um samninga sem leggja þá skyldu á þann aðila sem afhenda skal hlutinn að framkvæma vinnu eða aðra þjónustu þegar vinnan eða þjónustan felur í sér mestan hluta af skyldum hans. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 2. gr. kaupalaga og 5. mgr. 2. gr. Evróputilskipunarinnar um neytendakaup. Við mat á því hvort samningur fellur undir lögin eða ekki er mikilvægast að líta til þess hvert er aðalefni samningsins. Sem dæmi um slíkan blandaðan samning má nefna þegar bílaverkstæði gerir samning um sölu á einföldum varahlut í bíl og sér jafnframt um að koma varahlutnum fyrir. Í slíku tilviki mundi samningurinn í heild falla utan gildissviðs laga um neytendakaup þar sem þjónustuþáttur hans er fyrirferðarmestur.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla samkvæmt frumvarpinu að ekki verður vikið frá ákvæðum laganna neytendum til tjóns. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 4. gr. kaupalaganna. Ákvæðið kemur einnig í veg fyrir að seljandinn byggi t.d. á venju sem er neytanda óhagstæðari en ákvæði frumvarpsins. Það leiðir hins vegar af ákvæðum 1. mgr. að aðilum er heimilt að semja um kjör sem eru neytendum hagstæðari en vera mundi samkvæmt lögunum. Enda þótt ákvæðið kveði skýrt á um að lögin séu ófrávíkjanleg til hagsbóta fyrir neytendur er gert ráð fyrir því í einstökum ákvæðum frumvarpsins að hægt verði að víkja frá ákvæðum laganna með samningum í ákveðnum tilvikum. Þá felst ekki í reglunni um ófrávíkjanleika laganna takmörkun á þeirri heimild að unnt sé að semja um eiginleika söluhlutar.
    3. gr. frumvarpsins leggur ekki einungis bann við samningsskilmálum sem eru neytendum óhagstæðir, heldur hindrar einnig í 2. mgr. að samið sé um að lög ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi um kaupsamning sem er nátengdur við yfirráðasvæði ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ef slíkt leiðir til kjara sem eru neytandanum óhagsstæðari en ákvæði frumvarpsins. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í lögum um lausafjárkaup. Markmið ákvæðisins er að lögfesta efni 2. mgr. 7. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um neytendakaup, en þar er kveðið á um að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að neytendur séu ekki sviptir þeirri vernd sem kveðið er á um í tilskipuninni sem afleiðingu af því að hafa kosið að setja samninginn undir lög þriðja lands þegar hann hefur nána tengingu við yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við ákvæði 82. gr. kaupalaga. Smávægilegar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar en ekki er ætlunin að breyta efni ákvæðisins. Þá var ákveðið með tilliti til þess markmiðs frumvarpsins að gera lögin skýrari að hafa ákvæðið í inngangskafla frumvarpsins.
    Ákvæðið tekur til tilkynninga og ber að túlka það hugtak vítt í lögum um neytendakaup og getur það einnig náð til fyrirspurna og svipaðra athafna þó að ekki sé talað sérstaklega um tilkynningu. Sem dæmi um hvað telst til tilkynninga samkvæmt ákvæðinu eru yfirlýsingar um riftun skv. 23. gr. frumvarpsins.
    Til að sendandi geti byggt á því að tilkynning hafi verið send nógu snemma, þótt henni seinki, mistök verði við sendingu eða hún nái ekki til gagnaðila verða tvö skilyrði að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi verður tilkynningin að hafa verið gefin í samræmi við ákvæði laga um neytendakaup og í öðru lagi verður tilkynning að hafa verið send á forsvaranlegan hátt miðað við aðstæður. Því fer það eftir aðstæðum hverju sinni hvort munnleg tilkynning nægir eða hvort krefjast verður skriflegrar tilkynningar og hvort skrifleg tilkynning teljist nægileg þegar munnleg tilkynning hefði komist fyrr til skila. Ef upp koma deilur um sendingu tilkynningar þarf sendandi að sanna að tilkynning hafi verið send á forsvaranlegan hátt.
    Með orðunum „komi ekki annað fram“ er í fyrsta lagi átt við atvik þar sem það leiðir af ákvæðum laganna að sendandi ber áhættuna af sendingu. Á þetta t.d. við þar sem þess er krafist að móttakandi hafi fengið tilkynningu, sbr. ákvæði 22. gr. um fyrirspurnir. Í öðru lagi getur það í ákveðnum tilvikum leitt af sambandi því sem tilkynningin varðar að sendandinn beri ábyrgðina.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er að finna ákvæði um afhendingu söluhlutar. Í 5. gr. er fjallað um afhendingarstað söluhlutar og felur frumvarpið í sér nokkra einföldun frá ákvæðum laga um lausafjárkaup að því er það varðar. Í 6. gr. er kveðið á um afhendingartíma söluhlutar og eru þær reglur í samræmi við reglur kaupalaga. Í 7. gr. kemur fram regla um það hvenær söluhlutur telst afhentur, en í 8. gr. er kveðið á um viðbótarskyldur seljanda við sendingarkaup. Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um heimild seljanda til að halda eigin greiðslu þar til hann hefur fengið kaupverð söluhlutar greitt. Þá er í 10. gr. fjallað um kostnað vegna söluhlutar, í 11. gr. um afrakstur af söluhlut og í 12. gr. um hvernig skal fara með vexti af hlutum og kröfum sem bera vexti við sölu.

Um 5. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um afhendingarstað söluhlutar. Frumvarpið felur í sér nokkra einföldun frá ákvæðum kaupalaga um afhendingarstað, en þar er gerður greinarmunur á mismunandi tegundum kaupa, reiðu-, staðar- og sendingarkaupum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það hvar afhenda skal söluhlut ef ekki hefur verið kveðið á um afhendingarstaðinn í kaupsamningnum. Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram sú meginregla að ef kaup voru gerð í tengslum við atvinnustöð seljanda beri seljanda að hafa hlutinn til reiðu fyrir neytandann á þeim stað þar sem seljandinn hafði atvinnustöð sína þegar kaupin voru gerð. Ekki verður gerð krafa um það að seljandi hafi söluhlut til reiðu allan sólarhringinn þegar afhendingartími er kominn, heldur nægir að hlutur sé til reiðu á venjulegum afgreiðslutíma. Það er þó lágmarkskrafa að neytandinn geti með sanngirni átt þess kost að ná í hlut. Það leiðir af orðalagi ákvæðisins um afhendingarstað að hann breytist ekki þótt seljandi flytji atvinnustöð sína eftir að kaupin gerðust, sbr. orðalagið „þegar kaup voru gerð“. Ákvæðið er í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. kaupalaga að öðru leyti en því að til einföldunar er sleppt möguleikanum á afhendingu á heimili seljanda ef hann hefur ekki atvinnustöð sem tengist kaupunum. Í 2. málsl. 1. mgr. er hins vegar að finna reglu um það hvernig fara skal með afhendingu hafi kaupin verið ákveðin án tengsla við atvinnustöð seljanda. Í slíkum tilvikum ber seljanda að afhenda neytanda söluhlut hjá neytanda.
    Með hugtakinu atvinnustöð í ákvæðinu er fyrst og fremst átt við skipulagðan og viðvarandi atvinnustað þar sem samningar í tengslum við atvinnureksturinn eru að jafnaði gerðir. Því fullnægir ekki hvaða staður sem er þessu skilyrði, jafnvel þótt samningar séu gerðir þar. Þannig mundi t.d. hótelherbergi, sem seljandi ræður yfir, ekki teljast atvinnustöð án þess að annað og meira komi til og heldur ekki póstfang eitt og sér eða annar skráður staður. Hins vegar má telja útibú og umboðsskrifstofur og aðra slíka staði til atvinnustöðvar í skilningi ákvæðisins.
    Það hvort kaup hafi farið fram í tengslum við atvinnustöð seljanda veldur sjaldnast vafa. Má nefna sem dæmi um kaup sem fara fram í tengslum við atvinnustöð seljanda þegar neytandi fer inn í verslun og kaupir hlut. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að kaup geti verið í tengslum við starfsstöð seljanda þó að kaupin fari ekki alfarið fram í verslun hans. Dæmi um þetta eru kaup á notuðum bíl. Upphaflega snýr neytandi sér til bílasölu vegna kaupanna, reynsluekur síðan bílnum og gengur jafnvel frá kaupsamningnum á heimili sínu. Samt sem áður yrði talið að umrædd kaup hefðu farið fram í tengslum við starfsstöð bílasölunnar. Sem dæmi um kaup sem gerð eru án tengsla við atvinnustöð seljanda má nefna pöntunarkaup sem fara fram á sölusýningum og húsgöngusölu ásamt kaupum á vörum á sölukynningum í heimahúsum. Þá teljast kaup með póstkröfu, á sjónvarpsmarkaði, í síma og á veraldarvefnum almennt vera án tengsla við atvinnustöð seljanda, enda er yfirleitt samið um að afhending fari fram hjá neytandanum í slíkum kaupum. Óski seljandinn eftir öðru fyrirkomulagi verður hann að semja sérstaklega um slíkt við neytandann.
    Í 2. mgr. er fjallað um tilvik þar sem seljandi hefur fleiri en eina atvinnustöð. Ákvæðið er sambærilegt við 1. mgr. 83. gr. kaupalaga utan smávægilegra breytinga á orðalagi. Samkvæmt ákvæðinu skal þá miða við þá atvinnustöð sem hefur sterkust tengsl við kaupin þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar gengu út frá þegar kaup voru gerð. Gera verður heildstætt mat á aðstæðum og atvik sem bæði varða gerð og efndir kaupanna skipta máli í þessu sambandi. Það kemur skýrlega fram í ákvæðinu að líta skuli til þeirra atvika sem aðilar gengu út frá þegar kaupin voru gerð og hefur það í för með sér að breytingar sem síðar verða skipta ekki máli, nema því aðeins að gert hafi verið ráð fyrir breytingum þegar við samningsgerðina.
    Í 3. mgr. er loks kveðið á um að aðilum sé heimilt að semja um annan afhendingarstað en lögin kveða á um. Er um að ræða undantekningu frá meginreglu laganna í 3. gr. um að ekki verði vikið frá reglum laganna.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um afhendingartíma söluhlutar. Reglur um afhendingartíma í neytendakaupum eru í samræmi við reglur kaupalaga um afhendingartíma. Því er aðilum frjálst að semja um afhendingartíma í neytendakaupum. Ef aðilar hafa ekki samið um afhendingartíma fer um afhendingu skv. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Ákvæðið á því aðeins við þegar slíku samningsákvæði er ekki til að dreifa og þá ber að afhenda söluhlut innan sanngjarns tíma frá því að kaup voru gerð. Það hvað telst sanngjarn tími verður að meta í hvert skipti með hliðsjón af því um hvers konar kaup er að ræða og atvikum að öðru leyti. Upphaf frestsins miðast við samningsgerðina. Er regla 1. mgr. í samræmi við ákvæði 1. mgr. 9. gr. kaupalaga þó að lagt sé til að orðalagi sé breytt nokkuð til einföldunar.
    2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, sem er samhljóða 2. mgr. 9. gr. laga um lausafjárkaup, á við þegar samið hefur verið um svigrúm til afhendingar. Það er seljandinn sem hefur rétt til að velja tímamarkið nema leiða megi af atvikum að valið sé neytandans. Seljandi getur t.d. verið háður uppskeru þegar um landbúnaðarvörur er að ræða eða verið háður afhendingartíma ef hann þarf að fá vörur frá öðrum aðila. Af samningi getur leitt að það sé seljandans að velja tímamarkið. Einnig getur verið að afhending eigi að vera í samræmi við þarfir neytanda eða möguleika hans á að veita vörunni viðtöku.
    Sérreglan í 3. mgr., sem er samhljóða 3. mgr. 9. gr. kaupalaga, er takmörkuð við reiðukaup, þ.e. kaup þegar seljandinn skal hafa söluhlut til reiðu fyrir neytanda á atvinnustöð sinni, þ.e. þar sem neytandi skal sækja hlutinn. Ef það er seljandinn sem í slíkum tilvikum skal velja afhendingartíma skal hann með nægum fyrirvara tilkynna neytanda hvenær sækja má hlutinn. Sá áskilnaður, að tilkynna skuli um það með nægum fyrirvara, felur það í sér að neytandinn fái sanngjarnan tíma til að ganga frá því sem nauðsynlegt er til undirbúnings flutningi. Ekki kemur fram í ákvæðinu áskilnaður um sérstakt form tilkynningar. Hún getur því bæði verið munnleg og skrifleg. Enn fremur er einungis gerð krafa um það að tilkynning segi til um það hvenær sækja má hlut. Það leiðir hins vegar af samningi aðila eða ákvæðum 5. gr. hvar sækja á hlutinn.

Um 7. gr.

    Í frumvarpsgreininni er kveðið á um það hvenær söluhlutur telst afhentur. Lagt er til að miðað verði við það tímamark þegar neytandinn hefur veitt söluhlutnum viðtöku. Ákvæðið felur í sér nokkra einföldun frá lögum um lausafjárkaup þar sem lagt er til að ekki verði greint á milli ólíkra tegunda kaupa. Efnislega er þó ekki um breytingu að ræða, enda er ákvæðið í samræmi við 2. mgr. 6. gr. kaupalaganna.
    Það getur valdið nokkrum vafa hvenær neytandi telst hafa veitt hlut viðtöku. Almennt verður að miða við að neytandi hafi veitt hlut viðtöku þegar hann sjálfur eða annar fyrir hans hönd hefur tekið hlutinn í vörslur sínar. Í þessu felst einnig að hlutur telst ekki afhentur meðan seljandinn hefur hann í vörslum sínum. Ákvæðið nær jafnt til reiðukaupa, staðarkaupa og sendingarkaupa. Söluhlutur telst ekki afhentur í skilningi ákvæðisins þó að neytandinn eigi sök á því að ekki varð af afhendingu. Í slíkum tilvikum ber seljandinn ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem stafar af því að afhendingu seinkar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Ákvæði sambærilegt við 8. gr. frumvarpsins er að finna í 8. gr. laga um lausafjárkaup og fjallar um viðbótarskyldur við sendingarkaup. Sendingarkaup eru algeng í neytendakaupum og af þeim sökum er æskilegt að settar séu reglur sem kveða á um frekari skyldur seljanda þegar söluhlutur er sendur.
    Í frumvarpsgreininni er gert ráð fyrir að samið sé um það að seljandinn eigi að senda söluhlutinn. Slíkur samningur getur t.d. verið í samræmi við afhendingarskilmála eða aðra ótvíræða samningsskilmála eða hann getur leitt af forsendum aðila eða fyrri venjum.
    Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ber seljanda sem senda á söluhlut skylda til að gera þá samninga sem nauðsynlegir eru til þess að hlutur komist á ákvörðunarstað. Þannig þarf seljandinn að gera samninga um alla nauðsynlega flutninga, jafnvel þótt senda þurfi hlutinn með mismunandi flutningstækjum. Ákvæðið setur þau skilyrði að flutningssamningar séu gerðir á viðeigandi hátt og með vanalegum kjörum, en það getur verið nokkuð breytilegt eftir því um hvers konar kaup er að ræða hvað telst viðeigandi og vanalegt. Í því sambandi skiptir tegund söluhlutar og tilgangur kaupa t.d. máli. Ef um er að ræða sölu á ferskri vöru verður seljandinn að útvega flutningstæki sem skilar vörunni hratt. Almennt verða seljendur að forðast flóknar flutningsleiðir og óvanalega samningsskilmála.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar eru ákvæði sem gilda þegar skylda til að vátryggja söluhlut hvílir ekki á seljanda. Ber honum þá skylda til að veita neytanda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hann geti keypt vátryggingu, enda hefur neytandi hagsmuni af því að tryggja vöruna ef seljanda á ekki að sjá um tölu vátryggingar. Til að geta tekið trygginguna getur neytandinn þurft á vissum upplýsingum að halda um hlutinn og flutninginn, og það eru þessar upplýsingar sem seljanda ber að láta í té samkvæmt ákvæðinu.
    Samkvæmt 3. mgr. skal seljandi sem senda á söluhlut einnig sjá um nauðsynlegar merkingar og farmbréf þannig að hluturinn verði nægilega auðkenndur neytanda. Ákvæðið hefur aðallega þýðingu ef um er að ræða heildarsendingu seljanda til margra viðtakenda. Það kemur hins vegar ekki fram í ákvæðinu hvenær seljandi á að tilkynna neytanda um sendingu, en eðlilegt er að það sé gert innan sanngjarns tíma frá afhendingu til flutningsaðila. Ef um stuttar vegalengdir er að ræða skal seljandi þó tilkynna um sendingu fyrr.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. frumvarpsins er sama meginreglan og byggt er á í 10. gr. kaupalaga, þ.e. að hönd selji hendi, en þó þannig að einungis er í ákvæðinu fjallað um heimildir seljanda að þessu leyti. Um rétt neytanda til að halda eftir kaupverði vegna greiðsludráttar er fjallað í 20. gr. frumvarpsins, í 28. gr. er fjallað um rétt neytanda til að halda eftir kaupverði vegna galla og í 2. mgr. 38. gr. er kveðið á um rétt neytanda til að halda eftir greiðslu ef hann fær söluhlut ekki afhentan.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um heimild seljanda til að láta hjá líða að færa ráðstöfunarréttinn yfir hlut til neytanda, nema seljandi hafi samtímis fengið kaupverðið greitt. Með yfirfærslu ráðstöfunarréttar er yfirleitt átt við afhendingu söluhlutar til neytanda, en yfirfærsla getur tengst öðru, t.d. afhendingu flutningsbréfs eða farmskírteinis eða því að yfirfærslan sé skráð opinberri skráningu, t.d. að neytandi sé skráður eigandi bifreiðar í ökutækjaskrá. Þegar svo er ástatt getur seljandi sett það skilyrði fyrir skráningu heimildar að kaupverð sé greitt. Skilyrði þess að 1. mgr. gildi er að seljandi hafi ekki veitt neytanda lán eða greiðslufrest fyrir kaupunum í heild eða að hluta.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldur seljanda í þeim tilvikum þegar hann á að senda hlut til annars staðar, en ef regla 1. mgr. stæði ein og sér gæti það leitt til þess að ekki væri unnt að hrinda kaupunum í framkvæmd. Því er sú regla sett fram í 2. mgr. að seljandi verði að senda söluhlut af stað þó svo að kaupverðið hafi ekki verið greitt, en hann getur komið í veg fyrir að neytandi fái umráð hlutarins þar til kaupverðið hefur verið greitt. Gott dæmi um slíkt tilvik er sending söluhlutar í póstkröfu.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. frumvarpsins eru ákvæði um ábyrgð samningsaðila á kostnaði, sambærileg ákvæðum 11. gr. laga um lausafjárkaup. Í ákvæðinu er einungis fjallað um það hver beri á endanum ábyrgð á kostnaði. Samkvæmt því er ekki tekin afstaða til þess í ákvæðinu á hvorum aðilanna hvílir skylda til þess að leggja út fé í fyrstu.
    Í 1. mgr. felst að seljandinn stendur straum af kostnaði fram að afhendingu söluhlutar, en eftir þann tíma ber neytandi ábyrgð á kostnaði, nema um annað hafi verið samið. Reglan á við um flutningskostnað, kostnað vegna geymslu, pökkunar, tryggingar og jafnvel útflutningsgjalda.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. gildir ákvæðið ekki um kostnað sem stafar af því að afhending söluhlutar dregst vegna atvika sem varða neytandann. Ekki er kveðið á um það hvort aðilinn ber kostnaðinn í þeim tilvikum, en talið er eðlilegt að neytandinn beri almennt ábyrgð á þeim kostnaði sem af því stafar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þegar senda skal söluhlut til neytanda er heimilt að semja um það að neytandinn greiði útgjöld vegna sendingarinnar til viðbótar kaupverðinu.

Um 11. gr.

    Ákvæðið svarar til 79. gr. laga um lausafjárkaup, en við samningu frumvarpsins var valin sú leið að staðsetja ákvæðið í kaflanum um afhendingu til að auðvelda yfirsýn neytenda. Sem dæmi um afrakstur, sem frumvarpsgreinin nær til, má nefna mjólk úr kú sem seld hefur verið.
    Í 1. málsl. 1. gr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um að afrakstur, sem fellur til fyrir umsaminn afhendingartíma, tilheyri seljanda. Þetta gildir þó ekki hafi verið ástæða til að ætla að hann félli til síðar. Dráttur á afhendingu hefur ekki áhrif á skiptingu afraksturs.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. skal afrakstur, sem fellur til eftir umsaminn afhendingartíma, tilheyra neytanda, enda hafi ekki verið ástæða til að reikna með að hann félli til fyrr. Samkvæmt ákvæðinu er það því grundvallaratiði hvenær afrakstur fellur til eða hvenær ætla mátti að það gerðist.
    Í 2. mgr. kemur fram að aðilum er heimilt að semja á annan veg. Verður að telja eðlilegt að heimilt sé að semja um skiptingu afraksturs á þann hátt sem samningsaðilar sjálfir telja sér hagkvæmast.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er fjallað um skiptingu arðs þegar keypt eru hlutabréf og um skiptingu réttar til áskriftar að nýjum hlutum og í 2. mgr. er fjallað um skiptingu arðs milli aðila þegar um er að ræða kaup á kröfum sem bera vexti.
    Ákvæði 1. mgr. er í samræmi við 80. gr. kaupalaga. Þar kemur fram sú regla að kaup á hlutabréfum nái einnig til þess arðs sem ekki var gjaldfallinn fyrir kaupin. Þannig hefur neytandinn rétt til arðs frá fyrra tímamarki en því sem leiðir af ákvæðum 11. gr. frumvarpsins þegar um er að ræða hlutabréf. Í þessu sambandi skiptir ekki skiptir máli hvort félag hefur verið búið að ákveða arðgreiðslu ef arður er ekki fallinn í gjalddaga. Í 31. gr. gildandi hlutafélagalaga, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög, eru ákvæði um það hvenær hluthafi getur beitt réttindum sínum gagnvart félagi, þar á meðal um greiðslu arðs.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að hið sama gildi einnig um réttinn til áskriftar að nýjum hlutum, enda hafi ekki verið unnt að nýta réttinn fyrir kaupin. Í V. kafla hlutafélagalaga, sbr. V. kafla laga um einkahlutafélög, eru ákvæði um það hvenær hluthafar eiga rétt á því að skrá sig fyrir nýjum hlutum og um réttarstöðu þeirra í því sambandi. Ef rétturinn til áskriftar er skilinn frá hlutabréfinu og gerður að sjálfstæðu verðbréfi fellur hann utan gildissviðs ákvæðisins. Verður þá að meta það sjálfstætt hverju sinni hver á réttinn til áskriftar. Skv. 45. gr. hlutafélagalaga getur hluthafafundur ákveðið útgáfu áskriftarréttinda. Slík áskriftarréttindi falla utan gildissviðs laganna.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er ákvæði um skiptingu arðs milli aðila þegar um er að ræða kaup á kröfum sem bera vexti. Greinin á við um allar vaxtaberandi kröfur óháð því hvort þær eru tengdar verðbréfi eða ekki.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er því slegið föstu að kaup á kröfu sem ber vexti nái til þeirra vaxta sem eru áfallnir en ekki fallnir í gjalddaga á umsömdum afhendingartíma. Miðað er við sama tímamark og í 11. gr. Vextir af slíkum kröfum falla yfirleitt í gjalddaga með fastákveðnu millibili og því er gjalddagi þeirra yfirleitt ljós.
    Í 2. málsl. 2. mgr. kemur fram að neytandi skal greiða sem viðbót við kaupverðið jafnvirði þeirra vaxta sem eru áfallnir en ekki fallnir í gjalddaga á umsömdum afhendingaratíma. Reglan gildir þó ekki hafi krafan verið seld sem óvís krafa, en það fer eftir túlkun samnings að hve miklu leyti það er reyndin.
    Rökin fyrir ákvæðum 2. mgr. eru þau að þegar um er að ræða kröfur sem bera vexti liggur yfirleitt ljóst fyrr á hverjum tíma hversu há fjárhæð er fallin á sem vextir. Rökin fyrir því að ólíkar reglur gilda að því er varðar skiptingu arðs af hlutum, sbr. 1. mgr. ákvæðisins, eru þau að hlutir ganga oft kaupum og sölum áður en unnt er að staðreyna hversu mikinn arð þeir gefa af sér á reikningsárinu.
    Í 3. mgr. kemur fram að aðilum er heimilt að semja á annan veg. Verður að telja eðlilegt að heimilt sé að semja um skiptingu arðs á þann hátt sem aðilar sjálfir telja sér hagkvæmast.

Um III. kafla.

    Í kaflanum er að finna reglur um áhættu af söluhlut. Ákvæði 13. gr. fjalla um það hvað felst í áhættu af söluhlut og hver séu aðaláhrif þess að áhætta af söluhlut flytjist frá seljanda til neytanda. Í 14. gr. er hins vegar að finna reglur um það hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til neytanda.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu, sem er efnislega samhljóða 12. gr. kaupalaga, er kveðið á um hver séu aðaláhrif þess að áhættan af söluhlut flyst yfir til neytanda. Það felst í ákvæðinu að þegar neytandinn ber áhættuna af söluhlut fellur skylda hans til þess að greiða kaupverðið ekki brott þótt söluhlutur farist, skemmist eða rýrni. Það skilyrði kemur fram í ákvæðinu að slíkt leiði af atvikum sem ekki verða rakin til seljanda.
    Í ákvæðinu felst í fyrsta lagi að neytandanum ber skylda til að greiða kaupverðið ef hann sjálfur eða fólk á hans vegum ber ábyrgð á eða hefur valdið eyðileggingu söluhlutar. Í öðru lagi fellur greiðsluskylda neytanda ekki niður þegar ef söluhlutur eyðileggst fyrir tilviljun, t.d. við bruna eða skipskaða. Hið sama gildir ef ekki er hægt að staðreyna ástæðu þess að söluhlutur hefur farið forgörðum.
    Ef hægt er að rekja þau atvik sem valda því að hlutur ferst, skemmist eða rýrnar til seljanda er um vanefndir af hans hálfu að ræða, enda hafi atvikið tengsl við kaupin eða efndir þeirra. Skylda neytandans til þess að greiða kaupverðið ræðst þá af reglu frumvarpsins um afleiðingar greiðsludráttar. Með því að atvik verði „rakin til seljanda“ er átt við að atvik hafi gerst í tengslum við kaupin sem seljandi ber ábyrgð á. Vafaatriði geta komið upp varðandi áhættuskipti og skaðabótaábyrgð í einstökum tilvikum þar sem um er að ræða samverkandi áhrif mistaka og tilviljunarkenndra atvika. Af framkvæmd sambærilegs ákvæðis kaupalaganna er ekki ljóst hversu langt ábyrgð og áhætta seljanda nær í tilvikum sem þessum, en ljóst er að það er lágmarksskilyrði að orsakasamband sé á milli vanrækslu eða mistaka seljanda og hins tilviljunarkennda tjóns.
    Því veitir orðalag ákvæðisins heimild til að losa neytandann úr ábyrgð á grundvelli reglunnar um samverkandi áhrif mistaka og tilviljunarkenndra atvika (casus mixtus). Dæmi um tilvik sem þetta má nefna ef hlutur ferst af tilviljun í flutningi sem seljandi sá um. Hleðslu skips, sem flytja á söluhlut með, er ábótavant og seljandi ber ábyrgð á því. Vegna þessa þarf skipið að leita hafnar á leiðinni til að endurhleðsla geti farið fram. Eftir þetta lendir skipið í sjávarháska vegna illviðris, sem það annars hefði komst hjá, og varan ferst. Í dæminu er orsakasamband fyrir hendi, en skilyrðinu um sennilega afleiðingu er ekki fullnægt. Skilyrðinu um casus mixtus virðist hins vegar vera fullnægt og seljandi því að öllum líkindum ábyrgur.
    Í ákvæðinu segir ekki beinlínis hvað í því felst að áhættan sé áfram hjá seljandanum ef undan er skilin reglan um greiðslu kaupverðsins. Niðurstaðan að öðru leyti ræðst af almennum reglum um ábyrgð á vanefndum samnings. Áhættuskipti takmarka ekki rétt neytanda til þess að rifta kaupum eða halda eigin greiðslu vegna vanefnda af hálfu seljanda sem til eru komnar eftir áhættuskiptin.

Um 14. gr.

    14. gr. frumvarpsins samsvarar í meginatriðum ákvæðum 13., 14. og 16. gr. laga um lausafjárkaup.
    Í 1. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram meginreglan um það hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til neytanda. Eins og í 1. mgr. 13. gr. laga um lausafjárkaup er það meginregla samkvæmt frumvarpinu að áhættan flyst yfir við afhendinguna. Samkvæmt frumvarpinu miðast afhending alltaf við það tímamark þegar neytandi veitir söluhlut viðtöku, en ekki tímann þegar afhending átti að eiga sér stað.
    2. málsl. 1. mgr. svarar efnislega til ákvæðis 2. mgr. 13. gr. kaupalaga. Í ákvæðinu er að finna reglu um þau tilvik þegar afhending fer ekki fram eins og ráð var fyrir gert og það má rekja til neytandans eða atvika sem hann varða. Í meginatriðum er miðað við að seljandinn beri áhættuna þar til neytandi hefur fengið hlut til ráðstöfunar og að neytandinn skuli bera áhættuna eftir þann tíma. Ástæðan er sú að sá sem hefur ráðstöfunarréttinn hefur jafnan bestu aðstöðuna til þess að varðveita hlutinn. Í ákvæðinu felst að áhættan getur flust yfir til neytanda áður en raunveruleg afhending hefur átt sér stað ef hlutur er neytanda heimill til ráðstöfunar og afhendingartími er kominn. Ákvæðið á ekki aðeins við í því tilviki þegar neytandinn neitar að veita hlut viðtöku eða sækja hann, heldur líka þegar seljandinn heldur eigin greiðslu með heimild í 9. gr. frumvarpsins. Sama gildir þegar ástæðan er sú að neytandinn hefur ekki léð annan atbeina sinn sem nauðsynlegur er til þess að afhending geti farið fram. Samkvæmt ákvæðinu er þó ekki nægilegt að að neytandinn veiti hlutnum ekki viðtöku, heldur þarf neitun hans að fela í sér vanefnd, þ.e. neytandinn þarf að hafa vanefnt skyldu sína til að veita hlut viðtöku.
    Í 2. mgr. 14. gr. er fjallað um það tilvik þegar neytandi á að sækja hlutinn á annan stað en til seljanda, þ.e. til þriðja manns. Ákvæðið er samhljóða 3. mgr. 13. gr. laga um lausafjárkaup. Í þeim tilvikum sem neytandi sækir söluhlut annað en til seljanda flyst áhættan af hlutnum yfir til neytanda þegar afhendingartími er kominn og neytanda er kunnugt um að hlutur er honum heimill til ráðstöfunar á umsömdum afhendingarstað. Það telst ekki forsenda áhættuskipta að neytandinn hafi haft hæfilega langan tíma til að sækja hlutinn, en neytandinn þarf að hafa fengið raunverulega vitneskju um að hlutur sé honum til reiðu. Slíka vitneskju kann hann að hafa fengið frá seljanda, en það er nægilegt að vitneskja hafi borist honum með öðrum hætti.
    Í 3. mgr. 14. gr. er kveðið á um viðbótarskilyrði fyrir flutningi áhættu frá seljanda til neytanda þegar um tegundarákveðna hluti er að ræða. Ákvæðið á því ekki við um tegundarkaup þegar sérgreining söluhlutar hefur farið fram þegar við kaupin eins og venjulegt er í pöntunarkaupum. Nauðsynleg sérgreining getur farið fram með merkingu vörunnar eða auðkenningu geymslustaðar, með því að sérgreina hana í flutningsskjali eða með tilkynningu til neytanda. Ef varan sjálf er ekki merkt verður að taka hana frá fyrir neytanda eða sérgreina fyrir hann með öðrum hætti. Tilgangurinn með sérgreiningarkröfunni er að hindra að menn geti skotið sér undan ábyrgð ef tjón verður á hluta farms meðan á flutningi stendur. Ákvæðið er samhljóða 14. gr. kaupalaganna.
    Ákvæði 4. mgr. 14. gr. frumvarpsins er hliðstætt 16. gr. kaupalaga. Þar er kveðið á um áhættuskipti þegar hlutur er seldur til reynslu eða um annars konar skilarétt er að ræða, t.d. eftir skoðun. Sérstakur samningur eða venja, sem mælir fyrir um að neytandinn þurfi ekki að standa við kaupin en hafi þess í stað rétt til þess að skila hlutnum innan tiltekins frests, er yfirleitt grundvöllur kaupa til reynslu. Sem dæmi um þetta er þegar neytandinn fær söluhluti með rétti til að skila hlutunum eða skipta þeim. Algengt er að póstpantanir séu með skilarétti. Samkvæmt ákvæðinu flyst áhættan á venjubundinn hátt yfir til neytanda við afhendinguna, sbr. ákvæði 13. og 14. gr. frumvarpsins. Ef neytandinn ákveður að skila hlutnum flyst áhættan aftur yfir til seljanda þegar hann hefur veitt hlutnum viðtöku. Seljandi telst hafa veitt hlut viðtöku þegar hann hefur sótt hlutinn eða tekið við honum. Samkvæmt þessu ber neytandinn áhættuna af tilviljunarkenndum atvikum sem verða á leið hlutarins til seljandans, jafnvel þótt hann sé sendur í pósti eða með sjálfstæðum flytjanda.
    Það að neytandi beri áhættuna felur í sér að hlutnum verður að skila án slits eða óhreinkunar, þ.e. í stuttu máli í óbreyttu ástandi og án þess að bera merki notkunar. Undantekningu frá þessu verður þó að gera þegar breyting eða rýrnun má rekja til aðstæðna sem varða seljanda. Þó verður neytandi sennilega að bera áhættu af rýrnun sem rekja má til eiginleika söluhlutar. Það fer eftir samningi aðila hve reynslutími og frestur til að skila hlutnum er langur. Ef ekkert er um þetta samið verður um það að fara eftir því sem sanngjarnt má telja þegar litið er til tegundar hlutar, þarfa aðila og hugsanlegrar venju á því viðskiptasviði sem um er að ræða og loks með hliðsjón af fyrri venjum í viðskiptum milli aðilanna.
    Ekki er lagt til að tekin verði upp í frumvarpið ákvæði sem svara til 15. gr. kaupalaga um söluhlut í flutningi, enda leiðir af 2. mgr. ákvæðisins að það gildir ekki í neytendakaupum. Ef neytandi kaupir söluhlut í flutningi verður því að styðjast við almennar reglur frumvarps þessa um flutning áhættu.

