Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 961  —  600. mál.




Frumvarp til laga



um Póst- og fjarskiptastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

Yfirstjórn o.fl.


    Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir um í lögum þessum og öðrum lögum.
    Póst- og fjarskiptastofnun er sjálfstæð stofnun en undir yfirstjórn samgönguráðherra.

2. gr.
Forstjóri og starfsmenn.

    Samgönguráðherra skipar forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar til fimm ára í senn og stjórnar hann rekstri hennar. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar.
    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.

3. gr.
Verkefni.

    Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar eru:
     1.      Að annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Stofnunin skal framfylgja lögunum og stuðla að því að markmið þeirra náist.
     2.      Að stuðla að samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti með því m.a. að:
                  a.      vinna gegn röskun eða takmörkun samkeppni á mörkuðum fjarskipta og póstþjónustu,
                  b.      hvetja til skilvirkra fjárfestinga í innviðum fjarskipta og stuðla að nýbreytni,
                  c.      ýta undir hagnýta notkun tíðna og númera og viðhafa skilvirka stjórn á notkun þessara gæða.
     3.      Að taka þátt í þróun markaðar fyrir fjarskipta- og póstþjónustu og upplýsingatækni með því m.a. að:
                  a.      vinna gegn hindrunum í vegi framboðs á fjarskiptanetum, aðstöðu og þjónustu sem þeim tengist og fjarskipta- og póstþjónustu,
                  b.      hvetja til uppsetningar og þróunar fjarskiptaneta og gagnvirkni þjónustu sem nær til allra ríkja innan EES,
                  c.      stuðla að því að gætt sé jafnræðis við meðhöndlun fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda sem búa við sömu aðstæður,
                  d.      eiga samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir í EES og Eftirlitsstofnun EFTA í þeim tilgangi að koma á samræmdum eftirlitsháttum og samræmdri túlkun löggjafar,
                  e.      stuðla að samruna fjarskiptatækni og upplýsingatækni,
                  f.      stuðla að þróun upplýsingasamfélagsins með markvissri innleiðingu nýrrar tækni og vinnubragða.
     4.      Að gæta hagsmuna almennings með því m.a. að:
                  a.      vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu,
                  b.      stuðla að vernd neytenda í viðskiptum þeirra við fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur,
                  c.      vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs,
                  d.      stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæi gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar fjarskipta- og póstþjónustu,
                  e.      tryggja hag notenda, þ.m.t. einstakra þjóðfélagshópa, svo sem öryrkja, sem best að því er varðar val, verð og gæði,
                  f.      tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið.
     5.      Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála. Skal stofnunin beina tilmælum um breytingar á lögum og reglugerðum til samgönguráðherra ef þess gerist þörf.
     6.      Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála.
     7.      Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála.
    Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun skulu setja sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga. Skulu reglur þessar birtar.
    Forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar sem framkvæmd er með heimild í lögum þessum.

4. gr.
Eftirlit með fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum.

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda, þar með talið fjárhagsstöðu þeirra, og skal fylgjast með því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, skilyrði eða ákvarðanir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

5. gr.
Eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafið þá sem stunda starfsemi sem fellur undir lög um fjarskipti- og póstþjónustu um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafið fjarskiptafyrirtæki um upplýsingar í sambandi við almenna heimild, réttindi eða sérstakar kvaðir, m.a.:
     a.      vegna kerfisbundinnar eða tilfallandi könnunar á því að hlítt sé skilyrðum um greiðslu í jöfnunarsjóð alþjónustu, um gagnkvæma starfrækslu þjónustu og samtengingu neta og um starfrækslugjöld fyrir tíðni og númer,
     b.      vegna könnunar þess að farið sé eftir skilyrðum almennra heimilda og réttinda að fenginni kvörtun eða þegar stofnunin hefur aðrar ástæður til að ætla að skilyrði sé ekki virt eða þegar stofnunin hefur að eigin frumkvæði hafið rannsókn,
     c.      í samræmi við reglur um málsmeðferð við veitingu réttinda til notkunar tíðna og númera og mat á umsóknum þar að lútandi,
     d.      vegna útgáfu upplýsinga um samanburð á gæðum og verði þjónustu í þágu notenda,
     e.      í afmörkuðum tölfræðilegum tilgangi,
     f.      vegna markaðsgreiningar.
    Að undanteknum upplýsingum skv. c-lið má ekki krefjast upplýsinga samkvæmt þessari grein áður en veittur er aðgangur að markaði né gera þær að skilyrði fyrir slíkum aðgangi. Þegar Póst- og fjarskiptastofnun óskar eftir þessum upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum skal stofnunin gera grein fyrir því í hvaða tilgangi á að nota upplýsingarnar.
    Sem hluta af eftirliti er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast þess að henni séu m.a. látnir í té ársreikningar, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur með sömu skilyrðum og í 4. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun að fjárhagsstaða fjarskiptafyrirtækja eða póstrekenda sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða rekstrarleyfum getur stofnunin krafist þess að bætt verði úr innan tiltekins frests.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fjarskiptafyrirtækja sem úthlutað hefur verið réttindum eða hjá rekstrarleyfishafa í póstþjónustu og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum, lögum um fjarskipti, lögum um póstþjónustu eða reglum eða ákvörðunum stofnunarinnar. Við þessar aðgerðir skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
    Vanræki fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi skyldur sínar eða uppfylli ekki kröfur sem Póst- og fjarskiptastofnun gerir um úrbætur innan hæfilegs frests getur stofnunin svipt viðkomandi réttindum til tíðna og númera eða rekstrarleyfi fyrir póstþjónustu eða tilkynnt fjarskiptafyrirtæki eða póstrekanda að hann njóti ekki lengur almennrar heimildar, að undangenginni skriflegri viðvörun.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal gera ráðstafanir til að stöðva rekstur fjarskiptafyrirtækis eða póstrekanda sem starfar án heimildar eða uppfyllir ekki skilyrði laga og reglna um slíka starfsemi. Er heimilt að leggja á dagsektir í þessu skyni, sbr. 12. gr.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.

