Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 977  —  513. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um ættleiðingar frá útlöndum.

     1.      Eiga foreldrar kost á ferðastyrkjum í tengslum við ættleiðingar barna frá útlöndum?
    Samkvæmt upplýsingum frá félaginu Íslensk ættleiðing eiga kjörforeldrar sem fá börn til ættleiðingar frá öðrum löndum ekki kost á styrkjum vegna ættleiðingarinnar úr ríkissjóði.

     2.      Hvaða reglur gilda um slíka styrki annars staðar á Norðurlöndum?
    Samkvæmt upplýsingum sem gefnar eru á heimasíðum ættleiðingarfélaga í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, svo og samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu, fá kjörforeldrar barna sem ættleidd eru frá öðrum ríkjum fjárstyrki vegna ættleiðinganna fyrir hvert barn sem hér segir:
Danmörk: Árið 2001: 36.154 danskar kr.
Árið 2003: 38.138 danskar kr.
Finnland: Árið 2003: 1.900–4.500 evrur eftir því frá hvaða landi barnið er ættleitt.
Noregur: Árið 2002: 22.500 norskar kr.
Árið 2003: 23.400 norskar kr.
Svíþjóð: Árið 2002: 40.000 sænskar kr. (í október).

     3.      Eru veittar skattaívilnanir vegna kostnaðar við ættleiðingar frá útlöndum?
     4.      Er veittur skattafrádráttur annars staðar á Norðurlöndum vegna slíks kostnaðar?

    Til að veita sem gleggst svör við þessum liðum var óskað eftir upplýsingum um þau atriði sem spurt er um hjá embætti ríkisskattstjóra.
    Í svari ríkisskattstjóra kemur eftirfarandi fram:
    „1. Í skattalöggjöf og skattframkvæmd er réttarstaða ættleiddra barna öldungis sú sama og barna sem fæðast inn í fjölskyldu.
    Þannig eru greiddar barnabætur til kjörforeldra frá og með því ári þegar ættleiðing á sér stað og til fulls 16 ára aldurs barnsins.
    Reglur um ívilnun í skatti á grundvelli þeirra ákvæða 66. gr. laga nr. 75/1981 er varða börn taka til ættleiddra barna á sama hátt og annarra barna, þ.e. ef barn er háð langvinnum sjúkdómi eða fötlun eða foreldri ber kostnað vegna náms þess eftir að það nær 16 ára aldri.
    Ekki er nein heimild í lögum til að taka tillit til kostnaðar vegna ættleiðingar barns erlendis frá.
    Gerð var sérstök athugun á viðhorfum skattyfirvalda til slíkra mála og á skattframkvæmd þeirra fyrir nokkrum árum. Liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis vegna þessa. Var það niðurstaðan að skattaívilnun væri ekki veitt á grundvelli þess að foreldrar bæru kostnað við ættleiðingu. Slíkt samrýmdist ekki lögum. Fram kom við umrædda athugun að til voru dæmi úr skattframkvæmd um hið gagnstæða þannig að skattstjóri virtist hafa ívilnað í skattstofnum vegna ættleiðingar en talið var að þar hefði ekki rétt verið staðið að málum.
    2. Lausleg athugun af hálfu ríkisskattstjóra á lögum og reglum í nágrannaríkjunum sem varða skattaleg viðhorf til ættleiðingar leiðir í ljós að þar virðast ekki vera fyrir hendi heimildir til að taka tillit til kostnaðar vegna ættleiðingar við ákvörðun skatta. Uppbygging skattkerfanna á Norðurlöndunum er nokkuð svipuð frá landi til lands og virtust skattaleg viðhorf keimlík því sem áður greinir um reglur á Íslandi. Á það er að líta í þessu samhengi að félagsleg kerfi í öðrum norrænum ríkjum eru nokkuð frábrugðin hinu íslenska að því er varðar tilvik sem snerta félagslegar greiðslur, bætur, styrki, niðurgreiðslu og þátttöku í kostnaði. Hugsanlegt er að í einhverjum tilvikum taki hið opinbera þátt í að hliðra til fyrir ættleiðingum í formi slíkrar fyrirgreiðslu. Skattlagning þannig tekna og tekjuígildis frá félagslegum aðilum til fjölskyldna er síðan með ýmsu móti í þessum ríkjum. Í fljótu bragði var þó ekki fundið að gert væri ráð fyrir sérmeðferð einhverra bóta er tengdust ættleiðingum.“