Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 978  —  377. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarson og Þóru Hjaltested frá viðskiptaráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Samtökum banka- og verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að reglur EES-réttar, sem kveða á um lágmarkssamræmingu að því er varðar gjaldþol vátryggingafélaga, verði lögfestar. Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki væri ástæða til að ætla að breytingarnar leiddu til hækkunar iðgjalda.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingarnar taki þegar gildi, en samkvæmt EES-reglunum er ekki gerð krafa um að gjaldþol sé reiknað með þeim hætti sem í frumvarpinu greinir fyrr en á reikningsárinu 2004. Nefndin telur ekki efni til að ganga lengra en krafa er gerð um og leggur því til að þær greinar frumvarpsins sem varða útreikning gjaldþols komi fyrst til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vegna reikningsársins 2004. Þá leggur nefndin til smávægilega orðalagsbreytingu á 2. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. Breytingin hefur ekki efnisbreytingu í för með sér.
    Nefndin telur rétt samkvæmt ábendingu Fjármálaeftirlitsins að benda sérstaklega á misskilning sem fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins. Þar segir: „Kveðið verði á um að nota skuli þá fjárhæð sem hærri er af iðgjöldum ársins og bókfærðum iðgjöldum til þess að reikna lágmarksgjaldþol. Breyting þessi verður til þess að lágmarksgjaldþol vátryggingafélags með vaxandi umsvif getur orðið hærra en eftir eldri reglum, en þá eru bókfærð iðgjöld hærri en iðgjöld ársins, vegna þess að iðgjöld eru greidd fyrir fram.“ Hið rétta er að frumvarpið mun hafa í för með sér að lágmarksgjaldþol vátryggingafélags með minnkandi umsvif, ekki vaxandi, geti orðið hærra en eftir eldri reglum, en þá eru iðgjöld ársins hærri en bókfærð iðgjöld þar sem vátryggingartakar sem ekki endurnýja vátryggingar eru fleiri en nýir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      Orðin „í ferðamannaaðstoð“ í 2. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. falli brott.




Prentað upp.



     2.      Við 9. gr. bætist ný málsgrein er orðist svo:
                  Greinar laga þessara sem varða útreikning gjaldþols koma þó fyrst til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vegna reikningsársins 2004.

Alþingi, 13. febr. 2003.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Guðjón Guðmundsson.



Páll Magnússon.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Ögmundur Jónasson.