6. gr.
Umsögn hagsmunaaðila.

    Áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun sem hefur veruleg áhrif á viðkomandi fjarskiptamarkað skal stofnunin veita hagsmunaaðilum rétt til umsagnar. Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um meðferð upplýsinga samkvæmt þessari grein og birtingu þeirra.

7. gr.
Samskipti við eftirlitsstjórnvöld Evrópska efnahagssvæðisins.

    Áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun, sem hefur áhrif á viðskipti milli ríkja, um skilgreiningu fjarskiptamarkaða og greiningu þeirra, um kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild eða um aðgang og samtengingu og breytingar á skyldum á smásölumarkaði skal stofnunin hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnanir í einstökum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á og skal þá tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnunum í einstökum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins tafarlaust um ákvörðunina.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal veita Eftirlitsstofnun EFTA almennar upplýsingar sem skylt er að veita með hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, svo sem varðandi fjarskiptamarkaði, alþjónustu og kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki.

8. gr.
Þagnarskylda og samskipti við eftirlitsstjórnvöld.

    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um endurskoðendur og aðra sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
    Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við eftirlit eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að birta tölfræðilegar upplýsingar um magn fjarskipta og pósts og skulu fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur láta stofnuninni í té slíkar upplýsingar.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni upplýsingar sé það liður annaðhvort í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila eða við úrlausn einstakra mála og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um skipti á upplýsingum við eftirlitsstjórnvöld hér á landi. Póst- og fjarskiptastofnun er því aðeins heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein að sá sem upplýsingarnar fær sé háður sams konar þagnarskyldu.
    Þagnarskylda samkvæmt lögum þessum skal ekki vera því til fyrirstöðu að Póst- og fjarskiptastofnun gefi fulltrúum Eftirlitsstofnunar EFTA sem fjalla um póst- og fjarskiptamál allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að skiptast á upplýsingum við sambærilegar stofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins og samningsríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að því marki að ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.

9. gr.
Lausn deilumála fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda.

    Komi upp deilur milli fyrirtækja sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu eða milli póstrekenda um skyldur sem leiðir af lögum um fjarskipti eða lögum um póstþjónustu getur deiluaðili beint málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Póst- og fjarskiptastofnun skal leita sátta með aðilum. Náist ekki samkomulag skal skorið úr ágreiningi með ákvörðun eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en innan fjögurra mánaða nema sérstaklega standi á.
    Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skal birta opinberlega með fyrirvara um kröfu um viðskiptaleynd.
    Þegar deiluaðilar eru hvor frá sínu landi innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu fjarskiptaeftirlitsstofnanir landanna tveggja eiga samstarf um lausn deilunnar.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur í ákveðnum tilfellum gripið inn í deilur aðila að eigin frumkvæði til þess að ná markmiðum laga um fjarskipti, laga um póstþjónustu eða laga um Póst- og fjarskiptastofnun.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um málsmeðferð samkvæmt þessari grein.

10. gr.
Kvartanir.

    Telji neytendur fjarskipta- eða póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um fjarskipti eða lögum um póstþjónustu, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal leita álits viðkomandi fjarskiptafyrirtækis eða póstrekanda á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan hátt. Náist ekki samkomulag skal úr ágreiningi skorið með ákvörðun.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um lausn slíkra ágreiningsmála.

11. gr.
Heimild til bráðabirgðaákvörðunar.

    Telji Póst- og fjarskiptastofnun nauðsynlegt að taka ákvörðun í einstökum málum án tafar, enda sé hætta á því að dráttur á úrskurði valdi því að réttindi aðila máls fari forgörðum eða hann verði fyrir verulegu fjártjóni, er stofnuninni heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal taka málið til umfjöllunar skv. 9. eða 10. gr. innan sjö daga frá því að bráðabirgðaákvörðunin var tekin, ella fellur hún úr gildi.

12. gr.
Dagsektir og innheimta.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja á og innheimta dagsektir af fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum, uppfylli þeir ekki skilyrði sem þeim hafa verið sett eða aðrar kvaðir sem á þá hafa verið lagðar samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Dagsektir nemi 50.000 til 500.000 kr. á dag. Eru slíkar sektir aðfararhæfar skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Málskot til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frestar aðför en úrskurðir nefndarinnar eru aðfararhæfir.

13. gr.
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.

    Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Skal kæran berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara, allir eftir tilnefningu Hæstaréttar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Nefndinni er heimilt að kveðja til sérfræðinga.
    Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst henni.
    Úrskurðir nefndarinnar skulu vera endanlegir á stjórnsýslustigi. Nú vill aðili ekki una úrskurði nefndarinnar og getur hann þá borið úrskurðinn undir dómstóla, en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.
    Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála liggur fyrir.
    Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð o.fl. skal mælt fyrir í reglugerð.

