Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 360. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 998  —  360. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlit með skipum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Unni Sverrisdóttur frá samgönguráðuneytinu, Hermann Guðjónsson og Helga Jóhannesson frá Siglingastofnun Íslands, Friðrik Arngrímsson og Guðfinn G. Johnsen frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Ólaf Briem frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Hafstein Hafsteinsson og Gylfa Geirsson frá Landhelgisgæslu Íslands.
    Þá bárust umsagnir um málið frá Siglingastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands, Vélskóla Íslands, Olíufélaginu hf, Almannavörnum ríkisins, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Póst- og fjarskiptastofnun, Samtökum iðnaðarins, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Slysavarnaskóla sjómanna,
Vélstjórafélagi Íslands, Hafnasambandi sveitarfélaga, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Sjómannasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lagareglum um skoðunarferli skipa. Breytingarnar eiga rót sína að rekja til nýrra EES-gerða samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og alþjóðasamþykkta á þessu sviði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að í stað þess að vísa til orðalagsins „mengun sjávar“ í 1., 3. og 11. gr. skuli vísað til mengunar frá skipum. Breytingin felur í sér að við eftirlit með skipum skuli gætt að hvers konar mengun frá skipum, þ.m.t. loftmengun. Jafnframt eru lagðar til breytingar á 12. og 18. gr. frumvarpsins sem eru í þessum anda.
     2.      Lögð er til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. þess efnis að skipstjóra verði einum gert skylt að sjá til þess að skip sé haffært þegar það leggur úr höfn og hafi gild lögboðin skírteini um borð. Samkvæmt frumvarpinu er þessi ábyrgð jafnframt lögð á útgerðarmann. Ýmis vandkvæði fylgja því og má benda á að engan veginn er öruggt að útgerðarmaður hafi þá kunnáttu eða menntun sem þarf til að leggja mat á haffæri skips, auk þess sem útgerðarmenn eru alls ekki alltaf til staðar þegar skip leggur úr höfn sem er forsenda fyrir því að þeim sé unnt að rækja skyldur sínar samkvæmt ákvæðinu.
     3.      Lagt er til að skýrar verði kveðið á um rétt Landhelgisgæslunnar til að framkvæma skyndiskoðanir samkvæmt lögunum. Í núgildandi lögum er réttur til skyndiskoðana jafnt í höndum Siglingastofnunar og Landhelgisgæslunnar og gera þessar stofnanir með sér samstarfssamning um framkvæmd þeirra. Lagt er til að sú skipan mála verði óbreytt, enda hefur hún reynst vel samkvæmt upplýsingum nefndarinnar.
     4.      Samkvæmt 4. tölul. 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að hver sem er geti sett fram kröfu um að aukaskoðun fari fram á skipi. Aukaskoðanir hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir útgerð og því má telja varhugavert að veita aðilum sem engra hagsmuna eiga að gæta heimild til að setja fram slíka kröfu. Nefndin leggur af þessum ástæðum til að þessi heimild verði bundin við tiltekna aðila, eins og að öðru leyti er gert í greininni, en jafnframt verði stjórn stéttarfélags veitt slík heimild. Þessi breyting er í samræmi við núgildandi lög um eftirlit með skipum. Þá er jafnframt lögð til breyting á síðari málslið 4. tölul. greinarinnar þannig að almennt verði óheimilt að veita upplýsingar um það hver hafi lagt fram kröfu um aukaskoðun, en þó með þeirri undantekningu að útgerð eigi rétt á þeim upplýsingum hafi krafa eða kvörtun reynst ástæðulaus. Breytingin er í samræmi við ákvæði núgildandi laga um eftirlit með skipum.
     5.      Lögð er til breyting á ákvæði 1. mgr. 25. gr. sem fjallar um verkefni farbannsnefndar. Lagt er til að 2. tölul. greinarinnar falli brott, enda hefur hann ekki þýðingu eftir að efnisákvæði 14. gr. gildandi laga hefur verið fellt úr gildi. Þá liggur fyrir að verkefni farbannsnefndar eru eingöngu að úrskurða um gildi farbanns sem þegar hefur verið lagt á og því er lagt til að miða orðalag 1. mgr. við það.
     6.      Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2004. Heppilegt þykir að miða gildistökuna við áramót vegna framkvæmdar laganna.
    Kristján L. Möller og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. febr. 2003.



Hjálmar Árnason,


varaform., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Sigríður Ingvardóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Jón Bjarnason.