Um IV. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um hvaða eiginleika söluhlutur á að hafa og hvenær söluhlutur telst gallaður. Í 15. gr. koma fram meginreglur um eiginleika söluhlutar. Reglur frumvarpsins eru að flestu leyti sambærilegar við gildandi lög um lausafjárkaup, en þó er að finna í ákvæðinu einhver nýmæli sem rekja má til Evróputilskipunarinnar um neytendakaup. Í 16. gr. kemur fram hvenær söluhlutur telst gallaður og í 17. gr. er að finna reglur sem gilda þegar hlutur er seldur í því ástandi sem hann er og þegar hlutir eru seldir á uppboði. Í 18. gr. er loks fjallað um tímamark galla.

Um 15. gr.

    Frumvarpsgreinin hefur að geyma grundvallarreglur um eiginleika söluhlutar og það hvenær galli telst vera til staðar. Að mestu sambærilegar reglur er að finna í 17. gr. laga um lausafjárkaup, en þó er í frumvarpinu að finna nýmæli sem leiðir af 1. mgr. 2. gr. og a-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um að söluhlutur skal vera í samræmi við það sem leiðir af samningi, bæði hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun. Með öðrum eiginleikum í málsgreininni er t.d. átt við geymsluþol vöru. Tjón sem verður á umbúðum söluhlutar leiðir ekki sjálfkrafa til þess að neytandi geti beitt gallaúrræðum ef söluhluturinn sjálfur hefur ekki skemmst. Önnur viðhorf geta hins vegar verið uppi þegar ætlunin er að flytja söluhlut áfram í sömu umbúðum.
    Ef hlutur hefur ekki til að bera þá eiginleika sem leiða má af samningi telst hann gallaður. Ef eiginleikar sem seljandi hefur ábyrgst eða heitið eru ekki til staðar er um galla að ræða. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort hlutur sá sem afhentur var hefur sama verðmæti og notagildi samkvæmt tilgangi sínum og hinn umsamdi hlutur. Sem dæmi má nefna að hafi maður keypt rauða peysu en fær bláa afhenta er um galla að ræða. Eins telst hlutur gallaður þótt hann sé í sjálfu sér í lagi og geti þjónað hlutverki sínu ef ekki er hægt að setja hann upp með þeim einfalda hætti sem samningurinn gerir ráð fyrir.
    Í þeim áskilnaði ákvæðisins að hlutur skuli vera í samræmi við það sem „leiðir af samningi“ felst ekki einungis tilvísun til texta samningsins heldur og forsendna aðila, auk þess sem önnur atvik í sambandi við kaupin geta haft þýðingu. Þýðing samnings og samningsforsendna kemur oft vel í ljós þegar tilgangurinn með samningnum er annar en vanalegt er. Söluhlut er í mörgum tilvikum ekki nákvæmlega lýst í samningi og verður hluturinn þá að hafa þá eiginleika sem slíkir hlutir hafa venjulega. Samningskjör, t.d. verð hlutar, veita oft vísbendingu um hvernig þessu er nánar varið.
    Í 2. mgr. eru taldar upp þær kröfur sem gerðar eru til eiginleika söluhlutar þótt ekki leiði þá af samningnum sjálfum eða forsendum hans eins og getið er um í 1. mgr. Því hafa skilyrði 2. mgr. sjálfstæða þýðingu gagnvart 1. mgr. Þó ber að hafa í huga að sömu skilyrði leiðir yfirleitt af samningi aðila. Einnig verður að hafa í huga að upptalning 2. mgr. er ekki tæmandi, heldur eru þar nefnd í dæmaskyni nokkur mikilvæg atriði sem þýðingu hafa við mat á eiginleikum söluhlutar. Í ákvæðinu eru talin upp fleiri atriði en í sambærilegu ákvæði kaupalaganna og er það gert til að auka á skýrleika laganna. Það að hlutur hefur ekki venjulega endingu getur verið galli. Of stuttur endingartími getur t.d. stafað af því að ekki hefur verið komið í veg fyrir að bíll ryðgi óeðlilega. Takmarkað öryggi getur líka talist galli í þessum skilningi, t.d. ef hlutur hefur ekki þá öryggiseiginleika sem neytandinn gat búist við samkvæmt markaðsauglýsingum. Eins og skýrlega kemur fram í upphafi 2. mgr. víkja ákvæði málsgreinarinnar að sjálfsögðu ef annað leiðir af samningi.
    Í a-lið 2. mgr. er sá áskilnaður gerður að hlutur skuli henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til. Söluhlutur skal því fullnægja ákveðnum almennum lágmarksskilyrðum hvað eiginleika varðar. Það er hins vegar ljóst að ólíkir hlutir geta verið mismunandi að gæðum án þess þó að sá lakasti teljist gallaður. Verður að taka sanngjarnt tillit til ýmissa atvika við kaupin við mat í þeim efnum. Ákvæðið felur það að öðru leyti í sér að hafi hlutur ekki þá eiginleika til að bera sem sambærilegir hlutir venjulega hafa telst hann gallaður, jafnvel þótt hann megi nota í þeim tilgangi sem neytandinn ætlaðist til. Sem dæmi má nefna kaup á bíl sem síðar kemur í ljós að eyðir óeðlilega miklu bensíni. Bíllinn er í sjálfu sér nothæfur, en bensíneyðslan getur talist til galla ef annað leiðir ekki af samningi. Ákvæðið er samhljóða a-lið 2. mgr. 17. gr. kaupalaga og er einnig í samræmi við c-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup.
    Í b-lið er ákvæði sem á sér ekki beina hliðstæðu í kaupalögunum en er sambærilegt við d- lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup. Samkvæmt því skal söluhlutur hafa þá eiginleika sem neytandinn mátti vænta við kaup á slíkum hlut að því er varðar endingu og aðra eiginleika. Svar við spurningunni um hvaða eiginleika neytandinn mátti vænta að söluhlutur hefði verður ekki byggt á væntingum einstakra neytenda. Þannig gæti neytandi með óeðlilega miklar væntingar ekki haldið því fram að söluhlutur væri gallaður þar sem hann væri ekki í samræmi við væntingar hans. Þess í stað byggist mat á því hvort hlutur sé gallaður á t.d. samningnum, verði hlutar eða upplýsingum sem gefnar voru við kaupin. Þá getur það skipt máli ef gefnar hafa verið út ábyrgðaryfirlýsingar um hversu lengi hluturinn muni endast.
    Í c-lið 2. mgr. er ákvæði sem er sambærilegt ákvæði í b-lið 2. mgr. 17. gr. kaupalaga og b-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar um neytendakaup. Þar kemur fram að þegar kaup eru af neytanda hálfu gerð í sérstökum tilgangi og ekki er venjulegt að nota hlutinn í samræmi við hann skuli hluturinn að henta í þessum tilgangi. Skilyrði þess að c-liður eigi við er að seljandinn hafi við kaupin vitað eða mátt vita um tilgang neytanda. Það er því vitneskja seljanda við kaupin sem skiptir meginmáli. Ef seljandi veit eða má vita á grundvelli slíkrar vitneskju að söluhlutur hentar ekki í þessum sérstaka tilgangi verður seljandi að upplýsa neytanda um það. Fái seljandi hins vegar ekki þessa vitneskju fyrr en eftir að kaup gerðust, en áður en afhendingin átti sér stað, getur neytandinn ekki borið galla fyrir sig, jafnvel þótt hluturinn henti ekki í þeim tilgangi sem hann á að nota til. Í orðalaginu seljandi „mátti vita“ um tilgang neytanda felst að ekki má vera til staðar nein sanngjörn ástæða sem afsakar ókunnugleika seljanda um hinn sérstaka tilgang. Seljandi telst þannig vita eða hafa mátt vita um hinn sérstaka tilgang kaupanna og ber því ábyrgð á að hluturinn henti í þeim tilgangi sem neytandi ætlar hann til. Seljanda getur gefið þetta til kynna bæði munnlega og skriflega. Ef neytandi spyr hvort söluhlutur henti í ákveðnum tilgangi og seljandi svarar því játandi felur það í sér samþykki seljanda samkvæmt ákvæðinu. Seljandi ber einnig ábyrgð, jafnvel þó að ekki verði talið að seljandi hafi samþykkt hin sérstöku markmið neytandans, ef neytandinn hafði sanngjarna ástæðu til að byggja á sérþekkingu seljanda.
    Ákvæði c-liðar hefur sérstaka þýðingu þegar neytandi getur ekki tilgreint nákvæmlega sérstaka eiginleika söluhlutar á annan veg en að lýsa tilgangi kaupanna. Oft hefur seljandinn nauðsynlega sérkunnáttu til þess að velja þann hlut sem hentar best í þeim tilgangi sem neytandinn lýsir. Jafnvel þótt unnt væri að nota aðra hluti í staðinn getur verið að þeir séu óhentugri eða dýrari í rekstri en þeir sem henta best. Þegar svo stendur á ber seljandi ábyrgð á því að gefa neytanda réttar upplýsingar um val hlutar. Þegar pantaðir eru varahlutir verða þeir auðvitað að hæfa aðalhlut, bæði með hliðsjón af því að fella þessa hluti saman og því hlutverki sem aðalhlut er ætlað að gegna.
    Í sumum tilvikum hefur neytandinn mesta sérþekkingu til að bera þegar metið er hvaða eiginleika söluhlutur skal hafa svo að tilgangi kaupanna verði náð. Birtist það þá gjarnan þannig gagnvart seljanda að neytandinn treystir ekki á sérþekkingu hans. Í slíkum tilvikum er lítil sanngirni í því að seljandinn beri ábyrgð á því að ekki hefur náðst hinn sérstaki tilgangur með kaupunum þótt honum hafi mátt vera um það kunnugt . Því er gerð undantekning varðandi þau tilvik þar sem atvik bera það með sér að neytandinn hefur ekki, hvað hinn sérstaka tilgang varðar, byggt á sérþekkingu seljanda eða mati hans eða hafði ekki sanngjarna ástæðu til þess. Ákvæðið á t.d. við þegar neytandi hefur lagt fram nákvæma tæknilega sundurliðun á eiginleikum hlutar. Ef hluturinn er gæddur þessum eiginleikum getur neytandinn ekki borið það fyrir sig gagnvart seljanda að hann geti ekki notað hlutinn.
    Ákvæði d-liðar er samhljóða c-lið 2. mgr. 17. gr. kaupalaga. Þar er kveðið á um að hlutur verði að hafa sömu eiginleika og prufur og líkön, og hafa þá einungis þýðingu prufur og líkön sem seljandinn hefur lagt fram. Ákvæðið á aðeins við um þá eiginleika sem seljandinn hefur vísað til með því að leggja fram prufur eða líkön. Ákvæðið fjallar ekki um þýðingu þess að neytandi hefur lagt fram prufur eða líkön. Samningur getur eigi að síður borið það með sér að hlutur skuli vera í samræmi við þá eiginleika sem framlagðar prufur og líkön neytanda hafa til að bera. Í framkvæmd kemur stundum fyrir að eiginleikar vörunnar eiga að fullnægja mati sérfróðra eftirlitsmanna eða annarra slíkra. Þessi tilvik falla ekki beint undir ákvæði d- liðar en geta eftir atvikum fallið undir 1. mgr.
    Í e-lið, sem er samhljóða d-lið 2. mgr. 17. gr. kaupalaga, eru ákvæði um innpökkun söluhlutar. Þar er kveðið á um skyldu seljanda til þess að pakka inn söluhlut svo vel sem nauðsynlegt er til þess að varðveita og vernda hlutinn. Ef hlut er pakkað inn á venjulegan hátt er það að öllu jöfnu nægilegt ef ekki má leiða af sérstökum atvikum að meira þurfi til þess að vernda hlutinn og varðveita. Skylda til innpökkunar fer að sjálfsögðu eftir eðli söluhlutar og fyrirmæli ákvæðisins fela ekki í sér skyldu til að söluhlutur þurfi alltaf að vera pakkaður inn. Sem dæmi um söluhluti sem að jafnaði þarf ekki að pakka inn má nefna bíla og sand. Að öðru leyti verður að skýra hugtakið umbúðir rúmri skýringu.
    Samkvæmt f-lið skal söluhlutur vera í samræmi við kröfur opinbers réttar sem leiðir af lögum eða öðrum opinberum ákvörðunum á þeim tíma sem kaup áttu sér stað. Samkvæmt ákvæðinu á það ekki við í þeim undantekningartilfellum þegar neytandi ætlar að nota hlutinn á þann hátt að kröfurnar séu þýðingarlausar. Ákvæðið er sambærilegt við sérákvæði 1. málsl. 3. mgr. 17. gr. kaupalaga um neytendakaup, en í 63. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæðið falli niður úr kaupalögum eins og önnur ákvæði er einungis varða neytendakaup. Ákvæðið hefur yfirleitt ekki mikla sjálfstæða þýðingu í lausafjárkaupum, en er þó mikilvægt þegar um öryggisráðstafanir og ýmis stöðluð ákvæði í lögum og reglugerðum er að ræða. Þetta á einkum við um almennar reglur, t.d. um bifreiðar og eiginleika rafmagnshluta. Ákvæðið á einnig við um einstakar ákvarðanir, t.d. stjórnvaldsákvörðun eða dóm sem bannar sölu tiltekinnar framleiðslu.
    Ákvæði f-liðar fjallar einungis um eiginleika söluhlutar og falla því kröfur sem varða þær upplýsingar sem veita skal um tiltekna framleiðslu utan gildissviðs ákvæðisins. Sem dæmi um þetta má nefna ákvæði laga um skyldu til þess að auglýsa hættu á heilsutjóni við tóbaksreykingar. Eftir atvikum getur það verið galli skv. 16. gr. ef slíkar upplýsingar vantar. Opinberar reglur, sem kveða á um notkun hlutar í tilteknu skyni, falla einnig utan ákvæðisins því að beiting reglnanna hvílir á athöfnum neytandans eftir að kaup áttu sér stað. Seljandi vélsleða ber því ekki ábyrgð á því að neytandinn fái heimild til þess að aka vélsleðanum um eignarlönd annarra manna. Kröfur, sem verða til eftir að kaup eru gerð, falla utan ákvæðisins, en það getur hins vegar leitt af samningi að slíkar kröfur hafi þýðingu. Þar við bætist að atvik, sem verða til þess að notkun hlutarins er bönnuð, geta leitt til þess að ekki sé unnt að ná því markmiði sem að var stefnt með kaupunum.
    Í g-lið er ákvæði sem kveður á um að söluhlutur skuli vera laus við kvaðir frá þriðja manni um rétt yfir söluhlut. Samkvæmt ákvæðinu skal söluhlutur einnig vera laus við kröfur þriðja manns um kvaðir í hlutnum, enda þótt þeim sé mótmælt, nema kröfurnar séu augljóslega órökstuddar. Ákvæðið á sér fyrirmynd í norskum lögum um neytendakaup. Þó að sambærilegt ákvæði sé ekki að finna í lögum um lausafjárkaup er þar í 1. og 3. mgr. 41. gr. fjallað um vanheimild og kröfur þriðja manns til réttar yfir söluhlut og hafa þau ákvæði sömu þýðingu og g-liður 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Í 16. gr. frumvarpsins kemur fram hvenær söluhlutur telst gallaður. Í kaupalögunum er ekki að finna sambærilegt ákvæði þar sem kveðið er á um það á einum stað hvenær galli er fyrir hendi.
    Í a-lið 1. mgr. er kveðið á um að hlutur teljist gallaður ef hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 15. gr. Þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringa. Ákvæðið er í samræmi við 5. mgr. 17. gr. kaupalaga.
    Í b-lið 1. mgr. er ákvæði sem er sambærilegt ákvæði b-liðar 1. mgr. 19. gr. kaupalaganna. Þar kemur fram að söluhlutur telst gallaður ef seljandinn hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði sem verulegu máli skipta varðandi söluhlut eða notkun hans og seljandi hlaut að vita um. Þá er það skilyrði samkvæmt ákvæðinu að neytandi hafi mátt ætla að hann fengi upplýsingar um þessi atriði. Einnig verður vanrækslan að hafa haft áhrif á það að kaup voru gerð. Í raun felst í ákvæðinu skylda seljanda til að gefa upplýsingar um alla galla eða óheppilega eiginleika söluhlutar sem máli skipta en kanna verður í hverju einstöku tilviki fyrir sig til hvaða upplýsinga ákvæðið nær. Um er að ræða lágmarksreglu, sem ekki er unnt að víkja til hliðar með almennri tilvísun eins og þeirri að hlutur sé „seldur í því ástandi sem hann er“. Nær upplýsingaskylda seljanda ekki aðeins til atvika sem hann þekkir heldur líka til atvika sem ekki er afsakanlegt að seljandinn viti ekki um. Láti seljandinn hjá líða að upplýsa um slík atvik eru afleiðingarnar eftir atvikum þær að söluhlutur telst gallaður.
    Í c-lið er að finna reglu sem samsvarar 1. mgr. 18. gr. kaupalaganna og 3. tölul. 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup. Í ákvæðinu er fjallað um þær upplýsingar sem gefnar eru að frumkvæði seljanda við almenna markaðssetningu eða á annan hátt. Með markaðssetningu er átt við auglýsingar, kvikmyndir, myndbönd o.s.frv. Í orðalaginu „á annan hátt“ felst að undir ákvæðið falla t.d. upplýsingar sem seljandi gefur neytanda við kaupin. Það er ekki skilyrði að upplýsingarnar hafi verið gefnar skriflega, heldur nægir að þær hafi komið fram gagnvart neytanda t.d. í samningi, bréfaskiptum eða munnlega við samningsgerð.
    Til að upplýsingar frá seljanda geti verið grundvöllur ábyrgðar verða þær að hafa verið afmarkaðar og að vissu marki sérgreindar. Oft eru upplýsingar, sem fram koma við markaðssetningu, svo almennar og óljósar að þær geta ekki orðið grundvöllur kröfugerðar á hendur seljanda vegna galla . Slíkar upplýsingar eru þó ekki þýðingarlausar þar sem að þær geta haft vissa þýðingu við mat á því hverra gæða varðandi hlutinn neytandinn gat vænst.
    Það er ekki skilyrði samkvæmt ákvæðinu að seljandinn hafi sjálfur persónulega gefið upplýsingarnar, heldur ber seljandinn einnig ábyrgð á þeim upplýsingum sem starfsmenn hans eða aðrir þeir sem fram koma fyrir hans hönd hafa gefið, enda hafi þeir haft umboð eða heimild til þess. Það er ekki skilyrði að viðkomandi hafi umboð til þess að gera sjálfan kaupsamninginn, heldur nægir að hann haft umboð til þess að gefa upplýsingarnar.
    Það er heldur ekki skilyrði skv. c-lið 1. mgr. að seljandinn hafi sýnt af sér gáleysi við upplýsingagjöf eða gefið upplýsingar gegn betri vitund. Þótt seljandanum hafi ekki verið ljóst að upplýsingar væru rangar, eða hann eftir atvikum hefur verið í góðri trú, getur eigi að síður verið unnt að líta svo á að söluhlutur sé gallaður ef hann er ekki í samræmi við upplýsingarnar. Þegar hins vegar kemur að afleiðingum gallans getur huglæg afstaða seljandans haft þýðingu eins og við galla annars.
    Yfirleitt er ekki talið að upplýsingar um hlutinn og notkun hans í leiðbeiningum sem fylgja hlutnum við afhendingu hafi komið fram í tengslum við kaupin. Því falla upplýsingar í leiðbeiningum ekki beint undir orðalag ákvæðisins.
    Það að söluhlutur svari ekki til þeirra upplýsinga sem seljandinn hefur gefið tekur í fyrsta lagi til allra upplýsinga sem eru rangar. Í öðru lagi tekur ákvæðið til upplýsinga sem eru í sjálfu sér réttar en eru settar fram villandi hátt.
    Í d-lið 1. mgr. 16. gr. kemur fram að söluhlutur telst vera gallaður er nauðsynlegar upplýsingar fylgja ekki söluhlut, t.d. upplýsingar um uppsetningu, samsetningu, notkun, umönnun og geymslu hlutarins. Svipað ákvæði er að finna í 2. málsl. 4. mgr. 17. gr. kaupalaga, en ákvæðið er í samræmi við 2. málsl. 5. mgr. 2. gr. tilskipunar um neytendakaup. Seljanda ber því samkvæmt ákvæðinu að veita greinargóðar og skýrar leiðbeiningar til neytanda þegar hinn síðarnefndi á að setja vöruna upp eða saman sjálfur. Ef seljandi fullnægir ekki þessari skyldu og neytanda tekst ekki að setja hlutinn rétt saman af þeim sökum telst varan gölluð. Ákvæðið nær einnig til leiðbeininga um notkun, umönnun og geymslu hlutarins.
    Í 2. mgr. 16. gr. er ákvæði sem er sambærilegt ákvæði 2. mgr. 18. gr. kaupalaga. Í ákvæðinu er kveðið á um það hvernig fara skuli með upplýsingar sem annar en seljandinn hefur gefið á hans vegum eða gefnar hafa verið á fyrri sölustigum. Málsgreinin nær aðeins til þeirra upplýsinga sem veittar eru við markaðssetningu, hvernig sem hún hefur farið fram. Í ákvæðinu eru umbúðir söluhlutar og auglýsingar nefndar sérstaklega. Ekki er um tæmandi talningu að ræða, heldur er þetta einungis gert í dæmaskyni. Seljandinn ber ekki aðeins ábyrgð á fyrri söluaðilum, heldur einnig öðrum sem sjá um markaðssetningu hlutarins á vegum seljanda, má þar t.d. nefna framleiðenda og innflytjanda hlutarins. Upplýsingar samkeppnisaðila um sambærilega hluti falla utan gildissviðs ákvæðisins þar sem þær teljast ekki gefnar á vegum seljanda.
    3. mgr. 16. gr. er sambærileg ákvæði 1. mgr. 20. gr. kaupalaga. Ákveðið var að taka 2. og 3. mgr. 20. gr. kaupalaga um rannsóknarskyldu neytanda ekki upp í frumvarp til laga um neytendakaup þar sem það var ekki talið samræmast 3. mgr. 2. gr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í ákvæðinu er fjallað um vonda trú neytanda og kveðið á um að neytandinn geti ekki komið fram með kröfu vegna galla ef um er að ræða atvik sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaup áttu sér stað. Í ákvæðinu felst ekki aðeins að neytandanum hafi verið kunnugt um viðkomandi atvik heldur líka að hann hafi áttað sig á þýðingu þess sem galla. Í málsgreininni er ekki einungis fjallað um það sem neytandinn vissi um heldur einnig það sem hann mátti vita um þegar kaup voru gerð. Samkvæmt þessu er ekki þörf á að sanna það að neytandinn hafi í raun vitað um atvik. Heldur nægir að sýna fram á að neytandanum hljóti að hafa verið kunnugt um atvik. Ákvæðið útilokar þó ekki kröfu af hálfu neytanda vegna galla sem hann vissi eða mátti vita af ef ráð var fyrir því gert að seljandinn bætti úr gallanum eftir að kaup gerðust.
    Tímamarkið sem miðað er við í ákvæðinu er það þegar kaupin voru gerð og því á málsgreinin ekki við þegar neytandinn fékk vitneskju um atvik eftir kaup, en áður en afhending átti sér stað. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik að kaupandi bíls kemst að því eftir kaup, en áður en hann veitir bílnum viðtöku, að bíllinn hefur áður lent í tjóni. Getur neytandi þá borið slíkt fyrir sig sem galla.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að neytandinn geti ekki borið fyrir sig galla sem rekja má til efniviðar sem neytandinn hefur sjálfur lagt til. Markmið ákvæðisins er að deila áhættunni í slíkum tilvikum. Undantekning frá meginreglu 1. málsl. málsgreinarinnar kemur fram í 2. málsl. þar sem kveðið er á um að reglan gildi ekki í þeim tilvikum þegar seljandinn hefði átt að ráða neytandanum frá notkun efnisins vegna óhentugra eiginleika þess. Ekki er að finna sambærilegt ákvæði í kaupalögum, en þetta ákvæði eins og aðrar reglur frumvarpsins um samninga þar sem neytandinn leggur sjálfur til efnivið í pöntunarkaupum byggist á 4. mgr. 1. gr. tilskipunar um neytendakaup.

Um 17. gr.

    Í frumvarpsgreininni er kveðið á um þær reglur sem gilda þegar samið er um að hlutur sé seldur í því ástandi sem hann er. Þá eru í greininni ákvæði um sölu á notuðum hlutum á uppboði. Ákvæðið er að mörgu leyti sambærilegt ákvæði 19. gr. laga um lausafjárkaup. Þó eru lagðar til breytingar á orðalagi a-liðar 1. mgr. til að aðlaga íslenskan rétt um neytendakaup 1. mgr. 7. gr. og tilskipun um neytendakaup. Breytingarnar felast aðallega í því að orðalagi er breytt þannig að ekki er lengur gerð krafa um að ástand söluhlutar skuli verað „til muna“ verra en neytandi hafði ástæðu til að ætla, heldur nægir til að hægt sé að beita ákvæðinu að söluhlutur sé í „verra“ ástandi en neytandi gat gert ráð fyrir. Er þessi breyting í samræmi við norskan, finnskan og sænskan rétt á sviði neytendakaupa. Þá eru lagðar til breytingar á texta 2. mgr. ákvæðisins til aðlögunar að 3. mgr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í 1. mgr. 17. gr. er fjallað um þau tilvik þegar seljandinn hefur gert fyrirvara um að hlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“ eða annan álíka almennan fyrirvara. Slíkir skilmálar gilda yfirleitt ekki um sölu nýrra eða notaðra hluta og kemur skýrlega fram í ákvæðinu að gera verður sérstakan fyrirvara um þetta efni. Þá felst það í málsgreininni að slíkan almennan fyrirvara má ekki túlka bókstaflega þar sem seljandi ber alltaf ábyrgð á ákveðnum göllum sem nefndir eru í a- og b-lið ákvæðisins.
    Í a-lið 1. mgr. kemur fram að seljandinn er ávallt ábyrgur ef í ljós kemur að söluhlutur er í verra ástandi en neytandinn hafði ástæðu til að ætla. Gerir ákvæðið ráð fyrir að við mat á ástandi hlutar sé m.a. stuðst við kaupverð og atvik að öðru leyti. Óheiðarleiki af hálfu seljanda er ekki eitt af skilyrðum þess að unnt sé að beita ákvæðinu. Ákvæðið er samhljóða c-lið 1. mgr. 19. gr. kaupalaga að öðru leyti en því að aðeins er gerð krafa um að söluhlutur sé í verra ástandi en neytandi hafði ástæðu til að ætla, en ekki um að söluhlutur sé í til muna verra ástandi en neytandi mátti búast við.
    Í b-lið 1. mgr. er kveðið á um að söluhlutur teljist gallaður ef fyrir liggja atvik sem lýst er í b- eða c-lið 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins, þ.e. ef seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði varðandi hlutinn eða not hans og seljandi hlaut að þekkja til og neytandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin eða ef söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun og ætla má að hafi haft áhrif á kaupin. Er þetta að mestu í samræmi við a- og b-lið 1. mgr. 19. gr. kaupalaga.
    Í 2. mgr. er fjallað um sölu notaðra hluta á uppboði og er ákvæðið að mestu leyti sama efnis og 2. mgr. 19. gr. kaupalaga. Þó er lögð til sú breyting til samræmis við Evróputilskipunina um neytendakaup að það skilyrði verði sett fyrir því að ákvæðið gildi að neytandi hafi haft möguleika á að vera viðstaddur uppboðið þar sem söluhlutur var seldur. Í ákvæðinu er kveðið á um að reglur 1. mgr. gildi á sama hátt við sölu notaðra hluta á uppboði eftir því sem við getur átt. Ákvæðið á bæði við um sölu á frjálsu uppboði og nauðungarsölu, en þó ganga ákvæði laga um nauðungarsölu framar þar sem í millum skilur.
    Rétt er að hafa það í huga að sala á uppboði lýtur að mörgu leyti öðrum lögmálum en önnur sala, enda er gert ráð fyrir því í ákvæðinu með orðunum „eftir því sem við getur átt“. Helst tíðkast að hlutur sé boðinn til sölu „eins og hann er“ og er bjóðendum ætlað að meta eiginleika hans og verðleggja hann í samræmi við það. Ekki er ástæða til að gera seljandann ábyrgan þótt hlutur henti ekki til þeirra nota sem slíkir hlutir eru venjulega notaðir til. Enn síður er ástæða til að leggja ábyrgð á seljandann af því tilefni að hlutur hentar ekki til þeirra sérstöku nota sem neytandinn ætlaði að hafa af honum, enda er það ekki fyrr en við sölulok að seljandinn veit hver neytandinn er. Til að ákvæði 1. mgr. 17. gr. gildi við sölu notaðra hluta á uppboði þar sem neytandi hefur ekki haft möguleika á að vera viðstaddur og við sölu nýrra hluta á uppboði verður að semja sérstaklega um það.