14. gr.
Gjaldtaka o.fl.

    Fyrir útgáfu rekstrarleyfa fyrir póstþjónustu greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
    Við veitingu réttinda fyrir notkun tíðna þar sem takmarka þarf fjölda rétthafa, t.d. vegna takmarkaðs tíðnisviðs fyrir viðkomandi þjónustu og úthlutun tíðna fer fram eftir birtingu auglýsingar um fyrirhugaða úthlutun eða útboð, eða þegar tíðni er úthlutað á grundvelli útboðs til annarra nota en fjarskiptaþjónustu, skal innheimta sérstakt gjald fyrir tíðnirnar. Gjaldið ákvarðast af kostnaði við úthlutunina.
    Fyrir úthlutun símanúmera til fjarskiptafyrirtækja skal innheimt fyrir hvert úthlutað símanúmer árlegt gjald að upphæð 10 kr. fyrir hvert númer. Til viðbótar skal innheimt 200.000 kr. árlegt gjald fyrir fjögurra stafa númer, þ.m.t. forskeyti og alþjóðlegir netkóðar, óháð fjölda tölustafa í kóðanum. Innheimta skal 1.000.000 kr. árlegt gjald fyrir þriggja stafa númer.
    Fjarskiptafyrirtæki skulu árlega greiða Póst- og fjarskiptastofnun rekstrargjald sem nemur 0,20% af bókfærðri veltu og sömuleiðis skulu póstrekendur greiða 0,25% af árlegri veltu til stofnunarinnar. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem þessir aðilar hafa af fjarskipta- og póststarfsemi sinni hér á landi. Rekstrargjald skal miða við næsta almanaksár á undan ákvörðun gjaldsins. Tekjur skal telja til bókfærðrar veltu á því ári sem þær verða til.
    Fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur skulu skila Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingum um gjaldskylda veltu eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Berist Póst- og fjarskiptastofnun ekki upplýsingar innan tilskilins tíma er stofnuninni heimilt að áætla veltu viðkomandi aðila.
    Álagning rekstrargjalds skv. 4. mgr. skal fara fram eigi síðar en 15. maí ár hvert. Póst- og fjarskiptastofnun skal gera eftirlitsskyldum aðilum grein fyrir álagningunni með bréfi.
    Rekstrargjald greiðist með þremur jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársþriðjungs er 1. júní og eindagi 15. júní, gjalddagi 2. ársþriðjungs er 1. september og eindagi 15. september og gjalddagi 3. ársþriðjungs er 1. desember og eindagi 15. desember.     
    Sé rekstrargjald greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu.
    Vanræki fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi greiðslu rekstrargjalds er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að fella niður starfsheimild viðkomandi fyrirtækis.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að ákvarða álagningu rekstrargjalds að nýju fyrir tiltekna aðila reynist álagningarstofn eða aðrar forsendur fyrri álagningar ekki réttar.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert fjarskiptafyrirtæki eða póstrekanda að greiða samkvæmt reikningi útlagðan kostnað, svo sem vegna sérfræðivinnu, við sérstakar kannanir sem stofnunin telur nauðsynlegar vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum og rekja má sérstakan kostnaðarauka til atvika er varða fyrirtækið.
    Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið að veita samkvæmt lögum þessum, lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Heimilt er að taka gjald, sem miðast við kostnað, fyrir eftirfarandi þætti: skráningu fyrirtækja, útgáfu leyfisbréfa og skírteina, mælingar, innsiglanir, skoðanir og umsýslu með þráðlausum sendibúnaði.
    Allar tekjur samkvæmt þessari grein, að undanteknu leyfisgjaldi skv. 1. mgr., skulu renna óskiptar til Póst- og fjarskiptastofnunar sem annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein.

15. gr.
Skýrsla.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skal m.a. birtur listi yfir fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur og upplýsingar um kostnað við alþjónustu, einstök framlög til jöfnunarsjóðs og hvaða hag fyrirtæki sem settar hafa verið alþjónustuskyldur hafa haft af því á fjarskiptamarkaðinum.

16. gr.
Reglugerðir.

    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna.

17. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 25. júlí 2003. Jafnframt falla úr gildi lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 110/1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Póst- og fjarskiptastofnun tók til starfa 1. apríl 1997 á grundvelli laga nr. 147/1996. Stofnuninni er falið almennt stjórnsýsluhlutverk á sviði fjarskipta og póstþjónustu og sér í lagi eftirlit með framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu. Í samræmi við tilskipun 90/388/EB sem fellur undir viðauka EES-samningsins var í lögunum lögð áhersla á sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart fyrrverandi einkaréttarhafa sem hafði tekið þátt í stjórnsýslu fjarskipta og póstmála um árabil. Við lagasetningu um Póst- og fjarskiptastofnun árið 1996 þurfti að marka verksvið stofnunarinnar, gera grein fyrir verkefnum hennar og setja starfsreglur um ýmis mál sem ekki hafði reynt á áður hér á landi. Við niðurfellingu einkaréttar á fjarskiptarekstri sem ákveðin var í lögum um fjarskipti sem samþykkt voru á Alþingi sama dag og lögin um Póst- og fjarskiptastofnun var fyrirséð að upp mundu koma mál sem snertu samkeppni og samvinnu nýrra fjarskiptafyrirtækja og má þar nefna samtengingu neta sem er nauðsynleg ef notendur fjarskiptanets eiga að geta haft samband við notendur annarra fjarskiptaneta. Sömuleiðis voru í lögum nr. 147/1996 troðnar nýjar slóðir við að skilgreina skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar í sambandi við póstþjónustu því að fram að því hafði lítill greinarmunur verið gerður á rekstri þjónustunnar og stjórnsýslu sem tengist henni.
    Innan EES voru síðustu leifar einkaréttar á fjarskiptamarkaðinum felldar úr gildi 1. janúar 1998 en að vísu fengu nokkur lönd frest til þess að undirbúa heimamarkað sinn betur fyrir frjálsræðið. Í kjölfar afnáms einkaréttar á fjarskiptum urðu til allmörg ný fjarskiptafyrirtæki hér á landi og leið ekki á löngu áður en reyna fór á hina nýju stofnun og lögin um hana. Á fyrstu árum Póst- og fjarskiptastofnunar var mikil gróska í fjarskiptastarfsemi víða um lönd, einkum í farsímaþjónustu en notkun á netinu jókst einnig hröðum skrefum. Fjölgun farsíma- og netnotenda og aukning meðaltalsnotkunar var síst minni á Íslandi en annars staðar og var Ísland ofarlega á blaði hvað þetta varðar miðað við höfðatölu. Staðan var hins vegar önnur í póstþjónustu þar sem enn ríkti einkaréttur á mikilvægasta hluta þjónustunnar, þ.e. bréfum undir 250 g þyngd, og takmörkuð samkeppni var á póstmarkaðinum.
    Í lögum nr. 110/1999, um Póst- og fjarskiptastofnun, sem samþykkt voru á Alþingi í lok desember 1999 var samkeppnishlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar skilgreint og mælt fyrir um að stofnunin og Samkeppnisstofnun skyldu sameiginlega setja reglur um samskipti sín og afgreiðslu mála. Reglur þar að lútandi hafa verið settar. Jafnframt fékk Póst- og fjarskiptastofnun með lögunum heimild til að taka bráðabirgðaákvörðun í einstökum deilumálum.
    Íslensk löggjöf um fjarskipta- og póstmál byggist að miklu leyti á þeim gerðum ESB sem skylt er að innleiða í íslensk lög samkvæmt EES-samningnum. Fyrstu tilskipanir ESB á þessum sviðum birtust árið 1990 en síðan kom röð tilskipana, einkum um fjarskipti, þar sem grunnurinn var lagður að fullu frjálsræði á fjarskiptamarkaðinum sem skyldi taka gildi eigi síðar en 1. janúar 1998. Æðstu stofnanir ESB gerðu sér grein fyrir því að ýmislegt gæti breyst á átta ára tímabili og ákváðu snemma á tímabilinu að endurskoðun fjarskiptalöggjafar skyldi eiga sér stað á árinu 1999. Endurskoðunin stóð fram á árið 2002 og leiddi til nýrra tilskipana og ákvarðana sem framkvæmdastjórn ESB telur færa fjarskiptalöggjöfina í einfaldari búning. Tilskipununum fækkar talsvert og er meginefni löggjafarinnar nú í fjórum tilskipunum og einni ákvörðun.
    Ein þessara tilskipana, svonefnd rammatilskipun, inniheldur fjölmörg ákvæði sem lúta að starfsemi fjarskiptastofnana en auk þess er í öllum gerðunum að finna tilvísun í verkefni sem stofnunum eru falin. Á undanförnum árum hefur framkvæmdastjórn ESB oft látið í ljós ósk um að stofna evrópska fjarskiptastofnun sem ætti að hafa það hlutverk að samræma reglur og framkvæmd eftirlits í ríkjum ESB. Þessu hefur framkvæmdastjórnin ekki fengið framgengt og hvert ríki stjórnar eigin fjarskiptaeftirliti eins og áður. Hins vegar eru í nýju tilskipununum ákvæði sem skylda fjarskiptastofnanirnar annars vegar til að hafa meira samráð en áður sín á milli til þess að stuðla að samræmingu og hins vegar að ráðfæra sig við framkvæmdastjórn ESB eða Eftirlitsstofnun EFTA áður en ákvarðanir sem varða skilgreiningu markaða eru teknar. Talsverð samvinna hefur nú þegar komist á milli fjarskiptastofnana innan EES.
    Mikil áhersla verður lögð á að skilgreina markaði fyrir fjarskiptanet og þjónustu. Í nýju löggjöfinni er skilgreining á umtalsverðri markaðshlutdeild breytt nokkuð. Í stað þess að miða við 25% markaðshlutdeild verða notaðar aðferðir samkeppnisréttar við skilgreiningu á markaðsráðandi stöðu. Þetta hefur í för með sér ný verkefni fyrir Póst- og fjarskiptastofnun. Niðurstaðan getur leitt til breytinga á stöðu fyrirtækja og kvöðum sem lagðar eru á þau.
    Fyrir utan aukið samráð við aðrar fjarskiptastofnanir innan EES eru gerðar kröfur til þess að Póst- og fjarskiptastofnun hafi meira samráð við hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar sem hafa umtalsverð áhrif á viðkomandi markað og gefi aðilum kost á að gefa umsögn um fyrirhugaðar ákvarðanir. Á hinn bóginn er kveðið á um aukna möguleika notenda til þess að fá skorið úr kvörtunum yfir þjónustu og er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað stærra hlutverk en áður í því sambandi.
    Enda þótt breytingar á póstþjónustu séu ekki eins stórfelldar og á fjarskiptasviðinu hafa verið gerðar breytingar á gildandi tilskipun um póstþjónustu þar sem kveðið er á um frekari opnun markaðarins. Einkaréttur ríkisins fyrir bréf hefur í verið skorinn niður úr 350 g í 100 g og einkaréttur hér á landi mun væntanlega miðast við 100 g í stað gildandi 250 g. Deilur hafa verið innan ESB um einkaréttinn og hvenær hann skuli afnuminn. Áðurnefnd lækkun á þyngdarmörkum var málamiðlun og þeir sem á móti lækkuninni stóðu, fengu því framgengt að eftirlitsstofnunum innan EES verður falið að fylgjast betur með því en áður að einkarétturinn sé virtur.
    Breytingar á löggjöf fjarskipta- og póstmála sem hér hafa verið raktar hafa í för með sér að nauðsynlegt er að breyta á ný lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Helstu nýmæli og breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Verkefnalisti Póst- og fjarskiptastofnunar hefur verið endurskoðaður, m.a. með hliðsjón af samruna fjarskipta- og upplýsingatækni.
     2.      Nánar er kveðið á en áður um upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda gagnvart Póst- og fjarskiptastofnun.
     3.      Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun veiti hagsmunaaðilum rétt til umsagnar áður en teknar eru ákvarðanir sem munu hafa veruleg áhrif á fjarskiptamarkaðinn.
     4.      Ef Póst- og fjarskiptastofnun hyggst taka ákvörðun sem getur haft áhrif á viðskipti milli ríkja EES verður stofnuninni gert að skyldu að hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnanir í öðrum ríkjum EES.
     5.      Í stað einnar greinar í gildandi lögum um kvartanir til stofnunarinnar koma tvær ítarlegri greinar. Önnur fjallar um deilumál fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda og hin fjallar um kvartanir neytenda.
     6.      Lagt er til að breyta ákveðnum lögbundnum gjöldum sem fjarskiptafyrirtækjum er gert að greiða til Póst- og fjarskiptastofnunar. Helsta breytingin er að ákveðið er gjald fyrir úthlutuð númer og á móti kemur lækkun á veltutengdu rekstrargjaldi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Greinin er að mestu óbreytt frá gildandi lögum.

