Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 941  —  348. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (rafræn stjórnsýsla).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund höfunda frumvarpsins Pál Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Skúla Magnússon, lektor við lagadeild sama háskóla, og Kristján Andra Stefánsson, deildarstjóra í forsætisráðuneytinu. Þá komu einnig á fund nefndarinnar Magnús Jónsson og Skúli Eggert Þórðarson frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana. Umsagnir bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á stjórnsýslulögum sem miðar að því að gera rafræna stjórnsýsluhætti jafngilda hefðbundnum starfsháttum stjórnvalda við meðferð stjórnsýslumála. Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar sem forsætisráðherra skipaði hinn 7. nóvember 2000 til að fara með skipulegum hætti yfir hvaða hindranir kynnu að standa rafrænum stjórnsýsluháttum í vegi og hvaða lagalega umhverfi væri almennt æskilegt að búa rafrænni stjórnsýslu til frambúðar.
    Með frumvarpinu er lagt til að við stjórnsýslulögin verði bætt sérstökum kafla þar sem lýst er þeim lágmarkskröfum sem þykir verða að gera til rafrænnar málsmeðferðar í stjórnsýslunni. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að með þessum breytingum sé rutt úr vegi þeim lagalegu hindrunum sem almennt kunna að standa upptöku rafrænna stjórnsýsluhátta í vegi en frekari breytingar kunni þó jafnframt að vera nauðsynlegar á einstökum sviðum stjórnsýslunnar. Þá er vakin athygli á því að upptaka slíkra stjórnsýsluhátta krefst þess jafnframt að áður sé leyst úr ýmsum tæknilegum og skipulagslegum álitaefnum. Á það m.a. við um þann vél- og hugbúnað sem stjórnvöld munu nota við rafræna meðferð mála sem og um ýmis álitamál tengd varðveislu rafrænna gagna. Nefndin leggur ríka áherslu á að stjórnvöld nálgist framkvæmd þessara úrlausnarefna á skipulegan og agaðan hátt þannig að hagkvæmni sé gætt og að sem flestir geti notið þess hagræðis sem í rafrænni málsmeðferð getur falist, jafnt almenningur sem stjórnvöld.
    Nefndin leggur áherslu á að frumvarpið miðar eingöngu að því að gera stjórnvöldum kleift að nýta rafræna upplýsingatækni við meðferð stjórnsýslumála en gerir þeim það ekki skylt. Auk þessa verður þeim stjórnvöldum sem taka upp slíka stjórnsýsluhætti skylt að bjóða jafnframt upp á hefðbundna meðferð máls. Í frumvarpinu er fylgt sömu löggjafarstefnu og mörkuð var með lögum nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir, og þannig lagt til grundvallar að fullgild rafræn undirskrift fullnægi ávallt kröfum um eiginhandarundirritun. Frumvarpið gerir þó jafnframt ráð fyrir að heimilt verði að nota aðrar rafrænar staðfestingar þegar lög krefjast þess ekki sérstaklega að gögn séu undirrituð. Við umræður í nefndinni var þó talið líklegt að stjórnvöld geri fremur ríkar kröfur til rafrænna staðfestinga og að rafræn stjórnsýsla verði því vart tekin upp í stórum stíl fyrr en notkun fullgildra rafrænna undirskrifta verði almenn og á færi alls þorra almennings að gera grein fyrir sér á þann hátt.

    Með sama hætti og við aðra lagasetningu er snertir stjórnsýsluna í heild leggur nefndin áherslu á að stjórnvöld fylgi henni eftir með öflugu kynningarstarfi, bæði innan stjórnsýslunnar og meðal almennings.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    
Lúðvík Bergvinsson, Guðjón A. Kristjánsson, Kjartan Ólafsson og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. febr. 2003.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.Jónína Bjartmarz.


Ásta Möller.