Um 18. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um við hvaða tímamark skal miða mat á því hvort söluhlutur er haldinn galla.
    1. mgr. 18. gr. er í samræmi við 1. mgr. 21. gr. kaupalaga. Í málsgreininni er kveðið á um að ákvörðun um það hvort hlutur er gallaður eða ekki skuli tekin með hliðsjón af ástandi hans á því tímamarki þegar áhættan af hlutnum fluttist yfir til neytandans. Það skiptir þó ekki máli hvort gallinn kemur fram seinna ef hann var til staðar á áhættuskiptatímanum sem yfirleitt miðast við afhendingu, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Þannig ber seljandinn einnig ábyrgð á hinum svokölluðu leyndu göllum. Samkvæmt ákvæðinu skiptir orsök gallans ekki máli.
    2. mgr. frumvarpsgreinarinnar á sér ekki hliðstæðu í gildandi lögum en byggist á 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup. Í ákvæðinu er kveðið á um að galli, sem kemur upp innan sex mánaða frá því að áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda, skuli talinn hafa verið til staðar á tímamarki áhættuflutningsins. Gilda því ákvæði 1. mgr. um slíkan galla með þeirri undantekningu þegar telja verður að það geti ekki á nokkurn hátt samrýmst eðli gallans eða vörunnar. Ákvæðið hefur fyrst og fremst þýðingu við bilanir sem rekja má til framleiðslugalla. Það getur þó einnig haft þýðingu þó að bilanir verði ekki raktar til framleiðslugalla. Það að galli sem upp kemur innan sex mánaða frá áhættuflutningi verði talinn hafa verið til staðar við flutning áhættunnar er talið gilda nema annað sannist. Þetta þýðir í raun að seljandi verður að sýna fram á að gallinn hafi ekki verið fyrir hendi við flutning áhættunnar af söluhlut til neytanda. Í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði um það hvernig seljandi getur sýnt fram á þetta. Ákvæðið hefur þó engin áhrif á þá meginreglu að það er neytandinn sem hefur sönnunarbyrðina fyrir að galli í skilningi 15. og 16. gr. frumvarpsins sé fyrir hendi. Til að undantekningarákvæði málsgreinarinnar eigi við verður það að vera ósamrýmanlegt eðli gallans eða vörunnar að telja að gallinn hafi verið fyrir hendi við áhættuflutninginn. Undantekning er varðar eðli vörunnar mundi helst koma til um hluti með stuttan endingartíma þar sem eðlilegt er að hluturinn eyðileggist innan tímafrests ákvæðisins. Þar sem neytandi getur ekki með réttu vænt þess að söluhlutur eða hlutar hans endist lengur en tímafrestur ákvæðisins er ekki hægt að ætla að bilun eða eyðileggingu hlutarins megi rekja til atvika sem voru til staðar við flutning áhættunnar yfir til neytanda. Undantekningar er varða eðli gallans geta t.d. varðað tilvik þar sem orsaka gallans er að leita í atvikum sem urðu eftir áhættuflutninginn og þar sem gallinn sjálfur, út frá almennri reynslu, bendir til þessa. Sem dæmi um þetta má nefna tilvik þar sem aðstæður benda til að söluhlutur hafi orðið fyrir höggi sem honum hefur frá upphafi ekki verið ætlað að þola.
    Seljandinn getur einnig borið ábyrgð á göllum sem koma fram síðar. Er þar um tvö tilvik að ræða og er fjallað um þau í 3. mgr. 18. gr. frumvarpsins, en 1. og 2. málsl. hennar eru samhljóða 2. mgr. 21. gr. kaupalaga. Þá er ákvæðið í samræmi við 5. mgr. 2. gr. tilskipunar um neytendakaup. Fyrra tilvikið sem fjallað er um í ákvæðinu er það að galla megi rekja til vanefnda seljanda, t.d. vegna skyldna hans sem samkvæmt samningnum ná til tímans eftir afhendingu en seljandi vanrækir að sinna. Sem dæmi má nefna skyldu seljanda til þess að setja hlutinn upp, pakka honum inn eða sjá um flutning hans. Seljandinn getur einnig hafa tekið á sig skyldur varðandi eftirlit og viðhald á hlutnum í ákveðinn tíma eftir afhendingu. Hins vegar felst það í orðalagi ákvæðisins að seljandi verður ekki ábyrgur á grundvelli laga um neytendakaup vegna tjóns sem hann veldur á hlutnum eftir að skyldum hans í tengslum við kaupin er lokið. Sem dæmi má nefna það tilvik þegar seljandi kemur í heimsókn til neytanda og veldur tjóni á söluhlut. Í slíkum tilvikum mundi ábyrgð seljanda ekki verða reist á reglum laga um neytendakaup heldur á almennum reglum um bótaábyrgð utan samninga.
    Síðara tilvikið kemur fram í 2. málsl. 3. mgr. 18. gr., en þar er gert ráð fyrir að seljandi geti borið ábyrgð á galla eftir þau tímamörk sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. ef hann með yfirlýsingu eða á annan sambærilegan hátt hefur ábyrgst að hluturinn hafi tiltekna eiginleika eða að hann megi nota með venjulegum eða sérstökum hætti. Dæmi um þetta er yfirlýsing um ryðvörn og ábyrgð í því sambandi. Yfirlýsingar um það að matvöru megi neyta fram til ákveðins dags felur líka í sér ábyrgð af þessu tagi.
    Ætlast er til þess að hugtakið „tiltekinn tími“ í ákvæðinu nái einnig til ábyrgðaryfirlýsinga sem eru takmarkaðar við tiltekna notkun. Dæmi um þetta er þegar ábyrgð á seldri bifreið er takmörkuð við fyrstu 50 þúsund kílómetrana sem bifreiðinni er ekið.
    Í lokamálslið 3. mgr. er kveðið á um að ábyrgðaryfirlýsing sé bindandi fyrir yfirlýsingargjafann með þeim skilyrðum sem fram koma í yfirlýsingunni og í auglýsingum tengdum henni. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í kaupalögunum, en ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 6. gr. tilskipunar um neytendakaup.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um úrræði neytanda vegna afhendingardráttar seljanda. Í 19. gr. eru úrræði sem standa neytanda til boða tíunduð, en síðan er fjallað um hvert úrræði í sérstöku ákvæði. Þannig er fjallað um rétt neytanda til að halda eftir greiðslu kaupverðs vegna greiðsludráttar seljanda í 20. gr. og um rétt neytanda til efnda í 21. gr. Í 22. gr. frumvarpsins er fjallað um fyrirspurnir og tilkynningar seljanda til neytanda þegar seljandi afhendir söluhlut ekki á umsömdum afhendingartíma. Í 23. gr. er fjallað um riftunarrétt neytanda vegna greiðsludráttar seljanda og í 24. gr. um rétt neytanda til skaðabóta. Í 25. gr. er loks fjallað um skyldu seljanda til að upplýsa neytanda um hindrun sem kemur í veg fyrir að hann geti efnt kaupin á réttum tíma.

Um 19. gr

    Í greininni er almennt yfirlit um þau vanefndaúrræði sem standa neytanda til boða þegar seljandi afhendir ekki söluhlut eða afhendir hann of seint. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði 22. gr. kaupalaga, en framsetning þess er nokkuð breytt með það fyrir augum að gera lagatextann skýrari.
    Í 1. mgr. 19. gr. eru talin upp þau úrræði sem neytandi hefur þegar seljandinn afhendir ekki söluhlut eða afhendir hann of seint. Neytandi getur þá skv. a-lið haldið eftir greiðslu kaupverðsins, en nánar er fjallað um það í 20. gr. frumvarpsins. Skv. b-lið getur neytandinn krafist efnda með þeim skilyrðum sem fram koma í 21. gr. frumvarpsins. Þá getur neytandi skv. c-lið 1. mgr. krafist riftunar á grundvelli 23. gr. frumvarpsins og loks getur neytandi skv. d-lið krafist skaðabóta á grundvelli 24. gr. frumvarpsins að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar koma fram.
    Ákvæðið á aðeins við um greiðsludrátt af hálfu seljanda og því er það skilyrði sett fyrir beitingu úrræðanna að ekki sé hægt að kenna neytanda eða atvikum sem hann varða um greiðsludrátt. Sem dæmi um greiðsludrátt sem rekja má til neytanda má nefna það tilvik þegar neytandinn lætur hjá líða að sækja söluhlut eins og um var samið. Tilvísun ákvæðisins til atvika sem neytandann varða tekur ekki eingöngu mið af atvikum þar sem greiðsludráttur er beinlínis afleiðing vanrækslu af hálfu neytanda heldur er og miðað við atvik sem neytandinn ber áhættuna af. Það getur t.d. verið að tilviljunarkenndur atburður valdi því að neytandinn getur ekki sótt hlutinn.
    Ekki er um tæmandi talningu úrræða að ræða í 1. mgr. Til þess að fá heildarsýn yfir stöðu neytanda verður að líta til þeirra skilyrða sem gilda um beitingu einstakra úrræða, sbr. ákvæði 20. gr. um rétt til að halda kaupverði, ákvæði 21. gr. um efndir, ákvæði 23. gr. um riftun og ákvæði 24. gr. um skaðabætur.
    Neytandinn getur að sjálfsögðu ekki samtímis rift kaupum og krafist efnda, en að öðru leyti útilokar einstök vanefndaheimild ekki beitingu annarrar heimildar án þess að annað og meira komi til.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er sérstaklega tekið fram að rétturinn til þess að krefjast skaðabóta falli ekki niður þótt neytandi setji fram aðrar kröfur eða ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram. Ákvæðið er sambærilegt við 2. málsl. 1. mgr. 22. gr. kaupalaga.
    Venjulega er það ekki vandkvæðum bundið að skýra hvað felst í hugtakinu greiðsludráttur. Það getur þó valdið erfiðleikum hvað þetta varðar ef afhendingartími hefur ekki verið nákvæmlega tilgreindur í samningi. Sem dæmi um þetta má nefna ef afhenda á vöru samkvæmt samningi „um páskana“. Í ákvæðinu er skýrt kveðið á um að sé hlutur alls ekki afhentur er um greiðsludrátt að ræða og ætti þetta að taka af skarið í þeim tilfellum þar sem það er álitamál hvort um er að ræða greiðsludrátt eða galla. Stundum er söluhlutur aðeins afhentur að hluta. Í slíkum tilvikum verður að taka mið af því hvort ætla megi að seljandinn hafi lokið afhendingu sinni.
    Samkvæmt 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar gilda ákvæðin um greiðsludrátt eftir því sem við getur átt í þeim tilvikum þegar seljandinn fullnægir ekki nógu snemma öðrum skyldum sínum en afhendingu sjálfs söluhlutarins. Í málsgreininni er þó að finna undantekningu sem felur í sér að ákvæði 3. og 4. mgr. 23. gr. frumvarpsins um riftun þegar settur hefur verið viðbótarfrestur skuli ekki gilda. Rökin fyrir undantekningunni eru að riftun er afdrifaríkt vanefndaúrræði og því er nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um riftunarheimild neytanda. Orð 3. mgr., „eftir því sem við getur átt“, gefa tilefni til mats í hverju einstöku tilviki. Er það notað til þess að leggja á það áherslu að við beitingu hinna einstöku heimilda verður að taka mið af því hvers konar skylda það er sem hefur verið vanefnd. Síðari málsliður 3. mgr. kveður á um að ákvæðið sé frávíkjanlegt. Seljandi getur því samið sig frá þeirri ábyrgð vegna greiðsludráttar varðandi aukaskyldur sem annars leiðir af ákvæðum laganna.

Um 20. gr.

    Ákvæðið svarar til 42. gr. kaupalaga. Í frumvarpsgreininni felst regla um heimild neytanda til þess að halda eigin greiðslu til tryggingar kröfum sem leiðir af greiðsludrætti seljanda.
    Samkvæmt frumvarpsgreininni nær réttur neytanda til þess að halda eftir svo miklu af kaupverðinu að nægi til að tryggja vanefndakröfu hans. Meta verður það í hverju einstöku tilfelli hversu stórum hluta kaupverðsins neytandi getur haldið eftir og gerir frumvarpið ráð fyrir ákveðnu svigrúmi að því er það varðar. Þegar krafa neytanda er fyrst og fremst um efndir samkvæmt aðalefni samnings, t.d. efndir eða úrbætur á galla, getur verið erfitt að meta hversu stórum hluta kaupverðsins krafa neytanda samsvarar. Réttur neytanda samkvæmt ákvæðinu er hugsaður sem trygging fyrir öllum kröfum sem neytandinn getur öðlast og því getur neytandi eftir atvikum haldið öllu kaupverðinu eftir þegar um greiðsludrátt seljanda er að ræða.
    Ef neytandi heldur eftir augljóslega hærri fjárhæð en sem nemur þeirri kröfu sem hann átti á hendur seljanda verður afleiðingin sú að hann verður að greiða dráttarvexti af mismuninum, sbr. 1. mgr. 46. gr. frumvarpsins.
    Það getur valdið vafa um heimild til beitingar ákvæðisins þegar vanefndakrafa neytanda er óljós eða umdeild og því er um vandmeðfarið úrræði að ræða.
    Neytandinn ber áhættuna af því að hann á í raun og veru kröfu sem stafar af vanefnd seljanda. Komi í ljós að neytandinn hafi enga slíka kröfu átt getur seljandinn beitt vanefndaúrræðum í tilefni þess að kaupverðið er ekki greitt.

Um 21. gr.

    Í 21. gr. frumvarpsins er fjallað um rétt neytanda til þess að krefjast efnda í samræmi við efni samnings (efndir in natura). Ákvæðið er efnislega í samræmi við 23. gr. kaupalaga. Samkvæmt ákvæðinu á neytandi rétt á því að halda fast við kaup og krefjast efnda hafi seljandi ekki afhent söluhlut á umsömdum tíma. Þar sem réttur neytanda til efnda verður að teljast eðlilegur, þar sem það er í samræmi við kaupsamning að seljandi fullnægi skyldum sínum, má segja að meginhlutverk ákvæðisins sé að mæla fyrir um það við hvaða aðstæður seljandinn getur komist hjá því að fullnægja þessum skyldum sínum.
    Í 1. mgr. 21. gr. kemur fram sú meginregla að neytandi getur haldið fast við kaup og krafist afhendingar eða annarra efnda ef söluhlutur hefur ekki verið afhentur á umsömdum afhendingartíma. Ef neytandinn á þess kost að útvega sér hlutinn annars staðar er sjálfsagt eðlilegast að hann rifti kaupum. Hins vegar getur líka verið að hann hafi gert kaup með góðum kjörum eða að seljandinn sé nánast í einokunarstöðu á markaðinum. Getur þá mun fremur reynt á efndir, og sama á við þegar um er að ræða sérstaklega mikilvæga og einstaklega ákveðna hluti.
    Í 2. mgr. kemur fram undantekning frá meginreglu 1. mgr. Samkvæmt málsgreininni er seljandinn í fyrsta lagi laus undan efndaskyldunni ef um er að ræða efndahindrun sem hann ræður ekki við. Geta öll atvik, sem í raun hindra efndir, haft þýðingu í þessu sambandi. Ástæða hindrunar ræður ekki úrslitum um skylduna til afhendingar en hefur á hinn bóginn mikla þýðingu varðandi skaðabótaábyrgð. Því á ákvæðið jafnt við hvort sem hindrun er honum að kenna eða ekki. Það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að hindrun sé með þeim hætti að seljandi ráði ekki við hana. Í skilyrðinu felst ekki krafa um algjöran ómöguleika, en ákvæðið gerir hins vegar ráð fyrir að atvik séu þannig að seljandinn fái ekki með skömmum fyrirvara ráðið við hindrunina án mjög sérstakra vandkvæða. Seljandi hefur þá grundvallarskyldu samkvæmt samningnum að ljá atbeina sinn til að sigrast megi á þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir efndum samningsins og því verður að telja að á meðan unnt er að komast hjá eða ráða við erfiðleika með góðum úrræðum verði ekki litið svo á að um efndahindrun í skilningi ákvæðisins sé að ræða.
    Við mat á því hvort efndahindrun í skilningi ákvæðisins er fyrir hendi er mikilvægt að líta til skyldna seljanda samkvæmt samningnum. Því afmarkaðri og sérgreindari sem skyldur seljanda eru þeim mun meiri eru líkurnar til þess að fram komi hindranir sem seljandinn ræður ekki við.
    Mikilvægt er að hafa í huga að það er aðeins sjálf skyldan til efnda sem seljandinn getur losnað undan, en hann losnar ekki undan öðrum skyldum samkvæmt samningnum nema því aðeins að slíkar skyldur séu beinlínis háðar aðalskyldunni, t.d. sú skylda að pakka vöru og merkja hana. Þar fyrir utan er litið á það sem vanefnd að láta hjá líða að fullnægja efndaskyldunni. Af því leiðir að neytandi getur gripið til annarra vanefndaúrræða þegar skilyrðin eru til staðar.
    Önnur undanþága 2. mgr. felst í því að seljandi er laus undan efndum ef þær hafa í för með sér slíkt óhagræði eða kostnað fyrir hann að það væri í verulegu ósamræmi við hagsmuni neytanda að fá réttar efndir. Ef kostnaður eða óhagræði við efndir verður úr hófi fram má í sjálfu sér segja að fyrir hendi sé efndahindrun sem seljandinn ræður ekki við. En jafnvel þótt hindrun sé ekki þess eðlis getur seljandinn eigi að síður losnað undan skyldunni samkvæmt þeirri viðmiðun sem fram kemur í niðurlagi ákvæðisins. Við ákvörðun á því hvort undantekning þessi eigi við verður að meta hagsmuni neytanda af því að seljandi efni skyldur sínar annars vegar og hins vegar óhagræði og kostnað seljanda af efndum. Ræður það fyrst og fremst úrslitum hvort um verulegt misræmi er að ræða milli óhagræðis og kostnaðar seljanda og hagsmuna neytanda af efndum. Einstök atriði samningsins hafa áhrif á matið. Sem dæmi um atriði sem skipta máli má nefna eðli kaupanna og hver söluhlutur er. Ef um er að ræða vöru sem er viðkvæm fyrir verðsveiflum verður að telja að það leiði af atvikum í tengslum við kaupin að seljandinn verði að sætta sig við verðhækkanir að ákveðnu marki áður en unnt er að halda því fram að um efndahindrun í skilningi ákvæðisins sé að ræða. Sama gildir ef seljandinn hefur tekið að sér að mjög flóknar og kostnaðarsamar efndir. Þá getur hann ekki seinna borið það fyrir sig að hann sé laus undan afhendingu af þeirri ástæðu að það hafi verið mjög kostnaðarsamt að efna samninginn. Aðalreglan er sú að seljandi er aðeins laus undan efndum í sérstökum undantekningartilvikum.
    Við mat á hagsmunum neytanda af efndum verður m.a. að taka tillit til þess hverja möguleika hann hefur á að fá sama hlut annars staðar.
    Þótt seljandi sé laus undan efndum skv. 1. og 2. mgr. 21. gr. er í sjálfu sér um vanefndir að ræða í skilningi 19. gr. Því hafa undanþágur 2. mgr. 21. gr. aðeins þýðingu varðandi skyldu seljanda til efnda, en útiloka engan veginn að neytandinn geti neytt annarra vanefndaúrræða. Þar sem skilyrði fyrir lausn undan skaðabótaskyldu skv. 24. gr. eru strangari en skilyrðin fyrir lausn undan efndaskyldunni getur neytandinn í mörgum tilvikum krafist skaðabóta fyrir tjón sitt þótt hann geti ekki krafist efnda samkvæmt aðalefni samningsins.
    Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. getur lausn undan efndum aðeins átt við meðan afsökunarástæðan er fyrir hendi. Það er jafnframt skilyrði að hún falli brott innan hæfilegs tíma. Þegar langur tími er liðinn er lítil ástæða til þess að seljandinn sé áfram skyldur til efnda. Við mat á því hvað teljist hæfilegur tími skiptir bæði máli hvers eðlis greiðslan er og hagsmunir neytanda af efndum seljanda. Upphaf frestsins hlýtur að miðast við umsaminn afhendingartíma. Það sem telst „hæfilegur tími“ í þessu samhengi getur bæði verið lengra og styttra en það sem leiðir af samsvarandi orðalagi í reglunum um tilkynningarskyldu.
    Í 3. mgr. kemur fram tómlætisregla sem felst í því að neytandinn glatar rétti sínum til að krefjast efnda ef hann dregur óeðlilega lengi að setja fram kröfu um efndir. Það hve lengi neytandi getur dregið að setja fram kröfu veltur á atvikum hverju sinni, t.d. eðli kaupa og framferði seljanda eftir að greiðsludráttur varð. Þó má segja að frestur til að krefjast efnda sé yfirleitt lengri en frestur til þess að rifta kaupum eða krefjast skaðabóta eftir afhendingu.

Um 22. gr.

    Í greininni er fjallað um fyrirspurnir og tilkynningar seljanda til neytanda og svarar ákvæðið til 24. gr. laga um lausafjárkaup.
    Í ákvæðinu er kveðið á um aðstæður sem koma upp þegar seljandi afhendir söluhlut ekki á umsömdum afhendingartíma en sendir fyrirspurn til neytanda um það hvort hann vilji veita hlut viðtöku innan tiltekins tíma þrátt fyrir seinkun. Ef neytendi svarar fyrirspurn seljanda ekki innan hæfilegs tíma glatar hann réttinum til að rifta kaupunum.
    Ákvæðið setur það skilyrði um skýrleika fyrirspurnar eða tilkynningar seljanda að seljandinn hafi tilgreint ákveðinn tíma til efnda. Þar að auki er það skilyrði að efndir hafi í raun orðið á þeim tíma sem nefndur var.
    Hvað telst „hæfilegur tími“ hjá neytanda í þessum efnum ræðst af mati á atvikum og aðstæðum í hverju tilviki, en yfirleitt verður að krefjast skjótra viðbragða af hans hálfu.
    Réttur neytanda til þess að krefjast riftunar fellur ekki alltaf niður þótt hann svari of seint. Hafi seljandinn t.d. tiltekið afhendingartíma er riftun samt sem áður hugsanleg ef afhending verður ekki á þeim nýja tíma sem seljandinn hefur tiltekið og sá dráttur er verulegur. Einnig má vera að loks þegar seljandinn afhendir hlutinn komi í ljós að á honum sé verulegur galli sem réttlæti riftun.
    Nú fullnægir fyrirspurn seljanda ekki kröfum 22. gr. og eiga þá við ákvæði 3. mgr. 21. og ákvæði um riftunarfrest. Þannig heldur neytandinn rétti sínum til þess að krefjast efnda in natura meðan frestur skv. 3. mgr. 21. gr. er ekki útrunninn og riftunarfresturinn hefst ekki fyrr en hluturinn er afhentur.
    Ákvæðum 22. gr. er einnig hægt að beita þegar neytandi hefur sett viðbótarfrest skv. 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins og seljandinn svarar því til að hann geti ekki afhent það sem um var samið fyrr en viðbótarfresturinn er liðinn. Þykir eðlilegt að líta svo á að neytandinn verði einnig að svara fyrirspurn seljanda undir slíkum kringumstæðum, t.d. með því að neytandinn haldi fast við upphaflegan viðbótarfrest.

Um 23. gr.

    Í 23. gr. er mælt fyrir um rétt neytanda til riftunar vegna greiðsludráttar seljanda og svarar ákvæðið til 25., 26. og 29. gr. kaupalaga. Í 1. málsl. 1. mgr. koma fram skilyrði riftunar við greiðsludrátt seljanda. Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 25. gr. kaupalaga. Í ákvæðinu kemur fram það skilyrði fyrir riftun að greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir. Við mat á því hvað eru verulegar vanefndir verður í fyrsta lagi að líta til samnings aðila og atvika við kaup. Annað mikilvægt atriði eru áhrif greiðsludráttar á hagsmuni neytandans. Sök seljanda er ekki skilyrði riftunar, en sök getur haft vissa þýðingu við mat á því hvort vanefndir teljist verulegar.
    Sérstök álitaefni koma upp þegar til viðbótar greiðsludrætti kemur í ljós að söluhlutur er gallaður. Er í slíku tilviki sanngjarnt við mat á skilyrðum fyrir riftun að líta til þeirra heildaráhrifa sem vanefndirnar hafa sameiginlega haft.
    2. málsl. 1. mgr., sem er í samræmi við ákvæði 29. gr. kaupalaga, hefur að geyma viðbótarskilyrði riftunar þegar söluhlutur hefur verið afhentur of seint. Í slíkum tilvikum verður krafa um riftun að koma fram innan sanngjarns frests frá því að neytanda varð kunnugt um afhendinguna.
    Riftun á kaupum verður að fara fram með sérstakri yfirlýsingu neytanda til seljandans. Hvorki yfirlýsingar eða aðvaranir sem gefnar eru fyrir fram né fyrirspurnir sem eru hlutlausar að þessu leyti eru taldar nægja í þessu sambandi. Yfirlýsing af þessu tagi er send á áhættu viðtakanda, en hún tekur hins vegar ekki gildi gagnvart seljandanum og er ekki bindandi fyrir neytanda fyrr en hún er komin til seljanda. Eftir að yfirlýsing er komin til seljanda verður hún ekki einhliða afturkölluð.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um að við mat á því hvort greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir skuli leggja sérstaka áherslu á þýðingu greiðsludráttarins fyrir neytandann. Skal m.a. taka tillit til tegundar söluhlutar sem kaupin varða og þess hvort afhending átti að fara fram á ákveðnum tíma. Sambærilegt ákvæði er ekki í kaupalögunum, en ákvæðið er í samræmi við túlkun 1. mgr. 25. gr. kaupalaga, sbr. greinargerð með frumvarpi til laga um lausafjárkaup. Samkvæmt ákvæðinu ber að kanna hvort greiðsludráttur hefur í raun og veru haft veruleg áhrif á hagsmuni neytandans, en huglæg afstaða neytandans hefur ekki þýðingu við matið. Þá skiptir máli hvort seljandinn sá eða mátti sjá að greiðsludráttur mundi hafa veruleg áhrif á hagsmuni neytanda. Ef riftun kemur mjög illa við seljanda getur verið ástæða til þess að herða á skilyrðinu um verulegar vanefndir. Þá getur það og skipt máli í þessu sambandi hvort hagsmunum neytanda teldist nægilega borgið með greiðslu skaðabóta vegna greiðsludráttarins án þess að jafnframt sé um riftun að ræða.
    Ákvæði 3. mgr. 23. gr. svarar til 2. og 3. mgr. 25. gr. kaupalaga. Málsgreinin veitir heimild til þess að rifta kaupum að liðnum sanngjörnum viðbótarfresti sem neytandi hefur sett þegar afhending hefur ekki farið fram í samræmi við efni samnings. Veitir ákvæðið neytanda heimild til riftunar þegar sanngjarn viðbótarfrestur er liðinn ef greiðsla fer ekki fram innan þess tíma. Þegar svo stendur á, þ.e. hlutur er ekki afhentur áður en viðbótarfrestur er liðinn, getur neytandinn rift kaupum strax, jafnvel þótt ekki sé liðinn svo langur tími að vanefndin teldist ella veruleg. Að öðru leyti hefur ákvæðið um viðbótarfrestinn þann tilgang að leggja áherslu á hagsmuni neytanda af skjótri afhendingu og að skilgreina tímamark riftunar.
    Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. er það skilyrði riftunar að viðbótarfresturinn sé sanngjarn. Við mat á því hvað telst sanngjarnt verður að skoða aðstæður hverju sinni, m.a. með hliðsjón af eðli hlutar og hagsmunum neytanda af því að fá hlutinn afhentan. Liggur áherslan á því hvað telja má viðunandi greiðsludrátt metið út frá hagsmunum neytanda. Ákvæðið tekur mið af því að aðilar kaupsamnings sýni hvor öðrum sanngjarnt tillit. Því á ekki að vera unnt að misnota ákvæðið með því að áskilja sér riftunarrétt vegna óverulegrar seinkunar.
    Viðbótarfrestur samkvæmt ákvæðinu verður að vera afmarkaður með tiltölulega skýrum og ótvíræðum hætti. Þannig væri hvatning til seljanda um að efna sinn hlut „fljótlega“ of óljós til þess að geta haft þýðingu í sambandi við riftunarrétt samkvæmt ákvæðinu. Við ákvörðun viðbótarfrestsins er eðlilegt að hafa hliðsjón af afhendingartímanum, en í tilvikum þar sem fyrir fram er ljóst að greiðsludráttur verður af hálfu seljanda getur neytandi þegar á því tímamarki sett viðbótarfrest samkvæmt fyrri málslið 3. mgr.
    Í síðari málslið 3. mgr. kemur fram að neytandinn getur ekki rift kaupum meðan viðbótarfresturinn er að líða. Undantekning frá þessu er ef seljandinn lýsir því yfir að hann muni ekki efna sinn hlut áður en fresturinn er liðinn. Í slíkum tilfellum getur neytandinn rift kaupunum. Reglan á einungis við um rétt til riftunar vegna greiðsludráttar. Ef neytandinn hefur rétt til riftunar af öðrum ástæðum getur hann notað sér það, jafnvel þótt umræddur viðbótarfrestur sé ekki liðinn.
    Í 4. mgr. 23. gr. er ákvæði sem er sambærilegt ákvæði 26. gr. kaupalaga. Fjallar það um riftun í pöntunarkaupum. Byggjast reglur málsgreinarinnar á því að sérsjónarmið gildi varðandi heimild til riftunar í pöntunarkaupum, þannig að riftunarrétturinn verði þar þrengri en ella mundi vera samkvæmt almennum reglum. Rökin fyrir þessu eru að riftun neytanda í pöntunarkaupum getur komið sér mjög illa fyrir seljandann því að hann getur átt það á hættu að sitja uppi með sérpantaðan hlut sem enginn annar getur notað. Í ákvæðinu kemur þó fram það viðbótarskilyrði að seljandinn geti ekki vegna þess að um pöntunarkaup er að ræða ráðstafað hlutun á annan hátt án verulegs tjóns. Byggist ákvæðið á því að ekki þykir ástæða til að þrengja riftunarrétt í pöntunarkaupum of mikið.
    Ákvæðið á ekki við um öll pöntunarkaup, heldur aðeins kaup sem varða hlut sem er útbúinn sérstaklega fyrir neytanda miðað við fyrirmæli hans eða óskir. Um pöntunarkaup er t.d. að ræða þegar neytandi pantar nokkra stóla frá húsgagnaframleiðanda ef það er forsendan að verksmiðjan framleiði stólana eftir að kaup eru gerð. Ef um er að ræða stóla af tiltekinni gerð, sem verksmiðjan framleiðir einnig í öðrum tilvikum, er ekki unnt að beita 4. mgr. 23. gr. án þess að fleira komi til. Ef þeir eru hins vegar sérstaklega framleiddir fyrir tiltekinn neytanda miðað við fyrirmæli hans og óskir á greinin við.
    Það getur einnig verið álitamál hvenær ákvæðið á við þegar neytandinn getur valið á milli ýmissa staðalstærða eða gerða af hlutum. Dæmi um þetta er t.d. matarkaup á veitingahúsi þar sem neytandinn getur valið af matseðli. Hér verður að meta það, m.a. með hliðsjón af valmöguleikum neytandans, hvort ákvæði 4. mgr. eigi við. En þar fyrir utan kemur síðara skilyrði ákvæðisins einnig mjög til athugunar, þ.e. hvort seljandi geti ráðstafað hlutnum á annan hátt án verulegs tjóns.
    Annað sérstakt skilyrði riftunar af hálfu neytanda í pöntunarkaupum sem fram kemur í 4. mgr. er að tilgangur hans með kaupunum raskist verulega vegna greiðsludráttarins. Því nægir það ekki að greiðsludráttur sé verulegur eða valdi kostnaði og óþægindum ef því skilyrði er engu síður ekki fullnægt að tilgangur kaupanna haldist að öðru leyti.
    Ákvæði greinarinnar eiga þá fyrst við þegar gerð hlutar hefur hafist að marki eða seljandinn hefur gert svipaðar ráðstafanir til undirbúnings efndum. Ef seljandinn hefur á hinn bóginn hvorki lagt í umtalsverða vinnu né kostnað, sem ónýtist við riftun, er ekki ástæða til þess að takmarka riftunarrétt neytanda.

