Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 931  —  577. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um milliliðalaust lýðræði.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Össur Skarphéðinsson, Einar Már Sigurðarson,


Karl V. Matthíasson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,
Gísli S. Einarsson.


    Alþingi ályktar að setja á stofn nefnd sem kanni möguleika á að þróa milliliðalaust lýðræði og kosti rafrænna aðferða við framkvæmd þess. Nefndin kanni einnig hvernig hægt er að nota netið til að þróa milliliðalaust lýðræði og hafi þar að leiðarljósi öfluga persónuvernd við framkvæmd kosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna á netinu.
    Nefndin skal skipuð fulltrúa Háskóla Íslands, Neytendasamtakanna, háskólaráðs Háskóla Íslands, Alþýðusambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, stúdentaráðs Háskóla Íslands, Alþingis Íslendinga og fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.
    Nefndin kanni jafnframt hvaða áhrif milliliðalaust lýðræði hefði á samfélagið, efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega, sérstaklega með tilliti til sveitarstjórna og sveitarfélaganna þar sem auðvelt og byltingarkennt gæti verið að nota milliliðalaust lýðræði í miklum mæli. Nefndin skili greinargerð eigi síðar en eftir sex mánuði.

Greinargerð.


    Markmiðið með þessari tillögu er að þróa lýðræðið áfram í ljósi aukinnar menntunar og betra aðgangs að upplýsingum. Markmiðið er að Ísland verði tilraunastofa við þróun lýðræðisins og fánaberi framþróunar lýðræðislegra stjórnarhátta þar sem hinn almenni borgari kemur í sem mestum mæli að meginákvörðunum samfélagsins. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á félagslegum og efnahagslegum aðstæðum á Vesturlöndum síðustu áratugi kalla á breytingar á lýðræðisfyrirkomulaginu. Almenn og góð menntun, mikil tölvueign, meiri frítími en nokkurn tíma áður kallar á að almenningur hafi miklu meira um hagi sína að segja en áður. Sá tími á að vera liðinn að fulltrúar almennings taki allar ákvarðanir og tímabært að færa valdið í ríkari mæli til fólksins. Fulltrúalýðræðið í óbreyttri mynd er fyrirbæri fortíðar og mikilvægt framfaramál fyrir almenning að milliliðalaust lýðræði verði eflt og það tekið upp hvort heldur er á sveitarstjórnarstiginu eða í landsmálunum.

Lýðræði 21. aldarinnar.
    Það er brýnt að hafa það að leiðarljósi við stefnumörkun um beint lýðræði að hlutverk sveitarfélaganna verður æ mikilvægara eftir því sem þau stækka og verkefnum þeirra fjölgar. Valddreifingunni frá ríki til sveitarfélaga á að fylgja aukið milliliðalaust lýðræði þar sem valdið er um leið fært frá Alþingi til nærþjónustunnar í sveitarfélögunum.
    Við innleiðingu netsins í lýðræðisferil okkar er einnig komið á samræðu borgaranna við stjórnvöld, þar sem borgarar landsins geta lagt inn hugmyndir og verið virkir þátttakendur í stjórnun lands síns. Með sama hætti eflist og styrkist stjórnmálasamræða í millum borgaranna um kjör sín.
Nýjar leiðir.
    Það fyrirkomulag sem viðgengist hefur síðustu tvær aldirnar í formi fulltrúalýðræðisins hefur að mörgu leyti runnið sitt skeið. Það er tímabært að kanna nýjar leiðir til að íbúar geti haft áhrif á stjórn samfélagsins með beinum og milliliðalausum hætti. Heimurinn hefur gjörbreyst frá þeim tíma þegar verjandi var að óskir fólksins þyrftu að fara í gegnum fulltrúa þess að einu eða öllu leyti, fulltrúa sem höfðu tíma og aðstæður til að sinna mikilvægri ákvarðanatöku en almenningur ekki. Nú hefur þorri almennings aðstæður og upplýsingu til að taka sjálfur stærri ákvarðanir um hagi sína og líf. Milliliðalaust lýðræði leiðir til heilbrigðari og opnari stjórnarhátta þar sem tryggt er að almannahagsmunir ráði för en ekki sérhagsmunir einstakra valdablokka sem geta keypt sér áhrif í krafti fjármagnsins og aukinna áhrifa viðskiptalífsins í samfélaginu. Beint lýðræði er góð leið til þess að búa svo um hnúta að ýtrustu hagsmunir hins almenna borgara ráði ákvarðanatöku um stærstu hagsmunamál þjóðarinnar.