Um 2. gr.

    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 3. gr.

    Miklar breytingar hafa verið gerðar á verkefnalista Póst- og fjarskiptastofnunar frá 3. gr. gildandi laga. Meginverkefni stofnunarinnar er að framfylgja lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Helstu áherslum í því starfi er lýst í ákvæðum sem eru að verulegu leyti sótt í 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/21/EB frá 7. mars 2002 um sameiginlegan ramma stjórnsýslu um fjarskiptanet og þjónustu ( Rammatilskipun). Að auki eru talin upp hlutverk sem stofnunin hefur haft með höndum og ekki eru sérstaklega nefnd í lögum um fjarskipti eða lögum um póstþjónustu og ný hlutverk sem snúa að framþróun í tengslum við samruna fjarskipta- og upplýsingatækni.
    Í 1. tölul. 1. mgr. segir að stofnunin skuli annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með starfsemi á þessu sviði. Í þessu felast fjölmörg verkefni sem sérstaklega eru tilgreind í viðkomandi lögum, auk almennrar umsjónar með framkvæmd laganna.
    Í 2. tölul. er fjallað um samkeppnisþáttinn og segir að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að stuðla að samkeppni í framboði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Í a–c-lið er nánar kveðið á um það hvernig stofnunin útfærir þetta verkefni, en það skal gert m.a. með því að vinna gegn röskun á samkeppni eða takmörkun hennar, ýta undir hagnýta notkun tíðna og númera og viðhafa skilvirka stjórn á skipulagi og notkun tíðna og númera. Mikilvægt er að skýr verkaskipting sé milli Póst og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar á þessu sviði og er áfram gert ráð fyrir setningu reglna um þá skiptingu og um samstarf stofnananna.
    Í 3. tölul. er kveðið á um þátttöku Póst- og fjarskiptastofnunar í þróun markaðar fyrir fjarskipta- og póstþjónustu með því að vinna gegn hindrunum í vegi framboðs aðila á fjarskiptanetum, aðstöðu og þjónustu sem netunum tengist og fjarskipta- og póstþjónustu, hvetja til uppsetningar og þróunar fjarskiptaneta sem ná til allra ríkja EES, ásamt því að hvetja til þess að þjónusta sem nær til allra ríkja EES sé gagnvirk, stuðla að því að gætt sé jafnræðis og eiga samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir í EES og Eftirlitsstofnun EFTA í þeim tilgangi að samræma framkvæmd eftirlits og túlkun löggjafar. Lögð er rík áhersla á samræmingu í hinum nýju tilskipunum ESB. Undir 3. tölul. falla einnig ný hlutverk sem tengjast þeirri þróun að fjarskiptatækni er í auknum mæli að tengjast annarri tækni, svo sem upplýsingatækni og útvarpsþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að stuðla að frekari samruna þessarar tækni og taka þátt í þróun upplýsingasamfélagsins.
    Í 4. tölul. er getið verkefna sem snerta hagsmuni almennings. Póst- og fjarskiptastofnun skal gæta hagsmuna almennings með því að vinna að því að allir landsmenn sem þess óska fái aðgang að alþjónustu, stuðla að vernd neytenda gagnvart fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum, leggja lið ráðstöfunum sem gerðar eru til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífsins, stuðla að birtingu greinargóðra upplýsinga fyrir notendur og að krefjast þess að gjaldskrár og skilmálar séu gagnsæ, taka til umfjöllunar þarfir sérstakra þjóðfélagshópa, svo sem öryrkja, og tryggja heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta þannig að notendur eigi eftir því sem kostur er á vísan aðgang að netum.
    5. tölul. er óbreyttur frá 6. tölul. 3. gr. gildandi laga.
    6. tölul. er óbreyttur frá 18. tölul., 3. gr. gildandi laga.
7. tölul. er óbreyttur frá 22. tölul. 3. gr. gildandi laga.
2. mgr. er óbreytt frá 4. málsl. 2. mgr. 3. gr. gildandi laga. 3. mgr. er óbreytt frá 3. mgr. 3. gr. gildandi laga.