Um 24. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um rétt neytanda til skaðabóta vegna tjóns sem hann verður fyrir vegna greiðsludráttar seljanda.
    1. og 2. mgr. eru hliðstæðar 1. mgr. 27. gr. kaupalaga. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram meginreglan um skaðabótaábyrgð seljanda gagnvart neytanda vegna greiðsludráttar . Þar er kveðið á um að neytandi geti krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann bíður vegna greiðsludráttar. Þetta gildir þó ekki skv. 2. mgr. ef seljandi sýnir fram á að greiðsludrátturinn hafi orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við og ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hefði hindrunina í huga við samningsgerð eða hefði getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum hennar. Því er það meginreglan að neytandinn eigi rétt til skaðabóta vegna þess tjóns sem greiðsludráttur veldur honum, sbr. ákvæði 1. mgr. ákvæðisins, en seljandi getur hins vegar losnað undan bótaskyldu á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í 2. mgr.
    Fullnægja þarf öllum fjórum skilyrðum 2. mgr. ákvæðisins til þess að seljandinn losni undan skaðabótaábyrgð skv. 1. mgr. Í fyrsta lagi þarf hindrun sem veldur afhendingardrætti að vera fyrir hendi. Þarf hindrunin að standa í vegi fyrir umsömdum efndum. Það er ekki skilyrði samkvæmt ákvæðinu að um hlutlægan ómöguleika sé að ræða í þeim skilningi að afhending á réttum tíma sé útilokuð fyrir hvaða seljanda sem er. Sem dæmi um atvik sem geta hindrað efndir má nefna stríð, náttúruhamfarir, alvarlegan bruna eða sprengingar, sem hafa áhrif á starfsemi seljandans, verkföll, útflutnings- og innflutningsbönn eða önnur stjórnvaldsboð. Atvik sem eru einvörðungu fjárhagslegs eðlis geta í sjálfu sér einnig hindrað efndir, t.d. óvenjulegar útgjaldahækkanir eða verðhækkanir. Hins vegar er það ekki nóg að samningurinn standist ekki samkvæmt þeim fjárhagsáætlunum sem seljandi hefur gert eða að það sé verulega miklu dýrara fyrir seljanda að efna samninginn en gera mátti ráð fyrir. Ef efndir hafa í för með sér óþægindi eða kostnað sem ekki er í sanngjörnu hlutfalli við hagsmuni neytanda af efndum getur seljandinn eftir atvikum komist hjá afhendingarskyldu samkvæmt ákvæðum 21. gr. Hins vegar er ekki um að ræða hindrun í skilningi 24. gr. í því tilviki. Ákvæði 24. gr. geta þannig aðeins átt við ef kostnaðaraukinn er slíkur að efndir samningsins valda seljandanum byrði sem hlutlægt séð liggur utan við forsendur þess kaupsamnings sem um er að tefla. Það er alltaf skilyrði samkvæmt ákvæðinu að hindrun valdi því í raun og veru að seljandinn geti ekki efnt kaupin.
    Að hvaða marki unnt er að segja að atvik hindri efndir á réttum tíma mun í mörgum tilvikum fara eftir því hvenær atvikið ber að höndum. Þótt um sé að ræða gjaldgengan einstaklega ákveðinn hlut, sem auðveldlega verður bættur með öðrum, getur tilviljunarkennt tjón, sem verður í flutningi til afhendingarstaðar, gert það ókleift fyrir seljanda að afhenda hann á réttum tíma. Hafi tjón orðið meðan hlutur var enn á lager seljanda er á hinn bóginn ekki um neina hindrun að ræða ef seljandinn getur afhent annan hlut af sama lager.
    Þegar það er metið hvað telst hindrun skiptir efni samningsins miklu máli, umfram allt eðli greiðslu seljanda samkvæmt samningnum.
    Í öðru lagi þarf hindrunin að vera seljanda ofviða, þ.e. þess eðlis að seljandinn fái ekki við hana ráðið, til þess að um ábyrgðarleysi skv. 2. mgr. 24. gr. frumvarpsins geti verið að ræða. Seljandi er ávallt ábyrgur vegna atvika og aðstæðna er falla innan þeirra marka sem hann fær ráðið við, og skiptir þá ekki máli hvort um sök er að ræða af hans hálfu eða ekki. Sem dæmi um tilvik sem seljandi getur haft stjórn á eru öll atvik sem rekja má til seljandans sjálfs, starfsmanna hans eða manna sem hann samkvæmt almennum reglum ber ábyrgð á. Þó mundu verkföll til þess að knýja fram almennar launahækkanir í viðkomandi starfsgrein falla utan þess sem seljandinn fær ráðið við í skilningi ákvæðisins, en líklega mundi ólögmætt verkfall í fyrirtæki seljanda falla innan þess sem seljandi er talinn ráða við. Seljandi er einnig talinn fá ráðið atvikum sem beint eða óbeint eru komin undir hans eigin aðgerðum eða ráðstöfunum, þ.e. öllu sem unnt er að hafa stjórn á eða hafa áhrif á með skipulagningu, stjórnun eða eftirliti í fyrirtækinu.
    Svipuð sjónarmið leiða til þess að seljandi ber ábyrgð á því hvernig hann útvegar hráefni og annað sem á þarf að halda til að efna kaupin. Bregðist samningur um kaup á hráefni ber seljandinn ábyrgð á því ef vanefndina má rekja til þess að hann var að öllu leyti háður einum tilteknum birgi um afhendinguna. Seljandinn er venjulega ekki heldur laus úr ábyrgð þótt þeir sem hann notar til að sjá um þjónustu og viðgerðir í fyrirtæki hans bregðist honum og vanefnd gagnvart neytanda má rekja til þess.
    Fjárhagsstaða seljanda sjálfs er einnig meðal þess sem hann fær ráðið við í skilningi ákvæðisins. Greiðsluþrot eða annar brestur í greiðslugetu seljanda leysir hann ekki úr ábyrgð. Ef seljandi getur t.d. vegna bágs fjárhags ekki staðgreitt vörur og honum er neitað um lánafyrirgreiðslu hjá þeim sem hann kaupir af er hann ekki laus úr ábyrgð gagnvart viðsemjendum sínum af þeirri ástæðu. Annað mundi hins vegar gilda þegar greiðslumiðlun stöðvast, t.d. vegna verkfalls í banka.
    Þriðja skilyrði þess að um ábyrgðarleysi geti verið að ræða byggist á því að hindrunin sé þess eðlis að ekki sé með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn hafi haft hana í huga við samningsgerðina. Því getur seljandi orðið ábyrgur vegna greiðsludráttar sem stafar af hindrun sem var honum ofviða ef hann mátti sjá hana fyrir á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Það sem seljandi hefði átt að hafa í huga við samningsgerðina byggist á mati á aðstæðum hverju sinni. Sem dæmi má nefna að ef seljandi hefði getað séð fyrir hugsanlegt verkfall sem kynni að seinka afhendingu söluhlutar og þar með tekið tillit til þess við samningsgerðina getur hann ekki borið slíka hindrun fyrir sig. Það sama á við um atvik sem oft verða í viðkomandi atvinnugrein og seljandi á að hafa í huga og gera ráð fyrir. Dæmi um slíkt tilvik er kaup þar sem afhending er komin undir góðu veðri. Ef seljandinn hefur það ekki í huga og setur ekki fyrirvara að þessu leyti í samninginn getur hann ekki án þess að annað og meira komi til losnað undan ábyrgð. Yfirleitt verður þess ekki krafist að seljandi hafi annan sambærilegan hlut á lager með það í huga að hinn seldi hlutur kunni að skemmast fyrir afhendingu. Eftir atvikum er slíkt þó ekki óhugsandi.
    Í fjórða lagi er það skilyrði samkvæmt ákvæðinu að ekki sé með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða sigrast á afleiðingum hindrunarinnar. Þetta skilyrði er einnig háð því til hvers var unnt að ætlast af seljanda. Skilyrðið á m.a. við þegar svo stendur á að hindrun verður á tímabilinu frá því að kaup gerðust og fram að afhendingartíma. Seljanda er þá skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að afstýra afleiðingum hindrunarinnar. Sem dæmi um þetta má nefna að heildsali verður að velja annan framleiðanda en hann hafði ákveðið ef augljóst verður að sá framleiðandi muni ekki geta efnt skyldur sínar vegna verkfalla eða annarra slíkra hindrana. Eftir atvikum geta möguleikar og jafnframt skyldur seljanda legið í því að byggja upp nógu mikinn vörulager til þess að mæta hugsanlegum vandamálum af þessu tagi eða þá að leita til annarra birgja. Það nægir seljanda ekki í þessu efni að sýna fram á að slík vöruútvegun sé dýrari en sú sem hann hugsaði sér upphaflega. Hugsanlegt er að hindrun verði eftir að vöruafhendingu hefur þegar seinkað af annarri ástæðu. Hindrun við þessar aðstæður leysir seljanda ekki undan ábyrgð hefði hún ekki haft nein áhrif ef afhendingin hefði farið fram samkvæmt samningnum.
    Skilyrðin fjögur eru nátengd innbyrðis og tegund kaupanna skiptir máli í öllum tilvikum. Því meira sem söluhlutur er tegundarákveðinn þeim mun meiri möguleika hefur seljandi að jafnaði á að útvega aðra hluti í staðinn. Ábyrgð hans verður því metin á strangari mælikvarða í slíkum tilvikum. Sé auðvelt að útvega aðra tegundarákveðna hluti nálgast ábyrgð seljanda að vera hlutlæg. Sé um einstaklega ákveðin kaup að ræða er oft ekki auðvelt að útvega aðra hluti í staðinn ef söluhlutur eyðileggst, t.d. fyrir afhendingu.
    Eins og ákvæði 1. og 2. mgr. 24. gr. eru orðuð er gert ráð fyrir að seljandinn þurfi að sanna að þau skilyrði séu fyrir hendi sem leysa hann undan bótaábyrgð.
    Í 3. mgr., sem er sama efnis og 2. mgr. 27. gr. kaupalaga, er rætt um ábyrgð seljanda á greiðsludrætti sem rekja má til þriðja manns. Sá eða þeir teljast þriðji maður í þessu samhengi sem ekki eru beinlínis starfsmenn eða aðstoðarmenn seljanda í hans eigin fyrirtæki. Ákvæði 1. málsl. 3. mgr. á við um þriðja mann sem seljandi hefur falið að efna kaupin að nokkru leyti eða öllu. Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. á hins vegar við þegar seljandi hefur notað afhendingaraðila eða einhvern annan á fyrra sölustigi. Það er því ekki skilyrði samkvæmt greininni að umræddum þriðja manni sé skylt gagnvart seljanda að fullnægja samningi af sinni hálfu. Það nægir að þriðja manni sé skylt að efna sinn hluta samkvæmt samningi við einhvern annan, t.d. afhendingaraðila. Aftur á móti er seljandi ekki ábyrgur skv. 3. mgr. vegna afhendingaraðila sem neytandi hefur valið. Þriðji maður getur því verið framleiðandi eða afhendingaraðili söluhlutar, eða framleiðandi að hluta eða undirafhendingaraðili eða undirframleiðandi hráefnis. Þriðji maður getur einnig verið dreifingarfyrirtæki, flytjandi eða uppsetningaraðili. Í þessum tilvikum verður seljandi aðeins laus undan ábyrgð ef skilyrði 2. mgr. eiga bæði við um seljanda og þriðja mann (tvöfaldur „force majeure“). Þetta þýðir að seljandi getur í vissum tilvikum orðið að bera rýmkaða ábyrgð, sem nær einnig til þriðja manns, jafnvel þótt svo standi á að skilyrði 2. mgr. um ábyrgðarleysi eigi við um seljanda sjálfan. Skv. 3. mgr. er einnig gert ráð fyrir að seljandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðunum um ábyrgðarleysi sé fullnægt í báðum tilvikum. Hafi seljandi samkvæmt þessu gert samning við fyrirtæki um afhendingu á tiltekinni framleiðsluvöru, t.d. hluta af vél sem seljandi hugðist síðan afhenda, er samkvæmt þessu ekki nóg að seljandi geti sýnt fram á að vanefndir þriðja manns hafi falið í sér hindrun fyrir seljandann. Hann verður einnig að sýna fram á að hindrun þriðja manns sé þess eðlis sem um getur í 2. mgr. Á hinn bóginn getur verið að ekki sé heldur nóg að sýna fram á að slík skilyrði séu fyrir hendi að því er varðar þriðja mann ef seljandi gat engu síður sigrast á hindrun með því að fá annan aðila til að afhenda sömu framleiðsluvöru í vélarhlutann.
    Í 4. mgr., sem er samhljóða 3. mgr. 27. gr. kaupalaga, kemur fram sú regla að seljandi sé aðeins laus undan ábyrgð þann tíma sem hindrun varir. Því útilokar hindrun sem varir skamman tíma ekki ábyrgð ef sá tími, sem til ráðstöfunar er eftir að hindrun féll brott, nægir til þess að efna samninginn í tíma. Ef hindrun stendur fram yfir umsaminn afhendingartíma getur seljandi þó orðið bótaskyldur fyrir þann hluta seinkunar sem varð eftir að afleiðingar hindrunar féllu brott. Þó getur þetta því aðeins orðið að seljandi hafi haft þá skyldu að efna kaupin skv. 21. gr. en hann látið það hjá líða. Samkvæmt þessu á ákvæðið því aðeins við að hindrun sé tímabundin en ekki varanleg.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að um fjárhæð skaðabóta fari eftir XI. kafla frumvarpsins.

Um 25. gr.

    Í 28. gr. kaupalaga er að finna ákvæði sem er sambærilegt við 25. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu seljanda til að tilkynna neytanda um hindrun sem kemur í veg fyrir að seljandi geti efnt kaupin á réttum tíma og áhrif hennar á möguleika á efndum. Slíkar upplýsingar geta haft mikla þýðingu fyrir neytanda þar sem hann getur í mörgum tilfellum gripið til tímabundinna eða varanlegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar greiðsludráttar.
    Tilkynningarskylda seljanda samkvæmt ákvæðinu verður raunhæf þegar hindrun hefur orðið eða þegar búast má við að hindrun verði sem skiptir máli fyrir réttar efndir. Það skiptir hvorki máli hvers eðlis hindrun er né heldur hvort hún stafar af ástæðum sem seljandi gat haft áhrif á skv. 24. gr. Tilkynningarskylda stofnast hins vegar ekki þegar seljandi getur með réttu gert ráð fyrir að afstýra megi yfirvofandi hindrun.
    Í tilkynningu seljanda skal koma fram hver hindrunin er og hver áhrif hún hefur á möguleika hans til efnda. Ber seljanda þannig að taka fram hvort seinkun er tímabundin eða ekki, hvort hún varðar allt hið keypta eða aðeins hluta þess og hvort hugsanlega sé unnt að efna kaupin á annan hátt.
    Í 2. málsl. frumvarpsgreinarinnar er regla sem mælir fyrir um bætur til handa neytanda fái hann ekki slíka tilkynningu sem að framan greinir. Er reglan óháð bótareglu 24. gr. frumvarpsins og eru skilyrði skaðabóta samkvæmt ákvæðinu tvíþætt. Í fyrsta lagi er það skilyrði að neytandinn hafi ekki fengið tilkynningu um hindrun innan hæfilegs tíma. Tilkynningar samkvæmt ákvæðinu eru sendar á áhættu seljandans andstætt því sem almennt gildir um áhættuna af sendingu tilkynninga skv. 4. gr. frumvarpsins. Ef seinkun verður á póstsamgöngum eða öðrum samgöngum, eða þær falla niður af óviðráðanlegum sökum, t.d. vegna verkfalla, er þó hugsanlegt að líta svo á að seljandi geti orðið laus úr ábyrgð með lögjöfnun frá 24. gr. Frestur samkvæmt ákvæðinu byrjar að líða um leið og seljandinn hefur fengið eða gat fengið vitneskju um hindrunina, en það hvað telst hæfilegur tími verður að meta út frá atvikum og aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Almennt verður þó líklega að krefjast skjótra viðbragða af hálfu seljanda.
    Í öðru lagi er það skilyrði skaðabóta skv. 25. gr. að neytandinn hefði getað komist hjá tjóni ef hann hefði fengið tilkynninguna með nægum fyrirvara. Seljandinn verður með öðrum orðum ekki ábyrgur fyrir tjóni sem hefði orðið, hvað sem líður tilkynningu um hindrun. Samkvæmt þessu getur verið um að ræða tjón sem stafar af því að neytandinn getur ekki takmarkað það tjón sem verður vegna hindrunar á efndum. Slíkt tjón fellur undir gildissvið 52. gr. Reglan í 25. gr. á hins vegar við væri seljandinn ábyrgðarlaus samkvæmt reglunni í 24. gr. og réttlætir það tilvist hennar.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um úrræði neytanda vegna galla á söluhlut. Eru úrræðin talin upp í 26. gr. en nánari grein gerð fyrir hverju úrræði fyrir sig í greinunum þar á eftir. Í 27. gr. er kveðið á um fresti neytanda til að tilkynna seljanda um að hann hyggist bera fyrir sig galla á söluhlut. Í 28. gr. er að finna ákvæði um rétt neytanda til að halda eftir kaupverði vegna galla á söluhlut. Í 29. og 30. gr. er kveðið á um rétt neytanda til að krefjast úrbóta eða nýrrar afhendingar og framkvæmd úrbóta og nýrrar afhendingar og felst í frumvarpinu nokkur víkkun á rétti neytanda til úrbóta miðað við gildandi rétt. 31. gr. hefur að geyma ákvæði um afslátt vegna galla á söluhlut og í 32. gr. er að finna reglur um riftun. Í 33. gr. er fjallað um skaðabætur vegna galla á söluhlut og í 34. gr. koma fram reglur um tjón á öðrum munum vegna galla í söluhlut. Í 35. gr. er fjallað um kröfur neytanda á hendur fyrri söluaðila vegna galla og í 36. gr. er að finna reglur um ábyrgð á upplýsingum.

Um 26. gr.

    Ákvæði 26. gr. frumvarpsins er að efni til sambærilegt 30. gr. kaupalaga. Uppbygging og framsetning ákvæðisins er svipuð ákvæði 19. gr. frumvarpsins og með sambærilegu efni og má því almennt vísa til athugasemda við þá grein. Greinin gildir þegar um er að ræða galla á söluhlut, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Það skiptir ekki máli hver er ástæða gallans, en það er þó skilyrði að hann sé hvorki sök neytanda né stafi af aðstæðum sem hann varða. Hvorki hugtakið sökaðstæður sem neytanda varða vísar til vondrar trúar.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er að finna yfirlit yfir heimildir neytanda þegar söluhlutur er gallaður. Skv. a-lið 1. mgr. getur neytandi í fyrsta lagi haldið eftir greiðslu kaupverðs samkvæmt nánari fyrirmælum í 28. gr. Í öðru lagi getur neytandi skv. b-lið málsgreinarinnar valið á milli þess að krefjast úrbóta vegna galla eða afhendingar nýs söluhlutar í stað þess gallaða samkvæmt ákvæðum 29. og 30. gr. frumvarpsins. Þá á neytandi rétt skv. c-lið til að krefjast afsláttar samkvæmt ákvæðum 31. gr. og skv. d-lið getur hann krafist riftunar á grundvelli 32. gr. frumvarpsins. Loks getur neytandi skv. e-lið krafist skaðabóta samkvæmt ákvæðum 33. gr. frumvarpsins.
    Beiting einnar vanefndaheimildar útilokar ekki beitingu annarra heimilda og gildir í þeim efnum hið sama og skv. 19. gr. frumvarpsins. Upptalning frumvarpsgreinarinnar er heldur ekki tæmandi.
    Í 2. mgr. er sérákvæði um það að réttur neytanda til skaðabóta falli ekki niður þótt aðrar kröfur séu gerðar eða þótt ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    Regla 3. mgr. 26. gr. svarar til 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Þá er ákvæðið í samræmi við 1. málsl. 5. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um neytendakaup. Í ákvæðinu kemur fram að reglurnar um galla gilda einnig um aðra ágalla á efndum af hálfu seljanda, eftir því sem við á, þ.e. við vanefndir á aukaskyldum. Um þýðingu fyrirvarans „eftir því sem við á“ vísast til athugasemda við 19. gr. Regla frumvarpsgreinarinnar er frávíkjanleg með sömu rökum og regla 2. mgr. 19. gr. Reglan er þó ekki frávíkjanleg varðandi skyldur seljanda til uppsetningar á söluhlut sem sérstaklega er kveðið á um í kaupsamningi. Er lagt til að þessi undantekning verði lögfest vegna ákvæða 3. málsl. 5. mgr. 2. gr. neytendakaupatilskipunarinnar.

Um 27. gr.

    Ákvæði 27. gr. frumvarpsins er að mestu leyti í samræmi við ákvæði 32. og 33. gr. kaupalaga. Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu neytanda til að tilkynna seljanda um gallann ef hann ætlar að geta gert kröfu á hendur seljandanum vegna gallans.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er kveðið á um skyldu neytanda ef hann vill bera fyrir sig galla gagnvart seljanda til að tilkynna seljandanum um þetta innan hæfilegs tíma frá því að hann varð eða mátti verða var við galla. Fresturinn byrjar að líða þegar neytandinn varð galla var eða mátti verða hans var, en fresturinn getur aldrei byrjað að líða fyrr en áhættan af söluhlut hefur flust frá seljanda til neytanda.
    Hvað telst „innan hæfilegs tíma“ í skilningi 1. mgr. 27. gr. fer eftir atvikum hverju sinni og er það mat ekki jafnstrangt í neytendakaupum og samkvæmt lögum um lausafjárkaup. Því geta einstaklingsbundin atvik, t.d. fjarvistir og veikindi, auðveldlega skipt máli við mat á tímalengd samkvæmt ákvæðinu. Við mat á lengd frestsins getur einnig skipt máli um hvers konar kaup er að ræða, en eðli málsins samkvæmt er tilkynningarfrestur styttri varðandi hluti með stuttan endingartíma.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er að finna það nýmæli að frestur neytanda til að leggja fram kvörtun vegna galla getur aldrei verið styttri en tveir mánuðir frá þeim tíma þegar neytandinn varð gallans var. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í lögum um lausafjárkaup, en það á fyrirmynd sína í 2. mgr. 5. gr. tilskipunar um neytendakaup. Er ætlunin með ákvæðinu að tryggja rétt neytenda enn frekar en samkvæmt núgildandi kaupalögum. Tveggja mánaða fresturinn byrjar að líða þegar neytandi uppgötvar gallann. Það er ekki nægilegt til að fresturinn samkvæmt ákvæðinu byrji að líða að neytandinn hefði mátt uppgötva gallann. Hætta er á að erfiðleikar komi upp varðandi sönnun á því hvenær neytandi varð gallans var í raun og veru. Ber að túlka ákvæðið með hliðsjón af því að ekki er hægt að gera jafnstrangar kröfur til neytanda og seljanda sem hefur atvinnu sína af sölu. Tveggja mánaða fresturinn byrjar að líða þó að neytanda sé ekki kunnugt um allar afleiðingar gallans, þar á meðal það hvaða kröfur hann getur gert vegna gallans.
    Samkvæmt ákvæði 1. mgr. eru ekki gerðar ákveðnar formkröfur til tilkynningar neytanda um galla. Þá er hvorki nauðsynlegt fyrir neytanda að geta þess í tilkynningu sinni hvaða kröfur hann hyggst gera í tilefni vanefndanna né að hann tilkynni í hverju gallinn er fólginn. Af sönnunarástæðum getur þó verið hagkvæmt að tilkynning sé skrifleg. Afleiðingar þess að tilkynningarfrestur líður eru þær að neytandinn glatar rétti til þess að bera gallann fyrir sig.
    Ákvæði 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins kveður á um hámarkstilkynningarfrest vegna galla. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 32. gr. kaupalaga. Frestur neytanda skv. 1. málsl. ákvæðisins er tvö ár og miðast upphaf hans við það þegar neytandi veitir söluhlut viðtöku. Fellur krafa neytanda brott eftir að fresturinn er liðinn án tillits til annarra atriða. Verður neytandi að halda sig innan frestsins skv. 1. mgr. þar sem tekið er tillit til huglægra atriða er varða aðila og hámarksfrests 2. mgr. til að geta borið fyrir sig galla á söluhlut. Undantekningu frá þessum skilyrðum er þó að finna í 2. málsl. 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar ef rekja má galla til þess að seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða hefur á annan hátt ekki komið fram á heiðarlegan hátt og verið í góðri trú.
    Tiltölulega stuttur frestur til að tilkynna um galla er í flestum tilvikum heppilegastur. Seljandi hefur hagsmuni af því að geta losnað frá kaupunum eftir ákveðinn tíma án þess að þurfa að eiga á hættu síðbúnar kvartanir vegna galla. Þá er hætta á því að upp komi sönnunarvandamál ef kvartanir vegna galla berast löngu eftir að afhending söluhlutar hefur farið fram þar sem ákvörðun um það hvort hlutur er gallaður eða ekki ræðst af ástandi hlutarins á því tímamarki þegar áhættuflutningur verður. Verður að telja tveggja ára reglu frumvarpsgreinarinnar hentugan viðmiðunartíma þegar litið er til hagsmuna seljanda og viðskiptalífsins af því að búa við öryggi og hagsmuna neytanda af því að geta borið fyrir sig galla sem koma í ljós jafnvel löngu eftir afhendingu.
    Í 2. málsl. 2. mgr. er að finna sérreglu um söluhluti, eða hluta þeirra, sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti. Er frestur til að bera fyrir sig galla um slíka hluti fimm ár frá því að hlutnum var veitt viðtaka. Ákvæðið er að nokkru leyti í samræmi við 3. mgr. 32. gr. kaupalaga þar sem kveðið er á um fimm ára frest til að bera fyrir sig galla við kaup á byggingarefni sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti. Þá er reglan í samræmi við ákvæði norskra laga um neytendakaup. Reglunni er ætlað að styrkja rétt neytenda, enda getur tveggja ára reglan verið ströng í garð neytanda þegar um er að ræða leynda galla við kaup á hlut sem á að endast lengi. Það getur gerst að verulegir gallar komi ekki í ljós fyrr en löngu eftir afhendingu. Getur þá verið ósanngjarnt ef neytanda er með öllu ómögulegt að bera gallann fyrir sig ef hann tilkynnir um gallann innan hæfilegs tíma frá því að hann varð hans var.
    Mat á því hversu langur endingartími söluhlut er ætlaður er unnt að byggja á því mati sem fram fer skv. b-lið 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins. Því þarf m.a. að líta til þess hvers neytandi mátti vænta við kaup á slíkum hlut. Framleiðendur söluhluta hafa ólík markmið við framleiðslu hluta hvað varðar endingartíma þeirra. Endurspeglast þetta m.a. í verði og markaðssetningu hlutanna. Ef vafi er um það hversu langan endingartíma hlut er ætlað að hafa er rétt að vafinn falli fimm ára reglunni í hag. Með endingartíma söluhlutar er átt við það hvað hlutnum er ætlað að virka lengi á viðunandi hátt. Til dæmis fellur það að hlutur verði úreltur vegna tækniframfara ekki undir ákvæðið. Áætlaður endingartími söluhlutar er byggður á venjulegri notkun.
    Tveggja og fimm ára tilkynningarfrestir 2. mgr. 27. gr. líkjast venjulegum fyrningarfresti í því að krafa neytanda fellur alveg niður þegar liðinn er ákveðinn tími, óháð öðrum aðstæðum. Það er þetta sem greinir tveggja og fimm ára frestinn frá hinum afstæða tilkynningarfresti 1. mgr., en þegar um hann er að ræða fer lengd frestsins m.a. eftir huglægum atriðum sem varða aðila kaupsamnings.
    Frestir skv. 1. og 2. mgr. líða samtímis. Krafa vegna gallans fellur niður þótt aðeins annar þeirra sé liðinn. Sjaldgæft er að afstæði fresturinn geti orðið tvö ár og þess vegna er krafan oftast fallin niður áður en tveggja eða fimm ára tímamarkinu er náð. Þetta þarf þó ekki að vera þegar um leynda galla er að ræða. Hins vegar glatast krafan í öllum tilvikum þegar tvö eða eftir atvikum fimm ár eru liðin frá afhendingu söluhlutarins.
    Rétt er að taka fram að hafi afhending að nýju í skilningi 29. gr. frumvarpsins átt sér stað byrjar nýr tveggja ára frestur að líða frá því tímamarki er hinum nýja hlut var veitt viðtaka.
    Álitamál er hvernig líta ber á tilkynningu sem berst of seint þegar svo stendur á að seljandinn hefur byrjað samningaviðræður við neytandann vegna galla án þess að gera fyrirvara um tilkynningarskortinn. Tilhneiging er til þess að líta svo á að seljandinn glati ekki rétti sínum til að bera fyrir sig galla í slíkum tilvikum þótt það geti valdið vafa.
    Í 3. málsl. 2. mgr. kemur fram að frestir skv. 1. og 2. málsl. 2. mgr. gilda ekki ef seljandi hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða með öðrum hætti tekið á sig ábyrgð á galla í lengri tíma. Ákvæðið er samhljóða 2. málsl. 2. mgr. 32. gr. kaupalaga. Ákvæðið hefur m.a. þá þýðingu að hafi seljandi ábyrgst söluhlut í lengri tíma en tvö eða fimm ár felur það einnig í sér að tilkynningarfresturinn verður lengri þótt ekkert segi berum orðum um hann í samningnum sjálfum. Það ræðst af túlkun ábyrgðaryfirlýsingar hvort tilkynningarfresturinn fellur niður samtímis því að ábyrgðin fellur úr gildi eða hvort hann fellur ekki úr gildi fyrr en liðinn er hæfilegur tími frá lokum ábyrgðartímabilsins.
    Í ákveðnum tilfellum er unnt að túlka yfirlýsingu um ábyrgð þannig að hún nái einnig til þess að söluhlutur starfi rétt, þannig að seljandinn teljist hafa tekið á sig ábyrgð á vissum ágöllum á ábyrgðartímanum sem ekki er beinlínis hægt að rekja til galla á söluhlutnum sjálfum. Yfirlýsingar, sem seljandi hefur gefið í sambandi við söluhlut, geta haft sérstaka þýðingu í þessu sambandi þegar um er að ræða hluti sem augljóslega eiga að endast lengi. Upplýsingar seljanda um endingartíma hlutar geta verið þannig að í þeim felist ábyrgð á hinum tilgreinda endingartíma. Þó er það svo að ekki má túlka allar yfirlýsingar seljanda um endingu sem ábyrgðaryfirlýsingu af hans hálfu. Ef um er að ræða almennar upplýsingar um endingu er ekki unnt að túlka þær sem sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu. Í vissum tilvikum er ekki óhugsandi að framferði seljanda teljist vera andstætt heiðarleika og góðri trú, þannig að fresturinn lengist samkvæmt ákvæðum 4. mgr.
    Samkvæmt 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar má beina tilkynningu um galla að þeim sem í samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr gallanum. Samkvæmt ákvæði í 4. gr., sbr. 5. gr. tilskipunar um neytendakaup er það lokaseljandi sem ber ábyrgð gagnvart neytanda ef hinn seldi hlutur reynist gallaður. Það er á ábyrgð seljandans að stefna til réttargæslu öðrum aðilum sem eru í samningskeðjunni ef hann telur að þeir kunni að bera ábyrgð í málinu, svo sem fyrri seljanda, framleiðanda o.s.frv. Að öðru leyti vísast til ákvæða 35. gr. frumvarpsins um kröfur á hendur fyrri söluaðila.
    Í 1. málsl. 4. mgr. 27. gr. er kveðið á um að neytandi glati rétti til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda um gallann án ástæðulauss dráttar. Í ákvæði 2. málsl. 4. mgr., sem er sambærilegt við 33. gr. laga um lausafjárkaup, er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. 27. gr. geti neytandi borið fyrir sig galla ef seljandinn hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er á annan hátt ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.
    Ákvæðið felur í sér undantekningu sem varðar afleiðingu þess að ekki var tilkynnt um galla í tíma þegar þau skilyrði eru fyrir hendi að seljandi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er að öðru leyti ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.
    Sú háttsemi, sem talin er ámælisverð, verður að tengjast meintum galla á söluhlut samkvæmt ákvæðinu. Því skiptir ekki máli þótt seljandi hafi að öðru leyti sýnt af sér vítavert gáleysi eða háttsemi sem fer í bága við heiðarleika og góða trú.
    Ákvæðið nær einkum yfir galla sem rekja má til atvika sem seljandinn vissi um eða gat ekki verið ómeðvitaður um en skýrði neytanda ekki frá. Sem dæmi um þetta má nefna þegar seljandi bifreiðar upplýsir ekki að bifreiðin hafi áður skemmst mikið í árekstri ef einmitt það atriði skiptir máli við mat á gallanum.
    Ákvæði 4. mgr. felur það ekki í sér að neytandi geti dregið von úr viti að tilkynna um þá galla sem hann veit um. Ef neytandinn hefur dregið það mjög lengi stendur 4. mgr. ekki í vegi fyrir því að hann geti glatað rétti til þess að bera fyrir sig galla á grundvelli almennra tómlætis- og fyrningarreglna.

Um 28. gr.

    Ákvæði 28. gr. er sambærilegt og ákvæði 20. gr. frumvarpsins um rétt neytanda til að halda eftir kaupverði ef um greiðsludrátt seljanda er að ræða, en í 28. gr. er fjallar um rétt neytanda til að halda eftir greiðslu ef upp kemur galli á söluhlut. Vísast til athugasemda við 20. gr. um frekari skýringar við ákvæðið.

Um 29. gr.