Þjóðaratkvæðagreiðslur.
    Milliliðalaust lýðræði er sú framþróun sem þarf að eiga sér stað í stjórnmálalífinu í formi þjóðaratkvæðagreiðslna eða atkvæðagreiðslna innan einstakra sveitarfélaga. Þjóðaratkvæðagreiðslu eða allsherjaratkvæðagreiðslu atkvæðisbærra íbúa sveitarfélags um ákveðin mál á að vera hægt að krefjast af tilteknum hluta atkvæðisbærra borgara, ákveðins hlutfalls Alþingismanna eða sveitarstjórnarmanna viðkomandi sveitarfélaga, sbr. frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur um þjóðaratkvæðagreiðslur. Sveitarstjórnarstigið er sá vettvangur samfélagsins sem best er til þess fallinn að stuðla að jöfnuði og félagslegu réttlæti í samfélaginu. Þar sem við greiðum eftir getu og fáum þjónustu eftir þörfum. Sveitarfélögin eru vettvangur nærþjónustunnar og innan þeirra er hvað auðveldast að hafa yfirsýn yfir kjör fólks.

Hlutverk sveitarstjórna.
    Breytt hlutverk sveitarstjórna kallar á nýjar reglur við alla stóra ákvarðanatöku innan þeirra. Íbúalýðræði felur í sér lausn á því. Þar eru íbúar sveitarfélagsins kallaðir til leiks, fengnir til samráðs um lausnir og skipulag. Enginn veit betur en fólkið sjálft hverjar þarfirnar eru og hvernig íbúar hvers sveitarfélags vilja forgangsraða fjármunum þess í eigin þágu. Samráðsvettvangur íbúalýðræðisins felur það einnig sjálfkrafa í sér að deilur og átök minnka til muna og stjórnmálin verða heilbrigðari fyrir vikið. Samræður um sameiginleg mál í stað hatrammra deilna.
    Sveitarfélögin eiga að koma sér upp formlegum farvegi fyrir íbúana, íbúaþingi, um öll meginmál samfélagsins. Þannig stjórnum við með fólkinu og í þess þágu þar sem þeirra viðhorf og skoðanir eru höfð til hliðsjónar allt ákvarðanatökuferlið. Með þessu móti köllum við fram þann félagslega auð sem í fólkinu býr og sköpum traust á milli stjórnvalda og íbúa.
Hlutverk sveitarstjórna hefur breyst verulega á liðnum missirum, en kerfið hefur staðið í stað. Verkefnum hefur fjölgað mikið og samstarf sveitarfélaganna við einkageirann hefur að sama skapi aukist, í formi ýmiss konar þjónustusamninga. Á næstu árum er fyrirsjáanlegt að þetta hlutverk breytist enn frekar eftir því sem valddreifing eykst í samfélaginu og fleiri hlutverk eru færð frá ríki til sveitarfélaga. Ákvarðanirnar á að taka sem næst fólkinu og með fólkinu. Til nánari upplýsinga er vísað í frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um íbúalýðræði (þskj. 15, 15. mál).

Frá Aþenu til alnetsins.
    Kominn er tími til að lýðræðið leiti upprunans, en í stað handauppréttinganna á Agora í Aþenu á gullöld Grikkja er að myndast möguleiki á að rétta upp hönd á netinu þess í stað. Netið býður upp á möguleika og mun gera það í auknum mæli eftir því sem persónuvernd upplýsinga á netinu þróast, til að auka stórum milliliðalaust lýðræði og gera það að veruleika án þeirra galla sem fylgja tíðum þjóðaratkvæðagreiðslum, þar sem kjósendur þurfa að fara á kjörstað til að greiða atkvæði. Reynslan frá Sviss segir að kjörsókn minnki þar sem of mikið umstang fylgi því að fara oft á ári á kjörstað. Þessu breytir netið, líkt og dæmi frá Bandaríkjunum sýnir.
    Kosningar á netinu í kjölfar upplýsinga- og tæknibyltinganna eru að verða að veruleika og brýnt að kanna þegar í stað kosti þeirra og galla í samhengi við þróun milliliðalauss lýðræðis.