Um 4. gr.

    Heiti þessarar greinar hefur verið breytt með hliðsjón af því að hugtakið leyfishafi fellur nú niður samkvæmt frumvarpi til fjarskiptalaga, en í staðinn er talað um fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur. Það hafa hins vegar ekki verið gerðar efnislegar breytingar á textanum frá 4. gr. gildandi laga.

Um 5. gr.

    Fyrsta málsgrein er óbreytt frá 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. gildandi laga.
    Nýtt ákvæði sem byggt er á 11. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/20/EB frá 7. mars 2002 um veitingu heimilda fyrir fjarskiptanet og þjónustu ( Heimildatilskipun), er að finna í 2. mgr. og inniheldur það upptalningu í sex liðum um það hvenær Póst- og fjarskiptastofnun getur krafið fjarskiptafyrirtæki um upplýsingar í sambandi við almennar heimildir, réttindi eða sérstakar kvaðir, sbr. frumvarp til laga um fjarskipti. Upptalningin er ekki tæmandi. A-liður fjallar um kerfisbundna eða tilfallandi könnun á því hvort greitt sé í jöfnunarsjóð, um gagnkvæma starfrækslu þjónustu, þ.e. um þjónustu sem notendur í mismunandi netum eiga að hafa aðgang að, samtengingu neta í sama tilgangi og um starfrækslugjöld fyrir tíðnir og númer. B-liður nær til könnunar þess að fenginni kvörtun hvort farið sé eftir almennum heimildum og réttindum. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig kallað eftir slíkum upplýsingum ef stofnunin hefur einhverjar aðrar ástæður til þess að ætla að skilyrði séu ekki virt eða hefur hafið könnun að eigin frumkvæði. C-liður tengist veitingu réttinda til að nota tíðnir og númer en kveðið er á um málsmeðferð við veitingu í frumvarpi til laga um fjarskipti. D-liður tekur til útgáfu Póst- og fjarskiptastofnunar á samanburði á gæðum og verði fyrir þjónustu og aðgang að netum sem fjarskiptafyrirtæki veita notendum. E-liður er aftur á móti um tölfræðilegar upplýsingar sem Póst- og fjarskiptastofnun safnar til þess að stjórnvöld geti haft heildarsýn yfir markaðinn. F-liður tengist markaðsgreiningu sem Póst- og fjarskiptastofnun er gert að framkvæma til þess að ganga úr skugga um hvort réttlætanlegt er að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með markaðsráðandi stöðu.
    Samkvæmt 3. mgr. er ekki heimilt að krefja fjarskiptafyrirtæki um upplýsingar skv. 2. mgr. áður en því er veittur aðgangur að fjarskiptamarkaði né gera slíkar upplýsingar að skilyrði fyrir aðgangi. Upplýsingar skv. c-lið eru undantekning en þær eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að skrá viðkomandi fyrirtæki. Póst- og fjarskiptastofnun ber að upplýsa í hvaða tilgangi á að nota umbeðnar upplýsingar.
    4.–10. mgr. eru efnislega samhljóða gildandi lögum.
    Ákvæði um upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja sækir stoð í 5. gr. rammatilskipunarinnar og áður nefnda grein heimildatilskipunarinnar.

Um 6. gr.

    Hér er um að ræða ný ákvæði sem skuldbinda Póst-og fjarskiptastofnun til að leita umsagnar hagsmunaaðila áður en teknar eru ákvarðanir sem líklegar eru til að hafa veruleg áhrif á fjarskiptamarkaðinn. Stofnuninni er í sjálfsvald sett að ákveða hæfilega fresti en henni er falið að setja reglur um meðferð upplýsinga sem verða til við umsagnarferlið og birtingu þeirra. Ákvæðið byggir á 6. gr. rammatilskipunarinnar.

Um 7. gr.