    Frumvarpsgreinin er að mörgu leyti sambærileg við ákvæði 1. og 2. mgr. 34. gr. kaupalaga. Ekki þótti ástæða til að taka ákvæði 3. mgr. 34. gr. kaupalaga upp í frumvarpið þar sem ákvæði 33. gr. frumvarpsins um skaðabætur kemur í þess stað. Ákvæðið byggist einnig á 1.–4. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins, sem er í samræmi við 3. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup, er fjallað um rétt neytanda sem fær afhentan gallaðan söluhlut til að velja á milli þess að krefjast þess að seljandi bæti úr galla á eigin kostnað, t.d. með viðgerð, eða afhendi honum nýjan söluhlut.
    Samkvæmt ákvæðinu eru sömu skilyrði fyrir úrbótum og nýrri afhendingu og felst því í frumvarpinu nokkur víkkun á rétti neytanda til úrbóta miðað við gildandi rétt. Helsta skilyrði þess að neytandi geti krafist úrbóta eða nýrrar afhendingar er að söluhlutur sé haldinn galla sem ekki verður rakinn til sakar af hálfu neytanda eða aðstæðna sem hann varða, sbr. 26. gr. frumvarpsins.
    Skylda seljanda til úrbóta felur í sér skyldu til að koma söluhlut í það ástand sem neytandi getur krafist samkvæmt samningi aðila og skilgreiningu laganna á galla, sbr. f-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar um neytendakaup. Úrbætur geta einnig farið fram með þeim hætti að afhentir eru þeir fylgihlutir sem vantar með söluhlut. Neytandi á aðeins rétt á því að úrbæturnar svari til samningsskilmálanna. Hann getur því ekki krafist nýrrar vélar frá verksmiðju í gamla bifreið í stað þeirrar sem reyndist ónýt. Ákvæðið veitir neytandi rétt til að krefjast úrbóta af hálfu seljanda án tillits til þess hvers eðlis gallinn er eða hvort hann er verulegur eða ekki. Raunhæf þýðing ákvæðisins er mikil við minni háttar galla á söluhlut þar sem viðgerð er oft einfaldasta lausnin og á margan hátt erfiðara fyrir neytanda að leita annarra vanefndaúrræða.
    Skylda seljanda til nýrrar afhendingar felur í sér skyldu seljanda til að afhenda nýjan hlut sem samsvarar söluhlut. Því er afhending að nýju fyrst og fremst raunhæf að því er varðar söluhluti sem eru seldir nýir. Það er þó ekki útilokað að unnt sé að krefjast nýrrar afhendingar á söluhlut sem hefur verið keyptur notaður. Í slíku tilfelli mundi það væntanlega skipta sköpum hvort unnt væri að finna hlut sem svaraði til söluhlutar. Því felst í skilyrði fyrir nýrri afhendingu að neytandi getur ekki krafist slíkrar afhendingar ef eiginleikar söluhlutar eru þannig að ekki er hægt að ætlast til þess með sanngirni að nýr hlutur komi í hans stað.
    Samkvæmt ákvæðinu getur seljandi, svo lengi sem skilyrði laganna eru uppfyllt, falið öðrum en starfsfólki sínu að aðstoða sig við úrbætur og nýja afhendingu.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar á réttur neytanda til úrbóta eða nýrrar afhendingar ekki við ef fyrir hendi er hindrun sem seljandi ræður ekki við eða ef úrbætur eða ný afhending hafa í för með sér ósanngjarnan kostnað fyrir seljanda. Í 11. lið í formála tilskipunar um neytendakaup er kveðið á um að meta beri hlutlægt hvort krafa um úrbætur eða nýja afhendingu sé óhófleg. Er þar að finna þá leiðbeiningarreglu að úrræði teljist óhóflegt ef það felur í sér ósanngjarnan kostnað í samanburði við önnur úrræði, þ.e. ef kostnaður við úrræðið er verulega hærri en við önnur úrræði.
    Ef seljandi ber slíkt fyrir sig, hvílir jafnframt á honum skylda til að sýna fram á að fyrir hendi séu þessi skilyrði ákvæðisins til undanþágu frá skyldu hans til úrbóta eða nýrrar afhendingar. Ákvæðið er í samræmi við 3. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup og að nokkru leyti sambærilegt við 34. gr. kaupalaga. Kostnaður seljanda í skilningi ákvæðisins verður að túlkast rúmt og felst því ekki í honum aðeins beinn útlagður kostnaður seljanda við t.d. innkaup á efni, heldur einnig not á vinnuafli og tækjum sem tengjast viðgerð eða gerð nýs hlutar. Úrbætur samkvæmt ákvæðinu eru alfarið á kostnað seljanda, þ.m.t. nauðsynlegur kostnaður af sendingu hlutarins.
    Ábyrgð seljanda samkvæmt ákvæðinu er hrein hlutlæg ábyrgð með hliðstæðum hætti og gildir um afslátt skv. 31. gr. frumvarpsins.
    Ef úrbætur eiga að fara fram hjá neytanda ber seljandanum að standa straum af ferðakostnaði sínum og starfsmanna sinna í því sambandi. Þá verður seljandinn og að bæta óhjákvæmileg útgjöld sem neytandinn hefur haft af úrbótum, svo sem sendingarkostnað og símakostnað. Einnig getur komið til álita að seljandi verði að bæta leigu af öðrum hlut meðan söluhlutur er í viðgerð.
    Það er skylda neytanda að aðstoða seljanda með sanngjörnum hætti við úrbæturnar, t.d. með því að sjá um að senda hlut til seljanda ef eftir því er óskað. Neytanda ber þó ekki skylda til þess að leggja út fyrir sendingarkostnaði, en í framkvæmd mun hann án efa oftast gera það og krefja síðan seljandann um endurgreiðslu. Ef um er að ræða kaup á varningi sem keyptur er af seljanda í næsta nágrenni neytanda er yfirleitt sanngjarnt að neytandinn sjái um að koma hlutnum til seljanda og sækja hann þangað að úrbótum loknum.
    Í 2. mgr. eru talin upp atriði sem skipta máli við mat á því hvort kostnaður skv. 2. málsl. 1. mgr. sé ósanngjarn. Byggist ákvæðið á 2. lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup og felst ekki í því tæmandi talning á því hvað leggja ber til grundvallar við matið. Samkvæmt málsgreininni skal við matið taka tillit til verðmætis ógallaðs söluhlutar. Í þessu felst að við sölu á ódýrari vörum mundi sjaldnar vera hægt að neita nýrri afhendingu en við sölu á dýrari hlutum. Einnig skal taka tillit til þýðingar gallans fyrir neytandann og þess hvort unnt er að beita öðrum úrræðum án verulegs óhagræðis fyrir neytandann. Því verður að fara fram heildstætt mat á aðstæðum.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem svipar til 36. gr. kaupalaga þar sem kveðið er á um rétt seljanda til þess að bæta úr galla á söluhlut eða afhenda aðra hluti í stað þess gallaða. Afleiðingar þessa eru að neytandi getur ekki krafist afsláttar eða riftunar. Ákvæðið er einnig í samræmi við 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 99/44/EB um neytendakaup.
    Skilyrði beitingar ákvæðisins er í fyrsta lagi að neytandi hafi hvorki krafist úrbóta eða nýrrar afhendingar. Er það í samræmi við rétt neytanda til að velja á milli úrræðanna skv. 1. mgr. greinarinnar. Ef neytandi hefur valið að krefjast úrbóta getur seljandi ekki ákveðið að afhenda nýjan söluhlut, heldur verður hann að hlíta vali neytandans, nema fyrir hendi sé hindrun eða það hafi í för með sér ósanngjarnan kostnað fyrir seljanda. Ákvæði 3. mgr. kemur ekki í veg fyrir að neytandi geti nýtt rétt sinn skv. 1. mgr. til að velja milli úrræða eftir að seljandi hefur boðið ákveðið úrræði. Verður seljandi í slíku tilviki að beygja sig fyrir ákvörðun neytanda. Í öðru lagi er það skilyrði samkvæmt ákvæðinu að tilboð seljanda um úrbætur eða nýja afhendingu sé í samræmi við lögin. Þriðja skilyrði þess að seljandi geti bætt úr galla eða afhent nýjan söluhlut er að hann geri það „án tafar“. Byggist skilyrðið á því að neytandi hafi hagsmuni af því að vita um það sem fyrst hvort seljandi ætli að bjóða úrbætur eða nýja afhendingu. Í skilyrðinu felst ekki að seljandi verði að ákveða sig strax þegar neytandi tilkynnir honum um gallann, heldur er eðlilegt að seljandinn fái nokkurn tíma til að rannsaka söluhlutinn t.d. til að sjá hvort fyrir liggi galli eða kanna hversu umfangsmikill gallinn sé.

Um 30. gr.

    Ákvæðið fjallar um framkvæmd úrbóta og nýrrar afhendingar seljanda og miðar að hluta að því að skýra gildandi réttarástand að því er þetta varðar, en að hluta hefur ákvæðið í för með sér aukin réttindi neytenda. Ákvæðið gildir bæði þegar neytandi krefst úrbóta eða nýrrar afhendingar og í þeim tilvikum þar sem seljandinn býður upp á lagfæringu eða afhendingu að nýju.
    Í 1. mgr. má sjá þætti úr bæði 1. mgr. 34. gr., 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 37. gr. laga um lausafjárkaup. Í málsgreininni er að finna grundvallarreglur um þær kröfur sem gerðar eru til seljanda við úrbætur og afhendingu að nýju. Þannig er í ákvæðinu í fyrsta lagi kveðið á um að úrbætur og ný afhending skulu fara fram án kostnaðar fyrir neytanda. Undir þetta fellur hvers konar kostnaður sem rekja má til þessa. Ákvæðið kemur þó ekki í veg fyrir að neytandinn geti orðið að leggja út fyrir einhverjum kostnaði vegna úrbóta eða nýrrar afhendingar, en seljandi verður að endurgreiða slíkan kostnað.
    Í öðru lagi mega úrbætur og ný afhending ekki hafa í för með sér verulegt óhagræði fyrir neytandann. Þetta skilyrði kemur nú fram í 1. mgr. 36. gr. kaupalaga þar sem kveðið er á um heimild seljanda til að bæta úr galla eða afhenda nýjan söluhlut þó að kaupandi krefjist þess ekki. Sambærilegt skilyrði er hins vegar ekki að finna í 34. gr. kaupalaga, hinu almenna ákvæði um rétt kaupanda til að krefjast úrbóta og nýrrar afhendingar. Ákvæðið er hins vegar í samræmi við 3. lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup. Við mat á því hvað telst til verulegs óhagræðis fyrir neytanda verður m.a. að taka tillit til eðlis söluhlutar og tilgangs neytanda með kaupum á söluhlut. Þannig getur seljandi ekki að eigin frumkvæði krafist þess að hann bæti galla á söluhlut ef neytandi getur ekki verið án hlutarins á meðan hann bíður eftir að gert sé við hlutinn og ekki er hægt að útvega sambærilegan hlut í staðinn á meðan söluhlutur er í viðgerð. Það getur einnig talist til verulegs óhagræðis ef úrbætur eða ný afhending taka svo langan tíma að það má líkja því við afhendingardrátt af hálfu seljanda sem réttlætir riftun. Þrátt fyrir þessar viðmiðanir getur verið erfitt að sýna fram á að úrbætur eða ný afhending seljanda hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir neytanda. Þó að lagfæring á söluhlut taki langan tíma er oft hægt að halda því fram að óhægræðið fyrir neytandann sé óverulegt. Sem dæmi má nefna að þegar um er að ræða rafmagnstæki, húsgögn eða gluggatjöld, nægir ekki að neytandi sé pirraður á að hafa ekki söluhlut hjá sér til að um verulegt óhagræði sé að ræða.
    Í þriðja lagi verða úrbætur og ný afhending að eiga sér stað innan hæfilegs tíma. Leiða má þessa reglu óbeint af 1. mgr. 37. gr. kaupalaga og felur hún í sér að seljanda ber að hraða úrbótum eða afhendingu að nýju. Ekki er þó hægt að ætlast til að seljandi bregðist strax við kröfu neytanda um úrbætur eða nýja afhendingu eða tilkynningu neytanda um að hann hyggist bera fyrir sig galla. Við mat á því hvað telst hæfilegur tími hefur það áhrif hvort neytandinn fær sambærilegan söluhlut á meðan hann bíður eftir lagfæringum eða nýjum söluhlut. Fresturinn reiknast frá þeim tíma sem neytandi krefst úrbóta eða nýrrar afhendingar eða frá þeim tíma þegar neytandi tekur tilboði seljanda um úrbætur eða nýja afhendingu.
    Í fjórða lagi verða úrbætur og ný afhending að fara fram þannig að neytandi fái bætt útgjöld sín hjá seljanda. Nú er sambærilega reglu að finna í 1. mgr. 36. gr. kaupalaga. Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir því að neytandinn geti þurft að leggja út fyrir t.d. sendingarkostnaði þegar gallaður söluhlutur er sendur til seljanda til viðgerðar. Ákvæðið mælir hins vegar fyrir um að seljanda beri að endurgreiða neytanda allan kostnað sem hann hefur haft vegna galla söluhlutar.
    2., 3. og 4. mgr. 30. gr. eiga sér ekki hliðstæðu í lögum um lausafjárkaup.
    Samkvæmt 2. mgr. hefur seljandi ekki rétt á að bæta úr sama galla eða afhenda nýjan söluhlut vegna sama galla oftar en tvisvar sinnum. Þó geta komið upp sérstakar aðstæður sem réttlæta undantekningu frá meginreglu ákvæðisins. Ákvæðið á við bæði þegar úrbætur eða ný afhending fara fram að kröfu neytanda og þegar seljandi býður slíkt fram. Eðlilegt þykir að kveða skýrt á um leyfilegan fjölda úrbóta eða afhendinga seljanda til að tryggja réttarstöðu neytanda og er lagt til að miðað verði við, að norskri fyrirmynd, að seljandi geti bætt úr sama galla tvisvar. Byggist það m.a. á því að þrjár tilraunir til úrbóta eða nýrrar afhendingar af hálfu seljanda mundu í flestum tilvikum taka óhæfilega langan tíma.
    Í 3. mgr. er kveðið á um rétt neytanda til að fá hlut, sem er sambærilegur söluhlut, til umráða ef úrbætur eða ný afhending hafa það í för með sér að neytandi getur ekki notað söluhlut í meira en eina viku. Ákvæðið á þó aðeins við ef krafan telst sanngjörn með hliðsjón af þörfum neytanda og þeim kostnaði og óhagræði sem það hefur í för með sér fyrir seljanda.
    Í ákvæði 4. mgr. er að finna reglur um kostnaðarskiptingu þegar galli reynist ekki vera fyrir hendi. Nær regla málsgreinarinnar bæði til kostnaðar vegna nauðsynlegra athugana sem miða að því að komast að raun um hvort söluhlutur er haldinn galla og kostnaðar vegna lagfæringa á söluhlut. Samkvæmt ákvæðinu hefur seljandi upplýsingaskyldu gagnvart neytanda varðandi viðgerðarkostnað bæði þegar um er að ræða úrbætur eða nýja afhendingu samkvæmt kröfu neytanda og þegar seljandi býður fram viðgerðir eða afhendingu að nýju. Seljandi getur því aðeins krafist greiðslu úr hendi neytanda vegna athugana og lagfæringa ef hann hefur gert neytanda það ljóst að hann þurfi sjálfur að bera umræddan kostnað. Í þessu felst að seljandi verður á skýran hátt að gera neytanda grein fyrir þessu. Þó verður ekki gerð krafa um að upplýsingar seljanda séu skriflegar. Það er einnig skilyrði samkvæmt ákvæðinu að seljandi gefi upplýsingarnar eftir að gallinn hefur komið upp. Samkvæmt ákvæðinu getur seljandi aðeins krafist greiðslu á kostnaði sem var nauðsynlegur. Því verður athugun seljanda að hafa verið gerð á forsvaranlegan máta og að aðeins sé um að ræða útgjöld sem með beinum hætti tengjast athuguninni. Sams konar upplýsingaskylda gildir við lagfæringar á söluhlut af hálfu seljanda og eru rökin fyrir þeirri reglu að seljandi geti ekki gert við söluhlut á kostnað neytanda án þess að neytanda hafi fyrir fram verið gerð grein fyrir því.

Um 31. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um heimildir neytanda til að krefjast afsláttar af kaupverði söluhlutar þegar ekki er bætt úr galla á söluhlut með úrbótum eða afhendingu að nýju. Þá er kveðið á um hvernig afsláttur skal reiknaður út. Ákvæðið byggist á 37. og 38. gr. kaupalaga, en víkur þó frá innihaldi þeirra þar sem frumvarpsgreinin heimilar í undantekningartilvikum afslátt þrátt fyrir að gallinn feli ekki í sér verðmætarýrnun. Byggist undantekningin á 5. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í 1. mgr. 31. gr. er kveðið á um rétt neytanda til afsláttar ef söluhlutur er gallaður. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins eru þau í fyrsta lagi að fyrir liggi galli og í öðru lagi að ekki hafi orðið af úrbótum eða afhendingu að nýju.
    Í 2. málsl. 1. mgr. kemur fram regla sem segir til um það hvernig skal reikna út afsláttinn. Er ákvæðið samhljóða ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. kaupalaga, en byggist einnig á 5. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup. Hlutfallið milli afsláttarverðsins og kaupverðsins skal vera hið sama og hlutfallið milli verðmætis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi. Ef neytandinn hefur keypt hlutinn undir markaðsverði verður afslátturinn lægri en sem nemur verðmætisrýrnun hlutarins því að hann reiknast ekki af markaðsvirðinu heldur út frá umsömdu kaupverði. Á sama hátt verður afslátturinn hærri en sem nemur verðmætisrýrnunni ef neytandinn hefur keypt hlutinn yfir markaðsverði.
    Í gildandi lögum eru ekki afdráttarlaus ákvæði um hvaða tímamark skal leggja til grundvallar við ákvörðun á verðmæti hlutarins. Samkvæmt frumvarpinu er það afhendingartíminn sem miða skal við, þ.e. hinn raunverulegi afhendingartími en ekki umsaminn afhendingartími ef hann er ekki sá sami.
    Afsláttarkrafa stendur ekki í vegi fyrir því að neytandinn geti einnig krafist skaðabóta. En þýðingarmikið er í því sambandi að hafa í huga að neytandinn getur ekki fengið skaðabætur fyrir þann hluta tjóns sem afslátturinn bætir.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er að finna undantekningarreglu. Reglunni er fyrst og fremst er ætlað að ná yfir þau tilvik þar sem neytandi getur ekki sýnt fram á verðrýrnun söluhlutar vegna galla, en samkvæmt meginreglu 1. mgr. ætti í neytandi í slíkum tilvikum ekki að hafa grundvöll til að krefjast afsláttar. Ákvæðið á þó ekki einungis við þau tilvik þar sem engin verðrýrnun verður á söluhlut vegna galla. Sérstaklega getur það haft þýðingu í tilvikum þar sem verðrýrnun má rekja til útlitsgalla söluhlutar. Ákvæðinu er einungis ætlað að gilda í undantekningartilvikum og þá sérstaklega þegar neytandi getur ekki gripið til annarra úrræða.
    Í ákvæði 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram sú sérregla að neytandi getur ekki krafist afsláttar þegar um er að ræða sölu notaðra hluta á uppboði þar sem neytandi hafði möguleika á að vera viðstaddur. Ákvæðið er að mestu leyti í samræmi við 2. mgr. 37. gr. kaupalaga, en breytingar sem gerðar hafa verið á því ákvæði varðandi kröfuna um að neytandi hafi haft möguleika á að vera viðstaddur uppboðið má rekja til 3. mgr. 1. gr. tilskipunar um neytendakaup, sbr. skýringar við 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins. Rökin fyrir ákvæðinu eru þau að hér er um að ræða sérstaka aðferð við sölu þar sem hlutur er venjulega seldur í því ástandi sem hann er í og neytandi ákveður sjálfur að nokkru endurgjaldið fyrir hlutinn.

Um 32. gr.

    Greinin er að mestu í samræmi við1. mgr. 39. gr. kaupalaga, en nokkur breyting hefur verið gerð á ákvæðinu sem byggist á 6. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í ákvæðinu er kveðið á um að neytandi geti í stað þess að krefjast afsláttar rift kaupum ef galli er ekki óverulegur. Það leiðir af orðum ákvæðisins að neytandi geti „í stað afsláttar“ krafist riftunar að skilyrði 31. gr. frumvarpsins þurfa að vera uppfyllt. Þannig má ekki hafa verið bætt úr gallanum eða nýr söluhlutur afhentur.
    Ætlunin með orðalagsbreytingu ákvæðisins frá 1. mgr. 39. gr. kaupalaga er að gera riftunarskilyrði laga um neytendakaup sem líkust skilyrðum 5. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup. Þrátt fyrir breytt orðalag mun þó enn verða hægt að líta til þeirra viðmiða sem almennt hafa verið talin gilda við mat á því hvort neytandi á rétt til riftunar. Byggist ákvörðunin því á ákveðnu heildarmati þar sem m.a. er litið til þess hvort unnt er að bæta úr gallanum eða ekki og þess tíma og óhagræðis sem neytandi hefur af úrbótum.

Um 33. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skaðabótaábyrgð seljanda gagnvart neytanda vegna galla á söluhlut. Í 1. mgr. er lagt til að hlutlæg ábyrgð verði hinn almenni bótagrundvöllur vegna galla. Þannig á neytandi rétt á skaðabótum fyrir sérhvert fjárhagslegt tjón sem hann verður fyrir vegna galla. Reglan takmarkast þó af ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. 52. gr. frumvarpsins um umfang skaðabóta. Samkvæmt ákvæðinu gilda þannig ólíkar reglur um skaðabótaábyrgð vegna galla og skaðabótaábyrgð vegna greiðsludráttar. Með því að leggja til hreina hlutlæga ábyrgð vegna galla er unnt að einfalda reglur laganna til muna frá því sem nú er og þannig gera ákvæði laga um neytendakaup skýrari og gagnsærri en ákvæði núgildandi kaupalaga eru. Er tillagan í samræmi við ákvæði norskra laga um neytendakaup og finnskra laga um neytendavernd.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að um fjárhæð skaðabóta fari samkvæmt reglum XI. kafla laganna.

Um 34. gr.

    Í 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um skaðabótaábyrgð seljanda af völdum galla vegna tjóns á öðru en söluhlutnum sjálfum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að skaðabótaábyrgð seljanda nái til tjóns á hlutum sem söluhluturinn var notaður til framleiðslu á eða standa í nánu sambandi við fyrirhuguð not hans. Ákvæðið á því við þegar söluhlutur hefur eiginleika sem valda tjóni á öðrum hlutum. Ákvæðið er í sjálfu sér ekki hugsað til þess að afmarka gildissvið laga um neytendakaup annars vegar og laga um skaðsemisábyrgð hins vegar, en eigi að síður felast í því ákveðnar leiðbeiningarreglur um mörk milli gildissviða þessara reglna. Aðalreglan er að ábyrgð á slíku tjóni heyri undir almennar reglur um skaðsemisábyrgð. Hins vegar skarast gildissvið þessara reglna og geta mörk milli þeirra aldrei orðið nákvæm.
    Í 2. mgr. er kveðið á um ábyrgð seljanda vegna annars tjóns á munum en um getur í 1. mgr. og er reglan sú að neytandi getur krafist skaðabóta vegna slíks tjóns. Reglan gildir þó ekki ef seljanda tekst að sýna fram á að tjónið verði ekki rakið til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda. Er því um að ræða sakarreglu þar sem sönnunarbyrðinni er snúið við. Tilgangur ákvæðisins er að einfalda neytendum að sækja skaðabætur þar sem það er yfirleitt til muna auðveldara fyrir neytanda að krefja seljanda í sínu nágrenni um bætur en að snúa sér til framleiðanda vörunnar. Reglan kemur einnig í veg fyrir að neytandi þurfi samtímis að krefja fleiri en einn aðila um bætur vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir.
    Í 3. mgr. er loks kveðið á um að þegar seljandi greiðir skaðabætur vegna tjóns á öðrum munum en sjálfum söluhlutnum tekur hann yfir kröfur neytanda á hendur framleiðanda samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð.

Um 35. gr.

    Frumvarpsgrein þessi fjallar um rétt neytanda til þess að gera gallakröfu á hendur fyrri söluaðila.
    1. mgr., sem er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 84. gr. kaupalaga, veitir neytanda almenna heimild til að gera kröfu vegna galla á hendur fyrri söluaðila þannig að neytandinn gengur inn í rétt seljanda. Ekki er gerð nein krafa um það að seljandinn framselji neytanda kröfu sína. Í ákvæðinu er þó að finna ákveðin skilyrði fyrir því að neytandi geti gert slíka kröfu.
    Í fyrsta lagi takmarkast ákvæðið við kröfu vegna galla á söluhlut og á því ekki við í öðrum tilvikum þar sem bótakrafa getur skapast, t.d. þegar um kröfu vegna greiðsludráttar er að ræða.
    Í öðru lagi er það skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að seljandi eða annar sem öðlast hefur söluhlut frá fyrri söluaðila geti gert sams konar kröfu vegna gallans. Réttur neytanda getur því verið minni á hendur fyrri söluaðila en gagnvart seljandanum, t.d. á grundvelli ábyrgðarleysisákvæðis eða söluskilmála við fyrri sölu. Krafa neytanda á hendur fyrri söluaðila getur einnig náð lengra en krafan á hendur seljandanum. Þetta getur t.d. átt við í því tilviki þegar neytandinn hefur keypt hlutinn með fyrirvara sem ekki gilti við fyrri sölu. Með orðalaginu „sams konar krafa“ er bæði verið að vísa til eðlis kröfu og umfangs. Krafa á hendur fyrri söluaðila verður aðeins borin fram að því marki sem fyrri söluaðili ber ábyrgð á galla gagnvart seljanda. Bæði krafa um afslátt og skaðabætur við riftun getur verið hærri í hendi neytanda en í hendi seljanda. Mismuninn verður neytandinn í slíkum tilvikum að reyna að fá hjá öðrum, t.d. seljandanum.
    Það hver telst fyrri söluaðili er metið út frá neytandanum. Sá sem selt hefur seljandanum hlutinn, eftir atvikum heildsali eða framleiðandi, telst því fyrri söluaðili samkvæmt ákvæðinu.
    Ákvæði 2. mgr. fjallar um sambandið milli krafna skv. 1. mgr. og samninga við fyrri sölur. Ákvæðið er samhljóða 3. mgr. 84. gr. laga um lausafjárkaup. Í ákvæðinu felst að kröfu neytandans á hendur fyrri söluaðila verður ekki vikið til hliðar í samningi milli þessa söluaðila og seljandans í ríkara mæli en hægt hefði verið að semja um milli seljandans og neytanda. Neytandinn öðlast þar með sömu ófrávíkjanlegu gallaheimildirnar á hendur fyrri söluaðila eins og á hendur seljandanum.
    Í 3. mgr. er tekið fram að ákvæði 27. gr. frumvarpsins um tilkynningar gildi um kröfur neytanda á hendur fyrri söluaðila. Samkvæmt ákvæðinu getur frestur neytanda til tilkynninga á hendur fyrri söluaðila verið lengri en frestur seljanda til að senda tilkynningu til sama söluaðila. Þykir eðlilegt að miða við sama frest og gildir þegar neytandi gerir kröfu beint á hendur seljanda, en frestur 1. mgr. 27. gr. byggist á 2. mgr. 5. gr. tilskipunar um neytendakaup.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að neytandi geti með sömu skilyrðum og í 1.–3. mgr. frumvarpsgreinarinnar gert kröfu vegna galla á hendur aðila sem samkvæmt samningi við seljanda eða fyrri söluaðila hefur framkvæmt vinnu við hlutinn. Ákvæðið á sér fyrirmynd í norskum lögum um neytendakaup, en sambærilegt ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum um lausafjárkaup.
    Í 5. mgr. kemur fram að neytandi getur einnig gert kröfu á grundvelli 1. mgr. 84. gr. laga um lausafjárkaup ef það veitir honum víðtækari rétt en hann fær skv. 35. gr. frumvarpsins.
    Loks er kveðið á um það í 6. mgr. frumvarpsgreinarinnar að fyrri söluaðila sé óheimilt að skuldajafna kröfu sem hann á á hendur seljanda á móti kröfu neytanda á hendur fyrri söluaðila. Er ákvæðinu ætlað að taka af skarið um þetta efni, en nokkur óvissa hefur ríkt samkvæmt gildandi lögum um heimild til skuldajöfnunar í tilvikum sem þessum.

Um 36. gr.

    Ákvæðið er sambærilegt við fyrri málslið 86. gr. kaupalaga. Það felur í sér að sá sem búið hefur hlut til eða annar fyrri söluaðili ber ábyrgð á tjóni sem neytandinn verður fyrir á grundvelli þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 2. mgr. 16. gr., en þar er fjallað um upplýsingar sem fram koma á umbúðum söluhlutar, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu.
    Þrátt fyrir það að ábyrgð þriðja manns falli almennt utan gildissviðs almennra skaðabótareglna í frumvarpinu þykir ástæða til að hafa þar sérstakt ákvæði um ábyrgð aðila, sem komu að málum fyrr í söluferlinu, á upplýsingum sem þeir hafa gefið um söluhlutinn. Ákvæðið gengur ekki lengra en leiða mundi af almennum skaðabótareglum, en rétt þykir að afmarka þessa ábyrgð nánar.

Um VII. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um skyldur neytanda gagnvart seljanda. Í 37. gr. er kveðið á um kaupverð söluhlutar, en í 38. gr. er fjallað um greiðslu kaupverðs og rétt neytanda til að halda eftir kaupverði. Í 39. gr. er að finna ákvæði um greiðslustað kaupverðs og í 40. gr. koma fram reglur um atbeina neytanda að efndum kaupa.

Um 37. gr.

    Í 37. gr. frumvarpsins er fjallað um kaupverð og byggist ákvæðið að mestu á 45. gr. kaupalaga, en felur þó í sér nokkrar breytingar.
    1. mgr. 37. gr. er samhljóða 1. mgr. 45. gr. kaupalaga. Af ákvæðinu leiðir að aðilum er frjálst að semja um kaupverð, en í því er fjallað um þegar kaupverðið leiðir ekki af samningi aðila. Ef heildarverð söluhlutar kemur skýrt fram í samningi eða verð á einingu ber að sjálfsögðu að leggja það verð til grundvallar. Þá getur verðið einnig komið fram á annan hátt, t.d. með því að skírskotað er til verðskráningar á tilteknum markaði. Ef seljandi hefur verðlista sem tekur einnig til þeirra kaupa, sem um er að ræða, má oft ganga út frá því að samið hafi verið um það verð sem fram kemur á verðlistanum. Hafi seljandinn eða annar á hans vegum gefið upp tiltekið verð við markaðssetningu á vöru má yfirleitt líta svo á að um það verð hafi verið samið, nema því aðeins að gerðar hafi verið á því breytingar fyrir kaupin eða samið hafi verið um annað verð berum orðum. Fyrri samningar milli aðila geta einnig gefið vísbendingar um kaupverð.
    Þegar kaupsamningur hefur verið gerður en ekki hefur verið samið um kaupverðið ber neytanda samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. að greiða það gangverð sem sams konar hlutir, seldir við svipaðar aðstæður, hafa á samningstímanum, enda sé verðið ekki ósanngjarnt.
    Með hugtakinu gangverð í ákvæðinu er yfirleitt átt við það verð sem seljandi selur sambærilega hluti á, nema hann selji á hærra verði en aðrir innan greinarinnar. Þegar gangverð er fundið þarf því m.a. að bera saman verð á sambærilegu sölustigi. Þá verður einnig að taka tillit til greiðsluskilmála, gæða vörunnar, þeirrar þjónustu sem fylgir, hvar afhenda á vöruna o.s.frv. Þá verður að taka tillit til mismunandi verðlags á staðnum. Yfirleitt mundi vera eðlilegt að leggja til grundvallar gangverð þar sem atvinnustöð seljanda er.
    Það er gangverðið við samningsgerðina sem leggja ber til grundvallar skv. 1. mgr. 37. gr. Hafi seljandi gert almennan fyrirvara um verðbreytingar er þó eðlilegast að leggja til grundvallar verðið á afhendingartíma. Gangverð það sem um ræðir má ekki vera ósanngjarnt. Yfirleitt mundi mega telja gangverðið sanngjarnt, en í vissum tilvikum þarf ekki svo að vera, t.d. þar sem um er að ræða fákeppni eða einokunaraðstöðu.
    Í síðari málslið 1. mgr. er mælt fyrir um hvaða verð neytandi skuli greiða ef ekki er um neitt gangverð á söluhlut að ræða. Ber neytanda þá að greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutarins, gæði hans og atvik að öðru leyti. Með orðunum „atvik að öðru leyti“ er t.d. átt við verðlista.
    Í 2. mgr. 37. gr. er að finna ákvæði sem er samhljóða 46. gr. kaupalaga. Í ákvæðinu er fjallað um það tímamark sem miða skal við þegar kaupverð ræðst af fjölda, máli eða þyngd. Ber í slíkum tilvikum að miða við þann tíma þegar áhættan af söluhlut flyst frá seljanda til neytanda. Ákvæðið getur t.d. haft þýðingu þegar magn söluhlutar ræðst af eiginleikum söluhlutar, flutningi hans o.fl.
    Í 2. málsl. 2. mgr. kemur fram að þegar kaupverð er ákveðið eftir þyngd skal fyrst draga frá þyngd umbúða. Á 2. málsl. einungis við um þyngd en hvorki fjölda né mál. Ákvæðið getur t.d. átt við venjulegar matvörur þar sem verð og þyngd kemur fram á umbúðunum.
    Ákvæði 3. mgr. 37. gr. á sér hliðstæðu í 1. málsl. 2. mgr. 45. gr. kaupalaga. Samkvæmt ákvæðinu getur seljandi ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikninga. Reglan byggist á því að seljandinn eigi ekki að geta krafið neytandann um hærri fjárhæð en sem nemur umsömdu verði söluhlutarins, en eðlilegra þykir að seljandinn beri þennan kostnað fremur en neytandinn. Ákvæðið fjallar ekki um annan kostnað en kostnað við útgáfu og sendingu reiknings, en annar kostnaður eða viðbót við kaupverð getur t.d. verið tengdur sendingu hlutar og verður hans heldur ekki krafist til viðbótar kaupverðinu, nema slíkt eigi sér stoð í samningi eða venju.