Persónuvernd.
    Hættan er sú að tíðar atkvæðagreiðslur valdi því að fólk verði leitt á því að taka þátt í þeim, nenni ekki að ómaka sig á kjörstað oft eða nokkrum sinnum á ári. Lausnin á þeim vanda og fram hjá þeirri hættu er lýðræði á netinu. Við þróun og notkun netsins við atkvæðagreiðslur er brýnt að gæta fyllsta öryggis við persónuvernd og kanna til hlítar allar leiðir til að tryggja það í rafrænum kosningum. Gæta skal þess að áfram verði viðhafðar hefðbundnar atkvæðagreiðslur til hliðar við netkosningar til að tryggja að fólk sem sökum fátæktar, elli eða annarra aðstæðna getur ekki nýtt sér netið hafi fulla aðkomu að kosningunum. Stefna skal að því að allar þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram á netinu, samhliða hefðbundnum kosningum eða póstkosningum, og síðar meir kosningar til Alþingis og sveitarstjórna.

Gætt að minnihlutahópum.
    Mesta áhyggjuefnið er hvernig minnihlutahópum reiðir af við beint lýðræði, og sérstaklega beint lýðræði á netinu. Tryggja þarf að engir hópar verði út undan í þessari þróun enda er tilgangurinn stóri að gera fólk að betri og ábyrgari borgurum. Tölur sýna að þátttaka fólks sem er fátækt og lítið menntað er minni en annarra í þjóðaratkvæðagreiðslum, svo dæmi sé tekið. Skoða þarf sérstaklega hvernig tryggja má að kjör og aðgengi tiltekinna minnihlutahópa að samfélaginu og ákvarðanatöku innan þess versni ekki í milliliðalausu lýðræði, heldur batni.

Óhófleg áhrif fjármagnsins.
    Meginviðfangsefni stjórnmálastarfsins er að komast að því hvaða lausnir flestir telja bestar og séu til mestra hagsbóta. Einfaldast er að spyrja fólkið að því beint í stað þess að fela það nokkrum fulltrúum þess. Beint lýðræði upprætir óhófleg áhrif fjársterkra og háværra hagsmunaafla sem oft hafa mikil áhrif á kjörna fulltrúa stjórnmálaflokkanna, ekki síst þegar litið er til Íslands þar sem bókhald flokkanna er lokað og fjárreiður þeirra leyndarmál. Í því efni vísa flutningsmenn í frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns um fjárreiður flokkanna. Miklu erfiðara er að hafa áhrif á kosningu heillar þjóðar enda erfitt að múta þjóð og erlendar rannsóknir frá Bandaríkjunum og Sviss sýna fram á að fjársterk hagsmunasamtök mega sín mun minna í þjóðaratkvæðagreiðslum en í beinum áhrifum á kjörna fulltrúa. Fjölmiðlar og borgarar landsins eiga skýlausa kröfu á að vita hvaða stórfyrirtæki hafa styrkt flokkanna og sjá þannig svart á hvítu hver ítök þeirra eru í viðkomandi flokki.
    Leynd og pukur með fjármál flokkanna grafa undan tiltrú almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum og þar með lýðræðinu. Það er ekki hægt að byggja upp öflugt samfélag nema við búum við öflugt lýðræði. Ríki leynd yfir fjárreiðum stjórnmálaflokka er líklegt að dragi úr trausti almennings gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðþinga og ekki síður gagnvart stofnunum samfélagsins, sem hafa umboð löggjafarvaldsins til að sinna eftirliti með leikreglum samfélagsins. Milliliðalaust lýðræði er leiðin til að minnka verulega áhrif fjármagnseigenda í samfélaginu og færa valdið til fólksins milliliðalaust. Vald peninganna í pólitíkinni hefur aldrei verið meira en nú og er mikilvægt að minnka það og tryggja heilbrigða og eðlilega stjórnarhætti þar sem almannahagsmunir ráða för en ekki hagsmunir valdamikilla sérhagsmunahópa.