    Þetta er ný grein sem tekur mið af innri fjarskiptamarkaði EES. Ef Póst- og fjarskiptastofnun hyggst taka ákvörðun sem búast má við að muni hafa áhrif á viðskipti milli ríkja og ákvörðunin er um skilgreiningu fjarskiptamarkaða og nánari greiningu þeirra, um kvaðir sem lagðar eru á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild eða um aðgang og samtengingu og skyldur á smásölumarkaði skal stofnunin hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnanir í einstökum ríkjum EES í samræmi við skuldbindingar sem EES-samningurinn leggur aðildarríkjunum á herðar. Þegar sérstaklega stendur á er þó heimilt að víkja frá þessari skyldu en engu að síður ber að tilkynna ákvörðunina þegar í stað til fyrrtalinna aðila.
    Ákvæði þetta byggist á 7. gr. rammatilskipunarinnar.
    Í nýjum EES-gerðum varðandi fjarskipti er á allnokkrum stöðum kveðið á um að ríki skuli senda Eftirlitsstofnun EFTA almennar upplýsingar, m.a. um niðurstöður markaðsgreininga, kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki og alþjónustukvaðir og um fyrirtæki sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild. Þetta stuðlar m.a. að betri heildaryfirsýn yfir stöðuna á innri markaði EES á sviði fjarskipta. Póst- og fjarskiptastofnun er falið í 3. mgr. að annast tilskilda upplýsingagjöf.

Um 8. gr.

    Greinin er óbreytt frá 6. gr. gildandi laga nema að bætt hefur verið við nýrri 7. mgr. Samkvæmt henni getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist upplýsinga sem henni eru nauðsynlegar vegna starfsemi stofnunarinnar frá skatt- og tollyfirvöldum. Þagnarskylda viðkomandi stjórnvalda kemur ekki í veg fyrir veitingu upplýsinga, enda er Póst- og fjarskiptastofnun háð þagnarskyldu skv. 1. mgr. Ákvæðið á hliðstæðu í samkeppnislögum. Upplýsingar frá öðrum stjórnvöldum geta komið að miklu gagni við framkvæmd lögbundins eftirlits, einkum í tilfellum þar sem skortir á upplýsingagjöf frá eftirlitsskyldum aðila eða þegar sannreyna þarf veittar upplýsingar með samanburði.

Um 9. gr.

    Í 7. gr. gildandi laga er fjallað um kvartanir fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda og notenda. Vegna aukinnar áherslu tilskipana ESB á neytendavernd á fjarskiptasviðinu og vegna þess að meðferð mála er ólík eftir því hvort eingöngu fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur eiga hlut að máli eða hvort kvörtun berst frá notendum hefur greininni verið skipt í tvær greinar í frumvarpinu. Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um deilumál fyrirtækja með hliðsjón af 20. gr. og 21. gr. rammatilskipunarinnar og 4. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/19/ EB frá 7. mars 2002 um aðgang að, og samtengingu við, fjarskiptanet og aðstöðu sem þeim tengist ( Aðgangs- og samtengingartilskipun).
    Í 1. mgr. er lýst málsmeðferð komi upp deilur milli fyrirtækja sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu eða milli póstrekenda um skyldur sem kveðið er á um og leiða má af lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Deiluaðili eða aðilar geta beint málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar sem hefja skal sáttaumleitanir. Beri þær ekki árangur skal stofnunin skera úr ágreiningi aðila eins fljótt og við verður komið en aldrei síðar en innan fjögurra mánaða frá því að málið barst stofnuninni, nema sérstaklega standi á, t.d. ef málshefjandi óskar eftir frestun málsmeðferðar eða ef mál er sérstaklega erfitt úrlausnar.
    Samkvæmt 2. mgr. skal birta ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar opinberlega en stofnuninnn getur tekið til greina óskir aðila um viðskiptaleynd á ákveðnum upplýsingum.
    Þegar deiluaðilar eru sinn frá hvoru landinu innan EES skulu fjarskiptaeftirlitsstofnanir viðkomandi landa vinna saman að lausn deilunnar.
    Í 4. mgr. er heimild Póst og fjarskiptastofnunar til að setja reglur um málsmeðferð.

Um 10. gr.

    Yfirskrift þessarar greinar er kvartanir og segir greinin til um málsmeðferð þegar neytendur eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta telja að fjarskiptafyrirtæki eða póstrekendur brjóti gegn skyldum sínum eða skilmálum sem mælt er fyrir um. Hlutaðeigandi getur beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar sem skal hefja málsmeðferð með því að leita álits viðkomandi fjarskiptafyrirtækis eða póstrekanda. Stofnunin skal reyna að leysa ágreining á skjótan hátt en takist það ekki skal skera úr ágreiningi með ákvörðun stofnunarinnar. Ákvæði þetta er byggt á 34. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/22/EB frá 7. mars 2002 um alþjónustu og réttindi notenda í sambandi við fjarskiptanet og þjónustu ( Alþjónustutilskipun).
    Í 3. mgr. er heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að setja reglur um málsmeðferð.

Um 11. gr.

    Greinin er hliðstæð ákvæði um bráðabirgðaákvarðanir í gildandi lögum. Þó eru skilyrði þess að bráðabirgðaákvörðun sé tekin hert nokkuð þannig að verulegir hagsmunir þurfi að vera í húfi svo beita megi ákvæðinu.

Um 12. gr.