Um 38. gr.

    Í 38. gr. frumvarpsins er fjallað um greiðslu kaupverðs og rétt neytanda til að halda eftir kaupverði. Ákvæðið er að hluta til sambærilegt við 1. og 2. mgr. 49. gr. kaupalaga.
    Í 1. mgr. er kveðið á um greiðslutíma. Þar kemur fram að neytandi skuli greiða kaupverð þegar seljandi krefst þess ef greiðslutíma leiðir ekki af kaupsamningi. Krafa seljanda um greiðslu getur t.d. komið fram með því að hann sendir neytanda reikning, en ef ekki kemur fram neinn frestur af hálfu seljanda þegar hann krefst greiðslu ber neytanda að greiða kaupverðið um hæl. Það er því ljóst af ákvæðinu að aðilum er heimilt að semja um greiðslutíma, en af orðalagi ákvæðisins leiðir að það á ekki við þegar greiðslutíminn kemur fram í samningi aðila. Þetta á ekki einungis við þegar greiðslutíminn kemur beinlínis fram í samningi heldur einnig þegar leiða má af atvikum að kaupverðið skuli greitt á ákveðnum tíma. Þegar greiðslutíminn kemur fram í samningi þarf seljandinn ekki að beina greiðsluáskorun til neytanda. Er neytanda því skylt í slíkum tilvikum að greiða að eigin frumkvæði.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að ef ekki hefur verið samið um annað geti seljandinn ekki krafist greiðslu af neytanda fyrr en hlutur er afhentur neytanda eða stendur honum til reiðu í samræmi við efni samningsins og ákvæði laganna. Það nægir ekki að seljandinn bjóði aðeins fram efndir að hluta heldur verður greiðsla seljanda að koma í stað greiðslu neytanda. Þannig getur seljandinn ekki krafist greiðslu fyrir fram, nema slíkt megi leiða af samningi.
    Í 3. mgr. 38. gr. er kveðið á um að neytandi sé ekki bundinn af ákvæðum fyrir fram gerðs samnings um skyldu til að greiða kaupverð á ákveðnum tíma án tillits til þess hvort seljandi uppfyllir skyldur sínar á réttum tíma. Ekki er að finna sambærilegt ákvæði í núgildandi kaupalögum.
    Ákvæði 4. mgr. mælir fyrir um rétt neytanda til þess að rannsaka söluhlut á venjulegan hátt áður en greiðsla fer fram. Ákvæðið er sambærilegt 2. mgr. 49. gr. kaupalaga. Með hugtakinu á „venjulegan hátt“ í málsgreininni er vísað til aðferðarinnar við rannsókn neytanda. Það er ekki skilyrði að um sé að ræða venju varðandi réttinn til rannsóknar og hversu umfangsmikil hún er. En ef um slíka venju er að ræða er rétt að líta svo á að hún marki það hvað teljist venjulegt í þessum efnum. Ef ekki er um slíka venju að ræða verður að líta svo á að umfang rannsóknar fari eftir aðstæðum.
    Samkvæmt ákvæðinu hefur neytandi hins vegar ekki rétt til að rannsaka söluhlut ef það er ósamrýmanlegt þeirri aðferð sem samið hefur verið um varðandi afhendingu og greiðslu kaupverðs. Um það getur t.d. verið að ræða þegar hlutur er sendur gegn póstkröfu. Þótt umsamin aðferð við afhendingu og greiðslu útiloki ekki rannsókn af hálfu neytanda getur hin umsamda aðferð eigi að síður haft þýðingu varðandi umfang rannsóknarinnar. Réttur neytanda samkvæmt ákvæðinu hlýtur í það minnsta að takmarkast við yfirborðsrannsókn. Þannig má t.d. vera að neytandi hafi rétt til þess að opna umbúðir ef unnt er að framkvæma það án þess að skemma umbúðirnar, en neytandi mundi að öðru jöfnu ekki hafa rétt til þess að hluturinn yrði fluttur á atvinnustöð hans til rannsóknar.

Um 39. gr.

    Ákvæðið 39. gr. frumvarpsins fjallar um greiðslustað kaupverðs og svarar að mestu til 48. og 83. gr. kaupalaga og ber að túlka þær á sama hátt.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er kveðið á um það að kaupverð skuli greiða á atvinnustöð seljanda. Þegar ákveða skal hvar atvinnustöð seljanda sé ber að miða við það tímamark þegar greiðsla fer fram. Hugtakið atvinnustöð er ekki skilgreint í ákvæðinu, en þar er fyrst og fremst átt við skipulagðan og viðvarandi atvinnustað þar sem samningar í tengslum við atvinnureksturinn eru að jafnaði gerðir.
    Það getur leitt af samningi eða venju að neytandi skuli greiða eða sé heimilt að greiða í banka eða með póstgírói. Jafnvel þótt hvorki hafi verið um slíkt samið sérstaklega né heldur sé fyrir hendi venja í þeim efnum getur neytanda eftir atvikum verið heimilt að greiða kaupverðið beint inn á reikning seljanda eða með annarri greiðslumiðlun. Þegar greiðsla fer fram í banka eða annarri sambærilegri stofnun hefur greiðslustaður í sjálfu sér ekki sömu þýðingu og endranær. Slíkur greiðsluháttur er nú almennt viðurkenndur þótt samningi um það sé ekki til að dreifa. Ákvæðið getur samt sem áður haft sjálfstæða þýðingu og er ástæðan sú að neytandinn ber áhættuna af því að peningarnir séu í raun og veru til ráðstöfunar fyrir seljanda áður en greiðslufrestur er liðinn. Hann ber því áhættuna af þeirri röskun sem getur orðið við greiðslumiðlunina og því er ekki nægjanlegt að hann greiði í banka á gjalddaga ef greiðslan er seljanda ekki til ráðstöfunar á gjalddaga.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er fjallað um tilvik þar sem atvinnustöð skiptir máli og seljandi hefur fleiri en eina atvinnustöð. Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við það ákvæði.
    Í 3. málsl. 1. mgr. kemur fram sú regla að hafi seljandi ekki atvinnustöð, sem tengist kaupunum, skuli miða við heimili hans. Ákvæðið getur t.d. átt við þegar seljandi, sem hefur atvinnu af verslun og viðskiptum, kaupir eða selur án þess að viðskiptin hafi bein tengsl við atvinnurekstur hans.
    Í 4. málsl. 1. mgr. er sérregla sem fjallar um það tilvik þegar greiðsla skal samkvæmt samningi fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals, t.d. gegn afhendingu farmbréfs eða farmskírteinis. Reglan á einnig við þegar um er að ræða kaup gegn póstkröfu. Í þessum tilvikum er greiðslustaður sá staður þar sem afhending á að fara fram. Vera kann að neytandi greiði kaupverðið áður en afhending á sér stað, t.d. með því að greiða inn á reikning seljanda í banka. Í slíkum tilvikum er nægjanlegt að hann leggi fram kvittun fyrir greiðslu, nema því aðeins að ekki hafi verið samið um slíka greiðsluaðferð og hún sé andstæð hagsmunum seljandans.
    Þegar sagt er að greiðsla skuli fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals verður að hafa í huga þann fyrirvara sem leiðir af 4. mgr. 38. gr. frumvarpsins um rétt neytanda til að rannsaka söluhlut.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að seljandi beri ábyrgð á auknum kostnaði við greiðslu sem verður vegna þess að hann hefur flutt atvinnustöð sína eftir að kaupin voru gerð. Í flestum tilvikum mundi slíkur flutningur ekki valda neytanda neinum aukaútgjöldum, en ef svo er ber seljandinn ábyrgð á auknum kostnaði sem af því leiðir.

Um 40. gr.

    Ákvæði 40. gr. frumvarpsins, sem fjallar um atbeina neytanda að efndum kaupa, er í samræmi við ákvæði 50. gr. kaupalaga. Samkvæmt ákvæðinu hefur neytandi í fyrsta lagi skv. a- lið almenna skyldu til þess að ljá atbeina sinn að efndum seljanda að því marki sem sanngjarnt er. Atbeini neytanda á sér samkvæmt þessu stað fyrir efndir og er forsenda þess að seljandinn geti fullnægt skyldum sínum. Slíkur atbeini kemur ekki hvað síst til álita þegar um pöntunarkaup er að ræða. Atbeini neytanda getur t.d. falist í því að skilgreina vissar þarfir eða útvega tilskilin leyfi.
    Skylda seljanda til að ljá atbeina sinn að efndum kann að vera nánar skilgreind í samningi, en hún getur einnig komið óbeint fram af efni samnings eða aðstæðum að öðru leyti. Umfang skyldu neytandans takmarkast við það sem með sanngirni er hægt að ætlast til af honum. Þess vegna verður að meta það í hverju tilviki fyrir sig hversu langt skylda neytanda nær.
    Í öðru lagi er neytandi skyldur skv. b-lið að taka við hlut með því að sækja hann eða veita honum viðtöku. Skylda neytandans gengur fyrst og fremst út á að fullnægja því sem er tilgangur seljandans með sölunni, þ.e. að losna frá hlutnum.

Um VIII. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um afpöntun og skilarétt. Í 41. gr. er kveðið á um það hvaða reglur gilda um afpöntun neytanda fyrir afhendingu og hefur ákvæðið að geyma nokkrar nýjungar. Í 42. gr. er að finna reglur um skilarétt neytanda eftir afhendingu. Ákvæðið á sér ekki hliðstæðu í núgildandi kaupalögum.

Um 41. gr.

    Í frumvarpsgreininni er að finna reglur um afpöntun neytanda fyrir afhendingu. 1. mgr. ákvæðisins á sér nokkra hliðstæðu í 2. mgr. 52. gr. en sú grein fjallar þó einungis um pöntunarkaup. Í frumvarpinu er lagt til að réttur neytanda til afpöntunar í neytendakaupum nái til allra tegunda kaupa og verði þannig víðtækari en almennt gildir samkvæmt lögum um lausafjárkaup.
    Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram sú regla að seljandi getur ekki haldið fast við kaupin og krafist greiðslu ef neytandi afpantar söluhlut áður en hann er afhentur. Hafi neytandi afpantað hlutinn getur seljandi samkvæmt ákvæðinu ekki haldið fast við kaupin í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi getur hann ekki afhent hlutinn. Í öðru lagi getur seljandi ekki krafist greislu. Afpöntun hefur svipuð áhrif og riftun að því leyti að seljandi getur ekki haldið áfram efndum samningsins. Skilyrði riftunar og afpöntunar eru hins vegar ekki hin sömu sem m.a. kemur fram í því að unnt er að beita afpöntun þótt ekki sé um neinar vanefndir af hálfu seljanda að ræða.
    Samkvæmt síðari málslið málsgreinarinnar getur seljandi þess í stað krafist skaðabóta fyrir það tjón sem afpöntunin veldur honum, nema annað leiði af samningi aðila. Rökin fyrir þessari reglu eru þau að afpöntunarrétturinn felur í sér frávik frá þeirri meginreglu að gerða samninga beri að halda. Af þeim sökum er eðlilegt að seljandi eigi rétt á bótum. Neytandi verður því að greiða bætur í samræmi við þær almennu reglur sem notaðar eru við mat á fjárhæð skaðabóta í XI. kafla frumvarpsins.
    2. mgr. frumvarpsgreinarinnar á sér ekki hliðstæðu í gildandi kaupalögum. Í 1. málsl. 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að aðilar geti samið um viðmiðunarskaðabætur við afpöntun. Æskilegt er að aðilar semji um slíkar bætur fyrir fram þar sem slíkur samningur eykur fyrirsjáanleika hjá báðum aðilum og kemur í veg fyrir þá óvissu sem oft verður þegar deilt er um skaðabætur. Ekki eru gerðar sérstakar formkröfur til samninga um viðmiðunarskaðabætur.
    Í 2. málsl. 2. mgr. koma fram nákvæmari reglur um viðmiðunarskaðabætur, en þar er kveðið á um að slíkar skaðabætur skuli ekki vera hærri en ætla megi að skaðabætur verði samkvæmt almennum ákvæðum XI. kafla frumvapsins um skaðabætur.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um að ef aðilar hafa ekki samið um skaðabætur vegna afpöntunar skuli fjárhæð bótanna ákveðin í samræmi við reglur XI. kafla frumvarpsins. Í þessu felst að meta skal tjón í hverju tilviki fyrir sig með það að markmiði að seljandinn fái fullar bætur fyrir fjárhagslegt tjón sitt.

Um 42. gr.

    Í 42. gr. frumvarpsins er fjallað um skilarétt neytanda eftir afhendingu söluhlutar. Sambærileg ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum um lausafjárkaup.
    Meginregla ákvæðisins kemur fram í 1. mgr. en þar er kveðið á um að neytanda beri að greiða kaupverð eftir að söluhlutur hefur verið afhentur, þrátt fyrir að hluturinn sé endursendur seljanda. Er þetta afleiðing þess að neytandinn er bundinn af kaupsamningnum. Til að ákvæðið eigi við verður gildur samningur að hafa komist á milli aðila og verður hann að vera í gildi. Þá ber einnig að líta til þess að reglur samningaréttar geta haft áhrif á skyldur neytanda að því er þetta varðar.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um að skylda neytanda til greiðslu kaupverðs geti fallið niður þegar söluhlutur er endursendur seljanda eftir afhendingu. Eru þrjú tilvik talin upp í frumvarpsgreininni. Í fyrsta lagi kemur fram í a-lið að skylda neytanda til greiðslu kaupverðs fellur niður ef kaupsamningi hefur verið rift. Í öðru lagi kemur fram í b-lið ákvæðisins að neytanda ber ekki skylda til að greiða kaupverðið ef aðilar hafa samið um skilarétt á hlutnum. Dæmi um þetta er ef hlutur hefur verið keyptur til reynslu. Í þriðja lagi kemur fram í c-lið að neytendi kann að hafa rétt til að greiða ekki kaupverð ef t.d. lög eða samningur veita honum slíkan rétt þrátt fyrir að afhending hafi farið fram. Í lögum nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, er ákvæði um rétt neytanda til að falla frá samningi frá gerð hans án þess að tilgreina nokkra ástæðu eða greiðslu viðurlaga, sbr. 8. gr. laganna. Um rétt neytanda til greiða ekki kaupverð o.s.frv. fer samkvæmt þeim lögum en rétt þykir að í þessari grein neytendakaupalaga sé að finna áréttingu um að neytendur kunna að hafa slíkan rétt samkvæmt ákvæðum slíkra sérlaga.
    Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. getur neytandi skipt söluhlut ef slíkt leiðir af samningi aðila eða almennum réttarreglum.

Um IX. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um úrræði seljanda þegar vanefndir hafa orðið af hálfu neytanda. Í 43. gr. er að finna yfirlit yfir þær kröfur sem seljandi getur gert ef neytandi greiðir ekki kaupverðið eða fullnægir ekki öðrum skyldum sínum. Í 44. gr. er gerð nánari grein fyrir rétti seljanda til að krefjast efnda af neytanda. Í 45. gr. er fjallað um rétt seljanda til að rifta kaupum vegna vanefnda neytanda og í 46. gr. er kveðið á um rétt seljanda til skaðabóta og vaxta vegna greiðsludráttar neytanda. Í 47. gr. frumvarpsins er að finna reglur sem kveða á um skyldu neytanda til að tilkynna seljanda um hindrun sem kemur í veg fyrir að hann geti efnt kaupin og í 48. gr. er að finna reglur um ákvörðun um einkenni hlutar.

Um 43. gr.

    Ákvæði greinarinnar er í samræmi við 1. og 3. mgr. 51. gr. kaupalaga.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er að finna yfirlit um heimildir seljanda vegna vanefnda af hálfu neytanda. Ákvæðið er byggt upp á sama hátt og hefur sama hlutverk og 1. mgr. 19. gr. þar sem fjallað er um úrræði neytanda við greiðsludrátt og 1. mgr. 26. gr. sem gefur yfirlit yfir úrræði neytanda vegna galla og vísast því til athugasemda við þær greinar.
    Ákvæði 1. mgr. á í fyrsta lagi við ef „neytandi greiðir ekki kaupverðið“. Með því er átt við þau tilvik þegar kaupverðið er alls ekki greitt og eins þegar dráttur verður á greiðslu þess. Undir ákvæðið geta einnig fallið aðrar vanefndir varðandi greiðsluna, t.d. þegar greitt er með röngum gjaldmiðli eða á röngum stað.
    1. mgr. á í öðru lagi við ef neytandi „fullnægir ekki öðrum skyldum sínum samkvæmt samningnum eða lögum þessum“. Hér er t.d. átt við þær skyldur sem nefndar eru í 40. gr. um atbeina neytanda að efndum.
    Skilyrði þess að seljandi geti borið fyrir sig vanefndaúrræði skv. 1. mgr. er að vanefndir verði hvorki raktar til seljanda né atvika sem hann varða.
    Seljandi getur, þegar fyrir liggja vanefndir af hálfu neytanda, í fyrsta lagi krafist efnda skv. 44. gr., sbr. a-lið málsgreinarinnar, í öðru lagi getur seljandi á grundvelli b-liðar rift kaupum skv. 45. gr. og í þriðja lagi getur seljandi skv. c-lið krafist skaðabóta og vaxta skv. 46. gr. frumvarpsins. Að lokum getur seljandi haldið greiðslu sinni á grundvelli d-liðar málsgreinarinnar samkvæmt ákvæðum 9. gr. frumvarpsins, en þessi réttur getur verið virkt úrræði til þess að þvinga fram greiðslu. Í þeim tilvikum þar sem neytandinn neitar að ljá atbeina sinn að efndum mun réttur seljanda til þess að halda eftir greiðslu þó hafa litla sjálfstæða þýðingu.
    Það leiðir af eðli máls að seljandi getur ekki samtímis rift kaupum og krafist efnda, en að öðru leyti útilokar notkun eins vanefndaúrræðis ekki fyrirvaralaust beitingu annarra.
    Það er undir skilyrðum viðkomandi ákvæða komið að hvaða marki einstökum úrræðum verður beitt í tilefni vanefndar. Þannig verður t.d. vaxta aðeins krafist af kaupverði þegar um greiðsludrátt er að ræða.
    Í 2. mgr. 43. gr. er tekið fram að réttur seljanda til skaðabóta og vaxta falli ekki brott þótt hann neyti annarra úrræða eða slíkra úrræða verði ekki neytt. Af því leiðir að þær heimildir, sem standa seljanda til boða, útiloka eins og áður segir ekki endilega hver aðra. Um röksemdir fyrir ákvæðinu vísast til þess sem segir um 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins.

Um 44. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um rétt seljanda til þess að krefjast greiðslu og til þess að krefjast þess af neytanda að hann stuðli að efndum. Ákvæði frumvarpsgreinarinnar eiga sér hliðstæðu í 21. gr. frumvarpsins sem fjallar um rétt neytanda til þess að krefjast efnda. Í kaupalögum eru sambærileg ákvæði í 1. og 3. mgr. 52. gr. og í 53. gr., en hér er valin sú leið að hafa öll ákvæði er varða rétt seljanda til að krefjast efnda í einni grein.
    Í 1. mgr. 44. gr. kemur fram sú meginregla að seljandinn getur haldið fast við kaupin og krafist þess að neytandinn greiði kaupverðið. Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 52. gr. kaupalaga. Í síðari málslið málsgreinarinnar er þó gerð undantekning frá meginreglunni ef rekja má greiðsludrátt neytanda til stöðvunar samgangna, greiðslumiðlunar eða annarra þeirra atvika sem neytandi getur ekki stjórnað og hann fær ekki unnið bug á. Sem dæmi um atvik af þessu tagi eru t.d. verkfall í banka eða miklar vélarbilanir sem valda því að greiðsla getur ekki farið fram. Undir stöðvun „vegna annarra atvika“ gætu t.d. fallið gjaldeyrishömlur. Eðlilegt þykir að gera þessar undantekningar með hliðsjón af því að samsvarandi undanþágur gilda fyrir seljanda skv. 21. gr. frumvarpsins. Hins vegar verður að hafa það í huga að þær ástæður, sem afsakað geta neytanda, eru færri en þær sem afsaka seljandann og afhendingardrátt af hans hálfu.
    Í 2. mgr., sem samsvarar 3. mgr. 52. gr. kaupalaga, kemur fram sú regla að hafi hlutur enn ekki verið afhentur glati seljandi rétti sínum til þess að krefjast efnda ef hann bíður óhæfilega lengi með að setja fram slíka kröfu. Ákvæðið gildir aðeins þegar hlutur hefur ekki verið afhentur en endurgjaldið hefur verið greitt fyrir fram að öllu leyti eða nokkru. Eftir að hlutur hefur verið afhentur á 2. mgr. hins vegar ekki við. Rökin fyrir því eru þau að með afhendingu kemur fram skýr viljayfirlýsing um það af hálfu seljanda að hann vænti efnda af hálfu neytanda.
    3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er í samræmi við ákvæði 53. gr. laga um lausafjárkaup. Þar er kveðið á um að um rétt seljanda til að krefjast efnda á þeirri skyldu neytanda að stuðla að efndum gildi ákvæði 21. gr. frumvarpsins eftir því sem við á, en í 21. gr. er kveðið á um rétt neytanda til efnda. Rétturinn til þess að krefjast efnda á þeirri skyldu neytanda að hann stuðli að efndum er hliðstæður rétti neytanda til þess að krefjast efnda skv. 21. gr. frumvarpsins. Við hagsmunamat skv. 21. gr. verður að taka sérstakt tillit til þess að atbeini neytandans getur við ákveðnar aðstæður verið algjör forsenda þess að seljandi geti fullnægt skyldum sínum samkvæmt samningnum.
    Ákvæðið tekur einkanlega til þess atbeina neytanda sem nefndur er í a-lið 40. gr. Verið getur að neytandinn hafi í samningi tekið á sig aðrar skyldur til að ljá atbeina sinn til efnda og á ákvæðið þá einnig við. Aftur á móti fellur skylda neytanda til þess að veita hlut viðtöku skv. b-lið 40. gr. utan ákvæðisins. Hugtakið „að stuðla að efndum“ nær sennilega til flestra skyldna sem geta hugsanlega hvílt á neytanda samkvæmt samningnum.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda við 21. gr. frumvarpsins.

Um 45. gr.

    Frumvarpsgreinin er að mestu leyti í samræmi við 54. og 55. gr. kaupalaga. Að meginstefnu eru skilyrði riftunar þau sömu við greiðsludrátt, þegar neytandi stuðlar ekki að kaupum og þegar neytandi veitir söluhlut ekki viðtöku. Með því er mat á því hvort skilyrði riftunar eru fyrir hendi einfaldað.
    Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram meginreglan um rétt seljanda til riftunar. Skilyrði ákvæðisins eru þau að neytandi hafi brotið samninginn eða vanefnt verulega greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi eða ákvæðum laga. Vanefndin getur ýmist verið til komin vegna greiðsludráttar eða greiðslufalls eða að greitt sé með röngum hætti. Þá verða vanefndir neytanda að vera verulegar. Riftunin sjálf verður að fara fram með munnlegri eða skriflegri yfirlýsingu.
    Yfirlýsing seljanda um að hann rifti kaupum verður að vera ótvíræð. Viðvörun og fyrirspurn vegna hugsanlegrar riftunar síðar duga ekki. Riftunin er bindandi fyrir seljandann þegar yfirlýsingin er komin til neytanda og hann getur ekki afturkallað hana eftir það tímamark.
    Um skilgreiningu á því hvenær vanefndir teljast verulegar vísast til athugasemda við 23. og 32. gr. Áskilnaðurinn um að vanefndir þurfi að vera verulegar á við bæði þegar neytandinn á að staðgreiða kaupverðið gegn móttöku söluhlutar og þegar neytandi á t.d. að greiða kaupverð gegn móttöku skjala. Greiðsluskilmálar geta þó haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðinu um verulegar vanefndir er fullnægt eða ekki. Einnig getur verið rétt að líta til eðlis kaupanna og þess hvort um greiðsludrátt varðandi allt kaupverðið er að ræða eða einungis lítinn hluta þess.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um það að seljandi geti ekki rift kaupunum eftir að neytandi hefur greitt kaupverðið. Ákvæðið styðst að nokkru við 59. gr. kaupalaga. Með greiðslu kaupverðs er átt við að greiðsla hafi í raun verið innt af hendi þannig að seljandinn hafi veitt aðalgreiðslu neytandans viðtöku. Rökin fyrir ákvæðinu eru þau að hafi seljandi dregið það að setja fram kröfu um riftun sé ekki sanngjarnt að hann geti gert það eftir að neytandi hefur innt greiðslu af hendi.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er fjallað um rétt seljanda til riftunar þegar neytandi greiðir ekki kaupverðið innan sanngjarns viðbótarfrests sem seljandinn hefur gefið honum til efnda. Hér gildir ekki sami áskilnaður og í 1. mgr. að vanefndir séu verulegar. Ákvæðið á aðeins við þegar neytandi greiðir ekki kaupverðið og nær ekki til seinkunar sem verður áður en viðbótarfrestur rennur út. Riftun getur ekki farið fram fyrr en eftir að viðbótarfresturinn er úti, en þó einnig fyrir þann tíma ef seljandi hefur veitt tilkynningu viðtöku frá neytanda um að hann ætli ekki að efna skuldbindingar sínar. Ákvæði þetta er að öðru leyti sambærilegt við 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins og ber að skýra á svipaðan hátt.
    Í 2. málsl. 2. mgr. kemur fram að seljandi getur ekki rift kaupum á meðan viðbótarfrestur líður nema því aðeins að neytandinn hafi lýst því yfir að hann muni ekki efna sinn hlut á þeim tíma. Um skýringu þessa ákvæðis vísast til athugasemda við sambærilegt ákvæði í 4. mgr. 23. gr.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um að seljandi hafi ekki rétt til riftunar þegar neytandinn hefur þegar veitt söluhlut viðtöku. Seljandinn getur þegar svo stendur á því aðeins rift að hann hafi gert um það fyrirvara eða neytandinn hafni hlutnum. Til viðbótar verður almennum skilyrðum riftunar skv. 1.–3. mgr. einnig að vera fullnægt. Fyrirvari af því tagi sem hér var nefndur getur verið orðaður beint eða óbeint.
    Vísun til þess að neytandinn hafni hlutnum á við þegar neytandinn hafnar honum af öðrum ástæðum en vegna vanefnda af hálfu seljanda. En ákvæðið getur einnig átt við ef neytandinn hafnar hlutnum með vísun til vanefnda af hálfu seljanda, sem seljandinn mótmælir, jafnhliða því að seljandinn riftir kaupum vegna greiðsludráttar.

Um 46. gr.

    Ákvæði 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er að mörgu leyti sambærilegt við 71. gr. kaupalaga. Ákvæðið á þó aðeins við um vexti vegna dráttar á greiðslu kaupverðs en ekki aðrar vangoldnar fjárhæðir sem ákvæði kaupalaganna ná til. Tilvísun ákvæðisins til laga um vexti og verðbætur miðast við lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, sem nú gilda um vexti, en að sjálfsögðu er um að ræða tilvísun til þeirra almennu vaxtalaga sem í gildi eru á hverjum tíma. Tilvísunin felur einnig í sér að vaxtafótur, upphafstími vaxta og útreikningur að öðru leyti skal vera í samræmi við það sem fyrir er mælt í vaxtalögum.
    Ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. eru í öllum aðalatriðum orðuð eins og 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins. Eins og í 1. mgr. 44. gr. eru stöðvun samgangna og greiðslumiðlunar sérstaklega nefnd sem dæmi um efndahindranir sem neytandinn fær ekki ráðið við, enda eru þetta þau tilvik sem ætla má að hvað raunhæfust séu.
    Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. gilda ákvæði 3. og 4. mgr. 24. gr. frumvarpsins eftir því sem við getur átt. Neytandinn ber með öðrum orðum sambærilega ábyrgð á aðstoðarmönnum sínum og seljandinn gerir. Í tilvísuninni felst einnig að greiðsluhindrun leysir aðeins undan ábyrgð meðan hún varir.

Um 47. gr.

    Frumvarpsgreinin, sem er samhljóða ákvæði 58. gr. kaupalaga, leggur þær skyldur á neytanda að tilkynna seljanda um hindrun og áhrif hennar á möguleika sína til að efna kaupin. Samkvæmt greininni ber neytandi hlutlæga ábyrgð á því tjóni sem unnt hefði verið að komast hjá ef tilkynnt hefði verið um hindrunina skv. 47. gr. Tilkynningarskyldan gildir einnig að því er varðar hindranir sem neytandi ber ekki ábyrgð á. Orðalag 47. gr. er í samræmi við orðalag 25. gr. um upplýsingaskyldu seljanda í sambærilegum tilvikum og vísast því til skýringa við þá grein.

Um 48. gr.

