Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 602. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 963  —  602. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Í stað orðanna „og á fiskveiðiárinu 2002/2003“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögunum, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, kemur: á fiskveiðiárunum 2002/2003, 2003/2004 og 2004/2005.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, var lögfest að hverju fiskiskipi væri heimilt að koma með að landi allt að 5% af heildarafla í botnfiski sem ekki reiknaðist til aflamarks skipsins. Ákvæði þetta tekur til afla sem veiddur er á tímabilinu 1. febrúar 2002 til 31. ágúst 2002 og fiskveiðiárinu 2002/2003. Heimild þessi er bundin því skilyrði að aflinn sé seldur á opinberum fiskmarkaði og að andvirði hins selda afla renni til Hafrannsóknastofnunarinnar. Þó skulu 20% af andvirði aflans skiptast milli útgerðar og áhafnar.
    Tilgangur þessa ákvæðis var fyrst og fremst að koma í veg fyrir brottkast með því að opna leið fyrir útgerðir til koma með fisk að landi sem að öðrum kosti hefði getað farið í sjóinn aftur, annaðhvort vegna þess að fiskurinn væri verðlítill eða skip hefði ekki aflamark í viðkomandi tegund. Í athugasemd með frumvarpi til laga nr. 129/2001 kom fram að óvíst væri að hve miklu marki þessi heimild yrði nýtt og þætti því rétt að hafa hana tímabundna. Niðurstaða umræðu á Alþingi var að heimildin gilti til loka fiskveiðiársins 2002/2003, eða til 31. ágúst 2003.
    Nú liggur fyrir að á tímabilinu 1. febrúar 2002 til loka fiskveiðiársins 2001/2002, eða á sjö mánaða tímabili nýttu um það bil 250 fiskiskip þessa heimild og komu þau samtals með tæpar 800 lestir að landi sem ekki reiknuðust til aflamarks. Má ætla að þannig hafi um það bil 70 millj. kr. runnið til Hafrannsóknastofnunarinnar. Eðli málsins samkvæmt er heimild þessi því meir nýtt sem á fiskveiðiárið líður og því er nú ekki unnt að segja til um hvernig hún nýtist á yfirstandandi fiskveiðiári en hún fellur úr gildi í lok þess, eða í byrjun september 2003, nema til lagabreytingar komi. Er hér lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur um tvö fiskveiðiár.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að framlengja ákvæði til bráðabirgða XXIX um tvö fiskveiðiár. Tilgangur ákvæðisins var að koma í veg fyrir brottkast með því að heimila hverju fiskiskipi að koma með að landi allt að 5% af heildarafla botnfisks, sem ekki reiknast til aflamarks skipsins. Um er að ræða fisk sem er verðlítill eða utan aflaheimildar útgerðar og slæðst hefur með veiðum á öðrum fisktegundum. Aflinn skal seldur á fiskmörkuðum og skiptast þannig að 4 hlutar fari til Hafrannsóknastofnunarinnar og 1 hluti skiptist á milli áhafnar og útgerðar. Miðað við reynslu síðustu 7 mánaða er gert ráð fyrir að sértekjur Hafrannsóknastofnunarinnar verði um 100 m.kr. árlega en hlutur útgerðar og áhafnar um 25 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.