Ísland tilraunastofa.
    Þegar litið er til framþróunar lýðræðisins er gagnlegt að vitna til orða Jóns Baldvins Hannibalssonar sendiherra og fyrrum alþingismanns jafnaðarmanna: „Íslendingar ættu að geta hugsað sér að verða tilraunastofa í frekari þróun lýðræðislegra stjórnarhátta vegna lýðræðishefðar okkar, menntunarstigs og fámennis þjóðarinnar sem ætti að auðvelda að láta tilraunina heppnast. Lýðræði okkar er í grundvallaratriðum vanburðugt og ófullkomið vegna þess að við höfum aldrei í lýðveldissögunni notið þeirra grundvallarmannréttinda sem felast í jöfnum atkvæðisrétti, einn maður eitt atkvæði, né heldur notið þess að geta ráðið persónuvali í kosningum. Af þessum sökum er vafalaust kominn tími til að endurmeta reynsluna og hugsa stærra. Hugmyndir um að nýta upplýsingatækni og miðlun í tilraunum með þjóðaratkvæðagreiðslur og beina þátttöku almennings, með minna vægi fulltrúalýðræðisins, eru fyllilega tímabærar og mjög áhugaverðar. Tilgangurinn er auðvitað að auka ábyrgð og sjálfsaga kjósenda, þeir yrðu að taka beina ábyrgð á afleiðingum gerða sinna með slíku vali. Það væri verið að styrkja þá sem stoð lýðræðisins sem byggist ekki aðeins á réttindum heldur líka skyldum.“ Jón Baldvin Hannibalsson, Mbl. 25. 4. 1997.

Jafn atkvæðaréttur.
    Um leið og við eflum beint lýðræði er nauðsynlegt að jafna atkvæðaréttinn til fulls og gera Ísland að einu kjördæmi. Fyrir því eru engin rök að atkvæði allra Íslendinga séu ekki jafngild. Misjafnt vægi atkvæða er ekkert annað en skýlaust mannréttindabrot og svartur blettur á stjórnmálum landsins. Jafn atkvæðisréttur er þó fyrst og fremst spurning um mannréttindi og með því að gera landið að einu kjördæmi þá væri tryggt að allir í landinu hefðu nákvæmlega sömu möguleika á að hafa áhrif á stjórn landsins, því að öll atkvæði væru jafnþung.
    Stefna ætti að því um leið og stigin eru fyrstu skref í átt til milliliðalauss lýðræðis að atkvæðavægi verði jafnt með því að landið verði gert að einu kjördæmi.

Lýðræðisform framtíðarinnar.
    Ef lýðræði er skilgreint þannig að fólkið skuli ráða, þá er milliliðalaust lýðræði mun nær upprunanum en það lýðræðisfyrirkomulag sem tíðkast hefur víðast hvar og felur í sér kosningar til löggjafar- eða framkvæmdarvalds á nokkurra ára fresti. Til að taka nýlegt íslenskt dæmi um raunverulegt lýðræði má nefna atkvæðagreiðsluna sem átti sér stað í Reykjavík fyrir tveimur árum um framtíðarstað flugvallarins í Vatnsmýrinni. Sú atkvæðagreiðsla var merkileg tilraun í milliliðalausu lýðræði og líklegt er að hún gefi tóninn fyrir innleiðingu beins lýðræðis á sveitarstjórnarstiginu, þar sem það á allra best við og líklegast til að taka út sinn þroska sem lýðræðisform framtíðarinnar.
    Tæknin hefur breytt eðli og inntaki lýðræðisins. Nú er einstaklingurinn hjá jafn vel upplýstri þjóð og Íslendingar eru þess umkominn að veita álit sitt og umsögn nánast hvenær sem er í krafti þekkingar sinnar og hæfni. Menntabyltingin og aðgengi að upplýsingum gerir þetta að veruleika og eiga að fleyta okkur frá fulltrúalýðræði síðustu alda til milliliðalausrar þátttöku borgaranna sjálfra við stjórn samfélagsins.