    Frumvarpsgreinin, sem er samhljóða 60. gr. kaupalaga, veitir seljanda rétt til að ákveða lögun söluhlutar, mál eða aðra eiginleika hans þegar svo stendur á að neytandi ákveður ekki þessi einkenni samkvæmt ákvæðum samningsins. Ákvæðið á við þegar eiginleikar söluhlutar eru ekki tilgreindir í einstökum atriðum í samningi aðila, en eigi að síður er ráð fyrir því gert eða um það samið að neytandinn skuli tilgreina eiginleikana seinna. Hefur ákvæðið sérstaka þýðingu í pöntunarkaupum, en það á einnig við þegar seljandinn á að útvega hlut sérstaklega fyrir neytanda.
    Í mörgum tilvikum er eðlilegt fyrir seljanda að rifta kaupum og krefjast skaðabóta ef neytandi tekur ekki afstöðu til þess hver skuli vera einkenni eða eiginleikar söluhlutar. Vanræksla neytanda í þessum efnum þarf ekki alltaf að skipta miklu máli, eða hún gefur ekki tilefni til riftunar. Þá er að vísu sá möguleiki fyrir hendi að sækja neytanda til skaðabóta, en einnig í því tilviki má vera að seljandi megi búast við mótmælum eða gagnkröfum. Því felur 48. gr. í sér úrræði sem eru til þess fallin að koma í veg fyrir riftun eða skaðabótakröfur og deilur milli samningsaðila.
    Sérgreining samkvæmt ákvæðinu getur snúist um lögun hlutar, mál eða aðra eiginleika, t.d. gæði, tæknilega útfærslu, árgerð, lit, tísku o.fl. Það er skilyrði samkvæmt greininni að neytandi hafi samningsbundnar skyldur til að ákveða nánari sérgreiningu hlutarins. Þegar neytandi hefur sérgreint söluhlut í samræmi við ákvæði samnings verður sérgreiningin hluti samningsins og bindandi fyrir báða aðila. Því getur neytandi ekki síðar breytt sérgreiningunni einhliða.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að seljanda er heimilt, að ákveðnum skilyrðum fullnægðum, að ákveða eiginleika hins selda. Meginskilyrðið er að neytandinn hafi ekki gert það á umsömdum tíma eða innan hæfilegs tíma eftir að hafa fengið um það hvatningu frá seljanda. Umsaminn tími getur verið ákveðinn beint í samningnum, t.d. með tiltekinni dagsetningu eða ákveðnum fresti.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. er seljandinn bundinn við það sem hann „má ætla“ að séu hagsmunir neytanda. Því verður seljandi, þegar hann ákveður eiginleika hins selda á grundvelli ákvæðisins, að gera það í samræmi við það sem seljandi telur vera hagsmuni neytanda. Í flestum tilvikum má leggja til grundvallar þekkingu seljanda og starfsmanna hans á hagsmunum neytandans miðað við samningaviðræður aðila og þau viðskiptaskjöl sem fyrir liggja. Yfirleitt verður einnig að leggja til grundvallar þá hagsmuni sem neytendur í samsvarandi stöðu hafa venjulega. Ef seljandi gætir ekki þessara sjónarmiða verður afleiðingin sú að sérgreiningin verður ekki bindandi fyrir neytandann. Seljandi á venjulega ekki í miklum erfiðleikum með sérgreiningu þegar um er að ræða hluti sem hann hefur á lager og seldir eru á venjulegum markaði. Í pöntunarkaupum og þegar um sérhannaða hluti er að ræða er staðan hins vegar önnur. Meðal annars vegna þessa er í 3. málsl. 1. mgr. kveðið á um að réttur seljanda til að sérgreina standi ekki í vegi fyrir því að hann geti kosið að beita öðrum vanefndarúrræðum, jafnvel þótt hann hafi séð um sérgreininguna. Seljandi gæti því tekið þá ákvörðun að rifta kaupsamningnum og krefjast skaðabóta.
    Í 2. mgr. koma fram frekari skilyrði gangvart seljanda í þeim tilvikum þegar hann sjálfur ákvarðar einkenni hins selda. Í slíkum tilvikum verður seljandinn að upplýsa neytandann um þau einkenni, sem hann hefur tekið ákvörðun um, og veita jafnframt neytanda færi á að breyta þeim. Ef neytandinn neytir ekki slíkra úrræða verður ákvörðun seljanda bindandi þannig að neytandinn getur ekki borið fyrir sig vanefndaúrræði af því tilefni að eiginleikar hins selda séu ekki í samræmi við óskir hans.
    Skilyrði þess að ákvarðanir seljanda um eiginleika söluhlutar verði bindandi fyrir neytanda er að neytandi hafi fengið tilkynningu frá seljanda þar sem honum er veittur hæfilegur frestur til að breyta einkennunum. Leiðir þetta ótvírætt af 2. málsl. 2. mgr. sem í þessu tilviki gengur framar almennum ákvæðum 4. gr. um áhættuna af sendingu tilkynninga. „Hæfilegur frestur“ samkvæmt ákvæðinu reiknast frá þeim tíma þegar neytandi veitti tilkynningu viðtöku. Við mat á frestinum ber að taka tillit til hagsmuna beggja aðila.

Um X. kafla.

    Í kaflnum er að finna sameiginlegar reglur um riftun og nýja afhendingu. Í 49. gr. er kveðið á um réttaráhrif riftunar og nýrrar afhendingar, en í 50. gr. er fjallað um afrakstur og vexti þegar greiðslum er skilað. Í 51. gr. koma fram reglur um missi réttar til riftunar og afhendingar á ný.

Um 49. gr.

    Í frumvarpsgreininni eru sameiginlegar reglur um áhrif þess að kaupum er rift og um skil á greiðslum. Ákvæði greinarinnar svarar til 64. gr. laga um lausafjárkaup.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir því að krafan um riftun eða um skil á greiðslum sé á rökum reist. Því getur aðili samnings ekki frestað samningsskyldum sínum með því að rifta kaupum, nema skilyrði þess séu til staðar, annars er riftun ólögmæt. Riftun fer þannig fram á ábyrgð þess sem riftir. Ef gagnaðili samþykkir að kaupin gangi til baka án þess að skilyrði riftunar séu fyrir hendi er eðlilegt að fara að öðru leyti eftir ákvæðum greinarinnar, nema aðilar semji beinlínis um aðra tilhögun.
    1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kveður á um að skyldur aðila falli niður þegar kaupum er rift. Þetta gildir um allar skyldur aðila samkvæmt kaupsamningi, en ekki aðeins um skylduna til að afhenda söluhlut og greiða hann. Sumir samningar kunna þó að vera þess eðlis að þetta getur ekki átt við að öllu leyti, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Þá getur einnig verið að riftun hafi samkvæmt lögum í för með sér sérstakar skyldur fyrir aðila, t.d. skyldu til að annast söluhlut.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að hafi kaupin verið efnd að fullu eða að hluta af hálfu annars hvors aðila megi krefjast skila á því sem móttekið hefur verið. Í ákvæðinu felst því að aðili á rétt á að krefjast þess að gagnaðili skili því sem hann hafði veitt viðtöku áður en riftun fór fram. Seljandi verður þannig að skila kaupverðinu og neytandi verður að skila söluhlut. Sumar greiðslur eru þess eðlis að ekki verður um nein skil á þeim að ræða. Hafi seljandi t.d. innt af höndum vinnu við að setja upp söluhlut verður vinnuframlaginu sjálfu ekki skilað aftur í bókstaflegum skilningi. Af þeim sökum verður að leysa úr slíku með greiðslu skaðabóta skv. 1. mgr. 50. gr.
    Ekki er kveðið á um það hvar aðilar skulu skila greiðslum sínum, en eðlilegt er að greiðslum sé skilað á þeim stað þar sem þeim var veitt viðtaka, nema um annað hafi verið samið. Útgjöld vegna skila á greiðslum af hálfu aðila verða sérstakir liðir við skaðabótauppgjör þeirra í millum. Sá sem ber ábyrgð á vanefndum verður að standa straum af þeim útgjöldum sem þær hafa í för með sér.
    Þegar neytandi riftir kaupum getur réttur seljanda til að krefjast skila á því sem hann hefur afhent takmarkast samkvæmt ákvæðum 51. gr., sbr. athugasemdir við þá grein. Ákvæði 51. gr. gildir hins vegar ekki þegar seljandi riftir kaupum. Riftunarréttur seljanda er takmarkaður af ákvæðum 3. mgr. 45. gr. þegar hlutur hefur verið afhentur neytanda. Þar fyrir utan mun seljandi oft hafa lítinn áhuga á riftun ef neytandi getur ekki skilað söluhlut aftur í sama ástandi og hann tók við honum.
    Í 2. málsl. 2. mgr. er að finna reglu um haldsrétt. Hún mælir fyrir um það að aðili geti haldið því sem hann hefur tekið við þar til gagnaðili skilar því sem hann hefur móttekið. Þessi réttur gildir einnig um skaðabætur og vexti, sbr. 3. málsl. 2. mgr. Reglan tekur einnig til skaðabóta skv. 50. gr. og kröfu um vexti skv. 2. mgr. 50. gr. Haldsrétturinn skv. 3. málsl. gildir þó ekki ef trygging hefur verið sett.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að eigi seljandi að afhenda eitthvað á ný geti neytandi haldið því sem sem hann hefur móttekið þar til afhending hefur átt sér stað að nýju. Ákvæðið á bæði við þegar afhending á ný fer fram að kröfu neytanda, sbr. 1. mgr. 29. gr., og þegar seljandi afhendir á ný skv. 3. mgr. 29. gr. frumvarpsins. Seljandi hefur auðvitað ekki samsvarandi haldsrétt í kaupverðinu. Ákvæðið byggist á þeirri forsendu að seljandinn eigi rétt á því að fá hinn gallaða hlut aftur til baka þegar hann afhendir á ný.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að riftun hafi engin áhrif á samningsákvæði um atvinnuleyndarmál, um lausn ágreiningsefna eða um réttindi og skyldur aðila sem leiðir af riftuninni. Því falla ekki allar skyldur aðila brott við riftun. Þá gilda ákvæði í samningum um afleiðingar vanefnda að sjálfsögðu þó að samningi sé rift. Ákvæði málsgreinarinnar eiga m.a. við um lausn deilumála samkvæmt ákvæðum samningsins, um varnarþing, gerðardóma o.fl. Sama á við um samningsákvæði sem takmarka bótaskyldu, févítisákvæði o.fl. Sérstaklega er minnst á atvinnuleyndarmál og er þá haft í huga að þótt samningi sé rift breytir það ekki þeim skyldum sem aðilar hafa tekið á sig í sambandi við atvinnuleyndarmál sem þeir hafa komist að vegna kaupanna.

Um 50. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar að mestu leyti til 65. gr. kaupalaga, en þó er að finna nýmæli í ákvæðinu. Greinin, sem er til fyllingar ákvæðum 49. gr., felur í sér reglur um áhrif þess þegar kaupum er rift og kveður á um afrakstur og vexti þegar greiðslum er skilað. Gildissvið greinarinnar er takmarkað við riftun og á hún því ekki við um afhendingu á ný. Munur á riftun og nýrri afhendingu er m.a. sá að tilgangur riftunar er sá að neytandinn hafi ekki vörslur hlutarins, en tilgangurinn með afhendingu nýrrar greiðslu er sá að neytandinn fái annan hlut í stað þess sem afhentur var.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það að neytandinn eigi að færa seljanda til tekna þann afrakstur sem hann hefur haft af hlutnum. Ákvæðið á aðeins við um venjulegan afrakstur sem ekki er beinlínis háður því að neytandinn hafi látið í té sérstakt framlag af sinni hálfu, t.d. vexti af kröfu eða arð af hlutabréfum o.s.frv. Ákvæðið nær hins vegar ekki til hagnaðar af sölu hlutar eða verðmætisaukningar vegna endurbóta á hlut.
    Í öðru lagi gerir ákvæðið ráð fyrir því að neytandinn skuli greiða hæfilegt endurgjald fyrir veruleg not sem hann hefur haft af söluhlut. Rökin fyrir ákvæðinu er þau að langur tími getur liðið frá því að hlutur er móttekinn og þar til honum er skilað og því sé eðlilegt að aðeins komi til álita að greiða endurgjald fyrir veruleg not af hlut. Hvað felst í hugtakinu „veruleg not“ ber að meta í hverju einstöku tilviki út frá tegund hlutarins, kaupverði og aðstæðum að öðru leyti. Þegar fyrir liggja veruleg not verður að meta hæfilegt endurgjald fyrir þau í hverju tilviki fyrir sig. Leggja ber til grundvallar þau not sem neytandinn hefur haft af hlutnum að frádregnum kostnaði hans af hlutnum. Í slíku mati er heimilt að líta bæði til beins kostnaðar neytanda og þeirra óþæginda sem hann hefur haft. Sem dæmi um veruleg not má nefna að eðlilegt væri að greiða endurgjald þegar kaupum á pels er rift eftir að hann hefur verið notaður í tvö ár. Hins vegar væri ekki eðlilegt að krefjast endurgjalds fyrir not af bíl ef kaupum er rift innan tveggja til þriggja mánaða. Þó þarf að skoða aðstæður hverju sinni við mat á því hvað teljast veruleg not.
    Hugtakið „hæfilegt endurgjald“ ber að skilja þannig að endurgjaldið getur venjulega ekki orðið hærra en sú verðmætisrýrnun sem not neytanda hafa leitt af sér. Á hinn bóginn leiðir af framansögðu að neytandanum ber ekki án fyrirvara að greiða fulla verðrýrnun hlutarins. Við ákvörðun á endurgjaldi vegna verulegra nota á söluhlut skal almennt miða við tímabilið frá því að söluhlut var veitt viðtaka og þar til honum er skilað aftur. Af samningi aðila getur þó leitt að afrakstur af söluhlut eigi að koma neytandanum til góða frá fyrra tímamarki og þegar svo hagar til ber að sjálfsögðu að miða við það tímamark.
    Ef það er neytandinn sem riftir kaupum verður að taka sérstaka afstöðu til þess hvort hann eigi að greiða bætur fyrir notkun sem hann hafði af hlutnum eftir að gallinn kom í ljós, t.d. meðan deilt var um hvort riftunarréttur væri til staðar. Hér sem endranær verður að meta hvað telst hæfilegt endurgjald.
    2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er nokkuð breytt frá því sem hún er í kaupalögunum. Í fyrri málslið 2. mgr. kemur fram sambærileg regla og er í lögum um lausafjárkaup að seljanda beri að greiða vexti í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu ef hann á að endurgreiða kaupverðið. Hins vegar ber að miða upphafstíma vaxta við annað tímamark en samkvæmt kaupalögunum eða þann dag sem neytandi tilkynnti seljanda að hann mundi bera fyrir sig gallann. Síðari málsliður 2. mgr. er nýmæli en þar kemur fram að seljanda ber að greiða vexti frá þeim degi er hann tók við greiðslunni þegar neytandi er krafinn um endurgjald fyrir not af söluhlut skv. 1. mgr.

Um 51. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar að öllu verulegu leyti til 66. gr. kaupalaga. Þá byggist ákvæðið einnig á 3. gr. tilskipunar um neytendakaup. Greinina verður að skoða í samhengi við 2. mgr. 49. gr. sem að sumu leyti er byggð á svipuðum viðhorfum, en þar kemur fram að neytandi þarf í vissum tilvikum ekki að afhenda söluhlut í því ástandi og magni sem hann veitti honum viðtöku. Í greininni koma fram skilyrði fyrir því að neytandi geti rift kaupum eða krafist afhendingar á ný og felur hún því í sér takmörkun á ákvæðum 23., 29. og 32. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er kveðið á um það að neytandinn geti því aðeins rift kaupum eða krafist afhendingar á ný að hann geti skilað hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hluturinn var í þegar neytandinn veitti honum viðtöku. Verður að meta það í hverju einstöku tilviki hvað telst verulegt í þessu sambandi. Sem dæmi má nefna að það telst ekki veruleg breyting á ástandi nýs bíls, sem neytandi á rétt á að rifta kaupunum á, að læsing annarrar fram hurðar sé ekki í lagi. Öðru máli gegnir ef bifreiðin er vart í ökufæru ástandi vegna slæmrar meðferðar. Við mat á því hvað telst verulegt skiptir einnig máli hvort um er að ræða nýjan hlut eða gamlan. Hafi orðið lakkskemmdir við meðferð neytanda á tuttugu ára gamalli bifreið sem hann vill rifta kaupum á verður ekki sama mat lagt til grundvallar eins og um væri að ræða nýjan bíl.
    Í a–c-liðum málsgreinarinnar koma fram undantekningar á meginreglu ákvæðisins. Í fyrsta lagi leiðir af a-lið að neytandi glatar ekki rétti sínum til þess að krefjast riftunar eða nýrrar afhendingar þegar ástæður þess að ókleift er að skila hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni má rekja til eiginleika hlutarins. Undir ákvæðið geta m.a. fallið matvörur eða afskorin blóm sem hafa stuttan endingartíma og eyðileggjast áður en skil geta farið fram. Oft getur verið samhengi milli riftunarástæðu og þess atviks sem veldur því að hlutur eyðileggst. Ef sending af ávöxtum er t.d. afhent of seint getur það veitt rétt til riftunar, en jafnhliða veldur seinkunin því beinlínis að vörusendingin eyðileggst.
    Í öðru lagi er kveðið á um það í a-lið að rétturinn til riftunar og nýrrar afhendingar glatast ekki þegar ástæður þess að hlutur rýrnar má rekja til aðstæðna sem ekki varða neytandann, þ.e. ekki er hægt að kenna athöfnum eða athafnaleysi neytanda um rýrnun söluhlutar. Þetta getur átt við um tilvik þar sem hlutur verður fyrir skemmdum af hálfu seljandans, t.d. í sambandi við úrbætur á galla. Einnig á ákvæðið við um það ef seljandinn gefur rangar upplýsingar um meðferð og notkun hlutarins og það leiðir til þess að hann verður fyrir skemmdum. Þá fellur einnig hér undir það tilvik þegar þriðji maður eða tilviljunarkenndur atburður veldur tjóni á hlut. Má nefna sem dæmi þegar söluhlutur eyðileggst í bruna eða bíl er stolið og hvorki neytanda né seljanda er um að kenna í því sambandi.
    Neytandinn getur rift kaupum eða krafist nýrrar afhendingar á grundvelli b-liðar þegar hluturinn eyðileggst í heild eða að hluta eða rýrnar og það má rekja til verknaðar sem nauðsynlegt var að framkvæma til þess að ganga úr skugga um hvort hluturinn væri gallaður eða ekki. Á ákvæðið því ekki við um greiðsludrátt.
    Ákvæðið styðst við þau rök að það eigi ekki að geta leitt til þess að riftunarrétturinn glatist þótt neytandinn rannsaki hlutinn annaðhvort strax eða síðar ef rannsóknin gengur ekki lengra en góð venja segir til um og um er að ræða nauðsynlega rannsókn til að ganga úr skugga um hvort hluturinn sé gallaður. Í ákvæðinu felst m.a. að seljandinn getur ekki andmælt riftun eða nýrri afhendingu á þeirri forsendu að neytandinn hefur tekið umbúðirnar utan af hlutnum eða prófað hann með venjulegum hætti.
    Í c-lið ákvæðisins er kveðið á um að riftunarréttur neytanda glatist ekki þegar hlutur hefur verið notaður af neytanda við fyrirhuguð not áður en honum varð ljós eða mátti verða ljós gallinn sem leiðir til riftunar eða kröfu um nýja afhendingu. Byggist ákvæðið á því að seljandi má alltaf búast við því að hlutur verði notaður í samræmi við það sem fyrirhugað og venjulegt er að nota slíka hluti til. Að auki nær ákvæðið til þess þegar seljanda var ljóst að hlutur var ætlaður til ákveðinna eða sérstakra nota. Í ákvæðinu felst þannig í raun að seljandi getur ekki hafnað riftunarkröfu eða kröfu um nýja afhendingu af þeirri ástæðu einni að neytandi hefur notað söluhlut. Ákvæði c-liðar hefur einkum þýðingu við kaup á neysluvörum í þrengri merkinu, t.d. matvörum og öðrum vörum sem neytt er strax eða fljótlega. Ákvæðið gildir þó einnig í öðrum tilvikum, t.d. við kaup á nýjum bílum.
    Í ákvæðinu kemur fram það skilyrði að notin hafi átt sér stað áður en neytandanum varð ljós eða mátti verða ljós galli sá sem er ástæða þess að hann hafnar söluhlut. Þannig stendur það riftun og nýrri afhendingu í vegi ef not neytanda, eftir að honum varð galli ljós, hafa leitt til verulegrar rýrnunar á ástandi hlutar og magni. Því verður neytandinn að hætta við að nota hlutinn ef hann ætlar að rifta kaupum eða krefjast nýrrar afhendingar.
    Ákvæðið á við hver svo sem ástæða verðmætisrýrnunar söluhlutar er. Almenn skilyrði riftunar eða réttar til að krefjast nýrrar afhendingar verða að vera til staðar og verður að túlka ákvæðið með þeirri takmörkun að því verði ekki beitt þegar hlutur er með öllu ónýtur.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er að finna aðra undantekningu frá meginreglu 1. málsl. 1. mgr., en þar er kveðið á um það að neytandi glati ekki rétti sínum til riftunar eða nýrrar afhendingar ef hann bætir þá verðmætisrýrnun sem hefur orðið á hlutnum.

Um XI. kafla.

    Í kaflanum koma fram reglur þær sem gilda um skaðabætur samkvæmt frumvarpinu. Í 52. gr. er kveðið á um umfang skaðabóta og þar er einnig kveðið á um að skaðabætur á grundvelli ákvæða frumvarpsins ná hvorki til líkamstjóns né tjóns í atvinnustarfsemi neytanda. Í 53. gr. eru ákvæði um verðmun sem grundvöll fyrir ákvörðun fjárhæðar tjóns þegar aðili hefur gert staðgönguráðstöfun eftir að hafa rift kaupum. Í 54. gr. koma fram reglur um skyldu aðila til að takmarka tjón sitt auk þess sem fram kemur regla um mildun ábyrgðar hins bótaskylda.

Um 52. gr.

    Ákvæðið svarar að nokkru leyti til 67. gr. laga um lausafjárkaup, en það hefur þó verið einfaldað nokkuð. Í frumvarpsgreininni er kveðið á um umfang skaðabóta og nær ákvæðið bæði yfir tjón neytanda og seljanda. Skaðabótaábyrgð aðila byggist hins vegar á öðrum ákvæðum frumvarpsins.
    Í 1. málsl. 1. mgr., sem er í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 67. gr. kaupalaga, koma fram grundvallaratriði varðandi útreikning skaðabóta þegar neytandi eða seljandi eru skaðabótaskyldir. Meginreglan er sú að tap og útgjöld, sem er að rekja til vanefnda, skal bæta að fullu. Sá sem fyrir vanefndum verður skal í fjárhagslegu tilliti verða eins settur og gagnaðili hefði réttilega efnt samninginn.
    Í frumvarpi til laga um neytendakaup er ekki greint á milli beins og óbeins tjóns líkt og gert er í lögum um lausafjárkaup, sbr. 2. og 3. mgr. 67. gr. Neytandi getur því einnig krafist skaðabóta fyrir óbeint tjón. Rökin fyrir því að greina ekki á milli beins og óbeins tjóns í neytendakaupum eru m.a. þau að tjón í neytendakaupum er yfirleitt annars eðlis en tjón sem verður í kaupum á milli tveggja aðila sem báðir hafa atvinnu sína af sölu. Þannig koma almennt ekki upp í neytendakaupum kröfur um skaðabætur fyrir tjón af völdum rekstrarstöðvunar eða tjón sem rekja má til tapaðs hagnaðar, sbr. a- og c-lið 2. mgr. 67. gr. kaupalaga. Það felur því í raun ekki í sér mikla víkkun á skaðabótaábyrgð seljanda að gera hann einnig ábyrgan fyrir óbeinu tjóni. Þó eru í 2. mgr. gerðar undantekningar á skaðabótaábyrgð að því er varðar líkamstjón og tjón í atvinnustarfsemi neytanda.
    Meginregla fyrri málsliðar 1. mgr. takmarkast m.a. af almennum sjónarmiðum um sennilega afleiðingu og af reglu síðari málsliðar 1. mgr. Meginreglan takmarkast einnig af ákvæði 2. mgr. um að skaðabætur nái ekki til tiltekinna tjóna. Regla 54. gr. um skyldu til að draga úr tjóni og um mildun ábyrgðar felur einnig í sér takmörkun meginreglunnar.
    Ákvæðið gildir um tjón á söluhlut og afleiðingar þess. Um tjón, sem verður á öðrum hlutum en söluhlut, er rætt í athugasemdum við 34. gr. Ákvæðið gildir einvörðungu um fjárhagslegt tjón og að jafnaði aðeins um einstaklingsbundið tjón sem aðili kaupsamnings verður fyrir. Við ákvörðun tjónsins er aðalreglan sú að tjón er bætt að fullu fyrir tap og útgjöld sem leiðir af vanefndum. Því er þess krafist að orsakasamband sé milli vanefndar og tjónsins sem af hlýst. Vísað er til almennra skaðabótareglna um hvað þetta felur nánar í sér.
    Í fyrri málslið 1. mgr. eru nefndir þrír ólíkir liðir sem skaðabætur skulu bæta, þ.e. útgjöld, verðmunur og tapaður hagnaður. Upptalningin er ekki tæmandi og hún segir heldur ekkert til um skilyrði þess að krefjast bóta fyrir hvern einstakan lið, en það fer eftir öðrum ákvæðum.
    Undir útgjöld í 1. mgr. fellur kostnaður sem aðili hefur orðið fyrir vegna vanefndanna, t.d. kostnaður vegna póst- og skeytasendinga, flutninga og ferðalaga. Einnig getur fallið hér undir kostnaður við að staðreyna tjón og umfang þess eða kostnaður við að senda hlutinn aftur til seljanda til viðgerðar. Þá getur neytandi hafa lagt í kostnað við að draga úr afleiðingum vanefnda, t.d. með því að leigja hlut í stað þess sem bæta skal. Seljandi getur orðið fyrir kostnaði vegna vanefnda neytanda, t.d. við að selja hlutinn öðrum eða við að innheimta kaupverðið.
    Útgjöld sem falla undir ákvæðið er unnt að fá bætt jafnvel þótt sá sem fyrir vanefndum verður rifti kaupum.
    Þrátt fyrir að það komi ekki fram beinum orðum í frumvarpinu á aðili rétt á skaðabótum vegna ófjárhagslegs tjóns sem leiðir af vanefnd, t.d. vegna óhagræðis, tapaðs tíma og eigin vinnuframlags. Byggjast slíkar bætur á sanngirnismati. Eftir stendur þó sem aðalregla að sé ekki unnt að staðreyna neitt fjárhagslegt tjón getur ekki orðið um bætur að ræða.
    Annar liðurinn sem talinn er upp í fyrri málslið 1. mgr. er tjón vegna verðmunar, en það getur t.d. komið til vegna verðsveiflna á markaði eða vegna verðmunar hjá hinum ýmsu afhendingaraðilum. Það er forsenda skaðabóta vegnar verðmunar að samningsaðili hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum, en það er ekki skilyrði að hann hafi gert staðgönguráðstafanir. Sem dæmi um skaðabætur vegna verðmunar má nefna þá aðstöðu þegar neytandinn riftir kaupum vegna greiðsludráttar og verð fer hækkandi eftir samningsgerðina þannig að hlut er einungis unnt að kaupa á hærra verði. Með sama hætti getur seljandinn fengið skaðabætur vegna verðmunar þegar kaupum er rift og verð fer lækkandi eftir gerð samningsins.
    Skaðabætur vegna tapaðs hagnaðar geta verið raunhæfar að því marki sem hann verður ekki bættur á grundvelli verðmunar. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik þegar kaup varða hlut sem hefur verið sérstaklega búinn til fyrir neytanda. Hluturinn er þá oft þannig í eðli sínu að seljandinn hefur litla möguleika á að selja hann öðrum. Þegar seljandinn riftir kaupunum eða neytandinn afpantar hlutinn, sbr. 41. gr., verður seljandinn því af hagnaði sem hann á kröfu til að fá bættan.
    Síðari málsliður 1. mgr. takmarkar réttinn til skaðabóta við það tjón sem aðili gat með sanngirni séð fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndanna. Ákvæðið er í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 67. gr. kaupalaga. Í ákvæðinu felst ekki neins konar sakarregla heldur fyrst og fremst regla um það að tjónþoli geti ekki krafist skaðabóta fyrir sérhvert tjón sem hægt er að rekja til vanefnda. Ákvæðið veitir því fyrst og fremst leiðbeiningar við ákvörðun skaðabóta sem útilokar skaðabætur fyrir fjarlægar og óvissar afleiðingar vanefnda. Málsgreinin gerir ráð fyrir að metið sé hvort eðli tjóns og umfang mátti með sanngirni sjá fyrir sem afleiðingu vanefndanna. Niðurstaða um það hvenær sjá mátti afleiðingarnar fyrir verður að ráðast af eðli vanefnda og hvenær þær urðu. Ef vanefndir eru vegna atburðar sem ekki verður rakinn til sakar aðila er sanngjarnt að miða við atvik sem aðilar þekktu eða máttu þekkja við samningsgerðina. Ef vanefndin er hins vegar afleiðing mistaka eða vanrækslu af hálfu aðila, eftir að kaup voru gerð, verður matið að taka mið af því tímamarki þegar vanefnd varð.
    Ákvæði sambærilegt við 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er ekki að finna í lögum um lausafjárkaup. Samkvæmt ákvæðinu verður skaðabóta ekki krafist á grundvelli laga um neytendakaup í ákveðnum tilvikum. Í fyrsta lagi ná skaðabætur ekki til líkamstjóns skv. a-lið. Er þetta í samræmi við gildandi rétt. Í öðru lagi kemur fram í b-lið að skaðabætur á grundvelli frumvarpsins ná ekki til tjóns sem verður í atvinnustarfsemi neytanda. Það er væntanlega mjög sjaldgæft að slíkt tjón verði í neytendakaupaum, en með hliðsjón af hagsmunum seljanda þykir eðlilegt að undanþiggja slík tjón skaðabótaábyrgð.

Um 53. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 53. gr. er sambærilegt 68. gr. kaupalaga og fjallar um hvernig ákvarða á skaðabætur vegna verðmunar í þeim tilvikum þegar tjónþoli riftir kaupum og gerir jafnframt staðgönguráðstafanir. Ákvæðið á við hvort sem það er neytandi eða seljandi sem riftir kaupunum og gerir staðgönguráðstafanir í framhaldi af því. Staðgönguráðstafanir geta verið staðgöngukaup sem felast í því að neytandinn útvegar sér hlut í stað upphaflegs söluhlutar eða staðgöngusala sem felst í því að seljandi selur öðrum þann hlut sem hann seldi neytanda upphaflega.
    Samkvæmt ákvæðinu getur tjónþoli valið um hvort hann vill beita reglunum um verðmun eða ekki. Geti gagnaðili sannað að gerðar hafi verið staðgönguráðstafanir sem leiði til minni verðmunar verður að leggja þann verðmun til grundvallar. Með því að gera staðgönguráðstöfun getur sá aðili sem riftir kaupum takmarkað tjón sem vanefndir gagnaðila hafa í för með sér. Með skaðabótum fyrir verðmun er samningsaðila bætt tjón sem verðbreytingar á markaði eftir kaup valda.
    Samkvæmt ákvæðinu hvílir ekki sú skylda á tjónþola að gera staðgönguráðstafanir, en slíka skyldu getur leitt af verslunarvenju eða af almennri skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Þegar aðili hefur í raun og veru gert staðgönguráðstafnir með forsvaranlegum hætti og innan sanngjarns tíma getur hann samkvæmt ákvæðinu krafist skaðabóta vegna þess verðmunar sem er á kaupverðinu annars vegar og því verði sem leiddi af staðgönguráðstöfuninni hins vegar. Það er aftur á móti skilyrði að um tjón hafi verið að ræða. Ef staðgönguráðstöfun hefur leitt til hagnaðar fyrir þann sem riftir kaupum á ákvæðið ekki við því að tilgangur þess er ekki að leiðrétta kaupverðið.
    Í fyrsta lagi er það skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að sá sem riftir kaupum hafi í raun gert staðgönguráðstöfun, en með því er átt við ráðstöfun sem hefur bæði efnisleg og tímaleg tengsl við upphaflegu kaupin og er í raun ætlað að mæta sömu þörfum. Þá er það skilyrði að tegund og eiginleikar staðgönguhlutar séu svipuð tegund og eiginleikum þess hlutar sem upphaflega var keyptur. Því eru staðgöngukaup útilokuð ef upphaflegur söluhlutur hefur verið sérhannaður eða sérútbúinn. Tjónþoli verður að leitast við að gera svo hagkvæmar staðgönguráðstafanir sem mögulegt er, en ekki er nauðsynlegt að þær séu gerðar með nákvæmlega sömu kjörum. Þegar bætur eru metnar má taka tillit til þess aukna kostnaðar sem leiða kann af dýrari flutningi hlutarins eða öðrum óhagstæðari kjörum. Hins vegar verður á sama hátt einnig að taka tillit til þess ef kjör eru hagstæðari.
    Annað skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að staðgönguráðstöfun hafi verið forsvaranleg. Í því felst að neytandi getur ekki fengið greiddan verðmun sem leiðir af óeðlilega kostnaðarsömum staðgönguráðstöfunum. Skilyrðið verður að meta út frá því hvað sé forsvaranlegt miðað við allar aðstæður þar sem m.a. er tekið tillit til verðs, möguleika til að kaupa eða selja vöru, kostnaðar við ráðstöfun og ekki síst þess tíma sem til ráðstöfunar er.
    Þá er það skilyrði samkvæmt ákvæðinu að staðgönguráðstöfun sé gerð innan sanngjarns tíma frá riftun, en með því er hamlað gegn því að tjónþoli bíði óhæfilega lengi með að gera staðgönguráðstöfun til að geta séð hvernig mál þróast og náð þannig hærri bótafjárhæðum. Meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvað telst sanngjarn tími, en fresturinn verður þó að jafnaði ekki lengri en leiðir af reglunum í 27. gr. um tilkynningar.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, sem svarar til 1. málsl. 1. mgr. 69. gr. kaupalaga, er fjallað um ákvörðun verðmunar þegar kaupum er rift, en staðgönguráðstafanir eru ekki gerðar. Ákvæðið á einnig við þegar gerð hefur verið staðgönguráðstöfun sem fullnægir ekki skilyrðum 1. mgr., t.d. þegar ráðstöfun er ekki gerð á forsvaranlegan hátt eða innan sanngjarns tíma.
    Skilyrði þess að 2. mgr. 53. gr. eigi við er að gangverð sé á söluhlut. Forsendan er að söluhlutur sé tegundarákveðinn og í vissri viðskiptaveltu, en verð hans þarf ekki að vera skráð. Samkvæmt málsgreininni er verðmunur reiknaður út þannig að lagt er til grundvallar kaupverð annars vegar og gangverð hlutarins á riftunartíma hins vegar. Við verðsamanburðinn verður að taka tillit til vörunnar, gæða, magns og samningsbundinna skilmála að öðru leyti, auk minni háttar atriða, svo sem flutningskostnaðar. Tjónþoli getur krafist bóta fyrir annað tjón samkvæmt ákvæðum 52. gr. Verðmunur hlutanna tekur venjulega einnig til tjóns sem verður vegna tapaðs hagnaðar og því verður hér ekki um sérstakan tjónslið að ræða skv. 52. gr.
    Í 3. mgr., sem svarar til 2. mgr. 69. gr. laga um lausafjárkaup, er skilgreining á því hvað sé gangverð. Samkvæmt frumvarpinu er gangverð í fyrsta lagi það verð sem sambærilegir hlutir hafa á afhendingarstað. Í flestum tilvikum hefur vara sama gangverð á stórum svæðum, en stundum er verðmunur á milli einstakra staða og þá ræður afhendingarstaður úrslitum.
    Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. gilda ef ekki er um gangverð að ræða á afhendingarstað. Þá skal miða gangverð við annan stað sem með sanngirni má jafna til afhendingarstaðar. Slíkur staður getur eftir atvikum ýmist verið framleiðslustaður hlutarins, ákvörðunarstaður, viðtökustaður eða viðurkenndur markaðsstaður á umræddu viðskiptasviði. Meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvað telst sanngjarnt í þessu tilliti með hliðsjón af viðskiptavenjum og hagsmunum aðilanna.
    Við verðsamanburð skv. 2. málsl. 3. mgr. skal taka tillit til mismunandi flutningskostnaðar til leiðréttingar. Fer eftir samningum aðila hverju sinni hvers konar flutningskostnaður kemur til álita í þessu sambandi. Með þessum hætti er unnt að nálgast verulega það verð sem hefði hvort sem er leitt af staðgönguráðstöfunum. Sé ekki um neitt gangverð að ræða samkvæmt framansögðu er ekki á öðru að byggja en ákvæðum 52. gr. varðandi ákvörðun bóta.

