Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 624. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1002  —  624. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um svæðisbundið átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni.

Flm.: Þuríður Backman, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera á næstu árum svæðisbundið átak til að efla byggð um land allt og stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og mannlífs. Í því skyni verði veittar 600 millj. kr. árlega í sex ár af fjárlögum íslenska ríkisins frá og með árinu 2003. Fjármunum þessum verði skipt milli atvinnuþróunarfélaga um allt land í samræmi við reglur sem taki mið af byggðaþróun og atvinnuástandi á einstökum svæðum. Árangur og framvinda verkefnisins á svæði hvers atvinnuþróunarfélags verði metin áður en tímabilið er hálfnað og ákvarðanir um framhaldið teknar með hliðsjón af því mati, m.a. lífskjarakönnun á viðkomandi svæðum. Við val verkefna verði annars vegar lögð áhersla á fjölbreytni í atvinnusköpun og hins vegar á stuðning við hvers kyns nýsköpun og þróun.

Greinargerð.


    Tillaga áþekk þeirri sem hér er flutt var lögð fram á síðasta löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Sú tillaga laut sérstaklega að atvinnumálum Austurlands. Hér er lagt til að verulegum fjármunum verði varið til að efla nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni næstu sex árin. Atvinnuþróunarfélögin gegna lykilhlutverki þegar um er að ræða byggðatengdar aðgerðir og eru því best til þess fallin hvert á sínu svæði að greina þarfir samfélagsins og veita þá sérfræðiþjónustu sem við á hverju sinni svo líklegra sé að árangur náist í nýsköpun eða styrkingu þess atvinnulífs sem fyrir er. Því gerir tillaga þessi ráð fyrir að fjármunum þessum verði skipt milli atvinnuþróunarfélaganna og í samræmi við reglur sem taki mið af byggðaþróun og atvinnuástandi á einstökum svæðum.
    Um nokkurra ára skeið hafa átt sér stað stórfelldir búferlaflutningar hér á landi. Mikil fólksfjölgun hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu en víðast hvar á landsbyggðinni hefur fólki fækkað að sama skapi. Þannig hefur t.d. ársstörfum fækkað gífurlega undanfarið í mörgum sjávarplássum með sölu og/eða flutningi aflaheimilda og aukinni tæknivæðingu í útgerð og fiskvinnslu. Á sama tíma hefur orðið mikill samdráttur í hefðbundnum búskap. Þjónusta við þessar undirstöðuatvinnugreinar hefur því einnig dregist saman. Einnig hefur dregið úr opinberri þjónustu á mörgum sviðum. Þegar búferlaflutningar verða umfram eðlilega þróun og fækkun íbúa fer að segja til sín í samfélaginu hefst flókið ferli sem ekki er einfalt að skilgreina. Við ákveðnar aðstæður flytur jafnvel það fólk sig um set sem hefur góða vinnu og húsnæði. Brýnt er að bregðast við þessari þróun og að mati flutningsmanna er eðlilegt að til þess verði varið fjármagni úr sameiginlegum sjóði landsmanna en nýting þess verði alfarið á hendi heimaaðila, einnig rannsókna- og undirbúningsstarf eftir því sem því verður við komið. Með tilkomu nýsköpunarmiðstöðvarinnar IMPRU ættu að vera enn frekari möguleikar á að styðja við slíka tilhögun. Tekið skal fram að með þessari tillögu er ætlunin að stíga fyrsta skrefið af mörgum nauðsynlegum til að rétta hag landsbyggðarinnar.
    Áríðandi er að grípa til aðgerða nú þegar. Í tillögu þessari til þingsályktunar er gert ráð fyrir að verulegum fjármunum verði varið til að efla atvinnulíf á landsbyggðinni og athygli sérstaklega beint að verkefnum á sviði þróunar-, byggða-, viðskipta- og menningarmála með það að markmiði að efla byggðina og auka fjölbreytni mannlífsins.