    Ein breyting er gerð á gildandi dagsektarákvæði. Í stað leyfishafa koma fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur. Breytingin er eðlileg afleiðing af breytingum á lögum um fjarskipti þar sem hugtakið leyfishafi kemur ekki lengur fyrir. Það er rétt að benda á að með breytingunni nær ákvæðið til allra fjarskiptafyrirtækja sem skrá sig og sömuleiðis til allra póstrekenda en ekki einungis þeirra sem veita alþjónustu.

Um 13. gr.

    Greinin er að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum. Bætt hefur verið við heimild fyrir úrskurðarnefndar til að kveðja til sérfræðinga, enda er nú kveðið á um það í 4. gr. rammatilskipunarinnar. Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar eru ekki lengur nefndar úrskurðir og er ákvæðinu breytt í samræmi við það.

Um 14. gr.

    Greinin er talsvert breytt frá gildandi lögum, m.a. vegna þess að leyfisbréf fyrir fjarskiptaþjónustu og rekstur neta eru ekki lengur gefin út. Rekstrarleyfi eru hins vegar gefin út í sambandi við alþjónustu pósts. Þetta kemur fram í 1. mgr.
    Samkvæmt 2. mgr. er áfram gert ráð fyrir að kostnaður við úthlutun tíðniréttinda sé greiddur af þeim sem réttindin hlýtur.
    Samkvæmt 3. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun innheimta fast árlegt gjald af fjarskiptafyrirtækjum fyrir hvert símanúmer sem fyrirtækin fá til ráðstöfunar en í gildandi lögum er miðað við að gjald fyrir venjulegt númer byggist á tilkostnaði. Eins og áður skal innheimt hærra gjald fyrir þriggja og fjögurra tölustafa númer en bætt hefur verið við skýringu um að gjald fyrir fjögurra stafa númer gildi einnig fyrir forskeyti og alþjóðlega netkóða sem eru eins konar númer sem einkenna net og er ráðstafað til einstakra ríkja af Alþjóðafjarskiptasambandinu ITU.
    Í 4. mgr. hefur álagningarhlutfall rekstrargjalds á fjarskiptafyrirtæki verið lækkað úr 0,25% í 0,20% og stafar lækkunin af því að tekið er upp almennt númeragjald sem vegur upp á móti þessari lækkun. Póstrekendur munu hins vegar greiða áfram óbreytt hlutfall. Tekið er fram við hvaða ár eigi að miða varðandi veltu og álagningu.
    Ákvæði 5. mgr. er nýtt og skyldar fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur til að skila Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingum um gjaldskylda veltu á hverju ári og eigi síðar en 30. apríl árið eftir. Berist upplýsingar ekki á tilskildum tíma er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að áætla veltu.
    Samkvæmt 6. mgr. skal álagning rekstrargjalds fara fram eigi síðar en 15. maí ár hvert en samkvæmt gildandi lögum átti álagning að fara fram fyrir 15. janúar sem er vart framkvæmanlegt þar sem fyrirtækin hafa ekki lokað bókhaldi sínu á þeim tíma.
    Í 7. mgr. er sagt til um gjalddaga rekstrargjaldsins og er þeim breytt til samræmis við 6. mgr.
    8.–10. mgr. eru efnislega óbreyttar frá gildandi lögum.
    Ákvæði um greiðslu kostnaðar af sérstökum könnunum er að finna í 5. mgr. 11. gr. gildandi laga. Í 11. mgr. 14. gr. frumvarpsins er skilgreint nánar í hvaða tilvikum er heimilt að beita ákvæðinu.
    Um gjaldskrá fyrir þjónustu Póst- og fjarskiptastofnunar er fjallað í 12. mgr. Hliðstætt ákvæði er í gildandi lögum og er ráðgert að gjaldtaka verði með sama eða svipuðum hætti og verið hefur. Hins vegar eru nú í ákvæðinu frekari skýringar á því hvaða þættir í starfsemi stofnunarinnar falla undir ákvæðið.
    Lokaákvæði greinarinnar,13. mgr., er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 15. gr.

    Greinin svarar til 12. gr. gildandi laga en bætt hefur verið ákvæði um alþjónustu vegna ákvæðis 2. mgr. 14. gr. alþjónustutilskipunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun skal í árlegri skýrslu birta upplýsingar um kostnað við alþjónustu, lista yfir einstök framlög til jöfnunarsjóðs og enn fremur hvaða hag reikna megi því fyrirtæki til góða sem hefur skyldur til að veita alþjónustu.

Um 16. gr.

    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 17. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

    Með frumvarpinu er lagt til að breytt verði í nokkru löggjöf um fjarskipti og póstmál. Samkvæmt 14. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögbundnum gjöldum sem fjarskiptafyrirtækjum er gert að greiða til Póst- og fjarskiptastofnunar. Lagt er til að fyrir hvert úthlutað símanúmer til fjarskiptafyrirtækja verði greitt 10 kr. árlegt gjald. Áætlaðar tekjur vegna þessarar gjaldtöku eru 15 m.kr. á ári. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtæki greiði 0,20% rekstrargjald af árlegri veltu og póstrekendur greiði 0,25% af árlegri veltu til Póst- og fjarskiptastofnunar, en gjaldið er samkvæmt gildandi lögum 0,25% af bókfærðri veltu fyrirtækjanna. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að rekstrargjaldið lækki um 15 m.kr. til móts við hækkunina sem verður á gjaldtöku vegna númeragjaldsins. Verði frumvarpið að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.