Um 54. gr.

    Frumvarpsgreinin fjallar um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt og möguleika á mildun ábyrgðar. Er efni greinarinnar í samræmi við 1. og 2. mgr. 70. gr. kaupalaga.
    Í 1. mgr. er fjallað um þá skyldu tjónþola að gera sanngjarnar ráðstafanir til þess að takmarka tjón sitt. Vanræki hann þá skyldu ber hann sjálfur þann hluta tjónsins sem því nemur.
    Meta verður í hvert sinn með hliðsjón af atvikum og aðstæðum hvaða aðgerða verður krafist af aðilum við að takmarka tjón sitt. Riftun og staðgönguráðstafanir eru dæmi um aðgerðir sem eðlilegt getur verið að grípa til í því skyni að takmarka tjón. Af ákvæðinu leiðir að til slíkra aðgerða getur verið nauðsynlegt að grípa fljótt ef meira tjón mundi ella af hljótast. Við matið verður að taka tillit til þess sem með sanngirni mátti ætlast til af aðila á því tímamarki þegar vanefnd varð. Þá verður einnig að líta til þess að aðili getur þurft ákveðinn tíma til þess að átta sig á hvaða úrræðum sé hentugast að beita. Einnig verður að taka tillit til eðlis kaupanna og þess sem venjulegt má telja í umræddri tegund viðskipta.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er almenn regla um mildun bótaábyrgðar. Samkvæmt ákvæðinu má lækka skaðabætur ef þær leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir hinn bótaskylda aðila. Við matið verður að taka tillit til fjárhæðar tjóns í samanburði við tjón sem venjulega verður í sambærilegum tilvikum og miðað við atvik að öðru leyti.
    Mildun bótaábyrgðar samkvæmt ákvæðinu getur komið til greina í tilvikum þegar afleiðingar vanefnda á samningsskyldu eru lítt fyrirsjáanlegar. Rökstuðningur fyrir mildun bótaábyrgðar er sá að meiri ástæða þykir til að lækka skaðabætur vegna tjóns sem gagnaðili getur almennt ekki gert ráð fyrir og takmarkað, t.d. tjón sem óbeint má rekja til vanefnda og leiðir að meira eða minna leyti af einstaklingsbundum atvikum og aðstæðum hjá tjónþola. Samanburður á viðkomandi tjóni og því sem kalla má venjulegt tjón í sambærilegum tilvikum er því mikilvægur þáttur við mat á því hvort beita má ákvæðinu.
    Með vísun til „atvika að öðru leyti“ í 2. mgr. er m.a. átt við tegund kaupa, hverjir samningsaðilar eru og ástæður vanefndanna, þ.m.t. hversu mikla vanrækslu sá hefur sýnt sem vanefnir samninginn og framferði tjónþola. Einnig verður að líta til fjárhæðar tjóns og fyrirliggjandi möguleika á vátryggingum og þess að hve miklu leyti tjónþoli vakti við samningsgerðina athygli viðsemjanda síns á sérstakri hættu sinni á að verða fyrir tjóni.
    Þörfin fyrir mildun ábyrgðar getur einnig ráðist af því um hvers konar vanefndir er að ræða. Þannig má sem dæmi nefna að yfirleitt verður síður um mikið ófyrirsjáanlegt tjón að ræða af völdum greiðsludráttar af hálfu neytanda en það tjón sem leitt getur af vanefndum seljanda.

Um XII. kafla.

    Í kaflanum er safnað saman ýmsum ákvæðum. Í 55. gr. er kveðið á um það að um fyrirsjáanlegar vanefndir fari eftir ákvæðum kaupalaga. Í 56. gr. er mælt fyrir um að ákvæði laga um gjaldþrotaskipti gildi varðandi réttindi við gjaldþrot samningsaðila. Í 57. gr. koma fram þær reglur sem gilda þegar vanefndir verða á hluta hins selda. Í 58. og 59. gr. er fjallað um riftunarrétt neytanda og seljanda við afhendingu í áföngum. Í 60. gr. er kveðið á um skyldu til umönnunar söluhlutar og í 61. gr. koma fram sérreglur um neytendahugtakið í tilteknum alþjóðlegum kaupum.

Um 55. gr.

    Í 55. gr. frumvarpsins er kveðið á um að um fyrirsjáanlegar vanefndir fari eftir 61. og 62. gr. kaupalaga.
    Ákvæði 61. gr. kaupalaga veitir aðila rétt til að stöðva efndir og halda eftir eigin greiðslu þegar vænta má vanefnda af hálfu gagnaðila ef nánar tiltekin atvik liggja fyrir sem skjóta stoðum undir þær ályktanir að um vanefndir muni verða að ræða. Rétturinn skv. 61. gr. nær í fyrsta lagi til þess að stöðva efndir og í öðru lagi til þess að halda eftir greiðslum. Í víðri merkingu tekur hugtakið „stöðvunarréttur“ til beggja þessara heimilda. Líta má á þennan rétt sem stuðning við aðalregluna um að greiðsla skuli koma á móti greiðslu.
    Í 62. gr., sem er til viðbótar reglunni í 61. gr. um stöðvunarrétt, er kveðið á um heimild til handa báðum aðilum samnings til að rifta vegna fyrirsjáanlegra vanefnda af hálfu gagnaðila. Er þá skilyrði að ljóst sé að vanefndir, sem veita heimild til riftunar, muni að höndum bera. Hinar fyrirsjáanlegu vanefndir verða auk þess að vera verulegar og fullnægja að öðru leyti skilyrðum riftunar samkvæmt lögunum.
    Um nánari skýringar er vísað til greinargerðar með kaupalögum.

Um 56. gr.

    Í 56. gr. frumvarpsins, sem er sambærileg 63. gr. kaupalaga, er fjallað um áhrif gjaldþrots samningsaðila á efndir kaupsamnings. Í frumvarpsgreininni kemur fram að um rétt til að ganga inn í kaup, halda eftir greiðslu eða rifta kaupum vegna gjaldþrots samningsaðila fari eftir lögum um gjaldþrotaskipti. Um það efni gilda nú ákvæði XV. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og vísast þangað.

Um 57. gr.

    Frumvarpsgreinin er sambærileg ákvæðum 43. gr. kaupalaga. Tekur ákvæðið til vanefnda að því er varðar hluta hins selda og á þannig við um þau tilvik þegar seljandi afhendir aðeins hluta hins selda, en þá er hinn hlutinn annaðhvort ekki afhentur eða afhentur of seint. Undir ákvæðið falla bæði greiðsludráttur og magngallar auk þeirra tilvika þegar hluti hinnar afhentu greiðslu er gallaður.
    Ákvæði 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar eiga við þegar ákveðinn fjöldi eintaka eða ákveðin eintök úr tiltekinni sendingu eru afhent of seint eða reynast gölluð. Í slíkum tilvikum getur neytandinn beitt vanefndaúrræðum að því er varðar þann hluta. Með orðunum „hluta hins selda“ í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að unnt sé að skipta hinu selda upp í tilgreindar sendingar eða hluta þannig að unnt sé að afmarka vanefndakröfur við ákveðna þætti. Ákvæðið á hins vegar ekki við um tilvik þar sem galli er á hluta hins selda og sá hluti er í svo nánum raunverulegum og starfslegum tengslum við hinn hlutann að ekki er með sanngirni unnt að greina þar á milli.
    Ákvæði 1. mgr. getur átt við um flestar vanefndakröfur, t.d. kröfu um efndir skv. 21. gr., kröfu til úrbóta og nýrrar afhendingar skv. 29. gr. og kröfu til afsláttar skv. 31. gr., svo og um skaðabótakröfu. Ákvæðið hefur þó væntanlega mesta þýðingu varðandi riftun. Neytandinn getur þá rift að því er snertir þann hluta greiðslunnar sem vanefnd varðar, en haldið afgangnum. Það er þó forsenda að fyrir hendi séu skilyrði riftunar að því er varðar þann hlutann sem riftun tekur til. Þegar það er metið hvort vanefndir eru verulegar eða ekki ber að meta það með hliðsjón af þeim hluta sem vanefndin varðar. Þannig er unnt að rifta að því er umræddan hluta varðar þó að vanefnd verði ekki talin veruleg þegar litið er til kaupanna í heild sinni.
    1. mgr. 57. gr. getur einnig haft þýðingu þegar um er að ræða nýja afhendingu. Neytandinn getur á grundvelli þeirra skilyrða, sem fram koma í 29. gr., krafist nýrrar afhendingar að því er varðar hluta hins selda, en haldið því sem eftir er.
    Í 2. mgr. er fjallað um magngalla og samkvæmt ákvæðinu eiga reglur um galla við ef seljandi hefur afhent hluta hins selda, en ráða má af atvikum að afhendingu er lokið af hans hálfu. Oft getur verið álitamál í slíkum tilvikum hvort eigi við reglur um galla eða greiðsludrátt. Samkvæmt ákvæðinu gilda reglurnar um galla t.d. um það tilvik þegar seljandinn hefur vegna misskilnings afhent of lítið, án þess að vera það ljóst. Ef hins vegar má ráða af atvikum að seljanda hafi verið ljóst, t.d. vegna þess magns sem afhent var, að afhendingu var ekki lokið verður að leggja til grundvallar reglurnar um greiðsludrátt. Í flestum tilvikum er eðlilegast að líta svo á að um magngalla sé að ræða.

Um 58. gr.

    Í frumvarpsgreininni, sem er sambærileg 44. gr. kaupalaga, koma fram reglur um riftunarrétt neytanda þegar seljandinn á að afhenda hið selda í áföngum. Ákvæðið gildir um riftun við hvers konar vanefnd varðandi afhendingu í áföngum. Óljóst er í hvaða mæli neytandi getur valið milli þess að beita ákvæðum 57. og 58. gr., en beiting 58. gr. kemur helst til álita þegar um tiltölulega skýr ákvæði er að ræða varðandi afhendingu í áföngum.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að ef vanefndir verða á tiltekinni afhendingu seljanda, sem afhenda á hið selda í áföngum, getur neytandi rift kaupum að því er einstaka afhendingu varðar ef almenn riftunarskilyrði eru fyrir hendi. Af ákvæðinu leiðir þannig að þegar afhenda á hið selda í áföngum ber að líta á einstakar afhendingar sem sjálfstæð kaup með hliðsjón af riftunarreglum. Ákvæðið rýmkar því rétt neytanda til riftunar miðað við það sem vera mundi ef litið væri á kaupin sem eina heild. Ákvæði 1. mgr. á einkum við þegar unnt er að nota þá hluta, sem afhentir eru, hvern fyrir sig og án tillits til annarra, en það á hins vegar síður við þegar afhentir hlutar eru í raunverulegum og starfslegum tengslum við aðra hluta.
    Ákvæði 2. mgr. veitir neytanda með vissum skilyrðum rétt til riftunar að því er varðar síðari afhendingar. Slíkur riftunarréttur gæti einnig byggst á ákvæðum 62. gr. kaupalaga, sbr. 55. gr., þ.e. riftun vegna fyrirsjáanlegra vanefnda. Ákvæði 2. mgr. 58. gr. frumvarpsins gerir hins vegar ráð fyrir því, gagnstætt ákvæðum 62. gr. kaupalaga, að vanefnd hafi þegar orðið að því er varðar hluta greiðslunnar. Þegar þau skilyrði eru fyrir hendi fær neytandi nokkuð rýmri riftunarrétt en leiða mundi af ákvæðum 62. gr. kaupalaga.
    Það er ekki skilyrði riftunar skv. 2. mgr. að neytandi hafi beitt riftunarrétti að því er tiltekna afhendingu varðar. Sem dæmi um þetta má nefna kaup þar sem seljandinn á að greiða með fimm afhendingum. Ef verulegur greiðsludráttur verður varðandi aðra sendinguna má vera að neytandinn líti svo á að þrátt fyrir allt sé best fyrir hann að krefjast efnda. Ef eftir þetta verður seinkun á þriðju afhendingu getur verið að neytandinn sjái hagsmunum sínum best borgið með því að rifta kaupunum að því er varðar fjórðu og fimmtu sendinguna, hvort heldur hann velur að rifta varðandi þriðju sendinguna eða ekki.
    Það er skilyrði riftunar að því er varðar síðari afhendingar að það gerist áður en sanngjarn tími er liðinn frá því sú vanefnd varð sem veitti rétt til riftunar. Ef vanefnd verður við hverja afhendinguna eftir aðra byrjar nýr frestur að líða við hverja vanefnd fyrir sig.
    Í 3. mgr. er kveðið á um rétt neytanda til að rifta kaupum, bæði að því er varðar fyrri og síðar afhendingar, þegar fyrir hendi er ákveðið samhengi milli þessara afhendinga og þeirrar afhendingar sem vanefnd varð um. Það er þá skilyrði að neytandinn rifti varðandi þá greiðslu sem vanefnd varðar.
    Það er einnig skilyrði samkvæmt málsgreininni að slíkt samhengi sé milli afhendinganna að þær geti ekki nýst í þeim tilgangi sem gert var ráð fyrir við samningsgerðina. Þegar um er að ræða riftun að því er varðar síðari afhendingu getur neytandi oft valið að beita ákvæðum 2. mgr. 58. gr. og rift aðeins að því er síðari greiðslur varðar, án tillits til samhengisins milli greiðslnanna.

Um 59. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 56. gr. kaupalaga og fjallar um riftunarrétt seljanda við afhendingu í áföngum. Ákvæðið á ekki aðeins við um greiðsluvanefndir neytanda heldur einnig vanefndir á skyldunni til að stuðla að efndum. Þau réttindi, sem seljandinn hefur samkvæmt frumvarpsgreininni, eru mjög hliðstæð réttindum neytanda skv. 58. gr. Greinin á við um riftun vegna allra vanefnda neytanda við áfangaskyldur hans. Um vanefndir er því ekki aðeins að ræða þegar neytandi vanrækir greiðsluskyldu sína heldur einnig þegar hann hefur vanefnt aðrar skyldur í sambandi við kaupin.
    Í 1. mgr. er fjallað um tilvik þegar seljandinn á að afhenda hið selda í áföngum og efndir af hálfu neytanda haldast í hendur við afhendingu seljanda. Í ákvæðinu felst hið sama og í 1. mgr. 58. gr., litið er á hverja afhendingu sem sjálfstæð kaup að því er riftunarréttinn varðar. Seljandinn getur við vanefndir rift kaupum að því er hverja einstaka afhendingu varðar og skilyrði þessa eru metin út frá viðkomandi afhendingu. Tilvísun í 45. gr. frumvarpsins felur það m.a. í sér að vanefndir þær, sem hér um ræðir, verða að vera verulegar eða að viðbótarfresti hafi ekki verið sinnt. Enn fremur felst í tilvísuninni að riftun kann að taka til afhendinga sem neytandi hefur þegar veitt viðtöku.
    Á grundvelli 2. mgr. hefur seljanda rétt til riftunar að því er síðari afhendingar varðar með sömu skilyrðum og fram koma í 2. mgr. 58. gr. varðandi riftunarheimild neytanda. Það er skilyrði fyrir riftun að þegar séu til staðar vanefndir varðandi eina einstaka afhendingu. Vanefndir verða að vera slíkar að þær veiti „réttmæta ástæðu til að ætla“ að riftunarréttur skapist að því er síðari afhendingar varðar. Hugtakið „réttmæt ástæða“ ber að skýra með hliðsjón af því sem segir í athugasemdum við 2. mgr. 58. gr. Það er ekki skilyrði riftunar skv. 2. mgr. að seljandinn rifti kaupum einnig að því er fyrstu afhendingu varðar. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 2. mgr. 58. gr.

Um 60. gr.

    Ákvæði frumvarpsgreinarinnar svara að mestu til 72. og 73. gr. kaupalaga um skyldu neytanda og seljanda til að annast um söluhlut.
    Í 1. mgr., sem svarar til 72. gr. kaupalaga, er í fyrsta lagi fjallað um það þegar neytandi lætur hjá líða að sækja söluhlut eða veita honum viðtöku. Ákvæðið á einnig við þegar önnur atvik, sem neytanda varða, leiða til þess að hann fær ekki söluhlutinn afhentan á réttum tíma. Undir það fellur t.d. þegar afhendingin er undir því komin að kaupverðið sé greitt en það er ekki gert og þegar afhendingu seinkar af þeirri ástæðu að neytandinn ljær ekki atbeina sinn að efndum. Seljandinn getur þá haldið söluhlut hjá sér, en á hann fellur jafnframt umönnunarskylda samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Umönnunarskylda seljanda gildir án tillits til huglægrar afstöðu neytandans til vanefnda og án tillits til þess hvort aðilar hafa sett fram vanefndakröfur eða ekki. Neytandanum er skylt skv. 40. gr. að stuðla að sínu leyti að því að seljandinn geti efnt skyldur sínar og að taka við hlutnum með því að sækja hann eða veita honum viðtöku. Vanefndir neytandans samkvæmt ákvæðinu eru undir því komnar að aðgerðaleysi hans verði ekki rakið til seljanda eða atvika sem hann varða, sbr. 43. gr.
    Skylda seljanda samkvæmt ákvæðinu felst í því að annast um söluhlut með sanngjörnum hætti. Það fer m.a. eftir því um hvers konar hlut er að ræða hvað telst sanngjarnt í þeim efnum. Ef seljandi hefur hlut í vörslum sínum er umönnunarskylda hans skilyrðislaus. Að öðru leyti fer skyldan eftir því hvort seljandinn hefur möguleika á því að annast hlutinn. Ef hlutur er á öðrum stað getur seljandinn e.t.v. annast um hlutinn, t.d. ef hann er með útibú eða umboðsmann á þeim stað. En hafi banki á afhendingarstað fengið það hlutverk að sjá um innheimtu kaupverðsins verður bankinn ekki af þeirri ástæðu talinn umboðsmaður seljanda með þeim afleiðingum að á seljandann falli umönnunarskylda samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Seljandi annast söluhlut á kostnað neytanda og ef umönnun leiðir til tímabundinna útgjalda fyrir seljanda verður neytandinn að endurgreiða honum.
    Umönnunarskylda seljanda er samkvæmt ákvæðinu ekki bundin neinum tímatakmörkunum, en seljandinn getur öðlast rétt til að rifta kaupum samkvæmt ákvæðum 45. gr. Þar að auki getur seljandinn neytt réttar síns skv. 76. eða 77. gr. kaupalaga, sbr. 3. mgr. 60. gr. frumvarpsins, til að selja hlutinn eða ráðstafa honum með öðrum hætti.
    Af ákvæðum 1. mgr. 14. gr. leiðir þá meginreglu að neytandinn ber áhættuna af söluhlutnum á þeim tíma sem seljandinn annast um hann samkvæmt frumvarpsgreininni. Þótt það sé neytandinn sem almennt ber áhættuna af söluhlut getur það eigi að síður verið þáttur í umönnunarskyldu seljanda að vátryggja söluhlutinn meðan skyldan varir.
    Í ákvæðinu er ekki fjallað um afleiðingar þess að seljandinn sinnir ekki umönnunarskyldu sinni. Í slíkri stöðu getur seljandi orðið bótaskyldur. Það leiðir hins vegar af 3. mgr. 18. gr. að seljandinn ber einnig ábyrgð á göllum sem koma í ljós eftir að áhættan hefur flust yfir til neytandans ef rekja má galla til vanefnda af hálfu seljandans. Nær þetta einnig til vanefnda sem felast í því að seljandinn hefur ekki sinnt umönnunarskyldu sinni.
    Ákvæði 2. mgr. svara til 73. gr. kaupalaga. Í 1. málsl. 2. mgr. er kveðið á um að þegar neytandi vill hafna söluhlut sem hann hefur veitt viðtöku er hann skyldur til að annast um hlutinn eins og sanngjarnt er miðað við aðstæður. Orðalag ákvæðisins er sambærilegt við 1. mgr., enda er ætlunin sú að umönnunarskyldan sé hin sama í báðum tilvikum. Umönnun neytanda er því á kostnað seljanda.
    Í málsliðnum kemur fram það skilyrði að neytandinn hafi rétt til að hafna söluhlut. Ef neytandi hefur ekki slíkan rétt verður hann að annast um hlutinn í þágu eigin hagsmuna og ekki fyrir reikning seljandans. Þar sem neytandi hefur veitt söluhlut viðtöku ber hann áhættuna af hlutnum. Í höfnun neytanda á söluhlut felst að neytandinn vill ekki halda hlut. Neytandinn hefur rétt til að hafna hlut þegar beinlínis er um það samið, þegar afhending er verulega gölluð eða þegar afhent er of snemma eða of mikið.
    Í 2. málsl. 2. mgr. koma fram reglur sem gilda þegar neytandi vill hafna söluhlut sem hefur verið sendur til hans honum til reiðu á ákvörðunarstað. Í slíkum tilvikum er neytandinn skyldur til að annast um hlutinn fyrir reikning seljanda. Það er einnig skilyrði skv. 2. málsl. að neytandinn eigi rétt á að hafna hlutnum.
    Skylda neytanda til að annast um söluhlut á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. gildir aðeins ef það getur gerst án þess að hann þurfi jafnframt að greiða kaupverðið. Þannig fellur engin umönnunarskylda á neytanda ef söluhlutur er sendur í póstkröfu. Þá verður umönnunarskyldan heldur ekki virk ef neytandinn getur ekki sinnt henni nema því aðeins að verða fyrir ósanngjörnum útgjöldum eða óhagræði.
    Í 3. málsl. 2. mgr. kemur fram að umönnunarskylda fellur ekki á neytanda ef seljandinn eða einhver á hans vegum getur annast um hlut á ákvörðunarstað. Þótt neytandinn sé ekki skyldur til að annast um söluhlut getur hann eftir atvikum verið skyldugur að tilkynna seljandanum eða umboðsmanni hans um það að hann hafni söluhlut þannig að seljandinn geti gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að annast um hlutinn.
    Ekki er fjallað um afleiðingar þess að neytandinn vanrækir umönnunarskyldu sína í málsgreininni, en ljóst er samkvæmt ákvæðum 51. gr. frumvarpsins að slík vanræksla getur leitt til þess að neytandinn glatar riftunarrétti sínum. Þá getur vanræksla á umönnunarskyldu einnig leitt til þess að heimilt er að beita venjulegum vanefndaúrræðum.
    Í 3. mgr. 60. gr. er kveðið á um það að sá aðili sem annast skal söluhlut geti falið það þriðja manni á grundvelli reglna 74. gr. laga um lausafjárkaup. Í því ákvæði er kveðið á um að þeim sem annast skal söluhlut sé heimilt að fela það þriðja manni á kostnað gagnaðila. Það er þó skilyrði samkvæmt ákvæðinu að útgjöld við að varðveita hlut hjá þriðja manni verði ekki óhæfilega mikil. Þá kemur fram í ákvæðinu að ef vörslumaður er valinn á forsvaranlegan hátt og hann hefur veitt hlut viðtölu er samningsaðili laus undan skyldu sinni til umönnunar. Loks leiðir af 74. gr. kaupalaga að samningsaðili ber ekki ábyrgð á tjóni sem verður meðan hlutur er hjá vörslumanni ef vörslumaður hefur verið valinn á forsvaranlegan hátt.
    Í 3. mgr. er enn fremur kveðið á um að ákvæði 75., 76., 77. og 78. gr. kaupalaga gildi einnig í neytendakaupum. Í 75. gr. kaupalaga er kveðið á um að samningsaðili, sem annast um söluhlut á kostnað gagnaðila, eigi rétt til endurgreiðslu hæfilegs kostnaðar sem af því hlýst. Er þeim sem umönnunarskyldan hvílir á heimilt að halda hlutnum hjá sér til tryggingar kröfu sinni samkvæmt ákvæðinu. Í 76. gr. kaupalaga er þeim aðila sem umönnunarskylda hvílir á veitt heimild til að selja söluhlutinn. Slíkt er heimilt í fjórum tilvikum. Í fyrsta lagi er sala heimil ef umönnunaraðili getur ekki annast um hlutinn án þess að baka sér verulegan kostnað, í öðru lagi er heimilt að selja söluhlut ef gagnaðili dregur það óhæfilega lengi að taka við hlutnum, í þriðja lagi má selja hlutinn ef gagnaðili dregur það óhæfilega lengi að greiða kaupverðið og umönnunaraðili getur í fjórða lagi selt hlutinn ef gagnaðili dregur óhæfilega lengi að greiða geymslukostnað. Í 77. gr. kaupalaga er kveðið á um að ef aðili hefur heimild til sölu á grundvelli 76. gr. kaupalaga en hluturinn selst ekki eða það er ljóst að söluandvirði mundi ekki duga fyrir sölukostnaði er aðila heimilt að ráðstafa hlutnum með öðrum forsvaranlegum hætti. Í 78. gr. kaupalaga kemur fram að samningsaðili, sem annast hefur um söluhlut, skuli reikningsfæra gagnaðila fyrir því sem fékkst fyrir hlutinn við sölu eða með öðrum hætti ásamt því að gera honum reikning fyrir kostnaði sínum.

Um 61. gr.

    Í frumvarpsgreininni koma fram sérreglur um neytendahugtakið í tilteknum alþjóðlegum kaupum. Ísland er aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja frá 1980, The 1980 United Nations Convention for the International Sale of Goods (CISG), sbr. tillögu til þingsályktunar um að Ísland gerist aðili að samningnum sem samþykkt var á 126. löggjafarþingi 27. mars 2001 (hér eftir nefndur SÞ-samningurinn). Þá hafa ákvæði laga um lausafjárkaup verið aðlöguð að samningnum.
    Samkvæmt a-lið 2. gr. SÞ-samningsins gildir hann ekki um „… sales … of goods bought for personal, family or household use, unless the seller, at any time before or at the conclusion of the contract, neither knew nor ought to have known that the goods were bought for any such use“. Á grundvelli þessa getur Ísland almennt ekki í alþjóðlegum kaupum skilgreint hugtökin neytandi og neytendakaup víðara en gert er í ofangreindu ákvæði samningsins. Skilgreining SÞ-samningsins, sem er að mestu leyti í samræmi við núgildandi ákvæði kaupalaga, er nokkuð frábrugðin tilskipun Evrópusambandsins um neytendakaup. Þar sem ósamræmi er á milli ákvæða SÞ-samningsins og tilskipunarinnar gengur tilskipuninn væntanlega fyrir ef ákvæði 90. gr. SÞ-samningsins eru uppfyllt. Hins vegar getur SÞ-samningurinn, á þeim sviðum þar sem tilskipunin veitir svigrúm, bundið Ísland til að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er samkvæmt tilskipuninni.
    Vegna tengslanna milli SÞ-samningsins, sem gildir um alþjóðleg kaup, og tilskipunarinnar um neytendakaup, sem gildir bæði um innlend og alþjóðleg kaup innan gildissviðs EES- samningsins, er hagkvæmt að skilgreina neytendahugtakið í alþjóðlegum kaupum þar sem annar aðilinn hefur atvinnustöð eða heimilisfesti í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í tilvikum þar sem báðir samningsaðilar hafa atvinnustöð eða heimilisfesti innan EES á að skilgreina neytendahugtakið eins og mögulegt er í samræmi við þær reglur sem gilda um kaup á milli íslenskra aðila. Um alþjóðleg neytendakaup, sem falla utan gildissviðs EES-samningsins, gildir hins vegar skilgreining a-liðar 2. gr. SÞ-samningsins.

Um XIII. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um gildistöku og breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Í 63. gr. er m.a. kveðið á um að lögin öðlist gildi 1. júní árið 2003. Til grundvallar er lagt að lögin taki aðeins til þeirra samninga sem gerðir verða eftir gildistöku þeirra. Í 64. gr. eru lagðar til breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, sem miða að því að fella úr lögunum allar sérreglur sem nú gilda um neytendakaup.

Um 62. gr.

    Á undanförnum árum hefur sú framkvæmd komist á að ef íslensk lög innleiða að nokkru eða öllu leyti ákvæði tilskipana þá skuli setja tilvísun um það efni í ákvæði íslensku laganna og er það gert hér. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 63. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um gildistöku laganna, en miðað er við að lögin öðlist gildi 1. júní árið 2003. Þar sem frumvarpið byggist að hluta til á tilskipun Evrópusambandsins 99/44/EB um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi, sem skilt var að leiða í lög fyrir 1. janúar 2002, er mikilvægt að lögin taki gildi svo fljótt sem auðið er. Þrátt fyrir að lögin innihaldi að nokkru leyti nýjar reglur fela margar þeirra ekki í sér miklar breytingar frá gildandi rétti. Því er ekki talin þörf á lengri fresti.
    Eðlilegast þykir að miða við samningsgerðina sjálfa þegar ákveðið er hvort tiltekin samningur skuli falla undir gildissvið núgildandi laga eða ákvæði nýrra laga. Skv. 2. mgr. tekur frumvarpið því, ef að lögum verður, einungis til þeirra samninga sem gerðir verða eftir 1. júní árið 2003.
    Að öðru leyti skýra ákvæði greinarinnar sig sjálf.

Um 64. gr.

    Í frumvarpsgreininni eru lagðar til breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, sem miða að því að fella úr lögunum öll ákvæði um neytendakaup þegar frumvarp þetta öðlast gildi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um neytendakaup.

    Frumvarpinu er ætlað að innihalda tæmandi reglu um neytendakaup sem er byggð á Evróputilskipun nr. 99/44/EB frá 25. maí 1999. Tilgangur frumvarpsins er að styrkja réttarstöðu neytenda.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.