Jöfnuður og jafnræði.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram fjölmargar tillögur í byggða- og atvinnumálum frá því að flokkurinn fékk fulltrúa á Alþingi. Þær tillögur byggjast á sjónarmiðum um jöfnuð og jafnræði og taka mið af því grundvallarsjónarmiði hreyfingarinnar að íbúar þessa lands eigi rétt á að búa við svipuð kjör óháð búsetu. Mikið vantar á að fólk sem býr utan stærstu þéttbýlisstaða njóti sömu kjara og þeir sem búa í nánd við þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi má nefna að lánakjör í bönkum virðast önnur þegar óskað er lána til starfsemi í dreifbýli ef taka á mið af aukinni ásókn í lán frá Byggðastofnun og gildir þá einu hvort um er að ræða skammtíma- eða langtímalán. Auk þessa virðist sem bankarnir reyni að komast hjá því að veita há lán til langs tíma til fyrirtækja á smærri stöðum. Þá vill brenna við að viðhorf til frumkvöðla í hinum dreifðari byggðum séu neikvæð og skilningur á mikilvægi þess að styrkja nýsköpun virðist takmarkaður. Að mati flutningsmanna þessarar tillögu væri aukinn stuðningur við frumkvöðla í fámennari byggðarlögum mikil lyftistöng. Þannig yrði fleiri og fjölbreyttari stoðum skotið undir samfélagið. Sérhæfð þjónusta við fyrirtæki og frumkvöðla er afar takmörkuð í fámennum byggðarlögum og því eru möguleikar til að hrinda hugmyndum í framkvæmd ekki margir.

Aðgerð til jöfnunar.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur það mikilvæga grundvallarforsendu í hverju velferðarsamfélagi að tryggja fulla atvinnu og störf við hæfi. Jafnframt er næg og fjölbreytt atvinna ásamt öflugri velferðarþjónustu, traustu menningarlífi og öruggu umhverfi grundvöllur hverrar lífvænlegrar byggðar og forsenda farsællar byggðaþróunar.
    Í samræmi við þá afstöðu að jafna beri aðstöðu fólks og auka sem kostur er jöfnuð og jafnrétti í landinu, þ.m.t. aðstöðu manna óháð búsetu, beitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð sér fyrir róttækum aðgerðum til að stöðva búseturöskunina og snúa þróuninni við með margháttuðum aðgerðum sem ná til landsins alls. Þær sérstöku aðstæður sem nú eru á Austurlandi kalla á tafarlausar aðgerðir af hálfu hins opinbera. Átaksverkefni til sex ára getur skilað miklu inn í austfirskt samfélag og nauðsynlegt er að slíkt verkefni sé sett fram og framkvæmt á forsendum íbúanna sjálfra. Átaksverkefnið þarf að vera hnitmiðað og jafnframt þarf það að treysta þá fjölmörgu þætti sem sterkt samfélag byggist á. Rétt er að endurskoða árangur og framvindu verkefnisins áður en tímabilið er hálfnað.
    Styrkir og önnur fjárframlög til atvinnuþróunar í fámennari byggðarlögum eru af skornum skammti og mest af þeirri fyrirgreiðslu og þjónustu sem er til reiðu þarf að sækja til höfuðborgarinnar. Slíkt getur verið tímafrekt og kostnaðarsamt. Stuðningurinn er oftast bundinn lágum fjárhæðum og einungis hluta þess kostnaðar sem um er að ræða. Slíkir styrkir veita hvorki hugmyndum brautargengi né eru þeir líklegir til að stuðla að þróun og nýsköpun í atvinnulífinu.
    Þótt sveitarfélögin, Byggðastofnun og fleiri aðilar hafi sinnt margvíslegum verkefnum sem hafa það að markmiði að styrkja atvinnu og búsetu og þrátt fyrir að margt gott hafi verið unnið að tilstuðlan þessara aðila á liðnum árum einkennast mörg þessara verkefna frekar af því að bjarga rekstri tiltekinna fyrirtækja og atvinnuöryggi á viðkomandi stað en því að stuðla að nýsköpun eða framþróun fyrirtækja í rekstri.
    Atvinnuþróunarfélögin sem þegar hafa áunnið sér fastan sess á nokkrum stöðum á landinu gegna lykilhlutverki þegar um er að ræða byggðatengdar aðgerðir og stuðning stjórnvalda við verkefni á landsbyggðinni.